Vanhæf stjórnvöld II. Pukur og myrkraverk

Hversu oft höfum við ekki heyrt vanhæf stjórnvöld eftir Hrunið lýsa yfir hve mikilvægt sé að upplýsa allt og rannsaka allt.  En bara ekki strax. Ekki fyrr en búið er að skuldbinda okkur fyrir 630.000.000.000 krónum með 5.5 % vöxtum. Núna horfum við almenningur á Íslandi upp á ríkisstjórn sem blygðast sín ekki fyrir að veðsetja Íslendinga fyrir  630.000.000.000 krónur með 5.5 % vöxtum án þess að almenningur fái nokkrar upplýsingar um hvað er að ræða og hvers vegna þessi kostur er valinn og hvaða aðrir kostir eru í stöðunni og hvers vegna við  almenningur á Íslandi eigum eða verðum að bera ábyrgð á netbanka sem vann  fyrir breska viðskiptavini.  Við vissum ekkert af þessum banka fyrr en skuldir hans voru orðnar okkar skuldir, við héldum að bankakerfið væri einkavætt, við vissum ekki að sú einkavæðing væri þannig að fjárglæframenn gætu búið til sýndarpeninga og féflett banka og fjármálastofnanir og alþjóðlegt eftirlitskerfi og fjármálakerfi sem og íslenskt eftirlit væri ekki annað en skrípaleikur.  Breska leynilögreglan Scotland Yard var einn þeirra aðila sem töpuðu í Icesave og það eru innlán slíkra aðila sem við eigum núna almenningur á Íslandi að ábyrgjast. Hvað var breska fjármálaeftirlitið að hugsa, hvað væru alþjóðlegar matsstofnanir að hugsa sem gáfu íslenskum aðilum allt of háar einkunnir?Hvað voru aðilar eins og Scotland Yard að hugsa með að setja peninga inn í slíka netbanka?

Og hvað er ríkisstjórnin núna að hugsa að ætla að kúska sig undir nauðasamninga þar sem aðilar eru ekki ríki sem ákveða að láta dómstóla leysa ágreining heldur lúffa í villtu fjármálastríði þar sem hinn sterki beitir hryðjuverkalögum á hinn veikari og þetta eru kallaðir samningar. Þetta eru ekki nauðasamingar. Þetta er þvingun.

Þessi ríkisstjórn sem núna situr ætlar að keyra í gegn svona þvingun í  sams konar stjórnsýsla og sú ríkisstjórn beitti sem kóaði með fjárglæframönnum og fullvissaði lánardrottna og almenning um að hér væri allt í stakasta lagi en keyrði svo í  dauðans ofboði gegn neyðarlög og tók yfir banka í ótrúlega illa undirbúnum aðgerðum þrátt fyrir að hún hefði vitað vel að bankarnir stefndu í þrot mörgum misserum eða mörgum árum áður en að því kom.  það kom enda í ljós að sú vanhæfa ríkisstjórn stóð fyrir vanhugsuðum gjörningum og rétt eftir setningu neyðarlaganna upplifðum við einn mesta hrylling Hrunsins þegar bresk stjórnvöld settu Íslendinga undir hryðjuverkalög. Þetta var ekki bara íslenskur hryllingur, þetta var hryllingur heimsins og birtingarmynd þess hvernig stjórnvöld sem smán saman molnar undir og fjarlægjast þegna sína(hér er ég að tala um þau bresku) bregðast við aðstæðum með að byggja upp lögregluríki þar sem barátta við hryðjuverk er notuð sem skálkaskjól og yfirhylming til að geta gengið á svig við lýðræðislegar reglur sem erum blekkt til að trúa að gildi í samskiptum þjóðfélagsþegna og þjóða við stjórnvöld.  Íslenska ríkisstjórnin hélt að það væri hægt að vísa máli sem ágreiningur væri um til dómstóla, máli sem varðandi innistæðutryggingarsjóð. En fjármálakerfi Evrópu stendur á þvílíkum brauðfótum að slík málaferli "myndu setja allt í uppnám" og Evrópuþjóðir sameinast um að standa á móti því að lýðræðislegar leikreglur gildi um hvernig ágreiningur er útkjáður og AGS er eitt verkfæri voldugustu þjóða heimsins til að viðhalda blekkingunni, blekkingunni um að eitthvað kerfi virki sem hefur alveg hrunið, blekkingunni um að þetta sé bara spurning um að endurbyggja og tjasta í það kerfi sem sprakk, blekkingu sem er reyndar sú blekking sem ríkisstjórnir Evrópu sækja vald sitt í. Ef þeirri blekkingarhulu væri aflétt þá vita ríkisstjórnir að þær standa berar fyrir  og valdalausar og úrræðalausar og það sem þær kalla  skjaldborgir utan um þegna sína eru ekki annað en fúlnaðar virkisgrafir sem einangra og læsa inni fólk á stöðum þar sem ekkert rennsli er og þar sem ekkert getur vaxið vegna stöðnunar,  kyrrstöðu,  hafta og skrifræðis.

Það er mjög, mjög undarlegt að þurfa á hlusta á umræður eins og í Kastljósi í gærkvöldi, umræður þar sem jafnvel stjórnarandstæðingar geta ekki tjáð sig um Icesave af því þeir eru "bundnir trúnaði" og heyra fulltrúa ríkisstjórnarinnar (Álfheiði) tala um hvað allt ætti að vera upp á borðum, bara ekki strax. 

Það er líka stórundarlegt að heyra talað um lán  sem ríkisstjórn Íslands ætlar að taka upp á 630.000.000.000 krónur með 5.5 % vöxtum, lán sem virðist eiga að þröngva upp á Íslendinga með aðstoð hryðjuverkalaga og með því að virða engar leikreglur, lán sem Bretar veita til að breiða yfir sína eigin óhæfu fjármálastjórn, lán sem ég veit ekki til að ríkisstjórn Íslands hafi nokkurn tíma beðið um, heldur lán sem stendur til að þröngva upp á Íslendinga án þess að við almenningur á Íslandi fáum nokkuð að segja um hvort við samþykkjum að ríkisstjórnin selji okkur og afkomendur okkar í ánauð.

Þetta er ótrúleg vanvirðing við íslenskan almenning að ætla að koma í gegn svona gjörningum án þess að við fáum að vita hvað er um að ræða, hvaða valkostir eru og hver málsatvik eru. Það er tala um eitthvað lán sem ekki þarf að borga af í sjö ár og svo er einhver vaðall um  "Á meðan ekki þarf að greiða af láninu gefst skilanefndinni ráðrúm til að hámarka virði eigna Landsbankans eða semja um endurfjármögnun". Hvaða rugl er þetta? Við vitum ekkert um eignir Landsbankans eða hverjir eiga kröfur á þær eignir. Í þessu orðalagi er látið eins og íslenska ríkið muni einhvern tíma fá eitthvað út úr eignum Landsbankans. Svo getur ekki verið. Það eru kröfuhafar bankanna sem munu fá það sem kemur út úr þeim eignum og þær eignir munu óhjákvæmilega rýrna vegna þess að það verður að afskrifa og niðurskrifa skuldir. Íslenska ríkið mun ekki fá neitt út úr eignum Landsbankans til að greiða þetta Icesave rugl. Það er alveg óþarfi að blekkja íslenskan almenning með því.

Er það sem við héldum eini sinni að væri stóra brotlending Íslands ekki annað en ókyrrð í lofti, er verið að fresta brotlendingunni um sjö ár og binda okkur ekki í sætisólar heldur hengingarólar, fórum við úr hinni vanhæfu ríkisstjórn sem sagði bara "Guð blessi Ísland" inn í ríkisstjórn sem segin núna "Guð klessi Ísland", ríkisstjórn sem flýgur aflvana vél beint inn í brotlendingu.

Það sem er svo allra, allra furðulegast og gerir mig alveg gáttaða á hvers konar stjórnsýsla er núna í landinu er að ríkisstjórn Íslands skuli svínbeygja undir hryðjuverkalagaógn Bretlands og á sama tíma og í fréttum kemur að sá sem þröngvar upp á okkur láni sem enginn bað um og okkur er sagt að sé "afborgunarlaust í sjö ár" þá geti lánveitandi sem setti Íslendinga undir hryðjuverkalög ákveðið að við byrjum strax að borga upp lánið.  Þetta er með öllu óskiljanlegt:

Samkvæmt upplýsingum blaðsins mun höfuðstóll lánsins lækka mjög fljótlega eftir að samkomulag liggur fyrir. Skýringin er sú að hluti 300 milljóna punda á reikningi Landsbankans hjá Englandsbanka verður nýttur til að greiða lánið niður.

Lán sem strax er byrjað að borga af er ekki afborganalaust.  Málið háttar þannig að Bretland er fjármálamiðstöð hins vestræna heims. þar eru peningar banka væntanlega oft geymdir. Þar er gullforði Íslendinga geymdur. Ástæðan er sú að Bretlandi er treyst. Í viðskiptum er aðalatriðið traust. En hversu vel er hægt að treysta ríki sem leysir ágreiningsmál út af fjármálum með því að setja ríki undir hryðjuverkalög og neitar að útkjá ágreiningsmál fyrir dómstólum?

Bresk stjórnvöld eru vanhæf og það molnar svo hratt undan fjármálaveldi Breta að það er varla neitt orðið þar eftir nema mylsna. En hin nýja íslenska ríkisstjórn er bullandi vanhæf og notar sams konar óhæfuaðferðir við stjórnsýslu og sú sem hrökklaðist frá völdum í janúar.

Hvers vegna heldur ríkisstjórnin áfram að blekkja okkur? Hvernig má það vera að íslenska ríkisstjórnin ætli núna að breyta sér í verkfæri fyrir bresku ríkisstjórnina og ösla í þrotabú bankanna og taka þar úr 300 milljónir punda til að greiða breskum stjórnvöldum - fé sem bresk stjórnvöld kyrrsettu með hryðjuverkalögum.

Hvaða miskabætur ætla bresk stjórnvöld að borga Íslendingum fyrir þann hroðalega skaða sem þau ullu íslenskum almenningi og Íslendingum með beitingu hryðjuverkalaga?


mbl.is Gengið frá samkomulaginu í gærkvöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gissur Jónsson

Ætli Össur sé ennþá að borga félagsgjöld í breska Verkamannaflokkinn?

Gissur Jónsson, 6.6.2009 kl. 10:55

2 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Þetta er virkilega góður pistill hjá þér.

Marinó Már Marinósson, 6.6.2009 kl. 12:39

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég samsin ni þé í hverju orði með tár á hvarmi og beiskju í hjarta. Út vil ek.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 13:04

4 Smámynd: Hörður Hilmarsson

Massív grein. Takk fyrir.

Hörður Hilmarsson, 7.6.2009 kl. 11:11

5 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Orð í tíma töluð.

Þórður Björn Sigurðsson, 7.6.2009 kl. 11:35

6 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Vel skrifuð grein. Eins og töluð út frá mínu sorgmædda hjarta. Ég bara vona að Alþingi hafni núna samningnum um Ice-save. Nú reynir á samtakamátt þjóðarinnar ef einhver er. Losum okkur algjörlega við IMF eins fljótt og auðið er EN leiðréttum fyrst heimilislán fjölskyldnanna í landinu svo að þær eigi sér von. Skilum svo láni IMF og lýsum yfir gjaldþroti þjóðarinnar núna, en ekki EFTIR að IMF hefur að auki hirt allar eignir okkar og auðlindir.

Anna Margrét Bjarnadóttir, 7.6.2009 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband