Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
9.6.2009 | 00:49
"Húsið er okkar" - ungdómshúsið á Fríkirkjuvegi 11
Hér er vídeó sem ég tók af hústökunni á Fríkirkjuvegi 11 í Reykjavík núna í kvöld. Vídeóið er um 10 mínútur og sýnir stemminguna, þetta var nú engin ofbeldisaðgerð, fremur svona táknræn gjörningur.
Þegar ég var unglingur þá var Fríkirkjuvegur 11 miðstöð fyrir unglinga, mig minnir að þetta hafi verið undanfari Tónabæjar sem svo opnaði. Ég fór nú aldrei í þessa tómstundamiðstöð en ég þekkti krakka sem voru þar flest kvöld. Núna í kvöld var húsið heimtað aftur úr helju og hópur fólks streymdi í húsið og hrópaði "húsið er okkar" og átti þar við að núna ætti almenningur á Íslandi þetta hús, það væri ekki hluti af ránsfeng útrásarvíkinga og fjárglæframanna.
![]() |
Ruddust inn í Fríkirkjuveg 11 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.6.2009 | 20:06
Ríkisstjórn sem skilur ekki grundvallaratriði efnahagsmála
Ég var á Austurvelli í dag og reyndi eins og aðrir á velllinum að koma þeim skilaboðum til þingheims að ég vil ekki þessa nauðungarsamninga og skuldaánauð um aldur og ævi. Núna hlusta ég á Kastljósið, Sigmundur Davíð og Steingrímur fjármálaráðherra eru viðmælendur. Reyndar var ég ein af þeim sem borgurum sem talað var við á Austurvelli þannig að mér brá fyrir í byrjun þáttarins.
Núna er á Íslandi ríkisstjórn sem virðist ekkert átta sig á hvað er að gerast í heiminum og ekki hafa neitt innsæi á hvað muni gerast á næstu árum og núna er fjármálaráðherrann Steingrímur er kjaftaskur sem virðist ekkert átta sig á fjármálakerfi heimsins eða afleiðingum þeirra gerða sem hann er að stefna Íslandi í. Steigrímur er ekki vondur eða óheiðarlegur maður en eftir þeim upplýsingum sem koma fram í brotakenndum fréttum sem við almenningur fáum af íslenskum fjármálum þá var fyrirrennari hans öllu verri og það er kominn tími til að virkja landsdóm og láta hann fjalla um embættisafglöp ráðherra.
Það er ömurlegt að svona ríkisstjórn sé draga hengingaról utan um háls okkar allra Íslendinga og selja okkur í ánauð og reyni að selja okkur þessa niðurstöðu eins og þetta sé einhver díll.
![]() |
Blekkingar, heimska og hótanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2009 | 13:50
Frá Baldri Guðlaugssyni til Svavars Gests, frá innherjasvikum til lýðskrums og blekkinga
Það er gott að finna að ég er ekki sú eina sem blöskrar framganga ríkisstjórnarinnar í Icesave, blöskrar að í skjóli næturs og pukurs eigi að hengja á íslensku þjóðina drápsklyfjar og þetta sé kynnt fyrir okkur af ráðherrum og fjölmiðlum eins og einhver rosalegur díll, það hafi tekist að þoka vöxtunum niður um einhver prómill og svo sé þetta mjög sniðugt lán af því það þurfi ekkert að borga af því næstu sjö árin. Núna eru komin 13.689 í facebook mótmælendahópinn Við neitum að borga skuldir sem við berum ekki ábyrgð á.
Ég vona að einhverjir þeirra mæti á Austurvöll kl. 14:50 í dag, alla vega ætla ég að mæta.
Heilsíða í Morgunblaðinu í dag er tekin undir rugl úr Svavari Gestssyni sem stýrði Icesave samninganefndinni, viðtalið sýnir svo enn og aftur að hann hefur ekki hundsvit á því sem hann var settur til að semja um, enda var það ekki sérfræði hans né skilningur á innviðum fjármálaheimsins eða ástandinu í heimsmálum sem réði því að hann var fenginn til verksins. Hann er ekkert annað en gamall lýðskrumari úr Alþýðubandalaginu, maðurinn sem var ritstjóri Þjóðviljans þegar það málgagn lofaði í hástert sæluríki kommúnismans, lofsöng innanrotið kúgunarkerfi sem féll saman með bauki og bramli og féll ofan á almenning í gömlu Ráðstjórnarríkjunum. Þessi maður kann ekki annað en lýðskrum, blekkingar og kjaftagleði, kann ekki annað en fela lygina inn í skrúðorðum og selja almenningi eymd eins og það séu sérstök kostakjör.
Það var erfitt að lesa heilsíðuna í Morgunblaðinu í dag, erfitt að sitja undir því að svona einhliða áróður og blekking sé borin á borð fyrir íslenskan almenning, erfitt að horfast í augu við skrímslin í íslenskum veruleika, erfitt að horfast í augu við að ekkert hefur breyst með þessum kosningum, áfram er reynt að blekkja almenning, áfram er reynt að láta eins og ekkert hafi gerst þó að kerfi heillar þjóðar hafi hrunið og heimurinn hangi á sömu heljarþröm, áfram er látið eins og hinar kasínókapítalísku reglur eigi að gilda, þetta sé bara spurning um að leyna vandanum, fresta honum, sópa honum undir teppin, telja fólki trú um að lán sem ekki er á gjalddaga í dag sé lán sem næstum því er ekki til og ábyrgð sem er fyrst ábyrgð einhverra annarra en síðan að lokum ríkisábyrð sé næstum engin ríkisábyrgð. Halda þeir sem skrifa þessar fréttir að við séum fávitar sem skiljum ekki hvað felst í fjárhagsábyrgð og ríkisábyrgð?
Ekkert hefur breyst með stjórnarskiptunum nema að fyrri samninganefnd í Icesave var leidd af manni sem var algjörlega vanhæfur vegna gruns um athæfi sem í öllum siðuðum löndum er talið saknæmt, gruns um að hann notaði innherjaaðstöðu sína til að skara eld að eigin köku, fyrri Icesave samninganefnd var leidd af Baldri Guðlaugsson og voru vinnubrögð hans slík að það var með öllu óskiljanlegt að fyrri forsætisráðherra eða fjármálaráðherra skyldu ekki löngu vera búnir að setja hann í langt frí.
Vissulega er Svavar Gestsson ekki eins slæmur og Baldur Guðlaugsson en það er samt tákn um hvernig hlutirnir hafa breyst að núna sé reynt að selja íslensku þjóðina í ánauð ekki af fólki sem er undir grun um glæpsamlegt eiginhagsmunapot heldur af fólki sem hefur áratugareynslu í lýðskrumi og fagurgala, fólki sem ætlað er að láta fjötrana líta út eins og sæluríki.
Það er móðgun við íslenskan almenning að hegða sér eins og ríkisstjórnin gerir núna.
Þá og nú (grein um viðsnúning Steingríms Sigurðssonar)
![]() |
Margir skrá sig gegn Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.6.2009 | 15:19
Landráðamenn
Það er gott að halda til haga hverjir eru það voru sem seldu íslenska þjóð í ánauð. Það var Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna sem í skjóli nætur undirritaði samninga um Icesave en hann gerði það í umboði íslensku ríkisstjórnarinnar sem beitir núna ennþá verri vinnubrögðum en sú óhæfa sem hraktist frá völdum. Sitjandi ríkisstjórn er óhæf í öðru veldi.
Hér eru myndir af fólkinu:
![]() | Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra | ![]() | Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra |
![]() | Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra | ![]() | Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra |
![]() | Kristján L. Möller,
| ![]() | Katrín Jakobsdóttir, |
![]() | Ragna Árnadóttir, | ![]() | Gylfi Magnússon, |
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra
| ![]() | Jón Bjarnason, | |
![]() | Árni Páll Árnason, | ![]() | Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra |
![]() |
Icesave-samningur gerður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.6.2009 | 09:54
Vanhæf stjórnvöld II. Pukur og myrkraverk
Hversu oft höfum við ekki heyrt vanhæf stjórnvöld eftir Hrunið lýsa yfir hve mikilvægt sé að upplýsa allt og rannsaka allt. En bara ekki strax. Ekki fyrr en búið er að skuldbinda okkur fyrir 630.000.000.000 krónum með 5.5 % vöxtum. Núna horfum við almenningur á Íslandi upp á ríkisstjórn sem blygðast sín ekki fyrir að veðsetja Íslendinga fyrir 630.000.000.000 krónur með 5.5 % vöxtum án þess að almenningur fái nokkrar upplýsingar um hvað er að ræða og hvers vegna þessi kostur er valinn og hvaða aðrir kostir eru í stöðunni og hvers vegna við almenningur á Íslandi eigum eða verðum að bera ábyrgð á netbanka sem vann fyrir breska viðskiptavini. Við vissum ekkert af þessum banka fyrr en skuldir hans voru orðnar okkar skuldir, við héldum að bankakerfið væri einkavætt, við vissum ekki að sú einkavæðing væri þannig að fjárglæframenn gætu búið til sýndarpeninga og féflett banka og fjármálastofnanir og alþjóðlegt eftirlitskerfi og fjármálakerfi sem og íslenskt eftirlit væri ekki annað en skrípaleikur. Breska leynilögreglan Scotland Yard var einn þeirra aðila sem töpuðu í Icesave og það eru innlán slíkra aðila sem við eigum núna almenningur á Íslandi að ábyrgjast. Hvað var breska fjármálaeftirlitið að hugsa, hvað væru alþjóðlegar matsstofnanir að hugsa sem gáfu íslenskum aðilum allt of háar einkunnir?Hvað voru aðilar eins og Scotland Yard að hugsa með að setja peninga inn í slíka netbanka?
Og hvað er ríkisstjórnin núna að hugsa að ætla að kúska sig undir nauðasamninga þar sem aðilar eru ekki ríki sem ákveða að láta dómstóla leysa ágreining heldur lúffa í villtu fjármálastríði þar sem hinn sterki beitir hryðjuverkalögum á hinn veikari og þetta eru kallaðir samningar. Þetta eru ekki nauðasamingar. Þetta er þvingun.
Þessi ríkisstjórn sem núna situr ætlar að keyra í gegn svona þvingun í sams konar stjórnsýsla og sú ríkisstjórn beitti sem kóaði með fjárglæframönnum og fullvissaði lánardrottna og almenning um að hér væri allt í stakasta lagi en keyrði svo í dauðans ofboði gegn neyðarlög og tók yfir banka í ótrúlega illa undirbúnum aðgerðum þrátt fyrir að hún hefði vitað vel að bankarnir stefndu í þrot mörgum misserum eða mörgum árum áður en að því kom. það kom enda í ljós að sú vanhæfa ríkisstjórn stóð fyrir vanhugsuðum gjörningum og rétt eftir setningu neyðarlaganna upplifðum við einn mesta hrylling Hrunsins þegar bresk stjórnvöld settu Íslendinga undir hryðjuverkalög. Þetta var ekki bara íslenskur hryllingur, þetta var hryllingur heimsins og birtingarmynd þess hvernig stjórnvöld sem smán saman molnar undir og fjarlægjast þegna sína(hér er ég að tala um þau bresku) bregðast við aðstæðum með að byggja upp lögregluríki þar sem barátta við hryðjuverk er notuð sem skálkaskjól og yfirhylming til að geta gengið á svig við lýðræðislegar reglur sem erum blekkt til að trúa að gildi í samskiptum þjóðfélagsþegna og þjóða við stjórnvöld. Íslenska ríkisstjórnin hélt að það væri hægt að vísa máli sem ágreiningur væri um til dómstóla, máli sem varðandi innistæðutryggingarsjóð. En fjármálakerfi Evrópu stendur á þvílíkum brauðfótum að slík málaferli "myndu setja allt í uppnám" og Evrópuþjóðir sameinast um að standa á móti því að lýðræðislegar leikreglur gildi um hvernig ágreiningur er útkjáður og AGS er eitt verkfæri voldugustu þjóða heimsins til að viðhalda blekkingunni, blekkingunni um að eitthvað kerfi virki sem hefur alveg hrunið, blekkingunni um að þetta sé bara spurning um að endurbyggja og tjasta í það kerfi sem sprakk, blekkingu sem er reyndar sú blekking sem ríkisstjórnir Evrópu sækja vald sitt í. Ef þeirri blekkingarhulu væri aflétt þá vita ríkisstjórnir að þær standa berar fyrir og valdalausar og úrræðalausar og það sem þær kalla skjaldborgir utan um þegna sína eru ekki annað en fúlnaðar virkisgrafir sem einangra og læsa inni fólk á stöðum þar sem ekkert rennsli er og þar sem ekkert getur vaxið vegna stöðnunar, kyrrstöðu, hafta og skrifræðis.
Það er mjög, mjög undarlegt að þurfa á hlusta á umræður eins og í Kastljósi í gærkvöldi, umræður þar sem jafnvel stjórnarandstæðingar geta ekki tjáð sig um Icesave af því þeir eru "bundnir trúnaði" og heyra fulltrúa ríkisstjórnarinnar (Álfheiði) tala um hvað allt ætti að vera upp á borðum, bara ekki strax.
Það er líka stórundarlegt að heyra talað um lán sem ríkisstjórn Íslands ætlar að taka upp á 630.000.000.000 krónur með 5.5 % vöxtum, lán sem virðist eiga að þröngva upp á Íslendinga með aðstoð hryðjuverkalaga og með því að virða engar leikreglur, lán sem Bretar veita til að breiða yfir sína eigin óhæfu fjármálastjórn, lán sem ég veit ekki til að ríkisstjórn Íslands hafi nokkurn tíma beðið um, heldur lán sem stendur til að þröngva upp á Íslendinga án þess að við almenningur á Íslandi fáum nokkuð að segja um hvort við samþykkjum að ríkisstjórnin selji okkur og afkomendur okkar í ánauð.
Þetta er ótrúleg vanvirðing við íslenskan almenning að ætla að koma í gegn svona gjörningum án þess að við fáum að vita hvað er um að ræða, hvaða valkostir eru og hver málsatvik eru. Það er tala um eitthvað lán sem ekki þarf að borga af í sjö ár og svo er einhver vaðall um "Á meðan ekki þarf að greiða af láninu gefst skilanefndinni ráðrúm til að hámarka virði eigna Landsbankans eða semja um endurfjármögnun". Hvaða rugl er þetta? Við vitum ekkert um eignir Landsbankans eða hverjir eiga kröfur á þær eignir. Í þessu orðalagi er látið eins og íslenska ríkið muni einhvern tíma fá eitthvað út úr eignum Landsbankans. Svo getur ekki verið. Það eru kröfuhafar bankanna sem munu fá það sem kemur út úr þeim eignum og þær eignir munu óhjákvæmilega rýrna vegna þess að það verður að afskrifa og niðurskrifa skuldir. Íslenska ríkið mun ekki fá neitt út úr eignum Landsbankans til að greiða þetta Icesave rugl. Það er alveg óþarfi að blekkja íslenskan almenning með því.
Er það sem við héldum eini sinni að væri stóra brotlending Íslands ekki annað en ókyrrð í lofti, er verið að fresta brotlendingunni um sjö ár og binda okkur ekki í sætisólar heldur hengingarólar, fórum við úr hinni vanhæfu ríkisstjórn sem sagði bara "Guð blessi Ísland" inn í ríkisstjórn sem segin núna "Guð klessi Ísland", ríkisstjórn sem flýgur aflvana vél beint inn í brotlendingu.
Það sem er svo allra, allra furðulegast og gerir mig alveg gáttaða á hvers konar stjórnsýsla er núna í landinu er að ríkisstjórn Íslands skuli svínbeygja undir hryðjuverkalagaógn Bretlands og á sama tíma og í fréttum kemur að sá sem þröngvar upp á okkur láni sem enginn bað um og okkur er sagt að sé "afborgunarlaust í sjö ár" þá geti lánveitandi sem setti Íslendinga undir hryðjuverkalög ákveðið að við byrjum strax að borga upp lánið. Þetta er með öllu óskiljanlegt:
Samkvæmt upplýsingum blaðsins mun höfuðstóll lánsins lækka mjög fljótlega eftir að samkomulag liggur fyrir. Skýringin er sú að hluti 300 milljóna punda á reikningi Landsbankans hjá Englandsbanka verður nýttur til að greiða lánið niður.
Lán sem strax er byrjað að borga af er ekki afborganalaust. Málið háttar þannig að Bretland er fjármálamiðstöð hins vestræna heims. þar eru peningar banka væntanlega oft geymdir. Þar er gullforði Íslendinga geymdur. Ástæðan er sú að Bretlandi er treyst. Í viðskiptum er aðalatriðið traust. En hversu vel er hægt að treysta ríki sem leysir ágreiningsmál út af fjármálum með því að setja ríki undir hryðjuverkalög og neitar að útkjá ágreiningsmál fyrir dómstólum?
Bresk stjórnvöld eru vanhæf og það molnar svo hratt undan fjármálaveldi Breta að það er varla neitt orðið þar eftir nema mylsna. En hin nýja íslenska ríkisstjórn er bullandi vanhæf og notar sams konar óhæfuaðferðir við stjórnsýslu og sú sem hrökklaðist frá völdum í janúar.
Hvers vegna heldur ríkisstjórnin áfram að blekkja okkur? Hvernig má það vera að íslenska ríkisstjórnin ætli núna að breyta sér í verkfæri fyrir bresku ríkisstjórnina og ösla í þrotabú bankanna og taka þar úr 300 milljónir punda til að greiða breskum stjórnvöldum - fé sem bresk stjórnvöld kyrrsettu með hryðjuverkalögum.
Hvaða miskabætur ætla bresk stjórnvöld að borga Íslendingum fyrir þann hroðalega skaða sem þau ullu íslenskum almenningi og Íslendingum með beitingu hryðjuverkalaga?
![]() |
Gengið frá samkomulaginu í gærkvöldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.6.2009 | 23:46
Blóðbað í Perú
Það er ekki mikið að marka fréttir frá opinberum fréttastofum af svona ástandi eins núna er í Perú. Hérna er blogg sem segir frá því sem þar er að gerast
Þar segir:
Indigenous peoples in Peru are in strike for the last 52 days protesting against free trade policies that would allow multinationals to take over their territories. This attack occurred around 5:00 AM this morning, a day after the Congress of Peru decided not to debate one of the most important decrees that allow the sale of Indigenous land. The number of casualities is according to a Twetter sent by a Peruvian journalist who is in the area of Bagua, a city located in the Amazonas region of Peru.
![]() |
Mannskæð átök í Perú |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.6.2009 | 19:02
Haldið áfram að blekkja almenning
Það er átakanlegt að hlusta á nýársávarp Geirs Haarde um áramótin 2008, áramótin fyrir hrunið. Hann talaði þar um sterka stöðu skuldlauss ríkissjóðs og lagði áherslu á auðlegð þjóðarinnar. Svo bað hann Guð að blessa Ísland og hvarf sjálfur af vettvangi. En mér sýnist ekki mikið hafa breyst, það eru komnir við stjórnvölinn menn af sama sauðarhúsi, menn sem viðhalda sams konar blekkingarleik. Í staðinn fyrir að taka á vandamálinu og gera haldhöfum skuldakrafna grein fyrir stöðunni og fara fram á niðurfellingu krafna eða mál fyrir dómsstólum þá svínbeygja íslensk stjórnvöld sig undir þá skipan sem Gordon Brown og ráðherra hans Darling vildu hafa. Það er nú reyndar tímaspursmál hvort þeir menn verða við stjórnvöl í sínum ríkjum þegar gengið verður til Icesave samninga.
En blekkingarleikur stjórnvalda vegna Icesave er mikill. Málið er sett fram eins og þetta sé einhver díll fyrir Íslendinga að fá að selja sig og afkomendur sína í ánauð.
Ríkisstjórn Íslands heitir núna Vinstri-græn-Samfylkingarrauð en það er alveg ljóst hverjum þessi ríkisstjórn er að þjóna og hverra erinda hún gengur. Það er ekki erinda íslensks almennings eða almennings í öllum löndum, fólks sem núna er að flosna upp og missa alla afkomumöguleika. Ríkisstjórn Íslands stendur með fjármagnseigendum, ríkisstjórn Íslands stendur á móti fólkinu í landinu.
Ríkisstjórn Íslands er að selja okkur undir óhemjuháar stríðsskaðabætur út af stríði sem við vissum aldrei að við værum í sem þjóð. Stríðið sem háð er í heiminum í dag er fjármálastríð, það er reynt að fella heilu samfélögin með því að læsa þau inn í myrkviði fjármálafrumskóga sem enginn botnar neitt í nema þeir sem hafa girt skóginn af og grafið undirgöng fyrir sjálfa sig til að ferðast um. Núna hefur verið kveikt í þessum fjármálafrumskógi og hann stendur ennþá í ljósum logum eins og helvíti á jörðu. Samt lætur ríkisstjórn Íslands eins og þær leikreglur sem myrkviðahöfðingjarnir unnu eftir og bjuggu til séu þær leikreglur sem eigi að gilda eftir sem áður.
Við viljum öðruvísi og réttlátara samfélag, samfélag þar sem einhver fjármálafrumskógur sem vex yfir landamæri margra ríkja getur ekki svipt okkur frelsi og lífsafkomu á örskotsstundu.
Breska ríkisstjórnin horfir til langs tíma og hungrar í orku og auðlindir sem Ísland hefur yfirráðarrétt á. Það er ekki mikil áhætta að semja um lán með ríkisábyrgð Íslendinga og það er mikill aflsmunur milli þessara þjóða. Það er ömurlegt hvað hin vanhæfa íslenska ríkisstjórn hafði lítið í spindoktora Gordons Browns og ekki hefur hin nýja ríkisstjórn meiri burði. Það mátti samt ekki á milli sjá hvor var vanhæfari, sú hin íslenska sem hrundi í janúar eða sú breska sem nú er að liðast í sundur.
Það eru þannig aðstæður í heiminum í dag að það er sjálfsagt að kasta til hliðar öllum þeim kerfum sem komu okkur á hliðina og þar með talið að virða ekki þær skyldur að borga skuldir og semja upp á nýtt um skuldir og fjárhagsskuldbindingar. Það eru þannig aðstæður að það er betra að stokka upp hin fjármálalegu spil og gefa upp á nýtt heldur en að búa til þannig þjóðfélagsaðstæður að þar muni geysa linnulaust stríð milli stjórnvalda og almennings og milli hópa innbyrðis og fólk flosni upp og lendi á vergangi. Það er þannig að margt fólk á Íslandi getur ekki borgað þær skuldir sem skyndilega hafa fallið á það. Ríkissjóður Íslands getur heldur ekki borgað þær skuldir sem á hann hafa fallið samkvæmt einhverjum samningum sem segja að netbanki í Bretlandi sem þjónar breskum aðilum sé í íslenskri lögsögu.
Það er bara gálgafrestur að borga ekkert núna, það er þýlyndi við bresk stjórnvöld, þau vilja semja og það eru augljósir hagsmunir þeirra að vilja geta sett einhverjar tölur í reikninga hjá sér, það er engin áhætta fyrir þau að fá ríkisábyrgð frá Íslandi, ábyrgð sem er tryggð í auðlindum Íslands og framtíðarafrakstri lands og þjóðar.
Það er átakanlegt hversu litaðar fréttir eru af því hvernig staðið er að þessum samningum, samningum sem eru ekki neinir venjulegir samningar heldur nauðasamningar milli smáríkis og ríkis sem er herveldi sem beitti hryðjuverkalögum.
"Skuldabréf sem Landsbankinn mun koma til með að gefa út vegna Icesave-reikninganna kemur til með bera 5,5% vexti. Lánið er til fimmtán ára og ekkert þarf að greiða af því næstu sjö árin. Miðað við vextina kemur lánið til með að hækka um 37,4 milljarða króna árlega, sé miðað við núverandi gengi. Höfuðstóll lánsins er 680 milljarðar króna.
Um er að ræða skuldabréf með ríkisábyrgð. Á þessum sjö árum sem ekki þarf að greiða af höfuðstól skuldabréfsins verður reynt að selja eignir Landsbankans upp í skuldina."
Á tímum eins og þessum þar sem stjórnvöld eru vanmáttug og vanhæf er raunar aðeins ein leið fyrir almenning. það er að grípa til sinna ráða og bindast samtökum og reyna að keyra í gegn breytingar. Við þurfum líka að átta okkur á því að almenningur í öðrum löndum glímir við sama vanda, þar eru stjórnvöld alls staðar að ganga erinda markaðarins, að reyna að byggja upp að nýju kerfi sem hrundi af því það virkar bara ekki lengur. Það þarf nýtt kerfi og það ætti að byggja á samvinnu ekki samkeppni.
![]() |
Hækkar um 37 milljarða árlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.6.2009 | 18:36
Steingrímur hefur ekki mitt umboð
Steingrímur hefur mitt umboð og allan minn stuðning til að stöðva hvalveiðar. Hann hefur líka fullt umboð mitt til að í alþjóðlegum samningum að reyna að fá sem mest af losunarheimildum til Íslands, það er arfavitlaust annað en berjast fyrir að fá sem mest af svoleiðis heimildum, þetta eru verðmæti sem við getum breytt í peninga.
En Steingrímur hefur ekki mitt umboð til að selja Íslendinga í ánauð skulda. Steingrímur hefur ekki umboð til semja um lán að upphæð 650.000.000.000 með ríkisábyrgð og ofurvöxtum. Hvernig stendur á því að fráfarandi ríkisstjórn (sem reyndar myndaði lungann úr núverandi ríkisstjórn) yfirtók bankakerfið og flýtti sér ofboðslega að greiða öllum sem áttu peninga inn í íslenskum peningamarkaðssjóðum nánast allt sitt, meira segja fólki sem setti peninga í sjóði sem eru ekki venjulegir innlánsreikninga, hvernig stendur á að þessi ríkisstjórn sem er svona annt um fjármagnseigendur á Íslandi skuli eingöngu hugsa um þá sem áttu peninga í kreppunni en selja venjulega borgara á Íslandi í ánauð? Hvernig eigum við að geta borgað þessar skuldir? Þetta er gríðarleg áhætta og þetta er hengingarsnara um hálsinn á íslensku þjóðinni.
![]() |
Steingrímur fær fullt umboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.6.2009 | 18:15
Gálgafrestur - Að selja Íslendinga í ánauð
Ég geng ekki að þessu.
Ríkisstjórnin hefur ekki mitt umboð til að skuldbinda íslensku þjóðina um aldur og ævi vegna kaupæðis sem rann á nokkra fjárglæframenn sem í einhvers konar útúrvitfirrtri einkavæðingu blésu pappírum til og frá og bjuggu til sýndarpeninga sem aldrei voru til.
Það er ENGINN kostur að velta undan sér vandamálinu. Það er ENGIN kjör að fá allra náðarsamlegast að borga óútfylltan víxil eftir sjö ár. Ég er ekki í ábyrgð fyrir einhvern netbanka í Bretlandi, sama þótt Scotland Yard hafi geymt alla peningana sína þar, sama þótt hinn ástkæri forsætisráðherra þarlendra Gordon Brown hafi tekist að beina kasti kastljósi breskra fjölmiðla frá eigin vanhæfi um tíma með því að höggva til Íslands og kúga vanhæf íslensk stjórnvöld. Gordon Brown var vanhæfur sjálfur og er bullandi vanhæfur að stýra eigin landi og ekki líklegt að valdatími hans verði langur úr þessu.
Það er þvílík móðgun við Íslendinga þessi fréttaflutningur sem er af Icesave málinu. Hvað halda stjórnvöld að við séum? Halda þau að við höfum ekkert kynnt okkur hvað er að gerast í fjármálum í heiminum? Við viljum stjórnvöld sem standa með fólkinu í landinu en ekki stjórnvöld sem selja okkur í ánauð.
"Heildarskuldbindingar Íslands vegna Icesave verða upp á 650 milljarða króna samkvæmt samkomulaginu og vextirnir 5,5 prósent á ári, samkvæmt heimildum mbl.is. Leggjast þeir við höfuðstólinn þessi sjö ár en verða ekki greiddir strax.Á þessum sjö árum mun verða reynt að selja eignir Landsbankans upp í skuldina. Einnig munu heilbrigð útlánasöfn Landsbankans safna tekjum á þeim tíma, líkt og greint var frá í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag. Að þeim loknum mun síðan koma í ljós hversu stór hluti af höfuðstólnum muni lenda á íslenskum skattgreiðendum
![]() |
Engin Icesave-greiðsla í 7 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2009 | 10:58
Blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar 4. júní 1989
Í dag eru 20 ár liðin frá voðaverkunum á Torgi hins himneska friðar, hér er wikipedia grein um atburðina Tiananmen Square Protests of 1989 Þetta torg er Austurvöllur þeirra í Kína en í því ríki býr meira en milljarður og þau þurfa náttúrulega meira svigrúm enda er Torg hins himneska friðar stærsta borgartorg í heimi, það er yfir 40 hektarar og það er nálægt miðbæ Peking í Kína
Skömm Kína er mikil út af þessum voðaverkum.
Hér er grein úr Morgunblaðinu frá júní 1989:
FJÖLDAMORÐIN Í PEKING: Torg hins himneska friðar blóði drifinn vígvöllur
Það er ekki gott um vik fyrir fólk í Kína að minnast þessara atburða. Það er lífshættulegt fyrir það. Stjórnvöld þar láta eins og voðaverkin hafi aldrei gerst og vilja endurskrifa söguna og raunar banna allan fréttaflutning. Svo langt hafa stjórnvöld gengið að þau hafa núna út af því að 20 ár eru liðin og þau búast við mótmælum klippt á margar upplýsingaleiðslur frá Kína til umheimsins. Kína er lögregluríki og stjórnarhættir þar eru ekki í lagi og tjáningarfrelsi og upplýsingafrelsi borgara þar er ekki virt.
Við sem erum ekki ennþá í lögsögu slíkra ríkja ættum að leggja saman krafta okkar og styðja mannréttindabaráttu í Kína, ekki tipla á tánum í kringum ríki sem er að verða eitt voldugasta ríki í heimi, ríki sem er að vígvæðast og mun í fyllingu tímans sýna vígtennurnar. Viðskiptahagsmunir skipta vissulega máli en mannréttindabarátta er ennþá mikilvægari hvort sem það er á torgum í Kína, í fjalllendum Tíbets eða í sjávarplássum á Íslandi.
hér fyrir neðan lími ég inn Morgunblaðsgreinina frá 1989, gleymum ekki voðaverkum stjórnvalda og berjumst saman fyrir mannréttindum og lýðræði!
FJÖLDAMORÐIN Í PEKING: Torg hins himneska friðar blóði drifinn vígvöllur Óstaðfestar fréttir herma að allt að 7.000 manns hafi verið myrtir Peking. The Daily Telegraph, Reuter.
SKRIÐDREKAR óku um götur í miðborg Peking snemma í gærdag að kínverskum tíma. Skothvellir kváðu við og eldar loguðu í strætisvögnum og farartálmum sem námsmenn og stuðningsmenn þeirra höfðu reist til að hindra árás hermanna sem talin var yfirvofandi. Slagorð höfðu verið máluð á strætisvagnanna áður en eldur var lagður að þeim og á einum þeirra sagði "Hefnum blóðbaðsins 4. júní". Tæpum sólarhring áður höfðu kínverskir hermenn gráir fyrir járnum og studdirskriðdrekum látið til skarar skríða gegn umbótasinnum, sem haldið hafa til á Torgi hins himneska friðar í miðborg Peking undanfarnar vikur og krafist lýðræðis og upprætingu spillingar í landinu. Án sýnilegstilefnis hófu hermenn vopnaðir hríðskotabyssum skothríð á fólkið á torginu.
Blóðbaðið var óskaplegt en fréttir herma að 3.000 til 7.000 manns hafi verið á torginu er fjöldamorðin voru framin. Stjórnvöld hafa enn ekki skýrt frá því hversu margir féllu, en erlendir sendimenn telja að a.m.k. eitt þúsund manns hafi verið myrtir á Torgi hins himneska friðar og í nærliggjandi götum. Aðrar heimildir herma að talan sé mun hærri. Fréttaritari Reuters-fréttastofunnar í Peking kvaðst í gær hafa heyrt óstaðfestar fregnir þess efnis að 7.000 manns hefðu verið myrtir á laugardag. Dagblað hersins í Kína lýsti árásinni sem miklum sigri yfir "gagn byltingarmönnum".
Fjöldamorðin voru framin á aðfaranótt sunnudags að kínverskum tíma en fyrstu fréttir af atburðum þessum bárust til Vesturlanda um klukkan 16 að íslenskum tíma á laugardag. Að sögn sjónarvotta hófst árás hersins klukkan 4 á aðfaranótt sunnudags að kínverskum tíma.
Skyndilega varð miðborg Peking ljóslaus. Námsmennirnir á torginu ákváðu að fara hvergi og hófu að syngja "Internationalinn", baráttusöng kommúnismans. Skömmu síðar þustu hermenn vopnaðir hríðskotabyssum út úr Alþýðuhöllinni miklu við Torg hins himneska friðar. Umleið birtust brynvarðir liðsflutninga bílar á torginu. Segja sjónarvottar að fjöldi manns hafi látist og særst er vagnarnir óku yfir tjöld námsmanna sem þeir höfðu komið þar upp.
Í fréttaskeytum Reuters-frétta stofunnar segir að talið sé að 6.000 til 7.000 manns hafi verið á torginu er herliðið hóf skothríð. Sjónarvottar segja að hermennirnir hafi skotið á fólkið, sem var óvopnað, og lítt hirtum hvar byssukúlurnar lentu. Fólkið lagði á flótta í átt að götum í nágrenninu. Hermennirnir tóku einnig á rás og hleyptu af vopnum sínum á hlaupunum. Fólkið hrópaði: "glæpa menn, glæpamenn". Skipulögð fjöldamorð hafa ekki verið framin í Peking með þessum hætti í þau 40 ár sem kommúnistar hafa ráðið ríkjum í Kína.
Fótum fjör að launa
Um klukkan 5.30 að kínverskum tíma birtust sex skriðdrekar og óku þeir yfir farartálmana í átt að torginu. Að sögn Grahams Hutchings, fréttaritara breska dagblaðsins The Daily Telegraph í Peking, lögðu þúsundir manna á flótta er bryndrekarn ir birtust. Sjálfur átti hann fótum fjör að launa. Fólkið hljóp inn í hliðargötur en skriðdrekarnir fylgdu á eftir. Ærandi vélbyssuskothríð kvað við og eldglæringarnar úr byssuhlaupunum sáust greinilega í myrkrinu.
Skriðdrekarnir óku í röð að torginu og komu inn á það úr austri en áður höfðu hermenn haldið inn á torgið úr norðri og vestri. Fréttaritari The Daily Telegraph telur að þá hafi um 3.000 umbótasinnar verið á torginu. Bryndrekarnir óku yfir allt það sem fyrir þeim varð og herma sjónarvottar að fjöldi manns hafi orðið undir þeim er þeir óku niður Changanbreiðgötuna framhjá Peking-hóteli og inn á torgið. Um 15 brynvarðir liðsflutningavagnar fylgdu skriðdrekunum. Einn skriðdrekinn ók á fullri ferð að eftirlíkingu að bandarísku Frelsisstyttunni, sem námsmenn höfðu komið upp á torginu. Styttan, sem gerð var af listnemum í Peking-háskóla og kölluð "Lýðræðisstyttan" féll til jarðar og tættist í sundur undir járn beltum skriðdrekans.
Hollir forsetanum
Talið er að herliðið sem framdi fjöldamorðin heyri undir 27. herinn en hann er að jafnaði staðsettur í Hubei-héraði í miðhluta landsins. Herinn er sagður vel þjálfaður og agaður en hann er talinn hollur Yang Shangkun, forseta Kína. Vitað er að Yang sem er 82 ára að aldri hvatti til þess að mótmæli námsmanna yrðu barin niður af fullri hörku og virðist svo sem hann hafi nú náð að treysta stöðu sína innan valdakerfisins. Hugsanlegt er talið að hann komi til með að berjast um völdin við Deng Xiaoping, hinn eiginlega leiðtoga kínverska kommúnistaflokksins.
Reuter
![]() |
Clinton gagnrýnir Kínverja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)