Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Litla frænka að braggast

Litla frænka er ennþá á vökudeildinni og hún fær lyf þar og þarf að vera þar í nokkra daga. En hún er öll að braggast og í dag var hún í fyrsta skipti vakandi í langan tíma. Hún var bara einn dag í hitakassa og í dag fékk hún að vera stóran hluta dagsins hjá mömmu sinni á fæðingardeildinni. Ég tók margar, margar myndir af henni núna síðdegis í dag til að pabbi hennar og litlu systur hennar tvær sem eru fyrir vestan geti séð hvað hún er falleg. Hún er sex daga gömul í dag og það er ótrúlegt hvað hún hefur breyst mikið í útliti og hvað hún er farin að virða fyrir sér heiminn.

 Litla frænka 6 daga gömu

Litla frænka 6 daga gömu

Litla frænka 6 daga gömul

litlafraenka5dagagomul
Þessa mynd tók ég af henni á vökudeildinni í gær. Hún er á vigt því það þarf að vigta hana fyrir og eftir hverja brjóstagöf til að fylgjast með að hún fái nóga næringu.

 

Hér eru myndirnar af henni.

Kambsránið og Flateyri

Fyrir 180 árum réðst hópur grímuklæddra manna inn á bóndabæ á Suðurlandi, bundu húsráðendur, brutu upp kistla og rændu um 1000 ríkisdölum. Þetta var Kambsránið, eitt frægasta sakamálið á Íslandi á sinni tíð. Í kjölfarið komst upp um glæpaklíku sem hafði rænt víða. Þuríður formaður á Stokkseyri var í hlutverki rannsóknarlögreglumanns og átti þátt í að upp komst um ránsmennina en tveir þeirra voru nú einmitt bátsverjar á hennar bát. 

Núna árið 2007 þá hættir fyrirtækið Kambur á Flateyri vinnslu og segir upp öllu starfsfólki og selur væntanlega kvótann burt úr plássinu. Það verða 120 manns eða flestir vinnandi menn á Flateyri sem  missa vinnuna og í einni sviphendingu er fótunum kippt undan byggðinni þarna og eignir fólks gerðar verðlausar. Tjónið er örugglega meira en þeir  1000 ríkisdalir sem voru ránsfengurinn í Kambsráninu forðum daga. Þingmenn Norðvestur kjördæmisins eru ráðþrota. Það er enginn Þuríður formaður í dag á Vestfjörðum sem getur upplýst Kambsránið og  bent á sökudólginn.  

Íbúar á Flateyri eru fórnarlömb sjávarútvegsstefnu þar sem kvótinn og þar með rétturinn til  að veiða fisk var gefinn til útgerðarmanna og gengur kaupum og sölum. Það er alveg öruggt mál að þetta fiskveiðistjórnunarkerfi hefur stuðlað að meiri hagkvæmni og hagræðingu í sjávarútvegi á Íslandi og meiri ágóða af útgerð, útgerðarmenn hafa frítt spil að flytja kvótann til staða þar sem hagkvæmast er að gera út, selja kvóta sín á milli og leysa upp fyrirtæki ef upplausnarvirðið er meira en verðmæti fyrirtækisins í rekstri. Ég velti fyrir mér hvort að það hefði ekki verið líka betra fyrir efnahagslíf á Íslandi ef ránsfengurinn  úr Kambsráninu 1000 ríkisdalir hefði komist í umferð á Íslandi á sínum tíma í staðinn fyrir að vera grafinn á kistubotni hjá bóndanum í Kambi. Þó svo væri þá réttlætir það ekki þær gripdeildir og ofbeldi sem ránsmennirnir gerðu sig seka um.

Kvótakerfið í íslenskum sjávarútvegi er  ósanngjarnt og það svínar á fólkinu í sjávarplássunum á íslandi. Við búum í heimi sem trúir á hreyfanleika og frelsi, ver einkaframtakið og einkaeignaréttinn. En fólkið á Flateyri býr í heimi þar sem frelsi og hreyfanleiki fjármagnsins er miklu meiri en frelsi og hreyfanleiki og möguleikar fólksins. Peningarnir geta henst með hraða ljóssins á milli staða á jarðkringlunni og búið um sig þar sem þeir gefa mesta ávöxtun hverju sinni. Það eru aðstæður sem henta ákaflega vel fjármagnseigendum. 

Það er hægt að leysa þetta misvægi á frelsi fjármagns og fólks á tvo vegu. Annars vegar draga úr möguleikum fjármagns til að flæða svona óhindrað og fyrirstöðulaust burt frá plássunum og hins vegar að reyna að auka hreyfanleika og frelsi  fólksins til að skapa sér vinnu. Seinni kosturinn er sennilega skynsamlegri og réttlátari núna þegar kvótakerfið er orðið svo fast í sessi að það er ekki gott um vik að umturna því. Því miður hafa margar aðgerðir í byggðamálum einmitt snúið að hinu gagnstæða því að reyra fólk niður í meiri átthagafjötra og áframhaldandi einhæfa atvinnumöguleika í sínu byggðalagi.

Það er mikilvægt að mögulegt atvinnusvæði sé sem stærst og fjölbreyttast. Það eru komin göng á Vestfjörðum og Flateyingar gætu sótt vinnu á Ísafjörð en þeir þurfa að aka Hvilftarströndina þar sem er oft snjóflóðahætta. Þar aka þeir framhjá ummerkjum um hvalveiðistöðvarnar, ummerkjum um eina stærstu rányrkju og arðrán á Íslandsmiðum þegar norskir ævintýramenn ryksuguðu upp hvalastofnana við Vestfirði. Það eru engin verðmæti eftir í byggðalaginu um þá rányrkju, ekkert nema rústir og strompar frá hvalveiðifabríkkunum. Það er heldur ekkert eftir á Íslandi eftir þá rányrkju því norsku hvalfangarnir greiddu engan skatt af afnotum sínum af auðlindum Íslands.  Það er nú reyndar eitt stásshús á íslandi sem er minnisvarði um þessa tíð en það fékk ekki einu sinni að standa á Vestfjörðum. Það er ráðherrabústaðurinn í Reykjavík sem einu sinni var íbúðarhús hvalfangara og stóð á Sólbakka.

En sagan um arðrán hvalfangaranna er ekki sögð sem saga arðráns og rányrkju, hún er sögð sem framfarir í íslenskri atvinnusögu og niðurrifs hússins á Sólbakka er meira segja sett upp sem dæmi um góðmennsku hvalfangarans, hvernig hann seldi Íslendingum húsið fyrir slikk:

Norski umsvifamaðurinn Hans Ellefsen reisti þar hvalveiðistöð árið 1889 og var hún eitt stærsta fyrirtæki landsins. Stöðin brann rúmum áratug síðar og hóf Ellefsen þá smíði annarrar litlu innar við fjörðinn. Verkinu var hætt þegar búið var að hlaða reykháfinn og stendur hann enn rétt við þjóðveginn. Áður en Ellefsen fluttist brott gaf hann Hannesi Hafstein íbúðarhúsið sitt á Sólbakka ofan við Flateyri. Sumir segja að hann hafi selt honum húsið á eina krónu, aðrir segja fimm krónur. Hannes lét taka húsið sundur og flytja til Reykjavíkur.

Til gamans má geta þess að Einar Oddur þingmaður  býr að Sólbakka og Björn Ingi oddviti okkar Framsóknarmanna í borgarstjórn ólst upp á þessum slóðum. Björn Ingi segir á vefsíðu sinni:

Lengst af áttum við heima í stóru einbýlishúsi að Sólvöllum, beint fyrir ofan gömlu hvalstöð Norðmannsins Hans Ellefsen sem foreldrar mínir keyptu og breyttu í trefjaplastbátasmiðju. Sólbakki, hús Einars Odds Kristjánssonar alþingismanns, er við hliðina á Sólvöllum og hinum megin við er Hvilft, hús Gunnlaugs Finnssonar, fyrrverandi alþingismanns.
 
mbl.is 65 manns og sjómönnum á 5 bátum sagt upp hjá Kambi á Flateyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rödd óbreytta Framsóknarmannsins

Ég fylgist svona í fjarlægð og gegnum fjölmiðla með stjórnarmyndunarviðræðum og nú þegar Framsóknarmaddaman dansar ekki við Geir þá spái ég í hverjir verða ráðskonur í nýrri ríkisstjórn. Ég er líka dottin í að skoða alls konar skrýtin mynstur í hverjir verða í stjórn og hverjir í stjórnarandstöðu. Hefur fólk tekið eftir að allir leiðtogar stjórnarandstöðunnar eru fúlskeggjaðir? Grin Það verður gaman að sjá hvernig skopmyndateiknarar lýsa stjórnarandstöðunni og teikna þá Jón, Steingrím og Guðjón. 

Hér er myndin  sem Halldór skopmyndateiknari teiknaði árið 2006 af Ingibjörgu Sólrúnu í stefnumótaþjónustunni, sjá bloggið hans Styggir vonbiðlar.

 

 

Annars skrifaði ég eftirfarandi bréf áðan inn á innanhússpóstlista Framsóknarmanna:

Ágætu framsóknarmenn,

Ég kalla aftur eftir einhverjum fréttaflutningi og umræðu forustunnar og þingmanna í Framsóknarflokknum við okkur óbreytta Framsóknarmenn. Ég hef verið að skoða vefsetur Framsóknar í Reykjavík www.hrifla.is og vefsetur framsóknarflokksins www.framsokn.is og ég hef ekkert séð sem túlka má sem fréttaflutning til grasrótarinnar í flokknum nema fréttina tvöfeldni í viðræðum.

Allir fjölmiðlar eru núna uppfullir af fréttum og analýsum um Framsókn og ég hlustaði í gær bæði á Siv í Ísland í dag og Björn Inga í Kastljósi þar sem þau lýstu fullum stuðning á formann okkar. En mér finnst afleitt að fréttaflutningur og boðskipti til okkar óbreyttra Framsóknarmanna fari eingöngu fram í fjölmiðlum - af hverju er þá verið að hafa allan þennan félagastrúktúr og stjórn í kringum stjórnmálaflokk ef  það eru engin tengsl við almenna félagsmenn?

