Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
9.8.2007 | 09:41
Hið svonefnda blogg
Fyndin ritstjórnargrein í Morgunblaðinu í dag undir heitinu Málþing þjóðarinnar.
Greinin er plögg fyrir eitthvað afbrigði af digg fréttamennsku sem Mogginn ætlar að byrja með. Líka lof um Moggann og hvað hann hafi alltaf puttann á púlsinum. Greinin er bara svo brosleg vegna þess að hún er skrifuð í fornum fréttamennskustíl. Kannski eru ritstjórnargreinar á Mogganum alltaf í þeim stíl, ég veit það ekki því ég les þær afar sjaldan. En það er fyndið að lesa vaðal eins og þennan "...hefur hið svonefnda blogg nú hafið innreið sína á bloggsíður mbl.is, þar sem hinn almenni borgari tjáir sig um allt milli himins og jarðar" og þennan hérna:
"Í raun er hér verið að stíga fyrsta skrefið til þess að bjóða öllum almenningi að gerast fréttaritarar fyrir víðtækustu fréttaþjónustu landsins, sem nú er rekin í húsakynnum Árvakurs hf. í nágrenni Rauðavatns, en þar eru nú gefin út tvö dagblöð, Morgunblaðið og fríblaðið Blaðið, ásamt mbl.is. Umsvif netútgáfunnar aukast nú stöðugt eins og koma mun í ljós á næstu mánuðum.
Þessi opna fréttamennska er í takt við tíðarandann, í takt við hið opna samfélag, sem við búum í. Bein aðild almennings verður nú stöðugt algengari á mörgum sviðum. Þannig er vaxandi stuðningur við þá hugmynd, sem Morgunblaðið hefur barizt markvisst fyrir í áratug, þ.e. að hinn almenni borgari taki veigamestu ákvarðanir í samfélagi okkar í beinum atkvæðagreiðslum."
Það kemur nú líka fram í greininni að innsendar fréttir og viðbótarupplýsingar frá almenningi verða yfirfarnar af ritstjórn moggans. Hmmm... ritskoðun... er það nú í takt við tímann?
Miklar hræringar eru nú í fjölmiðlaheimi og flestar í þá átt að notendur/lesendur taki þátt í að skrifa fréttir eða ræða um fréttir. Google News tilkynnti í dag að það hyggðist setja upp umræður í tengslum við fréttir en þó munu eingöngu þeir sem um er fjallað í fréttinni geta tjáð sig. Hér er hugleiðing um það: Google News Adds Comments, Accountability in Question
Besta dæmið um svona fréttakerfi þar sem notendurnir senda inn fréttirnar og greiða atkvæði um fréttir er digg.com. Þar er síkvikt samband á milli lesenda og skrifenda frétta, hver sem er getur sent inn fréttir og greitt atkvæði um fréttir. Fréttir sem hafa fengið nógu mörg atkvæði poppa upp á forsíðunni og fólk eins og ég les bara þær fréttir - þetta kerfi virkar ágætlega en það gengur út á það að maður treysti því að fjöldinn hafi rétt fyrir sér - stundum er þessu líkt við maurabú, eftir því sem fleiri leita að fæðu í sem flestum áttum - þeim mun líklegra er að fæða finnist og straumurinn liggi þangað sem fæðuframboðið er mest, þangað fara flestir maurarnir og búa til slóðir fyrir aðra maura - þetta er líka nefnt "Wisdom of Crowds" . Það er nokkuð til í því að svona kerfi þar sem margir hugsa og fylgjast með og tjá sig sé líklegra til að finna réttu leiðirnar heldur en þar sem boðmiðlun er miðstýrt og útvarpað einhverjum einum stórasannleika. En það eru veilur í svona kerfi og það virkar ekki alltaf vel. Fólk lærir líka að klæki til að koma sér áfram í svona kerfi t.d. að bindast samtökum um að greiða atkvæði um fréttir þannig að þær poppi á forsíðu Digg. Digg er svo vinsælt að margir vefir sem hafa verið "diggaðir" fara úr sambandi vegna traffíkar, allir vilja skoða hvað er svona merkilegt. Ég sló inn leitarorðið "Iceland" til að skoða hvaða fréttir tengdar Íslandi hafa verið vinsælastar. Þær eru þessar:
Stealing IS a crime, right?
5036 digg
Iceland the First Country to Try Abandoning Gasoline
3496 digg
[PHOTO] Volcanic Eruption, Aurora Borealis, And The Stars - All in one!
2242 digg
PICTURE: The Wrath of the Norse Gods, Awesome Pic of a Church
2083 digg
Kodak steals from one of Diggs favorite photographers
2000 digg
Það að frétt hefur fengið 2000 digg þýðir að hún hefur verið lesin af mjög mörgum, hugsanlega hundrað sinnum fleiri og hefur verið á forsíðunni einhvern tíma. Það þarf nú reyndar ekki mörg digg til að poppa upp á forsíðu, nýjustu forsíðufréttirnar eru kannski með um 100 digg. Það eru hins vegar mörg dæmi um tölvunördahópa sem bindast samtökum að koma sínum fréttum á forsíðu og þeir passa sig að greiða atkvæði til þess. Það verða margar glufur í hinni nýju fréttamennsku og það verða þeir sem stýra vefgáttunum og eiga þær sem hafa mesta möguleika á að láta sínar fréttir poppa upp. Það hafa komið upp dæmi varðandi Google leitarvélina þar sem efst við leit koma þeir sem eru atkvæðamestir í google auglýsingum. Það er ástæða til að vera á varðbergi fyrir því að þær fréttir sem ná á forsíðu og eru hafðar mest áberandi eru þar sennilega vegna þess að sá sem stýrir vefgáttinni hefur velþóknun á þeim. Það er því líklegt að þeir sem búa yfir fjármagni og vilja auka völd sín til að afla meira fjármagns séu í miklu betri aðstöðu til að koma fréttum sem henta þeim á forsíðu. Þannig er það líka í fjölmiðlalandslagi nútímans og fortíðarinnar. Fréttir á forsíðum eru afar hliðhollar þeim sem hafa völd, fjölmiðlar forðast að stygga valdamikla auglýsendur og stjórnmálamenn.
Sennilega er sniðugast í sambandi við svona almannafréttagátt eins og Mogginn ætlar að setja upp að á Moggablogginu verði einn takki í viðbót þar sem hægt er að senda blogg inn á fréttir Moggans, svona eins og núna eru oft hnappar fyrir Digg og del.icio.us á vefsíðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.8.2007 | 02:19
Lífsval ehf og síðasta galdrabrenna á Íslandi
Skrýtni kastalinn sem blasir við í Ísafjarðardjúpi langt frá allri annarri byggð heitir Arngerðareyri. þar voru einu sinni mikil umsvif. Þar var ferjustaður og þar var hótel. Sennilega var þar líka verslun, alla vega las ég að kastalinn var bústaður útibússtjóra Ásgeirsverslunar. Síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 á Arngerðareyri.
Núna mun Arngerðareyri vera í eign fyrirtækisins Lífsvals ehf en það er fyrirtæki sem kaupir upp jarðir. Lífsval mun eiga á annað hundrað jarða og reka stórbú m.a. í Skriðufelli í Jökulsárhlíð og á Ytrafelli í Eyjafirði og stefna að því að reka kúabú með 500 kúm Flatey á Mýrum. Lífsval rekur að ég held líka fjárbú.
Það er umhugsunarefni núna þegar búskapur á Íslandi er að verða verksmiðjuframleiðsla í stórbúum sem eru í eigu aðila sem ekki vinna sjálfir við búskapinn hvort beingreiðslur á mjólkurlítra og lambakjöt eigi nokkurn rétt á sér. Fyrir hvern og hvers vegna er verið að niðurgreiða mjólk og kjöt? Það eru alla vega ekki skynsamlegt út frá byggðasjónarmiðum að hafa núverandi hátt á.
Hins vegar er sennilegt að langtímahagsmunir sem ekki eru tengdir núverandi notkun jarða í landbúnaði ráði ferðinni í hvaða jarðir fjárfestar hafa áhuga á. Þannig er sennilegt að verið sé að kaupa upp jarðir núna vegna ýmissa réttinda m.a. vegna legu að sjó eða vegna mögulegra virkjanakosta.
