Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
22.8.2007 | 02:20
Nýtt jafnréttisráð með góðu fólki
Ég er ánægð með að sjá hverjir skipa nýtt jafnréttisráð, mér sýnist þar valinn maður í hverju sæti og það er fólk sem hefur látið sig jafnréttisráð miklu varða. Frábært að Hildur sé formaður jafnréttisráðs, allir sem hafa fylgst með jafnréttismálum síðustu áratugi vita hvað hún hefur starfað ötullega og svo eru margir reynsluboltar sem ég þekki af góðu einu í jafnréttismálum, Una María í Landssambandi Framsóknarkvenna og Svandís í Vinstri grænum og borgarstjórn og Þorbjörg í Kvenréttindafélaginu og svo vann ég einu sinni með Þórveigu í Menntamálaráðuneytinu og veit að hún stendur sig alls staðar vel og ekki finnst mér verra að Ólafur Pétur frændi minn sé í jafnréttisráði.
Formaður jafnréttisráðs er Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi. Aðrir í ráðinu eru Maríanna Traustadóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands, Þórveig Þormóðsdóttir, tilnefnd af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Björn Rögnvaldsson, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, Ólafur Pétur Pálsson, tilnefndur af Háskóla Íslands, Una María Óskarsdóttir, tilnefnd af Kvenfélagasambandi Íslands, Þorbjörg I. Jónsdóttir, tilnefnd af Kvenréttindafélagi Íslands, Svandís Svavarsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Hörður Vilberg, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins.
Ég sé að það eru fjórir karlmenn búnir að blogga um fréttina um skipan jafnréttisráðs og það er allt á sömu bókina lært, þeir fylgjast mjög nákvæmlega með kynjahlutfallinu í jafnréttisráði og hrópa hástöfum um að það séu of fáir karlar þar. Ég vildi óska þess að sama árvökula auga fylgdist með öðrum valdastöðum í samfélaginu eins og t.d. hverjir fara með fjármálavöldin og stjórna auðlindum Íslendinga. Til að upplýsa hvernig staðan er þá er hérna stutt vídeó sem ég tók þegar ég smyglaði mér einu sinni inn á landsfund íslenskra útvegsmanna árið 2003 og leit í kringum mig og svipaðist um eftir konum þar. Það var nú bara eins og að taka þátt í einhverri leit að því sem hvergi er sjáanlegt, það væri gaman að vita hvort einhver sem les þetta blogg kemur auga á konu í þeim hundruðum sem þennan fund sóttu og þá hve margar.
Reyndar er það svo að jafnréttisráð er eina nefndin þar sem tiltekið er eitthvað um hvernig kynjahlutfallið skuli vera. Svona er lagagreinin:
7. gr.Jafnréttisráð.Eftir hverjar alþingiskosningar skipar félagsmálaráðherra níu manna Jafnréttisráð. Ráðherra skipar formann án tilnefningar, einn nefndarmann tilnefndan af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndan af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn tilnefndan af fjármálaráðuneyti, einn tilnefndan af Háskóla Íslands, einn tilnefndan af Kvenfélagasambandi Íslands, einn tilnefndan af Kvenréttindafélagi Íslands, einn tilnefndan af Samtökum atvinnulífsins og einn tilnefndan af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Tilnefningaraðilar skulu tilnefna einn karl og eina konu til setu í Jafnréttisráði. Við skipun í ráðið skal þess gætt að hlutfall kynjanna verði sem jafnast.
Kostnaður við starfsemi ráðsins greiðist úr ríkissjóði. Félagsmálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um störf Jafnréttisráðs og skrifstofuhald.
Það er nú nánast sjálfgefið að Kvenréttindasamband Íslands og Kvenfélagasamband Íslands tilnefni konur í ráðið amk þegar eingöngu konur bera upp starfið í þessum félagasamtökum. Félagsmálaráðherra skipar bara einn aðila þ.e. formanninn og það er erfitt að koma auga á karl sem hefði meiri burði en Hildur Jónsdóttir til að vera formaður ráðsins.
Það er ekki gott að kynjahlutfallið sé ójafnt í nefndum og það er nauðsynlegt að hafa einhverja vinnureglur ef tilnefningar í nefndir eru frá félagasamtökum. Mér sýnist nú ekki hafa verið farið eftir því sem stendur í þessari lagagrein, gott væri að fá skýringu á því, er skýringin hugsanlega sú að tilnefningaraðilar tilnefndu tilnefndu ekki bæði konu og karl?
En mér finnst allt benda til að jafnréttismálum sé vel skipað á næstunni með Jóhönnu Sigurðardóttur sem ráðherra jafnréttismála, Kristínu Ástgeirsdóttur að stýra Jafnréttisstofu og svo þetta ágæta jafnréttisráð sem ég vil óska brautargengis og vona að þessi góði hópur þoki málum áleiðis.
![]() |
Nýtt jafnréttisráð skipað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.8.2007 | 14:46
Afveigaleiddur prestur
Í DV í dag er fjallað um Egil Hallgrímsson prest í Skálholtskirkju sem kynnir fjárfestingaklúbb fyrir fólki og selur Herbalife í aukavinnu meðfram störfum sínum sem sóknarprestur í Skálholtskirkju.
Sjá má meira um hugðarefni Egils á vefsíðunni http://www.ehallgrimsson.com/
Hér er svo sérstök meðmælasíða Egils um Bridge fjárfestingaklúbbinn.
Egill er líka moggabloggari eins og ég og notar vettvanginn til að rökstyðja að hann megi alveg tala um fjárfestingar í bloggpistli sínum í gær, sjá hérna:Hverjir mega tala um fjárfestingar?
Hér er skjámynd þar sem Egill mælir með herbalife og bridge fjárfestingum:
Egill virðist vera skemmtilegur og hress maður en hann er á villigötum varðandi þetta fjárfestingaáhugamál sitt og hvernig hann blandar því saman við hugsjón sína sem sálusorgara. Það er þó ekkert ólöglegt og sennilega ekkert í siðareglum presta sem bannar svona iðju presta. Ég held að lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gildi ekki um presta en þessi iðja Egils er klárlega ósamrýmanleg þeim lögum nema hann hafi fengið leyfi yfirmanna sinna biskupsins til að sinna svona aukastörfum og þar með það mat að þetta sé ekki ósamrýmanlegt starfi hans sem prests.
Egill segir í DV viðtali "Ég hef fengið misjöfn viðbrögð en það er bara eins og þegar ég fékk mér mótorhjól. Fólki fannst það ekki samræmast starfi prestsins að þeysa um á því".
Hérna er Egill á villigötum. Það er reginmunur á því að fá sér mótorhjól og tæta og trylla um á því á sveitasvegum á Suðurlandi og því að sálusorgari - maður í embætti þar sem fólk treystir þvi að hann vaki yfir velferð þess - ráðleggi um afar áhættusamar fjárfestingar. Það myndi enginn fjármálasérfræðingur með sjálfsvirðingu ráðleggja fólki um fjármál á sama hátt og Egill gerir. En því miður þá er líklegt að einhverjir treysti presti betur en einhverjum Jóni eða Gunnu út í bæ og láti frekar ginnast.
Það er bara flott að prestur sé á mótorhjóli og það er allt í lagi að prestur ráðleggi fólki varðandi lífsstíl sinn m.a. offitu svo fremi sem prestur blekki ekki fólk til að taka inn eitthvað sem getur skaðað það eða taki þátt í að féfletta fólk með að selja því eitthvað gagnlaust rusl. Ég held nú reyndar að herbalife sé ekki gagnlaust, margir telja að það hafi gagnast sér. En sölumennskan í herbalife er mjög vafasöm og margir eru vélaðir til að verða Herbalife sölumenn og kaupa lagera og veit ég til þess að ungt fólk á Íslandi hafi orðið gjaldþrota vegna þessa.
En ég vona að séra Egill leiti sér ráðlegginga hjá fjármálasérfræðingum og taki upp samstarf við einhverja virta banka á Íslandi áður enn hann fer að ráðleggja fólki um galgopalegar fjárfestingar. Síðustu ár hafa verið uppgangstími á Íslandi og fólk er andvaralaust í fjármálum og hefur tilhneigingu til að telja að hlutirnir haldi áfram í sömu átt, að húsnæði haldi áfram að hækka í verði og kaupið að hækka og þar með lánin að lækka hlutfallslega. Fólk sem hefur misst allt sitt fé og á ekkert nema skuldir er mjög fjötrað og oft mjög óhamingjusamt. Það er verðugt verkefni fyrir presta sem og aðra sem sinna sálgæslu að skilja og reyna að sporna við auknum vanda þessa fólks en það er alls ekki gott ef prestar eru í broddi fylkingar þeirra sem steypa sér í eitthvað fjármálafen og ráðleggja öðrum að gera það sama.
Við lauslega gúglun á Bridge ltd. þá virðist mér þetta vera pýramídasölufyrirtæki. Ég fann m.a. þessar umræður á spjallvef MindArk - con artist?
But Peter Alling, legal expert at the Swedish Lottery Inspection has reviewed Bridge Group and classifies it as a pyramid scheme. Which has resulted in the Lottery Inspection reporting them to the police. The only way for the members of Bridge to make money is to recruit new members.
Þar fann ég líka tengil í þessa áhugaverðu sænsku grein um Bridge:
Entropia-bolaget värt 200 miljoner
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.8.2007 | 14:11
Kofaþyrpingar, skúrar og gámar
Ef ég ætti að nefna hvað heillar mig mest í nútíma arkitektúr þá held ég að ég myndi nefna "prefab" eða gámahús. Mér finnst svo flott hvernig hugmyndin um hjólhýsahverfin (trailor park) þar sem allt efni kemur tilsniðið á staðinn og umbúðir utan um vörur (gámar) er notað þannig að sá sem ætlar að búa í húsinu getur hannað sitt hús úr tilbúnum einingum.
Mörgum finnst gámar ljótir og sjá ekki fegurðina í gámastöflum og sjá ekki möguleikana í þeim sem byggingarmódeli í borgum. Sama er með hjólhýsin, þau eru tengd við lífshætti þeirra sem hafa ekkert val og búa í fátækrahverfum úr hjólhýsum út úr neyð. Við marga skóla í Reykjavík eru kofabyggingar með tilbúnum skólastofum til bráðabirgða á meðan hverfið er yfirfullt. En væri ekki hægt að hugsa sér skóla sem væri allur settur saman úr svona færanlegum einingum, hannaður eftir þörf og áherslum hverju sinni?
Það er nú reyndar ein tegund af arkittektúr á Íslandi sem mér finnst alveg steingeld og stöðnuð. Það eru sumarhúsin sem núna spretta upp alls staðar. Þetta eru falleg og vinaleg hús svona þegar maður sér eitt eða tvö en þau eru nú þúsundum saman á litlu svæði, væri ekki hægt að auka meira á fegurð umhverfisins með öðruvísi og meiri fjölbreytni í sumarhúsum - sem hugsanlega taka meira tillit til umhverfisins. Reyndar held ég að ýmsar byggingarreglugerðir um sumarhús m.a. að þau urðu að vera mjög lítil og eina efnið sem leyfilegt er er timbur hafi orðið til þess að svo lítil fjölbreytni er í sumarhúsum og fólk reisi alltaf eins hús. Mér finnst þessi hús sem eru timburklædd að innan og utan með timburpöllum ekki falla neitt vel að íslenskri náttúru nema helst í miklu skóglendi. Allt efni í þessi hús er að ég best veit innflutt.
Sennilega myndu gámahús úr gömlum gámum geta verið ágæt í íslensku landslagi og hugsanlega mætti nýta þakið sem einhvers konar útsýnispall eða svalir eða til að rækta gras á.
Hér eru nokkrar slóðir með hugmyndum um svona hús:
Myndin er af gámahúsi í Second Life. Þeir sem hafa áhuga á arkitektúr ættu að kynna sér möguleika til að hanna hluti í þeim þrívíddarheimi eða búa í húsum þar. Sjá t.d. þessa myndaseríu af húsum í sýndarheimi.
![]() |
Hafa allir vit á arkitektúr? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.8.2007 | 06:38
Rauðu jarðlögin á Vestfjörðum
Þegar ekið er Ísafjarðardjúpið og Óshlíðin þá er bergið oft fallegt og litskrúðugt, á mörgum stöðum má sjá rauðleitt berglag.
Ég held að þetta rauða jarðlag sé kallað laterite.
Þetta stendur í jarðfræðiritgerð Gísla:
Laterit er rauður eða gulur jarðvegur sem myndast í hitabeltis og heittempruðum löndum. Frumskilyrði fyrir myndun slík jarðsvegs er mikil úrkoma sem leiðir af sér að nær öll steinefni skolast úr jarðvegi en eingöngu óuppleysanleg efni eins og járn og/eða ál oxíð verða eftir. Rauð millilög og surtarbrandur eru áberandi í Míósen staflanum á Vestfjörðum og Austfjörðum en hverfa af sjónarsviðinu á Plíósen tíma sem bendir til kólunar í loftslagi.
......
Mjög fátítt er að finna steingervinga í rauðum millilögum vegna mikillar oxunar og venjulega eyðast lífrænar leifar við slík ferli.
20.8.2007 | 09:41
Maður sem við skulum nefna "Sigurður"
Ég horfði á íslensk sakamál í sjónvarpinu gærkvöldi. Þátturinn fjallaði um morðið á Gunnari Tryggvasyni leigubílstjóra sem fannst í bíl sínum við Rauðalæk árið 1968. Málið er ennþá óupplýst en þátturinn sagði frá öðrum leigubílstjóra sem lá undir grun m.a. vegna þess að hann hafði undir höndum byssu sem hann komst yfir á vafasaman hátt. Það var einkennilegt að horfa á viðtal við öldruð hjón næstum fjörutíu árum seinna og skynja hve mikil áhrif þetta hafði á líf fjölskyldunnar - bæði á meðal maðurinn sat í gæsluvarðhaldi og útskúfun samfélagsins eftir þann tíma, konan sagði frá því hvernig þau hefðu misst húsnæði sitt og verið sagt upp leigu eftir að maðurinn var laus úr varðhaldi. Hann var sýknaður bæði í undirrétti og hæstarétti.
Maðurinn sem í þættinum var nefndur Sigurður virðist ekki hafa haft neina ástæðu til morðsins en á hann féll grunur því hann hafði undir höndum byssu sem talið er eins og morðvopnið og var líka leigubílstjóri.
það eru sem betur fer ekki mörg morð framin á Íslandi og sárafá þar sem morðinginn hylur slóð sína þannig að sennilega hefur ekki byggst upp mikil færni á rannsókn slíkra sakamála hérna. Alla vega fannst mér nokkuð heimóttarlegt að binda sig við að leita að einhverri byssu sem hefði horfið frá einhverjum Jóhannesi sem hafði beðið einhvern Lárus í lögreglunni að grennslast fyrir um hana án þess þó að leggja fram tilkynningu um að henni hefði verið stolið. Mér finnst þetta líka segja dáldið um vinnubrögð lögreglu á þessum tíma, voru lögreglumenn á útkikki eftir eignum mektarmanna ef einhverju var hnuplað úr prívat vopnabúri þeirra? Og var það ekki skráð í neinar skýrslur heldur bara munnleg frásögn þessa Lárusar eftir að morð hefur verið framið að Jóhannes hafi svona þeirra á milli beðið hann að svipast um eftir byssunni horfnu.
En alla vega þá lá "Sigurður" undir grun lengi. Hann segist sjálfur hafa stolið byssunni frá þessum Jóhannesi.... ég veit ekki hversu veikgeðja "Sigurður" er en mér finnst mjög líklegt að umræddur Lárus hafi verið strax fixeraður á að það hlyti að hafa verið þessi byssa sem hann var beðinn að svipast eftir sem væri morðvopnið. Það getur auðvitað verið að svo sé.
En ef til vill hefur rannsókn lögreglu á sínum tíma verið í blindgötu ef allt kapp hefur verið lagt á að tengja morðið við þessa tilteknu byssu og ganga út frá því að þetta sé eina byssan af þessari gerð á Íslandi. Annars líkist þetta morð aftöku og jafnvel eins og það hafi verið framið af vitskertum manni með byssudellu sem væri að prófa að drepa því það vantar alveg mótív - alla vega miðað við þær upplýsingar sem almenningur hefur um þetta mál. En eflaust hefur rannsókn lögreglu á sínum tíma náð til allra byssukalla í nágrenninu, það eru sennilega ekki svo margir.
En þetta mál rifjaði upp í hug mínum annað sakamál sem einnig gerðist fyrir mörgum áratugum og sem ég þekki reyndar afar lítið til. Ég veit ekki einu sinni til að það hafi nokkuð verið dæmt í því máli, eftir því sem ég best veit þá var maður sakaður um að bana konu sinni og hann var settur - ekki í fangelsi heldur var hann eftir því sem ég best veit sviptur sjálfsforræði og settur í ótímabundina vistun á stofnun fyrir þroskahefta. Það var mikil mannréttindabrot. Ég vona að einhvern tíma verði það mál tekið upp af einhverjum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2007 | 11:09
Framsókn fundin
Staksteinar Morgunblaðsins hafa eins og aðrir landsmenn haft þungar áhyggjur af því að við Framsóknarmenn höfum ekki haft okkur nógu mikið í frammi, sjá t.d. þennan pistil Hvar er Framsókn?
Þeir spyrja þar hvort að Framsóknarflokkurinn sé bara Björn Ingi Hrafnsson og benda réttilega á mikilvægi þess hér sé stjórnarandstaða. En það er að færast aftur líf í Framsóknarflokkinn eftir kosningarnar og nú um helgina verður landsþing framsóknarkvenna. Eygló Harðardóttir í Vestmannaeyjum sem einmitt er ein af moggabloggurum býður sig fram í formennsku. Vonandi nær hún kjöri, bæði er Eygló mikill kvenskörungur en svo finnst mér ekki síður mikilsvert að konur úr sjávarplássunum taki virkan þátt í stjórnmálalífinu á Íslandi og hafi áhrif. Það er ástæða til að hvetja allar konur sem vilja byggja upp öfluga stjórnarandstöðu og taka undir hugsjónir Framsóknarflokksins til að taka þátt í kvennahreyfingu Framsóknarflokksins.
Vefsíða landsambands framsóknarkvenna er http://www.lfk.is
Bjarni Harðarson Framsóknarþingmaður hefur lagt land undir fót í sumar og flakkað um heiminn í leit að Framsóknarmönnum. Hann er núna í Perú og þar er hann búinn að finna nokkra sem líta út eins og Framsóknarmenn bernsku hans, sjá bloggið hans I riki iturvaxinna Framsoknarmanna
Já. Fréttir af andláti Framsóknarflokksins eru stórlega ýktar.
Svo má fylgjast með skrifum margra framsóknarmanna á bloggi.
Þingmenn Framsóknar
- Agnes Ásta Woodhead
- Anna Kristinsdóttir
- Björn Ingi Hrafnsson
- Bryndís Gunnlaugs
- Eggert Sólberg Jónsson
- Eygló Þóra Harðardóttir
- Eysteinn Jónsson
- Fanný Guðbjörg Jónsdóttir
- Gestur Guðjónsson
- Gunnar Bragi Sveinsson
- Gunnlaugur Stefánsson
- Helga Sigrún Harðardóttir
- Herdís Sæmundardóttir
- Hlini Melsteð Jóngeirsson
- Jakob Hrafnsson
- Kjartan Már Kjartansson
- Kristbjörg Þórisdóttir
- Margrét Katrín Erlingsdóttir
- Marsibil Sæmundardóttir
- Pétur Gunnarsson
- Ragnar Bjarnason
- Salvör Gissurardóttir
- Stefán Bogi Sveinsson
- Sveinbjörn Eyjólfsson
- Sveinn Hjörtur Guðfinnsson
- Sæunn Stefánsdóttir
- Valdimar Sigurjónsson
![]() |
Býður sig fram til formennsku í Landssambandi framsóknarkvenna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.8.2007 | 12:09
Alvarlegt ástand í fjármálaheiminum
Mér sýnist íslenska krónan í frjálsu falli, hún hefur lækkað um næstum 13% á einum mánuði. Ofan á þetta bætist að hlutabréf bæði erlend og innlend lækka núna gríðarlega. Hlutabréfalækkunin í heiminum í dag virðist alls staðar vera tengd við húsnæðislán í Bandaríkjunum - það var auðvelt að fá þar lán og lántakendur geta ekki staðið í skilum.
Þetta getur verið alvarlegt fyrir þá Íslendinga sem eru stórskuldugir og hafa gert ráð fyrir að húsnæði haldi áfram að hækka í verði og sem nú þegar eiga enga eigin eign í húsnæði og hafa keypt allt á verðbólgu- og/eða gengistryggðum lánum. Við sem munum eftir misgegnisárunum á Íslandi vitum hvernig það er þegar allt kaupið fór í að borga niður lán en lánin hækkuðu samt gríðarlega í hverjum mánuði.
Sú kynslóð sem nú hefur verið að kaupa sér sínar fyrstu íbúðir hefur búið við velmegun undanfarin ár og auðveldan aðgang að lánsfjármagni.
Mörg íslensk fyrirtæki eru háð alþjóðlegum markaði, ekki síst fjármálafyrirtækin en líka fyrirtæki eins og íslensk erfðagreining og öll fyrirtæki sem selja og kaupa vörur erlendis frá. Reyndar mun lækkun krónunnar væntanlega hafa góð áhrif á sjávarútvegsfyrirtæki þegar til skamms tíma er litið.
Hér eru nokkrar greinar um ástandið á alþjóðamarkaðnum:
Global Markets Tumble Amid Mortgage Crisis
![]() |
Hrun á hlutabréfamörkuðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.8.2007 | 15:19
Þynnur og þéttar
Mbl.is birti áðan fyrirsögn um að iðnaðarráðherra vildi nota nýyrðið aflþynna um "capacitor". Mér fannst það skopleg fyrirsögn en nú finn ég ekki fréttina aftur, kannski þeir hafi breytt fyrirsögninni og gert hana alvarlegri en ég alla vega fann mig tilknúða til að blogga um þetta nýyrði aflþynna
Það er góðs viti að það sé svo lítið að frétta á Íslandi að bloggarar skrifi hvert bloggið af öðru um hvað aðrir bloggarar séu innantómir og hinn hugmyndaríki iðnaðarráðherra okkar noti hugvitið til að búa til ný orð. Aflþynna er fínt orð og ég ætlaði náttúrulega að bæta strax grein um þetta fyrirbæri inn í íslensku wikipedia en þá sá ég að til var grein um sama fyrirbæri. Þetta hefur nefnilega verið þýtt hingað til með orðinu þéttir það er sú íslenskun sem notuðu hefur verið á orðinu capacitor.
Það er nú alveg magnað hvernig vörur flæða um heiminn. Ég las á akureyri.is að þessi fyrirhugaða verksmiðja á Akureyri ætti að vera þannig að hingað ætti að flytja inn ál frá Asíu (kannski ál sem hefur verið upphaflega framleitt hérna og er svo flutt út til að flytja það inn aftur?) og svo ætti að möndla með það hérna og flytja það aftur til Asíu og þar er þar yrðu þessar aflþynnur eða þéttar framleiddir. Þannig að það er nú kannski ekki hægt að tala um aflþynnuverksmiðju hérna, hér myndi bara vera eitt þrep í framleiðsluferlinu. Það er áhugavert að spá í hvers vegna það getur borgað sig að flytja vörur fram og til baka um heiminn á meðan á framleiðslu stendur. Svoleiðis flutningur hlýtur að kosta orku og peninga. Er orkan hérna á Íslandi svo ódýr að þetta borgar sig?
Svona á framleiðslan að vera:
Framleiðslan hér á landi yrði í grófum dráttum þannig að fluttar væru inn álþynnur frá Asíu. Þær væru þræddar í gegnum vélar með sýruböðum og síðan vafnar upp aftur og fluttar til frekari úrvinnslu til Kína eða Japans, má því segja að framleiðsluferlið líkist prentiðnaði um margt. Í Asíu væru síðan framleiddir rafmagnsþéttar úr álþynnunum sem eru síðan notaðir í flestum rafeindatækjum. Markaður fyrir rafmagnsþétta úr áli hefur vaxið stöðugt undanfarin ár og er búist við framhaldi á því þar sem ál er talinn heppilegasti málmurinn sem hægt er að nota í þéttana í dag.
![]() |
90 ný störf með nýrri aflþynnuverksmiðju í Eyjafirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.8.2007 | 08:11
TUBORG útilegan
Háskólarnir á Íslandi eru að taka til starfa. Það segir sína sögu um skólahald og þjóðfélagsástand á Íslandi í dag hvernig nemendur skólanna og nemendafélög gleðjast og merkja upphaf skólaársins.
Hér til hliðar er plakat sem sem er auglýsing fyrir skemmtun nemendafélags HR.
Á baksíðu DV í dag er fréttin"BJÓÐA NEMENDUM Á FYLLERÍ" og fjallar hún um það hvernig styrktaraðila nemendafélaga HR tengjast Tuborg-bjórhátíð nýnema. Fréttin byrjar svona:
Öllum nýnemum Háskólans í Reykjavík er boðið á bjórhátíð í Þrastaskógi um næstu helgi. Hátíðið er auglýst í nafni Símans og Kaupþings sem eru styrktaraðilar nemendafélaga skólans. Hátíðin ber heitið Tuborg útilegan og það er því í raun Ölgerðin Egill Skallagrímsson sem styrkir bjórveitinguna.
Í Þrastarskógi verður slegið upp risaveislutjaldi þar sem Stúdentaráð Háskólans í Reykjavík býður til grillveislu og öllum verður boðið upp á Tuborg bjór. Í auglýsingu hátíðarinnar eru veislugestir hvattir til að teyga kaldan bjór í gígalítratali, þar er sagt að gleðinni verði haldið eins lengi fram eftir nóttu og þeir hörðustu hafi orku til.
Ég sé á vefsíðu ýmissa nemendafélaga að þessi hátíð er þar auglýst
Þetta er nú örugglega heimagerð auglýsing einhvers nemanda í skólanum sem heldur í einfeldni sinni að Síminn og Kaupþing vilji bendla sig við það að styrkja svona drykkjuslark. Vonandi bregðast markaðsaðilar hart við og sýna að það er ekki vilji þessara fyrirtækja að sverta ímynd sína með þessum hætti.
Það er nú samt soldið fyndið í heimatilbúnu auglýsingunni að útilega er skrifuð ÚTILEIGA, svona er "out-sourcing" (úthýsing er íslenska orðið ef ég man rétt) hugsunarhátturinn orðinn gegnsósa í málinu.
Það er vel við hæfi að við förum að syngja núna "Útileigumenn í Ódáðahraun, eru kannski að smala fé á laun" um þá sem kunna klæki peninganna og allt um skuldsetta yfirtöku og að miskunna sig yfir og slá eign sinni á "eigendalaust fjármagn" samvinnufélaga og ríkisfyrirtækja og raka saman fé og flytja það til og frá um heiminn eftir því sem ávöxtunin er best.
Ætli gengið sé búið að falla nóg miðað við jöklabréfin?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.8.2007 | 16:43
Allt fyrir ástina
Hér er 4 mínútu vídeó sem ég tók á Gaypride niðri við Arnarhól í gær.
Vídeóið byrjar á Pagasi sem flytur okkur suðurameríska karnivalstemmingu á hverju ári. Vídeóið nefni ég "Allt fyrir ástina" eftir laginu sem hljómaði mestallan tímann sem ég tók upp.
Hér eru nokkrar ljósmyndir sem ég tók niðri í bæ í gær. Fleiri myndir má sjá hjá gaypride.is
Iða Brá setti myndir á myspace Reykjavik Gay Pride 2007 vol 1
Ég fór einu sinni á Gaypride í Kaupmannahöfn og þar var allt öðru vísi stemming en hér, þeir sem voru uppábúnir í göngunni þar virtust vera fulltrúar einhverra kráa sem voru að auglýsa sig og það var ekki eins mikil fjölskyldustemming eins og hérna. Það er nú frekar erfitt að hugsa um homma og lesbíur sem ofsótta minnihlutahópa á Íslandi í dag, alla vega þegar maður er í 50 þúsund manna hópi á Arnarhóli sem allur er skreyttur regnbogamerkjum og hátalarakerfin bylja brýningar og nota orðið "Við Gay fólkið" umm okkur þessi 50 þúsund. En það eru 365 dagar í árinu, ekki bara þessi eini.
Youtube er snilld, ég fann mörg skemmtileg vídeó um Gaypride í Reykjavík. Hér er eitt sem heitir "Ég er eins og ég er"
Páll Óskar er með mörg vídeó á Youtube og þar á meðal "Allt fyrir ástina" en ég gat ekki spilað það áðan.
![]() |
Tugir þúsunda taka þátt í Hinsegin dögum í miðborg Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)