Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Íslensk bankasaga, íslensk bankasala

Ólafur Ólafsson og Finnur Ingólfsson
Allt á floti
mbl.is Milljarðalán án áhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Sigmundur, Birkir, Eygló

Það var svo mikill hiti á flokksþingi Framsóknarflokksins um helgina að brunaboðar í Valsheimilinu fóru í gang rétt áður en gengið var til kosninga um formann. Það voru nálægt 900 manns  sem greiddu atkvæði í formannskjöri  og þetta var landsfundur flauelsbyltingar í Framsóknarflokknum.

Úrslit kosninganna komu verulega á óvart, ég hugsa að enginn hafi séð þetta fyrir. Úrslitin sýna að það var sterk krafa á endurnýjun og að inn kæmi nýtt fólk. Ég held að undir forustu Sigmunds Davíðs þá séu nýir tímar að hefjast í Framsóknarflokknum.

Nýja forustan í Framsóknarflokknum er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birkir Jón Jónsson og Eygló Harðardóttir. Ég óska þeim öllum innilega til hamingju með að hafa valist til þessara trúnaðarstarfa og vona  að þau myndi samstillta heild sem hjálpar okkur að gera Framsóknarflokkinnað leiðandi afli í íslenskum stjórnmálum.

Hér eru fréttir af kosningunum:

Bylting í Framsókn bara byrjunin (smugan.is)

Óvænt úrslit hjá Framsókn (eyjan.is)


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggrannsóknarmennska Kastljóssins

Það hljóta allir að falla í stafi yfir uppljóstrunum Kastljóssins, þar er enginn óhultur í Netheimum fyrir þeim þefvísu sporrekjandi spæjurum sem troða sér inn í matarboð bloggara þó það séu mörg ár síðan þau fóru fram. Þetta er eins og að lesa krassandi sakamálasögu eftir Arnald að fylgjast með nýjustu dáðum í rannsóknarmennsku Kastljóssins, sjá hérna Umdeildar ráðningar þyrluflugmanna

Ég sem hélt að ekkert gæti toppað fyrri bloggrannsóknarmennsku kastljóssins sem fólst í því að vakta bloggið hans Stefáns Páls til að vita hvað hann teldi blogg DV ritstjóra breytast mikið yfir daginn. Það er ólýsanlega mikið öryggi af því að hafa svona fólk á vaktinni. 

 En það verður að segjast eins og er, það er ansi lúðalegt blogg að ljóstra upp að fólk hafi fengið starf gegnum klíku. Fólk kann sig barasta ekki í Netheimum.

En fólk ætti að fara sér hægt í Netheimum og skyggnast um gáttir allar því enginn veit nema kastljósblaðamenn sitji þar á fletum fyrir.

Hér eru kurteisisreglur Hr. Scobleiser fyrir atvinnulausa. Það hjálpar ekki til að fá vinnu aftur að hafa myndir af sér á djamminu á Facebook.


Aulafréttamennska, aulastjórnmál og skuldir ríkissjóðs

Við höfum lifað í blekkingu. Við höfum kosið fólk á þing til að gæta hagsmuna okkar vegna þess að það blekkti okkur til að trúa því að því væri treystandi til að stýra fjármálum heillar þjóðar.

Við höfum sofið á verðinum að fylgjast með öllum þeim óveðursskýjum sem hrönnuðust upp í kringum okkur, ekki á einum degi, ekki á einu ári. Það tók langan tíma að koma Íslandi í þá stöðu sem það er í núna.

Hrunið kom hins vegar snöggt og var eins og spilaborg sem hrundi - eða frekar eins og skýstrókur sem þyrlaði upp og sogaði í burtu öll þau pappírsverðmæti sem peningabólur og peningavelta bankaeigenda og spilabankaborgareiganda hafði búið til.  Hvert skýstrókurinn skilaði þessum pappírsverðmætum þegar hann þeyttist frá landinu er á huldu - ef til vill fóru þeir á undarlegar hentifánaeyjur og  féllu eins og regn niður í ríkramannalönd sem búin eru til í kringum pappírsverðmæti, ef til vill slitnuðu pappírsverðmætin og tættust upp í skýstróknum ógurlega og glötuðust að eilífu. 

Við höfum verið blekkt vegna þess að sú miðlun sem barst til okkar var vandlega útvarpað til að útvarpa og kasta aðeins þannig ljósi að fjármagnsspilurum sem lét þá virka eins og hetjur og réttlætti spilareglur þeirra. Þeir áttu jú alla fjölmiðlana nema ríkisfjölmiðla. En ríkisfjölmiðlana áttu þeir óbeint því þeim stýrðu stjórnmálamenn og stjórnmálamönnum mátti stýra gegnum kosningasjóði  - en ekki bara kosningasjóði heldur líka með styðja þá til valda gegnum þá fjölmiðla sem fjármagnsspilarar áttu. 

En við höfum líka verið blekkt vegna þess að fjölmiðlarnir, skólarnir, stjórnmálamennirnir og allir þeir sem áttu að uppfræða okkur og segja okkur hvað væri að gerast gerðu það á yfirborðslegan grunnan og auðmeltan hátt. Hegðuðu sér eins og við almenningur værum aular sem skildum ekkert nema það væri mínútuumfjöllun í einhverjum sjónvarps- eða útvarpsþáttum og að fjölmiðlun gengi út á að byrgja okkur sýn til eigin þekkingarleitar og til þess að taka saman þátt í þekkingarleit um fyrirbæri sem er of flókið og umfangsmikið  fyrir einn einstakling til að skilja og greina.

Við höfum verið blekkt til að halda að það virkaði að hafa sterka kalla í brúnni, þeir vissu hvert ferðinni væri heitið og hefðu stjórn á öllu. Við höfum verið blekkt til að halda að mjúkmæltir pólitíkusar sem hafa lítið  stúderað og lítið skilja nema auglýsingar  og almannatengsl segja okkur í einföldum frösum allt það mikla sem þeir ætla að gera fyrir fólkið. Við höfum verið blekkt til að halda að stjórnmál gengu bara út á að auka þjónustu, eyða bankabólupeningum og búa til kerfi sem gerði öllum kleift að draga á eftir sér sístækkandi skuldahala.

Við höfum verið blekkt á sama hátt og fólkið sem borðaði naglasúpuna og fólkið sem horfði á nýju fötin keisarans. Við höfum verið blekkt til að halda að verðmæti sköpuðust úr engu. En úr hverju sköpuðust þau verðmæti sem fjármagnsspilararnir virtust hafa? Hvernig komust þeir yfir upphaflega spilapottinn? Hver stóð á bak við þá? Eru þeir ef til vill leikmenn í fléttu einhvers sem hefur hag af að vera ekki bendlaður við uppkaup og yfirráð eigna á Íslandi? Eða bjuggu þeir til sinn spilapott með því efni sem spilavítiskapitalisminn leggur til - með skuldum og með því að búa til peninga með því að velkja pappírum fram og aftur marga hringi.

En við sitjum eftir með skuldir. Hvernig má það vera að peningar sem kannski upprunalega voru búnir til úr skuldum og gerðu einhverja ríka skuli núna gera okkur fátæk? Hvernig má það vera að eitthvað rán um hábjartan dag sem kallað var skuldsett yfirtaka eða kaupréttarsamningaeitthvað skuli núna vera okkar skuldir?

Á bankabólutímanum voru íslensk fyrirtæki og einstaklingar hnepptir í skuldafjötra, eftir hrunið var ríkið hneppt í skuldafjötra. En hvaða möguleika höfum við á að borga þessar skuldir - og af hverju ættum við almenningur á Íslandi að borga þessar skuldir? 

Af hverju eigum við núna hér á Íslandi þar sem staða einstaklinga og fjölskyldna sem skulda er mjög bág vegna gengistryggingarákvæða og vegna gríðarlegs hruns og atvinnuleysis - líka að borga upp skuldir í útlöndum sem fávísir og gráðugir einstaklingar stofnuðu til - og af hverju erum við núna í fangelsi IMF, í hagstjórn hinna klemmdu sem er allt öðru vísi en annars staðar - annars staðar eru vextir að verða komnir niður í ekki neitt en hér eru vextir ofurháir. 

Af hverju eru öll lögmál sem segja hvernig á að takast á við kreppu slitin úr sambandi á Íslandi bara vegna þess að yfir okkur vofir eitthvað sverð einhverja gríðarlegra skulda sem við eigum að vera ábyrg fyrir í útlöndum, skulda sem við vissum ekki að væri til. Af hverju er ekki betra að taka djúp andköf núna og losna við þessi jöklabréf út eins fljótt og auðið er.

Ég get ekki séð að það skipti neinu máli upp á sjálfstæði Íslands hvort við erum í Evrópusambandinu eða ekki - ef ástandið er þannig að magnþrota ríkisstjórn lafir en stýrir engu - heldur kreppast um okkur kaldar krumlur alþjóðabankans og þeirra sem eiga skuldaviðurkenningar á íslenska aðila. Hvað skiptir máli hver stýrir fiskveiðum þegar allur kvótinn er kominn í erlenda eigu?


mbl.is Háar skuldir ríkissjóðs eiga enn eftir að hækka mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný forusta í Framsóknarflokknum, nýjar áherslur

Það er óhjákvæmilegt að stjórnmálaflokkar á Íslandi breytist núna eftir hrunið og endurmeti afstöðu sína til allra mála, ekki síst sérstaklega efnahagsmála og öryggismála. Ég held að Íslendingar átti sig ekki ennþá  á því hve mikilvægt er að vera ekki einn á köldum klaka. Ísland þarf að vera í bandalagi við aðrar og öflugri þjóðir sem hafa sömu hagsmuni og Ísland.  Ísland naut í marga áratugi  góðs af því í samningum við Bandaríkin að hafa þótt mikilvægur bandamaður vegna staðsetningar og hér var herstöð. Nú er bandamaðurinn og verndarinn í vestri horfinn á braut og ekki sýnilegt að það ríki hafi áhuga eða bolmagn til að styrkja stöðu sína á Norðurslóðum. Helstu bandalagsríki Íslendinga og viðskiptaþjóðir eru Norðurlönd og aðrar Evrópuþjóðir. Bankahrunið hefur sýnt að það er erfitt fyrir smáþjóð með örsmáan gjaldmiðil að standa af sér þær sviptingar sem verið hafa í fjármálalífi heimsins.

Það er erfitt að sjá aðra valkosti í stöðunni en að sækja eftir inngöngu í Evrópusambandið. Alþingi er þegar orðin eins konar afgreiðslustofnun og stimplunarstaður fyrir lög sem þaðan koma.  Fólkið flæðir á milli og fjármagnið flæðir á milli. Það er augljóst hagræði af því að hafa sama gjaldmiðil og önnur Evrópulönd.

Ef horft er langt fram í tímann, lengra en sem nemur þeirri kreppu sem núna gengur yfir þá verður að skoða stöðu Íslands á landakorti heimsins. Stöðu þar sem fámenn og herlaus og einsleit  þjóð býr í landi með viðkvæma heimskautanáttúru og með  miklar orkuauðlindir bæði innan lands og hugsanlega líka í sjó.  Í heimi þar sem nágrannaþjóðir okkar deila hart um aðgang að orku og akkúrat núna Evrópa er háð Rússlandi með orkuaðdrætti þá mun verða hart barist um yfirráð yfir orkuauðlindum.  Þetta er ekki eingöngu spurning um peninga og gróða, þetta er líka spurning um hernaðarlegt mikilvægi þess að hafa yfirráð yfir orku. Stórveldi munu ekki hika við að heyja stríð til að tryggja sér aðgang að orku. 

Það þarf að breyta kúrsinum í öllu á Íslandi, það þarf að stýra stofnunum öðruvísi, það þarf að endurskoða viðhorf til einkavæðingar versus ríkiseignar. Eina skynsamlega leiðin er að hverfa aftur til  nýrrar samvinnuhreyfingar sem er í takt við nýja tíma. En það þarf líka nýja sýn í utanríkismálum og fólk þarf að átta sig á að bæði íslensk stjórnmál og alþjóðamál koma öllum við. Íslendingar verða að endurskoða og endurmeta afstöðu sína til bandalaga við aðrar þjóðir,  það liggur mikið á að vera í öflugu hagsmunabandalagi með öðrum þjóðum. Það eru ekki eingöngu Evrópuþjóðirnar.

Það verður endurnýjun í forustuliði Framsóknarflokksins um helgina og það verður spennandi að fylgjast með því. Það þarf að veljast til forustu fólk sem skynjar kall samtímans á nýja samvinnuhugsjón og fólk sem skynjar þann nýja veruleika sem við búum við bæði innanlands og í alþjóðamálum.


mbl.is Lagt til að sótt verði um aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaza

Gaza sundlaug

Ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttir

Öryggi

Við ræddum öryggismálin:
vissara að spenna beltin
ganga yfir á grænu ljósi
vefja sig treflum og taka vítamín
hætta að reykja
drekka
allt er svo hættulegt nú á dögum
mengunin voðaleg (blómin sem visna)
og margt er fitandi: rjóminn
þrengir að hjartanu
ofbeldið eykst segja félagsráðgjafarnir
daprir og ábyrgir
vissara að halda sig
heima á kvöldin.

Við ræddum málin af einurð
og fyrirhyggju
en þá barst fréttin af skjáum:
stríðið var hafið.

Við sátum þögul eitt andartak.
Svo slökktum við á sjónvarpinu
og tókum upp léttara hjal.


mbl.is Ísraelar á krossgötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannkynsfrelsaraheilkennið

Þær aðstæður sem eru núna í íslensku samfélagi munu ekki verða til að auka rósemi þeirra sem enga hafa fyrir. Þetta ástand tjúnar upp fólk. Ástþór er maður myndmálsins, hann byrjaði sinn feril á að framkalla myndir fyrir fólk og það var nýstárleg framköllunarþjónusta. Ég notaði hana einu sinni og fékk myndir til baka í svolítið skrýtnum litum og með bréf sem afsakaði að filmurnar hefðu eitthvað hnjaskast og ekki væri hægt að taka eftir þeim. Það gerði nú ekkert til, aldrei stóð til að taka eftir þessum myndum og núna myndi ég bara skanna þær inn.

En Ástþór heldur áfram að framkalla myndir og senur og þær eru í ennþá skrýtnari litum en áður. Hann notar líka stundum skrýtna sviðsmynd, hann tekur myndir af þeim sem taka myndir af heiminum og ber á glugga. Ekki eins og hinir andlitslausu berja á glugganna á Borginni. Það er ekki hans stíll að vera andlitslaus, hann sem er næstum forsetinn af Íslandi, friðaspekúlantinn sem á í sífellum ófriði og mannkynsfrelsarinn sem  er mannýgur. Hann sem ærist í að mótmæla sukkinu og svínaríinu fyrir hrunið en virðist sjálfur eða friðarsamtök sem hann stendur að reka  netspilavíti sb hið neyðarlega Ip tölu mál.  Ástþór guðaði á glugga DV fyrir einhverjum misserum, hann leigði kranabíl og lét ferja sig upp og skaut og skaut með myndavél sinni inn um gluggann. Þetta voru einhver mótmæli út af umfjöllun DV sem náðu einhverjum myndaskotum af Ástþór eða konu hans sem honum líkaði ekki. Ástþór hefur oft áður sýnt viðlíka jólasveinalega hegðun, hann reyndi að stela senunni um árið þegar friðargangan fór niður í bæ með því að mæta útataður í tómatsósu og jólasveinabúning. Ef ég man rétt þá fór hann líka að skrifa hótunarbréf til ráðamanna og var stungið inn.

Sennilega er Ástþór komin á  sama stig í jólasveinafílingnum núna og þó það sé partur af góðu samfélagi að menn eins og Ástþóri séu á röltinu eins uppdubbaðir og þeir vilja þá á ekki að vera blindur á merki um að fólk hafi tjúnast of mikið upp. Það getur verið hættulegt.

Það hafa margir jólasveinar í gegnum tíðina gefið sig út fyrir að vera mannkynsfrelsarar en það er nú bara þannig að lausnin fyrir Ísland er að jólasveinarnir hverfi af sviðinu.


mbl.is Lá við að fundurinn leystist upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagræðing í ríkisrekstri er ekkert bannorð

Enginn stjórnmálamaður á Íslandi hefur náð í gegnum kosningu með því að koma með áætlanir um hagræðingu og sparnað. Það hefur verið bannorð í stjórnmálaumræðu og það sem verra er - þetta hefur verið notað til að réttlæta einkarekstur og fordæma rekstur í almannaeigum.

Ef ekki er hægt að spara og hagræða í fyrirtækjum í ríkiseign þá er sú leið farin að einkavæða þau og reka eftir hagnaðarsjónarmiðum. En hvort vill fólk - glórulausa einkavæðingu sem felst í því að fyrirtæki í almannaeign eru einkavædd og strax fara hinir nýju eigendur í að skera frá allt sem skilar ekki nógu miklum hagnaði en koma því sem myndar hagnað inn í einhver eignarhaldsskálkaskjól - eða hagræðingu í ríkisrekstri?

Hvort vill fólk að horfst sé í augu við að það verður að hagræða og aðlaga í opinberu heilbrigðiskerfi - eða að það sé farið út í einkavæðingu og einkarekið kerfi sem mun alveg örugglega þjóna best þeim ríkustu og þeim sem eru hér miðsvæðis?  Það er hagsmunamál allra Íslendinga að það sé hagrætt í heilbrigðiskerfi og eitt af því sem verður að skoða er spítalar og skurðstofur.

Það er engin stjórnmálaleg ábyrgð hjá vinstri grænum eða öðrum stjórnmálaflokkum sem aðhyllast ríkisrekstur að láta eins og það sé ekki hægt að hagræða og breyta og ef til vill leggja niður starfsemi á einum stað vegna þess að hún er hagkvæmari á öðrum stað.

Það má alveg nota hagkvæmnismælikvarða í ríkisrekstri, það er ekkert bannorð.

Mestu skúrkarnir meðal ráðherra á Íslandi í dag eru ekki þeir sem eru að reyna að skera upp og hagræða og breyta kerfi sem auðsýnilega þarf að breytast, mestu skúrkarnir eru þeir sem lugu okkur full og þóttust vera gæslumenn okkar í efnahagsmálum en voru mest í að leyna vandanum og velta á undan sér. Og ansi miklir skúrkar eru þeir líka sem stunduðu óhefta fyrirgreiðslupólitík fyrir sig og sína ættmenn. Svo eru sumir sem hafa verið æði verklitlir þó þeir hafi setið á þingi, kannast fólk við að Sigurður Kári hafi gert eitthvað annað en reyna að selja áfengi í kjörbúðum og kannast fólk við að Bjarni Benediktsson hafi gert eitthvað annað en veita tengdadætrum stjórnmálamanna hraðafgreiðslu í gegnum ríkisborgararétt? 

Hmmm... hvað varð annars af hátæknispítalanum sem við þjóðin áttum að fá fyrir alla peningana sem fengust fyrir einkavæðinguna? Gufaði það fé upp eins og Gist samvinnusjóðurinn? 


mbl.is Ráðherra segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andlitslaus andspyrna og nornaveiðar

Ný fatatíska er að ryðja sér til rúms á Íslandi. Hún sækir efnivið í erlenda tísku, minnir mig á Zorró bækurnar og Skugga teiknimyndasögurnar  sem ég las í bernsku en þar var hetjan alltaf í dulargervi.  Vonandi fær þessi nýja tíska  fljótlega einhver einkenni Íslands og má benda mótmælendum á að koma sér upp zapatista vetrarhúfum, þær henta miklu betur fyrir íslenskar aðstæður næstu mánuði en þessir skjóllitlu klútar. Ég  skynjaði trendið fyrir ári síðan og  póstaði einmitt þá í janúar leiðbeiningar um hvernig átti að gera svona húfur, sjá hérna Föndur dagsins : Zapatista vetrarhúfur

En það er áhugavert að skoða hina andlitslausu andspyrnu og hvern hún teiknar upp og persónugerir nú sem andstæðinga og  hvaða persónur hún  tengir hrun íslenska bankakerfisins. 

Er það Bjarni bankamaður eða einhver af þeim íslensku auðmönnum sem mokuðu fé til sín og skildu okkur eftir í forinni með skuldirnar og áhyggjurnar og baslið? Nei. Bjarni mætti keikur til leiks á brunaútsölurnar  á Íslandi og fékk inni í kastljósi og fjölmiðlum með kombakk.

Eru  það hinir auðugu eigendur íslenskra fjölmiðla og einkaþotueigendur og dílerar Íslands sem ráðist var á og persónugerðir fyrir hrunið? Eru það Björgúlfsfeðgar, er það Jón Ásgeir sem hinir andlitslausu ráðast á? Eða einhver af þeim tuttugu eða þrjátíu sem settu Ísland á hausinn? 

Eru það mennirnir sem ennþá eiga nánast alla íslensku fjölmiðla, mennirnir sem ennþá halda í marga valdaspotta hérna og eru í þeim fjárhagsvandræðum mestum að þeir reyna að selja einkaþoturnar og stunda vöruskipti með hlutafé og  halda sig til hlés þangað til góður tími kemur til að kaupa upp meira af Íslandi.

Hver á allar fasteignir miðsvæðis í Reykjavík? Hafa hinir andlitslausu áhuga á því að rekja slóðina frá eignarhaldsfyrirtæki yfir í eignarhaldfyrirtæki yfir í ennþá eitt eignarhaldsfyrirtæki .... eða tapa þeir þráðinum í kerfi gerviviðskipta sem voru einmitt gerð í því augnamiði að láta okkur tapa þræðinum?

Voru alþingismennirnir Pétur Blöndal eða Illugi Gunnarsson sem urðu skotspænir hinna andlitslausu? Ærin eru tilefnin ef saga þessara manna er skoðuð. 

Er ef til vill  myndrænna og auðskildara að setja upp klút og fara um miðbæinn og staðnæmast við banka þar  frekar en að rekja fjármálaslóðina þar sem aðrir hafa líka dulbúist en ekki með dulum fyrir andlitið heldur með þeim klækjum sem nútíma kasínókapitalismi  og bankaleynd gerir mögulega.

Í fréttinni stendur:

"Fjöldi fólks með svartar grímur krafðist breytinga í íslensku þjóðfélagi, afsagnar yfirmanna bankanna sem setið hefðu í skjóli gamla valdakerfisins og ábyrgðar ráðamanna."

Svo kom fram að mótmælendur hefðu á táknrænan hátt borið Elínu Sigfúsdóttur bankastjóra út.  Er hún ábyrg fyrir hruni íslenska bankakerfisins, er hún persónugervingur þess sem andspyrnan á Íslandi á að beinast að? 

Það hentar ágætlega útrásarvíkingum, stjórnmálamönnum og öðrum þeim sem núna vilja ekki læti í kringum sig og sína fjármálagerninga að það mæði á Elínu Sigfúsdóttur bankastjóra.  En þeir sem hafa fylgst með ferli Elínar vita hve ómaklegar þessar árásir eru.

Vissulega var hún einn af stjórnendum í Landsbankanum fyrir hrunið en hún hafði starfað í Landsbankanum frá árinu 2003 og þar áður í meira en aldarfjórðung í íslenskum bönkum. Vissulega hafði hún ofurlaun miðað við okkur hin. Það má vel gagnrýna hver launakjör yfirmanna í bankakerfinu voru fyrir hrunið. 

En mér vitandi er ferill Elínar Sigfúsdóttur í bankakerfinu flekklaus. Raunar þekki ég hana vel því við urðum vinkonur strax í háskóla og unnum saman í mörg ár á sumrin meðfram háskólanámi í bókhaldi. Allir sem hana þekkja hafa sömu sögu að segja, Elín er úrvalsmanneskja sem allir treysta og öllum er hlýtt til.

Elín komst ekki í þá stjórnunarstöðu sem hún gegndi í bankakerfinu með plotti og vinskap við spillta pólítíkusa. Hún vann sig upp og það tók langan, langan tíma. Elín var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans þegar hrunið varð. Hún hafði áður starfað í Búnaðarbankanum gamla í tuttugu og fimm ár, byrjaði í hagdeild og vann sig upp en flutti sig svo yfir í Landsbankann þegar  Kaupþing tók yfir Búnaðarbankann.

Ef ég man rétt þá var Elín ein fyrsta konan til að sitja í bankaráði íslensku bankanna og það voru ekki auðjöfrarnir og fjárhættuspilararnir sem völdu hana til þess starfa. Það voru samstarfsmenn hennar, hún var fulltrúi  grasrótarinnar, fulltrúi starfsmanna bankans í bankaráðinu og hún hefur alltaf notið  trausts samstarfsmanna sinna.

Það eru ekki margar konur sem hafa náð langt í íslensku bankakerfi og það er áhugavert að sjá að skyndilega við algjört hrun íslenska bankakerfisins eru konur kallaðar til  að stýra tveimur af þremur bönkum. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið nauðsynlegt rétt eftir hrunið að þar kæmi til fólk sem hefði einhverja þekkingu á þessum stofnunum m.a. vegna þess uppgjörs gamla og nýja tímans sem óhjákvæmilega þarf að fara fram. 

Það hafa komið upp á yfirborðið samningagjörðir m.a. afskrifun skulda upp á hundruðir milljóna við lykilstjórnendur í bönkum. Þessir samningar um niðurfellingu skulda og að láta einkafyrirtæki  yfirtaka skuldina eru mjög vafasamir og hneyksli að fólk sem hefur þegið slíka umbun stýri nýju bönkunum. Þessir samningar voru gerðir hjá Glitni við lykilstjórnendur þess banka.  En mér vitanlega tengist Elín Sigfúsdóttir ekkert slíkum óheiðarlegum fjármálagörningum og raunar hef ég ekki heyrt af niðurfellingu skulda vegna hlutabréfakaupa bankastarfsmanna í Landsbankanum.

Ég held að það sé allt í lagi að beina gagnrýni margra þéttingsfast í ákveðna átt, það virkar vel að fókusera á ákveðið takmark. En það er hættulegt ef andlitslausir andspyrnumenn gerast ginningarfífl þeirra sem gjarnan vilja láta athyglina beinast frá sér yfir á þá sem eru núna í hreinsunarstörfum eftir bankahrunið.


mbl.is Elín borin út úr bankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafmagnaður fundur hjá Framsókn í Reykjavík

xIMG_3201Það er óhætt að segja að félagsfundur okkar Framsóknarmanna í Reykjavík hafi verið rafmagnaður. Straumurinn liggur til Framsóknarflokksins þessa daganna, margir ganga í flokkinn og það var greinilega  smölun í gangi á fundinn. Það voru miklar eldglæringar í lofti og það stefndi í að fundurinn yrði hreinlega yfirtekinn, tillaga stjórnar felld  og fundarstjóri settur af og keyrð í gegn tillaga  annarra um fulltrúa á kjörþing.

Ég er í stjórninni og studdi að sjálfsögðu tillögu stjórnarinnar enda fannst mér hún ljós og það höfðu margir unnið saman að því að tilnefna fulltrúa  en sú tillaga sem kom fram á fundinum kom á óvart. Það er ljóst að það verður kosin ný forusta í Framsóknarflokknum á flokksþinginu í janúar og þessi átök eru partur af því. Það skiptir miklu máli að tryggja sér sem flesta kjörmenn í Reykjavík.  Margir töluðu, þar á meðal ég og hvöttu til að það yrði reynt að ná samkomulagi og það tókst sem betur fer eftir að nokkrum sinnum hafði verið gefið fundahlé svo hægt væri að búa til einhvers konar samningstillögu. Hún var svo samþykkt með einu mótatkvæði.

xIMG 3177Fundurinn var svo fjölmennur að fundarsalur Framsóknarflokksins sprakk og varð að flytja fundinn í Þjóðleikhúskjallarann. Hér er mynd sem ég laumaðist til að taka af þeim sem voru að reyna að sætta stríðandi aðila í einu af fundarhléinu, samninganefndin óformlega lokaði sig inni í eldhúsinu að ég held.  Hugsanlega hefur það ráðist í þessum þreifingum hver verður næsti formaður Framsóknarflokksins og hugsanlega hefur það ráðist af þeim sáttum sem voru á fundinum hver framtíð Framsóknarflokksins verður. Það vilja allir breytingar á stjórnmálaflokkum og hrunið á Íslandi mun kalla á meiri stjórnmálaþátttöku og því virkara og betra lýðræði sem við höfum þeim mun minni líkur eru á að hér verði algjör skálmöld. En það er ekki rétt leið að taka yfir fundi, það er rétt leið að reyna að semja og vinna saman og hlusta á sjónarmið allra.

 xIMG 3176 xIMG 3200
xIMG 3179

xIMG 3198 ssssxIMG 3181 xIMG 3184
mbl.is Hiti á fundi framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband