10.4.2009 | 15:17
Stjórnmál og útrásarvíkingar
Það er náttúrulega grátlegt hvernig komið er fyrir Íslendingum eftir áratuga stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins sem reyndar við gætum nefnt Sjálftökuflokkinn og þetta fyrirbæri einkavæðinguna sem við getum líka nefnt einkavinavæðinguna.
Fyrir mörgum, mörgum árum þá fór ég á fyrirlestur um þróunarmálefni og fyrirlesarinn hafði starfað í þróunarlandi þar sem stjórnarhættir voru ansi spilltir, bara einhvers konar ættbálkaveldi og sjálftaka þeirra sem voru við stjórn hverju sinni á öll gæði. Fyrirlesarinn sagði frá því að öll þróunarverkefni yrði að vinna í sátt við innfædda og þá sem færu með stjórnina. Það skipti öllu máli að þeir hefðu áhuga á verkefninu annars myndi það ekki ná í gegn. Hún nefndi dæmi um að mig um sundlaug eða eitthvað vatnsverkefni, það hefði tekist að ná því í gegn með því að vekja áhuga innfæddra höfðingja. Ef áhugi þeirra væri fyrir hendi þá gengi þetta en það var ekki nóg að þeir sýndu áhuga, hefð væri fyrir og þeir ætluðust til að fá eignarhluta skráðan á sig í öllu sem væri byggt án þess að hafa sjálfir lagt neitt til. það var nokkurs konar skattur á alla starfsemi í þróunarlandinu og það þýddi ekkert að starfa þarna nema fara að þessu, hluti af allri þróunaraðstoð færi að hluta í eignarhluta ættarvelda og stjórnmálamanna. Ég man hvað ég var hneyksluð eftir þennan fyrirlestur, getur þetta verið hugsaði ég, getur verið að Íslendingar og aðrar vestrænar þjóðir séu að veita þróunaraðstoð í svona bananalýðveldi?
Núna mörgum árum seinna átta ég mig á því að svona hefur stjórnarseta Sjálfstæðisflokksins verið. Í gegnum einhvers konar fjármálaflækjur þá hafa þeir sem fengu einhverja fyrirgreiðslu frá flokknum greitt fyrir hana, greitt með því að leggja stórfúlgur í flokkssjóði.
Margir æðstu menn í Sjálfstæðisflokknum sem ennþá eru í framboði og leiða lista tengjast svona málum. Það er líka þannig að stundum hefur með samvinnu bankastofnana og stjórnmálamanna í Sjálfstæðisflokknum og stórfyrirtækja verið búnir til einhvers konar pakkar til að gefa einstökum aðilum sem stundum eru bræður þeirra þeirra sem eru í framlínu stjórnmálanna alls konar fyrirgreiðslu. Þannig má rifja upp hvað gerðist þegar íbúðir og byggingar sem bandaríski herinn skildi eftir sig voru seldar. Hverjir fjármögnuðu þau kaup þegar bróðir fjármálaráðherra og fleiri Sjálfstæðismenn keyptu? Á hvaða róli er það mál núna? Hver á þessar byggingar núna? Ég geri ráð fyrir að það séu einhverjar af þeim bankastofnunum sem fjármögnuðu þessi kaup - eða kannski er ekkert búið að borga fyrir þessar eignir?
Sjá hérna:
Háskólavellir: Dumping á leigumarkaði
Annars er hér til gamans tveir þættir sem gera gys af útrásarvíkingum og stjórnmálamönnum samtímans.
![]() |
Landsbankinn veitti 2 styrki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2009 | 13:08
Sjálfstæðisflokkurinn er að klofna
Við fylgjumst öll þjóðin með píslargöngu Sjálfstæðisflokksins núna á föstudaginn langa en ég vona að það sé ekki þórðargleði í nokkrum manni. Við erum öll að tapa ef það stjórnmálaafl sem stærst er á Íslandi og sem stýrt hefur og ráðið öllu á Íslandi er svona innanétið af spillingu að það er ekkert eftir nema nokkrar feysknar spýtur. Ég hugsa að ef nóg svigrúm hefði verið til og þessar uppljóstranir hefðu komið fram fyrir tveimur mánuðum eða svo þá hefðu ný framboð Sjálfstæðismanna komið fram í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi. Það verður hins vegar að skila framboðslistum strax eftir páska og það er of lítill tími fyrir heiðarlega Sjálfstæðismenn sem vilja breytingar að stilla saman krafta sína og koma saman framboði í öllum kjördæmum.
Núna eru efstu menn á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þeir Illugi Gunnarsson og Guðlaugur Þór. Báðir eru þessir menn með fortíð sem veldur því að við erum full tortryggni gagnvart þeim. Illugi var í enkavæðingarnefnd og hefur skrifað marga pistla með áköfum áróðri fyrir sölu og framsali íslenskrar orkuvinnslu, hann hefur unnið leynt og ljóst að því að selja Landsvirkjun. Guðlaugur þór var stjórnarformaður Orkuveitu okkar Reykvíkinga og hann virðist hafa unnið á sama hátt og viljað einkavæða sem mest. Illugi tengist svo illilega þessu Sjóði 9 spillingarmáli og það er borið á Guðlaug Þór að hann hafi safnað fé frá fyrirtækjum sem höfðu mikla hagsmuni að gæta í þessum málum.
Ég vil nú reyndar vara við að sök sé kastað á Guðlaug Þór einan út af þessu máli. Ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið samantekin ráð margra valdamikilla manna í Sjálfstæðisflokknum að ná inn sem mestu áður en lögin sem kváðu um að framlög yrði að upplýsa tækju gildi.
Það má bera saman þessa tvo fulltrúa sem leiða lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík saman við þau Sigmund Davíð og Vigdísi Hauksdóttur sem leiða lista okkar Framsóknarmanna.

Við Framsóknarmenn héldum Skírdagsreið við Elliðavatn í Heiðmörk á Skírdag, það er nálægt þeim heilaga stað Þingnesi og fyrir mér var þetta eins konar pílagrímsför á slóð forfeðranna, við skulum muna að hér á Íslandi er löng lýðræðishefð og við Framsóknarmenn viljum stjórnlagaþing. Það væri nú við hæfi að hafa táknræna athöfn á hinu forna Þingnesi fyrir okkur hérna á höfuðborgarsvæðinu um leið og við fögnum nýrri stjórnarskrá. Víst er Þingvellir okkar helgasti staður en Þingnes er líka afar merkilegur sögustaður og ef til vill var þar fyrsta þing á Íslandi.
Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett "at ráði Ulfljóts ok allra landsmanna þar es nú nes, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu".
Enginn veit hvar Kjalarnessþing var háð en það er talið að það hafi um tíma verið í Þingnesi. Kjalarnesþing var eins konar undanfari Alþingis það var ekki löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og fræðimenn telja líklegt að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að Kjalarnesþingi.
Það var auðvitað tekið lagið í Skírdagsreiðinni og eitt lagið sem var sungið var "Útileigumenn í Ódáðahraun, eru kannski að smala fé á laun". Þegar ég kom heim og les fréttirnar þá held ég barasta að þessir útileigumenn séu þeir menn í Sjálfstæðisflokknum sem smöluðu á laun fé (60 milljónir) inn í Valhöll. En hér er myndband frá Skírdagsreið okkar Framsóknarmanna.
Við Framsóknarmenn tökum vel á móti öllum þeim mörgu Sjálfstæðismönnum sem óánægðir eru með Sjálfstæðisflokkinn núna og hvetjum ykkur til að koma í kosningamiðstöðina okkar í Borgartúni 28 og kynna ykkur hvað Framsóknarflokkurinn stendur fyrir núna. já og lært hvernig á að breyta flokki:-) Þar hefur verið unnið mikið uppbyggingarstarf í Framsóknarflokknum og því er ekki nærri lokið. Við þurfum að breyta öllum flokkum í heiðarlegar og lýðræðislegar hreyfingar og virkja grasrótina. Hér er yfirlýsing frá Framsóknarflokknum varðandi styrki sem betur fer þá virðist okkar flokkur ekki hafa tekið við svona styrkjum eins og Sjálfstæðisflokkurinn.
![]() |
Skeytasendingar á vefsíðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.4.2009 | 19:56
SkírdagsREI Sjálfstæðismanna og Skírdagsreið Framsóknarmanna
Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn logar stafnanna á milli og spjótin ganga á milli með meiri þunga en hnífasettin hentust til í Framsóknarflokknum fyrir margt löngu þá nutu Framsóknarmenn í Reykjavík veðurblíðunnar og hinnar fögru borgar Reykjavíkur
Í dag var Skírdagsreið Framsóknarflokksins. Það eru margir Framsóknarmenn miklir hestamenn enda flokkurinn nátengdur sveitinni og íslenskri náttúru.

Og það er ólíkt skemmtilegra að njóta fyrstu vordaganna upp í Heiðmörk við Elliðavatn í hópi hestamanna heldur en velta fyrir sér hvort Guðlaugur Þór og Geir sögðu satt og segja satt. Við vitum nú reyndar öll að Geir hefur ekki alltaf sagt satt en það er verra ef sama lenska er hjá Guðlaugi Þór, það er ekki gott fyrir Reykvíkinga í Reykjavík suður að hafa hann í fyrsta sæti hjá Sjálfstæðismönnum ef hann lýgur mikið. Þá er nú ólíkt betri kostur hún Vigdís Hauksdóttir sem er í 1. sæti hjá okkur Framsóknarmönnum í Reykjavík suður, fólk ætti að bera þau saman og spá í hvort þau vilja frekar sem fulltrúa Reykvíkinga á þingi.
Hvort vill fólk styðja gerspilltan og sundurtættan Sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokkinn sem hefur gengið í gegnum sinn hreinsunareld og sækir að nýju þrótt sinn og styrk til sveitanna og samvinnuhugsjóna og félagshyggju og þar er nú algjör endurnýjun og við flest sem erum í efstu sætum þar erum með hagfræði-, viðskipta- eða stjórnmálafræðibakgrunn og tilbúin að taka þátt í að byggja upp atvinnulíf á Íslandi, taka þátt í uppbyggingu samfélags þar sem efnahagsmálin hljóta að vera í brennidepli. Þó að Framsóknarflokkurinn sé félagshyggjuflokkur þá er hann flokkur þar sem unnið er af skynsemi og yfirvegun og ekki fylgt neinum öfgum eða kreddum hvorki til hægri eða vinstri.
Hér er mynd af Ástu sem er í 2. sæti í Reykjavík Norður og Vigdísi sem er í 1. sæti í Reykjavík suður og Guðrúnu sem er í 3. sæti í Reykjavík suður
Óskar borgarfulltrúi og Hallur kosningastjóri og moggabloggari taka sig vel út á hestbaki
Hér er líka vídeó af Skírdagsreið Framsóknarmanna
Fleiri myndir (yfir 90) úr Skírdagsreiðinni má sjá hérna.
Hér er Eiríkur frambjóðandi í 15. sæti í Reykjavík norður með syni sínum og hestinum þeirra í taumi.
Hér er Valgerður frambjóðandi í 13. sæti í Reykjavík suður með einn af sínum mörgu hestum.
Hérna er mynd af kosningabíl okkar Framsóknarmanna núna í kosningunum. Þetta er allt önnur lína en Hummerinn sem var kosningabíll í síðustu borgarstjórnarkosningunum. Framsóknarflokkurinn hefur breystst. Ísland hefur breyst og vonandi mun Sjálfstæðisflokkurinnn ná að breytast einhvern tíma. Það verður því miður ekki tími fyrir hann að gera það fyrir næstu kosningar. Það er ekki hægt að sópa öllum syndunum undir teppið og bjóða okkur upp á sama fólkið og sömu vinnubrögðin og komu okkur í Hrunið.
Svo má ég til með að líma hér inn til samanburðar við Skírdagsreið okkar Framsóknarmanna hvernig staðan er núna í SkírdagsREI hjá Sjálfstæðismönnum. Loksins fatta allir hvers vegna Geir gerði ekki neitt þegar sex borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna fóru á fund hans og klöguðu undan Vilhjálmi og REI ævintýri hans sem óneitanlega virðist hafa töluverða snertifleti við þessa styrki hjá Fl group og Landsbankanum.
En maður skilur reyndar ekki hvað Valhöll gerði við alla þessa peninga. Líka hvernig allir nema Geir gátu troðist þarna inn þegar allt var stútfullt af fé án þess að teka neitt eftir neinu.
![]() |
Hvítþvegin bleyjubörn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.4.2009 kl. 03:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2009 | 19:16
Sigmundur Davíð að kanna stöðuna hjá Framsókn
Það var flott viðtalið við Sigmund Davíð um efnahagsmálin. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem leggur áherslu á efnahagsmálin og það má minna á að við sem erum í efstu sætunum í Reykjavíkurkjördæmunum erum mörg með sérmenntun í hagfræði og viðskiptafræðum. Efnahagsmál Íslands eru í góðum höndum hjá Framsóknarmönnum og það eru erfiðir tímar þar sem miklu máli skiptir að skynsamt, réttlátt og framsýnt fólk komi að stjórn landsins.
Það gleður mig að Sigmundur Davíð ætlar að kanna hvort að Framsóknarflokkurinn fékk einhverja slíka óeðlilega háa styrki á þessum tíma frá einstökum fyrirtækjum.
Það eru nokkrar vikur síðan fjölmiðlar tóku upp ofstopa og ofsóknir Ólafs Magnússonar þegar hann réðst á Óskar Bergsson fyrir að hafa boðið nokkrum sveitastjórnarmönnum upp á glas að loknum kynningarfundi í Ráðhúsinu þar sem Óskar var að útskýra fyrir þessum sveitarstjórnarmönnum hvernig öll hringavitleysan væri búin í Reykjavík og nú unnið þar af skynsemi eftir að Framsókn tók við. Þetta var í tengslum við ráðstefnu sveitarstjórnarmanna utan af landi og kostaði heilar 90 þúsund krónur. Ég bið fólk að bera saman þessar 55 milljónir sem runnu í Sjálfstæðisflokkinn saman við þessa mótttöku. Ef Framsóknarflokkurinn býður upp á kaffi og kleinur þá er það spilling en ef Sjálfstæðisflokkurinn stingur á sig 55 milljónum það þá heitir það "traust efnahagsstjórn".
Hér er kosningaáróðursplagg frá Sjálfstæðisflokknum árið 2007
![]() |
Greiðsluaðlögun stórhættuleg ein og sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.4.2009 kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.4.2009 | 18:44
Þegar öllu er á botninn hvolft
Það er lítið hægt að segja um þær uppljóstranir sem nú koma fram um Sjálfstæðisflokkinn nema samhryggjast öllum heiðarlegum Sjálfstæðismönnum sem núna eiga mikið verk framundan að byggja upp stjórnmálaflokk sem er rjúkandi rúst.
Hér er ein af kosningaáróðursmyndunum sem birtust almenningi fyrir kosningarnar 2007. Sjáum við á brosinu á þessum manni að hann er þá nýbúin að taka við 30 milljón króna framlagi frá FL Group í sjóði Sjálfstæðisflokksins? Sjáum við að hann er þarna að plata? Ætlar þú að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í vor?
![]() |
Geir segist bera ábyrgðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.4.2009 | 17:28
Hið ríka ríki verður ríkara
Vá, hvað þetta er sniðugt hjá ríkinu. Breyta skuldum sem aldrei verða borgaðar og engin leið er að verði borgaðar í hlutabréf í opinberu hf fyrirtæki (ohf) sem ríkið átti 100 % fyrir í. Hvað skyldi ríkið eiga núna mörg hundruð prósent í skuldum Rúv? Ríkið hefur verið í læri hjá útrásarvíkingum og bólupeningagerðarmönnum Íslands og býr núna til peninga úr skuldum.
Svakalega sem þetta virkar vel þessi einkavæðingarárátta Sjálfstæðismanna, maður fellur í stafi yfir þessum árangri. Hér er smálexía fyrir þá sem eru ekki ennþá búnir að fatta hvernig skuldir búa til eignir í því kasínó kapitaliska hagkerfi sem við búum við.
Nr. 1
Nr. 2
Nr. 3
Nr. 4
Nr. 5
![]() |
Skuld RÚV breytt í hlutafé |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.4.2009 | 17:08
Áhugavert að fylgjast með Kraganum - Jöfnun atkvæða er réttlætismál
Það er áhugavert að sjá kannanir frá því kjördæmi þar sem hvert atkvæði vigtar minnst á Íslandi. Það er í Suðvesturkjördæmi. Þetta er líka kjördæmi Sjálfstæðisflokksins, þarna raðast formaður og varaformaður flokksins á lista og það er magnað að fólk skuli vera svona ánægt með frammistöðu þeirra að yfir þrjátíu prósent kjósenda í þessu kjördæmi ætli að styðja Sjálfstæðisflokkinn. Maður spyr sig... fyrir hvað? Fyrir að setja hérna allt á kaldan klaka og skilja okkur eftir í skuldaánauð allslaus og hrakin?
En það er ekki síður áhugavert að fylgjast með að samkvæmt þessari spá er tvísýnt um einn mann til Framsóknarflokksins í Kraganum. Það er þannig að af fjórflokkunum þá verða engir eins mikið fyrir barðinu á undarlegum og skrýtnum kosningareglum eins og Framsóknarmenn hér á höfuðborgarsvæðinu í báðum Reykjavíkurkjördæmunum og í Kraganum. Í síðustu Alþingiskosningum þá náðum við Framsóknarmenn í Reykjavík hvorki inn manni í Reykjavík suður né Reykjavík norður og alla kosninganóttina var tvísýnt um hvort að Samúel næði inn sem jöfnunarmaður. Hann var úti og inn um gluggann alla nóttina.
Er þetta eðlilegt í lýðræðisþjóðfélagi?
![]() |
VG tvöfaldar fylgið í Kraganum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.4.2009 | 11:54
"Algjörlega til skammar fyrir Sjálfstæðisflokkinn"
"Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það til skammar fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa þegið 30 milljón króna styrk frá FL Group í árslok 2006. Þetta hlýtur að vera erfitt fyrir þá að verja sem stýrðu flokknum á þessu tímabili. Þetta vekur margar spurningar, sem eðlilegt er að fá svör við að mínu mati. Fyrir okkur almenna flokksmenn er þessi styrkveiting með öllu óverjandi og ég vil fá svör frá þeim sem stýrðu flokknum á þessum tíma.
Tvennt vekur þó óneitanlega meiri athygli í mínum augum umfram annað. Í fyrra lagi; þessi styrkveiting kemur skömmu eftir að tilkynnt var að Kjartan Gunnarsson myndi hætta sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og stuttu eftir margumtalað prófkjör í Reykjavík þar sem hart var tekist á og Björn Bjarnason varð undir í harðvítugum leiðtogaslag. Enn ganga kjaftasögur um aðkomu fjársterkra manna að þeim slag.
Í seinna lagi (og það sem er stóra fréttin); þetta er á mörkum þess tíma sem ný lög um opið bókhald og hámarksstyrki tóku gildi. Örfáum dögum áður en nýtt upphaf verður í bókhaldi flokkanna kemur þessi mikla upphæð til Sjálfstæðisflokksins. Þetta er það stórt mál að það verður að tala hreint út um það. Mér sem flokksbundnum sjálfstæðismanni finnst þetta alveg til skammar."
Hmmmm.... er mér ekki eitthvað að förlast á blogginu þegar ég er farin að endurróma konung endurómsins stebbafr.blog.is og er svo innilega sammála honum um að þetta sé algjörlega til skammar. Annars finnst mér stebbifr farinn að vera grunsamlega vel skrifaður, það er margt sem bendir til að róbotinn sem skrifaði það blogg um tíma sé bilaður og það séu ágætir pennar sem skrifa hann núna. Hins vegar virkar róbotinn sem kemur stebbabloggi efst á vinsældalista moggabloggsins ágætlega ennþá. Það er gott til þess að vita að eitthvað virkar ennþá í íslensku samfélagi
![]() |
30 milljóna styrkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.4.2009 | 09:06
Krónulufsan
Nú er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn búin að að koma sér upp skrifstofu á Íslandi. Eftir heimsóknir hinna tveggja erlendu gesta í vikunni sem báðir fluttu okkur þann boðskap að við ættum ekki að beygja okkur undir það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi, hann væri verkfæri í höndum þeirra aðila sem beygðu fátæk og skuldug ríki í duftið og undir yfirráð alþjóðlegra stórfyrirtækja sem bara sæktust eftir aðgangi að auðlindum þá erum við Íslendingar ansi tortryggin á veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi.
Það getur því verið að það verði hluti af verkefni hinnar nýju skrifstofu að vera einhvers konar almannatengslaskrifstofa við almenning og ráðamenn á Íslandi. Edda Rós Karlsdóttir er þekkt úr fjölmiðlum, frá þeim árum þar sem einu upplýsingarnar sem okkur bárust um stöðu íslensks efnahagslífs kom úr greiningardeildum bankanna. Ég held að það hafi verið einn liður í að blekkja okkur hve blint við trúðum á orð þeirra sem höfðu það markmið eitt og æðst að gæta hagsmuna eigenda bankanna sem voru vinnuveitendur þeirra. Þessi takmarkaða innsýn sem við fengum inn í efnahagslíf var í gegnum fjölmiðla sem voru annað hvort í eigu þessarra sömu bankaeigenda eða úr vanmáttugum ríkisfjölmiðlum sem hefur eins lengi og ég man verið beinstýrt úr Valhöll.
Tortryggni mín gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er mikil. Ég mun ekki treysta ráðleggingum hans í blindni og ég held að saga hans sýni að oft hafa ráð hans ekki gefist vel. Það eru hins vegar ekki margir kostir í stöðunni og við þurfum að taka við ráðleggingum og aðstoð þar sem hún býðst, jafnvel frá þeim sem hæðast að okkur og hafa smánað okkur eins og bresk stjórnvöld gerðu með hryðjuverkalögum sem þau beittu á Ísland.
Við skulum ekki hafa neitt gullfiskaminni í framtíðinni á þær aðgerðir og við skulum líka muna vel hvaða þjóðir og ríkisstjórnir studdu Íslendinga í erfiðleikum og hvernig samstarfsþjóðir lánuðu en World bank hæddist að neyð Íslendinga
En það er tímanna tákn að núna er starfsfólk greiningadeilda gömlu útrásarbankanna komið í þjónustu alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að flytja okkur hinn nýja sannleika. Ég man eftir því að Edda Rós valdi íslenskum gjaldmiðli háðuleg orð um það leyti sem allt fjármálakerfi heimsins hrundi, hún notaði orðið Krónulufsan. Sjá þessa grein Koma krónulufsunni" í gang á ný
Mér finnst vænt um íslensku krónuna og ég held að það sýni ákveðið viðhorf og þröngsýni á vandamálið sem við glímum við ef henni er hallmællt og hún persónugerð sem vandamál íslendinga í dag. Vandamálið er miklu stærra, vandamálið er kerfishrun fjármálakerfis ekki bara á Íslandi heldur í öllum heiminum.
Viðskipti byggja á trausti og það traust er líka hægt að misnota. Það hefur verið misnotað árum saman í fjármálaheiminum með því að byggja upp ógnarstórt og flókið kerfi sem virkar eins og speglasalur og froðuvél sem blæs peningum og tölum út um allt og lætur hverja tölu speglast margfalt svo kerfið sýnist bólgið og mikilfenglegt. En þetta er bara froða, stundum voru engin raunveruleg verðmæti í froðunni og það er ekki bara íslenska krónan sem virkar ekki lengur sem gjaldmiðill.
Þannig er háttað með alla gjaldmiðla heimsins, þannig er háttað með það peningakerfi sem við búum við í dag þar sem sambandið milli peninganna sem kastast til í kauphöllum og raunverulegra verðmæta hefur rofnað. Núna er líka að verða gríðarleg breyting á framleiðsluháttum, sambandið milli framleiðanda og neytanda ýmis konar gæða og vöru og þjónustu er orðið öðruvísi og það þýðir að staða milliliðanna sem þar eru á milli riðlast og ef til vill er ekki þörf á nema hluta milliliðanna núna.
Það getur verið að eina skynsamlega framleiðsluformið núna sé eins konar nýtt samvinnuform þar sem mælikvarðinn og flæðieiningin er ekki peningar heldur eitthvað annað sem mælir betur hvað er að gerast í kerfinu, hver leggur hvað inn og hver tekur hvað út. Það getur verið að það umbunakerfi og gulrótarkerfi sem við höfum í nútímahagkerfi sem við köllum "hámörkun ágóða" sé ekkert að virka, það sé ekki svoleiðis ástand og svoleiðis framleiðsluhættir að allir græði mest ef allir reyni að græða mest fyrir sjálfan sig og á kostnað annarra.
Þvert á móti gætum við verið inn í kerfi sem er þannig að allir græði mest ef allir gefa sem mest af því sem þeir geta til samfélagsins. Það er meiri sannleikur en við áttum okkur á í orðtækinu "Sælla er að gefa en þiggja", málið er að þeir sem gefa mest til samfélagsins eru líklegir til að hafa mestan hag af þeim gjöfum. Annar orðtæki er "Það eyðist sem af er tekið" á ekki við um öll verðmæti, það á ekki við um auðlindir sem eru nýttar á skynsamlegan hátt og það á alls ekki við um mannauðinn, um þær auðlindir fólksins og samfélagsins þar sem framlag eins getur verið smíðagripur annars til að búa til meira framlag. Þannig er um þekkingu, þannig er um vinnuleiðbeiningar. Það má færa mörg rök fyrir að það sé ávinningur allra að þekking flæði sem greiðast um samfélagið og hindranir eins og peningahagkerfi með sínum eignaréttartabúum eins og t.d. ströngum höfundarétti geri ekkert nema hindra aðgengi og minnka ávinning af slíku kerfi.
En nú er þessi pæling sem átti að vera um "krónulufsuna", hið háðulega orð sem hinn nýi starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins notaði um gjaldmiðil okkar. Mér þykir vænt um krónuna og mér finnst að við eigum að sýna gjaldmiðlinum virðingu eins og öðru í sögu okkar og menningu. En tími hans er kominn og það mun ekki vera gott fyrir Íslendinga að vera lokaðir inni í eigin myntkerfi ef og þegar - og ég segi ef og þegar - þjóðir heims ráða fram úr málum varðandi fjármálakerfi heimsins.
Það getur hins vegar verið að á meðan óveðrið geysar úti þá höfum við möguleika til að hafa hérna örsmáan gjaldeyrir sem er nánast eingöngu skiptimynt í viðskiptum milli innfæddra, gjaldmiðill sem er beintengdari við framleiðslu en annars staðar. Hins vegar vofa yfir okkur jöklabréf og verðtrygging, leiður arfur viðskiptahátta sem veltu okkur um koll.
![]() |
Ráðin á skrifstofu fulltrúa IMF á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.4.2009 | 18:29
Byrjum á gömlu steinbæjunum!!! Byrjum á Bjargarstíg!
Það er frábært að Reykjavíkurborg samþykkti einróma á fundi sínum í dag tillögu um sérstakt átak til atvinnusköpunar við uppbyggingu og endurgerð sögufrægra eldri húsa og mannvirkja í Reykjavík
Það eru ekki margir sem vita að það er til sérstök reykvísk byggingarlist og það er framlag okkar til byggingarlistar heimsins og við eigum að vera stolt af því Reykvíkingar. Þessi byggingarlist eru gömlu steinbæirnir og það er ekki nema 20 þeirra sem standa ennþá. Þeir eru skemmtilegur minnisvarði um tímann þar sem við fórum úr torfbæjunum inn í byggingarhefð timburhúsa og steinsteyptra húsa.
Steinbæir eru lág hús með steinhlöðnum langveggjum en göflum úr timbri og var þessi húsagerð byggð í Reykjavík á síðari hluta 19. aldar og voru byggjendur einkum tómthúsmenn.
Ég skrifaði pistil um steinbæina í íslensku wikipedia og mig langar til að við höfum myndir af þeim öllum og upplýsingar um hvar þeir standa. Ég er bara búin að skrifa um tvo þeirra og það eru Sigurbjargarbær á horninu á Bergstaðastræti 21 og Bjargarstíg og Heilmannsbær á Bjargarstíg 17.
Það væri gaman ef fólk sem þekkir til gömlu steinbæjanna bætti við listann yfir steinbæi og skrifaði um fleiri en þessa tvo.
Bjargarstígur heitir eftir Sigurbjörg sem bjó í steinbænum Sigurbjargarbær og það er ömurlegt hvernig ástand þess húss er núna. Þetta hús er friðað en það virtist hafa verið rifið alveg niður í fyrra og svo stendur grindin ber og tóm núna í allan vetur opin fyrir veðri og vindum. Þetta hús hefði Reykjavíkurborg frekar átt að kaupa en kofana við Laugarveg sem Ólafur Magnússon lét borgina kaupa fyrir milljarð.
Myndin sýnir ástandið á Sigurbjargarbæ eins og það var síðasta sumar og það hefur bara versnað síðan þá. Í Guðs bænum, allir þeir sem einhver völd hafið í Reykjavík, bjargið þessum menningarverðmætum!
![]() |
Í átak til atvinnusköpunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)