Alvarlegar og sorglegar fréttir

Íslands ógæfu verður allt að vopni. Heimurinn hrynur í kringum okkur í heimskreppu sem dýpkar og dýpkar, víða eru róstur og uppþot og sums staðar geysa blóðug stríð. En hrunið er meira á Íslandi en annars staðar í Evrópu, hér hrynur allt, hér var rík og skuldlaus þjóð í fyrra og atvinnulíf blómlegt. Núna erum við bjargþrota skuldum vafin þjóð og vegna sérstakra íslenskra aðstæðna þ.e. gengistryggingar og myntkörfulána þá eru líka margar fjölskyldur og stór hluti atvinnufyrirtækja komin í þrot. Tveir stórir atvinnuvegir bankastarfsemi og byggingariðnaður hafa alveg hrunið og munu væntanlega aldrei ná aftur fyrri þunga.

Eina sem við vitum er að botni kreppunnar er hvergi nærri náð og hvernig okkur reiðir af er háð því hvernig umheiminum reiðir af. Og það er ekkert bjart framundan. Össur reynir að segja okkur frá því að við verðum rík af olíu af Drekasvæðinu en hve skyldum við trúa því, það á eftir að finna olíu og var það ekki þessi sami Össur sem dásamaði einhvers konar dularfulla orkuútrás í einhverjumr REI ævintýrum, útrás sem mér virðist hafi verið af sama meiði og sala Kaupþings til arabískra sjeika, útrás sem var í rauninni dulbúin innrás.

Eitt enn reiðarslagið fyrir íslensku þjóðina er að foringar á stjórnmálasviðinu, formenn beggja þeirra stjórnmálaflokka sem nú eru við völd glíma við alvarleg veikindi. Ég óska þeim góðs bata og vona að þau jafni sig á þessum veikindum. Það er ómanneskjulegt álag á þeim stjórnmálamönnum sem stýra Íslandi núna.  

Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn fari frá völdum sem fyrst. Svo mikil er tortryggni mín út í hvernig þeir hafa gengið erinda auðmanna og bankaeigenda að ég má ekki til þess hugsa að þeir sitji fram í maí. Mér finnst Þorgerður Katrín ekki trúverðugur forsætisráðherra sem staðgengill Geirs, ekki síst vegna tengsla hennar við Kaupþing. Eiginmaður hennar var lykilstjórnandi í Kaupþingi og eftir því sem komið hefur fram í fréttum þá munu þau hafa keypt skuldabréf í Kaupþingi fyrir háar fjárhæðir en fáum sögum fara af því að þau hafi borgað þær skuldir.

Ég efast líka um stjórnkænsku hennar á tímum eins og núna.  Sérstaklega man ég eftir hve illa hún tók tillögu Davíðs Oddssonar á sínum tíma um þjóðstjórn allra flokka.  Það var auðvitað ekki hans að segja ríkisstjórninni hvað hún ætti að gera og hann er ráðríkur maður sem hefði átt að vera löngu búinn setjast í helgan stein og sinna ritstörfum. En það var bara góð hugmynd þetta með þjóðstjórnina, það sáu það allir. Meira segja Steingrímur hjá Vinstri grænum og það segir sitt um hve augljóslega góður kostur það var. 

Af hverju vildi Þorgerður Katrín ekki þjóðstjórn?


mbl.is Sjálfstæðismenn í sjokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nærmynd af Bjarna Benediktssyni, nærmynd af íslensku þjóðinni

Hún er skýr en ekki viðkunnanleg myndin  af Bjarna Benediktssyni vonarpeningi Sjálfstæðisflokksins sem teiknuð er upp í þessari frásögn í DV :

"Heimildir DV herma að Sigmundi Erni hafi lent saman við Frey Einarsson um efnistök Íslands í dag á dögunum. Sindri Sindrason vildi víst fjalla um mótmælin á Íslandi en Freyr mun hafa heimtað að nærmynd yrði tekin af Bjarna Benediktssyni."

Viku fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins breytist fjölmiðillinn Stöð 2 í svo einstrengingslega áróðurmaskínu fyrir þann fulltrúa sem gamalt og útjaskað ættar- og auðveldi ætlar að flikka upp á til formennsku  í Sjálfstæðisflokknum að þar neita menn að taka eftir því að á sama tíma brennur Ísland  og uppþot og bylting er að brjótast út. 

Fyrir þremur vikur var Sigmundur Ernir inn á Borginni og stýrði Kryddsíldinni þar sem ljúfir tónar Stradivarius  fiðlu hljómuðu og heldri menn sátu á rökstólum. Úti fyrir knúðu dyra mótmælendur með hrossabresti og ýlur en þeirra taktur var meiri, þeirra kraftur var meiri og þeirra geta var meiri til að ráða fram úr stöðunni á Íslandi í dag heldur en sú gjörspillta ásýnd íslenskra stjórnvalda og auðjöfra sem blasir við okkur í þeim litlu leiftrum sem við fáum af því hvað er að gerast í þeirra heimi. Bjarni Benediktsson er formennskukandidat þess Íslands sem einu sinni var. Þess Íslands þar sem auðjöfrar og ættarveldi stýrðu allri miðlun á Íslandi og puntuðu upp einn úr sínum röðum á nokkurra ára fresti og keyrðu alþýðufólk á kjörstað. 

Annars finnst mér nærmyndin af Bjarna Benediktssyni vera skemmtileg andstæða við þessa mynd sem ég tók af einum mótmælanda fyrir framan Alþingishúsið kvöldið sem þingið hófst. Hann var með sundgleraugu og hélt á skilti og hrópaði. Sagðist hafa verið sá sem sat alltaf heima, fór aldrei á mótmæli en nú væri honum nóg boðið. Mótmælandinn er nú eiginlega nærmynd af íslensku þjóðinni. Hún er með sundgleraugu þessa daganna.

motmaelandi1.jpg

 


mbl.is Frjáls undan oki auðjöfra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samvinnuhugsjón er eina vitið

Það kemur ekki á óvart að gengi Framsóknarflokksins fari nú upp á við í skoðanakönnunum. Stefna flokksins hefur höfðar til fólks og aldrei átt betur við en núna þegar öfgastefnur til hægri og vinstri hafa beðið skipsbrot og stórveldi sem byggja á þeim stefnum hafa liðast í sundur eða eru að liðast í sundur. Ekkert á betur við á þessum tímum en öfgalaus miðjuflokkur þar sem saman fer skynsemishyggja og samvinnuhugsjónir - flokkur þar sem ekki er byggt úr loftköstulum og spilaborgurm heldur horfst í augu við raunveruleikann og besta lausnin fyrir alla valin.

Þannig er Framsóknarflokkurinn  í dag það stjórnmálaafl sem hefur og getur skapað frið um nauðsynlega vinnu stjórnmálamanna - í ríkisstjórn með því að bjóðast til að verja stjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna falli  og í borgarstjórn Reykjavíkur með því að bjarga borginni frá hreinum glundroða. 

Það hefur verið margt ámælisvert í Framsóknarflokknum undanfarin ár og stefna og stjórn flokksforustu   í mikilvægum málum hefur verið vægast sagt vond. En Framsóknarflokkurinn er samsettur af því fólki sem í flokknum er og það hefur verið hrópandi kall á breytingar og öðruvísi áherslum. Á nýafstöðnu flokksþingi var kjörin ný forusta og Framsóknarflokkurinn er einn flokka að horfast í augu við fortíð sína og vinna að breytingum.


mbl.is Framsókn með 17% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oslótrésmótmælin

 

Nýliðnir atburðir hafa ekkert nafn. Í sögunni fær sami atburður kannski mörg nöfn, allt eftir því hver segir söguna. Ég veit ekki hvað mótmælin í gær og í nótt verða kölluð en ég kalla þau til bráðabirgða Oslótrésmótmælin vegna þess að þegar ég fór þá hafði tekist að fella Oslójólatréð og draga það á eldinn sem logaði fyrir utan Alþingishúsið. Ég fór þegar tréð hafði fuðrað upp. Það var nú svolítið hættulegt ástand, eldtungur léku um himinn og þarna nálægt gömul timburhús.

Mér fannst líka  táknrænt við að brenna jólatréð. Ekki bara af því það er skammdegismerki heldur  líka táknrænt að brenna tré frá Noregi þaðan sem Íslendingar komu fyrir þúsund árum, þaðan sem rætur Íslendinga eru, tréð sem er afhent og uppljómað með viðhöfn á hverjum vetri til að minna okkur á upprunann. Skreytt og uppljómað jólatré er skammdegismerki, eins konar hermigaldur þar sem minnisvarði um líf og ljós og grósku er fluttur inn  í hús í svartasta skammdeginu eins og til að hugga mann og fá mann til að trúa því að skammdeginu ljúki einhvern tíma og það birti á ný og næsta vor muni veröldin blómgast að nýju. En þegar við þurfum ekki huggunina lengur þá fleygjum við jólatrénu og tökum niður jólaljósaseríurnar. Í ári Hrunsins mikla þá brennum við jólatréð. Bruni er nýtt upphaf.

Ég reyni að skrásetja þau mótmæli sem ég tek þátt í. Það er erfitt að skrá þessi mótmæli með ljósmyndum. Það nær ekki stemmingunni, ekki hljómlistinni úr ótal hljóðfærum og snarkinum af eldinum. Vídeómyndin nær ekki heldur viðarlyktinni og kaldri janúarnótt í Reykjavík.

En ég tók upp vídeó af  Oslótrésmótmælunum og setti í tvær skrár svo það yrði ekki allt of langt. 

Oslótrésmótmælin 20-21 janúar 2009 fyrri hluti (10 mín)

Oslótrésmótmælin 20-21 janúar 2009 seinni hluti (10 mín) 

 Sjá líka myndina mína frá mótmælum á gamlársdag

 Kryddsíldarmótmælin

 Þetta eru dáldið stórar skrár og tekur tíma þangað til þær byrja að spilast.
Ég er að reyna að setja þetta inn á youtube en það hefur ekki gengið ennþá hjá mér (allt of stórar skrár)


mbl.is „Stjórnarslit fyrir helgi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hmmm... fjör á Samfylkingarfundinum

Það er kannski dáldið eldfimt að halda fundi í Þjóðleikhúskjallaranum þessa daganna. Við skiljum það Framsóknarmenn, við héldum félagsfund þar nýlega það sem var allt að gerast. Sjá hérna Rafmagnaður fundur hjá Framsókn í Reykjavík

Síðan þá höfum við gengið til kosninga um nýja forustu í flokknum. Sigmundur Davíð, Birkir Jón og Eygló og þingmannahópur okkar eru tilbúin til að hefjast handa við uppbyggingu Nýja Íslands. Það getur verið eini kosturinn í stöðunni fyrir hina flokkana að taka tilboði Framsóknarflokksins um að verja stjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna vantrausti þangað til kosningar eru yfirstaðnar. Það þýðir að ríkisstjórn sem núna situr sem sannarlega er vanhæf eins og hrópað er nú á torgum og inn í húsum, sú ríkisstjórn getur farið frá á morgun.

En eitt er mér fyrirmunað að skilja.

Hvers vegna í ósköpunum valdi Geir ekki á sínum tíma að stofna þjóðstjórn með öllum flokkum á Alþingi? Það voru á þeim tíma allir flokkar tilbúnir í það. Sá hann virkilega ekki þetta ástand fyrir? 


mbl.is „Þið eruð öll rekin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælahljómkviðan

Ég var á Austurvelli í kvöld. Kom eitthvað um átta leytið í kvöld og var yfir miðnætti, fór þegar eldtungurnar frá Oslóartrénu læstu sig til himins. Þetta var svona stemming eins og að vera á hljómleikum þar sem eru engir áheyrendur, þar sem allir troða upp .  allir eru með einhvern gjörning. Mest að framkalla hljóð en svo brann þarna eldur og hópur fólks hélt eldinum lifandi og bætti á hann vörubrettum og dekkjum og skrifborðsstólum. Ég hugsa að þeir hafi verið uppiskroppa með eldivið því einn hópur réðist á Oslótréð og felldi það og varpaði því á eldinn. 

Þó að meðfram Alþingi væri veggur af óeirðalögreglu með skildi og alls konar útbúnað þá voru mótmælin meira eins og mannfögnuður, það var barið og flautað og slegið og hrópað og klappað og það kvein í hrossabrestum.  Það var gleði í lofti, ég veit ekki út af hverju, kannski af því að fólk var að gera eitthvað, að búa til sig sóknar.  Annars var þetta líka eins og galdramessa eða nornagleði eða álfareið, svona sefjunarsamkoma þar sem fólk stillir sig saman til búast til orustu og magnar seið.

Það var gaman að heyra af hópnum sem safnaðist saman á Akureyri, það bárust boð um það niður á Austurvöll að fólk væri á sama tíma að mótmæla annars staðar á landinu og það var líka einn liður í samstilla fólk, að vita af öðrum hópum  að mótmæla annars staðar.Ég held að það sé aukaatriði hvaða áhrif mótmælin hafa á ríkisstjórnina, aðalatriðið er hvaða áhrif mótmælin hafa á mótmælendur sjálfa. Við erum fólkið.


mbl.is Samstöðumótmæli á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk bankasaga, íslensk bankasala

Ólafur Ólafsson og Finnur Ingólfsson
Allt á floti
mbl.is Milljarðalán án áhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Sigmundur, Birkir, Eygló

Það var svo mikill hiti á flokksþingi Framsóknarflokksins um helgina að brunaboðar í Valsheimilinu fóru í gang rétt áður en gengið var til kosninga um formann. Það voru nálægt 900 manns  sem greiddu atkvæði í formannskjöri  og þetta var landsfundur flauelsbyltingar í Framsóknarflokknum.

Úrslit kosninganna komu verulega á óvart, ég hugsa að enginn hafi séð þetta fyrir. Úrslitin sýna að það var sterk krafa á endurnýjun og að inn kæmi nýtt fólk. Ég held að undir forustu Sigmunds Davíðs þá séu nýir tímar að hefjast í Framsóknarflokknum.

Nýja forustan í Framsóknarflokknum er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birkir Jón Jónsson og Eygló Harðardóttir. Ég óska þeim öllum innilega til hamingju með að hafa valist til þessara trúnaðarstarfa og vona  að þau myndi samstillta heild sem hjálpar okkur að gera Framsóknarflokkinnað leiðandi afli í íslenskum stjórnmálum.

Hér eru fréttir af kosningunum:

Bylting í Framsókn bara byrjunin (smugan.is)

Óvænt úrslit hjá Framsókn (eyjan.is)


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggrannsóknarmennska Kastljóssins

Það hljóta allir að falla í stafi yfir uppljóstrunum Kastljóssins, þar er enginn óhultur í Netheimum fyrir þeim þefvísu sporrekjandi spæjurum sem troða sér inn í matarboð bloggara þó það séu mörg ár síðan þau fóru fram. Þetta er eins og að lesa krassandi sakamálasögu eftir Arnald að fylgjast með nýjustu dáðum í rannsóknarmennsku Kastljóssins, sjá hérna Umdeildar ráðningar þyrluflugmanna

Ég sem hélt að ekkert gæti toppað fyrri bloggrannsóknarmennsku kastljóssins sem fólst í því að vakta bloggið hans Stefáns Páls til að vita hvað hann teldi blogg DV ritstjóra breytast mikið yfir daginn. Það er ólýsanlega mikið öryggi af því að hafa svona fólk á vaktinni. 

 En það verður að segjast eins og er, það er ansi lúðalegt blogg að ljóstra upp að fólk hafi fengið starf gegnum klíku. Fólk kann sig barasta ekki í Netheimum.

En fólk ætti að fara sér hægt í Netheimum og skyggnast um gáttir allar því enginn veit nema kastljósblaðamenn sitji þar á fletum fyrir.

Hér eru kurteisisreglur Hr. Scobleiser fyrir atvinnulausa. Það hjálpar ekki til að fá vinnu aftur að hafa myndir af sér á djamminu á Facebook.


Aulafréttamennska, aulastjórnmál og skuldir ríkissjóðs

Við höfum lifað í blekkingu. Við höfum kosið fólk á þing til að gæta hagsmuna okkar vegna þess að það blekkti okkur til að trúa því að því væri treystandi til að stýra fjármálum heillar þjóðar.

Við höfum sofið á verðinum að fylgjast með öllum þeim óveðursskýjum sem hrönnuðust upp í kringum okkur, ekki á einum degi, ekki á einu ári. Það tók langan tíma að koma Íslandi í þá stöðu sem það er í núna.

Hrunið kom hins vegar snöggt og var eins og spilaborg sem hrundi - eða frekar eins og skýstrókur sem þyrlaði upp og sogaði í burtu öll þau pappírsverðmæti sem peningabólur og peningavelta bankaeigenda og spilabankaborgareiganda hafði búið til.  Hvert skýstrókurinn skilaði þessum pappírsverðmætum þegar hann þeyttist frá landinu er á huldu - ef til vill fóru þeir á undarlegar hentifánaeyjur og  féllu eins og regn niður í ríkramannalönd sem búin eru til í kringum pappírsverðmæti, ef til vill slitnuðu pappírsverðmætin og tættust upp í skýstróknum ógurlega og glötuðust að eilífu. 

Við höfum verið blekkt vegna þess að sú miðlun sem barst til okkar var vandlega útvarpað til að útvarpa og kasta aðeins þannig ljósi að fjármagnsspilurum sem lét þá virka eins og hetjur og réttlætti spilareglur þeirra. Þeir áttu jú alla fjölmiðlana nema ríkisfjölmiðla. En ríkisfjölmiðlana áttu þeir óbeint því þeim stýrðu stjórnmálamenn og stjórnmálamönnum mátti stýra gegnum kosningasjóði  - en ekki bara kosningasjóði heldur líka með styðja þá til valda gegnum þá fjölmiðla sem fjármagnsspilarar áttu. 

En við höfum líka verið blekkt vegna þess að fjölmiðlarnir, skólarnir, stjórnmálamennirnir og allir þeir sem áttu að uppfræða okkur og segja okkur hvað væri að gerast gerðu það á yfirborðslegan grunnan og auðmeltan hátt. Hegðuðu sér eins og við almenningur værum aular sem skildum ekkert nema það væri mínútuumfjöllun í einhverjum sjónvarps- eða útvarpsþáttum og að fjölmiðlun gengi út á að byrgja okkur sýn til eigin þekkingarleitar og til þess að taka saman þátt í þekkingarleit um fyrirbæri sem er of flókið og umfangsmikið  fyrir einn einstakling til að skilja og greina.

Við höfum verið blekkt til að halda að það virkaði að hafa sterka kalla í brúnni, þeir vissu hvert ferðinni væri heitið og hefðu stjórn á öllu. Við höfum verið blekkt til að halda að mjúkmæltir pólitíkusar sem hafa lítið  stúderað og lítið skilja nema auglýsingar  og almannatengsl segja okkur í einföldum frösum allt það mikla sem þeir ætla að gera fyrir fólkið. Við höfum verið blekkt til að halda að stjórnmál gengu bara út á að auka þjónustu, eyða bankabólupeningum og búa til kerfi sem gerði öllum kleift að draga á eftir sér sístækkandi skuldahala.

Við höfum verið blekkt á sama hátt og fólkið sem borðaði naglasúpuna og fólkið sem horfði á nýju fötin keisarans. Við höfum verið blekkt til að halda að verðmæti sköpuðust úr engu. En úr hverju sköpuðust þau verðmæti sem fjármagnsspilararnir virtust hafa? Hvernig komust þeir yfir upphaflega spilapottinn? Hver stóð á bak við þá? Eru þeir ef til vill leikmenn í fléttu einhvers sem hefur hag af að vera ekki bendlaður við uppkaup og yfirráð eigna á Íslandi? Eða bjuggu þeir til sinn spilapott með því efni sem spilavítiskapitalisminn leggur til - með skuldum og með því að búa til peninga með því að velkja pappírum fram og aftur marga hringi.

En við sitjum eftir með skuldir. Hvernig má það vera að peningar sem kannski upprunalega voru búnir til úr skuldum og gerðu einhverja ríka skuli núna gera okkur fátæk? Hvernig má það vera að eitthvað rán um hábjartan dag sem kallað var skuldsett yfirtaka eða kaupréttarsamningaeitthvað skuli núna vera okkar skuldir?

Á bankabólutímanum voru íslensk fyrirtæki og einstaklingar hnepptir í skuldafjötra, eftir hrunið var ríkið hneppt í skuldafjötra. En hvaða möguleika höfum við á að borga þessar skuldir - og af hverju ættum við almenningur á Íslandi að borga þessar skuldir? 

Af hverju eigum við núna hér á Íslandi þar sem staða einstaklinga og fjölskyldna sem skulda er mjög bág vegna gengistryggingarákvæða og vegna gríðarlegs hruns og atvinnuleysis - líka að borga upp skuldir í útlöndum sem fávísir og gráðugir einstaklingar stofnuðu til - og af hverju erum við núna í fangelsi IMF, í hagstjórn hinna klemmdu sem er allt öðru vísi en annars staðar - annars staðar eru vextir að verða komnir niður í ekki neitt en hér eru vextir ofurháir. 

Af hverju eru öll lögmál sem segja hvernig á að takast á við kreppu slitin úr sambandi á Íslandi bara vegna þess að yfir okkur vofir eitthvað sverð einhverja gríðarlegra skulda sem við eigum að vera ábyrg fyrir í útlöndum, skulda sem við vissum ekki að væri til. Af hverju er ekki betra að taka djúp andköf núna og losna við þessi jöklabréf út eins fljótt og auðið er.

Ég get ekki séð að það skipti neinu máli upp á sjálfstæði Íslands hvort við erum í Evrópusambandinu eða ekki - ef ástandið er þannig að magnþrota ríkisstjórn lafir en stýrir engu - heldur kreppast um okkur kaldar krumlur alþjóðabankans og þeirra sem eiga skuldaviðurkenningar á íslenska aðila. Hvað skiptir máli hver stýrir fiskveiðum þegar allur kvótinn er kominn í erlenda eigu?


mbl.is Háar skuldir ríkissjóðs eiga enn eftir að hækka mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband