Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Koddaenglar og foreldrar þeirra

Ég var að skoða vefsíðu sem foreldrar  9 ára fatlaðrar stúlku settu upp. Slóðin er http://ashleytreatment.spaces.live.com/ 

Þar er lýst meðferð og aðgerðum sem stúlkan fór í sem miða að því að  stöðva vöxt og kynþroska. Hún er talin hafa þroska á við 3 mánaða barn. Foreldrarnir virðast  hafi skoðað mjög vandlega hvernig þau gætu búið dóttur sinni sem best lífsskilyrði og unnið  í samráði við lækna og gætt þess að fara að lögum og fá úrskurði frá siðanefndum spítala.  Á vefsíðu foreldranna er fjallað um hinar ýmsu röksemdir með og á móti. Það virðist hafa verið tekin ákvörðun með það í huga að lífsgæði  fötluðu stúlkunnar yrðu eins góð og kostur væri í hennar aðstæðum.  Eins og foreldrarnir benda á þá var sams konar hormónameðferð notuð til að stöðva eða hægja á vexti stúlkubarna  og það þá út af hugrænum ástæðum þ.e. að ekki þótti gott að konur yrðu of hávaxnar.  Slíkri meðferð var (og er hugsanlega ennþá?) beitt á Íslandi. 

Það má reyndar finna mörg ófögur dæmi í mannkynssögunni um að gripið sé fram í náttúrunni til að hefta og stöðva þroska og vöxt. Strákar með fagrar englaraddir hafa verið geldir til að þeir fari ekki í mútur og afreksstelpur í fimleikum hafa fengið einhver lyf til að  draga úr vexti og kynþroska. Enn óhugnanlegri eru dæmi sem gerast í nútímanum þar sem börn eru örkumluð eða fötlun þeirra viðhaldið og gerð verri og vöxtur þeirra stöðvaður vegna þess að einhverjir byggja afkomu sína á því að börnin séu til sýnis og betli á almannafæri og veki meðaumkun. 

Ég hugsa að hormónameðferð til að draga úr vexti sé ekki það sem veldur því að við hrökkvum við heldur sú aðgerð að fjarlægja leg og brjóstakirtla stúlkunnar. En af hverju finnst okkur eitthvað að því þegar allt bendir til þess að lífsgæði hennar batni við það?  Ef til vill endurspeglar þetta þá fordóma og það siðfræðilega mat sem við göngum út frá en gerum okkur ekki grein fyrir nema í tilviki eins og þessu. Við gerum ráð fyrir að hin náttúrulega þróun sé hið rétta og það eigi ekki að grípa fram í fyrir náttúrunni. Foreldrarnir svara þessu svo:

The objection that this treatment interferes with nature is one of the most ridiculous objections of all; medicine is all about interfering with nature. Why not let cancer spread and nature takes its course. Why give antibiotics for infections? Even an act as basic as cutting hair or trimming nails is interfering with nature

Af hverju er þessi meðferð eitthvað öðru vísi en t.d. kuðungsígræðsla í heyrnarlaus börn og að stöðva risavöxt hjá börnum og gefa dvergvöxnum börnum vaxtahormón til að auka vöxt þeirra? Ef til vill afhjúpar mál þessarar fötluðu stúlku hvernig við hugsum alltaf um normið sem hið eina rétta og fordæmum inngrip í náttúrulega þróun ef það víkur út af því venjulega.  Venjuleg stærð og venjuleg kynþroskaþróun passar ef til vill ágætlega fyrir fólk sem er sjálfbjarga, getur gengið, stofnað fjölskyldur og eignast börn. En ef fyrirsjáanlegt er að líf þitt verði þannig að þú munir alltaf vera ósjálfbjarga og borinn um af öðru fólki er þá eitthvað að því að búa þig þá sem best undir þannig líf? 


mbl.is Hefta líkamlegan þroska fatlaðrar dóttur sinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkibloggsaga Íslands

Þegar árið kvaddi og kryddsíldin súrnaði og skaupið helltist yfir okkur eins og skrípóbjórauglýsing á Sirkus þá lýstu margir  af Íslands bestu sonum frati á Netið og púuðu á  bloggskrílinn. Guðmundur trúarleiðtogi í Byrginu sagði að Netið sé Dýrið og Bubbi  6.6.6. sem er  ekki eins læs á teiknstafi sagði af sinni alkunnu hógværð og kurteisi  að bloggarar væru mestmegnis illa skrifandi, sjálfumglatt hyski. 

Það var nú ekki eins og mælirinn væri fullur heldur bættist nú í hópinn Egill sem stráð hefur silfri yfir landsmenn árum saman og útnefndi sjálfa sig hróðugur ekki bloggara og setti fram  söguskýringu  sem er  hetjusaga af því hvernig hann fattaði þetta með Internetið fyrstur manna löngu áður en bloggið var fundið upp og hvað hann sé sammála öðrum gáfumönnum íslenskum um að  blogg sé hljóm eitt og þar sé lítið af semningi slegið. 

Ekki-bloggarinn Egill bloggar þessi frómu orð:

"Sögu mína á internetinu má rekja til 1. febrúar árið 2000, sem er sirka fimm árum áður en bloggið var fundið upp. Þar af leiðandi get ég ekki verið bloggari. Ég hef skrifað á netið í næstum sjö ár. Ég er líka að sumu leyti sammála Jónasi Kristjánssyni um að að bloggið sé ekki sérlega merkilegt - alvöru dagblöð eru miklu merkilegri."

Svona ósvífni olli náttúrlega tryllingi í bloggheimum og stungu bloggarar niður beittum stílvopnum í mörgum bloggum og ætla menn ekki að leyfa Agli að breyta bloggsögunni baráttulaust. Ég er með þessu bloggi að bæta í skotin á Egil, það veitir ekki af  að skjóta á hann úr öllum áttum.

Nokkur skot á Egil og moggablogg: 

Forsögulegur bloggari 

Leiðin að falli moggabloggsins

Egill og bloggið

Sannleikurinn er nefnilega sá að það var blómlegt bloggsamfélag á Íslandi strax árið 2000 og margir notuðu þá þegar bloggkerfið blogger.com. Það voru kannski ekki svo margir bloggarar, sennilega einn eða tveir tugir og það varð svo  til samfélag Nagportal þar sem bloggarar fylgdust með skrifum hver hjá öðrum.  Síðar tók rss molar og fleiri kerfi við.

Fyrsti íslenski bloggarinn (þ.e. miðað við þá skilgreiningu að nota sérstakt bloggkerfi Blogger ) er sennilega Björgvin Ingi. Hann segir svo frá (athugasemdir hjá Stefáni): "Ég byrjaði á þessu í jólaprófunum 1999 (http://www.blogtree.com/blogtree.php?blogid=5238) og notaði þá notepad og vistaði þetta á háskólasíðunni minni. Skömmu síðar byrjaði ég að nota blogger.com sem byrjaði þá um haustið. Af miklum hégóma spurði ég Evan hjá Pyra, stofnanda Blogger, meira að segja út í það hvort ég væri ekki örugglega sá fyrsti á Íslandi sem byrjaði að nota kerfið. Hann játti því og mér leið rosa vel að vera frumnörd."

Hugsanlega er Björn Bjarnason fyrsti íslenski bloggarinn ef við miðum við þá skilgreiningu að blogg sé regluleg opin dagbókarskrif á Netinu. Ég man reyndar eftir að fyrir mörgum árum var ég ásamt Stefáni í Kastljósi í fyrstu umfjöllun íslensks sjónvarps um blogg og þá hélt ég því fram að Björn teldist bloggari. Það þótti nú reyndar ennþá óvirðulegra þá en nú að vera bloggari.

Ég skrifaði fyrsta bloggið á blogger 8. desember árið 2000. Ég hafði þá tekið eftir að nokkrir verkfræðinemar notuðu sniðugt kerfi blogger til að uppfæra heimasíðurnar sínar og ég skráði mig sem notanda þar og prófaði. Svona er fyrsta bloggið mitt:
"Nu hefst jólaannáll 2000. Hérna nota ég kerfi sem heitir blogger.com til að setja inn svona slitrur úr því sem helst er að gerast og varðar íslenskt jólahald og þennan jólavef. 8. des. breytt
skrifar Salvor Gissurardottir 12/8/2000 07:01:58 AM "

Ég ætlaði fyrst að nota bloggið fyrir ákveðið efni þ.e. jólavef en svo sá ég að það virkaði betur fyrir tjáningu sem snerist um einstaklinga og samræðu við sjálfið - að hugsa meðan maður talar við sjálfan sig. Ég stofnaði svo nýtt blogg og byrjaði svo regluleg bloggskrif 1. apríl 2001 og kallaði bloggið fyrst Meinhorn því ég ætlaði bara að þusa og skammast út í allt og alla en uppgötvaði að það var ekkert gefandi og svo endurskírði ég bloggið og kallaði  Metamorphoses eftir 11. september 2001. 

Reyndar komu Íslendingar dáldið inn í bloggsögu heimsins að mig minnir árið 2002 eða 2003 en þá var íslenska að mig minnir tíunda algengasta málið á blogger en eins og allir ekki bloggarar vita þá er Íslenska ekki í hópi tíu algengustu tungumála í heiminum. Þetta vakti furðu á mörgum erlendum vefjum sem sérstaklega fylgdust með framþróun upplýsingasamfélagsins. Þar sem ég er alveg jafn hógvær og ekki bloggarinn þá vil ég eigna mér skerf af því. Ég hafði trú á bloggi sem námstæki og lét nemendur mína prófa að stofna blogg á blogger. Einu sinni í janúar  áður en kastljós netheimsins beindist að blogger þá tók ég eftir að bara nemendur mínir höfðu stofnað 10% af öllum blogspot bloggum sem voru stofnuð   þann mánuð. Ég held að það hafi átt sinn þátt í hversu sýnilegt Ísland var í bloggheimum. 

Ég finn nú ekki mikið um þetta í gúgli núna, Netið er hverfult en þessi statistic var á vegum Jupiter Research og ég fann í Google þennan kafla í fræðiskýrslu frá University of California  How Much Information? 2003: "

"C. Who is blogging?

According to Jupiter Research, about 2 percent of Internet users have created a blog. The majority of bloggers use dial-up access to get online, and more than half have a household income below $60,000 per year. Jupiter also found that blogging is split evenly between the genders and that 70 percent of the bloggers have used the Internet for more than 5 years. (Source: Blogging by the Numbers)

More than 50 percent (350,000) of the 655,000 web logs crawled in National Institute for Technology and Liberal Education (NTILE) web log census are written in English. The rest of the top 10 languages for blogs are (in order): Portuguese, Polish, Farsi, French, Spanish, German, Italian, Dutch and Icelandic. "

Það er náttúrulega gaman að bera þessa skýrslu frá University of California  saman við tímatal Egils, íslenskan virðist eftir þessu hafa verið eitt af algengustu bloggtungumálum heimsins tveim árum áður en Egill segir að bloggið hafi verið fundið upp Grin

Mogginn þar sem nú hafa hreiðrað um sig  helstu samfélagsbloggarar Íslands (vandlega orðað svona til að hella olíu á eld kaninkuklansins) tók eftir bloggurum  og birti heila opnu með viðtölum við nokkra bloggara  22. júní 2001  sem er fjórum árum áður en Egill segir að bloggið hafi verið fundið upp. Ég var náttúrulega og er einn af eðalbloggurum þessa lands og þess vegna útvalin í  í viðtalið : Þarf að vaða blint í sjóinn.

Það þarf náttúrulega ekki að taka fram að ég valdi ekki titilinn enda eru öll mín blogg útpældur fróðleikur en ekki neinn buslugangur og froðusnakk. W00t


Annáll 2006

Hér skrifa ég annál ársins 2006 og hef hann með einnar mínútu vídeóklippi sem ég tók við Hallgrímskirkju þegar klukkurnar hringdu inn nýja árið. Það heyrist ekkert í klukkunum því að leikvangurinn á Skólavörðuholtinu er þannig á Gamlárskvöld að það er eins og maður sé staddur í sprengiárás. Ég skrifaði áramótahugleiðinguna Skotárás á turninn  fyrir fjórum árum einmitt um Hallgrímskirkjuturn. 

Hvað einkennir árið 2006? Þegar ég renni yfir bloggið mitt árið 2006 þá finnst mér sá atburður sem mest áhrif hafði á mig í heimsumræðunni  hljóti að hafa verið skrípamyndirnar af Múhameð. Ég virðist hafa verið með það á heilanum um tíma og bloggaði endalaust um málið. Ég fékk líka köllun til að verða sjálf skopmyndateiknari. Það verður eitt af áramótaheitum mínum fyrir 2007 að láta það rætast. Ég held að skrípómálið hafi heillað mig af því hve myndrænt það var og hve það virtist sakleysislegt á yfirborðinu en hve þungir undirstraumar og iðuköst fylgdu málinu - menningarheimum laust saman, mismunandi trúarheimar glímdu, tekist var á um tjáningarfrelsi og hatur sem fann sér útrás í einföldum auðskildum táknmyndum.  

Hér eru nokkrar af bloggfærslum mínum um skrípamyndirnar 

Teiknimyndir af Múhameð spámanni 

Konan á krossinum wikipedia

Skrípóstríðið heldur áfram

Meira skrípó og guðlast

Í stuði með Guði - Jesúdúkkulísur

Um júðana og lygar þeirra

Stungið niður stílvopni

Látið Ali Mohaqiq Nasab lausan!

Villandi og rangar fréttir á Íslandi og bóksalinn í Kabúl

Við erum öll Danir núna... nú eða breskir námsmenn í ögrandi fötum

Vi danskere og vores national identitet

Danskurinn og fjanskurinn sitt hvorum megin við Djúpavog

Háfrónskan og skopmyndaskáldin

Svo sýnist mér þegar ég lít yfir það sem ég hef skrifað á blogg  á árinu að ég tjái mig  alltaf meira og meira um mannréttindamál og miðlun þekkingar. Ég bloggaði töluvert um femínisk málefni eins og undanfarin ár en ég blogga alltaf meira og meira um mannréttindamál og tjáningarfrelsi og frjálst flæði þekkingar og reyni að vara við þeim manngerðu fangelsum sem reist eru í netheimum og hvernig lög og reglur samfélagsins eru ekki miðuð við þennan nýja tíma og þá sem ferðast í netheimum heldur fyrst og fremst til að gæta hagsmuna höfundarréttahafa og  eignafólks.

Ég held að skopmyndamálið hafi verið ein leið til að sprengja gjá milli þeirra frjálslyndu og umburðarlyndu sem verja tjáningarfrelsið og þeirra sem böðlast áfram í trúarofstæki og blindri bókstafstrú. Eða kannski þetta sýndi hvað er mikil hyldýpisgjá milli öfgatrúarhópa í Austurlöndum og Evrópubúa. En alla vega mun ég verja rétt fólks til að guðlasta og hafa illa ígrundaðar og hallærislegar skoðanir og ég er full tortryggni gagnvart öllum þeim sem vilja hefta slíka tjáningu. Tjáningarfrelsi er líka fyrir ruddalegt fólk sem fylgir ekki því sem okkur finnst vera rétta skoðunin og rétta framsetningin.

 Ég held að þetta ár hafi breytt landakortinu af Íslandi. Við höllum okkur nær Evrópu og fjær Bandaríkjunum og skilin milli Evrópu og Austurlanda nær urðu skarpari á árinu.  Herinn fór og Hálslón varð til.  Eftir árið erum við Evrópuþjóð þar sem margir vilja taka upp Evru og sennilega myndum við þjóta inn í Evrópusambandið á methraða ef það væri ekki út af sjávarútvegsstefnu bandalagsins. Markalínur menningarheima snúast núna um trú og markalínur stjórnmála á Íslandi um hálendið og náttúru Íslands.  Ég tek eftir að ég hef ekki haft neinn sérstakan áhuga á trúmálum eða náttúruverndarmálum undanfarin ár, ég alla vega blogga ekkert mikið um þau mál.  Ef til vill ætti ég breyta því á árinu 2007, ég hef reyndar meiri áhuga á dýravernd bæði gæludýra og alidýra en náttúruvernd, aðallega af því mér finnst  meiri þörf fyrir baráttu og upplýsingar þar, það eru færri sem berjast fyrir svín og kjúklinga en fyrir lónum á hálendinu. 

Nokkrir punktar úr lífi mínu og fjölskyldu minnar

Ég fór tvisvar erlendis á árinu, ég fór til Boston á Wikimania í ágúst og ég fór til Póllands í lok ágúst. Innanlands fór ég nokkrum sinnum í Borgarfjörð og eina ferð út í Flatey og eina til Vestfjarða til systur minnar. Hún var þá að flytja aftur til mannsins síns en þau skildu í lok síðasta árs.  Ég fór ekkert til Skagafjarðar á þessu ári og geri ekki ráð fyrir að fara mikið þangað framar nema til að koma við á Víðivöllum og Víðinesi. Það er mjög sorglegt mál og ekkert bendir til annars en nú verði höfðað dómsmál. Ég skrifaði um það í þremur bloggum Kýrhaus, Málaferli um Vagla og Lögfræði. 
Ég hef forðast að skrifa meira um þetta mál vegna þess að ég get engan veginn verið hlutlaus og á meðan ég vonaði að einhver lausn væri í sjónmáli þá gætu óvarleg orð spillt fyrir. Ég finn til með móður Magnúsar og vona að fólkið sem hún er hjá reynist henni vel.  Það  getur nú samt ekki annað en hryggt hana að hafa misst allt samband við flest sín börn og barnabörn.  Ég held að  margt roskin fólk sé einangrað og í einhvers konar gíslingu  út af því að einhverjir hafa hagsmuni af því  að ráðskast með  og komast yfir eigur þeirra. Það er mjög lítil umræða á Íslandi um Elder Abuse og enginn innan félagslega kerfisins virðist taka á þessu. Í Bandaríkjunum eru nýgengin í gildi lög þar sem fjármálastofnanir hafa tilkynningaskyldu ef grunur vaknar um að reynt sé að féfletta eldra fólk og þar er fólk á varðbergi fyrir ýmis konar misneytingu sem snýr  hópum eins og öldruðum og sjúkum. 

Bróðir minn stóð í ströngu í ár sem undanfarin ár en hann hefur þó alla vega unnið sínar síðustu baráttulotur. Vonandi slotar bráðum þeim stórhríðum sem á hann hafa skollið. Eitt ljós í öllu því myrkri sem umlukið hefur fjölskyldu mína undanfarin ár er að ég hef endurheimt unglinginn. Hún umhverfist og týndist mér algjörlega í marga mánuði, sást ekki nema endrum og eins og lagði sig í glíma með því að stunda lífsstíl sem ég  var andsnúin og get ég varla sagt að við töluðum saman í marga mánuði. Frá því í sumar er hún hins vegar hið mesta ljós og virðist hafa tekið út einhvern þroska. Nú eða bara ég hef látið undan öllu hennar sjálfstæðisbrölti og hún er bara ánægð núna þegar hún getur farið sínu fram. Frænka hennar Ó. er hins vegar ekki í nógu góðum málum og hef ég núna í lok árs samvisku yfir að hafa ekki gert neitt í hennar málum. Mér finnst kerfið hafa svikið hana. Hún á rétt á menntun  og umhyggju eða einhvers konar greiningu og úrlausn sem verður henni veganesti í lífinu. Ég reyndi nú það sem ég gat, hafði samband við bæði Fjölsmiðjuna og Barnaverndarnefnd út af árásinni sem hún varð fyrir en bæði mamma hennar og hún telja að hún sé best komin án afskipta Barnaverndarnefndar.  

Í mínu lífi er þetta ár  fremur helgað líkama en sál og það snerist um heilsu. Ég  var  í veikindaleyfi hluta ársins og ég held að heilsa mín sé töluvert betri núna en fyrir ári síðan. Húsbyggingin gekk vel á árinu, ég held að það hafi eitthvað með það að gera að auðveldara varð að fá iðnaðarmenn eftir 1. maí en þá opnaðist íslenskur vinnumarkaður  fyrir Pólverja.  Ég er samt orðin leið á að vera alltaf mörg hundruð þúsund í yfirdrætti í hverjum mánuði og þurfa ekki einu sinni að velta fyrir sér hverri krónu. Það er nefnilega mjög lítið hægt að velta krónum sem allar eru bundnar í grjóti og sementi.


Sjötugsafmæli Saddams

Handshake300Ég tók púlsinn á bloggumræðunni í heiminum í gær, allir ræddu um aftöku Saddams. Nánast öll blogg sem ég las fordæmdu hana,  og vönduðu ekki bandarískum stjórnvöldum kveðjurnar.

Það er  ekki hægt að breiða fjöður yfir að Bandaríkjamenn studdu hann á ýmsan hátt til valda, hér er mynd af því þegar Don Rumsfeld heilsaði upp á hann um árið og lesa má hérna um gæsku Bandaríkjamanna við Saddam gegnum tíðina: Top Ten Ways the US Enabled Saddam Hussein.

Ég hef samt engan einasta heyrt láta hlýlega orð falla um Saddam. Hann var illur harðstjóri og enginn virðist  á móti því að hann þyrfti að svara til saka fyrir voðaverk sín. Það sem fólki finnst að er hvernig staðið var að réttarhöldunum og hvern þátt Bandaríkjamenn áttu í þeim og reyndar líka hvert viðhorf fólks er til dauðarefsinga.  Ég hef velt fyrir mér hvers vegna lá svona mikið á og hvers vegna Saddam var sakfelldur eingöngu fyrir  hluta af þeim morðum og stríðsglæpum sem hann er talinn hafa átt hlut að. Hugsanleg skýring er að þetta tengist því hvernig USA persónugerir stríðsrekstur sinn. Ráðist var inn í Afganistan til að finna Bin Laden og Írak til að hrekja Saddan frá völdum. Kannski skiptir miklu máli að klára málið og það verður ekki gert nema hrósa sigri yfir líkum andstæðinga sinna og brenna þá ímynd inn í huga þeirra að sjá hinn sigraða liggja í duftinu, það hefur verið gert frá örófi alda, margar sagnir eru af því í mannkynssögunni. Kannski stendur til að snúa sér að einhverju öðru t.d. Norður-Kóreu. Kannski skipti líka miklu máli að Saddam hefði orðið sjötugur eftir nokkra mánuði og eftir því sem ég hef lesið þá er ekki hægt að dæma menn yfir sjötugt til dauðarefsingar í þeim lögum sem hann er dæmdur eftir. Sem sagt, ef réttarhöldin hefðu dregist og verið ítarlegri þá hefði ekki verið hægt að taka Saddam af lífi. Þetta er kannski aðalástæðan fyrir því sem sumir hafa kallað kengúruréttarhöld.

Hér eru nokkur  blogg sem  fjalla um Saddam:

Where Were the Mass Graves?

Bloggarinn Cenk Uygur segir frá því að í útsendingum frá dauða Saddams var hamrað á því aftur og aftur að þarna færi fjöldamorðingi og það væru til fjöldagrafir. Allt að 300.000 hefðu verið drepnir í stjórnartíð hans. En Saddam  var  ákærður fyrir 148 látna í Dujail. Bloggarinn vitnar í fræga tilvitnun úr Nurnberg réttarhöldunum "We must never forget that the record on which we judge these defendants is the record on which history will judge us tomorrow." og Cenk Uygur segir:

"Við þurfum að hafa mannkynsöguna á okkar bandi hérna. Munið að við réðumst inn í landið og settum allt á hvorf vegna þess að Saddam var vondur gæi. Þess vegna væri flott að sýna það og sanna. Réttarhöldin virðast þriðja flokks hroðaverk. Ef til vill vegna þess að allt er í klessu í Írak og þau eru framkvæmt af þeim sömu aðilum og settu allt á hvolf.

Hlífið mér við ruglinu um að Írak sé sjálfstætt ríki og þeir sjái um réttahaldið og við komum þar hvergi nærri. Saddam olli dauða hundruða þúsunda fólks þegar hann hóf stríð við Íran. Það kom ekki fram í réttarhöldunum. Ég er viss um að sú staðreynd að USA studdi hann  og  Don Rumsfeld seldi honum vopn til að nota í því stríði skipti alls engu máli um hvort að það dregið fram  í réttarhöldunum ... sem Írakar stýrðu."

 Another Dead Iraqi 

Silencing Saddam

There Is No Victory in Saddam's Execution

What is evil?

 NRO.

Americans played key role in case


Hver má blogga hjá RÚV?

sigmarbloggÍ Fréttablaðinu í dag er þessi klausa um blogg (sjá skjámynd hér til hliðar) og því haldið fram að RúV hafi skipulega lagst gegn því að starfsfólk bloggaði nema með takmörkunum (sjá blogg Páls Ásgeirs)

Akkúrat núna þá er mikil gróska í bloggi um samfélagsmál. Ég held að það sé ekki síst fyrir tilstilli moggabloggsins, það er prýðis vettvangur því bloggkerfið er einfalt og tengist  Morgunblaðsvefnum og fréttaumfjöllun þar auk þess sem bloggarar geta auðveldlega haft yfirsýn yfir önnur blogg á moggavefnum. Það er allt öðru hópur sem núna þyrpist á blog.is miðað við folk.is á sínum tíma. Það er miklu ráðsettara fólk á blog.is og margir virðast blogga af alefli og líta á bloggið sem öflugt tæki til að koma sér á framfæri í stjórnmálum. Moggabloggið  hefur  einnig fært bloggurum, alla vega þeim sem eru svo heppnir að komast í valin blogg marga lesendur, miklu fleiri en bloggarar eru vanir að hafa.  

 Moggabloggið er núna í augnablikinu  heitasti reiturinn í netumræðu um þjóðfélagsmál á Íslandi. Ég hugsa að vefrit eins og deiglan.com og umræðuvettvangar eins og malefnin.comséu í daufara lagi, sennilega lesa fáir deiglupistlana. Það er til marks um velgengni Moggabloggsins að bloggkóngur Íslands sem ríkir á útskeri nokkru sem kaninka heitir endar núna alla pistla sína með formælingum út í moggabloggið.

Skrifin á moggablogginu eru miklu hógværari og kurteislegri en ég hef vanist hingað til á bloggi. Það er helst að fólk missi stjórn á sér þegar verið er að ata pólitíska andstæðinga aur.  En þó skrifin séu hógværari þá er það svo að miklu fleiri lesa núna þessi skrif og mjög líklega þeir sem um er rætt. Eitt eftirlætis orð margra sem vilja afla sér vinsælda í bloggheimum er sögnin að skúbba og nafnorðið skúbb. Ýmsir keppast við að vera fyrstir með fréttir, væntanlega í von fleiri lesendur og meiri athygli og þá völd samfara því. Sérstaklega virðast þeir sem einhvern tíma hafa unnið á fjölmiðlum hafa gaman að þessum skúbbleikum. 

Það er gaman að fylgjast með því að fyrirtæki eru núna að prófa blogg sem miðil t.d. Brimborg. Hugsanlega eru líka stjórnmálaflokkar og ýmis félagasamtök markvisst að nota blogg í sinni baráttu og það er líklegt að það sé í verksviði þeirra sem kynningar- og ímyndarmál heyra undir að fylgjast með bloggumræðu um vörur og þjónustu.

En allt þetta vekur umræður um siðferðismál og starfsmannastefnu og blogg.  Sjaldan hefur verið brýnna en núna að ræða um það.  Geta fyrirtæki bannað starfsmönnum að blogga? Geta fyrirtæki sett reglur um blogg starfsmanna sinna? Að vissu leyti geta þau það.  Í mörgum tilvikum þá er ætlast til þagmælsku af starfsmönnum um málefni sem tilheyra starfi þeirra og að starfsmenn fylgi ákveðnum vinnureglum. Ef um opinbera starfsmenn er að ræða þá verða þeir að hlýða reglum og lögum sem gilda um opinbera starfsmenn og þar er m.a. tiltekið að ekki megi tala niðrandi um starfsgreinina. Í mörgum störfum þá þarf að vinna með fólk og starfsfólk kemst að ýmsu. Má skrifa það á blogg? Hvað ef ég væri að vinna á dvalarheimili fyrir aldraða? Má ég blogga um starfið mitt? Mega foreldrar blogga um börnin sín og viðkvæm vandamál og veikindi þeirra?  


Upp á hól stend ég og kanna

Litla stafræna myndavélin mín býður upp á það að ég get tekið lítil vídeó með tali. Ég tók nokkrar æsispennandi senur í jólaboðinu og setti saman í þessa stuttmynd sem ég frumsýni nú hér á Netinu. Þetta er seiðmögnuð samfélagssaga,  heimildarmynd um jólahald fjölskyldu á Íslandi. Myndir er um 100 sekúndur að lengd.

Söguþráður:

Fyrst er röð stillimynda af afkvæmi mínu með jólapakka, svo færist sögusviðið í hangikjötsveislu í eldhúsi mínu. Allt er þetta umvafið  snjókornum sem falla til jarðar og jólatónlist dunar. Hríðinni slotar svo þegar líður á matarveisluna og við skyggnumst inn í stofu  þar sem fullorðnir ræða nýjar og gamlar túlkanir á kvæðinu "Upp á stól stendur mín kanna". Unglingsstúlka er spurð af því hvað hún fékk í jólagjöf. Börnin spila. Hríðarveðrið skellur aftur á í lok myndarinnar. 

Ég íhuga nú að gera  heimildarmynd um gerð þessarar heimildarmyndar. Margar tæknibrellur eru í myndinni. Það sniðugasta er að láta snjóa í eldhúsinu hjá mér, það kalla ég fram með sérstökum effect "snowflakes" sem er inn í MovierMaker hjá mér. Ég reyni að nota bara ókeypis og opinn hugbúnað við alla vídeóvinnslu.  Moviemaker er eitt einfaldasta forritið til að klippa til eigin vídeó og það hentar mjög vel fyrir börn og unglinga. Tónlistin sem heyrist í útvarpinu í bakgrunni er að ég held Gunni og Felix og Ellý Vilhjálms.

Leiðbeiningar fyrir þá sem vilja setja lítil vídeóklipp á Netið:

* Hér eru leiðbeiningar  (10. mín vídeó) sem ég tók saman um Moviemaker  

* Reyndu að nota bara tónlist sem þú hefur leyfi til að nota og endurblanda. Þú getur fundið þannig tónlist á  Creative Commons Christmas Songs

Ég vistaði myndina  hjá mér í Moviemaker í High Quality Broadband og var hún 37 mb. Síðan þegar ég flutti hana yfir í Moggabloggið þá varð hún 5 mb. Moggabloggið virkar sennilega eins og Youtube þ.e. breytir vídeóklippi í svokallað flash video. 

Vonandi get ég öðru hverju komið með hérna á blogginu ábendingar hérna til þeirra sem vilja gera eigin vídeó. Þetta er skemmtilegt tómstundagaman og skapandi iðja. 


Ferðalag keisaramörgæsanna

KeisaramörgæsirÉg horfði í gær á Ferðalag keisaramörgæsanna  en það var ein sagnanna sem komu úr jólapökkum. Myndin er leikin heimildarmynd og sjónrænt listaverk. Ég er margs vísari um ferðalag keisaramörgæsanna og lífsbaráttu þeirra.  

Svona bíómassahreyfingar lífsins á jörðinni hafa alltaf heillað mig, alveg sama hvort það eru göngur ála milli Þangshafsins og íslenskra áa eða hvort það er flug margæsa yfir Grænlandsjökulinn eða það sem lífríkið og búsældin í hafinu við Ísland byggir á - þessar fæðugöngur og hrygningargöngur loðnunnar

 Myndin er ljóðræn og tilfinningaþrungin, mörgæsir eru manngerðar, kven- og karlraddir tala fyrir mörgæsirnar eftir því hvort fjallað er um kvenfugl eða karlfugl.  Svona frásögn snertir okkur, við þekkjum sjálfa okkur í mörgæsum svona svipað  eins og í barnateikningum þegar  barn  teiknar hús eins og mannsandlit, tveir gluggar eins og augu, dyr eins og munnur, þak eins og hár. Það er samt eins konar skynvilla að skilningur sé fólginn í samsvörun við eitthvað form eða ferli sem við þekkjum. Svona lífrænar hreyfingar eins og göngur fugla, fiska og annarra dýra eru kannski hluti af einhverjum rythma heimsins sem við greinum ekki, við vitum reyndar að þetta er háð birtu og hitastigi og þar með gangi jarðar um sólu en hugsanlega er það hamlandi fyrir einn skilning að líta f á líf mörgæsa með augum þess umhverfis sem við þekkjum meðal mamma - að líta á mörgæsir eins og faðir, móðir, barn í kjarnafjölskyldu.


Gleðileg jól

Austurvöllur - Oslótréð

Gleðileg jól 2006!

Set hér inn mynd af uppljómuðu Oslójólatrénu á Austurvelli. Dómkirkjan og Alþingishúsið í baksýn. En af því það er auð jörð núna og mér finnst flottara að hafa snjó þá bætti ég snjó inn á myndina. Það er hægt að gera við hvaða mynd sem er á Lunapic


Sendiherrann á Súfistanum

Í dag mun ég ekki fara niður í miðbæ. Ég mun ekki vera í Mál og menningu á Laugaveginum rétt fyrir lokun  á þorláksmessu að kaupa bækur í  jólagjafir eins og ég hef gert eins lengi og ég man.  Mér finnst það óþægilegt og það fyllir mig tómleika. Ég vil hafa hefðir, ég vil að jólin séu alltaf eins, ég vil hangikjöt á jóladag, ég vil samfélag þar sem gáfumenn þjóðarinnar ráða árlega í hinn mystiska texta "Upp á stól stendur mín kanna" og þar sem ný Grýla vaknar til lífsins í svartasta skammdeginu á hverju ári bara til að vera hrakin á brott eina ferðina enn af hetjum þessa lands og ég vil nýjar sögur og nýjar bækur á hverju ári sem lýsa upp heiminn í skammdegismyrkinu. Eg vil snjó og hvíta jörð, ég vil birtu. Ég veit að snjórinn lýsir ekki sjálfur, ég veit að það er sjónhverfing að allt sé bjartara þegar snjóar, ég veit að það er endurskin og ég veit  að birtan sem lýsir upp líf mitt núna er blekking.

Bókabúðir og bókasöfn eru orkustöðvar. Þar hanga hugsanir í loftinu og umlykja mann og þar eru stefnumót hugmynda og þar blandast menningarstraumar.

Nóttin er blá, mammaÉg fór í Mál og menningu og drakk kaffi á Súfistanum á laugardaginn var. Þegar ég kom inn þá sat þar fyrir dyrum undur maður að árita bók sína "Nóttin er blá Mamma". Þetta sló mig, kannski af því að mamman sem um ræðir er móðir mín, kannski út af því að þessi sena minnti mig á fallvaltleika lífsins. Minnti mig á að fyrir nokkrum árum hafði ég einmitt verið í útgáfuboði á þessum sama stað þar sem skálað var yfir nýútkominni bók, bókinni Halldór eftir bróðir minn. Þar voru samankomnir margir vinir hans, flestir samherjar hans í frjálshyggjuherferðinni og félagar úr menntaskóla og háskóla. Margir höfðu á orði að þeim myndu ekki hafa trúað því að þeir ættu eftir að fagna útgáfu bókverks eftir einn úr þeirra röðum í húsakynnum Mál og menningar og vísuðu þá til þess landslags bókmennta á Íslandi þegar pólitískar markalínur réðu hvaða sögur lýstu upp  heiminn í útgáfunum tveimur Almenna bókafélaginu og Mál og menningu.  Þessi áritunarsena og þetta ritverk Nóttin er blá mamma er háð um bróður minn og svíður undan því en á vissan hátt er þetta líka ljósmynd af bókaútgáfu á Íslandi árið 2006. Mér finnst þetta vera eins og sjóv þar sem bókaútgáfan er að gera grín að sjálfri sér og þeim örlögum sem munu mæta henni.  


Drottningarviðtal við sjálfa mig sem mann ársins

bloggrjupanMér er mikill heiður að taka við þessari viðurkenningu sem maður ársins frá tímaritinu Times: "Til hamingju. Þú hefur verið valin(n) „maður ársins“ af tímaritinu Time. Það eru reyndar allir „borgarar hins stafræna lýðveldis“, sem orðið hafa fyrir valinu að þessu sinni, það er að segja, allir sem nota Veraldarvefinn eða búa til efni á hann. ".

Þetta kemur mjög á óvart. En ég er samt tilbúin með mynd af mér sem ég tók á heimili mínu í Sigtúni af mér sjálfri með útsaumaðan púða sem ég bróderaði sjálf og með rjúpur eftir Guðmund frá Miðdal. Það er náttúrulega ekki nógu heimsborgaralegt að sitja í Sigtúni en ekki út í hinum víða heimi í einhverri erlendri höfuðborg.

En hérna í Sigtúni  við borðstofuborði  á  ég  löngum mitt sæti þegar ég blogga og  úti við kvikar borgin sem einu sinni var sjávarpláss með gný sinn og læti. Og hálfvegis vakandi og hálfvegis sofandi eins og í draumi  hér við fartölvuna þá heyri ég þytinn í aldanna sígandi straumi því um gluggann sé ég amerísku öldina í íslensku þjóðlífi líða hjá og alþjóðavæðinguna byrgja útsýni til himinhvolfanna. 

Ég sé Blómaval þar sem einu sinni var gróðurhús og verslun en þar sem  núna er brunaútsala á dótinu sem ameriski herinn skildi eftir þegar hann fór og ég sé tvíburaturnana nýju í Reykjavík teygja sig til himins í hótelbyggingunni við Grand hótel.

 p.s. þetta með rjúpurnar og púðann er vísun í viðtal við Dorrit í Nýju lífi, þar er allt í útsaumi og hún faðmar leirrjúpur sem sagðar eru eftir Guðmund frá Miðdal og mér sýnist þær bara svipaðar og rjúpnastyttan sem ég keypti um árið af Marsibil á Skólavörðustígnum og sem ég hef alltaf haldið að séu frá Funa. Á mínum rjúpum stendur GE 1948 ISLAND.   Það er líka farið með ljóð eftir Jón Helgason í þessu bloggi, stemminguna frá því hann var í Kaupmannahöfn að skoða handritin í bókasafninu þar.


mbl.is Tímaritið Time velur „borgara stafræna lýðveldisins“ mann ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband