Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Er Alþingi sem valdalaus kjaftasamkoma og stimplunarmaskína?

Hrunið á Íslandi sýndi þjóðinni hve innviðir fjármálalífs og stjórnsýslu í kringum það voru feysknir. Hrunið afhjúpaði djúpa og inngróna spillingu sem teygði sig í öll skúmaskot, spillingu sem var svo inngróin að þeir sem tóku þátt og úthlutuðu sér og sínum gæðum tóku ekki eftir því að neitt athugavert væri  við athafnir sínar eða það kerfi sem gerði þær mögulegar.

Hrunið sýndi líka hve valdalaust Alþingi Íslendinga er og þar með hve lítið vald almenningur hefur gegnum kjörna fulltrúa sína. Alþingi kýs eftir flokkslínum og Alþingismenn tjá sig eftir flokkslínum alveg eins og það sé heilög skylda skráð í stjörnurnar og það skiptir þá öllu máli hvernig ríkisstjórn er samansett, í ríkisstjórninni liggja völdin. Stjórnarþingmenn sem ekki sitja sjálfir í ríkisstjórn eru meira segja valdalausari en stjórnarandstöðuþingmenn, það tíðkast ekki að þeir tjái sig á móti því sem er vilji ríkisstjórnarinnar. Þingmenn stjórnarandstöðu geta tjáð sig og þannig komið öflugri gagnrýni á framfæri. Þeir geta líka tjáð sig með einhvers konar skrípalátum eins og málþófinu í lok nýafstaðins þings og þannig komið afkáraskap sínum á framfæri. 

Í ljósi þess að við tökumst nú á við kerfishrun sem á upptök sín í því stjórnkerfi sem ennþá er við lýði, stjórnkerfi valdníðslu þar sem sem fámennastur hópur reynir og tekst að hrifsa til sín sem mest völd og komast í úthlutunaraðstöðu - er þá ekki rétt að við stöldrum við og hugleiðum hvort þetta sé skynsamleg og réttlát leið til að velja þá sveit sem á að stjórna landinu. Af hverju er ekki í svona fámennu landi hægt að láta  almenning  velja ríkisstjórn beint  með einhverjum hætti  í stað þess að við fáum eingöngu að velja þingmenn og það sé gríðarlega mikið misvægi í atkvæðamagni og undarlegar og óskiljanlegar og ósanngjarnar reglur um uppbótarþingmenn. Síðan ráðist það í alls konar hrossakaupum fyrst milli flokka og síðan milli þingmanna einstakra flokka hvernig ráðherra skipan verði. Það má jafnframt spyrja hvaða þörf er á að halda uppi fjölmennu liði þingmanna ef þingið er ekki annað en stimplunarstofnun fyrir frumvörp sem ekki einu sinni ríkisstjórnin ræður, frumvörp sem koma beint frá EBE og eru þýdd hérna?  Það er vissulega mikilvægt það hlutverk sem stjórnarandstaðan hefur á Alþingi, það er kannski það mikilvægasta sem gerist á Alþingi. 

Það er  bara hressandi að einhverjir þingmenn Vinstri grænna hafi lýst því yfir að þeir muni ekki styðja tillögu ríkisstjórnarinnar um EBE aðild, það er þó alla vega eitt tákn um að  stjórnarþingmenn ætli ekki að vera algjörlega valdalaust verkfæri og kóari með öllu sem þessi ríkisstjórn ætlar að gera.  Það er sjálfsagt mál að það séu átök í þingheimi um svona mikilvægt mál.  Sumir láta sem svo að það að fara í aðildarviðræður sé eitthvað sem hægt er að bakka út úr, sé ekki meiri binding en að tékka á því hvaða kjör bjóðist, svona eins og að leita tilboða um einhverja vöru. Þannig er málið ekki,  það að óska eftir aðildarviðræðum er grátbeiðni um inngöngu og það er mikilvægt að fólk átti sig á því og ræði það gaumgæfilega. Það er hins vegar svo klemmd staða sem Ísland hefur núna í samfélagi þjóðanna að það er ekki í sjónmáli önnur skynsamlegri leið.


mbl.is Þingmenn lýstu yfir andstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplegg ríkistjórnarinnar er lítið og loðið plagg

Forseti ASI virðist afar ánægður með plagg ríkisstjórnarinnar. Það er hið besta mál að góð sátt sé milli  þeirrar ríkisstjórnar sem nú tekur við og stórra verkalýðsfélaga, björgun úr rústasvæðunum á Íslandi getur ekki gengið nema með samstilltu átaki margra. Hvarvetna er sviðin jörð  og hvergi nokkurs staðar örlar á þeim frjóöngum sem geta gert þetta land byggilegt aftur, engin nýsköpun kviknar og engin atvinna getur risið undir þeim ofboðslega háu vöxtum sem núna eru hérna ásamt því að hafa tapað öllu eigin fé í fjármálahruni síðustu mánaða.

Atvinnuleysi stefnir hratt í 10 % á þéttbýlissvæðinu  kringum Reykjavík. 

Það er því stórundarlegt að forseti verkalýðsfélags skuli sjá úr stjórnarplagginu að  "það er komið að því að taka stórar ákvarðanir og keyra hlutina í lausnir.“ Málið er að það plagg sem ríkisstjórnin leggur fram er lítið og loðið og það er svo sannarlega ekki lausnamiðað. Það er ómögulegt að sjá hvað ríkisstjórnin ætlar að gera, eina sem er fast í hendi að ríkisstjórnin ætlar að byrja sinn feril með að skapa störf. Skapa störf fyrir fleiri ráðherra svo það sé ennþá nákvæmara. Það eru einu nákvæmu magnmælikvarðarnir í litla loðna plagginu að það eigi að byrja með 12 ráðherrum og enda með 9 ráðuneyti. 

Ég get reyndar alls ekki skilið hvernig Gylfi getur verið trúr félagsmönnum í ASÍ, sérstaklega félagsmönnum sem núna hafa misst vinnuna eða eru að missa vinnuna ef hann kallar ekki eftir skýrari aðgerðum til að sporna við atvinnuleysi.

Það er ein aðferð alveg borðleggjandi til að  minnka atvinnuleysi. Það er sú aðferð að deila betur vinnunni og besta leiðin til þess er að  minnka vinnuvikuna. Miklu fleiri fá vinnu  ef vinnuvikan væri styttri.  Það er gríðarlega hættulegir tímar að fara í hönd þannig að það er líklegt að nýliðar á vinnumarkaði fái ekki vinnu. Hefur forseti ASÍ engar skyldur gagnvart því fólki, ungu fólki sem ætlaði sér í störf en fær ekki vinnu núna vegna þess að allir hafa sett stopp á ráðningar?

það eru til margar þekktar lausnir við svoleiðis aðstæður. Ein er sú að  bjóða fólki að fara í orlof gegn því að einhver af atvinnuleysisskrá verði ráðinn í staðinn. Þetta gerðu Svíar og þá inn í verkefni sem hét "Kunskapslöftet" og gekk út á að hækka menntunarstig þeirra sem höfðu ekki mikla menntun fyrir. 

Það eru raunar þannig aðstæður í samfélaginu að þær kalla á jöfnun í launakjörum og þar með töluverða lækkun launa og hlunninda hjá þeim sem hafa haft þau ómæld núna. Það þarf að jafna kjör og það þarf að deila vinnunni. Það þarf líka að jafna kjör milli þeirra sem eru í föstum störfum og þeirra sem eru  faraldverkafólk nútímans, fólkið sem er núna "frílans" eða lausráðið í ýmis konar verkefnavinnu. Það er það mikilvægasta þangað til rofar til. 


mbl.is Trúverðugt plagg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

12 ráðherrar, 9 ráðuneyti, atvinnuleysi, lánleysi og kreppa

a comic strip!

Ég óska nýju ríkisstjórninni velfarnaðar í starfi. Þetta eru merk tímamót, fyrsta lýðræðislega kjörna stjórnin eftir kerfishrun á Íslandi, þessa stjórn hefur næstum helming íslenskra kjósenda á bak við sig og leikreglurnar í stjórnkerfi okkar eru þannig að þau geta virt að vettungi fulltrúa þeirra rúmlega rúmlega 50 % þjóðarinnar sem ekki kusu þessa stjórn og þau kjósa að gera það. Ég læt hér fylgja með skrípó sem ég gerði af því hvað mér fannst standa upp úr þegar þau kynntu nýju stjórnina og hver ég held að örlög hennar verði.

Einn ágætur þingmaður Vinstri Grænna Atli Gíslason vildi að hér yrði reynt að mynda þjóðstjórn og ég held raunar að það hefði verið eina vitið, þau vandamál sem Ísland stendur frammi fyrir núna er ekki hvenær Ísland eigi að ganga í Efnahagsbandalagið og hvernig sé hægt að gera það án þess að Steingrímur foringi Vinstri grænna missi andlitið, þau vandamál eru miklu meiri og dýpri og snúa að ástandinu hérna innanlands og þeim kröfum sem erlendir aðilar gera nú á íslenska ríkið.

Það er runninn einhver hofmóður á þá sem eru í forustu og núna skipta með sér ráðherrasætum. Það er ekki langt síðan Steingrímur J. Sigfússon  sagði að þjóðstjórn væri besti kosturinn, það var í janúar síðastliðinn. Hefur ástandið batnað eitthvað síðan þá? Er ekki ennþá jafnmikil ástæða til að sem flestir ráði fram úr þessari ömurlegu stöðu íslensku þjóðarinnar? Framsóknarmenn hafa reynt að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að tryggja að hér yrði ekki algjör upplausn og vörðu stjórn VG og Samfylkingar vantrausti til að hér loguðu ekki eldar á torgum og götubardagar væru ekki við lögreglu af reiðum almenningi.

Er ekki full ástæða fyrir þessa nýju stjórn að horfast í augu við stöðuna í stað þess að  eyða sínu púðri í að planta eins mörgum og hægt er inn í ráðherraembætti með tilheyrandi hlunnindum. Reyndar trúi ég ekki öðru en að ráðherrarnir nýju afsali sér þingfararkaupi og ýmsum hlunnindum eins og einkabílstjórum og ráðherrabílum. Það er  rosalega mikið  2007 og ekki samboðið þessari stjórn að spreða fé í ráðherra en lofa svo að leggja niður ráðuneyti... bara ekki strax.

Ríkisstjórnin verður að hlusta á fólk eins og Atla Gíslason og Lilju Mósesdóttur, hún verður að skilja að hér er lamað atvinnulíf og þjóðfélag í upplausn. Það var bara brandari að lækka stýrivexti hérna um einhver prósent, eftir sem áður eru vextir hérna brjálæðislega háir og engir að taka lán nema þeir sem eru fastir í lánagildru og þurfa að endurfjármagna eldri lán. Engin lán eru tekin til nýsköpunar, engin nýsköpun á sér stað á Íslandi í dag. Hér eru fjölskyldur og atvinnulíf þar sem allt eigið fé er uppurið vegna kerfishruns. Það þarf margháttaðar aðgerðir við svona aðstæður og ekki þær aðgerðir helstar að fjölda ráðherrum.  það skapar ekki vinnu, það skapar bara aukavinnu handa fólki sem þegar hefur vinnu. 


mbl.is Ný ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankaleynd, bankaleynd

Ég er orðin leið á að heyra að almenningur á Íslandi megi ekki fá að vita   hvað bankar og sparisjóðir aðhöfðust á sama tíma og við erum gapandi yfir því hvaða rugl var þar í gangi.

Ég bendi á góða pistla Sigrúnar Davíðsdóttur. Vonandi hættir Rúv þessari hryllilegu stefnu að við höfum ekki aðgang að pistlum um íslensk þjóðfélagsmál nema í tvær eða þrjár vikur. 

08.05.2009Hlusta á þátt
Meira af leynifélögum í Lúx

29.04.2009Hlusta á þátt
Leynifélögin í Lúxemborg

Það er hrein óvirðing við íslenskan almenning að við skulum ekki hafa eins mikinn aðgang og mögulegt er að upplýsingum og greiningum á stöðu íslands. Yfir hverju er verið að hilma? Það var einmitt út af þessari upplýsingaleynd og vísvitandi blekkingum sem Ísland lenti í þeirri stöðu sem við erum í núna. Það var með því að berja niður allar gagnrýnisraddir og beina umræðunni í aðrar áttir, kaupa upp raddir allra sem gátu mótmælt. Það er með ólíkindum hvaða sjálfdæmi lítill hópur manna hafði í einhvers konar spilapeningagerð hérna í gegnum íslenskt bankakerfi, spilapeninga sem síðan voru notaðir alls konar útúrvitlausar fjárfestingar. 


mbl.is Forsendur einstakra verkefna geta brugðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örblogg með Twitter

 

Hér er grín um Twitteræðið í heiminum. Margt frægt fólk er núna með twitter og reynir að safna að sér áhangendum (kallast followers á twittermállýsku)

Það er mikið twitter æði í heiminum þessa daganna. Twitter er míkróblogg eða örblogg og getur hver sem er gerst áskrifandi. Það er hægt að skrifa mest 140 stafi í einu. Þetta er svona svipað og uppfæra statuslínu í Facebook.  Svona örblogg eru óðum að taka við sem útbreiddasta gerðin af bloggi, þau henta betur til margra hluta, ekki síst fyrir fréttir og ábendingar t.d. ábendingar um greinar eða blogg. En Twitter örbloggin eru öðruvísi en önnur blogg að því leyti að þau eru oft skrifuð úr símum, sérstaklega er algengt að iphone notendur sendi á Twitter. Twitter hentar þannig fyrir samfélag sem er orðið það sítengt að fólk er tengt alltaf, ekki bara þegar það er við tölvu eða situr með fartölvu. 

Þessar takmarkanir á Twitter að geta bara haft 140 stafi eru líka eins konar sía, Twitter virkar eins og sía á upplýsingar, hægt er að fylgjast með twitterstraumum og smella á slóðir sem bent er á ef það virkar áhugavert og maður treystir þeim sem bendir á.  Það er líka ein ný notkun sem núna er komin á twitter og það er leitin. Hún er orðin mjög öflug  ef maður er að leita að einhverju sem er einmitt að gerast hér og nú, leita í gegnum umræðu heimsins um t.d. eitthvað verkfæri eða það nýjasta nýtt um svínaflensuna.  Ef maður t.d. fer á leitina á http://search.twitter.com og slær inn leitarorð eins og swineflu eða h1n1 þá getur maður fylgst með því nýjasta, oft ábendingum frá heilbrigðisaðilum víða um lönd en líka alls fólki að blogga út í loftið. Það er líka algengt að fólk sannmælist um að nota merkingar á twitter boðin sín og nota þá hash merkið. Það er algengt þegar fólk t.d. er á ráðstefnum eða uppákomum og tekur þátt í einhverjum viðfangsefnum. Segnum að ég vildi fylgjast með hvað verið væri að skrifa um opinn hugbúnað. Það má t.d. sjá hvað fólk hefur merkt með #opensource  með því að slá þetta inn í leitargluggann í twitter leit.

Það er líka núna að þróast ýmis konar samræða með twitter, margar vefslóðir bjóða upp á að senda beint á twitter eins og facebook og svo eru ýmis verkfæri að þróast sem nota twitter til ýmis konar samskipta t.d. til að gera skoðanakannanir. Hér er ég að prófa  að setja upp hugmyndasamkeppni á twitter, það er mjög einfalt að setja upp og taka þátt í svona samkeppnum:

Samkeppni um nafn á nýju ríkisstjórninni 

 


Samkeppni um nafn á nýju ríkisstjórnina, taktu þátt!

Hér kemur samkeppni um nafn á ríkisstjórninni, samkeppnin fer fram á twitter. hmmmm.... virkar ekki á moggablogginu... virðist ekki leyfa javascript

Ég færði samkeppnina þá yfir á annað blogg, wordpress blogg sem leyfir mér að setja inn þetta.

Samkeppni um nafn á nýju ríkisstjórninni

Til að taka þátt verður fólk að vera notendur á twitter og vera skráð þar inn og vera fylgjandi minn á twitter að ég held. Ég er salvor á twitter.  Ég gat stillt þessa samkeppni þannig að þátttakendur geta valið greitt atkvæði um innkomnar tillögur, alla vega held ég það. Þetta virðist ansi sniðugt. 

Ég sá þetta sniðuga samkeppnakerfi hjá twitter ofurnotandanum Pirillo. Hann er sniðugur í svona tæknilausnum þó hann sé nú enginn femínisti. Hér er samkeppni sem hann er með núna, ég tók þátt í henni.


mbl.is Ríkisstjórn í burðarliðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar prófa þanþol Íslendinga - breytum því í slöngvivað

Össur iðnaðarráðherra segir það ekki í þágu íslenskra hagsmuna að slíta stjórnmálasambandi við Breta en Sigmundur Davíð formaður okkar Framsóknarmanna vill hugleiða það.  Ég hef ekki mikla trú á að Össur hafi það innsæi að hann skynji hvað best er fyrir Íslendinga til langframa. Það held ég að Sigmundur Davíð skynji hins vegar manna best. Við skulum ekki gleyma því að Össur var ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem hrökklaðist frá, þið munið þessari vanhæfu og hann bakkaði þannig upp ferðalög Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar um heiminn þegar þau fóru gagngert til að blekkja umheiminn um að allt væri á góðu róli með íslensku bankanna, á tímum þar sem við vitum núna að þau vissu að staðan var virkilega slæm.

Ég skrifaði nú sérstakt blogg Össur fyrir tveimur árum það sem ég krufði spásagnarhæfi Össurar á framtíðina og er skemmst frá því að segja að hún er ekki mjög mikil, hann klikkaði illilega í því að gæta íslenskra hagsmuna undanfarin ár, ár þar sem hann og fyrrum samflokksmaður hans Ólafur forseti  hefðu átt að vera okkur vegaljós.  Það er aumt til þess að vita að þessir tveir fyrrum ritstjórar Þjóðviljans hafi báðir dinglað með sem gagnrýnislaus handbendi þeirra sem nú hafa selt okkur í skuldaánauð.... Ef út í það er farið... hverjir hafa selt okkur í ánauð? Voru það ekki vanhæf stjórnvöld sem sváfu á verðinum og leyndu ástandinu fyrir þegnum sínum?  Er ástæða til að þeir sem það gerðu hafi þá innsýn að þeir geti leyst okkur úr ánauðinni?

Reyndar er líka ansi undarlegt hvernig þessi Icesave samninganefnd er skipuð, af hverju er hún leidd af Svavari Gestssyni? Hvaða reynslu eða hæfni hefur hann til þeirra starfa? Mér er alveg fyrirmunað að sjá það.  Vissulega var hann líka eins og Össur og Ólafur Ragnar ritstjóri Þjóðviljans um skeið en hefur reynslan ekki sýnt að það er svo sannarlega ekki trygging fyrir að fólk hafi skynsemi að leiðarljósi og hugsi um hagsmuni almennings en ekki auðjöfra og fjárglæframanna.

Stjórn Gordons Brown hefur komið þannig fram við Íslendinga að það er ekkert í stöðunni annað en hugleiða að slíta stjórnmálasambandi við þá þjóð. Það er auðvitað mikilvægt að hóta því og láta það berast til bresku pressunnar,  það er mikilvægt að sjónarmið Íslendinga fái einhverja umfjöllun þar. 

En það má velta fyrir sér hvers vegna aðfarir Breta eru svona stórfurðulegar. Er eitthvað sem við almenningur  vitum ekki um Icesave? Er ríkisstjórnin að leyna einhverju fyrir okkur? En þessi uppákoma þar sem Gordon Brown er að reyna að klína lélegum vinnubrögðum breska fjármálaeftirlitsins á Íslendinga og gera breskan banka í breskri lögsögu að einhverju sem Íslendingar eru ábyrgir fyrir er stórskrýtin. Það ásamt hryðjuverkalögunum er alveg ærið tilefni til að slíta stjórnmálasambandi við Breta.

Ég held að það verði að fara mjög vandlega yfir öll íslensk mál og athuga hvort við getum ekki ef með þarf slitið stjórnmálasambandi við Breta. Þar er mikilvægast að athuga hvaða kostir eru í stöðunni að selja fisk annað en á Bretlandsmarkað. 

Annars er gaman að spá í að flestar þær innrásir og stríð sem við höfum átt í gegnum aldirnar hafa verið við Bretland og þeir hafa löngum ásælst auðlindir Íslendinga.  Við skulum rifja upp ensku öldina á Íslandi og þann tíma þegar Danir og Englendingar börðust, svo réðust Bretar á Ísland síðustu heimstyrjöld og ekki má gleyma þorskastríðunum sem við háðum með klippum og tveim varðskipum og unnum samt.  Nú er stríð og það er núna háð með einhvers konar særingum í heimi fjármála, særingum sem enginn skilur en sem valdameiri þjóðir túlka sér í hag. Það  er hins vegar svo að hugsanlega stendur veldi Bretlands og Bandaríkjanna á meiri brauðfótum en okkur órar fyrir.

En við þurfum alla vega önnur vopn en klippur á varðskipum í því stríði sem núna er hafið.

 

 


mbl.is Íhugi slit á stjórnmálasambandi við Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiklistarskóla - Leiklist fyrir alla - ekki bara elítulist

Sennilega er núna að hefjast mikill blómatími íslenskrar menningar. Það er þannig að á svona umrótstímum eins og núna er þá er akurinn frjósamur fyrir alls konar list og sköpun, það losnar um gamlar hugmyndir, það verður gerjun á öllum sviðum. Sennilega mun sú gerjun koma fram í leikhúslífi þjóðarinnar sem og í annarri list. En því miður er það svo að margt í aðgangi að listsköpun og  listsýningum á Íslandi er niðurnjörvað í kerfi sem hæfir einhverri elítu, elítu sem er löngu flúin úr þessu landi og var kannski aldrei til hérna.

Það er ólíklegt að auðmenn með ítök í bönkum styðji hér við alla menningarviðburði og ég hugsa að orðið "kostun" verði bara á næstunni eitthvað til að brosa að. En menning kostar og sum menningarstarfsemi eins og symphonía og þjóðleikhús og ríkisútvarp er dýr og það eru fáir sem njóta. Það er enginn ástæða til annars en að endurskoða hvernig skattfé er varið í að greiða niður menningu. 

Ég hlusta lítið á útvarpið á RÚV, ég fer sárasjaldan í Þjóðleikhúsið og ég fer aldrei á Symphoníutónleika. Samt er ég nokkuð viss um að þetta eru allt fyrirbæri sem skipta miklu máli fyrir íslenska menningu.  Mest af kostnaðinum við þessar stofnanir er innlendur launakosnaður, laun fólks sem vinnur í menningu og listum á Íslandi og auðgar hér samfélagið okkar með að búa hérna og taka þátt í samfélaginu, þetta er ekki fólk sem kemur hingað sem gestir í  jöklaleikhús.  En það er sanngjörn krafa okkar sem eigum að borga fyrir þessar menningarstofnanir þó við nýtum þær ekki að þessu fé sé vel varið á sjáanlegan og gagnsæan hátt fyrir íslenskt samfélag. Helst að þessar stofnanir allar aðlagi sig á einhvern hátt þeim aðstæðum sem núna eru og nái til fleiri hópa, ekki bara með því að "hagræða" þannig að allur kostnaður er skorinn niður, ekkert nýtt fólk ráðið inn, aðeins sýnt þrautreynd innflutt þýdd stykki eða leikverk sem hafa verið sýnt hundrað sinnum áður.  Málið er að þessar menningarstofnanir eru líka mikilvægar út af fólkinu sem starfar við þær og fær tækifæri við að starfa við þær.  Þannig er kannski mikilvægast núna að virkja sem flesta í að semja og setja upp leikverk, ekki eingöngu fólk sem er fastráðið hjá Þjóðleikhúsinu. 

Það er líka engin ástæða til að hafa sköpun svona njörvaða milli listforma, annað hvort svið eða sjónvarp eða kvikmynd.

Ef ég væri menntamálaráðherra þá væri það eitt það fyrsta sem ég myndi gera í menningarmálum að setja hérna á stofn öflugri leiklistarskóla í tengslum við þjóðleikhúsið - ekki bara svona leiklistarskóla sem tekur örfáa inn á hverju ári. Það er mjög undarleg, reyndar stórbilað og algjör peningasóun að hafa hlutina eins og þeir eru núna - það eru margir Íslendingar sem ekki komust að í leiklistarnámi hérna heima núna í leiklistarnámi erlendis og íslenska ríkið eyðir afar dýrmætum gjaldeyri bæði í framfærslu og skólagjöld fyrir þannig nemendur. Þetta er afar óskynsamlegt, stór leiklistarskóli sem tæki við fleiri nemendum myndi veita fleirum vinnu við tilsögn nemenda. Það er skrýtið að fólk sem langar í leiklistarnám hefur afar litla möguleika hérlendis. Það er víðáttuvitlaust að stefna þeim erlendis eins og nú er.

 


mbl.is Auglýst eftir þjóðleikhússtjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram Ögmundur og Össur, áfram kaffi og kleinur hjá Jóhönnu og Steingrími!

Ég er nokkuð ánægð með ríkisstjórnina svona í lok helgar.

Þau eru kannski ekki eins miklar gufur og ég var farin að halda. Mér finnst flott að þau komi sér upp verkaskiptingu, Ögmundur herji á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hans stefnu, Össur taki fyrir Gordon Brown (bara engin næturblogg, það gæti spillt fyrir) og hans erindreka og hefji slaginn í breska sendiráðinu hérna. Svo er nú allt í áttina að Jóhanna og Steingrímur tala við skrílinn. Ég kann vel við svona kaffi og kleinur viðhorf hjá stjórnvöldum, ég kann vel við stjórnvöld sem átta sig á því að fólkið í landinu er ekki helstu andstæðingarnir.


mbl.is Heimslögregla kapítalismans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri ástæða til að berja sleifar við breska sendiráðið en Alþingi

Ég sá að boðað var til mótmæla kl. 13 í dag við Alþingi af "hópi fólks sem stóð framarlega í búsáhaldabyltingunni".  Vissulega verður að grípa strax til aðgerða til að heimurinn hrynji ekki yfir íslensk heimili og atvinnufyrirtæki. En það er miklu mikilvægara að koma boðum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og bresku ríkisstjórnarinnar um hvernig ástandið hérna er heldur en ríkisstjórnarinnar. Því miður er íslenska ríkisstjórnin sennilega alveg valdalaus núna, viljalaust verkfæri í höndum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hefur engan talsmann í alþjóðasamfélaginu, þetta er gufuleg ríkisstjórn og lúpuleg. Gordon Brown er kannski lítill kall eins og Steingrímur segir en er ekki Steingrímur og restin af ríkisstjórninni eins og samankýttur átján barna faðir í Álfheimum ef ekki verður brugðist við þessu.  Það var vissulega vanhæf ríkisstjórn sem fór frá völdum en er hvernig umskiptingur er þessi sem nú segist vera að fæðast?

IMG_4802

Reykjavík lítur núna út víða eins og rústasvæði,  bara þegar ég horfi  út um gluggann heima hjá mér í Sigtúni þá sé ég eina rústina, þar sem gróðurhúsin í Sigtúni voru mölvuð niður og einhver byggingarverktakinn ætlaði að byggja háhýsi í anda tvíburaturnanna við Grand Hótel. Núna er rústasvæðið hér við Sigtún að fyllast smán saman af rusli og niðurníddum bíldruslum.

Það er reyndar góð viðskiptahugmynd að gera út á svaðilfaratúrisma til Íslands, í staðinn fyrir að láta túrista flengjast milli flúða í jökulfljótum þá getum við búið til upplifunariðnað hér í Reykjavík sem er svona eins og draugaganga eða horrorsjóv og auglýst óvissuferðir sem gera út á hræða fólk undir slógönum eins og  "Ruins of Reykjavik" og "The Crash Tour of Reykjavik".

IMG_4810

Hmmm... kannski ekki svo góð hugmynd, vissulega er hægt að búa til virkilega hræðilegar ferðir um Reykjavík en ástandið er því miður verra víða annars staðar í heiminum, eitthvað sem fjármálasérfræðingar kalla í viðræðum Cataclysmic bear market 

En þó að það þurfi aðgerðir strax á Íslandi þá hugsa ég að íslenska ríkisstjórnin sé kramin á milli tveggja afla núna og sé valdalausari en hún vill vera láta. Þannig er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun væntanlega ekki afgreiða lán nema stimpla einhvern aðgerðapakka sem því miður er ekki aðgerðarpakki til hjálpar íslenskum heimilum og íslenskum atvinnufyrirtæki heldur frekar aðgerðapakki sem miðar að því að minnka tap fjármagnseigenda og leika sama hlutverk og sá sjóður hefur gert hingað til í sjokkkapítalistakerfi heimsins. 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn eru ekki í þjónustu Íslendinga, þetta eru  stofnanir sem eru í þjónustu þess kerfis sem nú hefur fallið yfir okkur og það eru þeir sterkustu í því kerfi sem ráða förinni. Svo langt gengur þetta að Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands  vasast blóðugur upp að öxlum á rústasvæðum Íslands til að pína einhverja meiri peninga út úr Íslendingum, peninga sem eru eins mikið til hérna og kjarnorkuvopn í Írak.

Hetjur dagsins í dag eru þeir sem skera upp herör gegn breskum stjórnvöldum og gegn því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kremji okkur hér undir fargi sem við getum ekki risið undir. Magnús sendi bréf til bresks þingmanns og hvetur Íslendinga til að skrifa þeim manni. Eins og svo oft í undanförnum mánuðum þá er kommentakerfið hjá Agli besta heimildin um hvað er að gerast í íslensku samfélagi, ég afrita bréfið frá Magnúsi hérna og hvet sem flesta til að mótmæla sem harkalegast (merktir með appelsínugulum borðum náttúrulega) alls staðar þar sem komast má að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og bresku ríkisstjórninni til að tala máli Íslendinga. Ekki gerir ríkisstjórnin það:

"Ég var rétt í þessu að senda tölvupóst á þingmanninn sem bar upp fyrirspurnina í House of Commons. Þingmaðurinn heitir Graham Brady (vefsíða: http://www.grahambradymp.co.uk/ ). Sendið honum endilega tölvupóst og bendið honum á ósannsöglina sem forsætisráðherrann bar á borð fyrir hann sem svar við spurningunni góðu um “cancer charity fund” sem Kaupthing Singer & Friedlander tapaði og bresk yfirvöld neita að bæta. Tölvupóstfangið er: crowthers@parliament.uk

“Dear Mr.Graham Brady:

I am an Icelandic citizen and like so many citizens from both my country and the UK, I am absolutely appalled by the havoc irresponsible bankers have wrought on our societies. I am also extremely bothered by the lack of regulatory supervision by the Icelandic banking regulatory authorities that helped create our crisis.I am writing you today to bring a serious matter to your attention. The campaign to recover the funds for the cancer charity at Christie’s has all my support as news of great financial loss by various charities, research funds and universities that did business with Landsbanki’s IceSave and Kaupthing Singer & Friedlander has saddened me.

It was nevertheless quite disturbing to witness the UK Prime Minister’s response to your question in the House of Commons where he implied that the UK regulatory authorities were not responsible in the Christie case. Mr. Brown said: “The fact is we are not the regulatory authority.” This is false.

Christie’s business was with Kaupthing Singer & Friedlander, a bank that was under UK regulatory authority and was regulated by the FSA. This is
clearly stated in the Treasury Committee report dated 04/04/09:

“Kaupthing Singer & Friedlander was a subsidiary of Kaupthing Bank hf, and
was therefore regulated by the FSA, and covered by the UK depositor
protection scheme, the Financial Services Compensation Scheme (FSCS).”
(From Treasury Committee - Fifth Report:

http://www.publications.parliament.uk/pa/cm200809/cmselect/cmtreasy/402/40202.htm ).

It is a serious matter if the PM deliberately lies to the House of Commons about this basic fact. In his reply to your excellent question he is shuns responsibility and blames the Icelandic authorities for harming a Charity that is by law protected by the UK authorities. This particular case has nothing to do with Iceland, the Icelandic government, the Icelandic people or the IMF.

I sincerely hope that you will address this issue again with the PM in the House of Commons.

The entire population of Iceland is suffering greatly because of reckless bankers, as are other citizens in the world. We are ashamed of the people who caused our collapse and directly affected us and UK citizens, businesses and government bodies.

We are nevertheless not to blame for the Christie travesty. Prime Minister Brown will need to be confronted and take responsibility in the tragic Christy case.

Sincerely,
(Name)
Citizen of Iceland”

 


mbl.is Bretar að semja við IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband