Leiklistarskóla - Leiklist fyrir alla - ekki bara elítulist

Sennilega er núna að hefjast mikill blómatími íslenskrar menningar. Það er þannig að á svona umrótstímum eins og núna er þá er akurinn frjósamur fyrir alls konar list og sköpun, það losnar um gamlar hugmyndir, það verður gerjun á öllum sviðum. Sennilega mun sú gerjun koma fram í leikhúslífi þjóðarinnar sem og í annarri list. En því miður er það svo að margt í aðgangi að listsköpun og  listsýningum á Íslandi er niðurnjörvað í kerfi sem hæfir einhverri elítu, elítu sem er löngu flúin úr þessu landi og var kannski aldrei til hérna.

Það er ólíklegt að auðmenn með ítök í bönkum styðji hér við alla menningarviðburði og ég hugsa að orðið "kostun" verði bara á næstunni eitthvað til að brosa að. En menning kostar og sum menningarstarfsemi eins og symphonía og þjóðleikhús og ríkisútvarp er dýr og það eru fáir sem njóta. Það er enginn ástæða til annars en að endurskoða hvernig skattfé er varið í að greiða niður menningu. 

Ég hlusta lítið á útvarpið á RÚV, ég fer sárasjaldan í Þjóðleikhúsið og ég fer aldrei á Symphoníutónleika. Samt er ég nokkuð viss um að þetta eru allt fyrirbæri sem skipta miklu máli fyrir íslenska menningu.  Mest af kostnaðinum við þessar stofnanir er innlendur launakosnaður, laun fólks sem vinnur í menningu og listum á Íslandi og auðgar hér samfélagið okkar með að búa hérna og taka þátt í samfélaginu, þetta er ekki fólk sem kemur hingað sem gestir í  jöklaleikhús.  En það er sanngjörn krafa okkar sem eigum að borga fyrir þessar menningarstofnanir þó við nýtum þær ekki að þessu fé sé vel varið á sjáanlegan og gagnsæan hátt fyrir íslenskt samfélag. Helst að þessar stofnanir allar aðlagi sig á einhvern hátt þeim aðstæðum sem núna eru og nái til fleiri hópa, ekki bara með því að "hagræða" þannig að allur kostnaður er skorinn niður, ekkert nýtt fólk ráðið inn, aðeins sýnt þrautreynd innflutt þýdd stykki eða leikverk sem hafa verið sýnt hundrað sinnum áður.  Málið er að þessar menningarstofnanir eru líka mikilvægar út af fólkinu sem starfar við þær og fær tækifæri við að starfa við þær.  Þannig er kannski mikilvægast núna að virkja sem flesta í að semja og setja upp leikverk, ekki eingöngu fólk sem er fastráðið hjá Þjóðleikhúsinu. 

Það er líka engin ástæða til að hafa sköpun svona njörvaða milli listforma, annað hvort svið eða sjónvarp eða kvikmynd.

Ef ég væri menntamálaráðherra þá væri það eitt það fyrsta sem ég myndi gera í menningarmálum að setja hérna á stofn öflugri leiklistarskóla í tengslum við þjóðleikhúsið - ekki bara svona leiklistarskóla sem tekur örfáa inn á hverju ári. Það er mjög undarleg, reyndar stórbilað og algjör peningasóun að hafa hlutina eins og þeir eru núna - það eru margir Íslendingar sem ekki komust að í leiklistarnámi hérna heima núna í leiklistarnámi erlendis og íslenska ríkið eyðir afar dýrmætum gjaldeyri bæði í framfærslu og skólagjöld fyrir þannig nemendur. Þetta er afar óskynsamlegt, stór leiklistarskóli sem tæki við fleiri nemendum myndi veita fleirum vinnu við tilsögn nemenda. Það er skrýtið að fólk sem langar í leiklistarnám hefur afar litla möguleika hérlendis. Það er víðáttuvitlaust að stefna þeim erlendis eins og nú er.

 


mbl.is Auglýst eftir þjóðleikhússtjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband