Aulafréttamennska, aulastjórnmál og skuldir ríkissjóðs

Við höfum lifað í blekkingu. Við höfum kosið fólk á þing til að gæta hagsmuna okkar vegna þess að það blekkti okkur til að trúa því að því væri treystandi til að stýra fjármálum heillar þjóðar.

Við höfum sofið á verðinum að fylgjast með öllum þeim óveðursskýjum sem hrönnuðust upp í kringum okkur, ekki á einum degi, ekki á einu ári. Það tók langan tíma að koma Íslandi í þá stöðu sem það er í núna.

Hrunið kom hins vegar snöggt og var eins og spilaborg sem hrundi - eða frekar eins og skýstrókur sem þyrlaði upp og sogaði í burtu öll þau pappírsverðmæti sem peningabólur og peningavelta bankaeigenda og spilabankaborgareiganda hafði búið til.  Hvert skýstrókurinn skilaði þessum pappírsverðmætum þegar hann þeyttist frá landinu er á huldu - ef til vill fóru þeir á undarlegar hentifánaeyjur og  féllu eins og regn niður í ríkramannalönd sem búin eru til í kringum pappírsverðmæti, ef til vill slitnuðu pappírsverðmætin og tættust upp í skýstróknum ógurlega og glötuðust að eilífu. 

Við höfum verið blekkt vegna þess að sú miðlun sem barst til okkar var vandlega útvarpað til að útvarpa og kasta aðeins þannig ljósi að fjármagnsspilurum sem lét þá virka eins og hetjur og réttlætti spilareglur þeirra. Þeir áttu jú alla fjölmiðlana nema ríkisfjölmiðla. En ríkisfjölmiðlana áttu þeir óbeint því þeim stýrðu stjórnmálamenn og stjórnmálamönnum mátti stýra gegnum kosningasjóði  - en ekki bara kosningasjóði heldur líka með styðja þá til valda gegnum þá fjölmiðla sem fjármagnsspilarar áttu. 

En við höfum líka verið blekkt vegna þess að fjölmiðlarnir, skólarnir, stjórnmálamennirnir og allir þeir sem áttu að uppfræða okkur og segja okkur hvað væri að gerast gerðu það á yfirborðslegan grunnan og auðmeltan hátt. Hegðuðu sér eins og við almenningur værum aular sem skildum ekkert nema það væri mínútuumfjöllun í einhverjum sjónvarps- eða útvarpsþáttum og að fjölmiðlun gengi út á að byrgja okkur sýn til eigin þekkingarleitar og til þess að taka saman þátt í þekkingarleit um fyrirbæri sem er of flókið og umfangsmikið  fyrir einn einstakling til að skilja og greina.

Við höfum verið blekkt til að halda að það virkaði að hafa sterka kalla í brúnni, þeir vissu hvert ferðinni væri heitið og hefðu stjórn á öllu. Við höfum verið blekkt til að halda að mjúkmæltir pólitíkusar sem hafa lítið  stúderað og lítið skilja nema auglýsingar  og almannatengsl segja okkur í einföldum frösum allt það mikla sem þeir ætla að gera fyrir fólkið. Við höfum verið blekkt til að halda að stjórnmál gengu bara út á að auka þjónustu, eyða bankabólupeningum og búa til kerfi sem gerði öllum kleift að draga á eftir sér sístækkandi skuldahala.

Við höfum verið blekkt á sama hátt og fólkið sem borðaði naglasúpuna og fólkið sem horfði á nýju fötin keisarans. Við höfum verið blekkt til að halda að verðmæti sköpuðust úr engu. En úr hverju sköpuðust þau verðmæti sem fjármagnsspilararnir virtust hafa? Hvernig komust þeir yfir upphaflega spilapottinn? Hver stóð á bak við þá? Eru þeir ef til vill leikmenn í fléttu einhvers sem hefur hag af að vera ekki bendlaður við uppkaup og yfirráð eigna á Íslandi? Eða bjuggu þeir til sinn spilapott með því efni sem spilavítiskapitalisminn leggur til - með skuldum og með því að búa til peninga með því að velkja pappírum fram og aftur marga hringi.

En við sitjum eftir með skuldir. Hvernig má það vera að peningar sem kannski upprunalega voru búnir til úr skuldum og gerðu einhverja ríka skuli núna gera okkur fátæk? Hvernig má það vera að eitthvað rán um hábjartan dag sem kallað var skuldsett yfirtaka eða kaupréttarsamningaeitthvað skuli núna vera okkar skuldir?

Á bankabólutímanum voru íslensk fyrirtæki og einstaklingar hnepptir í skuldafjötra, eftir hrunið var ríkið hneppt í skuldafjötra. En hvaða möguleika höfum við á að borga þessar skuldir - og af hverju ættum við almenningur á Íslandi að borga þessar skuldir? 

Af hverju eigum við núna hér á Íslandi þar sem staða einstaklinga og fjölskyldna sem skulda er mjög bág vegna gengistryggingarákvæða og vegna gríðarlegs hruns og atvinnuleysis - líka að borga upp skuldir í útlöndum sem fávísir og gráðugir einstaklingar stofnuðu til - og af hverju erum við núna í fangelsi IMF, í hagstjórn hinna klemmdu sem er allt öðru vísi en annars staðar - annars staðar eru vextir að verða komnir niður í ekki neitt en hér eru vextir ofurháir. 

Af hverju eru öll lögmál sem segja hvernig á að takast á við kreppu slitin úr sambandi á Íslandi bara vegna þess að yfir okkur vofir eitthvað sverð einhverja gríðarlegra skulda sem við eigum að vera ábyrg fyrir í útlöndum, skulda sem við vissum ekki að væri til. Af hverju er ekki betra að taka djúp andköf núna og losna við þessi jöklabréf út eins fljótt og auðið er.

Ég get ekki séð að það skipti neinu máli upp á sjálfstæði Íslands hvort við erum í Evrópusambandinu eða ekki - ef ástandið er þannig að magnþrota ríkisstjórn lafir en stýrir engu - heldur kreppast um okkur kaldar krumlur alþjóðabankans og þeirra sem eiga skuldaviðurkenningar á íslenska aðila. Hvað skiptir máli hver stýrir fiskveiðum þegar allur kvótinn er kominn í erlenda eigu?


mbl.is Háar skuldir ríkissjóðs eiga enn eftir að hækka mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sylvía

engu við þetta að bæta nema bara úff... napurlegur veruleiki.

Sylvía , 14.1.2009 kl. 21:47

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Flott færsla hjá þérf Salvör! 

Sigurður Þórðarson, 14.1.2009 kl. 21:51

3 identicon

Einu við þetta að bæta.

Þeir bankar sem veðjuðu á það að krónan veiktist, en héldu erlendum lánum að viðskiptafólki sínu sýna og sanna það sem anarkistarnir hafa alltaf sagt:

Bankanum þínum er sama um þig.

Ég bæti stjórnmálamönnum okkar við þann lista, sem sýna það og sanna að allstaðar er hægt að spara, tálga og setja í anórexíska megrun nema hjá sjálfum sér. Engin sæmd af þessu.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 22:02

4 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæl Salvör og þakka þér ágæta færslu sem ég ætla að leyfa mér að vera ósammála. Það skiptir máli, þótt í litlu sé, hvað við segjum og hvað við hugsum. Á meðan það er andóf eins og þitt þá er von. Og þegar úr greiðist skiptir höfuðmáli að við verðum utan Evrópusambandsins. Lifðu heil.

Páll Vilhjálmsson, 14.1.2009 kl. 22:30

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Fróðleg lesning, og vel uppsett.  HFF

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.1.2009 kl. 02:09

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er satt og rétt.  Nema ég er ekki á því að það skipti engu hvort við förum í ESB eða ekki.  Ég vil ekki fara þar inn, og tel að við verðum betur komin utan þess til lengri tíma litið.  Við erum enda í engu ástandi til að semja um eitt eða neitt.  Og útslagið gerir ef þeir eru að fara að taka auðlindir ríkja eignarnámi til að útdeila þeim til sambandsins.  Það er von að þeir vilji veita okkur flýtimeðferð inn.  Orkuauðlindir eigum við nógar, hreint vatn og hrein matvæli, auðlindir sjávar.  Allt þetta munu aðrar þjóðir girnast. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.1.2009 kl. 14:39

7 Smámynd: Júlíus Valsson

Hókus pókus þjóðfélag?

Júlíus Valsson, 15.1.2009 kl. 17:24

8 identicon

Fínn pistill.

Hörður Már Karlsson (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 17:40

9 identicon

Ekki treysta skuldaútreikningum Mbl.  Þeir eru einfaldlega rangir.

Fyrir utan IceSave þá lenda skuldir bankanna ekki á landsmönnum.  Þær eru í boði erlendra banka.

Kalli (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 19:18

10 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Ég er sammála þér! Takk fyrir pistilinn.

Anna Karlsdóttir, 16.1.2009 kl. 00:32

11 identicon

Hannes, Davíð, Geiri og þeirra lið eru höfundar hvernig komið er fyrir þjóðinni.   Að handa öðru fram er ósómasamlegt.

Jónki (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 16:21

12 identicon

Ekki má gleyma góðum stuðningi framsóknarmanna, sem spiluðu með þeim Hannesi, Davíð og Geir lengst af þessum tíma nema rétt undir lokin. Þeir geta engan veginn  verið stikkfríir, enda finnst mér með ólíkindum að menn streymi þangað stríðum straumum, eins og einhverjir fjölmiðlarar vilja alla vega láta menn halda. Ef rétt er, tel ég að stjórnun þessa litla lands væri betur komið af öðrum, vegna þess að greinilegt er að eitthvað heimóttarlegt gleymskugen tröllríður þessari þjóð.

Dóra (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband