29.1.2009 | 21:40
Hvar skilar kynjabaráttan mestum árangri?
Svar: Alls staðar.
Það er formlegur stofnfundur þriðja kvennaframboðs íslenskrar sögu núna. Það er hefð fyrir kvennaframboðum á Íslandi og þau hafa skilað góðum árangri og velt við mörgum steinum og málað marga steina bleika. Óhjákvæmilegt er að ný framboð komi fram á tímum eins og núna, tímum þar sem allt er í upplausn og kerfið sem stjórnmálamenn og athafnamenn hafa byggt í kringum okkur virkar ekki. Eina sem það kerfi gerir núna er að virka eins og girðing og skuldafangelsi sem heldur okkur rígbundnum og heftir möguleika okkar til sjálfsbjargar.
Á þessum tímum skulum við segja "Verum ekki vinnukonur kerfisins, tökum til okkar ráða og verum gerendur í okkar eigin lífi". Að vera gerandi í eigin lífi felur í sér að taka þátt í stjórnmálum, að skipta sér að því hvernig leikreglurnar eru samdar og skilja út á hvað þær ganga og hvaða afleiðingar breyttar reglur hafa.
Það þarf femínista í alla stjórnmálaflokka, það þarf fólk með skilning á að kynjajafnrétti er spurning um mannréttindi í alla stjórnmálaflokka. Það hjálpar líka í baráttu að mynda samstillta hópa og þar gerir slíkt framboð og það gerðu fyrri kvennaframboðin. Þau komu bæði fram á tímum þar sem hrópandi mismunun var milli karla og kvenna og sú mismunun var ekki mest í lagalegu tilliti heldur í hvernig konum var kerfisbundið haldið frá þeim stöðum þar sem völdin voru og þar sem ákvarðanir voru teknar.
Þegar ég segi kerfisbundin mismunun þá á ég ekki við einhverja vonda kalla með ljót og meðvituð plott um að halda konum utangarðs og valdalausum heldur sjálfan strúktúr samfélagsins sem gerir konur að vinnukonum sem vinna kauplaust eða kauplitlar vanmetin ummönnunarstörf í samfélaginu en karla að þeim sem einir ná að því borði þar sem uppskeru vinnunnar er skipt. Í samfélagi misskiptingar og kynjamismununar er uppskeru vinnunnar er skipt í tvo hluta og þeir eru bróðurparturinn sem er nánast allt og svo örlítil flís sem er fyrir systur allra landa. Talið er að í heiminum í dag sé aðeins 1 % eigna í eigu kvenna, samt eru konur 50 % af fólkinu í heiminum.
Við sjáum þessa kerfisbundnu útilokun í öðrum löndum og fordæmum hana þar. Við fordæmum að konur í sumum löndum skuli ekki fá að keyra bíl, skuli ekki fá að læra að lesa, skuli ekki vera til á opinberum pappírum og megi ekki sjást og ekki hafa ferðafrelsi. Við skiljum að þessi útilokun skiptir máli og skiljum að möguleika þeirra til að fá völd og sækja fram eru heftir. En við erum blind á eigin umhverfi, við sjáum ekki hvernig viðlíka kerfi er í gangi í okkar samfélagi, kerfi sem útilokar konur frá völdum.
Hvar eru konurnar sem fóru með fjöregg íslensku þjóðarinnar? Voru það konur sem spiluðu lottó með æru og skuldbindingar Íslendinga og köstuðu á milli sín verðmætum sem þjóðin átti? Eru það konur sem fengu úthlutað veiðikvóta Íslendinga? Eru það konur sem ráðstafa þeim kvóta? Eru það konur sem hafa stýrt fjármálum íslensku þjóðarinnar? Hvaða kona hefur verið fjármálaráðherra á Íslandi? Hvaða kona hefur verið forsætisráðherra á Íslandi? Og á meðan ég man... hvaða konur voru í einkavæðingarnefnd, Hvaða konur komu nálægt því að skipta og útdeila samsöfnuðum verðmætum til nokkrurra spilafífla og útrásarathafnamanna?
Hvers vegna er sökin á hruninu og þau andlit sem því tengjast ekki andlit kvenna þó þær séu sumar núna í hreinsunarstörfum eftir hrunið mikla? Þessu er reyndar auðsvarað. Konur höfðu engin völd á Íslandi og fáar ef engar konur voru í sömu aðstöðu og þeir útrásarmenn sem fóru á shopping spree í útlöndum.
Það vita allir að þau störf sem eru mikilvægust í þessu samfélagi eru ekki þau störf sem borguð eru með launum um hver mánaðarmót. Samfélag okkar helst saman á ósýnilegri vinnu, vinnu sem er að stórum hluta innt af hendi af konum. Ummönnunarstörf á heimilum og í fjölskyldum og í félagasamfélögum og á stofnunum eru stundum launum en langmestur hluti ummönnunar hefur aldrei verið inn í þeirri peningahagfræði sem hagfræðingar mæla.
Sá hagvöxtur sem hefur verið að mælast víða um lönd er líka að hluta gervihagvöxtur sem skapast af því að það sem einu sinni var unnið á heimili í ólaunuðu starfi er núna orðið launað starf einhvers. Sá hagvöxtur sem hagmælingar mæla er líka blindur á gæði vinnunnar. Þannig mælist það sem hagvöxtur ef miklar róstur eru í samfélaginu og það þarf að ráða marga lögreglumenn og fangaverði til að passa innilokað fólk.
Í samfélagi sem þarf að endurskoða og endurrita frá grunni þá er mikilvægt að raddir þeirra sem hafa eitthvað að segja en hafa verið þaggaðar og eru með nálgun sem bersýnilega á meira erindi núna en áður heyrist hátt og skýrt og bergmáli um samfélagið.
Núna á þessum tímum þá þurfa konur sem alltaf hafa vitað að lífið snýst ekki um peninga og peningahagkerfið er gloppótt og mælir ekki það sem skiptir máli að koma fram og taka þátt í stjórnmálum og finna sér þann vettvang sem höfðar til þeirra.
Sá vettvangur getur verið Neyðarstjórn kvenna en sá vettvangur getur líka verið Framsóknarflokkurinn, Vinstri Grænir eða Samfylkingin. Ég hef nú sleppt bæði Sjálfstæðisflokknum og Frjálslyndum í þessari upptalningu enda sé ég ekki betur en þeir flokkar séu beinlínis fjandsamlegir konum og kvenlegu gildismati, því gildismati sem metur umhyggju og samvinnu ofar auðhyggju, því gildismati að við stöndum öll betur ef við hjálpumst að en berjumst ekki hvort við annað.
Það er ekki slæm staða núna í augnablikinu varðandi konur sem ráða á Íslandi. En það má benda á að margar þeirra komust til valda vegna þess að karlar klúðruðu. Þannig er borgarstjórinn í Reykjavík núna kona en það var eftir að þrír karlar höfðu áður glimt við þetta embætti og varð brátt um þá alla á valdastóli.
En það eru mikilvæg skilaboð til allra kvenna í öllum stjórnmálaflokkum:
Verum ekki vinnukonur kerfisins!
Breytum og umbyltum kerfi sem virkaði ekki.
![]() |
Fréttaskýring: Er tíminn réttur fyrir nýtt kvennaframboð? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.1.2009 kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.1.2009 | 11:22
Hvað er að í Kraganum?
Þetta fer að verða spennandi, alls konar vangaveltur um hver býður sig fram í hvaða kjördæmi. Það er náttúrulega mikið tómarúm á Suðurlandi eftir að tveir þingmenn Framsóknarflokksins þar helltust úr lestinni, þeir Guðni Ágústsson formaður og svo Bjarni Harðarsson sem var mikil vonarstjarna í Framsóknarflokknum en vonarstjörnur kunna ekki endilega allt og Bjarni kunni ekki vel á tölvupóst. Sem er náttúrulega sjarmerandi út af fyrir sig, það þurfa ekki allir að kunna á alla fídusa í þessum tæknigræjum. En það er háðuglegt að hrökklast af þingi út af því að framsenda nafnlaust níðbréf um samherja og kunna svo illa á tölvupóst að senda það undir eigin nafni á alla fjölmiðla Íslands. Ef menn vilja vera skúrkar þá eiga þeir að minnsta kosti að vera betur að sér í skúrkavinnubrögðum en Bjarni var. En Bjarni er nú kannski ekki svo mikill og reyndur skúrkur þó hann sé orðhákur hinn mesti og þó að hann hafi í hita leiksins villst af leið. Það er eftirsjá af Bjarna í Framsóknarflokknum en það er hins vegar engin eftirsjá af vinnubrögðum sem einkennast af óheilindum og bakstungum.
Annars er eins og enginn vilji bjóða sig fram í Suðvesturkjördæmi eða Kraganum í kringum Reykjavík eins og kjördæmið er gjarnan kallað.
Fyrrum frambjóðendur þar vilja nú fram í suðri og norðri en ekki í suðvestrinu. Það er nú ekki nema von, atkvæðin vikta svo lítið þar og hvergi nokkurs staðar hefur kreppan komið eins illa við fólk eins og hjá ungu fjölskyldunum sem búa í sveitarfélögum í kringum Reykjavík. Svo bætist við að staða sumra sveitarfélaga þar er arfaslæm og það sem verra er, íbúar á þessum svæðum fylgjast ekki nógu vel með hvernig sveitarfélögum er stjórnað og hve mikið þau eru skuldsett. Það horfir ekki vel á þessum slóðum, það mun enginn stjórnmálamaður horfa fram á uppsveiflu á þessum svæðum næstu árin. En þarna býr fólkið sem í dag hefur minnst vægi í kosningum til Alþingis.
![]() |
Samúel Örn horfir til heimasveitar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2009 | 08:08
Hvað með málverk Listasafns Íslands og málverk í eigu Reykjavíkurborgar
Það er frábært framtak hjá breskum stjórnmöldum að gera almenningi kleift að berja augum málverk í opinberri eigu og setja myndir af listaverkum á ókeypis vefsvæði. Ég velti fyrir mér hvenær íslensk stjórnvöld bæði ríki og Reykjavíkurborg fari sömu leið.
Árið 2004 var safneign Listasafn Íslands 10.000 verk samkvæmt þessari síðu um safneignina. Aðeins lítill hluti þessara verka er sýndur hverju sinni. Hvar eru öll hin, hver eru öll hin? Er ekki mikilvægt að þeir Íslendingar sem ekki komast á sýningar listasafnsins fái að fylgjast með þessari eign sinni?
Margir listamenn arfleiða listasöfn að verkum, sennilega vegna þess að listamennirnir vilja að þjóðin geti séð verk þeirra og telja listasöfn í eigu ríkis og sveitarfélaga best til þess fallin.
En í nútímasamfélagi þarf líka að geta fengið upplýsingar um verkin á Netinu. Það er auðvitað ekki það sama eins og að sjá listaverk á listsýningu en það tryggir að við vitum að viðkomandi listaverk er til og vitum hvar það er og hvernig eða hvort við getum séð það á sýningu.
Það eru til í listasöfnum og menningarsöfnum á Íslandi nákvæmar skrár yfir listaverkin. Þessar skrár eru fyrir fræðimenn og þá sem vinna við söfnin. Það er vissulega mikilvægt að hafa slík gagnasöfn en það þarf líka að huga að upplýsinga- og menningarhlutverki safna og gera safneign aðgengilega fyrir almenning.
Mörg söfn hafa varið miklu fé í að setja upp einhvers konar margmiðlunarsýningar fyrir þá sem heimsækja söfnin. En af hverju eru þessar sýningar ekki aðgengilegar á vefnum heldur aðeins fyrir þá sem koma í söfnin? Koma í söfn, að mæta á staðinn er best þannig að það sé öllu púðri varið í að skoða sjálf listaverkin eða menningarverkin. Ef starfænar sýningar eru aðgengilegar á vefnum þá gætu safngestir skoðað margmiðlunarsýningar í eigin fartölvum annað hvort áður en þeir koma í safnið eða á meðan.
Mér finnst illa varið því plássi sem er í söfnum í dag t.d. í Þjóðminjasafninu að taka það undir stafrænar sýningar sem allt eins gæti verið aðgengilegar á vefnum.
Það er hagur allra borgara að listaverkaeign og menningarverðmætaeign þjóðarinnar og borgarbúa sé aðgengileg öllum til skoðunar á vefsvæðum. Það geta hins vegar verið höfundarréttarmál sem koma í veg fyrir að hægt sé að birta myndir af listaverkum.
En talandi um listasafn Íslands og vefsíðu þess... þetta er eitthvað svo 2008 að hafa allar síður skreyttar með því að Samson properties sé aðalnúmerið í listalífi Íslands. Er ekki kominn tími til að taka þá borða niður og sýna meira af sjálfum listaverkunum?
![]() |
200.000 málverk verða aðgengileg á vef BBC |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.1.2009 | 21:07
Jóhanna tilvonandi tilvonandi forsætisráðherra á wikipedia
Ég er ein af þeim sem skrifa greinar á wikipedia. Það passar vel fyrir okkur sem trúum á samvinnuhugsjón og að fólk þurfi ekki að fá borgað fyrir allt sem það gerir að vinna í svona samfélagi, samfélagi þar sem frekar fáir vinna í sameiningu að því að leggja til efni en mjög margir hagnýta sér þetta efni á þann hátt sem þeim sýnist. Wikipedia samfélög eru einmitt dæmi um samfélög nýrra tíma, ekki samfélög neytenda eða framleiðenda heldur frekar svona starfefndasamfélög (communities of practice) þar sem sumir eru meiri sérfræðingar en aðrir og fólk verður smán saman meiri sérfræðingar með þátttöku sinni í samfélaginu.
Í fyrstu virkar eins og wikipediasamfélög séu óskipulögð og óvarin fyrir skemmdarverkum. Þannig er það reyndar ekki, þeir sem hafa stjórnunarréttindi geta læst síðum fyrir breytingum, eytt síðum og lokað á notendur sem eru til vandræða. Það er hins vegar þannig að langflestir koma að þessum samfélögum með það í huga að bæta við þekkingu,ekki að skemma og hrekkja. Það er auk þess ekkert alvarlegt þó að einhver rugludallur hafi bætt við rugli, það er auðvelt með einni skipun að færa wikisíðu í upprunalegt horf.
Það er gaman að fylgjast með hvernig síður verða til og efni bætist á þær á Wikipedia. Ég var fyrir tveimur árum að sýna nemendum mínum hvernig þeir settu inn grein um fólk á íslensku wikipedia og þá hittist þannig á að þann dag átti Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður afmæli og ég ákvað að nota hana sem sýnidæmi og skrifa grein um hana á wikipedia. Hér er sýnikennslan Jóhanna Sigurðardóttir - að skrifa persónugrein á wikipedia, þetta er 12 mínútur í spilun.
Svo er sjálf greinin hérna Jóhanna Sigurðardóttir
Það hefur verið bætt heilmiklu við þessa grein síðan ég byrjaði á henni þann 3. október árið 2006. Hérna má sjá breytingasöguna. Svo eru komnar greinar um Jóhönnu á mörg tungumál, sennilega fjölgar þessum tungumálum á næstunni, það verður gaman að fylgjast með því.
Núna eru greinar um Jóhönnu á íslensku og þessum tungumálum:
‪Norsk (bokmål)‬
Daginn sem Jóhanna verður forsætisráðherra verður sennilega öllum þessum greinum breytt þannig að hún verði flokkuð með forsætirráðherrum.
Svo ég gleymi ekki því sem ég ætlaði upprunalega að fjalla um þ.e. hvort það hefði áhrif að setja flöggun á greinar þá held ég að það hafi frekar takmörkuð áhrif. Þeir sem vilja skemma greinar munu bara búa til gervinotendur löngu áður en þeir áætla að fremja skemmdarverkin. Þannig gerist það í spjallborðum. Maður verður bara að vera viðbúin skemmdarverkum og gyrða fyrir sem flest en passa að girðingarnar útiloki ekki líka þá sem vilja hjálpa til.
![]() |
Wikipedia snýst gegn netbullum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2009 | 13:06
Norðvesturkjördæmi og Suðvesturkjördæmi
Gaman að heyra af kosningabaráttu Framsóknarmanna sem núna er að hefjast. Margir vilja auðvitað vera í efstu sætum Framsóknar enda meðbyrinn mikill og málefnastaðan góð. Ég vil benda öllum sem vilja kynna sér Norðvesturkjördæmi á að íslenska wikipedia er með góðar upplýsingar um kjördæmið. Eftirfarandi sveitarfélög eru í Norðvesturkjördæmi: Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð, Bæjarhreppur, Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Höfðahreppur, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur.
Það búa 30.120 í Norðvesturkjördæmi og er helmingur þeirra á Vesturlandi, fjórðungur á Vestfjörðum og fjórðungur á Norðurlandi vestra. Það eru 9 þingmenn (8 kjördæmakjörnir og 1 jöfnunarmaður).
Fjöldi á bakvið hvert þingsæti í Norðvesturkjördæmi árið 2007 var 2.347
Þess má geta að árið 2007 var Guðmundur Steingrímsson í framboði í Suðvesturkjördæmi fyrir Samfylkinguna en náði ekki kjöri. Hann var reyndar mjög nálægt því, var úti og inni alla nóttina eins og Samúel.
Fjöldi á bakvið hvert þingsæti í Suðvesturkjördæmi árið 2007 var 4.549
Ég vil benda öllum íbúum Suðvesturkjördæmis á þetta misvægi atkvæða. Hvert atkvæði í Norðvesturkjördæmi vegur helmingi meira en hvert atkvæði í Suðvesturkjördæmi. Hvað segja Framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi við því? Er þetta eðlilegt?
Þarf ekki að breyta svona hlutum?
![]() |
Guðmundur: Stefnir á fyrsta sætið í NV-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
27.1.2009 | 23:55
Framsóknarflokkurinn tryggir frið í Reykjavík og á Íslandi
Ég er ansi ánægð með Framsóknarflokkinn núna.
Í Reykjavíkurborg þá kom Framsóknarflokkurinn með Óskar Bergsson í broddi fylkingar og frelsaði borgina frá algjörum glundroða, það var átakanlegt fyrir okkur borgarbúa að horfa upp á hve lítinn samhljóm fyrrum borgarstjóri (þ.e. þessi númer 3. á kjörtímabilinu) Ólafur Magnússon átti með borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem þó höfðu stutt hann í embættið.
Í byrjun kjörtímabilsins þá var Óskar ekki borgarfulltrúi og eins og flestir sem fylgjast með okkar innra starfi þá kubbaðist ansi mikið úr liðinu, ekki síst vegna þess að heilu hnífasettin gengu á milli manna og stórskemmdu rándýr jakkaföt En Óskar hefur spilað ansi vel út úr þessari stöðu - ekki bara fyrir Framsóknarflokkinn heldur líka fyrir allt fólk í borginni. Mér finnst svo ekkert verra að samstarf Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafi tryggt okkur ágæta konu sem borgarstjóra, Hanna Birna stendur sig vel í því embætti.
Núna kemur Framsóknarflokkurinn undir forustu Sigmundar Davíðs eins og frelsandi engill inn í landsmálin og bjargar stjórnarmálaflokkum úr landinu út úr algjöru neyðarástandi, ástandi sem var mörgum sinnum elfimara það var nokkru sinni í borgarmálunum, ástandi þar sem ríkisstjórn Geir Haarde var rúin trausti og það voru að brjótast út óeirðir og byltingarástand. Ég held reyndar að það muni áfram vera róstusamt á Ísland, menn skulu ekki ímynda sér að það nægi að skipta um ríkisstjórn til þess. En rósturnar hefðu orðið miklu hatrammari ef Geir hefði setið áfram.
Ég er líka ansi ánægð með að stuðningur Framsóknarflokksins verði til þess að hér verður um hríð ríkisstjórn undir forustu ágætrar konu sem nýtur mikillar virðingar og stuðnings. Tími Jóhönnu er kominn og það var Framsóknarflokkurinn sem snéri því stundarglasi.
Ingibjörg Sólrún er frábær, það veit ég frá því að við vorum samherjar í stjórnmálum í Kvennalistanum forðum daga. Hún er líka óhemju dugmikil kona og núna er hún mjög veik að mynda nýja ríkisstjórn. Ég held að mér sé farið eins og mörgum öðrum Íslendingum, krafturinn og kjarkurinn í Ingibjörgu Sólrúnu sýnir sig hvað best núna og við dáumst öll að henni en við höfum líka öll áhyggjur, hún er veik og hún þarf að nota krafta sína til að byggja sjálfa sig upp og ná fyrri heilsu.
Framsóknarflokkurinn fékk ekki mikil kjörfylgi í síðustu kosningum og það er mikilvægt að fara vel með það umboð sem kjósendur veita. Það hefur Framsóknarflokkurinn gert núna bæði í borginni og í ríkisstjórn og þannig tryggt eins góðan vinnufrið og hægt er miðað við aðstæður. Já og stuðlað að því að núna er kona borgarstjóri í Reykjavík og kona verður forsætisráðherra. Þingflokkur Framsóknarflokksins er núna þannig samsettur að þar eru fleiri konur en karlar.
Sem sagt, Framsóknarflokkurinn bjargar bæði borg og ríki frá glundroða, styður konur til valda bæði sem borgarstjóra og forsætisráðherra og er eini flokkurinn á þingi núna þar sem konur eru fleiri en karlar.
![]() |
Skýrt umboð aðalatriðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.1.2009 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.1.2009 | 21:29
Búsáhaldatakturinn
Stjórnin er fallin. Í tilefni af þessum miklu tímamótum þá frumsýni ég hérna á blogginu nýjustu stuttmyndina mína, það er stuttmyndin Búsáhaldatakturinn, 10 mínútur að lengd. Sviðið er Austurvöllur á 16anda útifundinum og myndin er raddsett af Guðmundi Andra Thorssyni en myndin er tekin upp undir ræðu hans, þar sem ég gekk um með litlu stafrænu myndavélina mína stillta á record og tók myndir af fólkinu á Austurvelli sem hlýddi á ræðu Guðmundar. Ég er með varíant af kreppudogma í þessari stuttmynd, ég nefnilega hljóðsetti myndina með smábút af búsáhaldaglamri og hrópum sem upphófust eftir að útifundinum lauk.
Ég hugsa þó að mótmælin leggist af og nýjabrumið fari af þeim eins og öðru þá sé hér komin ný íslensk tónlistarstefna.
Efst í þessu bloggi er stuttmyndin á youtube. Hér er stuttmyndin í betri gæðum en ekki streymimiðlum og því erfitt nema fólk hafi góða nettengingu, sjá hér Búsáhaldatakturinn
Þetta var vanhæf ríkisstjórn. En hvernig er hæf ríkisstjórn í þeirri stöðu sem við erum í núna? Ég held að því sé auðsvarar. Það verður að vera hér ríkistjórn sem hefur hagsmuni alþýðu að leiðarljósi, þá hagsmuni að halda Íslandi í byggð því hér er að bresta á landflótti. Ríkisstjórn sem er ekki feimin við ríkisafskipti og ríkisrekstur og það sem menn í heiminum í dag, ekki bara á Íslandi þurfa að snúa til það er einhvers konar áætlanabúskapur og einhvers konar hagkerfi sem er ónæmt fyrir peningabólum.
![]() |
Stjórnarsamstarfi lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.1.2009 kl. 07:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.1.2009 | 18:19
Börn og geðveikir foreldrar og fíklar
Ég var að lesa blogg Heiðu Þórðar Áður en þið dæmið geðsjúka móðir...lesið; en núna er viðtal við Gísla Þór bróður hennar í Vikunni um uppvaxtarár hans hjá móður sem bæði glímdi við geðræn vandamál og alkóhólisma. Þau voru sex sammæðra syskini og þrjú alsyskini. Sum ólumst upp hjá ömmum sínum. Gísli lýsir jólum bernsku sinnar í þessu bloggi Óyfirstíganlegir veggir
Það eru mjög margir sem glíma við geðræn vandamál á einhverjum hluta ævi sinnar, vandamál sem stundum magnast upp af ytri aðstæðum eins og fjárhagserfiðleikum, drykkjuskap eða annars konar fíkniefnaneyslu. Sumir þeirra eiga börn og þegar fólk er svo veikt að það getur ekki stjórnað eigin lífi þá getur það stundum ekki veitt börnum þá umönnun sem þau þurfa og eiga rétt á.
Í barnaverndarlögum er þetta ákvæði um tilkynningaskyldu almennings:
25.1.2009 | 13:52
Stjórnlaust land
Afsögn Björgvins skapar ennþá meiri glundroða í íslensku samfélagi. Sérstaklega ef það er rétt að afsögn hans hafi komið Ingibjörgu Sólrúnu á óvart. Það var komin tími til að skipta út stjórn fjármálaeftirlitsins og forstjóri þess hefði átt að fjúka sama dag og Geir flutti "Guð blessi Ísland" ræðuna sína. Ríkisstjórnin sem nú sítur er bæði ráðlaus og dáðlaus. Hún megnar á engan hátt að taka á þeim gríðarlega vanda sem blasir við Íslandi, öll hennar orka virðist fara í að leyna vanmætti sínum.
Ég hugsa að moggabloggarar gætu stjórnar þessu landi miklu betur en sú ríkistjórn sem nú situr. Það er reyndar ekki sagt í tómu gríni, moggabloggarar og aðrir bloggarar eru áberandi í andspyrnuhreyfingu gegn stjórninni, hér er mynd af sviðinu á útifundinum á laugardaginn og moggabloggarar eiga sviðið. Hildur Helga er að flytja sína ræðu, Jakobína er í biðstöðu að flytja næstu ræðu og Lára Hanna vopnuð myndavél er að skrá niður atburðinn. Á næstu mynd má sjá Heiðu sem slær taktinn á torgum í búsáhaldabyltingunni og hefur verið þar kórstjóri og innsti koppur í búri.
Nú er bara spurningin hvort það verði útifundur næsta laugardag. Ef stjórnin er fallin hvað þá? Ef það verður fundur þá verður hann skrautlegur, það er nú tíska á hverjum laugardag bæði í klæðnaði og í verkfærum. Nú mætir fólk með skeiðar og álþynnur og dollur og potta og sleifar og skreytir sig appelsínugulum borðum. Einstaka ebe regnhlíf sá ég á lofti.
Ég hugsa að mótmælin eftir viku verki í appelsínugulum og svörtum tónum.
Ef stjórnin lifir svo lengi.

![]() |
Björgvin segir af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2009 | 13:33
Kreppudagur og þegar skosku hálöndin voru rýmd
Ég ætla að mæta á Austurvöll á eftir eins og ég hef reynt að gera flestalla laugardaga. Ég get ekki séð að það hafi neitt áunnist nema tímasetning er nokkurn veginn komin á kosningar. En mér finnst mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn sitji ekki þann tíma að völdum. Ég get ekki annað séð en að ríkisstjórnin sem núna situr sé lömuð og rúin trausti. Samt hefur þessi ríkisstjórn óhemju þingmeirihluta frá síðustu kosningum.
Ég óska bæði Ingibjörgu og Geirs góðs bata í veikindum sínum. Það er sorgleg og erfið staða að einmitt núna þegar mikið mæðir á ríkisstjórninni þá skuli báðir foringar hennar eiga við alvarleg veikindi að stríða. Bæði Geir og Ingibjörg vinna einlæglega fyrir íslensku þjóðina og ég hef aldrei efast um að þau vilji vel og vinni fyrir fólkið í landinu en ekki fyrir sjálfa sig.
En það er því miður þannig að ég á erfitt með að treysta öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar á þessum tímum, sérstaklega er erfitt að treysta ráðherrum Sjálfstæðisflokksins sem virðast sumir sjálfir tengjast undarlegum fjármálagjörningum og halda hlífiskildi yfir mönnum sem tengjast undarlegum fjármálagjörningum. Þar á ég ekki síst við Þorbjörgu Katrínu og hvernig hún og eiginmaður hennar hafa gert upp eða ekki gert upp skuldir sínar vegna hlutafjárkaupa og svo Árna Mathiesen í fjármálaráðuneytinu sem hefur þar ráðuneytisstjóra Baldur Guðlaugsson sem hefur stundað undarleg hlutabréfaviðskipti og virðist hafa hagnýtt sér innherjaupplýsingar í auðgunarskyni. Þess má geta að umræddur Baldur mun hafa verið í einkavæðingarnefndinni á sínum tíma. Það er hneykslanlegt að Baldur skuli ekki þegar kominn í frí frá störfum.
Eftir hrunið hefur afhjúpast fyrir okkur forað sem við vissum ekki að væri til. Ef allar getgátur og sögur eru sannar þá er yfirgengileg spilling í íslensku fjármálalífi og þessi spilling hefur grafið um sig með sátt og raunar líka þátttöku margra Sjálfstæðismanna.
Í Morgunblaðinu í dag var grein um Burns daginn hjá frændþjóð okkar Skotum. Ég hef alltaf öfundað Skota af þessum degi, deginum sem þeir minnast gamalla tíma, sjálfstæðisbaráttu og sérstöðu Skota og tengja það matarhefð fyrri tíma. Eitt í sögu Skota sem er alveg heldjúpt sár ennþá er highland clearance. Þegar landeigendurnir vildu nota skosku hálöndin fyrir sauðfjárbúskap og ráku alla leiguliða í burtu.
Ég velti fyrir mér hvort einhvern tíma komi sú tíð á Íslandi að við verðum í sömu sporum og leiguliðarnir á skosku heiðunum - við verðum rekin hérna burtu af eyjunni Íslandi vegna þess að við erum fyrir einhverjum sem hafa komist yfir eignarhald á öllum auðlindum hérna. Það er alveg fyrirsjáanlegt að í náinni framtíð verða auðlindir Íslands mikilvægar, hér er orka og hér er land, hér eru hafnir við sjó, hér eru ein gjöfulustu fiskimið heimsins. Ef til vill er sú staða einmitt uppi núna að það er verið að reka okkur í burtu, ekki sýnilega og á yfirborðinu heldur með þeim undarlegu þráðum viðskipta og eignarhalds sem hneppa okkur í fjötra og kippa undan okkur lífsbjörginni.
Ef til vill getum við þegar tímar líða fram haldið árlega hátíðlegan kreppudaginn alveg eins og Skotar halda hátíðlega sláturkeppadaginn og minnst með angurværð gamalla tíma, tíma þar sem við héldum að við værum sjálfstæð þjóð sem réði eigin örlögum og byggi í landi sem hún réði yfir. Ef til vill munu barnabarnabarnabörn okkar finna í ljóðum og sögnum og söngum og hljómkviðum og skáðum frásögnum finna þá djúpu sorg sem lagðist yfir íslensku þjóðarsálina þegan heimsmynd okkar hrundi.
Ég held að kreppudagurinn sé ágætur í kringum 20 janúar.
Tenglar um rýmingu skosku heiðanna
The Patterns of the Highland Clearances
Highland Clearances - Wikipedia
The Age of Revolutions The Highland Clearances
The Highland Clearances and the Effects on Scotland Today
![]() |
Mótmæli halda áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)