Ég segi þetta líka vegna þess að það eru núna að birtast í fjölmiðlum og netmiðlum alls konar fréttir um hinar ýmsu ákvarðanir og plott innanbúðar í Framsóknarflokknum og gert lítið úr Jóni Sigurðssyni og ráðist m.a. á Björn Inga og hann sagður hafa hannað einhverja atburðarás. Þetta er mjög ómaklegt tal og mér myndi verða rórra sem óbreyttum Framsóknarmanni að vita af því að forusta og þingflokkur ætli að vinna í sameiningu úr þeirri stöðu sem núna er komin upp og sjá þau tækifæri sem liggja í stöðunni - tækifæri til að endurskoða og byggja upp öflugan flokk samvinnu og félagshyggju - ekki síst að byggja upp flokksstarfið sem hugsanlega er með blóma í hinum ýmsu Framsóknarfélögum en í Reykjavík Norður þar sem ég hef fylgst með því þá stendur yfir ömurlegt niðurlægingarskeið og hefur stjórn og starfsemi þess félags verið með eindæmum undanfarin ár, ég hef aldrei, aldrei kynnst því að félag sem kennir sig við lýðræðishreyfingu starfi svona og reyni  vísvitandi að drepa niður allt starf.

Það er mikið verk óunnið varðandi það að byggja upp og sætta sjónarmið innan Framsóknarflokksins. Á þeim tíma sem Jón Sigurðsson  hefur verið formaður hefur hann verið í vandasömu starfi iðnaðarráðherra og leitt kosningabaráttu okkar og staðið sig afbragðsvel og aukið mjög á tiltrú á Framsóknarflokknum. Ég hef hins vegar ekki orðið vör við að neitt hafi breyst í innra starfi Framsóknarflokksins enda átti ég ekki von á því að Jón Sigurðsson gæti einbeitt sér að þeim málum fyrr en eftir kosningar og ég bind miklar vonir við Jón Sigurðsson þar.

Ég tek undir með Birni Inga og segi að Jón Sigurðsson hefur 100% stuðning okkar Framsóknarmanna, hann hefur staðið sig eindæma vel á erfiðum tíma hjá Framsóknarflokknum en hann hefur ekki haft þann tíma sem þarf til að byggja upp traust kjósenda og til að sætta fólk og endurskipuleggja innra starfið.

Það var afar dapurlegt hvernig þessar kosningar fóru á höfuðborgarsvæðinu en það er svo sannarlega ekki Jóni Sigurðssyni að kenna. Þetta er sama niðurstaðan og í borgarstjórnarkosningunum fyrir ári síðan. Framsókn er ekki með nema 6% fylgi í Reykjavík, það er eins gott að horfast í augu við það og kryfja hvers vegna og hvað er hægt að gera til að auka fylgið og tiltrú á Framsóknarflokkinn í framtíðinni.

Ég vil reyndar færa öllu því fólki sem stóð í kosningabaráttunni þakkir, mér fannst allt starf til fyrirmyndar þar og málefnaleg og góð kosningabarátta og það mæddi mikið á öllu okkar fólki sem og bæði Siv, Jónína og Guðjón Ólafur urðu fyrir svæsnum og ómaklegum árásum fjölmiðla síðustu daga fyrir kosningar, sérstaklega hjá DV og árásin á Jónínu var ennþá heiftarlegri því hún var líka í RÚV. Ég get ekki séð þessar árásir öðruvísi en sem vísvitandi plott til að knésetja Framsókn hér á höfuðborgarsvæðinu sem mest og vil jafna þeim við hina ósmekklegu árás og heilsíðuauglýsingu Jóhannesar í Bónus á Björn Bjarnason. Það var þó miklu heiðarlegri árás því þar var ákveðin persóna skrifuð fyrir þeirri árás og það kom skýrt fram að þetta var borguð auglýsing og var kom skýrt fram hvers vegna hún var birt.

Allt skipulag kosningabaráttunnar og kosningastjórn sem ég fylgdist með hér í Reykjavík og Kópavogi  var einstaklega gott, ég kom á nokkra viðburði og fylgdist með starfinu og þar var mikið um að vera og vefir, útsendingar og dreifirit og auglýsingar áberandi og vel unnið, kosningabarátta Framsóknarflokksins fór ekki fram hjá neinum,  slagorðið um græna kallinn var gott og grípandi og slagorðið Árangur áfram - ekkert stopp kunna allir. 

Svo hefur Framsókn verið í ríkisstjórn á miklum góðæristíma á Íslandi. Hinn ríkisstjórnarflokkurinn vinnur á. Hvers vegna í ósköpunum tapar Framsókn fylgi og hrapar sérstaklega niður hérna á höfuðborgarsvæðinu?  Ég held að Framsóknarmenn verði að ræða það af hreinskilni, það er ekki hægt að skipta úr tapi í sigur einhvern tíma í framtíðinni nema skilgreina hvers vegna tapið var og horfast í augu við að það var ekki alltaf skynsamlega staðið að málum og spilað úr stöðunni af hálfu Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili.

Það er sennilega gæfuríkara spor til að breyta ósigri í sigur seinna að skoða hvað gerðist fremur en eyða orkunni í að uppnefna andstæðinganna með einhverju Baugstjórnartali. Ég vona líka að Framsóknarmenn haldi áfram að vera siðprúðir og varir í orðum og tala málefnalega og af virðingu við og um andstæðinga sína.  Það er alveg hægt að gera það en draga samt athygli að því sem þeir gera miður vel.


Bestu kveðjur
Salvör Gissurardóttir
----------------------------------------------------------------------
Meðfylgjandi er frétt sem er núna á mannlif.is, sjá hérna:
http://www.mannlif.is/ordromur/nr/623

Jón Sigurðsson afskrifaður

19 maí 2007

Mogginn afskrifar Jón Sigurðsson sem formann Framsóknarflokksins í fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur í dag. Agnes er þekkt fyrir fremur ódýra fréttamennsku en hittir líklega naglann á höfuðið þegar hún spáir logandi innaflokksátökum í Framsóknarflokknum þar sem Guðni Ágústsson muni berjast til formennsku við Siv Friðleifsdóttur. Örlög Jóns Sigurðssonar eru þau að vera utanþings og áhrifalaus eftir að kjósendur höfnuðu honum. Össur Skarphéðinsson líkir klaufaskap´Jóns í eftirleik kosninganna við mistök Jóns Baldvins Hannibalssonar þegar Alþýðuflokkurinn hrökklaðist út úr Viðeyjarstjórninni:  ,,Jón Sigurðsson gerði sömu mistökin og Jón Baldvin Hannibalsson 1995. Hann átti kost á því strax í lok kosninganna að draga Framsókn út úr ríkisstjórn. Þá hefði umboð til stjórnarmyndunar að öllum líkindum farið til Samfylkingarinnar ...".

En annað er athyglisvert í fréttaskýringu Moggans. Aðalhönnuður atburðarrásarinnar innan Framsóknarflokksins og sá sem plottaði ´flokkinn í stjórnarandstöðu er Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi blaðamaður Moggans,  er ekki nefndur. Á því kunnu að vera þær skýringar að hann sé sá sem leggur til púðrið í grein Agnesar vinkonu sinnar. Enginn vafi er á því að Björn Ingi er verðugur framtíðarformaður flokksins en til þess að það gangi smurt fyrir sig þarf hann að tryggja rétta atburðarás. Þar hentar ágætlega að láta Guðna og Siv berjast en koma síðan sem frelsari og höggva á hnútiinn. Þar er Mogginn góður farvegur og gott tæki ...
 

 


Hreinn og brellurnar

Það gerir illt verra hjá Hreini að senda frá sér yfirlýsingu þar sem hann ver auglýsingu Jóhannesar í Bónus. Hreinn er vitur og vel menntaður lögfræðingur með mikla reynslu. Það kemur því mjög á óvart að hann ráðist á dómsmálaráðherra með svona orðalagi : "Björn er þekktur fyrir brellur sínar.... hér beitir Björn þeirri brellu að kenna öðrum um í stað þess að líta í eigin barn... Björn beitir líka annarri brellu"

Þap er fjarri lagi að Björn sé þekktur fyrir brellur. Ég kynntist starfsháttum Björns nokkuð vel þegar hann var menntamálaráðherra og ef það er eitthvað sem einkennir starfsaðferðir hans þá er það heiðarleg, markviss og opin stjórnsýsla. Það hefur einnig í mörg ár mátt fylgjast vel með störfum Björns og viðhorfum hans til allra mála á vefsíðu hans. Björn hefur lagt sig fram um að tala við þá sem eru á öndverðum meiði við hann og útskýra sín sjónarmið. Hann hefur unnið þarft verk að gera stjórnsýslu á Íslandi nútímalegri og skilvirkari. 

Ég er sammála pælingu Hreins um að orðanotkunin skattsvikamál í yfirlýsingu Björns felur í sér það mat að verið sé að rannsaka skattsvik. Hvort það er óeðlileg orðanotkun hjá dómsmálaráðherra hef ég bara ekki lögfræðiþekkingu til að dæma um. Það hefði verið hlutlausara hefði Björn notað "rannsókn á  skattamálum Baugs".

En það er skrýtið hjá Hreini að taka undir auglýsingu Jóhannesar og láta líta svo út að hún sé eðlileg breytni og orðræða sem dómsmálaráðherra  ætti að svara. 

Hreinn segir m.a.:

Jóhannes hefur m.a. haldið því fram að jafnræðisregla hafi verið brotin á sér og að hann hafi að ósekju mátt sitja á sakamannabekk árum saman. Í auglýsingunni segir hann að það keyri um þverbak ef ráðherann hyggst verðlauna einn þessara manna með því að fá honum æðstu metorð, þ.e.a.s. embætti ríkissaksóknara. Hvað svo sem segja má um þá afstöðu hans er hitt fullkomlega ljóst að Jóhannes hefur heimild til að opinbera skoðun sína en þegar hún kom fram svaraði Björn henni í engu.

 

Málið er einfalt frá mínu sjónarhorni.
Voldugur auðmaður sem stýrir ásamt börnum sínum einni öflugustu viðskiptablokk landsins  kaupir heilsíðuauglýsingar í dagblöðum rétt fyrir alþingiskosningar í óhróður og dylgjur um nafngreinda embættismenn og æðsta yfirmann dómsmála á Íslandi, dómsmálaráðherra - að því er virðist eingöngu til að skaða hann sem mest í alþingiskosningum og koma í veg fyrir að hann verði ráðherra að þeim loknum.  Auk þess reynir Jóhannes að hafa áhrif á mannaráðningar (hvern á ekki að ráða sem saksóknara) í dómsmálum á Íslandi og tiltekur hverja hann vilji ekki í ákveðið starf. Þetta gerir hann allt út af því að hann er ósáttur við mál sem hann var borinn sökum í. 

Sem sagt voldugur auðmaður sem finnst kerfið ekki passa fyrir sig og sína viðskiptahagsmuni leggur kapp á að breyta því með því að kaupa sér pláss fyrir auglýsingar einmitt rétt fyrir kosningar og hrekja burt dómsmálaráðherra og embættismenn í dómskerfi og saksóknara sem hætta er á að skipi ekki málum á þá lund sem hann vill og dæmi honum í óhag. Ég vona að Ísland verði aldrei þannig að auðmenn geti stillt upp sínum dómsmálaráðherrum, sínum dómurum og sínum saksóknurum til að dæma í sínum málum. 


mbl.is Hreinn: Dómur kjósenda um verk Björns liggur fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarmaddaman er ekki sætasta stelpan á ballinu

Nú er það ljóst að Framsóknarmaddaman stígur ekki dansinn með Geir Haarde næstu árin. Það er kannski allt í lagi að hún vermi bekkina um hríð og hvíli lúin bein. Það verður dömufrí eftir fjögur ár og þá verður eins gott að vera þrælspræk og til í tuskið.

Hér er Geir Haarde í trylltum dansi og nýtur sín vel einn á gólfinu. Hann ætlar að bjóða Ingibjörgu Sólrúnu næst upp og ef það gengur ekki þá er það Steingrímur. Annars er Samfylkingin búin að vera óvenjukyrrlát og lítið að púa á Sjálfstæðismenn undanfarið og einhver Framsóknarsvipur að færast yfir hana þannig að það mætti gruna að svona færi. 


mbl.is Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brjáluð kona hringir í RÚV um hánótt

Best að viðurkenna það bara. Ég missti mig á kosninganóttinni og hringdi foxill í RÚV og hellti mér yfir þann sem varð fyrir svörum, ég held að það hafi verið aumingja manneskjan á skiptiborðinu sem þurfti að hlusta á reiðilesturinn. Ástæðan var sú að það var viðtal við Jóhannes í Bónus um þessa óþverralegu auglýsingu hans og ég er afar ósátt við að RÚV sé að upphefja fólk sem fer yfir öll mörk velsæmis til að hefna sín og koma höggi á embættismenn og ráðherra í opinberri þjónustu í lýðræðissamfélagi og geri það í skjóli auðs og valda í samfélaginu, m.a. þeirra valda að eiga ítök í fjölmiðlum og vera einn stærsti vinnuveitandinn.

johannes-i-bonus-sidleysiÉg var í útlöndum rétt fyrir kosningar og las ekki blöðið fyrr en á kosningadaginn og það þyrmdi yfir mig þegar ég sá þessa auglýsingu frá Jóhannesi í Bónus. Leyfist mönnum allt á Íslandi í skjóli auðmagns? Ég vona svo sannarlega að þeir sem Jóhannes nafngreinir í þessari auglýsingu fari í meiðyrðamál við hann. Ég vona svo sannarlega að við náum hér á Íslandi að byggja upp samfélag þar sem embættismenn í dómskerfinu og æðstu yfirmenn dómsmála þurfi ekki að þola svona órökstuddar dylgjur og þar sem ekki er leyfilegt að auglýsa með þessum hætti fyrir kosningar.

Ég er raunar ákaflega hissa bæði á Fréttablaðinu (sem er reyndar í eigu Jóhannesar) og Morgunblaðinu fyrir að birta þessar auglýsingar og hugleiði hvort þeir hefðu tekið á móti svona auglýsingum frá mér eða Lalla Jóns eða einhverjum geðsjúklingum með þráhyggju.

Jóhannes sakar nokkra nafngreinda embættismenn um embættisafglöp og hann sakar æðsta yfirmann dómsmála á Íslandi um að hilma yfir með einhverjum og lætur að því liggja að dómsmálaráðherra skipi menn í embætti vegna þess "að hann hafi eitthvað á þá". Þessar alvarlegu ásakanir  virðast tengdar því að Jóhannes hefur verið einn ákærðra í sakamáli og hann hefur eins og allir tekið þær ásakanir nærri sér og virðist telja sig ofsóttan. 

Jóhannes í Bónus hefur misst trúverðugleika með þessari auglýsingu. Það er skrýtið að hann hafi enga nálægt sér sem ráða honum heilt og sem gátu talið hann ofan af þessari reginskyssu. Ég get vel skilið geðshræringu fólks sem telur sig vera órétti beitt og ofsótt en það verður ekkert  meira réttlæti  í heiminum ef maður sem telur sig verða fyrir óréttlæti og rangsleitni hefnir sín og reynir að koma höggi á andstæðinga með að nota svívirðingar og dylgjur og ræðst á aðra í skjóli auðmagns.

Auglýsingin frá Jóhannesi var svohljóðandi:

Strikið yfir siðleysið

- áskorun til sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmi suður

Í rúm fjögur ár mátti ég að ósekju sitja á sakamannabekk í Baugsmálinu svokallaða vegna óvæginna og ranglátra aðgerða Haraldar Jóhannessens, ríkislögreglustjóra, Jóns H. B. Snorrasonar, saksóknara, og síðast Sigurðar T. Magnússonar, sem var settur í starf Jóns H. B. Snorrasonar eftir að hann var gerður afturreka með málatilbúnað sinn haustið 2005. Nafn mitt var hreinsað með sýknudómi Hæstaréttar Íslands í janúar á þessu ári.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur í ræðu og riti varið embættisafglöp þessara manna og hvatt þá til dáða leynt og ljóst. Fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga að Björn hyggist skipa Jón H. B. Snorrason í embætti ríkissaksóknara strax að loknum kosningum. Embættisveitingar Björns hafa verið harðlega gagnrýndar á undanförnum árum. Nú keyrir um þverbak og maður hlýtur að spyrja: Hvað skyldi Jón H. B. Snorrason eiginlega hafa á Björn Bjarnason úr því hann hyggst skipa manninn í þetta háa embætti þrátt fyrir allt hans klúður?

Sjálfur hef ég ávallt litið á mig sem sjálfstæðismann þó að ég hafi átt bágt með að styðja flokkinn síðustu árin í stjórnartíð Davíðs Oddssonar. Ég veit að margir sjálfstæðismenn eru sama sinnis og ég í því efni og eiga erfitt með að ákveða sig og þá ekki síst sjálfstæðismenn í Reykjavíkurkjördæmi suður þar sem Björn Bjarnason situr í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Aðeins eitt ráð er til. Merkið x við D en strikið yfir siðleysið með því að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar á listanum.

 

Það er vissulega dapurlegt að margir virðast hafa orðið við tilmælum Jóhannesar en ég hef á tilfinningunni að það sé miklu, miklu stærri hópur bæði fólks í Sjálfstæðisflokknum og utan hans sem hafa megnustu skömm á auglýsingu Jóhannesar og finnst hann setja mikið niður við þessa gerð.

frettabladid-offita-barnaÉg hef  áður hneykslast á skrýtnum gjörðum Jóhannesar varðandi þetta Baugsmál og mér fannst einkar ósmekklegt þegar hann fyrir jólin síðustu gaf af rausn sinni til ýmissa góðgerðasamtaka og það birtist mynd af gnægtaborði hans á forsíðu Fréttablaðsins (sjá mynd hér til hliðar) en jafnframt kom fram í textanum að fjárhæðin sem hann gaf var eitthvað tengt við hvað ríkið hefði kostað til í Baugsmálinu. Mér fannst það ósmekklegt og ekki Jóhannesi til sóma að blanda félögum eins og Mæðrastyrksnefnd inn í áróðursstríð hans við stjórnvöld en þessi síðasta auglýsing frá Jóhannesi gengur miklu miklu lengra.

En það er ljóst að Jóhannes er ekki jólasveinninn í íslensku samfélagi og hann er ekki velgjörðarmaður íslensku þjóðarinnar. Það skiptir engu máli þó hann eigi alla fjölmiðla og birti myndir af sér þar á forsíðu klyfjuðum gjöfum.   

 

 


mbl.is Rúmlega 2500 strikuðu yfir nafn Björns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirheyrslur og fangelsanir á börnum

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði þrjá unglingspilta af því að hafa nauðgað í sameiningu 16 ára stúlku. Það eru nokkur atriði í málinu sem vekja spurningar um hvernig er farið með börn og óvita fyrir dómstólum. Flestir sem semja leikreglur samfélags okkar og semja og framkvæma og túlka lögin og ákvarða hvað er brot og hverjar refsingar við þeim skulu vera og hvernig farið skuli með þá sem brjóta lögin eða eru grunaðir um að brjóta lög - á þingi og í dómarasætum eru upplýstir, menntaðir menn úr betur stæðum þjóðfélagshópum á meðan þolendur réttarkerfisins eru oft úr allt annarri átt, auðnulaust, fákunnugt  og fátækt fólk sem ef til vill er af öðrum þjóðernisuppruna og öðrum litarhætti og ef til vill í helgreipum fíkniefna. Það sama á við um þolendur afbrota, þeir sem sitja á þingi og í dómarasætum eða sinna framkvæmd löggæslu eru eða hafa til skamms tíma ekki verið sama fólkið og brotið er á í sumum afbrotum, það sitja fáar vændiskonur og þolendur annars konar kynferðisofbeldis á þingi eða í dómarasætum og þar eru  fáir fíkniefnaneytendur sem eru í hættu á að vera barðir af handrukkurum fyrir dópskuldir. Þar eru engin börn. 

En það er skrýtið hvernig farið er með börn í þessu kerfi. Mér virðist ekki tekið tillit til þroska þeirra og aðstæðna. Eftir því sem ég sé í fréttum á þessu máli þá var viðtal við  stúlkuna sem var þolandi í málinu tekið í Barnahúsi sem liður í að aðstoða stúlkuna, ekki sem yfirheyrsla.  

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær þrjá karlmenn af ákæru um að nauðga 16 ára stúlku. Dómurinn sagði stúlkuna hafa orðið margsaga. Þá gagnrýnir héraðsdómur vinnubrögð í Barnahúsi þar sem tekin var af henni skýrsla. Stúlkan hafi verið leidd áfram við skýrslugjöfina og ekki fengið ráðrúm til þess að skýra frá mikilvægum staðreyndum í sjálfstæðri frásögn. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir málið óvenjulegt. Viðtalið sem tekið hafi verið í Barnahúsi hafi verið könnunarviðtal og ætlað til þess að athuga hvort barnið þyrfti stuðning og meðferð.

Það er því skrýtið hvernig áherslan er á þetta könnunarviðtal og að dómararnir hafi skoðað það margoft. Hvert er ígildi þessa könnunarviðtals fyrir lögum? Er það yfirheyrsla? Það er ljóst að þegar það er tekið þá vill stúlkan gera sem minnst í málinu og birgja niður minningar um ódæðisverkin gagnvart henni og hún vill sennilega ekki sjálf líta á það sem nauðgun - hún virðist hafa verið hrifin af einum strákanna og vill gera lítið úr hans hlut að ódæðinu.

Þetta er nefnilega stórt vandamál varðandi kúgun og ofbeldi. Sá sem er beittur ofbeldi kóar stundum með og leitar að sök hjá sjálfum sér og reyndar munu kúgararnir gera lítið úr ofbeldi sínu og setja málið þannig upp að annað hvort hafi það ekki verið ofbeldi og/eða þolandinn kallað það yfir sig með eigin breytni.  í frásögn piltanna þá má lesa að þetta séu prúðir piltar sem urðu fyrir því að stúlkan bara settist klofvega á þá einn af öðrum og nuddaði sér upp við þá. Það er vonlaust að fá einhvern sanngjarnan dóm fram í þessu máli, ég get ekki áfellst dómstólinn fyrir að hafa meira mark á þremur sammhljóða vitnum fremur en einni stúlku sem auk heldur á í erfiðleikum og sálarkvöl að rifja upp nauðgun sem hún verður fyrir.  

Það verður að hafa í huga að piltarnir eru líka börn og þeir eiga líka rétt á vernd og réttlátri málsmeðferð. Ég held að dómarar hafi haft það afar mikið í huga, það er öllum ljóst hve mikill blettur það er á mannorði þessara stráka (það kemur fram að í dómnum að þetta er einhver strákaklíka "dátarnir") að  vera dæmdir fyrir nauðkun á barnungri stúlku. Það er mjög undarlegt sem kemur fram í dómnum að þeir hafi verið handteknir og þurft að vera í fangaklefa. Það hefði hugsanlega þurft ef brugðist hefði verið við strax til að þeir gætu ekki sammælst um framburð sinn og búið til sögu. En það kemur í ljós í dómnum að þeim er fullkunnugt um að þeir verði hugsanlega ákærðir fyrir  nauðgun löngu áður en þeir eru handteknir, vinkona stúlkunnar mun hafa sagt þeim það.

Það sem má lesa út úr þessum dóm er eindreginn vilji dómara til að sjá veilurnar í frásögn stúlkunnar og eindreginn vilji þeirra til að rannsaka ekki né benda á þá möguleika að piltarnir hafi haft tækifæri til og raunar verulega ástæðu til að sannmælast um sína útgáfu af sögunni þar sem þeir hilma yfir ódæðum. Ég vil taka fram að ég held að piltunum hafi ekki verið ljóst hvaða voðaverk þeir voru að vinna og eflaust hafa þeir eftir á og meðan á verknaðinum stóð réttlætt sjálfan sig á ýmsa lund. Þeir lifa í samfélagi sem upphefur ofbeldi á konum og sá fjölmiðlaheimur sem yfir þá flæðir er lofsyngur slíkt ofbeldi í tónlist, í myndböndum, í sakamálaþáttum, í fréttum. 

 

 Það kemur ekkert fram í þessum dómi um bakgrunn piltanna sem mér hefði fundist eðlilegt m.a. með hliðsjón af því að þeir gætu hafa beitt aðra kynferðisofbeldi og/eða annars konar ofbeldi.


Tap Framsóknar

Það kemur ekki á óvart þó flestir vilji samstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar. Sú stjórn myndi hafa afar mikil magn kjósenda á bak við sig og vera sennilega jafnstöðug og núverandi stjórn hefur verið. Þegar úrslit lágu fyrir þá vorum við margir Framsóknarmenn fullvissir um að Framsókn yrði í stjórnarandstöðu næsta kjörtímabil og reyndum að sjá það besta út úr þeirri stöðu. Það er tækifæri til að byggja upp og breyta vinnubrögðum og það eru nú nokkur sannindi í þeim orðum að allt vald spillir. 

Það er samt augljóslega fyrsti besti kostur Sjálfstæðisflokksins að vinna áfram í núverandi stjórnarmynstri en fækka framsóknarráðherrum. Það eru skiptar skoðanir í Framsóknarflokknum á áframhaldandi stjórnarsamstarfi. Framsóknarflokkurinn galt mikið afhroð í þessum kosningum  á höfuðborgarsvæðinu og missir þar helming fylgis síns. Framsóknarflokkurinn tapar reyndar alls staðar en ekki næstum eins mikið í öðrum kjördæmum.  

 Atkvæði Framsóknar eftir kjördæmum 2003 og 2007

         2003                       2007

nv     4057     21,7 %     3362     18,8 %
na     7722     32,8 %      5726     24,6 %
s      5934     23,7 %      4745     18,7 %
sv     6387     14,9 %      3250     7,2 %
rs     4185     11,3 %      2080     5,9 %
rn     4199     11,6 %      2186     6,2 %

 


mbl.is Flestir vildu stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðgun á barni - gerendur sýknaðir

Ennþá eitt sorglegt mál. Þrír unglingspiltar eru sýknaðir af því að hafa nauðgað 16 ára stúlkubarni. Ég renndi yfir dóminn sem sjá má í heild á vefsíðu héraðsdóms Reykjavíkur og það er glerljóst í mínum huga að þetta er nauðgun og ekkert annað en nauðgun. Stúlkan var drukkin og eflaust hefur henni verið tvísaga og margsaga um einhvað í atburðarásinni, það bendir allt til að hún hafi verið hrifin af einum af gerendunum og viljað hlífa honum og dregið úr og fegrað hans hlut í ódæðinu. 

En þetta er dáldið skrýtið. Það er dáldið skrýtið að í dómsorðinu er sagt frá að formgalla á málinu þannig að spyrjandi í yfirheyrslu í barnahúsi hafi spurt leiðandi spurninga. Ég held að eitt sem hafi verið tekið sem dæmi um leiðandi spurningar hafi verið sögnin að nauðga, það má ekki nota það orðalag.  

Það er margoft í frásögninni reynt að draga úr alvarleika atburðarins og hún sögn á hátt sem er stúlkunni í óhag, látið líta svo út að hún hafi verið fús til kynferðisathafna. Það er svona orðalag haft eftir henni: "Hún hefði samt ekki grátið eða neitt þannig og jafnvel verið hlæjandi, en þó ekki verið grín í huga og sagt „nei“, en þá hefðu ákærðu farið að hlæja." til að styrkja þá sögu að þetta hafi ekki verið nauðgun. Áður hefur komið fram að hún hafi talið sig "blindfulla". Í dóminum er lagt kapp á að segja sögu stúlkunnar út frá orðalagi hennar sem er mál ráðvillts unglings en það er annað upp á teningnum þegar sögð er sagan frá sjónarhorni ungingspiltana.

Lítum á eftirfarandi frásagnarbrot úr dómnum. Hefði sextán eða sautján ára piltur lýst samförum svona? þar er einhver sem vill láta þetta líta út sem góðlátlegt spjall pilts og stúlku þar sem stúlkunni  er lýst sem geranda sem nánast ræðst á piltinn og notar hann sem kynlífsleikfang. Hver hefur efni á að tala um óhlutdræga frásögn? Hvað eru margir nauðgarar í sögunni sem hafa játað verknað sinn fyrir dómi og kallað hann því nafni sem hann er? Sennilega afar fáir. Jafnvel þó nauðgarar hafi hreykt sér í sínum vinahópi af ódæðum sem þessum og hafi jafnvel gengið svo langt að taka ódæðisverkin upp á myndbönd og senda spóluna til vina með yfirskriftinni Nauðgun þá hafa þeir staðfastlega neitað því fyrir dómi að um nauðgun hafi verið að ræða.

"Ákærði hefði sest við hlið hennar, rætt lítillega við hana, því næst faðmað hana og kysst, en þannig hefði eitt leitt af öðru þar til þau hefðu klætt hvort annað úr fötum, þó ekki brjóstahaldara stúlkunnar, hún því næst ..., þá sest ofan á ..... og viðhaft samfara­hreyfingar uns ákærði hefði fellt til hennar sæði."

Í dómnum er talað um samfærir að óvilja hennar. Er það skrauthvörf fyrir orðið nauðgun? 


mbl.is Þrír unglingspiltar sýknaðir af ákæru fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fengitíð og sauðburður hjá Steingrími

Formaður Vinstri grænna heldur áfram að skemmta okkur. Í gær var það skrípóið  á kind.is sem hann var svo hörundsár út af og sem hann heimtaði afsökunarbeiðni út af. Í dag vill hann að Framsóknarflokkurinn breyti sér í öryggisnet svo hann geti sjálfur hoppað á trampólíni með Ingibjörgu Sólrúnu. En Steingrímur er orðinn eitthvað svo hæverskur og lítillátur frá því um áramótin en þá stóð yfir að hans sögn fengitíð í stjórnmálum.  Núna er komið að  sauðburði.Það er gaman að spila núna aftur þennan bút af orðræðu Steingríms í kryddsíldinni hjá Agli þann 31. desember síðastliðinn. Það er smásárabót fyrir okkur Framsóknarmenn að Steingrímur talar af sama hroka við Samfylkinguna eins og hann talar við og um Framsókn.



mbl.is Hafa áhuga á myndun minnihlutastjórnar í skjóli Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband