Er Alþingi sem valdalaus kjaftasamkoma og stimplunarmaskína?

Hrunið á Íslandi sýndi þjóðinni hve innviðir fjármálalífs og stjórnsýslu í kringum það voru feysknir. Hrunið afhjúpaði djúpa og inngróna spillingu sem teygði sig í öll skúmaskot, spillingu sem var svo inngróin að þeir sem tóku þátt og úthlutuðu sér og sínum gæðum tóku ekki eftir því að neitt athugavert væri  við athafnir sínar eða það kerfi sem gerði þær mögulegar.

Hrunið sýndi líka hve valdalaust Alþingi Íslendinga er og þar með hve lítið vald almenningur hefur gegnum kjörna fulltrúa sína. Alþingi kýs eftir flokkslínum og Alþingismenn tjá sig eftir flokkslínum alveg eins og það sé heilög skylda skráð í stjörnurnar og það skiptir þá öllu máli hvernig ríkisstjórn er samansett, í ríkisstjórninni liggja völdin. Stjórnarþingmenn sem ekki sitja sjálfir í ríkisstjórn eru meira segja valdalausari en stjórnarandstöðuþingmenn, það tíðkast ekki að þeir tjái sig á móti því sem er vilji ríkisstjórnarinnar. Þingmenn stjórnarandstöðu geta tjáð sig og þannig komið öflugri gagnrýni á framfæri. Þeir geta líka tjáð sig með einhvers konar skrípalátum eins og málþófinu í lok nýafstaðins þings og þannig komið afkáraskap sínum á framfæri. 

Í ljósi þess að við tökumst nú á við kerfishrun sem á upptök sín í því stjórnkerfi sem ennþá er við lýði, stjórnkerfi valdníðslu þar sem sem fámennastur hópur reynir og tekst að hrifsa til sín sem mest völd og komast í úthlutunaraðstöðu - er þá ekki rétt að við stöldrum við og hugleiðum hvort þetta sé skynsamleg og réttlát leið til að velja þá sveit sem á að stjórna landinu. Af hverju er ekki í svona fámennu landi hægt að láta  almenning  velja ríkisstjórn beint  með einhverjum hætti  í stað þess að við fáum eingöngu að velja þingmenn og það sé gríðarlega mikið misvægi í atkvæðamagni og undarlegar og óskiljanlegar og ósanngjarnar reglur um uppbótarþingmenn. Síðan ráðist það í alls konar hrossakaupum fyrst milli flokka og síðan milli þingmanna einstakra flokka hvernig ráðherra skipan verði. Það má jafnframt spyrja hvaða þörf er á að halda uppi fjölmennu liði þingmanna ef þingið er ekki annað en stimplunarstofnun fyrir frumvörp sem ekki einu sinni ríkisstjórnin ræður, frumvörp sem koma beint frá EBE og eru þýdd hérna?  Það er vissulega mikilvægt það hlutverk sem stjórnarandstaðan hefur á Alþingi, það er kannski það mikilvægasta sem gerist á Alþingi. 

Það er  bara hressandi að einhverjir þingmenn Vinstri grænna hafi lýst því yfir að þeir muni ekki styðja tillögu ríkisstjórnarinnar um EBE aðild, það er þó alla vega eitt tákn um að  stjórnarþingmenn ætli ekki að vera algjörlega valdalaust verkfæri og kóari með öllu sem þessi ríkisstjórn ætlar að gera.  Það er sjálfsagt mál að það séu átök í þingheimi um svona mikilvægt mál.  Sumir láta sem svo að það að fara í aðildarviðræður sé eitthvað sem hægt er að bakka út úr, sé ekki meiri binding en að tékka á því hvaða kjör bjóðist, svona eins og að leita tilboða um einhverja vöru. Þannig er málið ekki,  það að óska eftir aðildarviðræðum er grátbeiðni um inngöngu og það er mikilvægt að fólk átti sig á því og ræði það gaumgæfilega. Það er hins vegar svo klemmd staða sem Ísland hefur núna í samfélagi þjóðanna að það er ekki í sjónmáli önnur skynsamlegri leið.


mbl.is Þingmenn lýstu yfir andstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aftur góður pistill.  Almenningur þarf að geta valið fólk og á milli flokka og stýra þannig áhöfn Alþinis og ríkisstjórnar.  Flokkavaldið hættulega er enn við lýði núna.  Líka, Alþingi ætti að hafa úrskuðarvaldið, en ekki fólkið í ríkisstjórninni, sem ættu að vera fulltrúar Alþingis og fólksins í landinu.  Þannig skilst mér líka að það sé skrifað í stjórnarskránni.  Er það ekki bara stolið vald frá Alþingi?  Og ansi hættulegt og spillingarlegt að foringjar e-a flokka stýri hverjir komi inn í ríkisstjórn.  Og bara undarlegt. 

EE elle

. (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 15:27

2 identicon

Vil samt segja að ég treysti að Steingrímur J. lagi gallana.  Held hann sé nógu heiðarlegur.  Getur e-r þó svarað sem veit:  Er það ekki þannig samkvæmt lögunum að Alþingi skuli fara með úrskurðarvald í málum?  Og þar meina ég ekki dómsvald að sjálfsögðu. 

EE elle

. (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 17:32

3 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Elsku Salvör mín, mér finnst málflutningur formanns ykkar alveg ómögulegur. Ég hafði svo mikla trú á honum fyrir ykkar hönd en nú slær hann úr og í. 

Mér finnst aldrei hægt að vita hvað hann segir næst.  Upp og niður, út og suður.

Mér finnst hann óánægður með allt nú eins og hann haldi að hann eigi að vera það en ekki af því að hann sé það.

Vona að hann og þið/Framsóknarflokkurinn styðjið aðildarviðræður eins og þið töluðu um í ykkar kosningarloforðum.  Það er sama hvaðan gott kemur og þess vegna bara slaka og fylgja góðum ákvörðunum sem teknar eru en endilega gagnrýna það sem er gagnrýni vert, en umfram allt vera MÁLEFNALEG.

Kolbrún Baldursdóttir, 11.5.2009 kl. 18:53

4 identicon

Fannst kommentið á undan hafa niðrandi tón:". . en umfram allt vera MÁLEFNALEG."

Krístján (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 20:54

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Kolbrún: Það eru skiptar skoðanir í Framsóknarflokknum um aðildarviðræður og það var samþykkt tillaga á landsfundi okkar sem flestir gátu sætt sig við - tillaga sem reyndar er ekki mjög líklegt að Efnahagsbandalagið sættist á  nema verulegt tillit verði tekið til sérstöðu Íslands.

En það er bara skrípaleikur ef fólk heldur að það eigi að fara í aðildarviðræður bara til að sjá hvaða díla okkur verða boðnir og setja svo upp þjóðaratkvæðagreiðslu til að athuga hvort að meirihlutinn samþykki. Það verður að vera nokkuð borðleggjandi að það sé ósk Íslendinga að fara inn í Efnahagsbandalagið og það sé ekki verið að eyða tíma og orku í eitthvað sem líklegt er að verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef ríkisstjórnin ætlar að setja einhvern slíkan samning fyrir þjóðina sem líklegt er að verði hafnað þá er eins gott að þessi stjórn segi strax af sér.

Það er að mínu mati enginn valkostur annar en hefja aðildarviðræður. hins vegar á alls ekki að gera það undir formerkjum einhvers sjokkapitalisma og blekkja fólk með einhverju evrutali. Það getur verið að það séu hagsmunir Íslendinga að aðildarviðræður taki sem allra lengstan tíma, helst mörg mörg ár.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.5.2009 kl. 07:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband