Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað hefði Jónas verið að bauka í dag?

Núna um helgina er hyllingarhátíð Jónasanna, háskólarnir hylla þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson með vandaðri dagskrá á Jónasarstefnu, ég var að skrá mig í Þingvallaferðina á morgun. Það er fínt að fara einu sinni á ári á Þingvöll og strengja sín heit og gaman að gera það undir góðri leiðsögn. 

Fyrsta erindið á Jónasarhátíðinni í dag er erindið "Var Jónas vinstri-grænn?"  Ég brosti við þegar ég sá þennan titil, hann endurspeglar þrá mannanna til að heimfæra allt upp á sinn samtíma. En ég fór að hugsa... hvað hefði lærdómsmaður eins og Jónas haft áhuga á í dag, hann sem var boðberi nýrra tíma og nýrrar hugsunar á svo mörgum sviðum, hann var ekki  eingöngu skáld heldur var hann náttúruvísindamaður og leitandi sál.  Mörg af verkum Jónasar eru byggð á hugmyndum annarra skálda og fræðimanna, sérstaklega danskra og þýskra.

Ég ætla að nota helgina til að lesa aftur ævisögu Jónasar eftir Pál Valsson og lesa vefinn um Jónas og ef ég hef tíma þá ætla ég að bæta í wikipediagreinina um Jónas eða jafnvel skrifa sérstaka wikibók um Jónas. Ég hugsa að Jónas hefði verið hrifinn af wikimedia verkefnum. Hann hefði örugglega gert það sama og ég reyni að gera, hann hefði sett inn greinar á íslensku sem lýsa íslenskri náttúru. Ég hef t.d. sett inn greinar á íslensku wikipedia  um gabbró og surtarbrand og  ofauðgun og eiturþörunga og fiska eins og ála og loðnu og lúðu.

Jónas hefði ekkert verið að setja það fyrir sig að framlag mitt og annarra er skoplítið þegar horft er til þess hve mikið verk er óunnið, hversu mörgum náttúrufyrirbærum og verum þarf að lýsa og tengja hvert við annað.  Var það ekki hann sem kvað:

Bera bý
bagga skoplítinn
hvert að húsi heim.

Ég held að Jónas hefði alveg haft smekk fyrir verkfæri eins og wikipedia til Íslandslýsingar, svona höfundarlausum samvinnuskrifum en hann hefði kannski ekki verið neitt sérstaklega þekktur í dag og ekki verið hampað og  upphafinn af samfélagi nútímans - samfélagi  höfundanna og höfundarétthafanna. En andi Jónasar og þeirra sem höfðu áhrif á hann lýsir ennþá upp sál okkar. Mér finnst skemmtilegra að lesa ljóðið hans um alheimsvíðáttuna heldur en reikna út hvort ég hafi kolefnisjafnað nógu miklu í dag.  

Alheimsvíðáttan

(Hugmyndin er eftir Schiller)

Eg er sá geisli,
er guðs hönd skapanda
fyrr úr ginnunga
gapi stökkti;
flýg eg á vinda
vængjum yfir
háar leiðir
himinljósa.

Flýta vil eg ferðum,
fara vil eg þangað,
öldur sem alheims
á eiði brotna,
akkeri varpa
fyrir auðri strönd
að hinum mikla
merkisteini
skapaðra hluta
við skaut alhimins.

Sá eg í ungum
æskublóma
stjörnur úr himin-
straumum rísa,
þúsund alda
að þreyta skeið
heiðfagran gegnum
himinbláma.

Sá eg þær blika
á baki mér,
er eg til heima
hafnar þreytti;
ókyrrt auga
sást allt um kring;
stóð eg þá í geimi
stjörnulausum.

Flýta vil eg ferðum,
fara vil eg þangað,
Ekkert sem ríkir
og Óskapnaður;
leið vil eg þreyta
ljóss vængjum á,
hraustum huga
til hafnar stýra.

Gránar í geimi,
geysa ég um himin
þokuþungaðan
þjótandi fram;
dunar mér á baki
dökknaðra sóla
flugniður allra,
sem fossa deyjandi.

Kemur þá óðfluga
um auðan veg
mér í móti
mynd farandi:
"bíddu flugmóður
ferðamaður!
heyrðu! hermdu mér,
hvurt á að leita?"

""Vegur minn liggur
til veralda þinna;
flug vil eg þreyta
á fjarlæga strönd,
að hinum mikla
merkisteini
skapaðra hluta
við skaut alhimins.""

"Hættu, Hættu!
um himingeima
ónýtisferð
þú áfram heldur;
vittu að fyrir
framan þig er
Ómælisundur
og endaleysa."

""Hættu, Hættu!
þú sem hér kemur,
ónýtisferð
þú áfram heldur;
belja mér á baki
bláir straumar,
eilífðar ógrynni
og endaleysa.""

Arnfleygur hugur!
hættu nú sveimi;
sárþreytta vængi
síga láttu niður;
skáldhraður skipstjóri,
sköpunarmagn!
fleini farmóður
flýttu hér úr stafni.

 


Femínistafélagið - fjórði aðalfundurinn

Hér eru 54 myndir frá aðalfundi Femínistafélags Íslands 2007  sem haldinn var í gærkvöldi á Hallveigarstöðum. Hér er sjálfkeyrandi myndasýning


Nýja Ísland í Debrecen í Ungverjalandi

Það er íslensk nýlenda í borginnin Drebrecen í Ungverjalandi, þar eru nú sextíu íslenskir nemar að læra læknisfræði og þeim fer fjölgandi. Þar er gott að vera. Ég hitti tvo þeirra í rútunni á flugvellinum í Búdapest, þau voru að koma heim til sumardvalar. Hér er grein í læknablaðinu um íslensku nýlenduna í Debrecen.

Sjómannadagurinn í Búdapest - hetjugarðar,hryllingshús, minningarreitir, kastalar og lesbíur

Það er  öðruvísi að halda upp á sjómannadaginn hérna í Búdapest heldur en í Grindavík eða við Reykjavíkurhöfn. Hér er ekki menning hafsins og hér eru engar strandir sem mæta úfnum  úthöfum. Í  miðri Evrópu fjarri öllum ströndum er grejsa hirðingjaþjóðinnar  Ungverja og í gegnum landið flæðir fljótið Dóná.

hryllingshúsið í Búdapest

Hér er ég fyrir utan Hryllingshúsið í Búdapest á sjómannadaginn 2007 ásamt stúlku frá Istanbúl sem er í doktorsnámi í Utrecht.

En hérna var sjómannadagurinn hjá mér  eins og áður dagur minninga og dagur þar sem vatnið speglar  ímynd mína. Það voru þó ekki mínar eigin minningar heldur minningar ungversku þjóðarinnar og endurskrifun á sögunni með augum valdhafanna sem flæddu um hug minn og vatnið sem speglaði minningar og ímynd var ekki Atlandshafið heldur elvan Dóná.

Á sjómannadaginn fórum við  í kynnisferð um borgina undir leiðsögn Adreu Peto.

Hetjutorgið í BúdapestVið skoðuðum hetjutorgið og horfðum upp á erkiengilinn Gabríel sem gnæfir yfir ættbálkahöfðingjunum sjö og sumar sögðu  að þar yrði fínt að skipta honum út fyrir gyðjuna þegar sá tími kæmi.  Það er alltaf verið að skipta út styttum og brjóta niður minnismerki og búa til nýjar sköpunarsögur um mannkynið og þjóðirnar. Þetta torg er Arnarhóll þeirra Ungverja og við hann er tengd upprunasaga þjóðarinnar, það var á svipuðum tíma og Ingólfur fann sínar öndvegissúlur sem fyrsti ungverski  höfðinginn kom á bakka Donár og leit yfir fagurt land og gott til búsetu og ákvað að setjast þar að.

 

Leið okkar lá svo í Andrássy strætið  nr. 60 en þar er  Terror Háza minningasafn eða hryllingssafn um ógnarstjórnir annars vegar nasista og hins vegar kommúnista. Þar er dregin upp mynd af sögunni frá síðari heimsstyrjöldinni eins og Ungverjar nútímans vilja heyra hana. Það var einkennilegt að ganga þar um að heyra söguna sagða út frá þessu sjónarhorni, sjá hvernig sagan var teygð og toguð og bjöguð í máli og myndum til að passa inn í minningar nútímans. Sagan var líka teygð í orðsins fyllstu merkingu, ljósmyndir af Stalín og Lenín eru teygðar á þverveginn  þegar gengið er inn um hliðið í sýninguna um kommúnistastjórnina. Þó að sagan sé bjöguð og endursögð frá einu sjónarhorni þá er hún að hluta til sannleikur. Húsið  var á sínum tíma miðstöð leynilögreglu Nazista og síðar Stasi og í kjallaranum eru raunverulegar fangageymslur og pyndingarklefar.

 Við skoðuðum kastalann á hæðinni í Buda og  málverkasafnið þar með dýrgripum ungversku þjóðarinnar. Elstu myndirnar voru flestar af bardögum og sókn og sigrum Ungverja yfir  Mongólum og Tyrkjum. Á einni myndinni sem lýsti fornri orustu benti Andrea okkur á að sigurvegararnir veifuðu ungverska fánanum jafnvel þótt orustan hafi átt sér stað mörg hundruð árum áður en þessi þríliti fáni varð til.  Fyrir framan kastalann er dýrlegt útsýni yfir Dóná og þinghúsið á hinum bakkanum.

Styttugarðurinn í BudapestVið fórum í styttugarðinn sem er minningareitur fyrir styttur og minnismerki frá kommúnistatímanum, svona grafreitur fyrir styttur sem sýna hugmyndir og persónugervinga hugmynda sem ekki eru tignaðar lengur í vestrænu og markaðsþenkjandi Ungverjalandi.

Ferðin um Búdapest endaði við basiliku heilags Stefáns en þar er helgidómurinn allur á einni hendi, heilagri hendi St. Stefáns sem þar er varðveitt og er þessi líkamspartur borinn um kirkjuna á háheilögum dögum.

Ég fór svo út að borða á veitingastað í miðbænum í Búdapest með fjórum konum úr Athena netinu. Þær stunda allar kynjarannsóknir, tvær þeirra vinna við upplýsingaveitur um kvennasögur og tvær þeirra prófessorar í kynjafræði. Við borðuðum á veitingastað sem helgaður var goðsögninni um Kentárus sem var hálfur maður og hálfur hestur. Við ræddum um kynjamisrétti og kynjamismunum og samkynhneigð en báðir prófessorarnir eru lesbíur og aktívistar. Önnur þeirra gegnir reyndar líka prófessorstöðu í samkynhneigð við háskólann í Amsterdam en það mun vera eina staðan í heiminum á því fræðasviði. Hún hefur rannsakað sögu kvenna í Indónesíu og Afríku.

Sjómannadagurinn í ár var heimsókn á minningarreiti ungversku þjóðarinnar og ég hugleiddi hvernig minningar þjóðar verða til og hvernig minningaþræðir einstaklinga tvinnast um minningar þjóða. Hugurinn hvarflaði á slóð minna eigin minninga við Íslands strendur og ég hugleiddi að hvernig minningarreitir og tilbúnir atburðir og sýningar  búa til sannleika og sögu sem er mismunandi eftir því hvaða sjónarhorn fær að segja söguna og lýsa raunveruleikanum.

 


Islendingur arsins 2006

Innilegar samudarkvedjur til allra adstandenda Astu Lovisu.   Eg hef fylgst med blogginu hennar og bloggi annarra sem skrifa um veikindi og erfidleika sem their glima vid. Eg held ad svona skraning a hvernig folk tekst a vid erfidleika geti verid einn lidur i ad byggja sjalfan sig upp. Thad er gott ad  geta ordad hugsun sina og sott styrk i adra sem hafa einhverju ad midla - annad hvort af thvi their hafa gengid i gegnm sams konar erfidleika eda vegna thess ad their hvetja mann afram eda vegna thess ad their bua yfir thekkingu sem madur hefur ekki sjalfur.

Eg hugsa til nemanda mins sem sagdi mer fra thvi hvernig hun held uti bloggsidu a medan hun var i medferd erlendis og eg las bloggid hennar sem spannar nokkra manudi. Thad var einstaklega skemmtilegt tho hun skrifadi thad undir erfidum adstaedum, hun sagdist alltaf hafa reynt ad skrifa a  jakvaedum notum og sja broslegu hlidarnar og hun sagdi ad thad hefdi glatt sig mjog mikid ad fa komment fra aettingjum og vinum heima a Islandi vid sin skrif.


mbl.is Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Feik bloggarar - fólk sem er ekki til

Hrólfur sem bloggar á hrolfur.blog.is  og og Anna Dögg sem bloggar á  blogg.visir.is/annadogg eiga eitt sameiginlegt. Þau eru ekki fólk. Þau eru tilbúnar persónur og leikbrúður einhverra í Netheimum.

Hrólfur er bókmenntapersóna og hugarfóstur. Það var nú reyndar strax auðvelt að sjá glytta í tómið í sál hans, andfemíniskt hjal hans ásamt því að vera svona drepfyndinn vakti strax grunsemdir. Það einkennir nefnilega alltaf andfemínista að þeir eru aldrei drepfyndir, þeir eru hins vegar undantekningalaust drepleiðinlegir. Ég man t.d. eftir einum frjálshyggjuungliða sem heitir Sævar sem var alltaf að tjá sig undir nafninu Ásta og þóttist vera femínisti og bjó til sérstakt blogg fyrir ruglið sitt og póstaði ljóð eftir sjálfan sig og póstaði alls konar rugl inn á femínistapóstlistann. Við vorum alveg að farast úr leiðindum við að lesa skrif hans sem einkenndust af ófrumleika og vitleysisgangi en kunnum ekki við að segja honum að dulargervi hans var álíka öflugt eins og úlfur hefði sett á sig einn ullarlagð og héldi að hann liti út eins og lamb. Svo var hann líka ömurlegt leirskáld sem var kannski það versta.

En Hrólfur er bráðfyndinn og samúð höfundar hans með femínistum skín út úr skrifunum. Ég póstaði fyrir nokkrum dögum á bloggið hans Hrólfs:

Ég er ekki viss um að Hrólfur Guðmundsson sé til, kannski er hann alter egó einhvers sem vill prófa sig í öðru vísi gervi. Ágæt sögupersóna og frekar fyndinn karakter í kvenhatri sínu og beisku. Minnir á rokland.blogspot.com

 

Anna Dögg er auglýsing sem hefur verið holdi klædd og gefið nafn og samastaður í bloggheimum. Hennar eini tilgangur með hérvist sinni virðist vera að auglýsa upp íslenska veðmálavefinn Betsson. Til þess er búin til persóna sem vísar á Betsson og upphefur veðmál og til að lokka einhverja stráka til að lesa bloggið þá eru birtar myndir af stelpum að berhátta sig og það sagt vera úr fatapóker sem "Anna Dögg"  stundar. En eftir nokkrar bloggfærslur hefur "Anna Dögg" fundið Guð sinnn og tilgang í lífinu og bloggið segir:

Eftir fatapókerinn hef ég ákveðið að játa mig sigraða á pókersviðinu Petra plataði mig til að skrá mig á betsson.com og ég fann fjárhættuspil sem henta mér miklu betur - slot machines

 Svo er gríman næstum alveg fallin því Betson auglýsingin kom aftur í gær. "Anna Dögg" segir þá á veðmálaauglýsingablogginu og sá sem skrifar auglýsinguna passar sig að tengja nú í ólöglega veðmálavefinn:

Sjæse. Ég var í vænu þunglyndi eftir einkunnirnar sem duttu inn í gær svo ég ákvað að fara í hangsið mitt, slot machines á Betsson, og setti þar einhverja þúsundkalla undir og spilaði í rúman klukkutíma og hvað annað en vann ég allt í allt 126.000 krónur! Díses og ég sem vinn aldrei neitt. Hahaha úff hvað ég get notað þetta ;o)

Var einmitt í vandræðum með að fara og tuða í Lín út af prófinu.

Ekki lengur!!

Er farin á subway að halda upp á þetta.


Íslendingar hafa í margar aldir ferðast milli álfheima og mannheima og ófreskir menn eiga  ekki alltaf gott að sjá  hver er álfur, hver er umskiptingur og hver er raunverulegur maður. Núna er ferðalagið milli mannheima og netheima og fólkið í netheimum er sumt umskiptingar og sumt uppvakningar og hugarfóstur.


Nauðgunarleikurinn RapeLay

Það er mjög einkennilegt að einhver skuli vilja vista og dreifa tölvuleiknum  Rapelay
og bera fyrir sig að gera það í nafni frelsis og sérstaklega tjáningarfrelsis. Hér er lýsing á hluta af því sem gerist í þessum leik (tekið af umsagnarsíðu sem wikipedia greinin vísaði á):

After the static screens you enter a full-fledged rape sequence in the park. It's very scenic. Yuuko cries and screams as you would expect and you can force her into a variety of positions. Once you're done, you take photographs of her naked and covered in ghost jizz, which allows you access to her two daughters, Aoi and Manaka. Aoi Kiryuu, whose name is pronounced exactly like the sound a fire engine's siren makes, is the elder daughter and a sporty schoolgirl. You pray for upskirt and molest her on the subway just like mom, but this time you rape her in a grungy bathroom. She and her younger sister are both virgins, which means the first time you rape them ..

Finally, there is wee Manaka Kiryuu. She looks about ten and you get to rape her in her gigantic bed while teddy bears look on. This was certainly the most disconcerting of the rapes in the game. Not only does she look like a child, not only does her room looks like a child's roombut Manaka visibly cries. If you zoom in on her face you can see tears welling and vibrating in her gigantic eye sockets. Once you have raped all three women you enter the freeform phase of the game where you "rape train" the three ladies.

Þeir sem bera fyrir sig að það sé partur af tjáningarfrelsi til að dreifa svona mannskemmandi efni skilgreina frelsið afar þröngt og einkennilega. Er það frelsi að ýta undir ofbeldi og hatur á ákveðnum þjóðfélagshóp  og kenna hvernig á að misþyrma og svívirða konur og börn? Er það frelsi að dreifa og hafa á boðstólum efni sem er löðrandi af kvalalosta og kvenhatri?

Við  erum að sumu leyti orðin ónæm fyrir hve mikil mannfyrirlitning felst í leikjum sem þessum vegna þess að við lifum í samfélagi sem upphefur  ofbeldi á konum og gerið það að afþreyingarefni . Á  sjónvarpsstöðvunum  er gjarnan skemmtiefni að sýna limlestar og kvaldar konur  t.d. sem sögupersónur (fórnarlömb) í sakamálasögum og close up af líkum þeirra og og sárum eftir morðingja þeirra.  Oft eru senurnar sem sýndar eru hálfpornógrafiskar og sjónarhornið er sjónarhorn kvalalosta og dvalið við vald morðingjans (nánast alltaf karlmanns) og valdaleysi hinna myrtu/kvöldu (oftast ungar konur).

En það er erfitt að horfast í augu við raunveruleikann því það er eins og að vakna upp og horfa á hryllingsmynd. Adam Horovitz í bandinu Beastie Boy orðar það svo: "Sexism is so deeply rooted in our history and society that waking up and stepping outside of it is like I'm watching "Night of the Living Dead Part Two" all day everyday."


mbl.is Nauðgunarleikur fjarlægður af íslenskri vefsíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kleppur Hraðferð - Talað fyrir Hinn

Kleppur er 100 ára í dag. Hann er partur af bernsku minni. Strætisvagninn í hverfinu sem ég ólst upp í hét "Kleppur hraðferð". Ég átti heima í Laugarnesinu og við lékum okkur stundum í Vatnagörðum þar sem í sást til Kleppspítalans. Þaraskógurinn í fjörunni var eins og hættulegur frumskógur þar sem við óttuðust ekki ljón eða hlébarða eða sæskrímsli - heldur að sjúklingar sem sloppið hefðu af Kleppi myndu ráðast á okkur.

Svo breyttust tímarnir og viðhorf mín breyttust.  Geðsjúklingar fóru inn á geðdeildir og ég hætti að vera hrædd við geðsjúka og fór líka að efast um allar manngerðar markalínur - hver er veill á geði og hver ekki. Líka að að skilja að margir tapa þræði einhvern tíma á lífsleiðinni en flestir ná aftur að vinda saman spottann, sérstaklega ef umhverfið og samfélagið styður við þá.

Umfjöllunin í Morgunblaðinu í dag var ítarleg, það kom ýmislegt fram um sögu Klepps og geðlækninga á Íslandi. En það var ein sýn sem gegnsýrði þessa umfjöllun. Það var að saga Kleppspítala var sögð í gegnum  sögu stjórnenda þar og þeirra sem ráða í samfélaginu. Þetta er merkileg saga en hún er bara ein hlið á sögu geðlækninga. Þetta er svona svipað eins og að segja sögu iðnaðarsamfélags á Íslandi með því að segja sögu einhvers iðnrekenda og kalla það sögu um aðbúnað verkafólks, fjalla um hvaða kenningar um hagkvæmni í rekstri notðai til að framleiða einhverja vöru en segja ekkert frá kjörum verkafólksins nema í gegnum auga iðnrekandans sem auðsjáanlega hefur tilhneigingu til að fegra sinn hlut og gera mikið úr mikilvægi sínu til að bæta kjör verkafólksins. Það væri miklu sniðugra að segja söguna um kjör verkafólksins með því að fylgja einhverju þeirra eftir og tala við það, ekki við þann sem stjórnar rekstrinum.

Það vantar mikið í svona sögu eins og sögð er um Kleppspítalann í Morgunblaðinu í dag. Það vantar rödd þess sem er hinum megin við borðið, það  vantar sögu þolandans, það vantar rödd þess sem lagður var inn á Kleppspítala. Ég held að það yrði öðruvísi saga, ég held að það verði saga pyndinga og ófrelsis. Ég held að allir ættu að lesa bloggpistil Sigurðar Þórs Guðjónssonar, hann veit alveg hvað hann er að tala um, hann skrifaði bókina Truntusól sem er einmitt saga af geðdeild sögð frá sjónarhóli sjúklings. Hann var sjúklingurinn. Bloggið hennar Hörpu fjallar líka oft um geðsjúkdóma frá sjónarhóli þolandans t.d. þessi  bloggpistill um geðlyf  Á ég þá bara að verða ga-ga?

Ég hef heyrt marga rannsakendur í kvennafræðum nota þetta hugtak  "talking for the Other" og hafna því að maður geti talað fyrir Hinn (þ.e.hóp sem maður tilheyrir ekki). 


Plott hjá strákunum

Valgerður Sverrisdóttir er mjög frambærileg stjórnmálakona og mikið vildi ég óska að hún hefði boðið sig fram sem formann Framsóknarflokksins þegar Halldór Ásgrímsson lýsti því yfir eftir úrslit borgarstjórnarkosninganna í fyrra að hann ætlaði að segja af sér vegna þess að Framsóknarflokkurinn fékk svo lítið fylgni. Og verið jafnsnögg að því og hún er núna að lýsa því yfir að hún sækist eftir að verða varaformaður Framsóknarflokksins. Þá hefði ekki þessi vægast sagt skrýtna og að margra mati afkáralega atburðarás hafist.  

Niðurstöður alþingiskosninganna núna og lítið brautargengi Jóns Sigurðssonar hjá kjósendum í Reykjavík og það að hann komst ekki á þing á ekki að koma á óvart. Þetta var mjög sambærilegt fylgi og Framsóknarflokkurinn fékk í borgarstjórnarkosningunum undir forustu Björns Inga. Það var engin ástæða til að ætla að Jón fiskaði eitthvað betur en Björn Ingi, þeir stóðu sig báðir ákaflega vel og auglýsingaherferðin var í bæði borgarstjórnar og alþingiskosningum rekin eins og þessi framboð væri einleikur Jóns og Björns Inga og þeir væru persónugervingar á stefnu Framsóknarflokksins, andlit og rödd og viðhorf flokksins. Það er komin nokkuð góð mæling á það hvað svona strákaframboð trekkja  ef auglýst er nógu brjálæðislega mikið, það er svona kringum 6 prósent hérna í Reykjavík.

Undanfarin misseri hafa verið tími hinna mislukkuðu formannaplotta hjá Framsóknarflokknum. Það hefur hver erfðaprinsinn á fætur öðrum birst á sviðinu og strákarnir talað upp stemmingu... meira segja talað af svo mikilli sannfæringu að Mogginn hefur margoft látið blekkjast og birt flopp skúbb um innkomu þessara og hinna.  Það hefur vægast sagt verið lítil ending og þolgæði hjá þeim sem hafa verið talaðir upp  í formanninn á þessum tíma. Árni Magnússon, Finnur Ingólfsson og Jón Sigurðsson eru ekki með í sögunni sem nú spinnst fram.  Björn Ingi er núna í umræðunni og tíminn á eftir að leiða í ljós hvort hans bíða sömu  örlög og hinna sem kallaðir voru en stöldruðu einungis við á sviðinu skamma stund. 

Svo ég segi bara hreinskilnislega þá held ég að framboð Valgerðar núna í varaformanninn sé ennþá eitt plottið hjá strákunum - þeim sömu og stóðu að Freyjumálinu í Kópavogi og sem hafa staðið að hverju mislukkaðra plottinu á fætur öðru í flokknum. Þessi plott hafa bara verið svo yfirmáta vitlaus og grunn að það fer alltaf allt í vitleysu. Mörg af þessum plottum virðast miða að því að leggja stein í götu Sivjar Friðleifsdóttur. 

Valgerður segir að hún vilji vinna að innra starfi og uppbyggingu í flokknum. Halldór Ásgrímsson sagði  þegar úrslitin í borgarstjórnarkosningunum voru kunn að nú hæfist uppbygging Framsóknarflokksins.  Jón Sigurðsson sagðist líka ætla að vinna að innra starfinu og uppbyggingu. Á þeim skamma tíma sem Jón var formaður flokksins varð ég ekki vör við að hann reyndi að breyta innra starfi flokksins og á þeim tíma sem ég hef verið virk  í Framsóknarflokknum hef ég ekki tekið eftir neinum afskiptum  Valgerðar Sverrisdóttur að innra starfi flokksins hérna á höfuðborgarsvæðinu nema að ég tók eftir að hún var eina manneskjan sem bar blak af innrásarmönnum á fundi sem ég fór á hjá Landsamtökum Framsóknarkvenna rétt eftir þessa skrýtnu og siðlausu innrás í kvenfélagið Freyju í Kópavogu og bæði aðstoðarmaður hennar í iðnaðarráðuneytinu (Páll Magnússon) og aðstoðarmaður hennar í utanríkisráðuneytinu (Aðalheiður Sigursveinsdóttir) eru bendluð við þessa þessa innrás í kvenfélag í Kópavogi.

Það vakti líka athygli og hneykslun mína á sínum tíma að Valgerður Sverrisdóttir var heiðursgestur á einhverjum stofnfundi um nýtt Framsóknarkvennafélag sem þær konur sem reyndu að taka yfir Freyju (að því er allir halda til að tryggja völd sona sinna, eiginmanna og karlkyns ættingja) þegar þær stofnuðu eitthvað sérstakt félag sem ég man nú reyndar ekki hvað heitir og sem ekkert hefur starfað að ég veit. Það vakti athygli mína að stofnfundur þess félags var ekkert auglýstur. Þetta lofar vægast sagt ekki góðu um hvernig Valgerður ætlar að byggja upp innra starf í Framsóknarflokknum hér á höfuðborgarsvæðinu. 

Ég hef ekkert séð sem bendir til neinnar uppbyggingar eða breytinga á vinnubrögðum undanfarin misseri í Framsóknarflokknum þrátt fyrir tal um það. Ég veit ekki hvaða merkingu fólk setur í innra starf en ég get sagt það að ég hef ekki orðið vör við neitt sem getur flokkast undir að byggja upp innra starf Framsóknarflokksins í mínu kjördæmi í Reykjavík norður. Ég hef margoft bæði á innanhússpóstlista Framsóknarflokksins og í ræðupúltum á fundum bent á ömurlega og siðlausa starfshætti í framsóknarfélaginu í Reykjavík norður (sama kjördæmi og Halldór Ásgrímsson og Árni Magnússon voru í) og ég hef sent bréf til  Framsóknarflokksins þar sem ég hef lýst furðulegum og óheiðarlegum vinnubrögðum í félaginu. Ég hef séð dæmi um lygilega óheiðarleg vinnubrögð í Framsóknarflokknum og það sem mér finnst ennþá verra er að ég hef séð forustumenn Framsóknarflokksins líta framhjá þessum vinnubrögðum og sækja styrk sinn og ráðleggingar til hópa sem stunda svona vinnubrögð.

 


mbl.is Valgerður: Tilbúin að takast á við varaformannsembættið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðslokadagur - SS og sveitirnar

Það er ágætis fólk í ráðherraliði hinnar nýju ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og það ber að fagna því að bak við þessa stjórn er stór hluti kjósenda - frá sjónarhóli fulltrúalýðræðis þá er þetta eiginlega besta lausnin á stjórnarmynstri - að tveir stærstu flokkarnir taki höndum saman. Svo finnst mér þessi samsteypa innsigla eins konar stríðslok og vendipunkt í íslenskum stjórnmálum. Ísöld kalda stríðsins lauk fyrir löngu á Íslandi, ameríski herinn flaug í burtu í vetrarbyrjun eftir að hafa ekki gert neitt hérlendis nema þvælast í mörg ár. Átökin í stjórnmálum eru ekki lengur hægri-vinstri ás þar sem yst á ásunum  eru kapítalismi og kommúnismi.  Átökin eru meira um frelsi og hreyfanleika fólks og fjármagns, hver má tala og hverra sannleikur fær að hljóma, hver má umbylta og nytja náttúru landsins og hvernig. Það er áframhaldandi upplausn þjóðríkisins sem ekki getur endað nema á einn veg og það er sterk undiralda um jafnrétti allra burtséð frá kynferði og þjóðernisuppruna. Átökin eru líka að sumu leyti borgarsamfélagið og sveitirnar og í þessari lotu haf sveitirnar tapað. Stefna SS flokkanna og málefnasamningur þeirra vinnur fyrir borgarsamfélag á Íslandi og alþjóðahyggju. 

Ég fletti upp í Wikipedíu hvað hefði gerst í mannkynssögunni á þessum degi 24. maí þegar nýja stjórnin tók formlega við völdum.  Þennan dag árið 2002 skrifuðu forsetar USA og Rússlands undir afvopnunarsamning um kjarnorkuvopn (SORT treaty), þennan dag árið 1949 endaði umsátur Sovétmanna um Berlín (Berlin Blockade). Árið 1941 var háð á sjóorusta á hafsvæði milli Íslands og Grænlands þar sem þýska skipið   Bismarck sökkti breska skipinu HMS Hood . Þennan dag árið 1956 var Evrópska söngvakeppnin haldin í fyrsta skipti. 

Svo fæddust Bob Dylan og Viktóría Bretadrottning þann 24. maí. og sænski kóngurinn Magnús hlöðulás var krýndur þennan dag árið 1276. Ýmsar tilgátur eru um hvernig viðurnefni Magnúsar er tilkomið en ein tilgátan er sú að hann hafi sagt "Bændur, læsið hlöðum ykkar" og hafi þar átt við að bændur þyrftu ekki að þola að valdsmenn kæmu og rændu vistum frá bændum og tæku eigur þeirra. Magnús hlöðulás er þekktastur fyrir Alsnö stadga en þar tilskipun frá konungi um frelsi og ferðalanga, það er tiltekið hvað höfðingjar verði að greiða fyrir gistingu og beina hjá alþýðu á yfirreið sinni um héruð og hvernig þeir megi hegða sér.

 Hér á Íslandi gerðist það markvert þennan dag að árið 2004 samþykkti Alþingi frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum sem síðar var neitað um undirskrift forsetans. 

Það er gaman að bera saman ríki Magnúsar hlöðuláss og hina nýju stjórn á Íslandi og bera saman stjórnarsáttmálann núna við skjöl eins og Alsnö stadga

Hvað hefur breyst og hvað er eins og það var á 13. öld? Þurfa ekki stjórnvöld  ennþá að tryggja frelsi og hreyfanleika en samt að passa að hinir voldugu noti ekki völd sín til að ræna og rupla og aféta hina fátæku? Hvaða orðalag myndi maður nota í dag til að vara við ágengni höfðingja? Varla er hægt að segja "bændur, læsið hlöðunum ykkar!" núna þegar fáir eru ennþá bændur og þeir fáu eru ekki endilega með hey og vistir og verðmæti í hlöðum sínum.  Þeir eiga ekki einu sinni hlöður og laust hey í hlöðum sínum, það er allt komið í rúllubagga. Annars er tákn fyrir nútímann og Ísland í dag einmitt  hvítu rúllubaggarnir, um sláttinn eru öll þakin af þessum risastóru haglkornum.

Eru kannski helstu breytingarnar núna að völdin eru að fara frá kjörnum fulltrúum og þjóðríkjum yfir í fjölþjóðleg fyrirtæki sem geta auðveldar leynt upplýsingum og falið slóð sína og ítök og flutt verðmæti þangað sem mest hagnaðarvon er. 


mbl.is Ný ríkisstjórn tekin við völdum - lagt á djúpið í herrans nafni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband