Málþingsblogg - Heyrnarhjálp

Ég held áfram að gera tilraunir með útsendingar á ustream.tv og ég tek upp þessar útsendingar og lími hérna inn á bloggið. Það má reyndar frekar kalla þetta netútsendingar eða streymimiðlun á einni rás frekar en vídeóblogg. Hér á bloggið set ég upptökuna en útsendingin hjá mér var fyrr í dag.

 

Þessi útsending fjallar um málþing Heyrnarhjálpar um aðgengismál sem ég fór á í gær. Þetta eru 20 mínútur í spilun. Ég var með litlu stafrænu myndavélina mína og tók smá vídeóbrot af nokkrum af fyrirlesurunum að tala. Það var dáldið myndrænna en vanalega á ráðstefnum því alltaf var túlkað á milli, stundum frá táknmáli yfir á raddmál og stundum í hina áttina og svo var alltaf rittúlkur sem skrifaði það sem fyrirlesarar sögðu og því var varpað upp á stóran skjá. Ég held að allir sem halda ráðstefnur og málþing græði mikið á að nota svona netútsendingar, það hefði verið hægt að senda allt út líka þannig að ýmsir sem eiga ekki heimangengt t.d. fólk sem býr langt frá ráðstefnustað geti líka fylgst með.

Það er magnað hvað það er stór hópur fólks sem býr við einhvers konar heyrnarskerðingu og hvað það eru fáir af þeim hópi sem eru að nota heyrnartæki, í mörgum tilvikum af því þeir gera sér ekki grein fyrir heyrnarskerðingu sinni og þeim möguleikum sem eru á hjálpartækjum.  

Annars er ég orðin svolítið leið á vídeóbloggi og svona netútsendingum. Þetta er hrikalega brothætt umhverfi, maður veit aldrei hvenær tengingin er í lagi. Heima hjá mér á ég að vera með 12 mb Internettengingu  en sama hversu oft ég mæli hana á bandvíddarmælingum erlendum þá fæ ég ekki nema um 3 mb samband og ég get hvorki skoðað ustream útsendingarnar mínar né sent út heima og ég get ekki nema stundum skoðað youtube vídeó því hraðinn er svo hryllilega lítill að hljóðið og myndin kemur eftir dúk og disk allt brenglað og bjagað. Þetta er mjög þreytandi. Ég hugsa að þetta sé að hluta tengt álagi hjá ustream og youtube og slíkum ókeypis vefþjónustum en sá grunur læðist líka að mér að Internetþjónustuaðilar á Íslandi séu að svindla á manni, þykist bjóða miklu betri Internetsamband en þeir gera og flöskuhálsinn sé að þeir hafa bara ekki keypt eða ráða ekki yfir nema lítilli bandvídd á sæstrengnum milli Íslands og umheimisins. Það hefur ákkúrat ekkert fyrir mig að segja að hafa 12 mb bandvídd bara innanlands. Það er bara lítið brot af því sem ég er að gera á Interneti eitthvað sem er gert hérna á skerinu. Meira að segja er allt sem er í íslensku wikipedia vistað erlendis.

En ég er sem sagt frústreraður vídeóbloggari í dag. Ekkert virkar. Takk fyrir samt að hafa rafmagn. Svo ég muni eftir að þetta gæti gengið verr.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Salvör.

Takk fyrir að vekja athygli á málþinginu. Góð umfjöllun hjá þér og núna get ég vísað samkennurum á bloggið þitt ef þeir vilja sjá og heyra það sem fram fór.

Það er eitt mjög hvimleitt við bloggsíðuna þína þessa dagana, en það er að Össur Skarphéðinsson viðrist alltaf byrja að tala um leið og ég fer inn á hana. Svo verð ég að skrolla langt niður til þess að þagga niður í honum. Ekki það að ég hafi eitthvað á móti Össurri, hann er mætur maður, en öllu má nú ofgera.

Kveðja,
Fjóla Þorvalds.

Fjóla Þorvalds. (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 18:33

2 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

Skiptir máli að konur séu í áhrifastöðum?

Fjölkvennum á fund á NASA við Austurvöll laugardaginn 8.mars 2008 klukkan 17:00.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 5.3.2008 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband