Hið svonefnda blogg

Fyndin ritstjórnargrein í Morgunblaðinu í dag undir heitinu Málþing þjóðarinnar.

Greinin er plögg fyrir eitthvað afbrigði af digg fréttamennsku sem Mogginn ætlar að byrja með. Líka lof um Moggann og hvað hann  hafi alltaf puttann á púlsinum. Greinin er bara svo brosleg vegna þess að hún er skrifuð í fornum fréttamennskustíl. Kannski eru ritstjórnargreinar á Mogganum alltaf í þeim stíl, ég veit það ekki því ég les þær afar sjaldan. En það er fyndið að lesa vaðal  eins og þennan "...hefur hið svonefnda blogg nú hafið innreið sína á bloggsíður mbl.is, þar sem hinn almenni borgari tjáir sig um allt milli himins og jarðar" og þennan hérna:

"Í raun er hér verið að stíga fyrsta skrefið til þess að bjóða öllum almenningi að gerast fréttaritarar fyrir víðtækustu fréttaþjónustu landsins, sem nú er rekin í húsakynnum Árvakurs hf. í nágrenni Rauðavatns, en þar eru nú gefin út tvö dagblöð, Morgunblaðið og fríblaðið Blaðið, ásamt mbl.is. Umsvif netútgáfunnar aukast nú stöðugt eins og koma mun í ljós á næstu mánuðum.

Þessi opna fréttamennska er í takt við tíðarandann, í takt við hið opna samfélag, sem við búum í. Bein aðild almennings verður nú stöðugt algengari á mörgum sviðum. Þannig er vaxandi stuðningur við þá hugmynd, sem Morgunblaðið hefur barizt markvisst fyrir í áratug, þ.e. að hinn almenni borgari taki veigamestu ákvarðanir í samfélagi okkar í beinum atkvæðagreiðslum."

 Það kemur nú líka fram í greininni að innsendar fréttir og viðbótarupplýsingar frá almenningi verða yfirfarnar af ritstjórn moggans. Hmmm... ritskoðun... er það nú í takt við tímann?

 Miklar hræringar eru nú í fjölmiðlaheimi og flestar í þá átt að notendur/lesendur taki þátt í að skrifa fréttir eða ræða um fréttir. Google News tilkynnti í dag að það hyggðist setja upp umræður í tengslum við fréttir en þó munu eingöngu þeir sem um er fjallað í fréttinni geta tjáð sig. Hér er hugleiðing um það: Google News Adds Comments, Accountability in Question

Besta dæmið um svona fréttakerfi þar sem notendurnir senda inn fréttirnar og greiða atkvæði um fréttir er digg.com. Þar er síkvikt samband á milli lesenda og skrifenda frétta, hver sem er getur sent inn fréttir og greitt atkvæði um fréttir. Fréttir sem hafa fengið nógu mörg atkvæði poppa upp á forsíðunni og fólk eins og ég les bara þær fréttir - þetta kerfi virkar ágætlega en það gengur út á það að maður treysti því að fjöldinn hafi rétt fyrir sér - stundum er þessu líkt við maurabú, eftir því sem fleiri leita að fæðu í sem flestum áttum - þeim mun líklegra er að fæða finnist og straumurinn liggi þangað sem fæðuframboðið er mest, þangað fara flestir maurarnir og búa til slóðir fyrir aðra maura - þetta er líka nefnt "Wisdom of Crowds" . Það er nokkuð til í því að svona kerfi þar sem margir hugsa og fylgjast með og tjá sig sé líklegra til að finna réttu leiðirnar heldur en þar sem boðmiðlun er miðstýrt og útvarpað einhverjum einum stórasannleika. En það eru veilur í svona kerfi og það virkar ekki alltaf vel. Fólk lærir líka að klæki til að koma sér áfram í svona kerfi t.d. að bindast samtökum um að greiða atkvæði um fréttir þannig að þær poppi á forsíðu Digg. Digg er svo vinsælt að margir vefir sem hafa verið "diggaðir"  fara úr sambandi vegna traffíkar, allir vilja skoða hvað er svona merkilegt. Ég sló inn leitarorðið  "Iceland" til að skoða hvaða fréttir tengdar Íslandi hafa verið vinsælastar. Þær eru þessar:

Stealing IS a crime, right?

5036 digg

Iceland the First Country to Try Abandoning Gasoline

3496 digg 

[PHOTO] Volcanic Eruption, Aurora Borealis, And The Stars - All in one!

2242 digg

PICTURE: The Wrath of the Norse Gods, Awesome Pic of a Church

 2083 digg

Kodak steals from one of Diggs favorite photographers

 2000 digg

 Það að frétt hefur fengið 2000 digg þýðir að hún hefur verið lesin af mjög mörgum, hugsanlega hundrað sinnum fleiri og hefur verið á forsíðunni einhvern tíma. Það þarf nú reyndar ekki mörg digg til að poppa upp á forsíðu, nýjustu forsíðufréttirnar eru kannski með um 100 digg. Það eru hins vegar mörg dæmi um tölvunördahópa sem bindast samtökum að koma sínum fréttum á forsíðu og þeir passa sig að greiða atkvæði til þess. Það verða margar glufur í  hinni nýju fréttamennsku og það verða þeir sem stýra vefgáttunum og eiga þær sem hafa mesta möguleika á að láta sínar fréttir poppa upp. Það hafa komið upp dæmi varðandi Google leitarvélina þar sem efst við leit koma þeir sem eru atkvæðamestir í google auglýsingum. Það er ástæða til að vera á varðbergi fyrir því að þær fréttir sem ná á forsíðu og eru hafðar mest áberandi eru þar sennilega vegna þess að sá sem stýrir vefgáttinni hefur velþóknun á þeim. Það er því líklegt að þeir sem búa yfir fjármagni og vilja auka völd sín til að afla meira fjármagns séu í miklu betri aðstöðu til að koma fréttum sem henta þeim á forsíðu. Þannig er það líka í fjölmiðlalandslagi nútímans og fortíðarinnar. Fréttir á forsíðum eru afar hliðhollar þeim sem hafa völd, fjölmiðlar forðast að stygga  valdamikla auglýsendur og stjórnmálamenn. 

 Sennilega er sniðugast í sambandi við svona almannafréttagátt eins og Mogginn ætlar að setja upp að á Moggablogginu verði einn takki í viðbót þar sem hægt er að senda blogg inn á fréttir Moggans, svona eins og núna eru oft hnappar fyrir Digg og del.icio.us á vefsíðum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: krossgata

"þetta kerfi virkar ágætlega en það gengur út á það að maður treysti því að fjöldinn hafi rétt fyrir sér "  Það kann nú ekki góðri lukku að stýra fyrir móðursjúka Íslendinga.  Verða þeir ekki bara fljótari að drepa hina og þessa meinta "Lúkasarmorðingja".  Það hefur ekki alveg verið þannig að fjöldinn hafi rétt fyrir sér, hefur eiginlega meira gengið út á að fjöldinn verður að engisprettufaraldri sem engu eirir.

krossgata, 9.8.2007 kl. 09:58

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er góð samlíking með engisprettufaraldur sem engu eirir. Hjarðhegðun okkar getur líka leitt okkur í ógöngur en það er nú kannski líklegra að það gerist einmitt þegar forustusauðirnir eru vankaðir. Ef allir verða hins vegar að forustufé þá verða fleiri sem geta varað við hættum, sérstaklega ef þeir eru að skoða mismunandi hluti. Það er því lífsnauðsynlegt að tryggja margbreytileika, ef við erum öll eins og hugsum öll eins þá er viðbúið að við fylgjum öll sömu línunni og spönum hvort annað upp í mistök. 

Reyndar finnst mér líka ágætt að líkja þessu við læmingja eins og engisprettur. Læmingjar fylgja hver öðrum í blindni og ana út ógöngur og fremja einhvers konar fjöldasjálfsmorð í læmingjaárum. Þannig getur mannfólkið líka verið. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.8.2007 kl. 13:55

3 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Takk fyrir fróðlega og skemmtilega grein

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 9.8.2007 kl. 17:53

4 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Já, takk fyrir þessar upplýsingar. Nú er að melta þetta.

María Kristjánsdóttir, 9.8.2007 kl. 18:15

5 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Góðar upplýsingar,takk fyrir .  Kvedja  María

María Anna P Kristjánsdóttir, 10.8.2007 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband