8.6.2008 | 22:40
Villti tryllti Villi og viðskiptaplottin í Jesúborginni
Það datt nú reyndar aldrei nokkrum heilvita manni í hug að Vilhjálmur yrði borgarstjóra þegar Ólafur gæfi eftir stólinn. Auðvitað er Hanna Birna þá eðlilegt borgarstjóraefni, hún er skelegg kjarnorkukona og hefur ekkert skandalíserað nema náttúrulega vera ekki fyrir lifandis löngu búin að berja í borðið og heimta leiðtogastöðuna. Það er erfitt að skilja þetta slen, sennilega var þetta allt ákveðið bak við tjöldin því að Það hefur verið hálfömurlegt að sjá hana og aðra ágæta borgarfulltrúa Sjálfstæðismanna dansa eins og leikbrúður í einhverjum kjartans-villa plottum og stilla sér upp á myndum bak við leiðtogann seinheppna Vilhjálm, vansæl á svip enda að eyða milljarð af fé borgarbúa í húskofarugl. Sérstaklega var seinasti fréttamannafundur Vilhjálms í Valhöll meira klúður en dæmi eru til, það var bara ekki annað hægt en að vorkenna Sjálfstæðismönnum í Reykjavík þá. Það klúður næstum toppaði (eða botnaði) hnífasett-í-bakinu-jakkafatamálið hjá okkur Framsóknarmönnum nema var ekki næstum eins fyndið.
Fyrirsögnin í þessu bloggi á nú ekki við um Vilhjálm fyrrverandi borgarstjóra og fyrrverandi verðandi borgarstjóra heldur er það sótt til skemmtistaðsins sem var við Skúlagötu og hét Villti tryllti Villi.
Núna er í Villta tryllta Villa búið að opna stærsta kúnstgallerý landsins, það heitir Reykjavík Art Gallery, Skúlagötu 30.
Ég brá mér á opnun þar á laugardaginn, þar voru nokkrir listamenn að sýna verk sín. Ein verkið sem sýnt var heitir "Bisness as usual in the City of Jesus" eftir Ómar Stefánsson. Ómar segir um það verk:
Umrædd mynd á yfirstandandi sýningu er byggð á endurminningum frá New York. Já, ég lá þarna á einhverjum grasbala með vini mínum sem var í námi. Var að fylgjast með aðalstöðvum Votta Jehóva. Þarna voru brýr milli húsa og vottarnir á fleygiferð, klæddir eins og þeir eru klæddir með skjalatöskur. Þetta var eins og risastór banki. Þetta var sýn fyrir sveitamanninn. Ég notaði þetta og breytti í fantasíu. Kristileg þemu mörg sem hrærast saman og hvert ofan á annað." (Sjá hérna Ómar ögrar með málverki )
Hér er tvær myndir frá sýningunni, verk Ómars er í bakgrunni.
Ég hitti á opnuninni bekkjarsystur mína frá því í barnaskóla, Ólöfu. Maður hennar Pétur Halldórsson var að sýna verk, hér stendur Ólöf við eitt verka hans sem heitir Kambar ef ég man rétt.
Pétur er sonur Halldórs Péturssonar okkar frábæra teiknara. Ég skrifaði þessa grein um Halldór á Wikipedia.
Það er gaman að bera saman verk Péturs og föður hans, báðir frábærir listamenn og verkin endurspegla að einhverju leyti samtíð þeirra og það samfélag sem þeir búa í. Verkin segja okkur heilmikið um lífssýn listamannanna. Faðir Halldórs og afi Péturs var Pétur Halldórsson sem var borgarstjóri í Reykjavík á árunum 1935 til 1940.
Hmmm... Ég sé að Pétur Halldórsson er eini borgarstjórinn sem ekki er búið að skrifa grein eftir inn á íslensku wikipedia, best að ég byrji á því að skrifa þessa grein.
Það er þegar komin grein um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur inn á Wikipedia. Þegar hún verður borgarstjóri þá þarf bara að bæta í greinina um hana skipuninni [[flokkur:Borgarstjórar Reykjavíkur]] og bæta tengingu neðst í greinina Borgarstjóri Reykjavíkur.
Hvernig ætli það verði svo eftir 70 ár. Ef til vill verða afkomendur borgarstjóranna fyrrverandi og verðandi borgarstjóra þeirra Vilhjálms, Ólafs og Hönnu Birnu kannski listamenn að lýsa samtíma sínum og listrýmið sem þau sýna í er eitthvað rými sem við tengjum ekki við list í dag.
Núna í dag er listin í gömlu pakkhúsi (Hafnarhúsinu) og gömlu íshúsi (Listasafn Íslands). Kannski verður Kringlan þá orðin listamiðstöð. Alla vega er nú listin að fikra sig áfram inn í Verslunarskólann, Sölvi leiðir þar stofnun á listgreina menntaskóla.
![]() |
Hanna Birna oddviti strax |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.6.2008 | 20:01
Wikinews um jarðskjálftann í Grikklandi
Hér er fréttin Large earthquake shakes Greece á en.wikinews.org. Þegar jarðskjálftinn reið yfir Ísland fyrir rúmri viku þá skrifaði ég grein Strong earthquake strikes southwestern Iceland
inn á wikinews. Wikinews er fréttakerfi sem virkar eins og wikipedia og er rekið af sömu aðilum þannig að það er auðvelt að tengja í greinar á wikipedia og myndir og margmiðlunarefni á samnýtta gagnagrunninum commons.mediawiki.org
Þegar breytingasaga greinarinnar sem ég skrifaði er skoðuð þá má sjá að greininni hefur verið breytt 36 sinnum, þar af 12 sinnum af mér. Ég sé að ég skrifaði fyrst í þá grein 29 maí kl. 16:25
Það er áhugavert að sjá hversu fljótt og ítarlegar fréttir koma á wikinews um jarðskjálftann á Grikklandi núna. Fréttakerfi sem tengist wikipedia hefur burði til að vera miklu ítarlegra með alls konar bakgrunnsupplýsingar. Ég ætlaði að reyna að setja slíkar bakgrunnsupplýsingar í fréttina um Suðurlandsskjálftann 29. maí en því miður þá vantar ennþá mjög margar greinar inn á ensku wikipedia um íslenskar aðstæður, ég fann t.d. enga grein um Suðurlandsskjálfta.
Þessi jarðskjálfti núna í Grikklandi virðist svipaður og sá sem var á Íslandi fyrir viku síðan. Þetta er nú dáldið ógnvekjandi, eins gott að það er ekki árið 2012.
En ef maður trúir nú frekar á að það sem gerist eigi sér jarðfræðilegar skýringar þá er ekki úr vegi að lesa sér til í jarðfræði núna. Júlíus hefur nokkur fín blogg um Hveragerðis og Reykjavíkur titringinn síðustu daga.
Sjá hérna:
Borgarhristingur - spennan magnast
Heitt á könnunni í Hveragerði - Hvenær sýður uppúr?
Júlíus bendir á að íbúðabyggð er svokölluðu Norðlingaholtssvæði, milli Rauðavatns og Elliðavatns. Þar hefur nú risið blómleg byggð, reist á sprungum í jarðlögum. Vatnsból Reykvíkinga geta líka mengast í jarðskjálftum.
Það hefur nú líka komið ný vá með þessari nýju tísku að byggja húsin á kviksandi út í sjó. Þetta heita uppfyllingar og hverfin á kviksandinum eru kölluð bryggjuhverfi.
Er kannski fjármálahverfið við Sæbraut byggt að hluta á slíkum kviksandi?
Mér finnst nú atburðir síðustu viku vera tilefni til að fara yfir jarðskjálftavá í Reykjavík og kortleggja hvaða hættur eru mestar. Það þurfa reyndar margar borgir að gera, því hefur verið spáð að í San Fransisko komi fljótlega afar harðir jarðskjálftar.
![]() |
Tveir látnir í Grikklandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.6.2008 | 13:51
Hvað er Vatnajökulsþjóðgarður stór?
Mér finnst óþolandi að vita ekki hvort Vatnajökulsþjóðgarður er 13% af Íslandi eða 15% af Íslandi eða hvort hann nær yfir 13 þús eða 15 þús. ferkílómetra. Ég nefnilega held áfram iðju minni að skrifa greinar inn á Wikipedia og þar verða upplýsingar að vera réttar og nákvæmar, ekki síst þegar maður er að montast með að þetta sé stærsti þjóðgarður í Evrópu. Það er ekki trúverðugt ef maður veit svo ekki hvað þjóðgarðurinn er stór. Hérna er íslenska greinin sem ég skrifaði á wikipedia um Vatnajökulþjóðgarð og hérna er grein sem ég var að enda við að skrifa á ensku wikipedia um Vatnajökull National Park.
Mér finnst þeir aðilar sem hafa það sem hluta af vinnu sinni að fræða bæði Íslendinga og erlenda tilvonandi ferðamenn um Ísland passi ekki nógu vel upp á hvað Wikipedia er mikilvæg heimild og byrjunarreitur fyrir ferðamenn og almenning og hve mikilvægt er að þar séu upplýsingar réttar og nægar um helstu ferðamannastaði og náttúruvætti. Google notar Wikipedia mikið og greinar í Wikipedia poppa oft efst í leit. Þannig fletti ég upp orðinu Vatnajökulsþjóðgarður áðan á Google og sé að wikipedia greinin sem ég skrifaði og hef verið að breyta kemur efst og svo þar á eftir þá kemur tilkynning um frá umhverfisráðuneytinu um rútuferðir á stofnhátíðina.
Ég held að þessu rútuferðatilkynning sé gagnleg fyrir marga í dag en það er miklu mikilvægara upp á ferðamennsku og náttúruvernd á Íslandi að þeim sem gúgla,sem eru sennilega allir sem leita að upplýsingum á Netinu af Íslandi, sem beint á einhverjar bitastæðar upplýsingar.
Svo tók ég eftir að það var ekki komin nein grein á ensku wikipedia um Vatnajökulþjóðgarð og ekki búið að breyta neitt greinunum um Skaftafell og Jökulsárgjúfur þ.e. segja að þær myndu falla undir Vatnajökulsþjóðgarð.
Á síðum hjá umhverfisráðuneyti er talað um að Vatnajökulsþjóðgarður verði 15 þús en á síðu hjá Icelandic Tourist board stendur að hann sé 13 þús ferkílómetrar. Mig grunar að það sé stefnt að því að þjóðgarðurinn verði 15 þús en sé núna við opnun 13 þús. Ég hins vegar sé það hvergi skrifað og veit ekki hvora töluna ég á að taka með. Það eru líka afar litlar upplýsingar fyrir almenning um Vatnajökulsþjóðgarð á vefsíðu umhverfisráðuneytis, undarlega litlar miðað við hversu merkilegur þessi nýi þjóðgarður er, ekki bara fyrir Ísland heldur fyrir allan heiminn. Af hverju er ekki komið sérstakt vefsetur um þjóðgarðinn?
Ég sé nú reyndar á síðu hjá Iceland Tourist Board að þar benda menn á ensku Wikipedia greinina um Vatnajökull. Því spyr ég eins og fávís kona: Af hverju skrifa ferðamálayfirvöld bara ekki greinar sjálfir inn á ensku wikipedia eða fá kunnáttumenn til að þess og/eða vakta hvort upplýsingar séu réttar í wikipedia greinum og hvort þeim sem gúgla sé beint á bitastæðar upplýsingar t.d. af hverju var ekki búið að skrifa grein á ensku um Vatnajökulsþjóðgarð í dag?
Ég verð svolítið pirruð yfir þessu óvissa 2% af Íslandi (15 % - 13%) og tek ekki gleði mína á ný fyrr en ég veit nákvæmlega upp á fermetra hvað Vatnajökulsþjóðgarður er stór í dag á stofndaginn. Þetta er einhver töluþráhyggja, ég þoli ekki ónákvæmar og misvísandi tölur þar sem þær gætu verið nákvæmari.
En til hamingju Íslendingar og allur heimurinn með Vatnajökulþjóðgarð!
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
6.6.2008 | 13:25
Hvammsvík - framtíðarútivistarsvæði Reykvíkinga og nærsveita
Nú hefur Orkuveitan auglýst Hvammsvík til sölu en undanskilur jarðhitaréttindi. Eftir því sem ég veit þá er það ekki leyfilegt, ég hélt að jarðhiti væri hlunnindi á jörðinni og að hlunnindi mætti ekki selja eða undanskilja sérstaklega frá jörðum. En hvað veit ég, hið öfluga fyrirtæki Orkuveitan hlýtur að hafa leitað til hers lögfræðinga og ekki veit ég betur en forstjórinn þar sé lögfræðingur. Óskað er eftir tilboðum fyrir lok dags 18. júní.
Ég skrifaði fyrir nokkru bloggið Má selja Hvammsvík án jarðhitaréttinda?
Það má deila um hvort eðlilegt sé að Orkuveitan eigi Hvammsvík, mér hefði þótt eðlilegt að sú jörð heyrði beint undir bReykjavíkurborg og væri í eigu og undir stjórn sama apparats og á Heiðmörk og önnur útivistarsvæði. Það er Skógræktarfélag Reykjavíkur sem hefur umsjón með Heiðmörk. Hugsanlega er þessi söluauglýsing á Hvammsvík til málamynda til að fá fram hversu mikils virði jörðin væri ef hún væri selt í dag.
En ég ætla að vona að það sé ekki ætlunin að selja Hvammsvík til auðmanna sem geta lokað fyrir allt aðgengi almennings að þessari náttúruparadís. Jörð á ægifögrum stað nánast við borgarlandið er fjársjóður Reykvíkinga og miklu meira virði að slík jörð sé í eigu Reykvíkinga en nokkrir gamlir húskofar við Laugaveginn. Þó ég hafi ekki verið sátt við að borgarstjóri spreðaði milljarði af fé borgarbúa til að kaupa upp húskofa þá virði ég núverandi borgarstjóra fyrir að vera umhverfissinna og vilja varðveita menningarminjar. En til hvers á að vernda umhverfið og náttúruna? Á Ísland að vera leikvangur og einkaparadís þeirra sem hafa ógrynni fés milli handa? Á að miða náttúruverndarstefnu á Íslandi við að allt sé sem ósnortnast og flottast fyrir þá sem eiga fé og geta keypt sér aðgang?
Ég hringdi áðan á skrifstofu Skógræktarfélags Reykjavíkur og talaði við framkvæmdastjórann og spurðist fyrir hvað félagið ætlaði að gera varðandi þetta. Ég stóla á að öflug félagssamtök eins og Skógræktarfélagið gæti hagsmuna Reykjavíkinga í þessu máli, það virðist enginn annar ætla að gera það. Ég ætla líka að skrifa bréf til stjórnar félagsins. Best ég skrifi líka borgarstjóra og borgarstjórn um hversu alvarlegt það er ef Hvammsvík fer úr eigu borgarbúa í hendur á einhverjum auðmanni sem vill hafa svæðið fyrir sig og ráða aðgengi almennings þar eða í hendur spákaupmanna sem ætla að búta þetta svæði niður í lóðir eða til aðila sem vilja búa þarna til "country club" að amerískri fyrirmynd.
Hvammsvík getur orðið önnur Heiðmörk, þetta er jörð við bæjarmörkin í Reykjavík og held ég að Kjósarhreppur hljóti þegar tímar líða fram að sameinast öðrum sveitarfélögum og það gæti farið svo að Hvammsvík yrði hluti af Reykjavík og að samgöngur þar yrðu þægilegar og ódýrar fyrir borgarbúa. Fyrir efnalítið fólk og börn er mikilvægt að hafa útivistarparadísir sem næst borginni, helst þannig að þangað sé hægt hjóla eða taka strætó. Hvammsvík hlýtur líka að geta verið afar verðmæt sem útivistarsvæði fyrir börn og svæði til útikennslu fyrir grunnskólana í Reykjavík. Á jörðinni er margs konar gróðurríki og hún nær fjöru til fjalls og þar eru tjarnir og klettar og fjölbreytt landslag og gríðarfallegt.
Það er afar mikil skammsýni að vilja selja þessa jörð úr hendi Reykvíkinga.
Landnúmer Hvamms er 126107 og Hvammsvíkur er 126106 .
Lönd jarðanna Hvamms og Hvammsvíkur liggja á strönd Hvalfjarðar gegnt Ferstiklu og Saurbæ vestan Hvalfjarðar. Landamerki liggja að merkjum við Háls/Neðri Háls til suðurs og vesturs og Hvítaness til austurs. Á Reynivallahálsi liggja merkin á vatnaskilum gegnt Neðri Hálsi og Valdastöðum 1 og II.
Hér eru glefsur um Hvammsvík og Heiðmörk og Esjuhlíðar
Mbl. 25. apríl, 2002 :
Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að jarðirnar Mógilsá og Kollafjörður verði að mestu útivistarsvæði en þær eru um 1000 hektarar að stærð. Þetta svæði er þegar mjög vinsælt enda hefst helsta gönguleiðin upp á Esjuna þar. Skógræktarfélag Reykjavíkur gerði samning við landbúnaðarráðuneytið, sem er eigandi jarðanna, um þessa uppbyggingu og mun hafa umsjón með því verki. "Ljóst er að félagið þarf að leita stuðnings við það verk og er vonast til að hægt verði að fá fyrirtæki og félög til að koma að verkefninu," sagði Vignir. Við Hvammsvík í Kjós er annað svæði sem kallast Hvammsmörk, sem er eign Orkuveitu Reykjavíkur. Þar hefur verið skipulagt skógræktarsvæði, sem félagið hefur umsjón með samkvæmt samningi við orkuveituna. "Í Hvammsmörk höfum við verið að deila út landspildum til félaga og einstaklinga og þar er markmiðið að byggja upp útivistarsvæði, með gönguleiðum, áningarstöðum og annarri aðstöðu."
Ársskýrsla Skógræktarfélags Reykjavíkur 2006:
Framlag borgarinnar í dag er um 22 milljónir kr. til reksturs Heiðmerkur, svæðis sem er 31 km2 að stærð, en til samanburðar er allt byggt svæði borgarinnar, auk allra annarra grænna svæða, um 38 km2 (Austurheiðar ekki meðtaldar). Samkvæmt Gallupkönnun haustið 2004 kom í ljós að Reykvíkingar heimsóttu skóglendi 900 þúsund sinnum á hverju ári. Samkvæmt nýrri Gallupkönnun eru heimsóknir Reykvíkinga í Heiðmörk um 335.000. Ef gert er ráð fyrir að sama hlutfall annarra íbúa
höfuðborgarsvæðisins heimsæki Heiðmörkina eru það um 530.000 heimsóknir á ári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.6.2008 | 16:46
Ísbjörn og draumur

Það var sorglegt að ísbjörninn var drepinn. Það var mikið voðaverk. Ég ætla ekki að heimsækja það safn sem í framtíðinni státar af þessum ísbirni uppstoppuðum.
En mér finnst óþægilegt að sjá allar þessar ísbjarnarfréttir. Þær minna mig á draum sem mig dreymdi um miðjan janúar árið 1995. Þá hafði mikið snjóað og móðir mín og fleiri ættingjar voru áhyggjufullir um hvort Hellisheiðin yrði ófær því þau voru á leið norður, ætluðu í jarðarför Huldu frænku minnar á Höllustöðum.
Einum eða tveimur nóttum fyrir jarðarförina dreymdi mig draum þannig að mér fannst ég búa í sjávarþorpi. Þá sé ég að upp úr sjónum á höfninni í þessu þorpi kemur ísbjörn. Ekki svo svona ísbjörn eins og ég sé vanalega í þessum náttúrulífsþáttum, ekki svona kraftmikill og hættulegur ísbjörn með þykkan og hvítan feld heldur meira eins og einhver vera sem skreiðist örmagna á land. Ég man eftir að það fyrsta sem ég hugsaði í draumnum var að koma þyrftir fréttum sem fyrst til fjölmiðla og í draumnum flýti ég mér í símaklefa sem stóð einn sér í þorpinu til að hringja inn fréttaskot til fjölmiðla um ísbjarnarkomuna. Ég man líka eftir að ég var mjög hrædd um að ísbjörninn gæti brotist inn og brotið niður húsið sem ég bjó í, húsið var hrófatildur, sérstaklega útbygging og inngangur sem sneri í átt að sjónum, ég var hrædd um dætur mínar sem mér fannst líka búa í þessu húsi.
Einum eða tveimur dögum eftir að mig dreymdi þennan draum þá féll snjóflóðið í Súðavík þannig að ég tengdi þennan draum við þá atburði. Ég er samt ekki viss um að ég sé búin að finna þorpið í draumnum, ég hugsa alltaf um þennan draum þegar ég er í sjávarþorpi þar sem er símklefi.
![]() |
Einmana og villtur hvítabjörn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.6.2008 | 19:32
Skjálftavaktin
Mér finnst eitthvað að upplýsingakerfinu hjá fjölmiðlum og veðurstofu. Af hverju fáum við upplýsingarnar ekki strax frá aðilum sem eiga að sjá um þessa vakt. Í þessum skjálfta hristust skjáir hjá mér og ég fór strax á Netið á töfluna hjá veðurstofunni.
Ég get ekkert séð ennþá um þennan skjálfta á Recent Earthquakes
Ég get heldur ekkert séð um skjálftann í sjálfvirku óyfirförnu töflunni hjá veðurstofunni.
Samt er klukkan núna 19:31 eða klukkustund síðan skjálfti sem var milli 4 til 4.5 á richter gekk yfir.
Það er klukkustund síðan skjálftinn varð.
Ég get ekki fundið annað en núna sé skjálftahrina.
Uppfært:
Núna er ég búin að sjá þetta hjá veðurstofunni. Það er fullt af skjálfum að ganga yfir. Ekki bara þessi stóri sem varð kl. 18:30. Ég er ekki ímyndunarveik. Það var skjálfti kl. 19:17 sem var 3,1 og hann var líka nálægt Skálafelli. Svo var skjálfti á næstum sama tíma nálægt Borgarnesi. Verst er nú að vera á Selfossi. Ég hugsa að mörgum sem búa á Selfossi og þar um kring líði mjög illa núna.
![]() |
Snarpur kippur á Hellisheiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.5.2008 | 08:24
Flóðbylgja í Færeyjum
Ísland er heitur reitur. Eins konar súla sem rís upp úr hafinu út af eldsumbrotum.
Heitur reitur er í jarðfræði staður á yfirborði jarðar þar sem eldvirkni er mikil sökum möttulstróks sem af ber heita kviku úr iðrum jarðar upp að jarðskorpunni (sem af þessum sökum er þynnri en annars staðar), um 50 heitir reitir eru þekktir, helstir þeirra eru Hawaii, Íslands og Yellowstone reitirnir.
Vísindavefurinn: Er heitur reitur undir Íslandi?
Ég velti fyrir mér hvort þessi flóðbylgja í Færeyjum í gær og Suðurlandsskjálftinn í gær sé eitthvað tengd skjálftavirkni á Íslandi og hugsanlegri eldvirkni í hafi.
![]() |
Tíðindalítil nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.5.2008 | 17:20
Um Suðurlandsskjálfta
Það eru nú bara rúmar tvær vikur síðan ég skrifaði grein á íslensku wikipedia um Suðurlandsskjálfta.
Það er þegar búið að bæta við greinina heilmiklum upplýsingum um nýjasta Suðurlandsskjálftann sem var núna rétt áðan. Það vantar hins vegar grein á ensku um Suðurlandsskjálfta. Ég skrifaði áðan grein á Wikinews um Suðurlandsskjálftann í dag Earthquake (6.1) in Iceland near Hveragerði en þá var ekkert komið um skjálftann á BBC. Núna er sú frétt komin á toppinn á en.wikinews.org
Svona wikiverkfæri eru ágæt við samtímaatburði.
Það er svo spjallsíða um greinina um Suðurlandsskjálfta hérna.
![]() |
Flokkast sem Suðurlandsskjálfti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.5.2008 | 02:39
Fíklar og fangar, Sogn og Byrgið
Nú næðir um landlæknisembættið og margar stofnanir. Það er erfitt að skilja hvernig maður með sömu vandamál og sömu forsögu og geðlæknirinn á Sogni hefur getað stundað þá iðju að falsa lyfseða fyrir amfetamíni og methylfentidati á fanga. Það er eitthvað verulega áfátt í eftirlitskerfinu, hvar sem nú brotalamirnar eru. Það er hins vegar langt í frá viðeigandi að landlæknisembættið sé að rannsaka þetta mál. Til þess eru tengsl embættisins við málið allt of mikil. Það er eðlilegt að það sé rannsakað af einhverjum öðrum.
Ég hef áður skrifað tvö blogg um landlæknisembættið varðandi Byrgismálið
Landlæknir, skottulækningar og Byrgismálið
Þekkir landlæknir ekki lög um skyldur landlæknis?
Það var líka ekki fyrir tilstilli landlæknisembættis sem upp um málið komst, það var vegna þessa atviks:
"Málið komst upp þegar einn af þeim mönnum sem læknirinn hafði látið skrifa lyfseðla fyrir kom í apótek til að sækja þar ofnæmislyf. Í lyfjabúðinni var honum tilkynnt um að þau væru ekki komin en hins vegar biði hans amfetamín sem læknir hefði skrifað upp á fyrir han. aðurinn kannaðist ekki við að hafa beðið um nein slík lyf og spurðist frekar fyrir um hvaða lyf hefðu verið ávísuð á hans nafni." (visir.is)
Geðlæknirinn á Sogni var í stóru hlutverki í Byrgismálinu. Hann bar líka læknisfræðilega ábyrgð á þeirri stofnun og ekki hefur honum tekist þar vel upp:
Mbl.is - Frétt - Þrír menn bera faglega ábyrgð á Byrginu
Ráðherra spurði sérstaklega að því hvaða aðili hefði eftirlit með starfsemi Byrgisins. Í svörunum kemur skýrt fram að ríkisendurskoðun og félagsmálaráðuneytið bæru ábyrgð á eftirliti með starfsemi Byrgisins en einnig er það nefnt að Guðmundur, Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, og Magnús Skúlason læknir bæru ábyrgð á faglegu starfi Byrgisins.
Ólafur segir ábyrgð hans og Magnúsar aðeins tengjast læknisfræðilegri starfsemi. Við berum læknisfræðilega ábyrgð á okkar störfum, eðli málsins samkvæmt. Við stöndum hins vegar ekki í rekstri og komum ekki að annarri starfsemi heldur en læknastörfum. Það er ekki löglegt að láta okkur bera ábyrgð á öðrum þáttum en snúa að læknastarfsemi. Því er nauðsynlegt að árétta það að okkar faglega ábyrgð snýr eingöngu að læknastörfum."
Magnús sagðist í samtali við Fréttablaðið einnig líta svo á að ábyrgð hans og Ólafs sneri að læknastörfum en ekki annarri starfsemi Byrgisins.
Þrettán eru nú vistaðir í Byrginu en fjórir starfsmenn búa þar nú um stundir
186,3 milljónir króna greiddar til Byrgisins
Fyrrverandi vistmaður á Sogni (...nafn tekið út eftir að mér barst ósk þess efnis frá viðkomandi í símtali 27. febrúar 2009..) lýsir frekar fátæklegri meðferð þar. Það er nú samt góðs viti að hann sé útskrifaður og sé í standi til að kvarta. Það er nú ekki sjálfgefið að þannig ástand sé á þeim sem fara á slíkar stofnanir.
Óskar fór alltaf með lyfin til Magnúsar
Magnús geðlæknir: Segist ekki á leiðinni í meðferð
Geðlæknir notaði nöfn fanga til að svíkja út lyf
Það eru núna í hópi bloggara margar mæður sem eiga um sárt að binda vegna fíkniefnaneyslu barna sinna. Sumar eiga börn sem hafa látist af of stórum skammti eiturlyfja, í sumum tilvikum eiturlyfja sem eru lyf sem koma gegnum lyfseðla frá læknum.
Hér er ein færsla sem lýsir upplifun móður
Magnús Skúlason loksins sviptur leyfi til að skrifa lyfseðla fyrir læknadópi.
Það er afar sorglegt að svo hafi verið komið að mönnum eins og Guðmundi í Byrginu og umræddum geðlækni hafi verið treyst fyrir andlegri og líkamlegri velferð þjáðra manna.
![]() |
Yfirlæknir til rannsóknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.2.2010 kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.5.2008 | 16:23
Síminn var hleraður í síðasta torfbænum í Reykjavík
Síðasti torfbærinn í Reykjavík sem búið var í var sennilega Litla-Brekka sem stóð þar sem núna er bílastæði Hjónagarðanna á horni Eggertsgötu og Suðurgötu. Ég bjó á stúdentagörðunum í fjögur ár á annarri hæð í íbúð sem vísaði móti Suðurgötu. Út af svölunum horfi ég niður á lágreistan torfbæ, hann var í niðurníðslu en hann var samt orðið dýrmætt tákn um þá Reykjavík sem var að hverfa. Hann var fyrir skipulaginu og það stóð til að rífa hann. Það bjó þá aldraður einsetumaður í Litlu-Brekku, það var Eðvarð Sigurðsson. Stuttu eftir að ég flutti úr Vesturbænum mun Eðvarð hafa flutt úr Litlu-Brekku og bærinn var rifinn.
Núna les ég að í hlerununum árin 1949 til 1968 þá var síminn í torfbænum á heimili Eðvarðs og Ingibjargar móður hans hleraður. Ég held að þau hafi nú ekki verið mikið misyndisfólk. Það er hérna ágætis vefsíður nemanda í Khí um bæinn Litlu-Brekku og viðtal við Sigríði systur Eðvards um hvernig var að alast upp í torfbænum, um jólahald og hvernig fjölskyldan spjaraði sig með því að rækta kartöflur og halda hænsni. Þetta er smáinnsýn inn í lífið hjá einni af fjölskyldunum sem síminn var hleraður hjá.
Þessar símahleranir eru "too close to home" til að ég geti leitt þær hjá mér. Síminn var hleraður hjá manninum í næsta húsi við mig, hjá Eðvarð í torfbænum Litlu-Brekku og síminn var hleraður hjá manninum sem bjó á hæðinni fyrir neðan mig á Laugarnesvegi 100.
Það voru 32 heimili hleruð á árunum 1949 til 1968. Best að athuga hvort ég tengist ekki einhverjum fleiri en þessum tveimur sem voru nágrannar mínir.
Ég skrifaði áðan greinina Litla-Brekka inn á íslensku wikipedia.
Hmmmm....
Eftir smátilraunir til að tengja þetta blogg við fréttina um hlerunarmálið þá komst ég að því að Moggabloggið leyfir ekki nema eina tengingu við sömu frétt frá hverjum bloggara. Það er náttúrulega ekkert við því að segja en þetta er takmarkandi fyrir listrænt frelsi mitt. Ég ætlaði að blogga eins oft um þessa frétt eins og ég gæti tengt mig og mitt líf við þessa 32 aðila sem voru hleraðir. En sem sagt vegna manngerðra takmarkanna (annað hvort út af spammsíu eða njósnaumfjöllunarparanoiju) þá verður heimurinn af þessum listræna gjörningi mínum.
Ég var að vona að þetta yrði listaverk í 32 bútum. Það finnst sennilega fáum það listrænt að tengja moggablogg við moggafréttir.
32 heimili voru hleruð á árunum 1949-1968
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)