Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
24.9.2009 | 19:44
Nýja Ísland
"Óskar sagði, að menn vissu vel að fjölmiðlar Árvakurs nytu óskoraðs trausts þjóðarinnar og því trausti ætluðu þeir ekki að bregðast. Við munum áfram flytja óhlutdrægar, heiðarlegar og sanngjarnar fréttir af öllu sem máli skiptir, eigendum Árvakurs jafnt sem öðrum"
Ehemm...
![]() |
Davíð og Haraldur ritstjórar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.9.2009 | 16:35
Neyðarkall frá Íslandi - Að selja kreppulandið
Forseti okkar nýtur sáralítillar hylli meðal íslensku þjóðarinnar og þá ekki síst vegna þess að hann var handbendi ófyrirleitinna fjárglæframanna sem fóru um lönd og létust vera fulltrúar Íslendinga, létu sem þeirra fjármálaspilavítisbankar væru bankar sem íslenska ríkið og Íslendingar ættu og stæðu á bak við, væru þjóðbankar þegar þeir voru ekki annað en fjármálaspilavíti nokkurra manna og útrás þeirra byggðist á gengismunaviðskiptum (carry trade).
Ef þeir fjárglæframenn sem fóru um lönd Evrópu og fengu fávísan almenning í Bretlandi og Hollandi - já og Scotland Yard og sveitasjóði í Bretlandi - til að leggja fé inn á netbanka sem lofuðu himinháum vöxtum hefðu verið fjármálamenn með bakhjarla í Nígeríu og skráð netbanka sína þar og stært sig af því að þeir væru í svo góðum tengslum við nígerísk stjórnvöld og kallað sína banka "The National Bank of Nigeria" þá hugsa ég að meira eftirlit og tortryggni hefði verið á þessu íslenska Ponzi scheme sem íslenska bankaævintýrið og endalok þess Icesave reikningarnir virðast hafa verið.
En fjárglæframenn útrásarinnar puntuðu sig með forsetanum og ferjuðu hann meira segja milli staða svo hann væri til taks að selja trúverðugleika þeirra. Þeir puntuðu sig líka með stjórnmálamönnum og yfirhilming helstu ráðamanna þjóðarinnar í ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar með því sem var að gerast í heimi íslenskra fjármála er sorglegri en tárum taki.
Ólafur Ragnar er gáfaður og víðlesinn maður sem alla vega virðist hafa haft þann bakgrunn að hann hefði átt að sjá hvað var að gerast, hann hefur sérfræði í stjórnmálafræði og hann var lengi stjórnmálamaður í eldlínunni og var m.a. fjármálaráðherra eins og raunar Geir Haarde. Ólafur Ragnar var á tímum útrásarinnar boðberi hennar og sölumaður. Ég vænti mikils af Ólafi Ragnari þegar hann var kjörinn forseti, ég hélt að hann yrði góður talsmaður Íslands á alþjóðavettvangi. Það hefur ekki gengið eftir hingað til. Ég hef aldrei getað litið á Ólaf Ragnar sem talsmann minn, mér finnst hann hafa verið talsmaður og í þjónustu örfárra útrásarvíkinga og sagan mun ekki hæla honum neitt sérstaklega fyrir að hafa í fjölmiðlafrumvarpsmálinu gengið þar erinda þeirra sem áttu alla fjölmiðla á Íslandi og keyptu upp og kváðu í kút allar gagnrýnisraddir á sama tíma og þeir sugu merginn úr íslensku þjóðinni.
Jóhanna forsætisráðherra er góð kona og traustur stjórnmálamaður, það efast enginn um heilindi hennar. En hún er mjög lítið sýnileg íslensku þjóðinni og rödd hennar hljómar ekki í alþjóðasamfélaginu. Hún hefði átt að berja í borðið á afmælisfundi Nató og hrópa hátt um hvernig Bretland og raunar núna alþjóðasamfélagið eins og það birtist í AGS er að leika okkur í leik sem er mjög ójafn og sýnir vel rangsleitni og yfirgang stjórþjóða sem ennþá hanga af því að þar ráða menn ennþá yfir prentsmiðjum sem prenta peninga.
Forseti okkar Ólafur Ragnar virðist núna koma fram eins og pólitískur leiðtogi í því tómarúmi sem fjarvera Jóhönnu í alþjóðasamfélaginu hefur skapað. Það væri vel ef hann gæti komið til skila því neyðarkalli sem íslenska þjóðin þarf núna að senda til almennings og stjórnvalda í öðrum löndum, neyðarkalli um að hér er lamað hagkerfi, hér er skelfingu lostið fólk sem fast er í einhvers konar kóngulóarvef nútíma fjárglæfra, kóngulóarvef myntkörfulána og gengisfalla, hér er lamað atvinnulíf - hér eru vissulega auðlindir, hér eru hús og hér eru skip og hér eru tæki og hér er mesti auður hverrar þjóðar, mannauðurinn í vel menntuðu og víðsýnu og friðsömu og vinnusömu fólki - en hér er þannig ástand að margar eigur er í óljósu eignarhaldi og margs konar framleiðslutæki eru að grotna niður og fólkið er líka að grotna niður, það situr auðum höndum á atvinnuleysisbótum og án framtíðarvona í landi þar sem er þörf af mörgum vinnufúsum höndum við öðruvísi störf en það vann áður.
Ofan á þetta bætist að það er nánast algjört vantraust á stjórnvöldum og fjármálaheimi, ekki síst þegar við sjáum sömu aðilana og sama fólkið vera núna að díla við það sama og það var að gera fyrir hrunið og okkur grunar að það sé verið að díla um eignir sem að nafninu til eru undir forræði ríkisstjórnarinnar og opinberra aðila.
Svo er sama fólkið og lék með og lofsöng fjárglæfraspilaborgina núna að spila með í nýju spili og endurrita söguna um sjálfa sig. Þannig er Ólafur Ragnar alls ekki sannfærandi málsvari Íslendinga núna og allra síst varðandi bankaheiminn, hann ver útrásina og vísar til að íslensku bankarnir hafi farið að evrópskum reglum. Samkvæmt því sem ég les í fréttum er málið miklu alvarlegra, það er sterkur grunur um refsivert athæfi og sýndarviðskipti m.a. varðandi Kaupþing. Þar kom Ólafur Ragnar við sögu amk minnist ég þess að í fréttum hafi komið fram að hlutverk forsetans og forsetafrúarinnar væri mikið að koma á viðskiptum milli sjeiksins (sem er grunaður um að hafa leppað kaup í Kaupþingi)eða sjeiksfjölskyldunnar.
Það er hlutverk forsetans að stuðla að framgangi íslenskra fyrirtækja erlendis en það verður að segjast eins og er að það er ekki hlutverk forsetans að hilma yfir og vera blekkingartæki fjárglæframanna. Allra síst er það í þágu Íslendinga að Ólafur Ragnar fari nú um lönd og selji Ísland undir merkjum grænnar orku og gerist núna einhvers konar almenningstengslafulltrúi þeirra sem vilja selja alþjóðlegum fjárfestingarfyrirtækjum íslenskar orkulindir.
Ég vona að Ólafur Ragnar standi sig vel í því að tala máli Íslendinga í klúbbum fínna og háttsettra manna í útlöndum en ég hef efasemdir um að hann skynji aðstæður Íslands og sé rétti maðurinn til að finna úrræði fyrir framtíðina hér á Íslandi. Þá ályktun dreg ég af fortíðinni, forsetaembættið hefur að því er mér virðist ekki skilað miklu fyrir íslenska þjóð þau ár sem hann hefur verið þar í embætti, hann hefur svo sannarlega ekki náð að verða sameiningartákn Íslendinga.
En Ólafur Ragnar er ekki sá eini sem var talsmaður fjárglæframanna sem núna baðar sig í íslensku kreppuljósi erlendis. Það hafa margir sem áður höfðu atvinnu sína af því að kóa með og lofsyngja fjármálasnilld stóru spilaranna í gróðærinu núna stigið fram og segja sína sögu og raunar endursemja hlutverk sitt í sögunni. Það má t.d. spyrja eins og Reuters fréttastofan Hvar var Ásgeir og hvar var Ólafur Ragnar? Ásgeir Jónsson var forstöðumaður einnar af greiningardeildum bankanna fyrir Hrunið og kannski er fólk búið að gleyma því að þá voru einu fréttirnar sem við höfðum af því hvað væru að gerast í fjármálalífinu úr þessum greiningardeildum og svo frá viðskiptablaðamönnum sem voru með beinum eða óbeinum hætti venslaðir þeim sem áttu fjölmiðla og voru stærstu spilarar í fjárglæfraspilinu.
En eins og forsetinn þá er fyrrum greiningardeildarforstjórinn að segja sína útgáfu af sögu á því hvað gerðist á Íslandi. Sannleikurinn er búinn til í gegnum svona frásagnir og þó ég efist ekki um að bók Ásgeirs (Ný bók Ásgeirs Jónssonar: Bankarnir voru dauðadæmdir í lok 2007 - Glitnir var gangandi lík )og ræður Ólafs Ragnars geti gefið innsýn í heim bankamanna og fjármálamanna og hver var verðlaunaður í hvaða veislu og hvers vegna þá held ég að þeir hagræði og afskræmi sannleikann og hafi ekki til að bera það sem þarf til að segja sögu hrunsins á Íslandi og hvernig ástandið er hérna. Til þess eru þeir of venslaðir og bendlaðir inn í þessi mál.
Það er ný iðja Íslendinga að greina kreppuna og selja kreppulandið í ræðu og riti. Aðrar þjóðir geta vissulega lært af reynslu héðan, geta lært hvað gerist ef einsleitur lítill hópur ófyrirleitinna spilasjúkra karlmanna fær á silfurfati réttar allar peningagerðarvélar samfélagsins og þar með fjármálalíf og fær auk þess sérstakt íslenskt tækifæri til að búa til aukapeningabólu gegnum gengismunaviðskipti (carry trade). Hvað gerist þegar þeir hinir sömu kaupa upp alla sem geta hugsanlega haft eftirlit eða gagnrýnt gerðir þeirra m.a. kaupa upp allar raddir í fjölmiðlum og ekki síst kaupa sér áhrif inn í stjórnmálin á ýmsa lund.
En því miður eru stjórnvöld í mörgum öðrum vestrænum löndum í sömu stöðu yfirhilmingar og hin íslenska var þangað til hún féll með brauki og bramli og það er líklegt að boð um hvað gerðist á Íslandi verði rugluð þannig að íslenska neyðarkallið nái ekki til óruglað til almennings annars staðar og nái ekki að vera aðvörunaróp fyrir valdalaust fólk í öðrum löndum.
![]() |
Segist verða var við mikla vinsemd í garð Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.9.2009 | 12:50
Attac og Tobin skattur og heimur sem ekki er til sölu
Ég hef verið með í að stofna íslenskan Attac hóp og er einn af talsmönnum íslenska hópsins en við eigum eftir að halda formlegan stofnfund. Við höfum þegar haldið eitt málþing með norskum gestum frá Attac í Noregi og sett upp vefsetrið Attac.is og svo stefnum við að formlegum stofnfundi/aðalfundi núna á haustmánuðum. Einmitt núna um helgina hittast fulltrúar frá Attac hópum víðs vegar í Evrópu á málþingi í París. Bjarni fór fyrir hönd okkar í íslenska Attac hópnum til Parísar og ég hlakka til að heyra ferðasöguna frá honum.
Margir halda að Attac séu einhvers konar öfgasamtök og nafn þeirra sé dregin af árás eða attack. Svo er ekki heldur er það skammstöfun en þessi samtök eru einmitt nátengd Tobin skattinum og voru raunar upprunalega stofnuð eingöngu til að berjast fyrir þeim skatti. Starfssvið samtakanna hefur orðin víðfeðmara síðan þá en segja má að þetta sé aktívistahreyfing sem lætur sig fjármálagerninga sérstaklega varða. Attac samtökin voru upphaflega stofnuð í Frakklandi en þau eru virk í mörgum löndum en þó að ég held hvorki í Bretlandi né USA.
Í pistlinum Hvað er Attac er útskýrt hlutverk og starfsemi Attac en þar stendur m.a.:
Attac er skammstöfun og stendur fyrir Association pour la taxation des transactions financières pour l'aide aux citoyens (á ensku Association for the Taxation of Financial Transactions for the Aid of Citizens, ATTAC).
Upphaflegt stefnumið Attac var aðeins eitt. Það var að krefjast þess að skattur yrði lagður á gjaldeyrisbrask, svokallaður Tobin-skattur. Attac vinnur nú að fjölda málefna sem tengjast hnattvæðingu og neikvæðum afleiðingum fjárhagslegrar hnattvæðingar og einkavæðingar. Samtökin hafa eftirlit með starfi WTO, heimsviðskiptastofnunarinnar, með starfi Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunarinnar OECD, og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins IMF.
Attac lítur ekki á sig sem andstæðing hnattvæðingar, en gagnrýnir þá hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem samtökin líta svo á að stýri efnahagslegri hnattvæðingu. Þau styðja hnattvæðingu sem þau álíta að sé sjálfbær og félagslega réttlát. Eitt af slagorðum Attac er Veröldin er ekki til sölu, og þau fordæma markaðsvæðingu samfélagsins.
- Hvað er Attac
- Sameiginleg yfirlýsing Evrópudeilda Attac um fjármálakreppuna og lýðræðislega valkosti
- Frumstefnuskrá alþjóðahreyfingarinnar ATTAC
- Um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og íslensk stjórnvöld
- Attac.org
![]() |
Tobin skatt á fjármálagerninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.9.2009 | 14:38
Landið og miðin og ættarveldi Jóns Bjarnasonar í stað ættarveldis Einar Guðfinnssonar
Hvað er Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gera í því að tryggja öllum Íslendingum aðgang að landi sínu og fiskimiðum?
Hver á kvótann og í hverra eigu eru bújarðir á Íslandi? Er ástandið þannig á Íslandi í dag að hér búa 300 þúsund manns og eingöngu örfáir þeirra ráða yfir bróðurpartinum af landbúnaðarframleiðslu Íslands og megninu af kvótanum?
Einu sinni flutti Jón Bjarnason ræður um hættuna á að bændur verði réttlitlir leiguliðar en hvað gerir Jón núna til að sporna gegn því að rétturinn til að framleiða landbúnaðarvörur á Íslandi þ.e. fiskveiðikvóti og mjólkurkvóti verði séreign nokkurra stórra aðila? Hvað gerir hann til að tryggja aðgang Íslendinga að landi sínu né miðum? Er Jón að gæta hagsmuna örfárra stóreignarbænda og útgerðarmanna og tryggja áhrif ættmenna sinna eða er hann að gæta hagsmuna allra Íslendinga? Líka okkar sem búum hérna á mölinni og eigum hvorki bújarðir né fiskiskip og þaðan af síður þorskvóta eða mjólkurkvóta?
Eigum við hinir kvótalausu og jarðnæðislausu þurrabúðarmenn engan rétt? Er landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti bara að vinna fyrir þá sem eiga framleiðslutæki núna og hjálpa þeim að halda stöðu sinni og stækka?
Undanfarin ár hefur átt sér stað mikil uppkaup á jörðum á Íslandi. Hugsanlega eru sumar jarðir keyptar upp með framtíðarhagsmuni í huga og spákaupmennsku m.a. varðandi fiskeldi eða aðstöðu við sjó. Hugsanlega er núna eftir bankahrunið eignarhald á sumu yfirveðsettu jarðnæði í höndum fjárfestingaraðila. Hugsanlega er núna aukin ásókn erlendra aðila í jarðir t.d. til að fjárfesta fé sem innilukt er í landinu vegna gjaldeyrirhamla. Hvernig er höndlað og möndlað með jarðir og fiskiskip núna? Ég skrifaði hugleiðingu um jarðakaupin á sínum tíma og hér er líka vísun í frétt í mbl.is
Lífsval ehf og síðasta galdrabrenna á Íslandi - salvor.blog.is
Uppkaup á jörðum - Morgunblaðið á Netinu - mbl.is
Ísland er sérstakt land á mörkum heimskautasvæðins, land með fengsæl fiskimið og sérstaka náttúru og jarðfræði. Hvernig landið er nýtt og hvernig hafa yfirráð yfir landinu ætti ekki að vera í höndum örfárra stórra og fjarlægra framleiðenda orku, landbúnaðarvara og sjávarfangs. Það hlýtur að vera krafa okkar að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra gæti hagsmuna allra Íslendinga til langs tíma en ekki einstakra hópa.
Ísland er lítið land og allir eru skyldir öllum hérna en það er bara þannig að það er erfitt að sjá hvort eitthvað hafi breyst frá þeim tímum þegar Einar Guðfinnsson var sjávarútvegsráðherra og gætti hagsmuna ættmenna sinna. Jónas Kristjánsson segir á bloggi sínu jonas.is þetta:
04.09.2009
Ættarvæðing Kaupþings
Þegar græðgisvæðingin var á fullu, kom Ásgeir Jónsson í Kaupþingi mér fyrir sjónir sem spunakarl hennar. Hann var annan hvern dag í sjónvarpsfréttum að tala um, hvað allt væri frábært, sérstaklega bankarnir. Eftir hrunið hefði mátt búast við, að hann færi í felur. En hann er enn í bankanum og er enn að tala í sjónvarpi um vandamálin. Það stafar auðvitað af, að hann er sonur Jóns Bjarnasonar, landbúnaðarráðherra Vinstri grænna. Og nú er systurdótti Jóns orðin stjórnarformaður Kaupþings, fulltrúi Vinstri grænna í stjórninni. Sérstaka gát þarf að hafa á Jóni. Hann er í gamla ættvæðingar-stílnum.
Mikið vildi ég að ég hefði einhverjar vísbendingar um að Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra sé að gæta hagsmuna allra Íslendinga. Ég satt að segja efast mjög um það.
Þó ég sé ekki samflokksmaður Steingríms og Jóhönnu þá efast ég ekki um heildarsýn þeirra og að þau eru að vinna að heill allra Íslendinga þó ég efist nú reyndar stundum um framsýni Steingríms og víðsýni Jóhönnu.
![]() |
Margir kúabændur stefna í gjaldþrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2009 | 14:34
What is the Capital of Iceland?
Í liðinni viku beindist kastljósið að borgarstjórn Reykjavíkur og sölu á hlut OR í orkuveitu á Suðurnesjum til sænsk-kanadísks orkufyrirtækis. Frá sjónarhóli OR var þetta skynsamleg ráðstöfun og raunar neyðarbrauð því OR hafði tapað málaferlum og orkulög sem miða við að orkuframleiðsla eigi að vera samkeppnisrekstur eru í gildi á Íslandi, lög sem heimila ekki OR að kaupa upp aðrar almenningsveitur. Það var óþægilegt fyrir OR að verða að selja þennan hlut á þessum tímapunkti, á tíma í heiminum þar sem verðmæti arðskapandi fyrirtækja hefur fallið gríðarlega og hluturinn var seldur með tapi og á kúluláni. Á einum tímapunkti þá virtist ríkisstjórnin ásamt fleirum t.d. lífeyrissjóðum ætla að koma inn og kaupa hlutinn. Svo varð ekki og það er spurning sem við ættum að leita skýrari svara við. Hvers vegna í ósköpunum gátu íslenskir lífeyrissjóðir ekki komið að þessari sölu, þar er bundið gríðarmikið fé og nú er talað um að það eigi að fjárfesta lífeyrisgreiðslur í vegaframkvæmdum og spítölum og samfélagslegum framkvæmdum sem ríkissjóður ræður einhverju um. En af hverju stukku lífeyrissjóðir ekki til og fjárfestu í orkuveitum á Íslandi þegar hlutur í þeim var falboðinn á góðum kjörum og greiðslur á afar hagstæðu kúluláni? Sætta þeir sem nú greiða í lífeyrissjóði sig við að iðgjöld þeirra séu notuð í lítt arðbærar framkvæmdir þegar í boði var fyrir lífeyrissjóðina að kaupa hluta í orkufyrirtækjum á tombóluverði?
Eða var ástandið öðruvísi? Var ríkisstjórn Íslands stillt upp við vegg og fékk ekki að tryggja að eignarhald á íslenskum orkuveitum væri í eigu almenningsfyrirtækja og íslenskra lífeyrissjóða vegna þess sem við vitum, ríkisstjórnin er undir hæl AGS núna og hér er ástand eins og lýst er í bókinni The Shock Doctrine og hér er umgjörð (t.d. orkulög) og reglur alþjóðasamfélags sem er sniðið til að viðhalda óréttlátu og fáránlegu kasínókapítalísku markaðshagkerfi, kerfi sem hefur sýnt að það virkar ekki og hvorki borgaryfirvöld né ríkisstjórn höfðu neitt val þegar öflugir erlendir aðilar lofuðu gulli og grænum skógi ef þeir gætu komist yfir meirihluta í íslensku orkufyrirtæki. Það segir sína sögu að Ross Beaty kom hingað í sérstaka ferð til að sannfæra Steingrím og kó á þeim tímapunkti þegar leit út fyrir að ríkið ætlaði að hafa milligöngu um að innlendir aðilar keyptu hlut HS Orku.
Reykjavík er höfuðborg Íslands og ákvarðanir sem eru teknar hérna í borginni um auðlindir skipta máli um líf og búsetu á Íslandi næstu áratugi. Við sem ætlum að búa og starfa á Íslandi og byggja hér upp gott þjóðfélag erum betri vörslumenn og eftirlitsaðilar með íslenskum auðlindum en fjarlægir fjárfestingaraðilar og bankamenn. En alþjóðastofnanir eins og AGS og World Bank kemur í mörgu fram eins og hagsmunagæsluaðilar fyrir einmitt fjarlæga erlenda fjárfesta sem eiga skjól á tortolaeyjum heimsins.
Við skulum beina reiði okkar og gagnrýni þangað sem hún á heima. Við skulum ekki vera viðhlæjendur AGS og World Bank og allra síst skulum við hlæja með þeim að okkur sjálfum og ógæfu smáþjóðar sem á í dag enga talsmenn og enga bandamenn á alþjóðavettvangi. Við skulum einnig beina reiði okkar og gagnrýni að Nató sem brást Íslendingum þegar önnur Bretland gerði hryðjuverkalagaárás á Ísland.
Ég enda þennan pistil á að birta brandara um Ísland sem ég sá á sínum tíma á vefsíðu World bank, það var á sérstökum þráð hagfræðinga World Bank þar sem fjallað var um efnahagshrun heimsins.
Sjá hérna:
Samstarfsþjóðir lána og World bank hæðist að neyð Íslendinga
![]() |
Farið verði fram á skýringar AGS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2009 | 10:11
Skrýtin tilkynning ríkisskattstjóra
Ef íslenskir borgarar tjá sig í ræðu og riti og reyna að skilja hvað gerðist á Íslandi geta þeir þá átt von á því að ríkisskattstjóri komi með opinberar yfirlýsingar sem varða þeirra einkahagi eða þess atvinnureksturs sem þeir stunda? Yfirlýsingar sem eru settar fram að því er virðist til að klekkja á viðkomandi og draga úr trúverðugleika.
Það er þessi setning sem ég get ekki séð að sé samboðin ábyrgu stjórnvaldi:
Þá hefur forráðamaður IT Ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustunnar ehf. lýst nauðsyn á auknu gagnsæi með kortlagningu eigenda félaga og rekstrar þeirra. Í ljósi þess vekur það athygli að það félag hefur á hinn bóginn ekki virt skýr fyrirmæli laga um afhendingu ársreikninga undanfarin þrjú ár, segir í tilkynningu ríkisskattstjóra.
Ég er ekki lögfræðingur og ég veit ekki hvort það er opinber gögn eða ekki hvort eitthvað einkafyrirtæki hafi "virt skýr fyrirmæli laga um afhendinga ársreikninga undanfarin þrú ár" en það er vægast sagt ekki gott stjórnarfar í landi þar sem þegnar sem tjá sig og gagnrýna stjórnvöld eiga von á því að þeirra persónulegir hagir séu dregnir fram í opinberum yfirlýsingum frá stjórnvöldum.
![]() |
Grunaður um upplýsingastuld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.9.2009 | 17:12
Hvar er persónuvernd núna?
Það er kaldranalegt ástand á Íslandi að Vinnumálastofnun sem greiðir fólki atvinnuleysisbætur fyrir að vera í atvinnuleit skuli núna geta samkeyrt að vild einhverjar nemendaskrár háskóla á Íslandi til þess að passa að nemendur í lánshæfu námi séu ekki á atvinnuleysisbótum.
Þetta gerist í sömu viku og opinberir aðilar kippa úr sambandi gagnagrunni sem sýnir tengsl í atvinnulífinu fyrir Hrunið og eftir því sem ég best veit þá er sá gagnagrunnur nú óaðgengilegur vegna persónuverndar. En hvar er persónuvernd varðandi upplýsingar um hvaða nám fólk sækir?
Þeir sem eru á atvinnuleysisbótum eiga að vera "virkir atvinnuleitendur". En málið er bara þannig á Íslandi í dag þá er enga að vinnu að fá nema fólk skapi sér hana sjálft, ennþá er atvinnulíf lamað eftir Hrunið. Það er raunar líka ljóst að stór hluti af vinnufæru fólki á Íslandi þarf að endurskólast og afla sér nýrrar færni. Bankastarfsemi og byggingarstarfsemi verður sennilega aldrei stórir atvinnuvegir og það fólk sem þar starfaði þarf sumt hvert að búa sig undir annars konar vinnu.
En finnst fólki virkilega eðlilegt að Vinnumálastofnun njósni um fólk sem er að reyna að bæta aðstöðu sína í lífinu með því að afla sér einhverrar menntunar og staðan er þannig á Íslandi í dag að engin skólagjöld eru í Háskóla Íslands og það kostar lítið að vera þar skráður í nám. Margir hugsa sér því að þreygja þessa erfiðu tíma þar sem þeir eru að leita að starfi sem ekki virðist vera í sjónmáli að skrá sig í einstök námskeið í háskólanum.
Það er ekkert fylgst með því í samfélaginu að fólk á atvinnuleysibótum hangi á krámog drekki frá sér ráð og rænu eða hangi heima hjá sér og einangrist.
Hvers vegna í ósköpunum eru þeir sem eru á atvinnuleysisbótum og reyna að þola ástandið með því að sækja námskeið í háskólanum sekir um bótasvik bara af því að einhverjir aðrir nemendur í sama námskeiði eru í lánshæfu námi? Hvað með ef einhver atvinnulaus er í fjarnámi við erlendan háskóla - námi sem gæti verið lánshæft hér á landi? Ætlar Vinnumálastofnun að láta samkeyra greiðsluskrá sína og nemendaskrá allra þeirra háskóla í heiminum sem bjóða fjarnám?
Eru það bótasvik að vera skráður í námskeið í háskólanum?
Það eru vissulega svik ef fólk sem er í fullu námshæfu námi er á atvinnuleysisbótum beinlínis í því augnamiði að komast hjá því að taka námslán. En þannig er því ekki varið með marga sem misstu vinnu eða fá ekki vinnu núna eftir hrun. Sumir eru ekkert á leið í nám, aðeins að leita að skjóli og viðfangsefnum til að sitja af sér versta óveðrið í atvinnulífi.
Það þarf engan sérfræðing til að sjá að ásókn í háskólanám á Íslandi núna er að einhverju leyti dulbúið atvinnuleysi. Það þarf heldur engan sérfræðing til að sjá að það er ekkert sem bendir til að allir þeir háskólanemar sem útskrifast á næstu misserum fái starf að loknu námi. Því miður er kreppan djúp og það sér ekki ennþá í botninn. Það fólk sem er í háskólanámi vegna þess að það fær ekki starf og tekur námslán er í raun að borga fyrir að vera atvinnulaust. Það borgar með því að safna skuldabagga inn í framtíðina, framtíð sem er ekki allt of björt í dag.
Það er mikilvægt að unnið verði að því að framfærsla námsmanna verði að hluta til styrkur sem allir geti fengið í einhvern tíma og svo að hluta til viðbótarnám. Þannig er það í nágrannalöndunum og t.d. í Danmörku er styrkurinn svo hár að námsmenn geta lifað bara á styrknum ef þeir fara afar sparlega með fé.
En ég spyr aftur. Hvar er persónuvernd núna? Hvers vegna í ósköpunum má samkeyra þessar skrár og hvað er að því að fólk á atvinnuleysisskrá sé innskráð í háskóla og sitji þar í tímum?
Ef hins vegar atvinnulaust fólk stundar nám af svo miklum þrótti og lýkur það mörgum einingum að það eigi rétt á námsláni þá er sjálfsagt að það sé tekið af atvinnuleysisbótum og beint í námslánakerfið. En það er ekki sjálfgefið hvaða upplýsingar Vinnumálastofnun getur krafið atvinnuleitendur um.
Það er líka ömurlegt að Vinnumálastofnun standi í veg fyrir að atvinnulaust fólk leiti eftir þekkingu og færni sem eykur möguleika þeirra í framtíðinni. Það er líka ömurlegt og fáránlegt að fólk fái atvinnuleysisbætur án þess að vera boðin einhver viðfangsefni svo sem nám, endurhæfing eða einhvers konar atvinnubótavinna.
![]() |
Skoða frekari bótasvik námsmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
15.9.2009 | 15:05
Gífurleg gremja
Ég held að borgarfulltrúar meirihlutans í Reykjavík skynji ekki hve gífurleg gremja, reiði og ólga er meðal allra hugsandi og upplýstra manna um hvernig núna er höndlað og möndlað með auðlindir landsins og það gert bak við tjöldin og reynt að blekkja almenning á sama hátt og gert var fyrir Hrunið - og ekki síst vegna þess að okkur grunar að þetta baktjaldamakk sé að kröfu AGS og erlendra stórvelda og stórfyrirtækja.
Vonandi verður afgreiðslu á Magma sölunni frestað í dag. Þessi sala á hlut OR í HS Orku virkar ekki mikið skref í því stóra máli sem er sala en það er ekki aðeins verið að selja hlut í orkufyrirtæki út af því að það er ekki í samræmi við lög að eiga þann hlut.
Núna er ég að hlusta á beina útsendingu á erindi Óskars Bergssonar fulltrúa okkar Framsóknarmanna. Óskar fer yfir málið og hvernig ríkisstjórnin kom að málinu.
![]() |
Hróp gerð að borgarstjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.9.2009 | 12:42
Undarlegt fréttaval Moggans
Ég er ein af þeim sem er ennþá áskrifandi að prentuðu útgáfu af Morgunblaðinu. Það er eins konar styrkur til góðgerðarmála frá minni hálfu, ég vil leggja mitt til að tryggja sem frjálsasta og óháðasta fjölmiðlun á Íslandi, vil tryggja að sjónarhorn í fjölmiðlum sé ekki eingöngu sjónarhorn þeirra sem eiga fyrir allar arðskapandi eigur á Íslandi og halda úti málgagni til að tryggja að svo verði um aldur og ævi. Þegar saga Hrunsins á Íslandi verður skráð þá er ómögulegt annað en tengja þá sögu við fjölmiðlun á Íslandi, fjölmiðlar og opinber umfjöllun voru kerfisbundið notuð til að dásama þá sem við vitum að voru ósvífnir og óheiðarlegir óþokkar og dásama viðskiptalíf og rekstur sem byggðist á blekkingum og svikamyllum.
En ég veit satt að segja ekki hvort ég eigi að halda áfram að styrkja rekstur Morgunblaðsins öllu lengur og halda áfram að vera áskrifandi sem borgar fyrir áskrift. Til hvers? Ég les sjaldnast prentuðu útgáfuna og það sem ég les bæði í prentuðu útgáfunni og á mbl.is núna er óbærilega litað af einhverju sem ég get ekki séð annað en sé samsafn af örvæntingarfullum plottum gjaldþrota og ærulausra fjárglæframanna sem eru að reyna að gera sér mat úr einhverju sem þeir grafa eftir í í rústum íslensks athafnalífs.
Fréttamiðlun á mbl.is hefur snarversnað síðan blaðið komst í núverandi eigu og það er augsýnilegt að það er ekki sá tilgangur með útgáfunni að vera gagnrýnisrödd og umræðuvettvangur, tilgangur með útgáfunni virðist að hagræða sannleikanum þannig að það samræmist sjónarmiðum þeirra sem höndla og möndla bak við tjöldin, tilgangur virðist vera að búa til tjöld sem þeir geta skýlst í og búa til sviðslýsingu þannig að það sem er gert bak við tjöldin virðist vera helgileikur píslarvotta í þjónustu samfélagsins þó allir hugsandi og upplýstir menn sjái að það er brunaútsala og eignauppstokkun sem eingöngu miðar að því að flytja sem mest verðmæti Íslendinga í skjóli myrkraðra tjalda beint til þeirra annað hvort beint eða sem umsýslulaun fyrir að vera handbendi erlendra stórfyrirtækja og gullgrafarafjárfesta.
Hvers konar fréttamat er það að setja inn lítt dulbúið plögg grein fyrir stefnu Sjálfstæðismanna í veitumálum einmitt á sama tíma og verið er að selja frjá borginni hluta í orkufyrirtæki til erlendra aðila, ekki bara það heldur er verið einmitt í dag að höggva gat í virkisvegg og sá virkisveggur verður því einskis virði lengur.
Morgunblaðið þegir þunnu hljóði yfir því sem er mál málanna í dag, sölu á hlut OR í HS Orku til Magma Energy og reynir ekki einu sinni að grafast fyrir um allt það undarlega sem virðist vera að gerast varðandi orkumál á Suðurnesjum heldur tekur þátt í að flytja fréttir sem eru plögg fyrir stjórnmálastefnu sem velflestir Íslendingar eru ósammála, stefnu sem hefur leitt af sér stórkostlegt hrun á Íslandi, stefnu skefjalausrar og eftirlitslausrar einkavæðingar og einkavinavæðingar og tengslavæðingar þar sem bræður og feðgar einhverra ættbálka skipta með sér og hrifsa til sín yfirráðum yfir öllum arðskapandi eigum á Íslandi, í dag til að selja þessi yfirráð úr landi.
Orðið kranafréttamennska er notuð um óvandaða fréttamennsku og ég held að það sé ágætt að halda sig við pípulagnir varðandi samlíkingu á hvernig fréttamennsku Morgunblaðið stundar núna.
![]() |
Milljarðatap Gagnaveitunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.9.2009 | 22:26
Frá Jöklabréfum til Jöklafyrirtækja - frá útrás til innrásar
Það er óþægileg en ekki óbærileg sviðsmynd að sjá fyrir sér þá framtíð að stór hluti af Suðurnesjum verði í eigu og umsjón alþjóðlegra fyrirtækja þar sem ofsagróði skýst til og frá og pumpast upp í pappírsyfirtækjum og þarna verði orkufyrirtæki og álbræðslur í eigu erlendra aðila. Í sjálfu sér er þetta ekki verra en ástandið var þegar stór hluti af Suðurnesjum voru hernaðarsvæði og þar bjuggu mörg þúsund hermenn. Erlent fjármagn er ekkert verra en loftbólufjármagn íslenskra útrásarvíkinga sem hér stýrðu stjórnmálamönnum, fjölmiðlum, bönkum og atvinnulífi og forseta. En það er gríðarlega mikilvægt að missa ekki ákvörðunarvald yfir íslenskum auðlindum og að almannahagsmunir ráði hvernig þær eru nýttar.
Það má hins vegar spyrja hvers virði sjálfstæði Íslendinga er þegar svo er komið. Fyrir Hrunið köstuðu nokkrir óprúttnir aðilar milli sínum fjöreggjum íslensku þjóðarinnar og þeir gerðu það studdir af regluveldi og lagaumhverfi sem markaðssinnaðir stjórnmálamenn höfðu komið á og á meðan horfðu þeir sömu stjórnmálamenn með velþóknun á þetta gerast og og klöppuðu og forsetinn klappaði mest allra og lofsöng þessa nútíma skraddara og þau nýju föt keisarans sem þeir saumuðu.
En það er óbærilegt að fylgjast nú með því sjónarspili sem núna er sett upp í því augnamiði að blekkja almenning og láta fólk sættast á að samfélagslegar atvinnuskapandi og arðskapandi eigur séu hrifsaðar út úr höndum okkar og greitt fyrir það með smápeningum og kúlulánum. Það er ekki nóg með að Íslendingar séu undir ofurvaldi þeirra sem beita þvingunum og hryðjuverkalögum gerðir að skuldaþrælum út af skuldum einhverra loftbólunetbanka á erlendri grundu sem bjó til peninga og dældi inn í fataleppa og prentsjoppur í Bretlandi heldur eru við núna rænd um hábjartan dag og vald yfir auðlindum þjóðarinnar teknar einhvers konar fjárhagslegu eignarnámi að mér virðist með sams konar aðferðum og viðskipti voru stunduð fyrir Hrunið.
Allt stefnir í að Magna Energy eignist HS orku í gegnum það að kaupa upp Geysir Green Energy og kaupa þannig upp hlut þess í HS Orku og svo kaupa hluti sem falboðnir eru af Orkuveitu Reykjavíkur. En það eru smápeningar sem þetta fyrirtæki ætlar að borga fyrir þann hlut, ekki nema helming af því sem kostar að virkja og miklu lægra en OR keypti hlutinn á og afborganir eru á mjög lágum vöxtum og einungis lítill hluti er greiddur út. Restin á kúluláni sem er með veði hlutnum sem verið er að selja. Það er auk þess ekki hið volduga kanadíska móðurfélag (þetta með nokkra samninga og 8 megawatta raforkuframleiðslu) sem ætlar að selja heldur er það sænskt skúffufyrirtæki en það er eingöngu stofnað til að brjóta sér leið bakdyramegin inn á íslenskan orkumarkað því íslensk lög taka fram að aðilar utan Evrópska efnahagssvæðisins megi ekki eiga íslensk orkufyrirtæki. Hvers virði eru lög? Eru þau bara einhvers virði sem réttlæting til að selja núna hlut OR í HS Orku af því að samkeppnislög banna OR að eiga meira en 10% í öðru orkufyrirtæki? Eru þau bara einhvers virði þegar kemur að því að tryggja erlend yfirráð yfir orkuauðlindum Íslendinga? Eru íslensk samkeppnislög tæki til að tryggja fákeppni og nánast einokun á orkusviði í framtíðinni? Eru íslensk samkeppnislög bara mikilvæg til að hjálpa því sem í fyrra var kallað útrás en var í raun innrás til að verða aftur sama innrás?
Orkufyrirtæki í erlendri eigu verður í einokunaraðstöðu í framtíðinni á Íslandi. Það er einföld ástæða fyrir því. Orkufyrirtæki í opinberri eigu eru allt annað rekstrarform og þau munu ekki koma að virkjunum sem hafa einhverja áhættu í för með sér og þau munu stíga mun varlega til jarðar en gullgrafarar sem leita að 1000% gróða sem þeir geta hrifsað strax til sín. Þau munu ekki heldur lofa fjárfestum ofurgróða ef þau þurfa að taka erlend lán og geta þannig ekki keppt við þá sem gera út á spilaborgarhagkerfi heimsins, þau munu auk þess vinna hægar og eignatengl þeirra eru ljósari og gagnsærri en einkafyrirtækja. Þannig mun t.d. ekki Río Tinto verða raunverulegur eigandi OR eða Landsvirkjunar en það er raunveruleg hætta að slíkt gerist varðandi virkjanafyrirtæki sem selja til álvera, þau geta með tímanum og án þess að við tökum eftir komist í eigu álfyrirtækjanna í gegnum fyrirtækjanet. Þetta með áhættureksturinn er það sama og með olíuauðlindir Norðmanna, Það er engin ástæða til að virkja neitt á Íslandi sem hefur einhverja áhættu, það er ekki verjandi að fara út í neina virkjun á Íslandi nema sýnt sé að hún sé mjög ábatasöm og þannig hefur það verið með þær virkjanir sem þegar hefur verið ráðist í á Íslandi. Það er m.a. út af umhverfissjónarmiðum afar mikilvægt að ekki sé spillt náttúru með virkjunum sem einhver tvísýna er á að séu arðbærar. Orkufyrirtækjum sem stjórnar er af Íslendingum og þar sem almenningur á Íslandi á fulltrúa eru miklu líklegri til að taka mið af langtímahagsmunum Íslendinga og langtímaumhverfissjónarmiðum.
Magna Energy er kanadískt fyrirtæki með frægan stjórnarformann, svona gróðakóng silfurnámanna. En Magma Energy í Kanada er gullgrafarafyrirtæki sem stefnir að ofsagróða en framleiðir svo að segja ekki neitt, framleiðir ekki neitt nema 8 megawött en hefur verið að tryggja sér samninga um virkjanaréttindi í nokkrum löndum t.d. Perú og Argentínu og gengið býsna vel því jarðvarmaveitur eru í tísku en fjárfestar telja að græn orka sé gróðalind ekki síst vegna þess að orkuframleiðsla heimsins vex minna en orkuþörf og orkuskortur fyrirsjáanlegur og viðurlög við mengun verða strangari. Þar að auki hefur tækni við jarðvarmaveitur fleygt fram í heiminum og hægt að virkja með þannig virkjunum á svæðum sem ekki var kleift áður.
Það er raunar ekki Magma Energy í Kanada sem framleiðir 8 Megawött, það er kanadíska móðurfélagið, félagið sem er að kaupa á Íslandi framleiðir ekki neitt, er eingöngu skúffufyrirtæki stofnað til að fara á svig við íslensk lög.
Ég er að reyna að átta mig á hvort hagsmunaaðilar tengdir Framsóknarflokknum spili eitthvað hlutverk í því sem nú er að gerast í viðskiptum í orkumálum á Íslandi. Allir sem taka þátt í stjórnmálastarfi eigi að skoða sinn heimaakur og ég skoða sérstaklega Framsóknarflokkinn enda vil ég vinna að því að minn flokkur leiði sem mest uppbyggingu og breytt vinnubrögð á Íslandi núna eftir Hrunið. Það gengur ekki að sökkva Íslendingum aftur ofan í sama dýpið, það eina sem dugar er að byggja hér upp þjóðfélag samhjálpar og samvinnu og hverfa frá blindri gróðahyggju og einkavæðingu og viðskiptalífi spilaborgarfjárglæfra. Mér virðist tengsl aðila tengdum Framsókn vera þannig að Finnur Ingólfsson fyrrum iðnaðarráðherra á fyrirtækið Fikt ehf og það fyrirtæki á ásamt Helga S. Gumundssyni fyrrum stjórnarmanni í Seðlabankanum fyrirtækið Landvar og það fyrirtæki á í VGK Invest. Mannvit verkfræðistofa á líka hlut í VGK invest og í gegnum það félag hlut í GGE. Landvar ehf (Helgi Guðmundsson og Finnur) og Þeta ehf. (Kristinn Hallgrímsson) eru félög sem munu eiga helmingshlut í VGK Invest , mig minnir að Landvar eigi meirihlutann af því .
Er VGK Invest þessi félög og VGK hönnun? Ég get nú reyndar ekki fundið annað en fyrirtækið Mannvit sé öflug og trúverðug verkfræðistofa, raunar eina vísbendingin um að alvörufærni sé á bak við þá sem standa að GGE. (heimild Mannvit á hlut í GGE í gegn um VGK-Invest)
En það virðist blekkingarleikur í gangi og sömu vinnubrögð og voru fyrir Hrun. Spagettikássa skúffufyrirtækja og látið sem fyrirtækin séu rekin af trúverðugum og öflugum aðilum þegar þau eru það ekki. VGK Invest er bara skúffufyrirtæki en það er látið eins og það sé verkfræðistofa. Hér er dæmi:
Mannvit sem er stærsta verkfræðistofa landsins er kynnt á vefsíðu Geysir Green energy (www.geysirgreenenergy.com) sem eigandi hlutsins sem VGK-Invest á.
Sjá vefslóðina http://www.geysirgreenenergy.com/about/shareholders/
Þar stendur að Mannvit Engineering ( VGK Invest) eigi 7 % af Geysir Green Energy og ef smellt er á nafnið þá er tenging í http://www.mannvit.com
Samt kemur fram í grein í DV 11. júlí 2009 og haft eftir Sigurði Arnalds stjórnanda hjá Mannvit orðrétt:
Mannvit á hlut með öðrum í allmörgum öðrum fyrirtækjum. Þau fyrirtæki eru að sjálfsögðu ekki Mannvit hf. Eitt þeirra er eignarhaldsfélagið VGK-Invest, sem á 6,8% hlut í Geysi Green Energy. Mannvit á þannig óbeinan hlut í því ágæta félagi.
Er þetta ekki sömu klækjabrögðin og voru þegar REI var kynnt eins og sama fyrirtæki og Orkuveita Reykjavíkur beinlínis til að slá ryki og blekkja erlenda fjárfesta?
Mér sýnist að það sé verið að blekkja erlenda fjárfesta alveg eins og íslenskan almenning.
Það er erfitt að finna út hver á hvað því skúffufyrirtækin virðast spretta upp og hverfa á augabragði en það sárgrætilegasta við fjármálagjörninga sem voru framdir fyrir hrun er að í flestum tilvikum var um einhvers konar skuldsettar yfirtökur að ræða og það voru bankar eða fyrirtæki sem áttu hvort annað og voru með einhvers konar blöff í gangi sem keyptu hluti í arðvænlegum íslenskum fyrirtækjum. Þannig býst ég við að hlutir í HS Orku hafi verið keyptir og það er íhugunar- og rannsóknarefni hve mikil raunveruleg verðmæti komu inn í t.d. GGE og hve mikið voru skuldir sem núna lenda á íslensku þjóðinni gegnum gjaldþrota fyrirtæki og verðlaus hlutabréf í eigu gjaldþrota banka sem lánuðu gegn veði í þessum bréfum.
Það verður að segjast eins og er að saga GGE er ekki saga upplýstrar og trúverðugrar umræðu og hún er ekki dæmi um heiðarlega samkeppnisiðju og fullkomið markaðshagkerfi. Svona tilraun til samkeppnisreksturs er skrípaleikur, má ég þá frekar biðja um ríkisrekstur stjórnað af aðilum sem eru trúir sínu samfélagi en hafa ekki gleymt því að þeir eru þjónar fólksins en hafa ekki fengið upp í hendurnar til einkaafnota spilafé til að taka þátt í matadorleik peningahagkerfis. Það er sárgrætilegt hvernig fé úr samvinnufélögum brann upp í ýmsum skrýtnum fjármálagjörningum.
En til að reyna að glöggva mig á hver á hvað þá er þetta yfirlit yfir GGE og hluta af sögu þess. Bjarni Ármannsson (þessi sem er í fréttum núna því hann telur óábyrgt að borga kúlulánin sín) og Hannes Smárason útrásarvíkingur koma þar mikið við sögu.
Í stuttu máli er saga GGE þessi, það er stofnað í byrjun árs 2007 af FL Group, Glitnir og VGK hönnun og er tilgangur félagsins að fjárfesta í verkefnum tengdum sjálfbærri orku víðs vegar um heiminn, sérstaklega jarðvarma. Þá var Hannes Smárason forstjóri FL GRoup og Bjarni Ármannsson forstjóri Glitnis. GGE réði Ásgeir Margeirsson fyrrverandi framkvæmdastjóra OR sem forstjóra.
Það er augljóst að GGE hafði einhverja "hidden agenda" og var beinlínis stofnað til að hrifsa til sín orkufyrirtæki sem yrðu einkavædd, já svona eins og endurtekin bankaeinkavæðingin. Það er áhugavert að fyrrum stjórnarformaður OR Guðlaugur Þór þingmaður Sjálfstæðismanna var talsmaður einkavæðingar orkufyrirtækja eins og raunar Illugi Gunnarsson (Sjóður 9 ) og það má í þessu sambandi skoða hve duglegur Guðlaugur var að hala inn fé í Sjálfstæðisflokkinn (sem flokkurinn hefur nú skilað og sýnt að hann ætlar að breyta um vinnubrögð, takk fyrir það Sjálfstæðismenn!)og það er sorglega grunsamlegt og þarfnast nánari rannsóknar hve tímasetning á stofnun GGE var því að sá stofnaðili sem átti leiðandi hlut í félaginu þ.e. Fl Group gaf gríðarmikið fé inn í Sjálfstæðisflokkinn fyrir orðastað stjórnmálamanns sem var stjórnarformaður Orkuveitu Reykvíkinga. Í frétt frá stofnun GGE segir: "Geysir Green Energy mun einbeita sér að tækifærum í nýtingu jarðvarma, fjárfestingum í þróun og byggingu jarðvarmaorkuvera, annast yfirtöku á jarðvarmaorkuverum í eigu orkufyrirtækja og taka þátt í einkavæðingu orkufyrirtækja þar sem tækifæri gefast."
Fl GRoup átti leiðandi hlut í GGE. Upphaflegt stofnfé var 100 milljónir dollara eða um 7 milljarðar á þáverandi gengi. Það er nú reyndar ekki augljóst hver á hvað í þessu félagi enda virðist það augljóst að margt var gert til að slá ryki í augu fjárfesta og/eða kröfuhafa t.d. varðandi Fl Group, það var í erlendri pressu látið eins og þetta væri miklu meira en það er.
Það sprakk allt upp í loft í Reykjavík út af REI málinu og þar verð ég að hrósa sexmenningunum í Sjálfstæðisflokknum og fulltrúum Vinstri grænna og Samfylkingar í OR fyrir að hafa stoppað þá vitleysu alla.
Það er raunalegt hvernig Össur sem þá var iðnaðarráðherra og Ólafur Ragnar forseti dingluðu með í þeim dansi, ég hef nú átt erfitt með að taka mark á þeim síðan þó ég virði þá báða sem heiðarlega og gáfaða stjórnmálamenn.
3. október 2007 var sagt frá því í fréttum að orkufyrirtækin REI (útrásararmur OR) og GGE hefðu sameinast og hlutaféð væri 40 milljarðar, OR ætti 35% hlut, FL Group 27% og Atorka 20%. Bjarni Ármannsson yrði stjórnarformaður og Guðmundur Þóroddsson forstjóri. Guðmundur fullyrti þá í að heildareignir væru 60 milljarðar og milljarðatugir í gróða í vændum.
Í fréttum var sagt frá að 500 milljóna króna hlutur Bjarna Ármannssonar, stjórnarformanns REI, hefði tvöfaldast að verðmæti á þremur vikum. Verðmætaaukningin væri hálfur milljarður króna og 5. október var vitnað í Bjarna sem þá taldi að REI væri metið á 65 milljarða króna en það hefði verið talið 18 milljarða króna virði tæpum mánuði áður.
Þetta er reyndar blekkingaleikur sem við vitum núna að útrásarvíkingarnir notuðu oft og iðulega, þeir seldu fram og til baka fyrirtækin og bréfin rokkuðu upp úr öllu valdi, ekki síst ef hægt var að láta þetta fara í gegnum banka sem var í höndum þessara sömu aðila. Svo byggðist íslenska fjármálaundrið einfaldlega á carry-trade.
Þess má reyndar geta að hlutur OR í Hitaveitu Suðurnesja (Nú HS Orku) átti að yfirfærast til Rei og svo átti REI að sameinast GGE. GGE átti 32% í Hitaveitu Suðurnesja og OR 16 %.
Össur iðnaðarráðherra féll hins vegar marflatur fyrir blekkingum útrásarvíkinga - nú eða það sem er verra - kannski spilaði hann með í blekkingunni til að blekkja umheiminn um hvernig ástandið væri á íslensku fjármálalífi - á sama hátt og forsætisráðherra og utanríkisráðherra þeystu um lönd til að sannfæra umheiminn um að allt væri í lagi með íslensku bankana einmitt þegar þeir römbuðu á heljarþröm og rétt áður en þeir steyptust niður í hyldýpið og tóku okkur með sér. Össur tjáði sig margoft um hvað það væri mikil viðskiptaleg snilld að búa svona til peninga úr engu. Þetta var m.a. haft eftir Össuri:
Aðspurður hvort hann teldi að rétt að borgin ætti fyrirtæki eins og REI sagðist Össur ekki hafa neinar hugmyndalegar efasemdir um það. Ég tel það hafa verið viðskiptalega snilld að koma þessum óefnislegu verðmætum, þekkingunni og reynslunni innan Orkuveitunnar, með þessum hætti í verðmæti," segir Össur.... Það er búið að leggja fram af hálfu borgarinnar 4,6 milljarða, hluturinn virðist vera 23 milljarða virði (Sjá Vísir - Viðskiptaleg snilld að koma þekkingu Orkuveitunnar í verðmæti )
Í útvarpsfréttum snemma í október 2007 sagði Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra að sér þætti mikil viðskiptaleg snilld ef tækist að búa til 1415 milljarða verðmæti nánast úr loftinu fyrir okkur skattborgara í Reykjavík með hinu nýja REI. Össur óskaði þess, að Reykjavíkurborg tækist að realísera þessi verðmæti. Hún gæti hugsanlega notað þau til að lækka orkuverð.(Sjá bjorn.is 16.3.2008)
Á nokkrum dögum í október 2007 poppuðust bréfin upp úr öllu og forsetinn og útrásarvíkingarnir voru á ferð og flugi að selja hugmyndina. Bjarni Ármannsson og Hannes Smárason fóru á fund í London og ég gat ekki betur séð á efni sem ég skoðaði á enskum vefsíðum en það væri verið að slá ryki í augu væntanlegra erlendra fjárfesta, það var látið eins og verið væri að kaupa sjálfa Orkuveitu Reykjavíkur og það var á ýmsum stöðum rætt um reynslu hennar sem frumkvöðuls í jarðvarmaorku. Á fundinum í London sögðu þeir Bjarni og Hannes Smárason, forstjóri FL Group, að eignir REI yrðu á bilinu 180 til 300 milljarðar króna, þegar félagið færi á markað árið 2009. Í fréttum hljóðvarps ríkisins kl. 18.00 7. október 2007 sagði: Á þriðjudaginn [2. október] flaug Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, til Kína í boði Glitnis. Þar var forsetinn að plögga jarðvarmaútrás/innrás á Íslandi.
Meirihlutasamstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokks klofnaði út af þessu REI máli og nýr meirihluti var myndaður 12. október. Hinn 1. nóvember 2007 hafnaði borgarráð samruna REI og GGE og ógilti bæði samrunann og tuttugu ára þjónustusaming REI við Orkuveitu Reykjavíkur. Hinn 2. nóvember ógilti stjórn OR einróma samruna REI og GGE. Hannes Smárason forstjóri FL Group hótaði skaðabótamáli en engin skaðabótakrafa barst.
Forseti Íslands Ólafur Ragnar og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI voru heiðraðir af Bill Clinton fyrir að lofa 8 til 9 milljörðum fimm árum til fjárfestinga í fátæka afríkuríkinu Djíbúti. Hvað varð af þeirri fjárfestingu, hver lofaði henni og er staðið við hana?
Í fyrrasumar var tilkynnt um 15 milljóna dollara hlutafjáraukningu bandaríska fyrirtækisins Wolfensohn & Co í Geysi Green Energy (GGE). Peningarnir hafa hins vegar ekki skilað sér oÓlafur Jóhann Ólafsson er genginn úr stjórn félagsins.
Svo gerist það í febrúar 2008 að þa FL Group leggur 18,4 % hlut inn í Glacier Renewable Energy Fund sem verður einn af glitnis sjóðum . Atorka jók hlut sinn í GGE í 43,8% (i gegnum dótturfélagið Atorka Renewable Energy Fund) og VKG Invest er komið með 10,8%. VKG Invest virðist svo verða að VGK Invest (Mannvit Engineering) og eiga 9 % (heimild um sögu GGE m.a. í grein Björns Bjarnasonar Hið misheppnaða snilldarbragð - enn um samruna REI og Geysir Green )
Þetta blogg er frekar sundurlaus samantekt á sögu GGE og hvernig valdaþræðir og hagsmunir tengjast því. Það er gríðarleg hætta einmitt núna þegar við erum í klemmdri stöðu að taka ákvarðanir sem skerða möguleika Reykvíkinga og annarra landsmanna í framtíðinni. Þetta blogg er líka aðvörun til Íslendinga og ákall til stjórnmálamanna, sérstaklega hinna ágætu borgarfulltrúa Reykjavíkur sem núna eru hverjum öðrum betri og vinna af trúmennsku fyrir borgina (Óskar er náttúrulega bestur enda er hann jarðbundinn og skynsamur Framsóknarmaður sem ég reyni mikið að sannfæra um að þessi sala sé ekki svo sniðug:-) um að fylgjast með því sem er að gerast og stoppa aftur svona vitleysu og spilaborgarblekkingarleik.
Sala á öllum hlut HS orku til einkaaðila í dularfullum skúffum og með kúluláni er ekkert að gera fyrir atvinnusköpun í Reykjavík en til langs tíma þá geta skrýtnir gjörningar í orkumálum eyðilagt möguleika borgarbúa og fólks hér í þéttbýlinu á suðvesturhorninu. Loforð eru loforð og stundum eru loforð líka loftbólur og þegar látið er í veðri vaka að Magna energy muni koma hér með mikið fé til virkjunarframkvæmda þá mun það ekki gerast nema ástandið breytist í heiminum. Og ef ástandið breytist í heiminum þannig að stóru fyrirtækin fara að byggja stóriðjuver aftur þá mun svo sannarlega verða eftirspurn eftir orkuverum á Íslandi og/eða hægt að fá fé til framkvæmda. Það getur líka verið að lögum verði breytt, það eru skrýtin samkeppnislög sem virka þveröfugt við það sem þau áttu að gera, samkeppnislög sem ala á spillingu og einokun og brjóta skúffufyrirtækjum leið inn í íslensk orkufyrirtæki. Það er verið að tryggja samninga núna, þetta er sami leikur og þegar aðilar tryggðu sér aðstöðu fyrir olíuhreinsunarstöð í Arnarfirði. Það hefur sennilega aldrei verið á teikniborðinu hjá því fyrirtæki að reisa þar olíuhreinsunarstöð heldur er aðalmálið að fá samninginn í heldur og bíða svo þangað til auðlindin þ.e. aðstaðan verður mikilsvirði og hægt að koma í verð.
Þetta er sama og spákaupmennirnir sem núna reyna að tryggja sér yfirráð yfir vatni vitandi það sem allir ættu að vita að vatn hækkar í verði. Þeir ætla ekki að reisa vatnsverksmiðjur, aðalatriðið er að hafa samninga til langs tíma um vatnssölu. Það eru svona viðskiptahættir sem draga að sér skúrka, svona eins og Iceland Glacier Products í Snæfellsbær
Núna spretta upp fyrirtæki með jökla í nafninu eins og Glaciers Partners Corp og Capacent Glacier og Glacier Renewable Energy Fund en það er ekki víst að það séu neinir raunverulegir jöklar bak við þau nöfn og hvað þá rennandi vatn.
![]() |
Samruni Geysis Green og HS Orku samþykktur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)