14.4.2009 | 23:40
Líkkistuþáttur í sjónvarpinu, geisp, geisp
Ég horfði á stjórnmálaþáttinn í sjónvarpinu áðan, mátti til því að þetta var mitt kjördæmi, kjördæmið þar sem ég kýs. Þetta var arfaleiðinlegur þáttur, það var nú bara píning að horfa á hann, mér finnst þetta grunn og yfirborðsleg umræða og ég sannfærist alltaf betur og betur um að sjónvarpsmiðlun er í dauðateygjunum.
Reyndar virtist mér stemmingin vera eins og blautbolskeppni þar sem þátttakendum er skammtaður tími sem þeir eiga að ólmast og undir tekur lýðurinn í salnum sem púar og hrópar og klappar í bakgrunni og þáttaspyrjendur spyrja aulalegra spurninga og eru einhvers konar valdsmenn tímans, tíminn er svo takmörkuð gæði að öllu máli skiptir að þeir sem bjóða sig fram í stærstu byggð landsins til að stýra landinu með stærstu skuldirnar eftir stærsta hrun sem nokkur þjóð hefur farið í gegnum fá nokkrar sekúndur til að tjá sig í frösum um hvað þeir ætla að skapa mörg störf og hvernig störf þau eigi að vera.
Já, það var eftir að lunginn úr þættinum fór í að velta sér upp úr einhverju 2006 dæmi um styrki til stjórnmálaflokka, dæmi sem hefur heltekið stjórnmálaumræðu síðustu daga á Íslandi og það gilda núna önnur lög þannig að þetta endurtekur sig ekki. Það er ámælisvert hjá ríkisfjölmiðli að spila svona með í gulu-pressu fréttamennsku. Um hvað á umræðan að snúast? Hver á sviðið? Hvað skiptir máli? Er það eina sem skiptir máli núna þegar kosið er um hvernig eigi að standa að uppbyggingarstarfi á Íslandi eftir Hrunið að halda þeirri stefnu í umræðu sem sett var af pólitískum andstæðingum Guðlaugs Þórs eða Sjálfstæðisflokksins í einhverjum hráskinnaleik sem við almenningur vitum ekki hver stýrir?
Málið er að lausnir og valkostir og viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir núna verða ekki sett upp í frasa og verða ekki útskýrð á sekúndubroti. Það er líka ekki gæfulegt að byggja framtíð þjóðar á miðlun þar sem tilvonandi leiðtogar verða að koma boðskap sínum um hvað þeir og þeirra hreyfing standa fyrir á nokkrum sekúndum.
Það var líka áberandi að þetta var eins og brandarakeppni.
Kalli Valli Matt minn gamli bekkjarbróðir vann þá keppni, það var óborgarlega fyndið þegar hann byrjaði að tala um líkkisturnar, mér skildist að það væri eins konar lausn á gríðarlegu fjöldaatvinnuleysi á Íslandi að tvennt gerðist, það væri þetta: a) atvinnulaust fólk færi að smíða líkkistur, b) pólitískir andstæðingar manns dyttu dauðir niður og þar með skapaðist eftirspurn eftir líkkistum.
Það var ekki nóg með að þessi lausnamiðaða stefna Frjálslynda flokksins til að ráða við atvinnuleysisbölið sé drepfyndin í orðsins fylllstu merkingu, það var ekstra fyndið að heyra sjálfan prestinn séra Kalla mæla þetta fram og það var ekstra fyndið að heyra þetta í líkkistuþætti sem virkaði á mig sem eins konar jarðarför pólitískrar sjónvarpsmiðlunar á Íslandi.
Þessir kjördæmaþættir eru eins og útþynnt útgáfa af gettu betur, útsvar og mælskukeppni framhaldsskólana, eina breytingin sem ég tók eftir var að núna hafa tímavörðurinn og spyrillinn runnið saman. Fyrir síðustu kosningar var alveg nákvæmlega jafn grunn og innantóm umræða í Ríkisfjölmiðlinum Sjónvarpi Rúv, það var innantóm klisjumennska og froða, eini munurinn var að þá spurðu fréttamenn annarra spurninga, þeir spurðu "hver er ykkar loforðalisti?" og þá fengu fulltrúar flokkanna nokkrar sekúndur til að romsa upp úr sér öllu því góða sem þeir ætluðu að gera fyrir fólkið í landinu og sá vann þá lotu sem þurfti minnst að anda og gat þannig romsað sem flestum loforðum upp úr sér.
Þá brostu þáttastjórnendur breitt og létu skína í vígtennur og settu grimmd í svipinn og spurðu "Hvaðan ætlið þið svo að taka peninganna til að framkvæma loforðalistann, svona nú engar undanbárur, svarið bara strax?" og þá gekk allt út á það hjá frambjóðendum að fara eins og köttur í kringum heitan graut og passa að nefnda ekkert um að það ætti að hækka skatta.
Grunn og hlutdræg og villandi umræða fjölmiðla átti svo sannarlega sinn þátt í því hve Hrunið var snöggt og óvænt hér á Íslandi, hvernig búið var árum saman að innanéta allt eigið fé og verðmæti úr fyrirtækjum landsins og byggja upp gríðarmikið spilapeningaveldi, ekki bara til að blekkja Íslendinga heldur til að blekkja alla heimsbyggðina.
Svona grunnir þættir eins og þessi líkkistuþáttur gera ekkert til að upplýsa mál, geta ekkert fyrir lýðræðið á Íslandi. Bloggið hennar Láru Hönnu t.d þetta blogg REI-málið í máli og myndböndum er hins vegar dæmi um vitræna umræðu (megnið reyndar afritun á afar góðri blaðagrein), svoleiðis blogg sem vísar út og suður og býður upp á áframhaldandi umræðu er miklu dýpri lýðræðisumræða en þessi grínþátta- og léttmetisstemming á RÚV. Talandi um það þá er áberandi hve margir af þeim sem eru núna í framboði er fólk sem hefur látið mikið til sín taka í bloggheimum.
Það er líka miklu betra að geta fengið svona innblik í frambjóðendurna og hvað þeir standa fyrir með stuttu myndbandi eins og þessu þar sem Gunnar Bragi, efsti maður á lista í Norðvesturkjördæmi tjáir sig
Svo kostar ekki mikið í kosningabaráttunni að gera svona stutt vídeó eins og þetta þar sem Brynjar Hansson útskýrir hvernig lífið fyrir fjölskyldur er í heimi eins og efnahagstillögur ríkisstjórnarinnar ganga út á
Og það er ágætt fyrir almenning að fá útskýringu á einni af efnahagstillögu Framsóknarflokksins á myndbandi eins og þessu:
Það er frekar hallærislegt að fara að gefa þátttakendum í þessum Reykjavík Norður þætti sem var á Rúv í kvöld einhver prik eftir frammistöðu með þannig stigagjöf er maður að spila með og leggja blessun sína yfir svona busl-í-grunnu-lauginni spjallþátta stjórnmálaumræðu. Minn formaður Sigmundur Davíð átti ágæta spretti en það passar ekki fyrir alvarlegar og úthugsaðar efnahagstillögur að útskýra þær í einhverjum léttmetissekúndustíl með frammiköllum frá sal og þáttastjórnendum. Efnahagtillögur Framsóknarflokksins þurfa meiri ígrundun og samræðu en er í boði í svona þáttum.
Mér fannst raunar Katrín Jakobsdóttir vera frekar heiðarleg, mér fannst flott að hún sagði hreint út að það ætti að lækka launin hjá opinberum starfsmönnum, það hefði verið gert í einkageiranum, af hverju ætti ekki að gera það líka hjá þeim sem vinna hjá ríkinu. Þetta var mjög kjarkað hjá henni að segja þetta og þora því, margir hugsanlegir kjósendur vinstri grænna eru opinberir starfsmenn á lágum launum. Okkar laun hafa náttúrulega verið eitthvað brot af því sem einkaaðilar borguðu.
En kannski líður ekki á löngu þangað til áramótaskaupið getur sýnt aftur hinn óborganlega fyndna karakter "Fúll á móti", þennan opinbera starfsmann sem var á föstu laununum í óðaverðbólgunni.
Reyndar finnst mér sjálfri ýmsar aðrar útfærslur vera til aðrar en þessi vinstri græna leið að lækka laun opinberra starfsmanna. Það er sjálfsagt að deila byrðinni og deila vinnunni en það má líka gera með að lækka vinnuskylduna og lögleiða t.d. 4 daga vinnuviku og banna yfirvinnu.
Annars er það athyglisvert að varla nokkur maður talar lengur um Framsóknarflokkinn í tengslum við spillingu, Blogg með titlum eins og Spilltasti flokkur Íslandssögunnar X - D a u ð i eru ekki um Framsóknarflokkinn, öðruvísi mér áður brá, við hljótum að vera að gera eitthvað rétt
![]() |
Tvöföld atkvæðagreiðsla slæmur kostur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.4.2009 kl. 00:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.4.2009 | 16:36
Fjórir borgarstjórar og okkar fólk í Reykjavík Norður
Við kvíðum engu Framsóknarmenn þó þessi skoðanakönnun sé okkur ekki hliðholl. Við skulum muna að í síðustu borgarstjórnarkosningum þá var fulltrúi Framsóknarflokksins ekki inni í skoðanakönnunum nema allra síðustu daganna en mál hafa skipast svo í Reykjavíkurborg að á þessu kjörtímabili þá var það Framsóknarflokkurinn sem réði því þegar 100 daga meirihlutinn undir forustu Dags Eggertssonar var myndaður - og það var líka Framsóknarflokkurinn sem réði því að núverandi meirihluti undir forustu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur var myndaður. Það var Framsóknarflokkurinn sem steypti af stóli fyrsta borgarstjóra þessa kjörtímabils Vilhjálmi og það var Framsóknarflokkurinn sem steypti af stóli borgarstjóranum Ólafi F. Magnússyni. Það verður að segja hreinskilnislega að bæði Vilhjálmur og Ólafur F. voru á síðustu dögum síns valdatíma algjörlega vanhæfir og rúnir trausti og nutu ekki einu sinni stuðnings sinna eigin samherja.
Ólafur F. Magnússon var líka í lykilaðstöðu á þessu kjörtímabili en hann spilaði afar illa úr sínum kortum, svo illa að það var pínlegt fyrir alla borgarbúa að horfa upp á ástandið í borginni og mun valdatíma hans ekki verða minnst sem neins framfaraskeiðs. Ólafur tók nú myndarlega á graffitimálum svo því sem er vel gert sé nú líka til haga haldið. Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar tekist að tryggja frið og festu í Reykjavík, hluti sem svo sannarlega var ekki mikið af þegar REI málið var í algleymingi. Bæði 100 daga meirihlutinn og svo núverandi meirihluti í Reykjavík einkennast af góðum vinnubrögðum og trausti og ná að virkja þá góðu krafta sem eru í borgarfulltrúum og sýna borgarbúum að það vinna núna allir saman af hugsjón og heiðarleik að velferð borgarbúa.
Sú ríkisstjórn sem núna situr fram að kosningum gerir það vegna þess að Framsóknarflokkurinn ver hana trausti. Annars væri sennilega upplausnarástand hérna og götubardagar. Þannig tryggir Framsóknarflokkurinn núna frið bæði í borgarstjórn og ríkisstjórn. Það er svo aukabónus að fyrir tilstuðlan Framsóknarflokksins þá komst til valda kona sem forsætisráðherra og kona sem borgarstjóri.
En best að kynna til leiks okkar fólk í Reykjavík Norður.
Hér er myndasafn af öllum frambjóðendum okkar í Reykjavík Norður
Framboðslisti í Reykjavík norður
1. sæti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 34 ára, skipulagshagfræðingur
2. sæti Ásta Rut Jónasdóttir, 35 ára, stjórnmálafræðingur
3. sæti Þórir Ingþórsson, 32 ára, viðskiptafræðingur
4. sæti Fanný Gunnarsdóttir, 51 ára, kennari og starfandi námsráðgjafi
5. sæti Birna Kristín Svavarsdóttir, 55 ára, hjúkrunarforstjóri
6. sæti Edvard Börkur Edvardsson, 42 ára, framkvæmdastjóri
7. sæti Auður Þórhallsdóttir, 50 ára, fræðslustjóri
8. sæti Jónas Tryggvason, 49 ára, framkvæmdastjóri
9. sæti Ella Þóra Jónsdóttir, 33 ára, deildarstjóri
10. sæti Gestur Guðjónsson, 36 ára, umhverfisverkfræðingur
11. sæti Inga Guðrún Kristjánsdóttir, 30 ára, uppeldis- og menntunarfræðingur
12. sæti Guðmundur Halldór Björnsson, 34 ára, markaðssérfræðingur
13. sæti Kristín Helga Magnúsdóttir, 19 ára, framhaldsskólanemi
14. sæti Sóley Þórmundsdóttir, 50 ára, skrifstofumaður
15. sæti Eiríkur Sigurðsson, 38 ára, ráðgjafi
16. sæti Fanný Guðbjörg Jónsdóttir, 28 ára, stjórnmálafræðinemi
17. sæti Ásgeir Harðarson, 50 ára, framkvæmdastjóri
18. sæti Magnús Þór Magnússon, 25 ára, stuðningsfulltrúi
19. sæti Ragnhildur Jónasdóttir, 65 ára, flugfjarskiptamaður
20. sæti Sæmundur Runólfsson, 53 ára, framkvæmdastjóri UMFÍ
21. sæti Sigrún Magnúsdótir, 65 ára, fv. borgarfulltrúi
22. sæti Valdimar Kristján Jónsson, 74 ára, prófessor
Maður fríkkar verulega við að fara í framboð fyrir Framsóknarflokkinn, það sé ég á öllu þessu fallega fólki sem er í framboði fyrir okkur. Ég þekki sjálfa mig næstum ekki aftur á framboðsmyndinni, hér er ég og dóttir mín, ég er í framboði í 4. sæti í Reykjavík suður og hún er í 13. sæti í Reykjavík norður.
![]() |
Samfylking stærst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2009 | 13:35
Stefnir í hústökuhasar á Vatnsstíg í dag
Sá þessa auglýsingu á facebook:
Hæ öllsömul
Nú verður að bregðast skjótt við!
Hústakan á Vatnsstíg mun lenda í árekstri við lögregluna í dag! Pappírshafar hússins komu áðan og vilja fá allt út þar sem þeir vilja byrja að rífa húsið í maí til að byggja verslunarmiðstöð, en ekki hafa blómlegt non-profit félagsrými! Það er búið að hóta okkur útburði ef við verðum ekki farin kl 16:00 í dag, þriðjudaginn 14 apríl! Þeir sem eru til í að loka sig inni til að verja húsið fyrir inngöngu lögreglunnar verður hleypt inn nákvæmlega kl 13:00. Annars verða stuðningsmótmæi fyrir húsið kl 15:00 og það væri frábært að fá sem flesta til að sýna aðgerðinni stuðning! Allar upplýsingar um fyrirætlanir verktakana er hægt að sjá á heimasíðu þeirra, afhus.is, sjá verkefni í vinnslu. Og allar upplýsingar og umfjallanir um hústökuna sjálfa sem hefur verið frábær frá byrjun er að finna á dagblaðinu Nei, this.is/nei og aftöku, og fleiri fréttamiðlum.
Ég verð að segja að mér finnst það svolítið 2007 hjá eigendunum að rífa húsið núna og byggja verslunarmiðstöð. Já þið lásuð rétt, verslunarmiðstöð
Mér finnst sjarmi yfir hústökunni, ég byrjaði á greininni Hústaka á íslensku wikipedia þeim til heiðurs og stefni í að bæta við hana. Mig vantar myndir af hústökunni á Vatnsstíg sem eru með frjálsu höfundarleyfi CC-BY-SA. Á einhver svoleiðis myndir?
Þetta er fínn gjörningur hjá hústökufólkinu!
Mér finnst hið besta mál að setja kastljósið á það hve mörg hús standa nú ónotuð og engum til gagns og grotna niður. Með því er ég þó ekki að hvetja til lögbrota heldur að benda á að eigendur húsa eiga að hafa ákveðnar skyldur við umhverfið og þeir verða að sinna eigum sínum og halda einhverri starfsemi eða búsetu í húsum, annars deyr borgarhverfið.
Það er reyndar mjög erfitt í dag þegar húsnæðismarkaður er hruninn og atvinnulíf lamað. Það getur verið að svona framtak geti hjálpað til við að gæta að umhverfinu. Eignarhald margra bygginga er á sveimi, velkist um í einhverjum þrotabúum eða feykist í einhver skjól eignarhaldsfélaga sem eiga eignarhaldsfélög sem eiga eignarhaldsfélög sem skráð eru á undarlegum eyjum sem aftur eiga í eignarhaldsfélögum sem skráð eru í Evrópu sem aftur eiga í eignarhaldsfélögum sem skráð eru í Bolungarvík eða Búðardal.
Munið bara eftir að hafa öll appelsínugula borða og ekkert ofbeldi. Það er mikilvægt að lögregluyfirvöld og eigendur átti sig á því að betra er að semja frið heldur er búa til eitthvað ungdomshus dæmi hérna á Íslandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
14.4.2009 | 00:16
Siðbót í stjórnmálum og spunameistaratrix
Það var fyrir löngu ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn yrði ekki sigurvegari næstu kosninga. Stefna hans hefur beðið skipsbrot og stjórnendur hans njóta ekki trausts og sú ríkisstjórn sem hrökklaðist nýlega frá völdum var vanhæf. Það getur verið að hún hafi unnið vel bak við tjöldin að leysa úr bráðum vanda en við almenningur urðum ekki vör við það. Þvert á móti fannst okkur ríkisstjórnin ráðvillt og reikul og við höfðum á tilfinningunni að verið væri að hilma yfir með einhverjum af þeim gjörningsmönnum sem steyptu okkur ofan í fjármálalegt hyldýpi og að ríkisstjórn undir forustu manna sem voru nátengdir fjármálalífinu og þeim fjárglæframönnum sem þyrluðu á milli sín bólupeningum væri sjálfkrafa vanhæf. Það kom líka á daginn að við höfum verið blekkt. Fyrrum forsætisráðherra var fullkunnugt um alvarleika ástandsins á meðan hann reyndi að sannfæra bæði almenning á Íslandi og umheiminn um annað. Fyrrum forsætisráðherra var líka vel kunnugt um afar háa styrki Landsbankans og Fl group til Sjálfstæðisflokksins, styrki sem ekki samrýmast stefnu flokksins og það verður að líta svo á að styrkjunum hafi verið veitt viðtaka með velþóknun hans. Þetta var hins vegar svo stór upphæð 60 milljónir að það væri í meira lagi undarlegt ef aðrir ráðherrar flokksins t.d. varaformaður hafi ekki vitað að þessum styrkjum.
Það virðist ljóst að Guðlaugur Þór alþingismaður átti sinn þátt í að afla þessara styrkja m.a. með frumkvæði sínu. Það hefur komið fram bæði í yfirlýsingum hans og þeirra sem stigið hafa fram og sagst hafa aflað styrkjanna. Það getur hins vegar ekki verið sök hans að tekið var við þessum styrkjum einfaldlega vegna þess að hann var ekki í forustusveit flokksins á þessum tíma, aðeins kappsamur þingmaður sem hugði á frekari frama innan flokksins.
Það var dómgreindarleysi og það var siðlaust af forustu Sjálfstæðisflokksins að leyfa á sínum tíma að svo háir styrkir frá einum aðila kæmu inn í flokksjóðinn á laumulegan hátt og gera þetta rétt fyrir gildistöku laga sem einmitt bönnuðu slíkan ofurstyrki. Það er líka siðlaust ef margir hafa vitað af þessum styrkjum innan Sjálfstæðisflokksins og það er mjög undarlegt ef hugsanlega fráfarandi formaður flokksins hefur verið spurður um þetta á meðan hann var forsætisráðherra og hann þá neitað að flokkurinn hafi tekið við þessum styrkjum.
Það er nú ansi mikið af langsóttum samsæriskenningum á sveimi þessa daganna. En það virðist sérstaklega valið hvenær umræða um þessa styrki er kveikt í fjölmiðlum. Margir hafa vitað lengi um þessa styrki en tímasetning vekur tortryggni. Það kemur Sjálfstæðisflokknum afar illa að þessi umræða skuli koma upp núna rétt fyrir kosningar. En sérstaklega kemur það illa Guðlaugi Þór og er það út fyrir allan þjófabálk hvernig árásir eru á hann einn núna. Þannig heyrði ég ekki betur en að núna í kvöldfréttum Sjónvarpsins að efsti maður vinstri grænna í Reykjavík og pólitískur andstæðingur Guðlaugs Þórs sem er efsti maður á lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík sakaði Guðlaug Þór um mútur. Það er vegið mjög að Guðlaugi þór þessa daganna bæði af pólitískum andstæðingum en okkur dylst ekki að það er líka vegið að honum af samherjum, af einhverjum fylkingum innan Sjálfstæðisflokksins. Nú er það svo að það er fráleitt að ógæfa Sjálfstæðisflokksins þessa daganna og pólitísk spilling almennt sé persónugerð í Guðlaugi Þór og hann hefur ekki mikið svigrúm í þessari baráttu og það er erfitt fyrir hann að bera hönd fyrir höfuð sér.
Það sem er að gerast núna í fjölmiðlum vekur grunsemdir um að því miður hafi lítið breyst í siðgæði stjórnmála og fjölmiðlaumræðu á Íslandi. Það sé vísvitandi verið að spila með fólk, klekkja á Guðlaugi Þór og draga athyglina frá þeim vandamálum sem Ísland stendur frammi fyrir núna. Miðað við þau vandamál þá virka þessir tveir styrkir frá gjaldþrota fyrirtækjum agnarsmáir.
En umræðan á vefmiðlum, blöðum og í sjónvarpsfréttum varðandi Guðlaug Þór og styrkjamál Sjálfstæðisflokksins er í æsifréttastíl en ekki æsingalaus krufning á því sem gerðist, þetta er ekki rannsóknarblaðamennska, þetta er frekar dæmi um "framing" og billeg spunameistaratrix til að knésetja stjórnmálamann og tímasetningin virðist vandlega valin.
Ef stjórnmál verða háð á Íslandi á þessum nótum í framtíðinni þá er engin von til þess að heiðarlegt fólk sem vill leggja málefnalegri og lýðræðislegri umræðu lið gefi kost á sér á listum. Það er satt að segja engin von um að eitt eða neitt lagist á Íslandi ef stjórnmálaumræða á að vera á þessum nótum.
![]() |
Óskar úttektar á störfum sínum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.4.2009 | 10:16
Páskaeggjasukk!! það er kominn tími á hreinsunarstarf í borginni!
Núna á tímum hinna miklu uppljóstrana og hinna miklu samsæriskenninga þá skannaði ég bloggheima að morgni annars páskadags. Ég hrökk við þegar ég las fyrirsögnina "Varúð - Páskaeggjasukk" hjá Dr. Gunna á Eyjunni í morgun og hélt að núna ætti að grilla okkur Framsóknarmenn, nú væri aðalhneykslismálið að við í Framsókn hefðum keypt fullt af litlum grænum páskaeggjum sem við ætlum að fela við rætur Esjunnar í páskaeggjaleitinni okkar sem byrjar kl. 13 í dag.
Næstu daga fram að kosningum yrði það svo stóra málið í bloggheimum hver hefði styrkt páskaeggjakaupin, hvort þetta sé ekki grunsamlegt, Framsókn yrði að gera hreint fyrir sínum dyrum og upplýsa um tengsl sín við páskaeggjamafíur heimsins. Svo myndu bloggheimar loga af alls konar samsæriskenningum, hvernig við hefðum augljóslega eitthvað að fela, það mætti sjá á því hvernig við hefðum falið öll páskaeggin og það hefði verið erfitt fyrir krakkana að finna sum.
Svo væri súpan sem hann Einar Skúlason frambjóðandi okkar í 2. sæti ætlar að elda við Esjurætur slegin upp í bloggheimum sem "Ennþá ein móttakan í boði Framsóknar!" og svo djúsí fyrirsagnir eins og "Framsókn býður í súpu og páskaeggjasukk, hikar ekki við að nota útivistarsvæði Reykvíkinga!"
Svo myndi náttúrulega Ólafur fyrrum borgarstjóri Magnússon taka heimta að Óskar Bergsson segði af sér og yfirtaka borgarstjórn og borgarráð með umræðu um málið. Hann myndi kannski byrja svona, við erum á tíma endurnýtingar á öllum sviðum, orð má alveg endurnýta eins og föt : "Þetta er eitthvað sem aldrei hefði komið til greina í minni tíð sem borgarstjóri. Hér er verið að misnota l borgarlandið og Esjuna og ég óska eftir því að fá umræðu um þetta hér því þetta eru það alvarlegir meinbugir á því hvernig yfirstjórn borgarinnar er iðkuð og hvernig framsóknarvæðingin af hálfu núverandi borgarmeirihluta er tíðkuð." Og margir, margir viðtalsþættir yrðu á útvarpi Sögu um málið þar sem Ólafur færi á kostum og lýsti hvernig það að hann hefði selt sannfæringu sína fyrir 600 milljónir til að láta borgina kaupa nokkra ónýta húshjalla væri ekki sukk og bruðl heldur 19. aldar götumynd.
Sem betur fer var Dr Gunni ekkert að slá sig til riddara á að búa til stóra-páskaeggja-sukk-málið og ég fann nú ekkert um páskaegg á hinu feiknaskemmtilega bloggi hans. En ég fann þessa klausu sem vakti mig til umhugsunar:
"Það er ekkert nema göngutúrar og sund þessa dagana. Ég er að skrifa túristahandbók um Rvk og Ísland og þarf stundum að tékka á stöffi. Bókin verða eintómir topp 10 listar um hitt og þetta á Íslandi, t.d. top 10 Reykjavík on foot, sem ég hef verið að rannsaka í. Við eigum fullt af ógeðslega flottum stöðum til að labba í og á meðan veðrið er gott þurfum við ekki að kvarta. Umhverfið, náttúran, er það sem við eigum skuldlaust (ennþá), og m.a.s. innan borgarmarka er allt vaðandi í góðu stöffi.Til dæmis Grótta, það er dúndurflott pleis. Það var háfjara og hægt að rölta út í eyjuna. Neðan við hjallinn og borholuna er umhverfisverkið Kvika eftir Ólöfu Nordal, sem er fótlaug með heitu vatni. Hinn daginn varða Elliðaárdalur með sínu stöffi. Sá græna tjörn sem er þarna, spúkí nokkuð, en krakkahálfvitar voru búnir að tjóna hana með helvítis kroti á klettaveggi. Pappakassi og skór möruðu í hálfu kafi. Nú er lag fyrir allsherjar tiltekt í Rvk. Atvinnulausa fólkið ætti að fara í galla með skrúbb og taka borgina í gegn. Reykjavík hreinasta borg í heimi er takmark sem hægt er að standa við. Ókei, við erum kannski blönk, en það er ekki subbulegt heima hjá okkur, gæti slagorðið verið. Að hugsa sér: Í stað þess að mara í þunglyndi heima hjá sér og blogga um spillinguna í Sjálfsstæðisflokknum (eða eitthvað álíka upplífgandi) væri hægt að vera úti að tína upp rusl. "
Ég er svo innilega sammála Dr. Gunna. Það er kominn tími á hreinsunarstarf í borginni. Og það er eitthvað furðulegt við forgangsröðunina hjá þjóð sem er núna með 17 þúsund manns á atvinnuleysisskrá, flest öll atvinnufyrirtæki meira og minna lömuð eftir kerfishrun og kosningar eru að skella á eftir nokkra daga þar sem við kjósum um hvernig við ætlum að standa að uppbyggingunni ef við eyðum öllu púðrinu í villtar og trylltar samsæriskenningar um innviði Sjálfstæðisflokksins.
Það hefur alltaf verið ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er í beinna sambandi við stjórnendur og eigendur atvinnufyrirtækja og fjármálamenn heldur en aðrir flokkar, hann er málsvari þeirra og hefur verið í hagsmunagæslu fyrir þessa hópa. Hann hefur verið lengi við völd og spillst á því. Þannig er nú staðan. Hann hefur ekkert að gera í ríkisstjórn á næstunni nema sem fjórða eða fimmta hjól undir vagni. Ég efa ekki að það séu margir þróttmiklir og heiðarlegir Sjálfstæðismenn en Sjálfstæðisflokkurinn þarf hvíld núna.
Það þarf óhefðbundnar lausnir og þar þarf bráðar aðgerðir til að takast á við það kerfishrun sem hér varð á Íslandi og við ættum að ræða það núna. Ekki hvort Sjálfstæðisflokkurinn fékk 60 milljónir frá fyrirtækjum sem núna eru komin í þrot. Það eru smáaurar í samanburði við þann gífurlega efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir núna.
Ég held reyndar að umræðan sé svona hörð og mikil vegna þess að þetta er svo lág tala að fólk skilur hana, við skiljum ekki allar hinar svimandi upphæðirnar sem hafa flotið á milli í gríðarlega miklum spillingarflækjum í gróðærinu mikla, fyrir okkur eru það bara grilljónir. Og við grillum engan fyrir grilljónir. Við grillum bara flokka sem hafa skipti um forustu og viðurkenna fúslega mistök sín og endurgreiða fé sem þeir tóku við á sínum tíma.
Mér finnst að við ættum að virða Sjálfstæðisflokkinn fyrir að ætla að skila peningunum aftur og ræða þetta opinskátt núna. En mikið vildi ég að þeir hefðu beitt sömu aðferðum þegar þeir uppgötvuðu mistök sín varðandi Ólaf fyrrum borgarstjóra Magnússon. Það voru reginmistök að púkka hann upp sem borgarstjóra, mistök sem allir sáu strax nema hugsanlega einhverjir nefndaþyrstir Sjálfstæðismenn og svo auðvitað Vilhjálmur fyrrum borgarstjóri sem lék stórt hlutverk í REI málinu. Sjálfstæðismenn hefðu átt að gera það sama þá í stöðunni eins og núna. Þeir hefðu átt að skila Ólafi fyrrum Magnússyni aftur og þeir hefðu líka átt að skila 600 milljónunum inn í borgarsjóð aftur sem þeir tóku úr borgarsjóði til að kaupa upp Ólaf með húskofaruglinu. Ef mér er ekki tekið að förlast þá eru 600 milljónir hærri tala en 60 milljónir. Það var siðlaust að taka við 60 milljóna styrkjum frá tveimur fyrirtækjum en það var botn í öllu sem siðlaust er að taka mann sem var vegna forsögu sinnar og skapgerðarbresta gersamlega óhæfur að stýra stærstu stofnun á Íslandi og gera hann að borgarstjóra og taka 600 milljónir úr borgarsjóði til að svo mætti vera.
Við skulum gefa Sjálfstæðisflokknum svigrúm til að byggja upp flokkinn og hugsa upp leiðir fyrir atvinnulífið í landinu. Ísland þarf líka á flokki sem talar máli atvinnurekenda að halda og við skulum hlusta á þá rödd líka.

En á meðan við skulum verja tíma okkar frekar í að spá í framtíðina en velta okkur upp úr fortíðinni þá skulum við líka líta í kringum okkur. Ef við lítum í kringum okkur í Reykjavík í dag, núna fyrstu vordagana þegar krókusar og vorblóm blómstra í görðunum þá sjáum við líka að það sem blómstrar fyrst í hinu sameiginlega rými okkar í Reykjavík þegar borgin vaknar til lífsins á vorin er draslið.
Alls staðar hanga plastdræsur í runnum, alls staðar veltur ruslið fram. Þið sem keyrið Ártúnsbrekkuna á hverjum morgni, hafið þið litið í kringum ykkur? Hvernig væri að við borgarbúar, ekki bara atvinnulaust fólk, ekki bara fólk sem fær borgað fyrir að tína rusl, hvernig væri að við tækjum ábyrgðina á okkur sameiginlega að halda þessari borg hreinni, hvernig væri að við sýndum í raun að hreinsunarstarf er hafið á Íslandi og fólk tekur eftir draslinu sem er í kringum það og hlúir að sínu nærumhverfi, ekki eingöngu sínum görðum heldur líka því sameiginlega rými sem er í eigu okkar allra sameiginlega.
Hér er myndaalbúmið mitt Rusl í Reykjavík, ég hef í mörg ár reynt að benda á að við verðum að breyta eitthvað kerfinu, sjá hérna umræðu á spjallþræði á málefnin.com árið 2005.
![]() |
Rólegt í höfuðborginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2009 | 18:41
Páskaeggjaleit, páskaeggjaleit ! Finnið fjöreggin á Esjunni!
Páskaeggjaleit og fjallganga á vegum Framsóknar í Reykjavík
Það verður skemmtun fyrir alla fjölskylduna við Esjuna annan í páskum 13. apríl kl. 13:00.
Mæting á bílastæðið við Esjuna en þá munu þeir sem vilja fara í göngutúr á Esjuna með valinkunnum göngugarpi, en hinn hópurinn fer í leiki og leitar svo að páskaeggjum í nágrenninu.
Boðið verður upp á gos og rjúkandi súpu með brauði á meðan birgðir endast.
Frambjóðendur verða á staðnum.
Allir velkomnir!
Biðs forláts á því að nota bloggið mitt til að auglýsa viðburði eins og páskaeggjaleitina og fjallgönguna en málið er bara að nú erum við Framsóknarmenn orðin svo blönk og skuldug að við verðum að passa að eyða ekki neinu í kosningabaráttunni og reynum að plögga inn auglýsingum alls staðar þar sem það er frítt. Við erum ekki stór flokkur og göngum ekki í neina digra sjóði, við göngum bara á Esjuna enda er það fjallið eina í Reykjavík og varðandi fjárframlög þá við verðum fyrst og fremst að stóla á framlög félagsmanna.
Ég er nokkuð viss um að það verður afar, afar erfitt að fá styrki fyrir stjórnmálaflokka hjá fyrirtækjum á næstunni og flestir flokkar fara skuldugir í þessa kosningabaráttu. Mér sýnist að flest allir styrktaraðilar sem styrktu stjórnmálaflokkana árið 2006 séu í kröggum eða í gjörgæslu hjá bönkum eða orðnir þrotabú. Þannig er nú farið um flest atvinnufyrirtæki á Íslandi, svo illa lék gróðærið landið. Við þurfum að beina okkur kröftum að því að endurreisa fyrirtækin í landinu.
það er gott að það sé komið upp á borðið að styrkir til Framsóknarflokksins þetta sama ár og sett voru lög um styrki stjórnmálaflokka voru sáralitlir. Á sama tíma taka Sjálfstæðismenn við ofurstyrkjum og virðast margir samsekir þar á bæ.
Ps. Kúlufólkið er líka velkomið í páskaeggjaleitina.
![]() |
Framsókn opnar bókhaldið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.4.2009 | 15:13
Útileigumenn í Ódáðahraun, eru kannski að smala fé á laun - Sjóður9 og sjóður Sjálfstæðisflokksins
Ég er að hlusta á útvarp sögu, þar er maður að tala um bók Einars Kárasonar Jónsbók en í þeirri bók þá mun Jón Ólafsson halda því fram að Sjálfstæðismenn hafi krafið hann um 5 milljón króna gjald í sjóð Sjálfstæðismanna en Jón neitað og Jón taldi að þetta væri undirrót óvildar Sjálfstæðisflokksins í sinn garð. Nú er Jón Ólafsson vatnsölumaður svo sannarlega enginn engill en saga hans í þessu verður aðeins trúverðugri núna þegar maður veit hve ófyrirleitnir Sjálfstæðismenn voru þegar smalað var fé inn í sjóði flokksins.
Ég sá líka á forsíðunni utvarpsaga.is ágæta samantekt um Sjóð 9 hjá Glitni, sjóð sem ég vissi ekki að væri til fyrr en eftir Hrunið þaðan af síður hve beintengdur sá sjóður var Sjálfstæðisflokknum, mér virðist satt að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í gegnum ýmis konar flækjur plantað sínum lykilmönnum alls staðar þar sem fé safnaðist saman og einhvern veginn farið að halda að allt fé í öllum sjóðum væru þeirra spilapeningar sem þeir gætu möndlað með að vild.
Ég var búin að gleyma þessu Sjóð 9 máli, mér fannst ákaflega undarlegt að Illugi var ekki látinn svara betur fyrir það mál í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins nýverið en ég hef nú ekki djúpan skilning á stjórnmálahegðun Sjálfstæðismanna, ég hef t.d. heldur aldrei skilið hvernig þeir hampa dæmdum fjárglæpamanni eins og Árna Johnsen og fannst ekkert athugavert við einkafjármálabrölt Árna Matthíassen fyrir sig og sína fjölskyldu eða kúlulánum Þorgerðar Katrínar og fjölskyldu hennar.
En ég botna bara ekkert í trúgirni og þolgæði sumra Sjálfstæðismanna, það er frábært að sjá að Stefán Friðrik er alveg búinn ð missa þolinmæðina. En hvernig getur jafn greind og ágæt kona og Áslaug Friðriksdóttir sagt þetta auma yfirklór Snör og heiðarleg viðbrögð og þetta sjóðasukk Illuga Illugi hefur gert hreint fyrir sínum dyrum?
Auðvitað vill Áslaug eins og aðrir góðir Sjálfstæðismenn trúa hinu besta um sína leiðtoga en Guðlaugur Þór er í efsta sæti í Reykjavík norður og Illugi Gunnarsson í efsta sæti í Reykjavík suður en það bókstaflega öskar á mann að það sé mjög mikið að hjá leiðtogum Sjálfstæðisflokksins og þessi mál tengjast verulega. Það er um sömu fyrirtækin að ræða og það eru sömu hagsmunirnir. Og þessi mál tengjast hugsanlega REI málinu og hvernig reynt var leynt og ljóst að sölsa undir einkafyrirtæki orkuauðlindir Íslendinga.
Það er ekki fyrir nokkurn mann að skilja allan blekkingarleikinn með fyrirtækin sem velktust til og frá enda var leikurinn gerður til að villa um fyrir almenningi, við sjáum það núna. Sjá t.d. þessa frétt FL Group verður Stoðir
Hér eru upplýsingar um þetta fyrirtæki FL Group eða Stoðir, fyrirtækið sem gaf stórar fúlgur í kosningasjóð Sjálfstæðismanna og það voru hlutabréf í þessu fyrirtæki sem Illugi Gunnarsson lét kaupa út úr Sjóði 9.
Hér klippi ég út pistilinn um þetta Sjóð 9 mál frá vefsíðu utvarpsaga.is
Sjóður undir stjórn Illuga Gunnarssonar kostaði skattgreiðendur 11 milljarða.
föstudagur, 20 mars 2009 Sjóður undir stjórn Illuga Gunnarssonar kostaði skattgreiðendur 11 milljarða. Fullyrðingar um sjóðinn á heimasíðu Illuga standast ekki raunveruleikann. Það sem Illugi þarf meðal annars að svara: -Hver var þáttur Illuga í neðangreindri ákvarðanatöku og atburðarás? -Var hlutdeild skuldabréfa í eignasafni sjóðanna orðin of há miðað við samþykktir og fjárfestingarstefnu þannig að losa þyrfti bréf út úr sjóðnum? -Samrýmist það að hans mati góðum stjórnsýsluháttum að alþingismaður og fulltrúi í fjárlaganefnd þingsins sitji í stjórn sjóðs sem lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins, sem svo lýtur yfirstjórn ríkisvaldsins? Afskipti ríkisstjórnarinnar af sjóði 9. Þann 29.september 2008 yfirtók ríkið Glitni, þegar 75% í bankanum voru yfirtekin. Tveir fundir voru haldnir í stjórn Glitnis daginn eftir yfirtöku ríkisins þann 30. september 2008 þar sem aðallega var verið að ræða mál Glitnis sjóða hf. Úr fundargerð stjórnar Glitnis frá 30. sept. 2008 kl. 8:00. Á fyrri fundinum kl. 8:00 útskýrðu Lárus Welding og Eggert Þór Kristófersson stöðu sjóða Glitnis. Vegna ástands á fjármálamörkuðum og vegna þess að ríkið hafði eignast 75% í bankanum, var talin umtalsverð hætta á því að sjóðirnir gætu orðið fyrir miklum innlausnarhöggum. Þar sem eignastýringin sé það mikilvæg tekjulind fyrir bankann er það mikilvægt að varðveita traust og áreiðanleika sjóðanna. Það er því lagt til að bankastjórum verði veitt heimild til þess fyrir hönd bankans að kaupa út úr sjóðunum skuldabréf sem gefin hafi verið út af Stoðum, Baugi group og tengdum aðilum að fjárhæð 35 milljarðar kr. Lárus Welding útskýrir að hann hafi rætt þetta við forsætisráðherra. Þessarri tillögu var hafnað af stjórninni. Úr fundargerð stjórnar Glitnis frá 30. sept. 2008 kl. 21:30. Á síðari fundinum kl. 21:30 voru lagðir fram minnispunktar frá Lárus Welding. Útskýrði Lárus Welding nauðsyn þess að styðja við sjóðina við núverandi aðstæður. Hann lagði til að bankinnkeypti allar kröfur á hendur Stoðum með afslætti. Keyptar yrðu kröfur að fjárhæð 22 milljarðar á 11 milljarða kr. sem myndi gera sjóð 1 og Sjóð 9 færi á að opna með 7% niðurfærslu. Þetta sé gert til að varðveita orðspor eignastýringar bankans og koma í veg fyrir innlausnarhögg. Þettvar kynnt sem áhætta fyrir bankann en enn væri möguleiki á því að endurheimta þessa fjármuni. Lárus Welding mælti eindregið með því að þetta yrði samþykkt og lét þess getið að lausn þessi nyti stuðnings bæða forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Þetta var samþykkt. Stjórn Sjóðs 9 og rangfærslur Illuga Gunnarssonar alþingismanns. Í stjórn Sjóðs 9 var Illugi Gunnarsson alþingismaður og fyrrverandi aðstoðarmaður þáverandi Seðlabankastjóra. Á heimasíðu hans er sérstaklega fjallað um Sjóð 9. Sjóðurinn átti á þessum tíma 30 milljarða í Baugstengdum fyrirtækjum eða sem nam um þriðjungi af heildareignum sjóðsins. 1. Þar segir m.a. að Glitnir hafi hafi verið einkabanki þegar bankinn hafi ákveðið að koma með þessum hætti inn í sjóð 9. Með hliðsjón af því sem að ofan er rakið, er þetta rangt, auk þess sem ákvörðun um þetta var tekin af forsætis- og fjármálaráðherra; fulltrúa eigenda bankans. 2. Enn fremur segir á heimasíðu Illuga að bankinn hafi verið að nýta viðskiptatækifæri með því að kaupa bréf útgefin af Stoðum með miklum afslætti. Með hliðsjón af því að Stoðir voru á þessum tíma komin í greiðslustöðvun sem er undanfari gjaldþrots, er ljóst að skuldabréfin voru einskis virði. 3. Að auki kemur það fram á heimasíðunni að engir fjármunir hafi runnið úr ríkissjóði vegna þessa. Hafa ber í huga að á þessum tíma er Glitnir kominn í eigu ríkisins; fjármunirnir komu úr Seðlabankanum og ríkissjóður lánaði Seðlabankanum síðar. með öðrum orðum eru það skattgreiðendur sem borga brúsann. |
![]() |
Söfnuðu fé fyrir flokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.4.2009 | 13:45
upprisan á páskadag - fjöreggjasteypa
Jólin eru skammdegishátíð, hátíð þar sem fólk fagnar ljósinu og minnir sjálfa sig á að veturinn muni enda og nýtt líf kvikna að vori. Jólin eru um það leyti þegar kringla jarðar snýst þannig að daginn tekur aftur að lengja, ljósið nær tökum á myrkrinu, lífið verður dauðanum yfirsterkari. Við skreytum tré og við minnumst fæðingar lítils barns og drögum í huga okkar upp senu þar sem stjarna vísar vitringum á fæðingarstað í gripahúsi og það er fagnaðarhátíð.
Páskar eru vorhátíð, á páskum vaknar jörðin til lífsins að nýju. Við rifjum upp helgisögu þar sem krossfestur maður reis upp frá dauðum. Í þessari helgisögu er sagan um lífið og dauðann og eilíf þrá mannkynsins að sigrast á dauðanum, að öðlast eilíft líf.
Fréttapressa heimsins reynir að búa til einhvers konar upprisu eins og með þessum greinum í dag 'Positive signs' for China economy og Obama sees 'hope' for US economy en þetta er innantómt og ég trúi þessum fréttum ekki, þetta er blekking, ég held að ástandið sé mjög slæmt í Kína og USA og það muni fara versnandi. Þó að Kína sé ekki vestrænt markaðshagkerfi þá er það og önnur asíuríki eins og Japan háð því að selja iðnaðarvörur til Vesturlanda og öll sala dregst núna mjög saman. Satt að segja eru teikn á lofti að kreppan bitni mjög harkalega á þeim Asíuþjóðum sem bæði seldu iðnvarning til Vesturlanda og lánuðu eða fjármögnuðu á einhvern hátt t.d. húsnæðisuppbyggingar og undirmálslán í Bandaríkjunum.
Þannig er ástandið, það er mikið ójafnvægi, féð sem er sparnaður í Japan hefur streymt til Vesturlanda vegna þess að vextir eru þar hærri og verið notaðir þar í einhverju peningabóludæmi eins og að fjármagna hérna á Íslandi Kringlur og íbúðahverfi sem engin þörf var fyrir og núna standa auð. Það er viðbúið að stór hluti af þessum fjárfestingum asíulanda tapist. Bandaríkin eru í þeirri undarlegu stöðu að gjaldmiðillinn er svo stór að þegar órói verður annars staðar þá leitar fé í dollara og veldur gerviþennslu þar og Bandaríkjastjórn fjármagnar sig með því að prenta peninga og safna skuldum. þetta er óhemjustórt dæmi og hvenær springur sú stóra bóla?
En víkjum að stöðunni að Íslandi. Þær bankaskuldir sem okkur er nú sagt að við íslenskur almenningur séum ábyrg fyrir og ríkissjóði okkar beri að borga hélt ég að væru að stærstum hluta til vegna nokkurra útrásarvíkinga með íslenskt ríkisfang, útrásarvíkinga sem voru ekki íslenskir lengur nema í vegabréfinu, þeir áttu margir hallir og þotur og íbúðir í útlöndum og voru þar öllum stundum og allir áttu þeir skjól fyrir peninganna sína í eignarhaldsfélögum skráðum undir hentifánum undarlegra eylanda. Útrásarvíkingar sem hugsanlega voru leppar aðila sem vildu komast hérna yfir eignir og ná tangarhaldi á íslenskum auðlindum. Það kann vel að vera að útrásin sem núna hefur breyst í innrás og helskurð á íslensku samfélagi sé að undirlagi stórra alþjóðlegra samsteypna sem nota þessa útrásarvíkinga sem fronta og íslenskan almenning sem ginningarfífl og hún tengist stjórnmálalegum aðstæðum í heiminum svo sem langtíma orkupólitík stórvelda. Það er miklu einfaldara að lama Ísland með skuldafjötrum en með innrásarher. Það var líka hræbillegt að komast hér til áhrifa og kaupa til liðs við sig þann stjórnmálaflokk sem ráðið hefur ferðinni í efnahagsmálum Íslands undanfarna áratugi, það kostaði smáaura að kaupa sér velvild Sjálfstæðisflokkins eins og nýlegt styrkjahneyksli Sjálfstæðisflokksins segir okkur. 60 milljónir eru fáránlegir smáaurar miðað við skuldastöðu Íslands núna, bara tippsið sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins (sjálfstæðismaðurinn Baldur Guðlaugsson) fékk undan öllum öðrum um valta stöðu bankanna varð til að hann persónulega gat selt hlutabréf fyrir 100 milljónir rétt fyrir hrun og bara fjármálaráðgjöfin sem núverandi aðaleigandi morgunblaðsins fékk um stöðu glitnis rétt fyrir hrun var miklu meira virði.
En það er ekki einu sinni þannig að þær skuldir sem núna eru að sliga okkur séu tilkomnar í gegnum leppi með íslenska kennitölu. Núna er einn skrattakollur í viðbót orðinn einhvers konar útrásaríslendingur, þessi mun heita Robert Tchenguiz.
Á páskadag skulum við rifja upp málsháttinn að ekki sé gott að setja öll egg í sömu körfuna um leið og við lesum þetta: "Lán Kaupþings til fyrirtækja á vegum Tchenguiz námu 230 milljörðum króna sl. sumar eða um 46% af innlánum bankans".
Hvers konar stofnanir voru eiginlega íslensku bankarnir? Voru þeir orðnir að einhvers konar svikamyllum og pýramídafyrirtækjum og blekkingarvefjum?
Það væri gott ef ástandið í heiminum væri þannig að einhver upprisa væri í sjónmáli. Hér á Íslandi er ekki svo, við trömpum hérna á eggjaskurninni eftir allt fjöreggjakastið, það kemur aldrei nýtt líf úr eggi sem hefur brotnað og eina sem við getum gert er að búa til úr eggjaskurninni einhvern jarðveg sem ný fræ geta vaxið í. En við getum líka steypt ný fjöregg, við þurfum ekki að vera komin upp á verksmiðjuframleiddar lausnir, lausnir sem hæfa alþjóðlegu hagkerfi þar sem bóluvélar og sjónhverfingar þyrla pappírum til og frá.
Táknmynd páskanna eru eggin. Núna eru eggin húðuð súkkulaðiegg. Ég gerði fyrir 11 árum páskavef sem ennþá er óbreyttur. Þar er ein síðan um hvernig maður býr til eigin páskaegg. Fyrir hverja páska hefur einhver skrifað mér og spurt um hvar þessi páskaeggjamót fáist, ég held að núna hljóti að vera fleiri núna sem vilja gera sín eigin páskaegg. Eða fjöregg.
![]() |
Kaupþing yfirtekur viðskiptaveldi Tchenguiz |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2009 | 09:31
Sjarmi yfir þessari hústöku
Það er bara flott hjá hústökufólkinu að taka yfir húsið á Vatnsstíg ef það er satt sem kemur fram í fréttinni að húsið hafi staðið autt lengi og fólkið hafi byrjað að hamast við að þrífa húsið og ætli nú að nota það undir einhverja rótttæka starfsemi. Ég sá auglýsingu á facebook frá þessum hópi sem vakti athygli mína, það var auglýsing um að setja upp fríbúð.
Þessi hugmynd um fríbúð og að taka yfir húsnæði með samfélagsleg markmið í huga, með eitthvað annað í huga en sölsa undir sig eigur annarra er alveg í takt við mína hugmyndafræði og það hvernig við tökumst á við þær gríðarlega erfiðu aðstæður sem núna skella á okkur. Við munum dagana fram að kosningum lifa í blekkingu, stjórnvöld hreinlega þora ekki að horfast í augu við fólkið í landinu og segja því hversu alvarlegt ástandið er og láta eins og það sé "business as usual".
Við verðum að átta okkur á því að það er kerfishrun, ekki bara á Íslandi heldur í öllum heiminum og það lagast ekkert í gegnum þetta sama kerfi sem hrundi, það er alveg í tætlum og það eru ekki mikil líkindi á því að altumfaðmandi stjórnvöld sem birtast okkur í gervi Jóhönnu Samfylkingarformanns geti ráðið við málið, sérstaklega ef þau sömu stjórnvöld neita að horfast í augu við vandamálið og virðast ekki skilja að við óhefðbundið vandamál ganga ekki hefðbundnar lausnir.
Jóhanna gat ekki einu sinni barið í borðið og dröslast á þennan afmælisfund Nató, ein þjóðarleiðtoga í Evrópu sat hún heima og glundraði þar með niður óhemjugóðu tækifæri til að tala máli Íslands og lýsa óánægju sinni með að bandalagsþjóðin Bretar hefðu ekki verið nein bandalagsþjóð okkar heldur skellt hryðjuverkalögum á heila þjóð út af einhverju fjármálastússi netbanka sem er okkur almenningi á Íslandi alls óviðkomandi.
Við svona aðstæður eins og núna eru komnar upp þá passa engan veginn þær leikreglur sem hingað til hafa gilt og virkað vel. Okkur er innprentuð virðing fyrir eignarétti og okkur er innprentað að skuldaviðurkenning sé kvöð sem við verðum að borga. Núna eru hins vegar þannig aðstæður að verða á Íslandi og í Reykjavík að hætta er á að stór hluti húsnæðis, sérstaklega atvinnuhúsnæðis sé ekki í notkun, rekstri hafi verið hætt af því að fyrirtækin urðu gjaldþrota og svo koma einhverjir og segjast eiga gífurlegar kröfur á okkur fólkið í landinu sem við verðum að borga, ríkissjóður sé með einhvers konar fjárglæfrum og fjárglæringum ábyrgur fyrir því sem útrásarvíkingar og bankaeigendur gerðu. Það er engin leið fyrir okkur að borga þessar skuldir og við eigum að horfast í augu við það strax og neita að borga. Við verðum sem þjóð að semja um það sem við getum borgað.
Á sama hátt verðum við að skilja að það verður að afskrifa hluta af skuldum fyrirtækja og einstaklinga á Íslandi, annars verður algjört hrun hérna og stór hluti fólks getur ekki staðið í skilum og hefur enga leið aðra en lýsa sig gjaldþrota.
Stór hætta er á því að Reykjavík fari að líta út eins og eitt alsherjar slömm ef hér verður fullt af húsum í eigu einhverra fjármálastofnana og skiptastjóra og annarra sem ekki vita hvað þeir eiga að gera við þessi hús. Það er algjört hrun á leigumarkaði núna og það er öllum til hagsbóta að sem mest af húsnæði í Reykjavík sé nýtt af skapandi fólki sem getur sáð fræum hugmynda og virkja fólk til sameiginlegs átaks. Eiginlega eru núna að skapast góðar aðstæður fyrir ýmis konar listræna sköpun í Reykjavík og Reykjavík er svona víbrant borg, hér gerast hlutir, hér er borg á heitum reit.
En svona yfirtaka þarf að vera formgerð með einhverjum hætti til að tryggja rétt þeirra sem eiga eignina og til að tryggja rétt þeirra sem taka yfir eign. Bendi hér á góðan pistill hjá Tinnu Hústökulög! Taka 3 um svona lagasetningu.
Þær aðstæður sem við sjáum núna í Reykjavík hafa verið oft í öðrum borgum og svona hústaka var bara eðlileg leið til að komast yfir húsnæði í Amsterdam þegar ég var þar, ég heimsótti fleiri en eina fjölskyldu sem hafði fengið sitt húsnæði með yfirtöku. Það var kallað kraken ef ég man rétt. Það hafa verið sett sums staðar hústökulög. Við ættum að huga að svoleiðis hérna.
Mér finnst upplagt að líta á svona hústökufélög sem eins konar samvinnufélög. Það sem heillar mig mest í þessu er að þetta er kerfi sem hafnar peningum. Það er nefnilega meinið við þetta hagkerfi sem við trúum í blindni á núna. Við höldum að engin efnahagsleg samskipti, flæði og verðmætasköpun geti átt sér stað nema það sé mælt í peningum. Ég heillast líka mikið af svona fríbúðum. Það ættu að vera kaupfélög nútímans, svona búðir þar sem þú tekur út eftir þörfum og leggur inn svona ef þú ert í stuði og átt eitthvað sem þú heldur að annar geti notað.
Ég tek sjálf þátt í ýmsum svona samvinnuhreyfingum á Netinu. Þannig skrifa ég oft greinar á íslensku wikipedia og ég er heilluð af svona Almenningum (á ensku Commons), svona gagnasöfnum og verkfærabönkum sem eru alveg galopin og eru starfendafélög, stýrt af þeim sem taka þátt. Margir halda að svona félög séu óreiða og glundroði en málið er það að sífellt fleira af framleiðslu og sköpun í samfélagi nútímans með þessum hætti og það er að brotna upp þessi skýra markalína sem var milli framleiðanda og neytanda.
Hér er grein sem lýsir þessum commons hugsunarhætti Rizhome:Grassroots Conspiracy
Við erum sjálf í auknum mæli að búa til og skapa það sem við notum, oft með því að endurblanda því sem aðrir hafa gert á undan okkur. Við erum á tíma endurblöndunar (remix) og margar leikreglur eins og ýmis konar réttarreglur t.d. höfundarréttur eru alveg á skjön við það sem við þurfum við listsköpun og framleiðslu í svoleiðis kerfi. í þeim hreyfingum sem ég tek þátt í hafa sprottið upp lausnir m.a. annars konar réttarreglur varðandi eignarrétt á hugverkum, svo sem creative commons. Þó áhugi minn hafi hingað til fyrst og fremst beinst að hinum stafrænu rýmum og stafrænum verkum þá held ég að sama gildi um margt annað. Eignarétturinn eins og við höfum skilgreint hann er ekki að passa við samfélagsgerðina sem við erum með í dag.
![]() |
Hústökufólk á Vatnsstíg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
10.4.2009 | 21:20
Mannfórnir í Valhöll
Hér til hliðar er mynd sem ég tók af Valhöll í vetur þegar mótmælendur höfðu í skjóli nætur úðað þar allt með rauðri málningu.
Núna er föstudagurinn langi og Valhöll lítur aftur út eins og vettvangur mikils blóðbaðs. Og það liggur í loftinu að blóðbaðið er rétt að hefjast.
Atburðarásin er ekki trúverðug. Svo mikil er tortryggni okkar gagnvart Geir Haarde sem stýrði Íslandi þegar Hrunið mikla varð að við trúum honum ekki einu sinni lengur þegar hann játar á sig glæpi. Ég trúi ekki einu orði af því sem hann segir núna, það er alveg sama þó Geir játi á sig mútur, ég trúi honum ekki.
Sérstaklega finnst mér skrýtið að hvað Geir er fljótur að taka þetta 60 milljón króna mál á sig núna, getur verið að hann hafi verið spurður um þessa sömu styrki þegar hann var forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og þá neitað tilveru þeirra? Afneitaði Geir öllu þegar hann var forsætisráðherra og formaður, játar Geir öllu núna þegar hann er farinn af vettvangi stjórnmála?
Bæði Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún glíma nú við erfið veikindi og ég vona að þau nái sem fyrst tök á veikindum sínum og skrifi í fyllingu tímans endurminningar sínar svo við fáum einhvern botn í hvað hefur verið að gerast í íslenskum stjórnmálum undanfarin misseri.
Þegar svona uppljóstranir koma fram þá er óhjákvæmilegt að það leiði til einhvers uppgjörs. Núna hefur það gerst að Andri Óttarsson hefur látið af starfi. Það kemur samt í ljós að hann hafi ekki óskað eftir þessum styrkjum frá FL Group og Landsbankanum. Það er samt nokkuð ljóst að hann hefur vitað af þessum styrkjum enda kom þetta inn á starfsvettvang hans. Andri Óttarsson vakti athygli mína sem einn af Deiglupennum, hann skrifaði oftast mjög málefnalegar og góðar greinar, eina undantekningin var þegar hann skrifaði tvær greinar þar sem hann hallmælti femínistum og þeim aðgerðum sem við gripum til í viðleitni okkar til að benda á hrikalegan órétt og mannréttindabrot í samfélaginu. Andri er lögfræðimenntaður og hann hefði átt að sjá að þessi framlög í kosningasjóði voru á ysta jaðri þess sem siðlegt er og löglegt.
það kemur hins vegar víða fram að upptök þessa máls eru ekki hjá Andra og honum er fórnað vegna þess að ennþá hafa ekki þeir aðilar stigið fram sem söfnuðu þessu fé. Það hlýtur að gerast fljótlega. Ég óska Andra velfarnaðar og vona að hann taki aftur upp þráðinn sem málefnalegur hugsjónamaður eins og hann var á þeim tímum þegar hann skrifaði greinar inn á Deiglan.is
það er ömurlegt fyrir okkur öll að fylgjast með þessum blóðsúthellingum í Valhöll. Við sem fylgst höfum með Sjálfstæðismönnum vitum að margir þeirra eru heiðarlegir hugsjónamenn. Það er hins vegar þannig að Sjálfstæðisflokkurinn er málsvari athafnamanna og peningamanna og það er raunar eðlilegt að þeir sækist eftir áhrifum m.a. í gegnum fjárframlög. Að sama skapi er mikilvægt að völd þeirra séu takmörkuð svo flokkurinn sé ekki verkfæri í höndum ákveðinna aðila. Það þarf því þannig vinnuaðferðir eins og Kjartan Gunnarsson upplýsti að tíðkuðust á valdatíma Davíðs, vinnuaðferðir þannig að enginn einn aðili mætti leggja of mikið í kosningasjóð og að kjörnir fulltrúar hefðu ekki beina milligöngu um styrki.
Ég reyndar notaðu tækifærið og gúglaði smávegis um viðkynni mín af Deigluliðinu og fann t.d. þetta sem ég skrifaði árið 2003. Þá voru einhverjar væringar milli Deiglan.is og frelsi.is
Ég verð að segja að þessar væringar milli fylkinga eru svo óspennandi að ég bara hreinlega hef mig ekki í gegnum eina af þessum fjölmörgum frelsi-frjálshyggjumanna langlokum á deiglunni. Á líka nóg með að lesa og fylgjast með öllum öfga-þetta-og-öfga-hitt greinunum sem spýtast út úr deiglupennum. Hef bara tekið eftir því að allt sem horfir til mannréttinda og framfara hér á landi er kallað öfgar hjá deigluliðinu. Reyndar líka hinu liðinu hvað-sem-það-nú-heitir sem nú ræður ríkjum á Heimdalli. Því liði virðist vera ennþá meira í nöp við mannréttindi og framfarir og hef ég ekki séð neitt til þess liðs nema eitthvað fáránlegt uppsagnardæmi á Ríkisútvarpinu sem sýnir kannski best að það er ekki bara flott þar á bæ að vera á móti mannréttindum og framförum heldur líka að reyna að kyrkja allt sem gott er gert á Íslandi í menningarmálum - ef þau menningarmál eru þeim ekki hugnanleg.
Geturðu nefnt einhver dæmi um þessa fullyrðingu þína Salvör? Hér er um alvarlega ásökun að ræða gagnvart tæplega fimmtíu deiglupennum og fróðlegt væri að sjá rökstuðning fyrir henni
Maður varð bara reiður þegar stjórn einhvers sundursplundraðs félags út í bæ þar sem 72 manns kusu stjórn (það voru 72 sem kusu í Heimdallarkosningunum síðustu var það ekki???) þykist geta sent RÚV uppsagnarbréf fyrir hönd íslenskra skattborgara. Er þetta fólkið sem vill starfa í lýðræðisþjóðfélagi og sem er að æfa sig í að stjórna landinu í umboði íslenskra borgara? Eða er það að æfa sig að stjórna landinu án þess að hafa til þess nokkuð umboð....
Hmm... kannski full djúpt í árina tekið að segja að ALLT sem horfir til framfara sé kallað öfgar. En nógu mikið er það samt
En ég nefni þessi dæmi sem ég fann strax:
http://www.deiglan.com/4097.html
Öfgar í öndvegi II - höfundur Andri Óttarsson
Ég hef á öðrum þræði hérna á málefnunum bent á hvernig Andri í þessari grein að mínu mati vísvitandi sleppir úr orðum og skekkir myndina.
Ég vísa í það:
http://malefnin.com/ib/index.php?showtopic...indpost&p=52536
http://www.deiglan.com/2311.html
Í skjóli femínisma I - höfundur Andri Óttasson
http://www.deiglan.com/index.php?itemid=2318&catid=123
http://www.deiglan.com/2124.html
Öfgar í öndvegi - höfundur Andri Óttarsson
http://www.deiglan.com/11.html
Á að banna vangadansinn næst? - Höf. Borgar Þór
http://www.deiglan.com/23.html
Kosin til að taka slaginn Guðmundur Svansson
http://www.deiglan.com/63.html
Óþekkta nektardansmærin - höf. Andri Óttarsson
Þetta eru bara nokkrar greinar sem sýna að Deiglupennar skilgreina frelsið þröngt - mér virðist þeir afar áhugasamir um frelsi ungra vestrænna karlmanna til að ýmis konar neyslu og nautna. Deiglupenninn Borgar Þór endar greinina þar sem hann mælir fyrir kjöltudansi sem margir (flestir) telja dulbúið vændi:"Grundvallarmannréttindi eru ekki einhverjar sunnudagsreglur sem brúkaðar eru við sérstök hátíðleg tækifæri. Þeim er einmitt ætlað að vernda frelsi borgaranna fyrir slíkum hugarfarsbylgjum.." Það eru sem sagt grundvallarmannréttindi að fá að kaupa sér kjöltudans...
Þegar kemur hins vegar að hinni hliðinni - að því að horfa á mannréttindi helming jarðarbúa þ.e. allra kvenna þá er annað hljóð í strokknum. Það að undirokað fólk noti þann rétt sem það hefur í stjórnarskránni til að stofna með sér félag og kveikja umræður um femínisma verður einum Deiglupennanum Andra tilefni til að senda frá sér aðvörun þar sem m.a. segir: "Hópar og félög sem hvetja til lögbrota njóta hvorki verndar félagafrelsis né tjáningarfrelsis stjórnarskrár". Það sem er sorglegt er að sá sem þetta mælir er lögfræðingur og hann notar lögfræðingamál til að ljá orðum sínum myndugleika. Hann á að vita það vel að það eru engin lög sem banna félögum að starfa og halda fundi þar sem félagsmenn tjá sig og það getur undir engum tilvikum talist hvatning til lögbrota að leyfa félagsmönnum að tjá sig í á tölvupóstlista. Það sem sagt var á póstlistanum var einnig ekkert af því lögbrot svo ég viti.
Það er einnig sorglegt að deiglupennar sem að jafnaði skrifa eitilsnjallar greinar s.s. Andri Óttarsson og taka á mörgum þjóðfélagsmeinum eru slegnir einhvers konar blindu þegar kemur að mannréttindum helmings þjóðarinnar. Að mannréttindurm helmings jarðarbúa. Að mannréttindum kvenna.
![]() |
Andri hættir störfum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)