Krónulufsan

Nú er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn búin að að koma sér upp skrifstofu á Íslandi. Eftir heimsóknir hinna tveggja erlendu gesta í vikunni sem báðir fluttu okkur þann boðskap að við ættum ekki að beygja okkur undir það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi, hann væri verkfæri í höndum þeirra aðila sem beygðu fátæk og skuldug ríki í duftið og undir yfirráð alþjóðlegra stórfyrirtækja sem bara sæktust eftir aðgangi að auðlindum þá erum við Íslendingar ansi tortryggin á veru  Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi.

Það getur því verið að það verði hluti af verkefni hinnar nýju skrifstofu að vera einhvers konar almannatengslaskrifstofa við almenning og ráðamenn á Íslandi. Edda Rós Karlsdóttir er þekkt úr fjölmiðlum, frá þeim árum þar sem einu upplýsingarnar sem okkur bárust um  stöðu íslensks efnahagslífs kom úr greiningardeildum bankanna.  Ég held að það hafi verið einn liður í að blekkja okkur hve blint við trúðum á orð þeirra sem höfðu það markmið eitt og æðst að gæta hagsmuna eigenda bankanna sem voru vinnuveitendur þeirra.  Þessi takmarkaða innsýn sem við fengum  inn í efnahagslíf var í gegnum fjölmiðla sem voru annað hvort í eigu þessarra sömu bankaeigenda eða úr vanmáttugum ríkisfjölmiðlum sem hefur eins lengi og ég man verið beinstýrt úr Valhöll.

Tortryggni mín gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er mikil. Ég mun ekki treysta ráðleggingum hans í blindni og ég held að saga hans sýni að oft hafa ráð hans ekki gefist vel. Það eru hins vegar ekki margir kostir í stöðunni og við þurfum að taka við ráðleggingum og aðstoð þar sem hún býðst, jafnvel frá þeim sem hæðast að okkur og hafa smánað okkur eins og bresk stjórnvöld gerðu með hryðjuverkalögum sem þau beittu á Ísland.

Við skulum ekki hafa neitt gullfiskaminni í framtíðinni á þær aðgerðir og við skulum líka muna vel hvaða þjóðir og ríkisstjórnir studdu Íslendinga í erfiðleikum og hvernig samstarfsþjóðir lánuðu en World bank hæddist að neyð Íslendinga

kronufiskur.gifEn það er tímanna tákn að núna er starfsfólk greiningadeilda gömlu útrásarbankanna komið í þjónustu alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að flytja okkur hinn nýja sannleika. Ég man eftir því að Edda Rós valdi íslenskum gjaldmiðli háðuleg orð um það leyti sem allt fjármálakerfi heimsins hrundi, hún notaði orðið Krónulufsan. Sjá þessa grein Koma „krónulufsunni" í gang á ný

Mér finnst vænt um íslensku krónuna og ég held að það sýni ákveðið viðhorf  og þröngsýni á vandamálið sem við glímum við ef henni er hallmællt og hún persónugerð sem vandamál íslendinga í dag. Vandamálið er miklu stærra, vandamálið er kerfishrun fjármálakerfis  ekki bara á Íslandi heldur í öllum heiminum.

Viðskipti byggja á trausti og það traust er líka hægt að misnota. Það hefur verið misnotað árum saman í fjármálaheiminum með því að byggja upp ógnarstórt og flókið kerfi sem virkar eins og speglasalur og froðuvél sem blæs peningum og tölum út um allt og lætur hverja tölu speglast margfalt svo kerfið sýnist bólgið og mikilfenglegt. En þetta er bara froða, stundum  voru engin raunveruleg verðmæti í froðunni og það er ekki bara íslenska krónan sem virkar ekki lengur sem gjaldmiðill.

Þannig er háttað með alla gjaldmiðla heimsins, þannig er háttað með það peningakerfi sem við búum við í dag þar sem sambandið milli peninganna sem kastast til í kauphöllum og raunverulegra verðmæta hefur rofnað. Núna er líka að verða gríðarleg breyting á framleiðsluháttum, sambandið milli framleiðanda og neytanda ýmis konar gæða og vöru og þjónustu er orðið öðruvísi og það þýðir að staða milliliðanna sem þar eru á milli riðlast og ef til vill er ekki þörf á nema hluta milliliðanna núna.

Það getur verið að eina skynsamlega framleiðsluformið núna sé eins konar nýtt samvinnuform þar sem mælikvarðinn og flæðieiningin er ekki peningar heldur eitthvað annað sem mælir betur hvað er að gerast í kerfinu, hver leggur hvað inn og hver tekur hvað út.  Það getur verið að það umbunakerfi og gulrótarkerfi sem við höfum í nútímahagkerfi sem við köllum "hámörkun ágóða" sé ekkert að virka, það sé ekki svoleiðis ástand og svoleiðis framleiðsluhættir að allir græði mest ef allir reyni að græða mest fyrir sjálfan sig og á kostnað annarra.

Þvert á móti gætum við verið inn í kerfi sem er þannig að allir græði mest ef allir gefa sem mest af því sem þeir geta til samfélagsins.  Það er meiri sannleikur en við áttum okkur á í orðtækinu "Sælla er að gefa en þiggja", málið er að þeir sem gefa mest til samfélagsins eru líklegir til að hafa  mestan hag af þeim gjöfum.  Annar orðtæki er "Það eyðist sem af er tekið" á ekki við um öll verðmæti, það á ekki við um auðlindir sem eru nýttar á skynsamlegan hátt og það á alls ekki við um mannauðinn, um þær auðlindir fólksins og samfélagsins þar sem framlag eins getur verið smíðagripur annars til að búa til meira framlag. Þannig er um þekkingu, þannig er um vinnuleiðbeiningar. Það má færa mörg rök fyrir að það sé ávinningur allra að þekking flæði sem greiðast um samfélagið og hindranir eins og peningahagkerfi með sínum eignaréttartabúum eins og t.d. ströngum höfundarétti geri ekkert nema hindra aðgengi og minnka ávinning af slíku kerfi.

En nú er þessi pæling sem átti að vera um "krónulufsuna", hið háðulega orð sem hinn nýi starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins notaði um  gjaldmiðil okkar. Mér þykir vænt um krónuna og mér finnst að við eigum að sýna gjaldmiðlinum virðingu eins og öðru í sögu okkar og menningu. En tími hans er kominn og það mun ekki vera gott fyrir Íslendinga að vera lokaðir inni í eigin myntkerfi ef og þegar - og ég segi ef og þegar - þjóðir heims ráða fram úr málum varðandi fjármálakerfi heimsins.

Það getur hins vegar verið að á meðan óveðrið geysar úti þá höfum við möguleika til að hafa hérna örsmáan gjaldeyrir sem er nánast eingöngu skiptimynt í viðskiptum milli innfæddra, gjaldmiðill sem er beintengdari við framleiðslu en annars staðar.  Hins vegar vofa yfir okkur jöklabréf og verðtrygging, leiður arfur viðskiptahátta sem veltu okkur um koll.


mbl.is Ráðin á skrifstofu fulltrúa IMF á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hún sagði nú reyndar krónu lufsan en ekki druslan.

Sigurður (IP-tala skráð) 8.4.2009 kl. 09:23

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ó, takk fyrir ábendinguna. Ég breyti þessu strax. Það er mikið atriði að hafa rétt eftir. Drusla er ekki sama og lufsa. Lufsa er orð sem er notað um ýmislegt, stundum um það sem manni er mjög kært. Þannig segir Doktor Gunni alltaf Lufsan um konuna sína og svo hann Bjarni tölvunörd sem kenndi okkur að nota RSS strauma, hann notaði orðið lufsan yfir tölvuna sína.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.4.2009 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband