15.3.2008 | 14:21
Femínistafélagið 5. ára
Femínistafélagið varð fimm ára í gær. Stofnfundur var haldinn 14. mars árið 2003 og framhaldsstofnfundur var haldinn 1. apríl 2003. Ég mætti á báða fundina og á seinni fundinum þá tók ég að mér að vera ráðskona í vefhópi og var það í tvö ár. Það var gífurleg vinna og oft mjög erfitt vegna þess að mikið af virkni félagsins var þá sem nú í póstlistaumræðunni og þar var oft gneistaflug. Sem dæmi má nefna að einn daginn voru send um 70 bréf á póstlistann og það voru beittar umræður.
Hér er ein af myndunum sem ég tók á stofnfundinum fyrir 5 árum, Kristín Helga dóttir mín var þá 13 ára og hún sést fremst á myndinni.
Fleiri myndir frá stofnfundinum 14. mars 2003
Í gærkvöldi byrjuðu afmælishátíðarhöld Femínistafélagsins með sýningu og úrslitum úr mínútumyndastuttmyndasamkeppni sem félagið stóð fyrir. Kristín Helga tók þátt í samkeppninni og sendi inn stuttmynd sem reyndar var um 3 mínútur. Hér er mynd af Kristínu Helgu (lengst til vinstri) og vinkonum hennar Kristinu og Ragnheiði sem léku í myndinni.
Kristín Helga setti myndina sína sem heitir Ef kona væri karl og karl væri kona inn á youtube og hún er hérna:
Ég er mjög stolt af fyrstu stuttmynd dótturinnar og það er ekkert verra að það sé mynd með femínisku yrkisefni.
Hér eru fleiri myndir frá mínútumyndahátíðinni og afmælisfagnaðinum í Norræna húsinu í gærkvöldi.
bloggið mitt fyrir 5 árum þegar ég fór á stofnfundinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2008 | 20:17
Þungt högg
Ég renndi yfir dóminn á vef hæstaréttar Bróðir minn tapar málinu og ég er náttúrulega langt frá því að vera hlutlaus. Þetta þýðir væntanlega mikið fjárhagstjón og álitshnekki, bæði þarf að greiða sekt og hluta af málskostnaði Auðar Sveinsdóttur auk alls eigin málskostnaðar.
Hér eru gildandi höfundarréttarlög
http://www.althingi.is/lagas/nuna/1972073.html
Skaðabætur dæmdir hæstiréttur eftir þessari málsgrein:
56. gr. Þegar saknæmt brot á lögum þessum hefur haft fétjón í för með sér, ber að bæta það eftir almennum reglum fébótaréttar.
Dæma skal höfundi og listflytjanda miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti þeirra með ólögmætri háttsemi.
Það er áhugavert hvernig Hæstiréttur reiknar út hverjar fébæturnar eigi að vera. Það er svona:
Í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti byggði aðaláfrýjandi á því að ef litið væri til allra tilvikanna hefði gagnáfrýjandi nýtt sér 320 síður eða byrjaðar síður úr ritverkum Halldórs. Var því ekki sérstaklega mótmælt. Séu hin fébótaskyldu tilvik metin með svipuðum hætti gætu þau samsvarað rúmlega 210 síðum eða byrjuðum síðum úr verkum skáldsins. Verða fébætur til handa aðaláfrýjanda metnar að álitum með hliðsjón af því og leiðbeinandi gjaldskrá Rithöfundasambands Íslands, sem vikið er að í V. kafla hér að framan. Teljast þær hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur.
Ég held að þetta mál verði í framtíðinni notað sem dæmi um þegar tvenns konar menning kallast á og hugsanlega tekið sem dæmi um dauðateygjur lesmenningar sem víkur fyrir skrif og lesmenningu (read-write culture)
Það er áhugavert að lesa röksemdir stefnanda:
Telur stefnandi að hafa beri í huga að Halldór Laxness hafi verið og sé enn einhver merkasti rithöfundur þjóðarinnar og að verk hans og sá höfundarréttur sem þeim fylgir sé í senn mikilvægur og verðmætur. Stefndi hafi, með ólögmætum og saknæmum hætti, eignað sér ritverk Halldórs í miklum mæli, sér til hagsbóta, sbr. t.d. 5. gr. höfundalaga.
Brot stefnda felist einkum í því að stefndi hafi hagnýtt sér höfundarréttarverndaðan texta úr bókum og öðrum ritverkum Halldórs Laxness, fellt hann inn í bók sína og gert textann þannig að sínum eigin, án þess að aðgreina hann sérstaklega eða geta heimildar með fullnægjandi hætti.
þetta mál úr íslenskum veruleika á margt sameiginlegt með því sem er að gerast á öllum sviðum stafrænnar menningar. Höfundarréttur sem nú er í lýði tekur ekki tillit til þess stafræna veruleika sem við lifum í. Ég hvet alla til að kynna sér verk Larry Lessig og það er ágætt að byrja á því að horfa á myndbandið How creativity is being strangled by the law
Ég held reyndar að Halldór Laxness, sá stóri hugsuður sem hann var hefði verið mikill talsmaður sömu hugmynda og Larry Lessig talar fyrir og hugsanlega gefið út sín verk út með cc-nc-sa höfundarleyfi ef hann hefði verið uppi á okkar tíma. Vonandi líður ekki á löngu þangað til íslenskir rithöfundar fara að birta verk sín með þannig höfundarleyfi. Vonandi líður ekki á löngu þangað til við getum hætt að skoða nota efni nema það sé með einhverjum opnum höfundarrétti. Vonandi munum við í framtíðinni geta unnið með verk höfunda sem leyfa alveg skrumskæld remix af sínum verkum.
Ranglátur dómur (Stefán Pálsson tjáir sig um dóminn)
![]() |
Höfundarréttur tekinn alvarlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.3.2008 kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
13.3.2008 | 16:26
Frítt að lemja löggur á Íslandi
Þegar maður les dóminn yfir þeim Algis Rucinskas, Sarunas Urniezius og Vitalij Gagin þá veltir maður fyrir sér hvort það verði ekki nýtt sport hjá útlendingum að flykkjast til Íslands til að buffa löggurnar okkar. Útlendingarnir geta bara yppt öxlum og sagt "I don´t speak Icelandic, I don´t understand". Svo borgar ríkisvaldið fyrir þá málvarnarkostnað og klappar þeim á öxlina og sendir þá út í frelsið. Um langt skeið hefur hefur Ísland verið markaðsett í ferðamennskunni sem svaðafaraparadís, fólk kemur hingað til að veiða hreindýr og ganga óbyggðir og þeytast niður flúðir. Núna bætast sem sagt lögguveiðar yfir nýja og frekar ódýra afþreyingu fyrir túrista.
Það má lesa þennan dóm í heild á Dómasafni Héraðsdóms Reykjavíkur, 12. mars 2008 í máli nr. S-128/2008
Lögreglumennirnir sem voru óeinkennisklæddir munu hafa haft afskipti af fólki í vímu sem ætlaði að keyra af stað. Þá koma árásarmennirnir að og í dómnum bera lögreglumennirnir vitni um eftirfarandi:
"Stúlkan gekk til okkar og spurði okkur brosandi hvort við værum að ráðast á stelpu. EV-0329 kynnti henni með því að sýna henni lögregluskilríki sín að við værum lögreglumenn og bað hana um að koma ekki að okkur þar sem við værum að vinna. Í framhaldi af þessu komu nokkrir aðilar út úr bifreiðunum og hlupu að okkur. EV sýndi þeim lögregluskilríki sín en okkur var strax ljóst að þeir væru erlendir og kölluðum við því til þeirra Police ítrekað. Auk EV náði HBS-0422 að sýna mönnunum lögregluskilríki sín og hrópa að þeim að við værum lögreglumenn. Réðust mennirnir engu að síður á okkur með höggum og spörkum. "
Í dómsorðinu er það hins vegar talið vafamál að árásarmennirnir hafi vitað að þeir væru að ráðast á löggur. Þar segir:
Ákærðu bera allir að þeir hafi fyrst gert sér grein fyrir að um lögreglumenn var að ræða þegar þeir heyrðu það hrópað á ensku og höfðu þeir sig þá á brott eins og rakið var. Þegar virtur er framburður ákærðu og vitna um það hvort og hvenær lögreglumennirnir sýndu skilríki sín er það niðurstaða dómsins að verulegur vafi leiki á hvort ákærða hafi mátt vera ljóst að um lögreglumenn var að ræða þegar hann sló þá Eirík Valberg og Jón Gunnar eins og hann hefur verið sakfelldur fyrir.
Þar segir líka:
Ákærði Algis greiði 17.550 krónur í sakarkostnað en að öðru leyti skal hann greiddur úr ríkissjóði. Hann greiði helming málsvarnarlauna verjanda síns, Jónasar Þórs Guðmundssonar hdl., 850.000 krónur, en helmingur þeirra skal greiddur úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun verjanda ákærða Sarunas, Bjarna Haukssonar hdl., og verjanda ákærða Vitalij, Lárentsínusar Kristjánssonar hrl., 850.000 krónur til hvors, skulu greidd úr ríkissjóði.
Ég er alveg steinhissa hvað það er billegt að ráðast á löggur á Íslandi. Hvernig hefði þetta verið ef þetta hefðu verið óbreyttir borgarar sem ráðist hefði verið á? Hefðu dómstólar á Íslandi borgað þeim Algis Rucinskas, Sarunas Urniezius og Vitalij Gagin fyrir að ráðast á okkur sem aldrei erum í einkenningsbúning?
![]() |
Kurr í lögreglumönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.3.2008 | 12:44
Friðþæging - þegar vitnið verður sakborningur
Á sunnudaginn fór ég á kvikmyndina Friðþæging eða Atonement út í Kaupmannahöfn. Myndin fjallar stúlkuna Briony, systur hennar og ástmann systurinnar og hefst þegar Briony er 13 ára. Söguhetjan hefur frjótt ímyndarafl og myndin hefst þegar hún er að skrifa sitt fyrsta leikrit og myndin endar þegar hún er gömul kona og heilabiluð að skrifa sína síðustu sögu sem hún segir sanna sögu skrifaða til að bæta fyrir brot sín sem barn. Hver voru þessi brot? Þau voru að þennan dag taldi hún sig sjá ýmis merki um að Robbie væri kynóður og hún taldi sig standa hann að verki við að nauðga unglingsstúlku.
Sagan er eftir Ian McEwan. Ég hef ekkert lesið eftir þann rithöfund en af umsögnum um bækur hans get ég ráðið að hann fjallar mikið um minnið og heilastarfsemi og mismunandi upplifun. Reyndar tók ég eftir að í wikipedia greinunum þá var nokkrum sinnum minnst á heilabilaðar konur sem persónur í verkum hans.
En frá femínisku sjónarmiði er áhugaverður boðskapur í þessari mynd. Sagan er eins og ævintýri sem endurómar þennan boðskap: "það sem þú sást og það sem þú varst vitni að er ekki sannleikur - þín mynd af heiminum er ekki rétt - maðurinn sem þú hélst að væri ófreskja var bara graður og ástanginn strákur". Það er líka dáldið skrýtið hvernig vitni að ákveðnu atviki sem lýsir því sem hún sá eða taldi sig sjá verður glæpamaðurinn og hinn sakborni og hinn sakbitni.
Svo vill til að Íslendingur er einn mesti sérfræðingur í svona minnismálum. Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur er sérfræðingur í réttarhöldum það sem sakborningar treysta ekki á eigin minni heldur á minni annarra og hafa þannig játað á sig glæpi sem þeir halda að þeir hafi framið og minni að þeir hafi framið, þetta kallast Memory distrust Syndrome
Hér eru nokkrar slóðir tengdar myndinni og verkum höfundarins:Atonement (vefsíða myndarinnar)
Friðþæging - Mögnuð kvikmyndaupplifun - markusth.blog.is
Saturday eftir Ian McEwan bokabloggid.wordpress.is
Amsterdam eftir Ian McEwan bokabloggid.wordpress.is
Annað: það var mjög erfitt að horfa á þessa mynd án þess að verða ergilegur vegna hins yfirþyrmandi dulbúna reykingaáróðurs í myndinni. það væri nú sögufölsun að láta eins og reykingar hafi ekki verið til á þessum tíma og það hefði ef til vill þjónað sögunni að láta sögupersónur reykja. En þessar yfirþyrmandi reykingar við öll hugsanlega tækifæri voru greinileg auglýsing kostuð af hagmunaaðilum sem vilja að reykingar nái til fleiri markhópa, ekki síst til kvenna og dæla svona dulbúnum auglýsingum inn í myndir sem eru líklegar til að verða skoðaðar af mörgum.
Kvikmyndir | Breytt 11.3.2008 kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.3.2008 | 10:12
Hverfidyrnar í amerískri kosningabaráttu og alþjóðlegur baráttudagur kvenna 8. mars
Ég er hér í Kóngsins Kaupmannahöfn....úpppss... afsakið Kaupmannahöfn Drottningarinnar Margrétar Þórhildar.. tími kónganna er liðinn og það er 8. mars, alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Ég kíki á mbl.is til að athuga hvort þar sé ekki þema um kvennamálefni en finn ekkert í íslensku pressunni og bloggumræðunni nema upplýsingar um eitthvað Kastljósklúður þar sem vitlaus auglýsing virðist hafa farið í loftið.
En talandi um konur og kosningabaráttu og auglýsingar þá vil ég benda á bloggið mitt frá janúar 2007 Bush, Björn Ingi, fangelsi og fatnaður kvenna þar sem ég fjalla um frægustu og áhrifaríkustu auglýsingu í amerískri kosningabaráttu, auglýsinguna um hverfidyrnar. Þetta var ógeðslega lúaleg og viðbjóðsleg auglýsing, dæmi um neikvæða umfjöllun en því miður virkaði hún og kom Bush eldri til valda. Hér er bloggið mitt frá 2007:
Sjaldan hef ég séð frjálslegra og skáldlegra farið með sannleikann og stjórnmálasöguna en í pistlinum Ein af strákunum okkar eftir Jón Karl en svo mikil áhrif hefur pistillinn á Björn Inga oddvita okkar Framsóknarmanna í borgarstjórn að hann endurómar tal strákanna um klæðnað kvennanna í þessum pistli: Hvað eiga George Bush, Þorgerður Katrín og Siv Friðleifsdóttir sameiginlegt?
Aðalspekin í bloggum Jóns Karls og Björns Inga virðist vera útlitspælingar um kvenfólk í framboði og því haldið fram að það að sýnast sæll og pattaralegur og iðjulaus að skemmta sér hafi úrslitaáhrif á kosningar og hafi valdið því að Bush eldri sigraði Dukakis árið 1988 því : "Úrslit kosninga ráðast ekki af málflutningi frambjóðenda heldur líkamstjáningu þeirra, því sem á ensku kallast body-language."
Þannig vill til að ég var búsett í Bandaríkjunum eimitt þegar Dukakis versus Bush eldri slagurinn var háður og fylgdist vel með baráttunni. Það er af og frá að úrslit þeirra kosninga hafi ráðist vegna sviðsframkomu og líkamstjáningar Bush. Úrslitin réðust vegna harðrar auglýsingahríðar og hræðsluáróðurs þar mannúðarstefna Dukakis var skotin niður og þeirri hugsun haldið á lofti að það þyrfti öflug fangelsi til að passa þegnanna fyrir óbótamönnum. Mannúðarstefna Dukakis sem hann fylgdi sem fylkisstjóri bendist meðal annars að fangelsismálum en þessi stefna var í auglýsingum frá áróðursmaskínu Bush útmáluð sem kerfi sem sleppti lausum stórhættulegum nauðgurum. Þessar auglýsingar ólu á kynþáttafordómum og hatri miðstéttar á þeim sem verst eru settir í samfélaginu.
Áhrifamesta auglýsingin var Revovling Doors auglýsingin, ég held að út af þeirri auglýsingu hafi Dukakis tapað. Hún glumdi við í mörgum sjónvarpsstöðvum daginn út og daginn inn og allir vissu hver nauðgarinn Willie Horton var. Þessar auglýsingar voru ömurlegt, lúalegt og viðbjóðslegt dæmi um það sem kallað er "negative advertisment", að ráðast á andstæðinginn og ata hann út með ásökunum. Ég held að auglýsingamaðurinn sem gerði þessar auglýsingar hafi iðrast svo mikið að hann hafi sérstaklega á banabeði beðið Dukakis fyrirgefningar á þessu.
Þegar saga Bandaríkjanna er skoðuð frá þeim tíma sem Bush eldri vann Dukakis og sérstaklega staðan í dag þegar aldrei hafa verið fleiri í fangelsum í Bandaríkjunum og það er hluti af reynslu stórs hluta bandarískra blökkumanna að dvelja í fangelsi og það ömurlegasta sem Bandaríkjamenn aðhafast á alþjóðavettvangi eru fangaflutningar og rekstur á viðbjóðslegum fangelsum sem lúta í engu því sem við teljum til mannúðarstefnu og mannréttinda þá getum við ekki annað en hugsað hvað hefði gerst ef Dukakis hefði unnið. Hefði sagan orðið öðruvísi og hver er að vernda hvern fyrir hverjum með þessari ofuráherslu á fangelsi og lögregluríki?
Karlmönnum á Íslandi þykir eflaust skemmtilegt að pæla í klæðnaði og framkomu íslenskra kvenna í stjórnmálum og tengja þær við stjórnmálasögu bandaríska til að ljá sögum sínum trúverðugri blæ og búa til einhver body-language stjórmálafræði sem hjálpa til að stilla konum upp eins gripum til að horfa á, ekki til að hlusta á. En svoleiðis sögur eru ekki sannleikur.
Á meðan ég skrifa þetta er ég á málstofu á NERA ráðstefnunni, málstofan heitir Foucault and the Governmentality og Lifelong Learning. Mér finnst viðeigandi að byrja 8. mars hátíðarhöld mín hérna í Kaupmannahöfn með því að hugleiða vald og nám með aðstoð Foucault. Andreas Fejes er að flytja fyrirlestur um bókina Foucault and Lifelong Learning og Katherine Nicoll
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2008 | 15:24
Kastljósviðtalið við vídeóbloggarann
Ég fékk mínar fimm mínútur af frægð í Kastljósinu fyrir viku síðan. Það var ég kölluð vídeóbloggari og sýnt voða fyndið og viðvaningsleg vídeóskot af blogginu mínu, annað þar sem ég er að prófa viðtal við fræðimann frá Lithauen sem kom í heimsókn til okkar og hitt þar sem ég er tapa mér í vídeóeffektunum og töfra fram eldglæringar og sjó á skrifstofu minni. Ég náttúrulega held kúlinu og segi að þetta sé partur af vídeóbloggmennskunni að sjást að ég kann lítið á græjurnar og hef litlar og aumingalegar græjur, svona eins konar vídeoblogg dogma. Það er nú reyndar ekki alveg sannleikur, mér finnst mjög gaman af því að hafa góð verkfæri og gott hráefni til að vinna úr við svona vídeólistsköpun og býð í ofvæni eftir að smágræjurnar verði betri. Stafrænu myndavélarnar eru orðnar góðar en ennþá er langt í land að hljóð og vídeó sé af viðunandi gæðum í svona youtube/ustream umhverfi.
hér er viðtalið, ég tók það upp á ustream því það hverfur í gleymskunnar dá af vef RÚV eftir 2 vikur.
Ef þetta spilast ekki þá vistaði ég það líka hérna: Kastljósviðtalið við mig (vistað á Íslandi)
Ég geymi þetta upp á vídeóbloggsögu Íslands svo að þegar Egill Helgason uppgötvar vídeóblogg þá geti ég sýnt fram á að það hafi verið til áður. En eins og allir vita þá gnæfir Egill yfir íslenskum fjölmiðlaheimi og lýsir íslenskum veruleika í bókmenntum og stjórnmálum að að hlutirnir eru ekki til fyrr en hann hefur komið auga á þá eða farið að experimenta sjálfur. Þannig fann Egill upp bloggið á sínum tíma.
En það er spennandi að ef til vill verða allir eða flestir komnir með einhvers konar vídeóútsendingar og sína eigin rás á Internetinu eftir einn áratug. Þegar ég var lítil stelpa var vinsælt skemmtiatriði á skólaskemmtunum að leika leikþátt þar sem útvarpsþáttum hafði slengst saman og út kom mikill ruglingur. Þetta fannst okkur alltaf jafnfyndið og það þó ég sé alin upp í þeim veruleika að það var bara alltaf hlustað á eina rás, það hét að hlusta á útvarpið og það var náttúrulega það sem núna heitir Rás 1.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2008 | 17:29
Fimm netfundadagur
Þetta er sex fundadagur. Það sem af er þessum degi hef ég farið á fjóra netfundi og einn venjulegan gamaldags fund í fundarherberginu í Bolholti. Þar minntumst við þess að það eru 10 ár síðan fyrsta kennslukerfið var tekið í notkun í KHÍ. Það var kerfi sem hét Web Course in a Box, ég prófaði það á námskeiðum 1998. Núna einkennist fjarnámið hér við skólann af því að hér er notað Web CT kennslukerfið. Ekki hefði mig grunað hvað miklar breytingar hafa orðið á bara einum áratug. fyrir utan alla þessa netfundi í dag þá hef ég líka tekið þátt í umræðum og sent tilkynningar til nemenda inn í WebCT í dag.
Eftir korter fer ég svo á síðasta netfund dagsins.
Fyrst fór ég á fund í kerfinu operator11.com með nemendum sem voru að koma úr vettvangsnámi, þau sögðu frá hvernig þeim gekk á vettvangi og hvað þau sáu þar. Svo fór ég á fund með fólki sem er að undirbúa Nordplus umsókn, sá fundur fór fram í kerfinu Breeze frá Adobe fyrirtækinu. Svo fór ég á útsendingu þar sem nemendur á öðru námskeiði voru með netkennslustund í ustream.tv. Það voru 12 sem fylgdust með útsendingunni. Það gekk mjög vel.
Svo kíkti ég aðeins inn á spjall þar sem nemendur hittust eftir netútsendinguna á mebeam.com sem er svona vídeóspjall þar sem allir geta verið í mynd á sama tíma. Svo byrjar núna rétt bráðum seinasti fundur dagsins í operator11.com
Núna eru allir nemendur mínir með vefmyndavél og hljóðnema en svona netfundir eru samt frekar nýir af nálinni og oft klikkar tæknidótið eða virkar svo illa að það er ekki hægt að notast við það.
Á morgun fer ég til Kaupmannahafnar á NERA ráðstefnuna.
Skjámyndir úr breeze og mebeam.
Svona upp á Nostalgíuna þá lími ég hérna inn bréf sem ég sendi fyrir akkúrat 10 árum (5. mars 1998) til samstarfsmanna eftir að Sólveig Jakobsdóttir hafði bent á mjög sniðugt kennslukerfi á vefnum. Það fjallar um kennslukerfi sem er að ég held það fyrsta sem prófað var í íslenskum skólum. Ég man að nemendum fannst mjög sérstakt að það væri hægt að taka próf á vefnum. Ég prófaði þetta kerfi fyrst á námskeiði í mars 1998. Núna eru mörg kennslukerfi í notkun á Íslandi t.d. Web CT og Blackboard, Moodle, Its Learning, Ugla og mörg fleiri. Þetta er einkenni á því tímabili sem er í hámarki núna í netvæðingu skólakerfisins.
En sem sagt fyrir 10 árum var þetta ákaflega nýstárlegt. Hér er bréfið:
From: Salvor Gissurardottir [mailto:salvor@khi.is]
Sent: 5. mars 1998 14:54
To: fjarkenn2@ismennt.is
Cc: Salvor Gissurardottir
Subject: Námsumhverfi á vef - Web Course in a Box
Sólveig sendi okkur í dag slóðina http://www.madduck.com/ og bað um
umræður um þetta verkfæri. Ég bregst hér með við:
Ég skoðaði WCB (svo er kerfið skammstafað) bæði sem nemandi og kennari.
Mér leist vel á suma hluti, sérstaklega virtist kerfið vera einfalt og
aðgengilegt. Þetta er svona námsumhverfi til að halda utan um námskeið,
þ.e. birta á vefsíðum, lexíur (kennslubréf), umræður, krossapróf,
námskeiðsáætlanir og fleira. Hægt var að tengja þetta öðrum vefsíðum og
svo setja myndir á vefsíður sem gerðar eru í þessu kerfi. Afar einfalt
er að gera vefsíður. Það er bara að hafa ritvinnslukerfið sitt opið og
skjal þar sem flytja á vefsíðu og líma það svo inn í WCB. Svo er hægt að
kalla á mynd. Ég prófaði að búa til smánámskeið (sjá vefslóð:
http://www.madduck.com/wcb/schools/TST/sdd/instruct/490/index.html það
verður að gefa upp notendanafn og lykilorðið instruct ) og það gekk bara
vel þó ég kynni ekkert á kerfið, ég setti inn námáætlun, tímaplan, helstu
slóðir og tvö kennslubréf og bjó svo til umræðulista fyrir námskeiðs
(vefumræður) þetta tók skamma stund.
Fyrirsagnirnar koma á ensku, veit ekki hvort hægt er að breyta því.
Þetta kerfi byggir á hefðbundum "metaphor" þ.e. líkir eftir námskeiði í
venjulegum bandarískum háskóla.
Mér finnst þetta einfalt kerfi og auðlæranlegt, umhverfið var fallegt,
stílhreint og aðlaðandi. Ég varð við þessa litlu prófun hjá mér ekki vör
við neina stóra ókosti. Veit ekki hvernig það virkar fyrir stóra
nemendahópa t.d. heila árganga í staðbundnu námi í KHÍ
Einn afar stór kostur er við þetta kerfi
**** Það er ókeypis *****
Þetta þýðir að það er sáralítið áhætta að prófa það, ef það gengur vel þá
geta aðrir skólar notað það og kostnaður stendur ekki í vegi fyrir notkun.
Ég held það væri mikill fengur að nota svona kerfi, ekki síst vegna þess
að það er þörf á einhverri staðlaðri uppsetningu á vefsíðum.
ÉG býð mig fram í að prófa þetta kerfi í raunverulegum tímum, þetta
passar afar vel í námsþætt sem ég er með á næstunni sem heitir
Námsumhverfi á veraldarvefnum.
Til þess þarf að setja kerfið upp á "server" hér í KHÍ.
Það get ég ekki gert, það er verksvið kerfisþjónustu.
Ég ætla því að biðja um að kerfið verði sett upp.
Gaman væri að vita hvort einhverjir aðrir vildu setja upp námskeið eða
litla námskeiðsþætti í þessu kerfi.
kær kveðja,
Salvör
Tölvur og tækni | Breytt 6.3.2008 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.3.2008 | 16:53
Málþingsblogg - Heyrnarhjálp
Ég held áfram að gera tilraunir með útsendingar á ustream.tv og ég tek upp þessar útsendingar og lími hérna inn á bloggið. Það má reyndar frekar kalla þetta netútsendingar eða streymimiðlun á einni rás frekar en vídeóblogg. Hér á bloggið set ég upptökuna en útsendingin hjá mér var fyrr í dag.
Þessi útsending fjallar um málþing Heyrnarhjálpar um aðgengismál sem ég fór á í gær. Þetta eru 20 mínútur í spilun. Ég var með litlu stafrænu myndavélina mína og tók smá vídeóbrot af nokkrum af fyrirlesurunum að tala. Það var dáldið myndrænna en vanalega á ráðstefnum því alltaf var túlkað á milli, stundum frá táknmáli yfir á raddmál og stundum í hina áttina og svo var alltaf rittúlkur sem skrifaði það sem fyrirlesarar sögðu og því var varpað upp á stóran skjá. Ég held að allir sem halda ráðstefnur og málþing græði mikið á að nota svona netútsendingar, það hefði verið hægt að senda allt út líka þannig að ýmsir sem eiga ekki heimangengt t.d. fólk sem býr langt frá ráðstefnustað geti líka fylgst með.
Það er magnað hvað það er stór hópur fólks sem býr við einhvers konar heyrnarskerðingu og hvað það eru fáir af þeim hópi sem eru að nota heyrnartæki, í mörgum tilvikum af því þeir gera sér ekki grein fyrir heyrnarskerðingu sinni og þeim möguleikum sem eru á hjálpartækjum.
Annars er ég orðin svolítið leið á vídeóbloggi og svona netútsendingum. Þetta er hrikalega brothætt umhverfi, maður veit aldrei hvenær tengingin er í lagi. Heima hjá mér á ég að vera með 12 mb Internettengingu en sama hversu oft ég mæli hana á bandvíddarmælingum erlendum þá fæ ég ekki nema um 3 mb samband og ég get hvorki skoðað ustream útsendingarnar mínar né sent út heima og ég get ekki nema stundum skoðað youtube vídeó því hraðinn er svo hryllilega lítill að hljóðið og myndin kemur eftir dúk og disk allt brenglað og bjagað. Þetta er mjög þreytandi. Ég hugsa að þetta sé að hluta tengt álagi hjá ustream og youtube og slíkum ókeypis vefþjónustum en sá grunur læðist líka að mér að Internetþjónustuaðilar á Íslandi séu að svindla á manni, þykist bjóða miklu betri Internetsamband en þeir gera og flöskuhálsinn sé að þeir hafa bara ekki keypt eða ráða ekki yfir nema lítilli bandvídd á sæstrengnum milli Íslands og umheimisins. Það hefur ákkúrat ekkert fyrir mig að segja að hafa 12 mb bandvídd bara innanlands. Það er bara lítið brot af því sem ég er að gera á Interneti eitthvað sem er gert hérna á skerinu. Meira að segja er allt sem er í íslensku wikipedia vistað erlendis.
En ég er sem sagt frústreraður vídeóbloggari í dag. Ekkert virkar. Takk fyrir samt að hafa rafmagn. Svo ég muni eftir að þetta gæti gengið verr.
3.3.2008 | 15:35
Sannleikurinn um einhverfu
Ég er að fara á málþing hjá Heyrnarhjálp á eftir, ég flyt þar erindi. Ég hef verið að skoða undanfarið efni á vefnum sem tengist þeim sem tjá sig á hátt sem ég skil ekki. Hér er áhugavert myndband af konu sem einhverf og tjáir sig með handahreyfingum vakti athygli mína. Það er góð grein í Wired um þessa konu og einhverfurannsóknir.
3.3.2008 | 15:01
Erindi á málþingi í Harnosand í Svíþjóð nóvember 2007
Ég flutti erindi á málþingi í Harnosand í Svíþjóð í nóvember síðastliðnum. Mér tókst áðan að taka það upp í ustream og tengi í það hérna. Heiti erindisins er Mentors in Open Learning Environments. Talið kemur eitthvað skrýtið sums staðar. Þetta var sent út á sínum tíma í kerfi sem heitir Marratech en einnig var stór hópur í fyrirlestrasalnum í Harnosand.