Anna skrifaði nýlega hugleiðingu um þetta : Uppkaup á landi og miðum
Hvers vegna ætli Lífsval ehf hafi keypt Arngerðareyri? Hvenær ætli húsið verði gert upp? Eða er það bara flottara eins og það er, eyðilegt og minnir á galdra.
Pólski verkamaðurinn Ireneusz Gluchowski er í hópi þeirra þúsunda erlendra verkamanna sem leitað hafa gæfunnar í efnahagsuppsveiflunni á Íslandi. Hann kom hingað stálhraustur í vinnu hjá íslensku verktakafyrirtæki. En Ireneusz missti báða fætur og vantar enn nýra
Sögu Ireneusz má lesa í Fréttablaði Eflingar í febrúar 2006 en hér er brot úr þeirri sögu:
Undir lok júní 2005 gerast þeir atburðir sem leiddu til örkumla Irenusz, en þá voru Jarðvélamenn að vinna við framkvæmdir skammt frá Akranesi.
Ég vann ekki langt frá Akranesi uppi í fjöllum. Ég vann við að steypa sökkla og koma fyrir stögum undir rafmagnsstaura, en þann 20. júní vorum við fluttir á annan stað. Þá bjuggum við í gömlum skóla en vorum á hverjum degi keyrðir um 15 kílómetra upp á fjöll þar sem við unnum, segir Ireneusz. Um það bil 25. eða 26. júní varð Ireneusz fyrir vinnuslysi sem leiddi til þess að hann fékk sár á hendur, sem blæddi úr. Ekki var tilkynnt um atvikið, enda ólíklegt að á þeim tíma hafi verið litið á þetta sem alvarlegt atvik.
Veiktist hastarlega
Hins vegar veiktist Ireneusz hastarlega 29. júní. Í enda júní komu notaðir gámar sem átti að nýta undir vinnubúðir. Gámarnir voru fullir af drasli, t.d. flöskum, blöðum, spýtum og fleira. Ég og tveir aðrir starfsmenn vorum settir í að þrífa gámana og gera þá íbúðarhæfa. Við byrjuðum að koma matsalnum í stand, þar sem að ég þreif m.a. ísskáp sem innihélt gamlar matarleifar. Ég þreif líka aðra skápa og bakaraofn.
Þann 29.júní leið honum skyndilega illa, í hádegismatnum og hélt að hann væri haldinn flensu, þannig hafi einkennin verið. Ég sagði verkstjóra mínum að mér liði mjög illa og að ég treysti mér ekki til að vinna meira þann dag. Eftir þetta samtal sagði verkstjórinn mér að fara niður í skólann þar sem að við bjuggum. Samstarfsmaður minn skutlaði mér í skólann og ég fór að sofa. Um klukka fjögur síðdegis vakti annar samstarfsmaður mig og sagði mér að hann og tveir aðrir starfsmenn ætluðu til Reykjavíkur og að ég yrði að fara með. Það væri ákvörðun verkstjórans.
Skelfingu lostinn
Samstarfsmennirnir óku Ireneusz heim í Barmahlíðina, þar sem hann lagðist til svefns. Ég vaknaði um sexleytið og varð skelfingu lostinn þegar ég sá að hendur mínar og fætur voru svartar. Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég væri ekki bara með flensu. Ég notaði mína síðustu krafta til að fara til nágranna míns á hæðinni fyrir ofan og bað hann um að hringja á sjúkrabíl. Eftir stutta stund kom sjúkrabíll og keyrði mig á spítala, en mér leið allan tímann mjög illa. Eftir komuna á spítalann man hann að hann fékk súrefnisgrímu og sprautu og að síðan hafi hann sofnað. Ég vaknaði aft ur meira en tveimur mánuðum seinna eða í byrjun september. Þegar að ég komst aftur til meðvitundar sá é að ég hafði engar fætur.
---Ireneusz vaknaði sem fyrr segir upp við þann hrylling í byrjun september að vera fótalaus báðum megin fyrir neðan hné, en auk þess varð ann að nýrað óvirkt, heyrn horfin af vinstra eyra og hægra eyrað aðeins með hálfa heyrn, en fyrir þessa atburði var Ireneusz að eigin sögn stálhraustur.
2.8.2007 | 17:21
Sól í Bolungarvík
Nú sitjum við í sólinni út á palli hjá systur minni á Hanhóli, það var grillveisla hjá henni. Hér er mynd af Ástu við matarborðið og Ingu að grilla. Við erum að fara að leggja á stað suður.
Í dag erum við búin að fara í listasmiðjuna hérna í Bolungarvík og vorum að skera þar gler. Ég skar þrenn pör af vængjum fyrir engla eða vængjuð dýr sem ég hyggst gera seinna úr leir. Það er alltaf gott að birgja sig upp af vængjum. Hér eru tvær myndir úr listasmiðjunni.
Við fórum líka í sundlaugina í Bolungarvík, hér er mynd af hluta af hópnum fyrir utan listasmiðjuna. Grunnskólinn er hinum megin við götuna og þar er sundhöllin. Þar er verið að byggja vatnsrennibraut svo það verður fjör hjá krökkunum í Bolungarvík á næstunni.
Við Ásta keyrðum líka um Bolungarvík og ég tók myndir m.a. af grjótgarðinum við höfnina.
Í gær fórum við á Ísafjörð og fórum á málþing í Edinborgarhúsinu en það var verið að opna Nýsköpunarmiðstöð Íslands þar. Svo fengum við okkur að borða í kaffihúsinu þar og gengum um miðbæinn.
Hér er stutt vídeó af senum sem ég tók í Bolungarvík í gær, ég tók myndir af því sem mér fannst fallegt en stundum er það reyndar ruslið sem heillar mig mest. Sérstaklega er ég hrifin af gámum og ryðguðu járni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2007 | 11:42
Bolvíkingar að beita
31.7.2007 | 13:45
Tvær konur af tuttugu
Það er ennþá einn vitnisburðurinn um hvernig auð og völd dreifast á Íslandi og til hverra hvernig kynjahlutfallið er meðal hæstu gjaldenda opinberra gjalda í Reykjavík. Þar eru tvær konur í tuttugu manna hópi.
![]() |
Hreiðar Már Sigurðsson gjaldahæstur í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.7.2007 | 12:01
Á vergangi
Á hverju horni í Vancouver eru flækingar. Vingjarnlegt ungt fólk tötrum klætt með syndandi augu og rúnum rist í andliti og oftast útbúið með einkennisfarartæki hinna heimilislausu - innkaupakerru. Þessar kerrur koma upprunalega úr stórmörkuðum, einhver hefur stolið þeim þar. Innkaupakerran er oft mikilvægasta verkfæri umrenninga í borgum og verðmætasta eign þeirra. Í flóðunum í New Orleans þá var erfitt að bjarga sumum hinna heimilislausu því þeir fengust ekki til að skilja eftir innkaupakerrurnar sínar með öllum plastpokunum.
Hvers vegna er svona mikið af heimilislausum sem ráfa um í miðbæ stórborga? Hvað einkennir þennan hóp? Í Vancouver þá er áberandi að flestir hinna heimilislausu eru ungir karlmenn af vestrænum uppruna. Ég sá sárafáar konur og ég sá enga umrenninga af asískum uppruna þó að fólk af asískum uppruna væri í meiri hluta meðal þeirra sem voru í miðbænum. Þær fáu konur sem ég sá virtust líka alltaf vera í slagtogi með mönnum, ekki einar. Mér sýndist líka margir vera í einhvers konar eiturlyfjum en margir virtust alls ekki vera það - vera fyrst og fremst uppflosnað og vegalaust fólk, ekki líkamlega fatlað á neinn hátt en hugsanlega með geðslag sem ekki passar inn í nútímasamfélagið.
Ásta sagði að hún hefði séð viðtal í Kastljósinu við mann sem hún kom að fyrir mörgum árum í miðbænum, þá var hann djúpt sokkinn óreglumaður í vímu, hann hafði slasast og hann var alblóðugur með stóran skurð á höfði og vegfarendur gengu allir fram hjá og sinntu honum ekkert þó hann væri mikið slasaður og ósjálfbjarga. Hún lánaði honum síma og hann reyndi að hringja eitthvað en það gekk ekki og hún hringdi á lögregluna sem kom honum til hjálpar. Það er gaman að sjá að þessi maður hefur náð sér upp úr óreglunni og núna er hann málsvari þeirra sem eru í sömu sporum og hann var einu sinni.
Ég held að allir komi okkur við og við eigum að gæta mannréttinda allra, líka þeirra sem eru í verstu stöðu í lífinu, líka þeirra sem eru fyrirlitnir og hæddir, líka þeirra sem eru bófar og óþokkar og ódæðismenn, líka þeirra sem beitt hafa aðra ofbeldi og sem eru líklegir til að halda áfram að beita ofbeldi og fremja ódæðisverk.
Ég veit hins vegar ekki hvort það er besta leiðin að gera líf útigangsfólks í Reykjavík sem auðveldast. Mér virðist sama gilda um samfélagið og fjölskyldurnar, það sem fjölskyldur læra í fjölskyldumeðferð alkóhólista er að hætta að kóa með, hætta að gera auðvelt fyrir alkann að halda áfram að vera alki. Það er líklegt að stór hluti af þeim sem ráfar heimilislaus um göturnar sé fólk sem þegar er á örorkubótum. Þeir sem eru svo djúpt sokknir að þeir eru komnir á götuna vegna óreglu eru líklegir til að eyða öllum örorkubótum sínum til að viðhalda því ástandi sem gerði þá að öryrkjum.
Það er ekki skynsamlegt að ríkið sjái fólki fyrir drykkjupeningum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.7.2007 | 12:33
Geitasandur
Nú er ég að skoða umhverfið við Langöldu en það er landgræðslusvæði við veg nr. 264 andspænis Reyðarvantsréttum og er hluti af Geitasandi. Geitasandur er sandflákar milli Kirkjubæjar og Eystri Rangár við Stóra- og Minna Hof á Rangárvöllum. Sandurinn var girtur af Landgræðslu ríkisins árið 1945 og hefur verið landgræðslusvæði.
Vegur nr. 264 sem sýnir hvar Reyðarvatnsrétt er, þetta svæði er nálægt höfuðstöðvum landgræðslunnar í Gunnarsholti.
Á Google Maps korti sést hversu mikið flæmi Geitarsandur er og flugvöllurinn sem er rétt hjá Langöldu lítur út eins og einhver dularfull rún eða galdrastafur, minnir helst á Nasca línurnar í Perú
Það verður gaman að taka þátt í uppgræðslustarfi þarna, dóttir mín fékk úthlutað landgræðslulóð á Langöldusvæðinu. Upp af svæðinu eru landgræðsluverkefnið Hekluskógar og svo er sandflæmið á Geitasandi núna skógræktarsvæði Kolviðar. Þetta landsvæði mun því breytast mikið á næstu áratugum.
Á Íslandi eru ein víðfeðmustu eyðimerkursvæði í Evrópu. Það eru ekki margir Íslendingar sem átta sig á því, við tengjum oft eyðimerkur við brennandi sól og tjaldbúðir hirðingja og úlfaldalestir. Hér eru gríðarleg sandflæmi sem stundum hafa sorfið allann jarðveg burtu af stórum svæðum svo jarðirnar fóru í eyði ein af annarri þangað til framrás rofaflanna var stöðvuð með sandgræðslu. En hugsanlega geta fyrrum sandflákar orðið dýrmætir þegar stundir líða fram og þeir eru græddir upp til landbúnaðar og útivistar og ýmis konar nota. Sandarnir eru rennisléttir og henta vel fyrir flugvelli. Ég las að það stóð einvern tíma til þegar bandaríski herinn var hérna að koma upp á Rangárvöllum mjög stórri, nýrri flugstöð. Það stóð þá einnig til að koma upp herskipahöfn á Suðurlandi í sambandi við þennan flugvöll. Skyldi sá flugvöllur hafa átt að vera á Geitasandi? Skyldi sú herskipahöfn hafa átt að vera í Þorlákshöfn?
Núna er talað um landsvæði við Þorlákshöfn í sambandi við álvinnslu og álver. Það er líka talað um þetta svæði sem mögulega mikilvægt ef siglingar og flutningar um Ísland aukast vegna loftslagshlýnunar. Þá þarf umskipunarhöfn með mikið landrými.
Hvernig verður umhorfs á þessu svæði eftir hálfa öld? Verður Selfoss svefnbær út frá Þorlákshöfn og verða flugvellir þvers og kruss á sandsvæðum?
Hér er það sem ég skrifaði á sínum tíma um Nascalínurnar í Peru sem minna mig á flugvöllinn á Geitasandi:
Í Nazca í Perú eru skemmtileg umhverfislistaverk sem eru alls konar línur sem teygja sig yfir 217 fermílna svæði. Línurnar mynda yfir 70 táknmyndir af dýrum, fólki og formum. Þessar línur og þau tákn sem þær mynda sjást ekki nema úr flugvél. Þær voru fyrst uppgötvaðar af fornleifafræðingnum Mejia Xespe árið 1927 og svo tók Paul Kosok árið 1939 að rannsaka þær, hann var að rannsaka merki um forn áveitukerfi. Það var svo árið 1946 sem Marie Reiche tók við rannsókninni og vann að þessu í fimmtíu ár, hún hreinsaði umhverfið og þá fyrst komu margar myndirnar í ljós. Hún helgaði líf sitt því að varðveita og rannsaka þessar menningarminjar og varð þjóðhetja í Perú og núna eru línurnar á skrá yfir menningarminjar heimsins. Margar tilgátur hafa komið fram um tilgang myndanna, giskað hefur verið á að línurnar séu sólaralmanak eða kort yfir gang himintungla, Erich von Daniken tengdi línurnar við geimverur og las úr þeim lendingarbrautir fyrir geimskip. Einnig hefur verið giskað á að línurnar tengist vatni og áveitukerfi á einhvern hátt eða séu gönguslóðir. Samt er þetta ennþá furðulegt að alla vega er ekki efast um að þessar myndir og línur séu til, gaman er að bera þetta saman við Runemo rúnirnar sem Íslendingurinn Finnur Magnússon rannsakaði áratugum saman af jafnmikilli alúð og María Reiche rýndi í línurnar. Hann hlaut samt enga fremd fyrir sínar tilgátur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.7.2007 | 11:34
Rusl í Reykjavík
Mér finnst eitthvað að í Reykjavík þegar innkoman að húsunum fer að líkjast ruslahaugum fyrir afsettar þvottavélar, ísskápa, ónýt húsgögn og spýtnadrasl. Hvenær ætli átakið Grænu skrefin í Reykjavík komi í Þingholtin?
Hér eru tvær myndir af lóð bakhúss í Þingholtunum, þetta er inngangur þar íbúar úr nokkrum íbúðum fara framhjá á hverjum degi og þetta er útsýnið sem íbúar úr nokkrum nærliggjandi húsum hafi út í garðinn sinn. Þegar fólk er að flytja þá er oft rusl fyrir utan á meðan á flutningi stendur en ég held það sé ekki um það að ræða þarna ég fór þarna um fyrir meira en mánuði og þá var sams konar rusl þarna nema mér sýnist heldur hafa bæst við ruslið.
Bakgarðar í gamla bænum geta verið vinjar og sælureitir frá erli iðandi stórborgar en þeir eru það ekki ef svona er umhorfs þar. Þá eru þeir merki um að hverfið sé að breytast í slömm.
Hér eru meiri myndir frá myndasyrpunni minni Rusl í Reykjavík.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.7.2007 | 04:58
Lundaveiðar
Í gær hlóð ég niður Scratch en það er forrit fyrir krakka frá 8. ára aldri ætlað til að kenna þeim forritun. Það er ókeypis og auðvelt að setja það upp. Þetta forrit minnir töluvert á forritunarmálið Lógó. Ég varði nokkrum tímum í að kynna mér þetta forrit og möguleika þess í námi og skólastarfi. Fyrsta sem ég gerði var að ég bjó til leik um lundaveiðar sem ég skírði Puffin Hunt (smellið á slóðina til að komast í leikinn og smella á SPACE til að byrja). Hér er skjámynd af leiknum mínum.
Ég forritaði nú ekki mikið sjálf í þessum leik því ég byggði hann á gömlum Ninento leik Duck Hunt
Ég breytti bara öndunum í lunda og breytti um bakgrunn og svo í staðinn fyrir veiðihund þá setti ég kerlingu í upphlut sem safnar upp lundunum, enda engir lundahundar á Íslandi.
Þetta er nú ekki mjög líkt veruleikanum í lundaveiðum, mér skilst að lundi sé fyrst og fremst veiddur með háf, ekki skotinn á lofti. En kosturinn er að það þarf engin veiðikort fyrir þennan lundaveiðileik og þannig hentar hann t.d. vel fyrir sjávarútvegsráðherra. En það er ágætt að rifja upp ýmis konar fróðleik um lundaveiðar og lunda. hér eru þrír vefir með upplýsingum:
Hér er lýsinga á lundaveiðum hjá Bergþóru:
Færeyingar fundu upp veiðar í háf, sem miðuðu að því að ná geldfuglinum, þegar hann var að sveima yfir hring eftir hring í svokölluðu uppflogi. Háfurinn er um 4 metra skaft með netpoka framan á. Vestmannaeyingar tóku upp veiðieðferðir Færeyinga um 1875 og er henni nú beitt hvarvetna til lundaveiða. Ungfuglinn er furðu heimskur og heldur áfram að hringsóla og láta háfa sig, þó hann sjái hrannirnar af dauðum fuglum á börðunum.
Í þessu skjali um Vestmannaeyjar fann ég þetta um lundaveiðar:
Lundaveiðar hafa verið stundaðar frá upphafi byggðar í Vestmannaeyjum. Veiðiaðferðirnar hafa verið með þrennum hætti í gegnum aldirnar; greflaveiðar, netjaveiðar og veiðar í háf. Um miðjan ágúst tóku veiðimenn pysjur úr holum og notuðu til þess grefil. Grefli má lýsa sem priki með krók á endanum og var pysjan húkkuð út úr holunni með greflinum. Á Breiðafjarðareyjunum notuðu menn veiðiaðferð sem gaf um 30 þúsund fugla á ári. Aðferðin var sú að leggja net yfir holurnar og ná þannig varpfugli er hann hljóp úr holunni. Þessi veiðiaðferð hafði það í för með sér að pysjurnar drápust úr hungri því foreldrarnir voru dauðir. Báðar þessar veiðiaðferðir eru bannaðar í dag. Það var um árið 1875 sem fyrsti háfurinn kom til Vestmannaeyja frá Færeyjum og eru veiðar í háf stundaðar enn þann dag í dag. Háfurinn, sem er langt prik með neti á endanum, er lagður á jörðina og lundinn háfaður er hann hringsólar á flugi yfir eyjunni. Þessi veiðiaðferð gerir mönnum kleift að sniðganga fugl með síli þannig að meirihluti veiðinnar er geldfugl. Í dag er lundaveiði stunduð meira sem tómstundagaman en af lífsnauðsyn og er sterk hefð í Eyjum. Menn hafa stofnað sérstök úteyjafélög í helstu veiðieyjunum. Mestu veiðieyjarnar eru Suðurey, Álsey, Bjarnarey og Elliðaey. Eins veiðist vel í Ystakletti sem og minni eyjum s.s. Brandinum og Hellisey. Á síðustu árum hefur lundaveiði minnkað stórlega á Íslandi eða úr um 500 þús. fuglum í um 200 þús. fugla árlega. Áætlað er að um 80.000 til 110.000 lundar séu veiddir ár hvert í Vestmannaeyjum einum saman. Veiðistjóraembættið ber ábyrgð á að fylgjast með veiðunum og innheimta veiðiskýrslur
Lundaveiði hefur lengi tíðkast í Vestmannaeyjum og virðist stofninn þola þá veiði nokkuð vel. Ljóst er þó að ekki er hægt að fylgjast nægilega vel með veiðinni ef ekki er unnið betur að innheimtu veiðiskýrslna og úrvinnslu þeirra.
Lundi og kanínur eru í samkeppni um búsvæði í Vestmannaeyjum. Magnús Þór Hafsteinsson sagði þetta á þingi í fyrra:
Lundaveiðar eru heimilaðar á tímabilinu frá 1. september til 10. maí á hverju ári. Lundaveiði hefur verið stunduð í Vestmannaeyjum frá örófi alda af manninum og er á vissan hátt auðlind fyrir eyjabúa sem skapar bæði ánægju og tekjur og á sér djúpar rætur í menningu eyjanna og mannlífi.
Síðustu árin hefur ný ógn steðjað að lundanum í Vestmannaeyjum því kanínurnar sem hafa sloppið þar út hafa náð að mynda stofn og hafa aðlagast umhverfinu á Heimaey. Það er sýnt með vísindarannsóknum að kanínurnar hafa náð að nýta lundaholurnar til híbýlis. Þær hafa sest þar að. Þær breyta holunum, grafa þær út og stækka þær og sameina. Þær fara út í miklar framkvæmdir ef svo má segja. Rannsóknir hafa sýnt að þetta fælir lundann í burtu. Hann hrekst burtu úr holunum ef kanínur setjast þar að. Holurnar eru nauðsynlegar fyrir lundann, bæði til varps en líka til að ala þar upp unga þannig að þetta er mjög alvarlegt vandamál. Þessi gröftur kanínanna, sú mikla elja og vinnusemi sem þær sýna við að koma sér upp búsvæði, hefur aftur neikvæð áhrif á gróðurþekju og jarðveg. Kanínurnar naga rætur grassins sem eru inni í lundaholunum og það dregur úr jarðvegsbindingu og getur ásamt venjulegri beit á yfirborði jarðar haft þær afleiðingar að festan í jarðveginum hverfur eða minnkar og þar með eykst hættan á jarðskriði. Þeir sem hafa komið út í Heimaey vita að mörg búsvæði lundanna eru einmitt í mjög bröttum brekkum, grasigrónum brekkum, og ekki þarf mikið að eiga sér stað þar til að jarðvegurinn hreinlega fari á skrið, til dæmis í leysingum á vorin, og steypist þar með í sjó fram og þá eru þessi búsvæði fuglanna glötuð og tekur jafnvel aldir að vinna það aftur upp.
Talið er að heildarstofnstærð lunda sé um 15 millj. fugla en íslenski stofninn er um 60% eða um 9 millj. fugla. Þar af eru um 23 millj. varpfugla og 1,5 millj. fugla í Vestmanneyjum. Lundinn er mikil auðlind því hann er einn stærsti fuglastofn Íslands, sjófugl sem lifir aðallega á sandsíli og loðnu. Þetta er farfugl sem kemur á vorin eftir vetrarlanga dvöl úti á hafi og á sér mjög merkilegt líf. Hann verpir einu eggi um miðjan maí sem klekst út eftir 40 daga og unginn er fleygur og fer úr holunni um miðjan ágúst.
Mér líst afar vel á scratch.mit.edu verkefnið, það er hægt að hlaða þar niður forriti sem kennir krökkum að forrita og reyndar líka að hugsa og spá í ýmsa hluti. Á Scratch vefnum er ekki bara hægt að nálgast forritið heldur er þar líka hægt að sækja alls konar tilbúin verkefni í Scratch (project) eins og ég gerði til að búa til lundaveiðileikinn. Svo getur maður sjálfur mjög auðveldlega hlaðið inn sínum verkefnum. Ég bjó mér til verkefnasíðu: http://scratch.mit.edu/users/salvor
Verkefnin getur hver sem er hlaðið niður og notað áfram til að búa til sín eigin verkefni.
Fyrir kennara og foreldra sem vilja kynna sér Scratch:
- BBC NEWS | Technology | Free tool offers 'easy' coding
- Creating from Scratch - MIT News Office
- Scratch Information/learning material.
- Holy grail for teaching programming
- Scratch Sneak Preview
- The Hook-ups Initiative: How Youth Can Learn by Creating Their Own Computer Interfaces and Programs
- scratch Bill Kerr
- The power of student game design
- Scratch proposal
- Scratch (programming language) - Wikipedia, the free encyclopedia
- Learning Squeak from Scratch
Nokkur vídeó eru sem kenna Scratch á Youtube, þar á meðal þetta:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)