Bloggfærslur mánaðarins, júní 2018
20.6.2018 | 13:16
Árið sem Lúlli litli var sex ára
Árið sem Lúlli litli var sex ára vildi Katrín taka að sér þriggja ára stelpu frá Austurríki en pabbi hans Lúlla sagði nei. Og hann réð öllu. Því hann var forsætisráðherra. Hét Hermann Jónasson. Fjölskylduaðstæður telpunnar voru eins og margra gyðingabarna á þessum tíma. Faðirinn kominn í fangabúðir og móðirin á leið í fangabúðir og leitaði nú í örvæntingu að koma barninu úr landi. Telpan átti að koma með hópi "hrakhólabarna" en mannvinir reyndu að koma svoleiðis flóttabörnum til ríkja sem ekki voru undir nazistastjórn, vitandi að þeim var bráður bani búinn í heimkynnum sínum. Hvergi nema á Íslandi tálmuðu stjórnvöld því að flóttabörn kæmu. Og á Íslandi var bara einn maður sem stóð í vegi fyrir því. Það var Hermann Jónasson. Hvað honum gekk til og hvers vegna hann sýndi svona mikla grimmd vitum við aldrei. En minning um Hermann lifir í gerðum hans eins og þær eru skráðar hérna í frásögn Katrínar frá 1939, Mannúð bönnuð:
Önnur lönd tóku við börnum sem eins var ástatt fyrir og litlu stúlkunni sem Katrín vildi veita skjól. Þetta er aðgerð sem nefnd hefur verið Kindertransport.
Hér eru tenglar og fræðsluefni um "hrakhólabörnin" eða Kindertransport
- Kindertransport (grein á ensku Wikipedia)
- Kindertransport (Jewish Virtual Library)
- 6 stories of the Kindertransport
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2018 | 23:32
Heiðursborgari Torrevieja afheiðraður
Nú er ég farin að fylgjast með stjórnmálum á Spáni og þá sérstaklega í bænum Torrevieja. Þar virðist ýmislegt hafa gengið á undanfarin ár. Ég sá að á síðasta fundi borgarráðsins þar í bæ þá var heiðursborgari Torrevieja sviptur titlinum og mér sýnist þetta tengjast jakkafötum sem hann lét nokkuð alræmdan viðskiptajöfur borga fyrir sig. Ég kímdi nú með sjálfri mér því þessi jakkaföt minntu mig á fatakaupin hans Björns Inga sem hann skrifaði á Framsóknarflokkinn árið 2006. Þá var hann í framboði til borgarstjórnar og hann gallaði sig vel upp fyrir kosningabaráttuna. Hér er lýsing á innkaupum hans:
Um er að ræða fimm jakkaföt, 26 skyrtur, 21 bindi, tíu peysur, fjögur skópör, fjögur belti, fernar gallabuxur, níu stuttermaboli, nítján sokkapör, tvo ermahnappa, frakka, leðurjakka, útijakka, langermabol, buxur og stakan jakka.
Það getur verið að einhverjum finnist nýafstaðin kosningabarátta í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2018 vera nokkuð sviplaus en það hefur alveg örugglega enginn frambjóðandi þar slitið 26 skyrtum og fimm jakkafötum sem hann borgaði ekki sjálfur.
Eftir borgarstjórnarkosningar 2006 tók svo hræðilegt kjörtímabil upplausnar og óreiðu í Reykjavík, tímabil þar sem Björn Ingi var í lykilhlutverki og tryggði Sjálfstæðisflokknum völd og borgarstjórastól. Kjörtímabilið byrjaði á því að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson varð borgarstjóri og Björn Ingi Hrafnsson formaður borgarráðs. Það var svo í apríl 2007 sem kviknaði í. Það kviknaði í húsinu í Austurstræti þar sem Jörundur hundadagakóngur hafði haldið til árið sem hann ríkti á Íslandi hingað studdur af sápuframleiðenda nokkrum sem var að leita að aðföngum til efnagerðar sinnar. Bruninn var eins og fyrirboði um það sem koma skyldi í Reykjavík og kveikti hjá mér minningu um Rimahverfið og barn sem þar ólst upp eftir að hverfið stöðvaðist í byggingu. Um það hef ég ort ljóð.
Það var svo 11. október 2007 sem borgarstjórn féll út af REI-málinu og Dagur B. Eggertsson varð borgarstjóri . Björn Ingi sagði af sér sem borgarfulltrúi í janúar 2008 eftir að mikil fjölmiðlaumræða varð um fatakaup hans og fleiri mál.
Þann 21. janúar 2008 skömmu eftir að Ólafur Magnússon borgarfulltrúi kom úr veikindaleyfi þá tilkynntu hann og Vilhjálmur að þeir hefðu myndað meirihluta og yrði Ólafur borgarstjóri en Vilhjálmur formaður borgarráðs. Það var sannkölluð jarðarfararmynd sem birtist af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þegar Ólafur F. varð borgarstjóri, það var eins og þau væru öll mjög miður sín og skömmuðust sín mikið. Öll nema Vilhjálmur.
Ég skrifaði á sínum tíma tvö blogg um jarðarfarasvipinn á Sjálfstæðismönnum:
Jarðarfararsvipur 1
Ég skrifaði líka um daginn sem Ólafur varð borgarstjóri 21. janúar 2008 bloggið Svartur mánudagur en það sem var ekki vegna borgarstjóraskiptanna þó þau væru skrýtin heldur vegna fyrirboða sem ég skynjaði þá í fjármálalífi heimsins. Ég skrifaði eftirfarandi:
"Alls staðar í heiminum fellur gengi hlutabréfa. Hlutabréf endurspegla væntingar og trú á framtíðina. Hlutabréfamarkaðir eru lokaðir í Bandaríkjunum í dag vegna fría og það verður spennandi að sjá hvað gerist þegar þeir opna á morgun. Það er bölsýni í lofti og fjárfestar hafa ekki trú á að áætlanir Bandarískra stjórnvalda bæti ástandið.
Sennilega er góðærið liðið hérna á Íslandi. Kannski stoppar allt í byggingu, svipað og gerðist með Rimahverfið á sínum tíma. Það var skrýtið að sjá þar heilu blokkirnar sem voru í byggingu og enginn vann lengur í því að engir keyptu. Smán saman fóru nýbyggingarnar sem aldrei neinn hafði flutt inn í að líkjast rústum."
Ástandið var skrýtið, borgarfulltrúar misnotuðu veikindi Ólafs Öllum sem þekkja til Ólafs er ljóst að hann er hæfileikamaður og hugsjónamaður og afar fær á mörgum sviðum en líka að sem borgarstjóri var hann ekki heppilegur og var hann borgarstjóri í rúma 200 daga en stjórn hans sprakk rétt fyrir Hrun.
Þá tók við stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og var Hanna Birna borgarstjóri. Þá kom Hrun og ég held að allir flokkar hafi þá snúið bökum saman og síðasta tímabil þess kjörtímabils hafi verið farsælast.
Þegar ég horfi í baksýnisspegilinn þá sýnist mér að á því kjörtímabili 2006-2010 hafi sú upplausn sem núna einkennir stjórnmál hafist. Á því kjörtímabili voru tvö framboð með eingöngu einn fulltrúa í lykilaðstöðu þ.e. Björn Ingi og síðar Óskar hjá Framsóknarflokknum og Ólafur F. Magnússon hjá F-listanum. Ég held ekki að það gerist aftur. Einfaldlega vegna þess að það eru svo mörg lítil framboð og meirihlutinn núna er ekki sterkur og ekki minnihlutinn heldur. Það verður vonandi nær því að vera stjórn þar sem bæði meirihluti og minnihluti vinna saman og vilji kjósenda endurspeglast þannig í stjórnun borgarinnar.
En aftur að samlíkingunni við heiðursborgara Torrevieja og Reykjavíkur. Ég held ekki að það sé líklegt að Björn Ingi verði í bráð heiðursborgari í Reykjavík þó hann hafi leikið stórt hlutverk í einni tíð og hafi verið þurftafrekur á jakkaföt. Ég skoðaði lista yfir heiðursborgara í Reykjavík og mér sýnist ekki líklegt að það þurfi að afheiðra einhvern á næstu árum.
- Séra Bjarni Jónsson, dómprófastur og biskup 1961
- Kristján Sveinsson, augnlæknir 1975
- Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi Forseti Íslands 2010
- Erró, myndlistarmaður 2012
- Yoko Ono, myndlistarmaður 2013
- Friðrik Ólafsson, stórmeistari í skák 2015
- Þorgerður Ingólfsdóttir 2017
En ég fór að skoða meira þessi spillingarmál sem Fransisco Camps fyrrum heiðursborgari í Torrevieja tengist. Hann er stjórnmálamaður í flokki íhaldsmanna sem nefnist Partido Popular (PP) og var forseti Valencia héraðs en þurfti að segja af sér vegna fjármálahneykslis sem kallað er Gürtel málið. Sá hluti af málinu sem snertir heiðurborgarann afheiðraða er kallað "jakkafatamálið":
"A case involving the Valencian branch of the alleged network went to court relatively quickly. It was known in the press as the "suitgate" affair, as it involved allegations regarding suits supposedly given to prominent Valencian politician Francisco Camps "
Hér er meira um spænska jakkafatamalið í El Pais. Þess má geta að í málaferlum var Fransisco Camps sýknaður en svo virðist sem jakkafatamálið hafi eyðilagt stjórnmálaferil hans.
Það hafa margar greinar birst í íslenskum blöðum um Gurtel málið, ég hafði bara ekki tekið eftir því fyrr en ég gúglaði jakkafata heiðursborgarann. Málið snýst um að kaupsýslumaðurinn Francisco Correa er sakaður um að hafa greitt mútugreiðslur til að fyrirtæki hans fengju samninga við hið opinbera víða um Spán. Orðið Gurtel er þýsk útgáfa af nafni höfuðpaursins Correa og það merkir belti og er sennilega skylt íslenska orðinu að "girða sig" og orðinu girðing, ég held að það hafi verið notað um belti sem er krækt saman og hafi þannig færst yfir þetta spillingarmál sem krækti saman víða um Spán mútuþæga stjórnmálamenn og þá sem vildu samninga við stjórnvöld.
Mér sýnist Gurtel málið móta spönsk stjórnmál núna og velta valdhöfum. Ríkisstjórn Spánar undir forustu Rajoy féll nýlega með bauki og bramli út af Gurtel málinu og fleiri slíkum. Það voru fulltrúar Baska sem höfðu úrslitaáhrif, þeir studdu vantraust á ríkisstjórnina vegna Gurtel spillingarmálanna. Það þýddi að andstæðingar Rajoy á þingi urðu 180 en það þurfti 176 til að fá í gegnum þingið þá vantrausttillögu sem felldi hann.
Það er núna hagfræðingurinnn Pedro Sánchez sem er forsætisráðherra Spánar.
Hér eru nokkrar íslenskar greinar um málið:
Stærsta spillingamál Spánar um árabil
Lögðu fram tillögu um vantraust
Líklegt að sósialistinn Sánchez komist til valda í dag (Vísir, 1. júní 2018)
Spænska ríkisstjórnin fallin (vísir, 31. maí 2018)
Spillingarmál skekur stjórnarflokkana á Spáni (Vísir 27. maí 2018)
Það er líka heilmikið í spænskum blöðum en ég er nú ekki sleip í spænsku ennþá:
Jakkafatamálið hans Camps fyrrum heiðursborgara virðist hafa skipt máli þó það sé ekki stærsta spillingarmálið. Hér er einhvers konar tímalína yfir Gurtel málið.
Annars sýnist mér fjármálahneyksli halda áfram í nýju stjórninni. Maxim Huerta sem var menningarráðherra varð að segja af sér eftir viku í embætti vegna þess að hann hafði svikið undan skatti 2017 243.000 evrur.
myndin af jakkafötum er frá nounproject eftir Adal Multin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.6.2018 kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)