upprisan á páskadag - fjöreggjasteypa

Jólin eru skammdegishátíð, hátíð þar sem fólk fagnar ljósinu og minnir sjálfa sig á að veturinn muni enda og nýtt líf kvikna að vori. Jólin eru um það leyti þegar kringla jarðar snýst þannig að daginn tekur aftur að lengja, ljósið nær tökum á myrkrinu, lífið verður dauðanum yfirsterkari.  Við skreytum tré og við minnumst fæðingar lítils barns og drögum í huga okkar upp senu þar sem stjarna vísar vitringum á fæðingarstað í gripahúsi og það er fagnaðarhátíð.

Páskar eru vorhátíð, á páskum vaknar jörðin  til lífsins að nýju. Við rifjum upp helgisögu þar sem krossfestur maður reis upp frá dauðum.  Í þessari helgisögu er sagan um lífið og dauðann og eilíf þrá mannkynsins að sigrast á dauðanum, að öðlast eilíft líf.

Fréttapressa heimsins reynir að búa til einhvers konar upprisu eins og með þessum greinum í dag 'Positive signs' for China economy og Obama sees 'hope' for US economy  en þetta er innantómt og ég trúi þessum fréttum ekki,  þetta er blekking, ég held að ástandið sé mjög slæmt í Kína og USA og það muni fara versnandi. Þó að Kína sé ekki vestrænt markaðshagkerfi þá er það og önnur asíuríki eins og Japan háð því að selja iðnaðarvörur til Vesturlanda og öll sala dregst núna mjög saman.  Satt að segja eru teikn á lofti að kreppan bitni  mjög harkalega á þeim  Asíuþjóðum sem bæði seldu iðnvarning til Vesturlanda og  lánuðu eða fjármögnuðu á einhvern hátt t.d.  húsnæðisuppbyggingar og undirmálslán í Bandaríkjunum.

Þannig er ástandið, það er mikið ójafnvægi, féð sem er sparnaður í Japan hefur streymt til Vesturlanda vegna þess að vextir eru þar hærri og verið notaðir þar í einhverju peningabóludæmi eins og að fjármagna hérna á Íslandi Kringlur og íbúðahverfi sem engin þörf var fyrir og núna standa auð.  Það er viðbúið að stór hluti af þessum fjárfestingum asíulanda tapist. Bandaríkin eru í þeirri undarlegu stöðu að gjaldmiðillinn er svo stór að þegar órói verður annars staðar þá leitar fé í dollara og veldur gerviþennslu þar og Bandaríkjastjórn fjármagnar sig með því að prenta peninga og safna skuldum. þetta er óhemjustórt dæmi og hvenær springur sú stóra bóla?

En víkjum að stöðunni að Íslandi. Þær bankaskuldir sem okkur er nú sagt að við íslenskur almenningur séum ábyrg fyrir og ríkissjóði okkar beri að borga  hélt ég að væru að stærstum hluta til vegna nokkurra útrásarvíkinga með íslenskt ríkisfang, útrásarvíkinga sem voru ekki íslenskir lengur nema í vegabréfinu, þeir áttu margir hallir og þotur og íbúðir  í útlöndum og voru þar öllum stundum og allir  áttu þeir skjól fyrir peninganna sína  í eignarhaldsfélögum skráðum undir hentifánum undarlegra eylanda. Útrásarvíkingar sem hugsanlega voru leppar aðila sem vildu komast hérna yfir eignir og ná tangarhaldi á íslenskum auðlindum.  Það kann vel að vera að útrásin sem núna hefur breyst í innrás og helskurð á íslensku samfélagi sé að undirlagi stórra alþjóðlegra samsteypna sem nota þessa útrásarvíkinga sem fronta og íslenskan almenning sem ginningarfífl  og hún tengist stjórnmálalegum aðstæðum í heiminum svo sem langtíma orkupólitík stórvelda. Það er miklu einfaldara að lama Ísland með skuldafjötrum en með innrásarher. Það var líka hræbillegt að komast hér til áhrifa og kaupa til liðs við sig þann stjórnmálaflokk sem ráðið hefur ferðinni í efnahagsmálum Íslands  undanfarna áratugi,  það kostaði smáaura að kaupa sér velvild Sjálfstæðisflokkins eins og nýlegt styrkjahneyksli Sjálfstæðisflokksins segir okkur. 60 milljónir eru fáránlegir smáaurar miðað við skuldastöðu Íslands núna, bara tippsið sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins (sjálfstæðismaðurinn Baldur Guðlaugsson)  fékk undan öllum öðrum um valta stöðu bankanna varð til að hann persónulega gat selt hlutabréf fyrir 100 milljónir rétt fyrir hrun og  bara fjármálaráðgjöfin  sem núverandi aðaleigandi morgunblaðsins fékk um stöðu glitnis  rétt fyrir hrun var miklu meira virði. 

En það er ekki einu sinni þannig að þær skuldir sem núna eru að sliga okkur séu tilkomnar í gegnum leppi með íslenska kennitölu. Núna er einn skrattakollur í viðbót orðinn einhvers konar útrásaríslendingur, þessi mun heita  Robert Tchenguiz. 

Á páskadag skulum við rifja upp málsháttinn að ekki sé gott að setja öll egg í sömu körfuna um leið og við lesum þetta:  "Lán Kaupþings til fyrirtækja á vegum Tchenguiz námu 230 milljörðum króna sl. sumar eða um 46% af innlánum bankans".

Hvers konar stofnanir voru eiginlega íslensku bankarnir?  Voru þeir orðnir að einhvers konar svikamyllum og pýramídafyrirtækjum og blekkingarvefjum?

Það væri gott ef ástandið í heiminum væri þannig að einhver upprisa væri í sjónmáli. Hér á Íslandi er ekki svo, við  trömpum hérna  á eggjaskurninni eftir allt fjöreggjakastið, það kemur aldrei nýtt líf úr eggi sem hefur brotnað og eina sem við getum gert er að búa til úr eggjaskurninni einhvern jarðveg sem ný fræ geta vaxið í. En við getum líka steypt ný fjöregg, við þurfum ekki að vera komin upp á verksmiðjuframleiddar lausnir, lausnir sem hæfa alþjóðlegu hagkerfi þar sem bóluvélar og sjónhverfingar þyrla pappírum til og frá.

Táknmynd páskanna eru eggin. Núna eru eggin húðuð súkkulaðiegg. Ég gerði fyrir 11 árum páskavef sem ennþá er óbreyttur. Þar er ein síðan um hvernig maður býr til eigin páskaegg.  Fyrir hverja páska hefur einhver skrifað mér og spurt um hvar þessi páskaeggjamót fáist, ég held að núna hljóti að vera fleiri núna sem vilja gera sín eigin páskaegg. Eða fjöregg.

 


mbl.is Kaupþing yfirtekur viðskiptaveldi Tchenguiz
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband