Undarlegt fréttaval Moggans

Ég er ein af þeim sem er ennþá áskrifandi að prentuðu útgáfu af Morgunblaðinu. Það er eins konar styrkur til góðgerðarmála frá minni hálfu, ég vil leggja mitt til að tryggja sem frjálsasta og óháðasta fjölmiðlun á Íslandi, vil tryggja að sjónarhorn í fjölmiðlum sé ekki eingöngu sjónarhorn þeirra sem eiga fyrir allar arðskapandi eigur á Íslandi og halda úti málgagni til að tryggja að svo verði um aldur og ævi. Þegar saga Hrunsins á Íslandi verður skráð þá er ómögulegt annað en tengja þá sögu við fjölmiðlun á Íslandi, fjölmiðlar og opinber umfjöllun voru kerfisbundið notuð til að dásama þá sem við vitum að voru ósvífnir og óheiðarlegir óþokkar  og dásama viðskiptalíf og rekstur sem byggðist á blekkingum og svikamyllum.

En ég veit satt að segja ekki hvort ég eigi að halda áfram að styrkja rekstur Morgunblaðsins öllu lengur og halda áfram að vera áskrifandi sem borgar fyrir áskrift.  Til hvers?  Ég les sjaldnast prentuðu útgáfuna og það sem ég les bæði í prentuðu útgáfunni og á mbl.is núna er óbærilega litað af einhverju sem ég get ekki séð annað en sé samsafn af örvæntingarfullum plottum gjaldþrota og ærulausra fjárglæframanna sem eru að reyna að gera sér mat úr einhverju sem þeir grafa eftir í  í rústum íslensks athafnalífs.

Fréttamiðlun á mbl.is hefur snarversnað síðan blaðið komst  í núverandi eigu og það er augsýnilegt að það er ekki sá tilgangur með útgáfunni að vera gagnrýnisrödd og umræðuvettvangur, tilgangur með útgáfunni virðist að hagræða sannleikanum þannig að það samræmist sjónarmiðum þeirra sem höndla og möndla bak við tjöldin, tilgangur virðist vera að búa til tjöld sem þeir geta skýlst í og búa til sviðslýsingu þannig að það sem er gert bak við tjöldin virðist vera helgileikur píslarvotta í þjónustu samfélagsins þó allir hugsandi og upplýstir menn sjái að það er brunaútsala og eignauppstokkun sem eingöngu miðar að því að flytja sem mest verðmæti Íslendinga  í skjóli myrkraðra tjalda beint til þeirra annað hvort beint eða sem umsýslulaun fyrir að vera handbendi erlendra stórfyrirtækja og gullgrafarafjárfesta.

Hvers konar fréttamat er það að setja inn lítt dulbúið plögg grein fyrir  stefnu Sjálfstæðismanna í veitumálum einmitt á sama tíma og verið er að selja frjá borginni hluta í orkufyrirtæki til erlendra aðila, ekki bara það heldur er verið einmitt í dag að höggva gat í virkisvegg og sá virkisveggur verður því einskis virði lengur.

Morgunblaðið þegir þunnu hljóði yfir því sem er mál málanna í dag, sölu á hlut OR í HS Orku til Magma Energy og reynir ekki einu sinni að grafast fyrir um allt það undarlega sem virðist vera að gerast varðandi orkumál á Suðurnesjum heldur tekur þátt í að flytja fréttir sem eru plögg fyrir stjórnmálastefnu sem velflestir Íslendingar eru ósammála, stefnu sem hefur leitt af sér stórkostlegt hrun á Íslandi, stefnu skefjalausrar og eftirlitslausrar einkavæðingar og einkavinavæðingar og tengslavæðingar þar sem bræður og feðgar einhverra ættbálka skipta með sér og hrifsa til sín yfirráðum yfir öllum arðskapandi eigum á Íslandi, í dag til að selja þessi yfirráð úr landi. 

Orðið kranafréttamennska er notuð um óvandaða fréttamennsku og ég held að það sé ágætt að halda sig við pípulagnir varðandi samlíkingu á hvernig fréttamennsku Morgunblaðið stundar núna. 


mbl.is Milljarðatap Gagnaveitunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Þannig að það væri hægt að vísa í bloggið þitt þá sem kranablogg?

Snýst þetta ekki frekar um mat fólks á því hvað sé fréttnæmt og hvað ekki og það er auðvitað háð skoðun hvers og eins?

En endilega haltu áfram „góðgerðarstarfssemi“ þinni og greiddu áskriftina, hún stendur m.a. undir þessum vettvangi sem þú gasprar á . . .

Magnús V. Skúlason, 15.9.2009 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband