Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Ógöngur 2008 - Þegar Borgin rumskar

ogongurb1.jpgÉg held mína þrettándagleði hér á blogginu með því að bjóða upp á frumsýningu á kvikmynd minni Ógöngur 2008 sem er meira en 28 mínútur og er mín frásögn af neyðarblysförinni og kryddsíldarmótmælunum á gamlársdag. Slóðin er http://www.esjan.net/kryddsild/ogongur/

Það þýðir sennilega ekki nema fyrir þá sem eru með frekar hraða nettengingu að sjá þetta, það þarf að bíða smátíma í byrjun áður en myndin byrjar að spilast.

Þessi frumraun mín í kvikmyndum lengri en 10 mínútur er gerð í sönnu kreppudogma, ég klippti ekkert til og skeytti saman í tímaröð allar þær vídeóklippur sem ég tók upp af þessum atburði. Vil ég þakka öllum þeim sem voru persónur og leikendur í þessari kvikmynd og sérstaklega þakka tónlistina og hljóðeffectana sem eru blys, pottar, rúðubank, sleifar, hróp, klapp, þvottabretti og ýmis önnur hljóðfæri.

ogongurb2.jpgEins og  Alfred Hitchcock þá er ég einn af leikendunum, ég kem fyrir í byrjun og leik frelsisstyttuna sem í þessari ævintýramynd á mörkum veruleika og draums er í  myrkri og frelsiskyndillinn er bleikt neyðarblys sem baðar himininn, ekki á frelsiseyjunni út af New York heldur á eyjunni Íslandi, eyjunni sem sendir neyðaróp út í geiminn í lok ársins 2008. 

ogongurb3.jpg

Það hafa margir aðrir séð hversu ljóðræn og ævintýraleg atburðarásin var, sjá þessar frásagnir:

Veruleikarof (nei.is)

Kryddsíld - Bardaginn á Borginni (Eyþór Árnason)

Í tilefni af þessum atburði -hvort sem við köllum hann bardaga eða veruleikarof þá hef ég ort upp að nýju ljóðið mitt. Ég er eins ljóðs skáld og þetta ljóð er eldfimt töfraljóð sem tekur á sig blæ eftir viðburðum.  Ég breytti ljóðinu þannig að núna er stór stafur í Borgin.

 

Eldborg

Þegar Borgin rumskar
læðist steinolíustrákurinn
inn í grátómu húsin
tifar á strengjasteypunni
og safnar sprekum í eldinn.

Þegar borgin sprettur á fætur
með sírennuvæli, hrópum og skarkala
og gráir bólsrar teygja sig til himins
þá veit hann
að þeir njóta eldanna best
sem kveikja þá.


mbl.is Jólin kvödd með virktum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gas, gas

Það er   gasskortur víða í Evrópu og það  virðist tengjast  gasleiðslum sem liggja í gegnum  Úkrainu og því að rússneska fyrirtækið Gazprom hefur hætt að afgreiða gas þangað  vegna ógreiddra reikninga og hugsanlega líka af stjórnmálaástæðum - Úkrainia er ekki lengur partur af Sovétríkjum sem standa saman af sér áföll. Fjórðungurinn af gasi til EU landa kemur frá Rússlandi og af því er 80 % pumpað í gegnum Úkrainu. Lettland, Finnland, Slóvakía og Eistland fá allt sitt gas frá Rússlandi, Búlgaría, Lithauen og Tékkland langmest af sínu gasi og Grikkland, Austurríki og Ungverjaland meira en helming. Það er neyðarástand og þetta er eldfimt ástand í stjórnmálum.  Það hlýtur að vera mest neyðarástand í Úkrainu, það ríki hefur farið einna verst út úr fjármálakreppu heimsins og það hlýtur að vera neyðarástand ef þar er tappað af gasi sem þegar hefur verið selt til annarra þjóða. Sjá nánar þessa grein á BBC  European gas supplies disrupted

Út af svona málum geta menn farið í stríð. Þessar fréttir sýna okkur líka hve viðkvæmur hinn samtengdi heimur er.  Leiðslur og flæðilínur viðskipta liggja um mörg ríki og í gegnum ríki og þetta virkar ekki ef einhverjir stöðva flutningana og teppa línurnar. Þessar fréttir sýna okkur líka það sem allir vita sem fylgjast með magntölum viðskipta - það er fyrirsjáanleg mikil orkukreppa í heiminum og slagsmál þjóða til að tryggja fólkinu sínu þann aðgang að orku sem nauðsynlegur er fyrir mannlíf og atvinnu.

Baráttan um orkuauðlindir á Norðurslóðum verður hörð. 


mbl.is Lýsa yfir neyðarástandi í Slóvakíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nornalýðræði

Á kryddsíldarmótmælunum voru hrópuð mörg slagorð. Sum voru í gríni svona eins og "Málmblendi í miðbæinn" og "Álver í Árbæinn" en það var meiri alvara í öðrum eins og "Vanhæf ríkisstjórn".Þar var líka hrópað "Lýðræði - ekkert kjaftæði". Það stuðlast nú vel og auðvelt að söngla er ekki lýðræði einmitt að hluta fólgið í kjaftæði? Í umræðunni, í því að greina stöðuna og leita lausna, í því að fólk upplýsi hvert annað og tali saman? Er lýðræði fólgið í kosningum?

Það vilja margir kosningar strax. Það eru nú margir á Íslandi sammála um  í dag að þessi ríkisstjórn hafi ekki umboð hjá þjóðinni til að binda okkur niður í skuldaklafa um aldur og ævi. Það er því eðlileg krafa kjósenda að það fari sem fyrst fram kosningar. Það kemur EBE voða lítið við og það er bara yfirklór ef fólk heldur að það sé einhver skyndiplástralausn að ganga í EBE til að skipta út gjaldmiðli. Það tekur langan tíma og óvíst að Íslandi takist á næstu árum að uppfylla þau skilyrði sem þarf.

En kosningar eru ekki frekar en EBE aðildarumsókn einhver töfralausn á Íslandi eða trygging fyrir að almenningur ráði. Kosningakerfið er meingallað og við sem búum á höfuðborgarsvæðinu höfum miklu minna vægi en það er jafnað út með gríðarlega flóknum og rúllettulegum útreikningi á uppbótarþingmönnum sem gerir að verkum að fólk dettur út og inn af þingi alla kosninganóttina og smábreyting í einu kjördæmi getur breytt öllu í mörgum öðrum kjördæmum. Þetta kerfi er einhvers konar samtryggingarkerfi þeirra flokka sem bjóða alls staðar fram - það er mjög erfitt fyrir ný stjórnmálaöfl að koma fram og ná fylgi.  Starfandi stjórnmálaflokkar hafa líka forskot, þeir fá stuðning frá ríkinu og það er nú ekkert smáræði, yfir 300 milljónir alls til þess næsta ár.

florida-kjorsedill.jpg það eru kannski til aðrar og betri aðferðir til að kjósa eða til að hafa einhvers konar fulltrúalýðræði, það fer fram umræða um það á rglug póstlistanum núna, hér er umræðan um vefrænan stjórnmálaflokk  (og annar umræðuþráður hérna) og þar sá ég vitnað í Nornirnar sem er opinn hugbúnaður til hugarflæðis, ákvarðanatöku og skoðanaskipta. Það hljómar spennandi að prófa svoleiðis nornaþræði frekar en spagettikjörseðill eins og netverjar gerðu grín að hefði tryggt kosningu Bush á sínum tíma.

Það eru ekki tæknilegir annarkar á því að almenningur komi meira að ákvarðanatöku í samfélaginu, annmarkarnir eru að þeir sem hafa haft völdin ríghalda utan um valdaþræðina og kunna ekki á ný verkfæri og hafa ekki áhuga á að prófa þau. En það þarf nýja sýn og nýjar aðferðir  bæði við kosningar, umræðu og ákvarðanatöku og sú sýn þarf að byggjast á samvinnuhugsjón - ekki samvinnuhugsjón kaupfélaganna sem passaði ágætlega við  gamla tímann, heldur samvinnuhugsjón sem passar við nútímann, við þá öld sem einkennist af remix og samtvinnun og öðruvísi samvinnu milli framleiðanda og neytanda, samvinnuhugsjón sem svipar til open source hreyfingar þar sem allir sem þekkingu hafa á skynja að það er affarasælla að leggja saman í púkk og sjóðurinn verður stærri ef margir leggja inn, sérstaklega ef verðmæti í sjóðnum eru þekking og kunnátta um hvernig eigi að leysa vandamál.

Annars sitja skapanornirnar við Urðarbrunn og vefa mönnum örlög, Urður um nútíð, Verðandi um framtíð og Skuld  um fortíðina. 


mbl.is ESB aðeins átylla fyrir stjórnarslitum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lottópotturinn er að springa

Var það á eftir áramótaávarpi forsætisráðherra eða var það var á eftir nýársávarpi forsetans sem auglýsingin hljómaði, auglýsingin um að lottópotturinn væri að springa?  Þessi auglýsing sem núna glymur við í sjónvarpi og útvarpi er lýsandi fyrir ástandið í íslensku samfélagi  í dag. Samfélagi sem breytt var í matador eða lottópott fyrir fámennan hóp spilara sem lögðu undir það sem þeir hrifsuðu til sín í skjóli þeirrar fjármálaumgerðar sem íslensk stjórnvöld blessuðu og lofsungu.

En kerfi sem límt er saman af pappírsfyrirtækjum og  spilapeningum  sem þyrlast upp eins og spilakúlur í lottópotti er ekki límt saman heldur sundurtætt og þegar lítill neisti læsir sig í skuldabréfavöndlana þá kviknar fljótt í öllu sem er í pottinum og hann springur.

Spilafíkn er smíðagalli á mannkyninu því þótt nauðsynlegt sé að taka áhættu við  ákveðnar aðstæður og viss áhættuhegðun sé nauðsynleg hjá þjóðum heims til að ekki verði algjör kyrrstaða þá er sú hegðun sem við fáum nú að vita að hafi viðgengist í íslensku viðskiptalífi bæði afkáraleg og raunaleg. Það virðist hafa verið fjárfest í erlendum fyrirtækjum nánast af handahófi og með aðstoð pappírsfyrirtækja sem velktu á milli sín skuldavöndlum og létu það líta út eins og peninga. Þetta gerðist með aðstoð bankanna og velvilja ríkisstjórnarinnar og undir lófataki forsetans og við fagnaðarlæti fjölmiðla. Gleymum því ekki.

Ég hef  hingað til skrifað  mest um spilafíkn hinna smæstu, framsóknarþingmanna og spilavíti á verndarsvæðum indjána og spilavíti sem skatt á fátækt fólk vegna þess að fátækt fólk er gabbað til að kaupa heilu skókassanna af lottómiðum og skafrenningum.  En það efnahagskerfi sem hrundi er kerfi kasínókapítalisma og það kerfi virkar ekki. Það er ekkert vit í að reyna að endurreisa það. Það er kerfi ömurlegar misskiptingar og það er kerfi óréttlætis og græðgi og sjúklegrar spilafíknar þar sem nokkrir spilafíklar fá að spila með fólk og lífsafkomu þess.  Það er reyndar áberandi líka að spilafíklarnir voru sérstaklega tengdir mörgum fyrirtækjum sem gerðu út á spilafíkn eins og Net Entertainment (fyrirtækið Cherryforetagen sem var skipt upp í Betsson, Cherry Casino og Net Entertainment) Af hverju var íslenskur fjárfestingabanki Straumur að fjárfesta í fyrirtækjum sem gera út á fjárhættuspil? Voru íslenskt fyrirtæki og bankar ef til vill skálkaskjól og leppar fyrir sænska aðila sem gera út á spilafíkn og geta ekki athafnað sig að vild vegna sænskra laga um veðmál? Eru netspilavíti ef til vill að nota sér veilur í íslenskum lögum til að athafna sig? Er þetta Cherry Casino ef til vill ennþá að nafninu til  í eigu íslenskra banka? Hvað er þetta Betsson eða Betsson AB tengt Íslandi núna?

Samfélag sem gefur börnum um jólaleytið  kartöflu í skóinn til að refsa þeim en lottómiða til að gleðja þau og hrósa fyrir góða hegðun er sjúkt samfélag. Samfélag sem styrkir meðferðarstofnanir eins og SÁA fyrir spilafíkla og hjálparstofnanir og björgunarsveitir og háskóla með því að láta þá aðila fá hagnað af  stórhættulegum og siðspillandi spilakössum er helsjúkt. 

Það þarf ekki bara að ráðast að útrásarvíkingum, ríkisstjórn, bankakerfi, fjölmiðlum og eftirlitsstofnunum á Íslandi. Það þarf að ráðast að og breyta þeim áróðri sem linnulaust dynur yfir okkur og hefur átt sinn þátt í að við höfum sofið á verðinum og orðið samdauna því kerfi sem nú hefur hrunið yfir okkur.

Hér eru nokkur blogg frá mér um spilafíkn:

Hrægammar tína upp mulninginn úr peningavélinni

Póker, spilafíkn, fjárhættuspil og framsóknarmennska

Fjárhættuspil er fátækraskattur - salvor.blog.is

Annars er áhugavert að bera saman áramótaávarp Geirs Haarde núna við það ávarp sem hann flutti okkur fyrir ári síðan. Þá var hann líka forsætisráðherra, hann hafði áður verið fjármálaráðherra, hann er hagfræðimenntaður og komst á þing undir slagorðum um að efnahagsstjórnin væri í góðum höndum undir forustu hans. Geir sagði í áramótaávarpi sínu árið 2007 þetta:

"Efnahagur okkar Íslendinga stendur traustum fótum. Við höfum fulla ástæðu til að trúa því að svo verði áfram. Við höfum búið í haginn með margvíslegu móti, t.d. í hinum geysiöflugu lífeyrissjóðum landsmanna, sem eru öðrum þjóðum fyrirmynd. Ég bendi einnig á margra tuga milljarða afgang á ríkissjóði ár eftir ár og fleira mætti nefna. Undirstaða þjóðabúsins hefur verið treyst þannig á undanförnum árum að hagur á ekki að skekjast á þeim grunni að neinu verulegu marki ef fram er haldið með fyrirhyggju og ráðdeild. "

Svo mörg voru þau orð.

Mér finnst sök mín einhver, hún er t.d. sú að hafa ekki látið mig efnahagsmál á Íslandi meira varða og fylgst betur með hvað var þar að gerast. Ég er hagfræðimenntuð eins og Geir Haarde og ég held ég hefði séð hrunið betur fyrir en hann og ég hefði ekki leynt ástandinu og blöffað eins og ég held hann hafi gert lengi .  Ef til vill hefði ég ekki getað fylgst með, plottin voru í bakherbergjum sem ég hafði ekki aðgang að en ég alla vega tók við mér á seinasta ári og mætti á aðalfund hbgranda hf sem ég kalla í huga mér bæjarútgerð okkar Reykvíkinga og bauð mig fram í stjórn þar.

Fyrstu árin sem ég bloggaði þá tjáði ég mig afar lítið um efnahagsmál. En ég fann áðan eina grein sem ég skrifaði fyrir meira en sjö árum um Baugsveldið. Það er áhugavert hvernig ég enda þá grein, tala um vald þess sem skrifar söguna og segir hvað gerðist.  Ég birti þessa gömlu pælingu mína hérna til gamans, það er einn kostur við að hafa bloggað lengi að maður getur farið í sín eldri skrif og borið saman við nútímann - t.d. til að sjá hversu sannspár maður var eða hvort viðhorf manns hafa breyst.

Þetta var nokkurs konar grínblogg hjá mér, ég var að gera tilraun um samkeppni við greiningardeildir bankanna og setti í blogginu upp Greiningardeild Salvarar sem starfaði nú bara í þessari einu bloggfærslu. Enda hafði ég engan sérstakan áhuga á hlutabréfamarkaði. Ég hef hins vegar alltaf haft áhuga á fasteignamarkaði og fylgst vel með breytingum þar. Verð á fasteignum og hversu vel fasteignir seljast er barómeter á efnahagsástand og reyndar magnar upp breytingar í átt að  kreppu eða góðæri - vegna þess að það tekur nokkur ár að koma til móts við aukið framboð og það tekur líka langan tíma að hægja á kerfinu og slökkva á því sb. alla byggingakranana sem ennþá eru í Reykjavík og allar íbúðirnar sem nú er hamast við að klára þó ekki séu neinir kaupendur fyrirsjáanlegir.

Hér er sem sagt greinin sem ég skrifaði 24. maí 2001

 Baugur - Bónussparigrísinn

 24.5.01

grísbaugurNúna í mars byrjaði ég að versla hlutabréf á Netinu og fylgjast svo með hlutabréfaeign minni í gegnum Netið. Ég er mjög heilluð að þessari tækni að geta svona keypt og selt og aflað sér bakgrunnsupplýsinga til að vera upplýstur kaupandi og sé fram á að þetta geti orðið skemmtilegt tómstundagaman. Eiginlega hef ég ekki í mörg ár fylgst eins vel með íslensku atvinnulífi og núna, ég skoða stutt yfirlit yfir fyrirtækin á Verðbréfaþingi Íslands og stundum fletti ég upp heimasíðum þeirra og les ársskýrslur og ársreikninga. Svo skráði ég mig líka á Wall Street og verslaði smá þar. Gasalega flott.

Alltaf að tapa
Það væri alveg frábært og ég myndi bara aldrei þreytast á að skoða á að skoða yfirlit yfir hlutabréfaeign mína sem er alltaf uppfærð á nýjasta gengi bréfa ef það væri ekki eitt smáatriði. Ég er alltaf að tapa. Það eru takmörk fyrir því hvað er gaman að hafa svona ofboðslega netvædda og nákvæma yfirsýn yfir hvað maður tapar miklu. En svona er þetta nú bara með flest hlutabréf í dag, þau eru búin að vera í frjálsu falli undanfarna mánuði. En einhvern tíma hlýtur botninum að vera náð... vona ég. Ég held alla vega að það hljóti að vera skynsamlegt núna að kaupa hlutabréf ef fjárfest er til lengri tíma og varfærni gætt í fjárfestingum. Alla vega er verð hlutabréfa ekki smurt núna með því gullgrafara og lottóvinningsálagi sem einkenndi hlutabréfakaupæðistímabilið.

Baugur í Morgunblaðsopnu
Opnan í Morgunblaðinu í dag er um Baug. Fyrirsögnin er "Umsvif Baugs hafa ríflega tvöfaldast" og svo er risastór mynd af bleika Bónussparigrísnum og það er ekki smápeningar sem skoppa í þann sparibauk núna. Nei, - núna er það sjálf Kringla heimsins þ.e. sjálfur jarðarhnötturinn sem þrengir sér niður í sparibaukinn. Svo eru ýmislegs tölfræðiskraut á síðunni í fallegum litum, um síhækkandi gengi Arcadia og súlurit yfir væntanlegan hagnað þar alveg til ársloka 2003.

Verslun um fæði og klæði breytir um svip
Eitt það sem mér finnst skemmtilegt að gera þegar ég kem í ókunn lönd og framandi menningu er að fara í verslanir eða markaði þar sem fólkið á svæðinu verslar fæði og klæði. Skoða hvernig viðskipti fara fram, hvernig er vörum raðað upp, hvernig vörur er verið að selja og hvernig eru vörur falboðnar - hvað ræður verðinu og hvernig eru vörur kynntar. Það er líka gaman að skoða feril íslensks fyrirtækis sem einmitt verslar með fæði og klæði til að skoða hvaða breytingar hafa orðið á íslensku samfélagi. Skoða hvernig leiðin liggur frá lítilli lágvöruverslun í Lækjargötu í útrás í fatakeðju í Bretlandi og matarbúðakeðjur í Bandaríkjunum. Hvernig leiðin um heimskringluna krækir fyrir tvær verslunarkringlur á Íslandi.

Kaupþing segir hlutabréf í Baug góða fjárfestingu
Fjármálafyrirtækið Kaupþing birti í fyrradag grein Bestu kauptækifærin um þessar mundir þar sem mælt er með kaupum í hlutabréfum fimm fyrirtækja og eitt þeirra er Baugur. Þar segir m.a.: "...Gengið hefur raunar þegar hækkað úr tæplega 40 pence í 270 pence. (þ.e. gengi Arcadia sem Baugur keypti 20% hlut í) Baugur situr þannig á um það bil fjögurra milljarða óinnleystum gengishagnaði sem ætti nú þegar að auka markaðsvirði félagsins stórum. Gríðarleg sóknartækifæri leynast í lágvörukeðjunni Bill’s dollar stores sem félagið eignaðist á dögunum....".

Ég segi hlutabréf í Baugi fjárhættuspil
Ég held ekki endilega að Kaupþing hafi á réttu að standa þó að það sé stórt fyrirtæki og þar vinni 300 manns og ákvað að gera mína eigin greiningu á Baugi. Bara skoða gegnum Google upplýsingar um Arcadia o.fl. og meta sjálf. Fyrirtækið hefur yfirburðastöðu á íslenskum markaði í smásöluverslun og nýtur þar örugglega stærðar sinnar. Þó að það þrengist í atvinnulífi þ.e. komi kreppa þá ættu grónar verslanir sem sérhæfa sig í vörum á lágu vöruverði að standa vel. Það er hins vegar þrennt sem Baugur stendur í sem mér finnst hljóti að vera áhættusamt.

1) Kaup á stórum hlut á Arcadia fataverslunarkeðjunni í Bretlandi. Þessi keðja er næststærst þ.e. á eftir Marks og Spencer. Mér finnst svolítið undarlegt hvað hlutabréfaverð í Arcadia hefur hækkað og held að hluti af þessari hækkun stafi af þeirri auknu eftirspurn í bréfum sem m.a. kom til vegna uppkaupa Baugs o.fl. Það voru fjórir aðilar íslenskir (m.a. Kaupþing) sem keyptu upp hluti í Arcadia en seldu svo Baug og með hverju borgaði Baugur? Með eigin hlutabréfum og með yfirtöku skulda. Þessi Stuart Rose sem núna stýrir Arcadia er örugglega kraftaverkamaður en hann hefur komið víða við, stýrði bresku Iceland frystivörukeðjunni (hvernig tengist hún Íslandi? get ekki séð að það séu íslenskir aðilar skráðir meðal stærstu eigenda en stjórnandinn núna heitir Grimsey) en gengi hlutabréfa í þeirri keðju hefur fallið mjög frá því hann hætti þar í nóvember á síðasta ári. Ég las líka um að endurskipulagningu á Arcadia þ.e. að fækka framleiðslulínum þ.e. voru frá 13 aðilum og að það yrði gert með einhverju sem heiti "management buyout" sem ég held að merki að gerðir séu samningar við stjórnendur í þeim verslunum sem á að losna við um að þeir reki verslunina á eigin reikning (hef kannski misskilið þetta) en það þýðir að ef illa gengur hjá þeim þá sitji Arcadia uppi með þær aftur. Þetta er alla vega áhættusamara en selja burtu þær vörulínur sem ekki skila nógri veltu/hagnaði. Mér virðist því Arcadia ekki endilega vera orðið gullmoli þ.e. alla vega á þetta fyrirtæki eftir að sanna sig.

2) Þessi lágvöruverslunarkeðja í USA Bills Dollar Store sem Baugur keypti er mér ráðgáta. Hvað vakir fyrir Baug með þessum kaupum? Hafa stjórnendur þar einhver markmið sem ég sé ekki þ.e. vilja þeir komast inn á USA markað með einhverjar vörur eða færni sem fyrirtækið hefur? Mér finnst alla vega ólíklegt að Baugur hafi keypt þessar verslanir til að læra eitthvað um USA matvörumarkaðinn og fá fótfestu þar þannig í gegnum vel rekið fyrirtæki. Þá hefðu þeir ekki keypt fyrirtæki á heljarþröm en Bills Dollar Store var víst í gjaldþrotaskiptum þegar þegar Baugur keypti það. Á meðal ég sé ekki neina framtíðarstrategíu í þessum kaupum eða einhverja færni sem kaupandinn (þ.e. Baugur) býr yfir sem getur breytt fyrirtæki á heljarþröm í tekjulind þá finnst mér þetta hljóti að vera afar áhættusamt.

3) Smáralindin. Teikn eru á lofti um að við séum að fara inn í efnahagslægð. Gengi hlutabréfa er einn mælikvarði á það því verð þeirra endurspeglar von um ágóða í framtíðinni. Svo er núbúið að fella krónuna. Hlýtur ekki að vera óljóst hvað verður við opnun á risavaxinni nýrri verslunarmiðstöð sem enga viðskiptavini á fyrir að opna á þannig tímum? Hlýtur ekki að vera erfitt að greiða niður háan byggingarkostnað og frá þenslutíma með rekstri á nýjum verslunum á samdráttartíma? Hlýtur ekki að vera erfitt fyrir fyrirtæki sem fjármagnar framkvæmdir með erlendum lánum en aflar allra tekna sinna í íslenskum krónum þegar gengi krónunnar hrapar svona?. Smáralindin verður opnuð á þessu ári.

Mín greining er sem sagt að það sé áhættusamt að kaupa hlutabréf í Baug núna út af þessu þrennu.

Hver verður framtíðin? Hvaða sögur verða þá sagðar um fortíðina?
En það verður bara framtíðin sem sker úr um það hvort Bónussparigrísinn verði áfram bústinn. Sennilega borgar sig þó að vera fyrirhyggjusamur og búa sig undir það versta eins og sumir af grísunum þremur í ævintýrinu. Þar þó raunar sama á hvaða lund sagan fer, það verða alltaf til margar útgáfur af henni , allt eftir því hver sögumaðurinn er.

Þegar ég ber saman framtíðarspá Geirs Haarde fyrir Ísland sem þó er bara eins árs gömul og framtíðarspá mína fyrir Baugsveldið sem er sjö ára gömul þá velkist ég ekki í neinum vafa um hvor er betri sjáandi og völva ég eða Geir Haarde.


mbl.is Potturinn sexfaldur næst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þátttökumótmæli eða miðstýrð mótmæli

Það er reginmunur á kryddsíldarmótmælunum og laugardagsmótmælafundum Radda fólksins á Austurvelli varðandi virkni mótmælenda. Á Austurvelli er miðstýrð umræða og hefðbundin uppsetning, hátalarakerfi og ræðumenn tala einn af öðrum. Þátttakendur tjá sig eingöngu með því að halda skiltum á lofti og með því klappa eftir hvern ræðumann og með því að hrópa í kór með Herði að við viljum ríkisstjórnina burt. Suma mótmælafundina hefur tjáning þátttakenda fyrst og fremst falist í að mæta og þegja. 

 

Kryddsíldarmótmælin voru öðruvísi, það var nýr tónn sleginn þar. Það er reyndar góð samlíking með tóna því þau mótmæli einkenndust af alls konar hljóðum,  hljóðum frá neyðarblysum og neyðarópum við stjórnarráðið, tónlist götusöngarans sem syngur Imagine meðan gangan rann frá stjórnarráðinu að Austurvelli, hljóðum mótmælenda á Austurvelli sem byrja með glens og gleði, það eru hrópuð grínslagorð eins og "Álver í Árbæinn" og svo kemur nýr kafli í þessa miklu hljómkviðu þegar trumburnar eru slegnar. Þá birtast svartálfarnir fyrst á sviðinu og hljóðfærið eru flatir hnefar sem slá utan rúðurnar í Hótel Borg. Þegar maður hlustar og horfir á mótmælin þá skynjar maður að það var taktur í þessu, mótmælendur hlustuðu hver á annan og samstilltu köll sín og þann hávaða sem þeir framleiddu.

Það er ekki rétt hjá Herði Torfasyni að þetta hafi verið óskipuleg mótmæli. Þetta voru mjög skipulögð mótmæli, stór hópur þeirra sem mættu var greinilega með mjög fókusað markmið, það var ekki að vera bakgrunnsmúsík og skemmtiatriði í kryddsíldinni, það var að trufla útsendinguna og rjúfa hana. Það er líka áberandi að   hluti mótmælenda er vel skólaður í borgaralegri óhlýðni og fylgir þeim trixum sem hafa gefist vel erlendis og stillir saman krafta sína.

Það er reyndar líka áberandi hvað íslenska lögreglan er ráðþrota og óundirbúin. Hvernig gátu þessi mótmæli komið lögreglu á óvart? þau voru auglýst grimmt á facebook og hundruðir búnir að skrá sig í þau. Hvernig datt lögreglunni annað í hug en að þeir hópar sem hafa ruðst inn í banka o.fl. myndu nota tækifærin til að ryðjast inn á alla íslensku þjóðina og alla formenn stjórnmálaflokkanna á sama bretti í lok ársins?

Fyrsti hluti mótmælanna þ.e. sá hluti sem var auglýstur og sem ég tók fullan þátt í var mjög friðsamlegur, kveikt á blysum, hrópað á hjálp og safnast saman á Austurvelli og hrópað. En það er ekki eins og þetta hafi verið í fyrsta skipti sem aðgerðir annarra öfgasinnaðri hópa byrja einmitt þegar friðsömum mótmælaaðgerðum lýkur og reyndar renna saman í þau. Það er sennilega meðvitað hjá þeim hópum sem hafa í huga að vinna einhver spellvirki, það er partur af dulargervi að fela sig meðal mótmælenda og það er reyndar nokkur vörn að því t.d. ef reynt er að handtaka einhvern, það er styrkur í fjöldanum.

Það var reyndar mjög undarlegt úr því að Ari Edward kallar innganginn í portið sem aðalmótmælin urðu í "lokað öryggishlið" að hann og aðrir bæði lögregla og þeir sem stóðu að sjónvarpsþættinum hefðu innganginn svona berskjaldaðan, stilltu þeir kannski upp svona auglýsingaskilti  til að auðveldara væri að klifra yfir hliðið? Hver opnaði hliðið? Það var galopið og það var ekki eins og múgurinn streymdi þar inn, fólk fór varfærnislega í byrjun og vissi ekki alveg hvað væri að gerast, forvitnin rak flesta til að kanna það. Hvar var lögreglan þá? Af hverju voru þeir ekki með bíl (hefði getað verið ómerktur) fyrir framan þetta hlið og gættu þess betur?

En með þessu bloggi eru vídeó af fyrsta hluta mótmælanna, neyðarblysunum við stjórnarráðið, ógöngunni á Austurvöll og  stöðu á Austurvelli þegar beðið er eftir að Kryddsíldin hefjist.  Það sést vel og heyrist ennþá betur á vídeóunum sem eru í tímaröð hvernig mótmælin stigmagnast og hvernig vettvangurinn færist til - byrjar við stjórnarráðið - síðan Austurstræti - síðan styttan Jón Sigurðsson á Austurvelli - síðan gluggarnir á Hótel borg - síðan portið við hlið hótel Borgar - síðan ryðst hluti mótmælenda inn í húsið og situr á gólfinu (situr til að það sé erfiðara að bola þeim burt) og syngur við raust.  Svo birtist löggan.


mbl.is Mótmælaróður hertur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nornin og góði hirðirinn

kryddsild-modir-sonur

Skemmdarverkin á Nornabúðinni stafa líklega frekar af því að einhverjum líkar ekki sú tegund af aktívisma sem nornin Eva stundar heldur en af því að einhver óánægður viðskiptavinur hefur ekki náð nógu góðum árangri með kreppukörlunum. Þetta er mjög óþægilegt og þrúgandi og Eva á samúð mína alla.

Þeir aðilar sem Eva hefur beint aðgerðum að eiga mjög mikið undir sér á Íslandi og hafa sýnt að þeir eru mjög ófyrirleitnir og samviskulausir í viðskiptum, þeir hafa ekki hikað við að hrifsa til sín almannaeigur á Íslandi, stundum hafa þeir gert það í skálkaskjóli bankaleyndar og bankaeigenda ítaka en stundum hafa þeir gert þar grímulaust og fyrir opnum tjöldum og látið eins  og þeir séu dýrlingar í  helgileik og gripdeildir þeirra séu einhvers konar hirðusemi sem við almenningur eigum að dásama og verðlauna. Og athæfi  þeirra hefur verið blessað af veraldlegum og geistlegum yfirvöldum.

godi-hirdirinn

Einn af þeim æðstuprestum sem bjó til réttlætingu  þegar skúrkar hirtu verðmæti af alþýðu og sölsuðu undir sig almenningseign var Pétur Blöndal alþingismaður en hann hefur enmitt árum saman klifað á því svo oft að sennilega trúir hann því sjálfur að almannafé sem einhvers staðar hefur safnast fyrir sé "fé án hirðis".  Líkingin er augljós - einhvers konar réttlæting fyrir fjárglæpamenn að þegar þeir hrifsa til sín verðmæti þá séu þeir eins og góði hirðirinn. Já að gera einhvers konar góðverk, að finna týndu sauðina. Og éta þá síðan sjálfir. Það kallast að skapa verðmæti.


mbl.is Ráðist gegn Nornabúðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skríllinn mun eiga síðasta orðið

Ég varð fyrir miklum hótunum um ofbeldi frá tveimur mótmælendum á gamlársdag, hótunum sem  voru aggressívar og ruddalegar. Ég ætlaði að fara heim eftir að hafa farið á kaffihús en svo brá við að bíllinn minn sem ég hafði skilið eftir í Lækjargötu var lokaður inni því þar var urmull af lögreglubílum sem króuðu af götuna. Ég ákvað bara að doka við þangað til ég kæmist á stað og geng um götuna þar sem einhver mannsöfnuður var og fullt af löggum. Ég ákvað að mynda þetta viðfangsefni eins og annað þennan dag enda minn aktívismi fólginn í að skrásetja og sýna viðburði í gegnum mitt sjónarhorn, sjónarhorn sem oft er mjög frábrugðið því sem fjölmiðlar segja frá.  Ég hef reynt að segja frá því sem er að gerast í íslensku samfélagi í gegnum bloggsíðu mína eins og það kemur mér fyrir sjónir.  

En þegar ég kem að fólkinu og tek mynd af aðstæðum m.a. svartklæddri stúlku sem hafði hulið andlit sitt og var í einhvers konar dulargervi þá réðst hún að mér með óbótaskömmum, heimtaði að ég tæki ekki mynd þar sem hún kæmi inn á.

Þetta voru nú nokkuð súrrelískar aðstæður. Fyrir framan okkur var rimlahlið og tugur af óeirðalögreglu í viðbragðstöðu fyrir árás og fyrir aftan okkur á Lækjargötu voru nokkrir tugir af lögreglubílum og krökkt af löggum og hún var í dulargervi og í kringum okkur var eitthvað af fólki af götunni sem hafði safnast þar saman.  Hún öskraði líka hvort ég væri ekki systir Hannesar og ég náttúrulega játaði því eins og ég geri alltaf. Henni virtist eitthvað uppsigað við mig út af bróður mínum og því sem hún kallaði "þessa viðbjóðslegu vefsíðu þína" (átti hún kannski við þetta blogg?).  Svo kom önnur stúlka sem var miklu grófari, hún sagðist myndu ráðast á mig og taka af mér myndavélina ef ég hætti ekki að mynda.  Ég var nú ekki hrædd við það og tjáði viðkomandi að ég væri ekkert hrædd en minnug þess að sá vægir sem vitið hefur meira þá sá ég ekki að þetta væru heppilegar aðstæður til að enda árið í að lenda í slagsmálum þarna á milli óeirðalögreglu innan við rimlahlið og óeirðalögreglu á Lækjargötu, ég held satt að segja að það hafi ekki verið sniðugt móv hjá mér á þessum stað og stund að lenda í götubardaga. 

Þó ég hefði vægt þarna fyrir rugludöllunum þá héldu þær áfram að kasta í mig hnjóðsyrðum, ég áttaði mig ekki alveg á til hvers. Kannski voru þær að fara á taugum í þessum aðstæðum og ætluðu að gera eitthvað sem ég veit ekki hvað er , kannski voru þær bara búnar að taka borgaralega óhlýðni 101 og vissu ekki hvernig átti að hegða sér, kannski voru þær meðvitað að búa til hasar og reyna að skapa glundroða og æsa upp fólk og láta handtaka sig og vissu að það var betra að ákæran væri  að þær hefðu ráðist á mig heldur en lögreglumann. Kannski héldu þær að ég væri einhver afleggjari af bróður mínum og hugsaði eins og hann. Kannski finnst þeim bloggið mitt ömurlegt. Hvað veit ég?

Þó það stuði mig að vera sjálf þolandi svona lítilsvirðandi og truntulegrar hegðunar þá finnst mér þetta í aðra röndina fyndið, þetta var eiginlega svo absúrd hjá þessum gellum að vera að veitast að fólki og hóta þegar þær voru  sjálfar gjörsamlega innikróaðar og áður en ég kom þarna að þá virtust þær hafa verið að rífast við aðra vegfarendur. En sókn er stundum besta vörnin. 

Hér fyrir neðan er  mynd  sem ég náði af þessum herskáu stúlkum áður en þær urðu svo aggressívar og leiðinlegar og hótuðu að rífa mér myndavélina. Hér er líka myndin er af lófa annarrar sem hún setti fyrir myndavélina mína til að hindra mig í myndatöku.  Svo er hérna fyrir neðan líka mynd til að minna mig á hvers vegna ég birti á þessu bloggi myndir af þeim aktívisma og þeim mótmælum sem eru í gangi á Íslandi. Það er vegna þess að þeir fjölmiðlar sem bergmála valdið þ.e. dagblöð, ríkisfjölmiðlar og einkasjónvarpsstöðvar kölluðu lengi vel fólk eins og sést á myndinni hér fyrir neðan skríl. Ef þetta er skríll þá er ég líka skríll.

Skríllinn mun eiga síðasta orðið.

 IMG_3078 IMG_3079

--------------------------IMG_1934

IMG_2062
mbl.is Mótmælendum ógnað á gamlársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

You may say I'm a dreamer - But I'm not the only one

Farandsöngvarinn sem sat fyrir utan verslunina í Austurstræti þegar gangan gekk þar framhjá á gamlársdag söng lagið  Imagine lag John Lennon frá árinu 1971. Farandsöngvarinn breytti reyndar textanum, setti " Iceland will be as one" í staðinn fyrir "the world will be as one".

Hér eru tvær útgáfur,  John Lennon að syngja lagið 1971 og óþekktur götusöngvari í Austurstræti 2008.

Í Viðey er Friðarsúlan , listaverk Joko Ono reist í minningu Johns Lennons.  Súlan er ljóskastari en á stallinn er ristur textinn  "imagine peace" sem er vísun í ljóðlínu úr Imagine.  Á gamlársdag, sama dag og við tendruðum neyðarblys við stjórnarráðið var tendrað ljós á súlunni,ljós sem logar fram á þrettándann.

Imagine er ljóð um draum um heim sem byggir á samvinnu og friði. Um heim þar sem menn fylkja sem saman undir sömu hugsjón, sama draum.

Sumum draumum getum við ekki stjórnað, stundum verða draumar að martröð og stundum verða draumar að þrá sem teygir sig út úr draumheimi inn í raunveruleikann  og sefjar okkur og dáleiðir. Stundum eru draumar eins og saga með táknum, saga frá annarri veröld, skráðir á framandi tungumál.

Ég hef nokkrum sinnum bloggað um drauma og gert tilraun með að skrá nður drauma. Núna á árinu sem ísbirnirnir komu að landi þá rifja ég upp drauminn um ísbjörninn og það sem ég hef skrifað um drauma:

Draumar á bloggi og draumaráðningar

Ísbjörn og draumur

Í fyrsti skipti sem ég sá bláan logann frá friðarsúlunni fannst mér eins og ég væri stödd á mörkum draumheims og raunheims. Ég sá ljós á himni eitt kvöldið og vissi ekki hvað þetta var. Ég keyrði út á Laugarnestanga og virti þetta fyrir mér. Mér fannst skyndilega ég vera stödd inn í draumi.
Draumi sem mig hafði dreymt í nóvember árið 2001.

Ég skráði þennan draum á blogg þá svona:

Mig dreymdi að ég byggi í blokk, held ég á þriðju hæð og svo horfði ég út um alla glugga og hvarvetna blasir við mér svona eins og her af fólki - já eins og her því allir héldu á spjöldum sem minntu mig á skildi og þau voru mjög litskrúðug og fjölbreytileg í lit og formi og á þau letruð alls konar tákn sem ég skyldi ekki - eins og svona myndletur þar sem á hverjum skildi var kannski eitt tákn. Og fólkið raðar sér með spjöldin eins og þéttur her eða varnarlið. Mér verður hvelft við í draumnum, held fyrst að þetta sé einhvers konar umsátur sem er beint gegn mér en átta mig svo á því að þetta hefur ekkert með mig að gera heldur er allt hverfið sem mér finnst núna vera breiðgata við strönd einhvers staðar þakið af fólki sem hefur stillt sér upp með svona skilti því það er einhver viðburður í vændum, einhvers konar hátíð. Á einum stað men ég eftir einhvers konar íþróttahátíð sem þó ekkert eins og nein sem ég hef séð. Einhvers konar tæki eða verur eða vélar sem flogið var beint upp í loftið, ekki mjög hátt, frá mér séð leit þetta út eins og fljúgandi hestar og var uppljómað. Mannmergðin fylgdist með þessu allt í kring.

Mér vitanlega hafa engin tæki eða verur flogið upp úr friðarsúlunni og ég hef ekki séð neina fljúgandi hesta á himni og ég hef aldrei séð fólk drifa að ströndinni með skilti til að horfa á slíkt. En mikill er kynngikraftur friðarsúlunnar.  Þegar hún er fyrst tendruð splundrast borgarstjórn Reykjavíkur. Árið eftir splundrast Ísland. Hvað gerist á þessu ári?

Hér er textinn með laginu Imagine: 

Imagine there's no heaven
It's easy if you try
No hell below us
Above us only sky
Imagine all the people
Living for today...

Imagine there's no countries
It isn't hard to do
Nothing to kill or die for
And no religion too
Imagine all the people
Living life in peace...

You may say I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will be as one

Imagine no possessions
I wonder if you can
No need for greed or hunger
A brotherhood of man
Imagine all the people
Sharing all the world...

You may say I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will live as one

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband