Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.9.2008 | 11:06
Viðskiptasnilld Össurar
Það er mjög erfitt að halda uppi málefnalegri umræðu í íslensku samfélagi um mál sem er þess eðlis að gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi og gera það í samfélagi þar sem nánast allir fjölmiðlar sem einhverja útbreiðslu hafa eru í eigu þeirra aðla sem hafa hagsmuni af því að komast yfir eða hafa milligöngu um hvernig auðlindum Íslands er ráðstafað.
Þannig er núna búin til einhvers konar gerviumræða um sölu á virkjunum Landsvirkjunar og látið eins og hugmyndir hafi kviknað í höfði á minniháttar spámanni í Samfykingunni honum Helga Hjörvar sem ekki er ráðherra í ríkisstjórninni sem núna situr. Það dylst hins vegar ekki neinum að Helgi er þarna málpípa Össurar og annarra ráðherra í ríkisstjórninni sem vilja fresta því að horfast í augu við vandamálin og vilja búa til peninga strax og núna með því að koma í seljanlegar eignir öllu því sem hægt er að selja til að gera fjármagnað alls konar útrásarverkefni.
Það væri fróðlegt að greina orðræðu Össurar þann tíma sem hann hefur setið sem iðnaðarráðherra og skoða hve mikið hann talar í samhljómi með þeirri fjármálastefnu sem nú hefur beðið gífurlegt skipsbrot í heiminum, svo mikið er það skipsbrot að það er ennþá ekki útséð um hvort stórfelldar björgunaraðgerðir bandarískra stjórnvalda takist að bjarga því að fjármálamarkaður hrynji algjörlega í hinum vestræna heimi.
Ég hef oft hlustað og lesið það sem Össur hefur til málanna að leggja og ég hreinlega botna ekki í að skynsamur maður eins og Össur skuli tala svona gáleysislega og glæfralega um fjármál heillar þjóðar og tala eins og hann sé lobbýisti eða almannatengslafulltrúi hjá fjárfestingasjóði. Reyndar má nefna að forseti okkar Ólafur Ragnar Grímsson hefur talað í sama dúr og sennilega hafa þeir báðir tendrast upp af einhvers konar Al-gore-græn-orka-voða-fínt tísku sem vissulega geri Ísland að góðri fyrirmynd. Já, það er góð fyrirmynd fyrir heiminn hvernig Íslendingar brugðust á sínum tíma við orkukreppunni og nýttu jarðvarmaorku og fallorku þjóðarinnar með því að taka höndum saman í ríkisfyrirtækjum og fyrirtækjum í eigu sveitarfélaga já ég endurtek ef þetta hefur farið fram hjá einhverjum í ríkisfyrirtækjum og fyrirtækjum í eigu sveitarfélaga. Þar er auðvitað hitaveitan í Reykjavík langstærsta og merkasta framlagið. Þar sem ekki voru öflug sveitarfélög heldur margir hreppar þá hamlaði það framþróun orkuveitna og þróunin hefur orðið sú að lítil sveitarfélög hafa ekki haft bolmagn til að reka þessar veitur og heimamenn hafa því selt þær til Rarik eða OR.
Núna þegar Ísland er á alþjóðavettvangi fyrirmynd um hvernig græn orka er hérna virkjuð getur þá einhver bent mér á einhverja virkjun einkaaðila og virkjun í einkaeign sem hefur virkað eitthvað á Íslandi til að skapa þetta orðspor um orkunýtingu Íslendinga? Ætla menn ef til vill að rifja upp ævintýrið um Fossafélagið og fjárglæfra Einars Benediktssonar og taka það sem gott dæmi um einkaframtak í orkumálum á alþjóðlegum markaði sem skilaði árangri?
Það dettur engum sem fylgst hefur með orðræðunni um orkumál annað í hug en að Helgi Hjörvar sé lítið peð í tafli Össurar og útspil Helga núna með tveimur moggagreinum dag eftir dag er til að plægja akurinn, það kom fram í REI málinu hversu mikil andstaða var við sýn Össurar í orkumálum og það hefur margoft komið fram að almenningur á Íslandi er ekki tilbúinn til að gefa auðlindir sínar og lífsbjörg í framtíðinni inn í loftkastala og fjárfestinga spilapeningalotterí.
Þess vegna er málið reifað núna, kannski til að finna hversu andstaðan er mikil, kannski til að búa til gervisamstöðu með þessum hugmyndum - það er tiltölulega auðvelt í samfélagi þar sem allir fjölmiðlar eru með einum eða öðrum hætti tengdir hagsmunaaðilum og margir stjórnmálamenn eru eins konar lobbíistar á þeirra vegum.
Það er ábyrgðarlaust að tala eins og Össur hefur talað sem iðnaðarráðherra og sá ofsagróði sem hann býr til með orðum þegar hann talar um útrásir og orkufyrirtæki á sér engar stoðir í raunveruleikanum og hann lýsir umhverfi sem á ekkert skylt við það umhverfi viðskipta og atvinnulífs sem hagfræðikenningar og hagfræðilíkön og hagskýrslur lýsa. Össur stendur fyrir viðskiptasýn sem núna er á alþjóðavettvangi að falla í duftið með brauki og bramli.
Er eitthvað sem Össur hefur afrekað í íslenskri stjórnsýslu sem hefur fært íslensku þjóðinni einhver verðmæti? Eða er eitthvað í ferli hans sem sýnir að honum hefur tekist vel upp við að stýra miklum verðmætum og láta þau ávaxtast og dafna?
Sem iðnaðarráðherra stýrir Össur nú fjöreggi íslensku þjóðarinnar sem eru orkuauðlindir okkar. Gerir hann það með hagsmuni íslensku þjóðarinnar í fyrirrúmi eða gerir hann það sem lobbýisti fyrir hagsmuni valdamikilla aðila sem vilja breyta því í fjárfestingarfé fyrir sig og sína?
![]() |
Össur: Áhugaverð hugmynd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2008 | 01:40
Að losa peninga - Raufarhafnarstemming hjá Helga Hjörvar
Helgi Hjörvar vill selja Kárahnjúkavirkun og fleiri virkjanir. Hann kallar það að losa peninga. Ég kalla það að selja útsæðið. Fjármálapælingar Helgi Hjörvar alþingismanns eru álíka ruglaðar og grunnhyggnar og fjármálastjórnin var hjá Raufarhöfn um síðustu árþúsundamót. Sjá þetta blogg sem ég skrifaði á sínum tíma: Raufarhafnarstemming í Reykjavík
Helgi Hjörvar talar um auðlindasjóð og sér fyrir sér í hillingum hvað sá sjóður geti ungað út miklum verðmætum. Orð kosta enga peninga og Helgi þarf ekki að standa reikningsskil á þokukenndum loftköstulum eins og þessum: "Eftir að honum (þ.e. auðlindasjóðnum) yxi fiskur um hrygg opnaðist tækifæri til að fela honum tiltekin verkefni sem launafólk þyrfti þá ekki lengur að fjármagna með skattgreiðslum".
Þetta er ekki mikil speki. Þetta er frekar eins og útjöskuð klisja úr stefnuskrá frjálshyggjufélags nema bara launafólk sett inn í staðinn fyrir atvinnurekendur enda veit Helgi að kjósendur Samfylkingarinnar eru margir launþegar. En ég hugsa að Helgi vanmeti vitsmunalega getu almennings á Íslandi. Það eru ekki allir eins auðginntir og Egill Helgason.sem finnst bara sniðugt að selja virkjanir þegar manni vantar pening.
Það er sorglegt að það eru ansi margir í hópi hinna talandi stétta á Íslandi sem hafa atvinnu af og beinlínis eða óbeinlínis hag af því að tala fyrir sjónarmið eins og Helgi Hjörvar talar fyrir í sinni grein. Þar nægir að biðja menn að skoða hvernig eignarhald á fjölmiðlum er á Íslandi og hvaða stjórnmálaöfl ráða fréttaflutningi í þeim fjölmiðlum sem eru í ríkiseign. Það er engin viðspyrna í hinu örsmáa íslenska samfélagi við stórum erlendum eða innlendum aðilum sem vilja kaupa hér auðlindir, auðlindir sem hingað til hafa verið óseljanlegar - ekki vegna þess að enginn vildi kaupa heldur vegna þess að almenn sátt ríkti um að þær væru hlutir sem ekki ættu að ganga kaupum og sölum. Um leið og auðlindum Íslendinga hefur verið breytt í tölur á blaði í einhverri hlutabréfavæðingu þá geta þau verðmæti flætt óhindrað hvert um heiminn sem er.
En áfram með söguna frá Raufarhöfn. Raufarhafnarhreppur var eitt ríkasta sveitarfélag á Íslandi, hreppurinn átti helling af peningum vegna þess að þar höfðu menn selt frá sér lífsbjörgina og kvótinn var seldur og þessi rosalegu verðmæti áttu að vera eins konar baktryggingasjóður, sveitarfélagið var að losa peninga.
En hvað gerðist? Jú, það sama og Helgi Hjörvar stingur upp á. Helgi vill líka losa peninga og hann vill líka eins og stjórnendur Raufarhafnar fjármagna þá í einhverjum baktryggingarsjóð. Helgi sér fyrir sér að sala virkjana gæti verið "hvati fyrir frekari framrás í orkuiðnaði og útrás með tilkomu nýrra fjárfesta". Takið eftir. Breyta á auðlindum Íslendinga í spilapeninga í fjármálalotterí. Hvernig fór með baktryggingarsjóð Raufarhafnar þegar þeir höfðu breytt kvótanum í peninga? Svarið er einfalt. Sjóðurinn hvarf. Allar fjárfestingarnar í hlutabréfum á gráa markaðnum og erlendum tækni og vaxtasjóðum gufuðu upp.
Helgi Hjörvar segir um verkefni í fiskveiðistjórnun að það sé brýnt "... að búa svo um hnútana að eftir hálfa öld verði fiskurinn í sjónum ekki einkaeign arabískra olíufursta eða annarra framandi fjárfesta sem enga hagsmuni hafa af sterku samfélagi á Íslandi". Þessu er ég sammála sem markmiði. Það er ekkert núna sem hindrar að kvótaeign og þar með ráðstöfun yfir veiði Íslendinga sé í eigu aðila sem búa erlendis og líta bara á það sem fjárfestingu og nútíma nýlendustefnu fjárfesta að eiga hér ítök í fiskveiðum - kannski með óbeinum og duldum hætti með gríðarflóknu neti fyrirtækja sem eiga hvert í öðru.
En það sem ég skil ekki er hvernig Helgi Hjörvar heldur að hægt sé að koma í veg fyrir að það sama gerist varðandi íslenskar orkulindir. Fiskimiðin eru ekki í framkvæmd nein sameign íslensku þjóðarinnar þó það standi í einhverjum lögum. Ef afnotarétturinn er seldur og kerfi afnotaréttarins er svo sterkt að við því verður ekki hróflað þá er formlegur eignaréttur á fiskimiðunum einskis virði fyrir almenning á Íslandi. Það eru engir nema erlendir kaupendur að íslenskum virkjunum. Þegar eignirnar sem ameríski herinn skildi eftir sig voru seldar þá var hægt að búa til pakka sem einhverjir Íslendingar gátu keyptu t.d. bróðir fjármálaráðherrra og fyrirtæki sem hann stýrir en ég hugsa að Íslendingar verði bara leppar þegar kemur að því að selja virkjanir, nema náttúrulega það séu búnir til stórir og þægilegir sérsaumaðir fjárfestingapakkar fyrir valda íslenska fjárfesta á miklu undirverði svo þeir geti strax selt aftur á hærra verði.
Það er undarleg tímasetning á þessari hugmynd Helga Hjörvars. Hann kýs að viðra hana á tíma þar sem það fjármálakerfi sem hann sækir innblástur úr er að hruni komið og allt bendir til að það hrun sé einmitt tilkomið vegna þess að tenging rofnaði milli raunverulegra verðmætra og raunverulegra viðskipta með vörur og þjónustu og þeirra viðskipta sem voru bara með mælieininguna sjálfa.
Það er alvarlegt ástand í fjármálalífi heimsins og það er að hruni komið og það er ekki rétta leiðin núna að láta eins og það kerfi virki og búi til peninga og verðmæti úr engu og verði eins og aligæs í draumi Helga Hjörvars, gæs sem verpir mörgum eggjum á leiðinni á markaðinn. Þau egg munu öll brotna og styrkur Íslendinga er ekki í heimi alþjóðlegra fjárfestingamarkaða og útrásar, styrkur Íslendinga er að kunna á sitt land og sitt umhverfi og lífa í sátt við það umhverfi og í því umhverfi eru varplönd heiðagæsa en ekki körfur fullar af eggjum aligæsa.
![]() |
Sóknarfæri að selja virkjanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.9.2008 | 23:50
Lögregluerjur
Þó að byggingarmarkaðurinn sé alveg stopp á Íslandi í dag og húsin hálfbyggð séu bara lokuð þá er ein tegund bygginga í miklum uppgangi, það er mikill uppgangur í byggingu fangelsa og mikil eftirspurn eftir þannig þjónustu, Fangelsin full og tvísett í 8 klefa
Svo er líka þras um sérsveitina.
Hvernig ætli þessar forvirku rannsóknarheimildir virki. Ætli allir sem sýna áhuga á efnafræði eða menningu miðausturlanda verði sjálfkrafa undir eftirliti.
![]() |
Ósáttir við ákvörðun dómsmálaráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.9.2008 | 11:07
Bataóskir
![]() |
Utanríkisráðherra veiktist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.9.2008 | 08:19
Sundruð lögregla
Það kemur ekki vel út að ágreiningur innan lögreglu sé háður í fjölmiðlum. Mér finnst ekki klókt að yfirmaður sérsveitar segi sig úr félagi með fjölmiðlabrambolti ef það er markmið hans að stuðla að því að lögreglan á Íslandi vinni saman og eyði ekki kröftum í innbyrðis togstreitu og dægurþras svo ég taki upp orðalagið sem notað er í fréttinni.
Það er mikilvægt að lögregla sé samstillt og leysi sín innri mál í rósemd og yfirvegun. Það er líka mikilvægt að ein lög séu í landinu og það ríkti tiltölulega góð sátt um þau. Vitur maður mælti forðum eftir að hann hafði legið undir feldi í eina nótt:"Ef við slítum í sundur lögin þá slítum við í sundur friðinn". Þessi orð túlkuðu menn svo að það væri sniðugast að verða kristnir. Það var nokkuð góð sátt um það og ákvörðunin heldur núna þúsund árum seinna þó fáir hafi mætt á þúsund ára kristnihátíðina.
Fólk sniðgekk þá hátíð af ýmsum ástæðum. Sumir vegna þess að þeim fannst þetta vera vegahátíð þar sem lögregluríkið væri að sýna klærnar. Sumir af því þeir voru ekki nógu kristnir. Sumir af því að þeim fannst ekki ástæða til að fagna hinum nýja sið sem hafði verið þröngvað upp á Íslendinga fyrir þúsund árum og bara verið tekinn upp af hagkvæmnisástæðum.
![]() |
Segir sig úr Lögreglufélagi Reykjavíkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.9.2008 | 11:59
Kópípeist póesibækurnar hans Dóra litla - Farðu vel með Vatnsdæling
Nú hafa fræðimenn fundið út að Dóri litla hafi mjög líklega samið einhverja af þeim fjölmörgu vísum sem hann hafi skrifað inn í póesibækur í bernsku. Röksemdir fræðimanna eru hávísindalegar, þær eru þannig að á meðan ekki hafi sannast að Dóri litli hafi skrifað eitthvað upp eftir öðrum þá sé það eftir hann
Þetta er nýja línan í íslenskri bókmenntatúlkun, allt sem er ekki eftir einhvern ákveðinn nafngreindan höfund er eftir Halldór Laxness og hafa höfundarréttarhafar hans þar að leiðandi höfundarrétt að stöffinu í nokkra áratugi í viðbót.)
Ég verð svo ljóðræn inn í mér við allt þetta tal um póesíbækur og vísur og Vatnsdælinga sem tilvonandi nóbelskáld stela vísum frá að ég má til með að kasta fram stöku sem ég sver við allt sem mér er heilagt (lesist gyðju gæsalappanna ) að ég hef alveg samið frá grunni sjálf enda er ég Vatnsdælingur í móðurætt.
Hér er engin stílstæling
né stutt við svikahrappa
Farðu vel með Vatnsdæling
vinur gæsalappa.
Fyrir þetta hnoð er líklegt að ég fái Nóbelsverðlaunin.
Eða alla vega listamannalaun
![]() |
Var vísan rituð eftir minni? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.9.2008 | 10:41
Hver er Mohammed Bin Khalifa Al-Thani? Hvaðan kemur auður hans?
Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani kaupir 5% í Kaupþingi. Hann er í Al-Thani fjölskyldunni sem stjórnar Qatar en emírinn þar er höfuð ættbálksins og hann á alla skapaða hluti og hann er einvaldur. Það er því sennilegt að fjárfesting fólks af Al-Thani ættbálk sé fjárfesting sem með beinum eða óbeinum hætti heyrir undir emírinn. Hér er grein um Al-Thani fjölskylduna og hér er grein um Hamad bin Khalifa
Ég sé nú ekki hvernig nýi Kaupþingshluthafinn Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani er skyldur núverandi emír í Qatar, hugsanlega er hann bróðir emírsins ?
Meira um emírinn og stjórnarhætti í Qatar:
Emírinn á þrjár konur, 11 syni og 8 dætur.
Önnur eiginkonan emírsins heitir Sheikha Moza og er hún mjög valdamikil. Hún er gáfuð kona sem leggur mikla áherslu á menntamál og hefur beitt sér í réttindamálum kvenna og barna. Í greininni Al-Jazeera by Hugh Miles stendur þetta:
By the 1980s, when Qatar had become a seriously wealthy country, its Gulf neighbours, Dubai, Bahrain and Abu Dhabi, had already had a chance to establish themselves in the region as regional banking and commerce capitals. Unlike the other Emirates, Qatar traditionally had never been a trade hub, so the American-educated first lady, thinking laterally, decided that rather than compete with them she would concentrate on developing Qatar as a regional leader in education. Education has since become an obsession for both the Emir and his wife.
Buying wholesale into the American university system, the educational foundation which she heads paid $750 million for a branch of Cornell University to open a campus in Doha. At present the Weill Cornell Medical College turns out just sixty graduates a year, but, when it comes to royal projects, money is never a deciding factor, and Sheikha Moza has identified a regional demand for quality educational facilities. Virginia University, Carnegie Mellon, Texas A&M University and the prestigious American think tank the Rand Corporation have all recently opened branches in Qatar. According to one Qatari academic I spoke with, this has already had a positive effect far beyond anyone's hopes.
Eftir því sem ég hef lesið þá hafa lífskjör almennings í Qatar batnað mjög og stjórnvöldum þar verið umhugað um velferðar- og menntamál og undir velmeguninni stendur gífurlegur olíuauður. En Qatar er einræðisríki:
Although Qatar is often cited today as a paragon of virtue in the Middle East, it is important to keep this claim in perspective. Greater public participation in decision-making is a good start, but Qatar is still not a democracy. But then it is not a police state either: it is an autocratic state subject to the whim of one man, the Emir, who, although fortunately not a tyrant, is unelected, unaccountable and all-powerful. The Municipal Council may decide traffic laws but it does not discuss the military budget or the Emir's personal expenditure.
Political parties in Qatar are still outlawed, as is anything that vaguely resembles one: for example, an environmental lobby group, a consumer association or an association of professionals. Opposition is not tolerated and there is still no real debate about how the country is run. In 1998 local Qatari newspapers published a letter from a Qatari religious scholar called Abdul Rahman al-Nuaimi which criticized the emancipation of women in Qatar, one of the government's key policies. Nuaimi wrote that this trend was un-Islamic and that awarding women political rights risked turning them into men. He was arrested and jailed for nearly three years without trial.
![]() |
Sjeik kaupir 5% í Kaupþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2008 | 13:07
Íslendingabók á 20. öld
Það er dökkt útlit núna hjá því þekkingarfyrirtæki á Íslandi sem hvað mestar vonir voru á sínum tíma bundnar við. Eins og hjá mörgum fyrirtækjum sem núna róa lífróður þá skapast þetta ástand vegna ytri aðstæðna sem íslensk fyrirtæki ráða ekki við. Fjármálakerfi heimsins er að hruni komið og enginn veit hvað gerist á næstunni.
Ég hugsa að það séu fá íslensk fyrirtæki sem almenningur batt eins miklar vonir við og deCode. Grein sem birtist í Guardian í lok árs 2002 lýsir tilurð Decode, bæði ofurvæntingum almennings þar sem mörgum var ráðlagt af virðulegum fjárfestingaraðilum og bönkum að kaupa í deCode sem og heiftarlegum ágreiningi um gagnagrunn lífsýna, hér er greinin: Decode átti að bjarga mannslífum, en er nú að eyðileggja þau ...
Væntingarnar og tilhlökkunin hjá sumum við stofnun deCode minnir á tilurð Eimskipafélags Íslands árið 1914. Í iðnaðarsamfélaginu í byrjun tuttugustu aldar þá var flutningafyrirtæki sem rauf einangrun landsins og sigldi með aðföng til landsins og vörur frá landinu nauðsyn fyrir hagvöxt hérna. Á eylandi þurfti ekki eimreiðar, það þurfti eimskip. Í þekkingarsamfélaginu í lok tuttugustu aldar var deCode öflugt þekkingarfyrirtæki sem dró til sín menntað fólk sem rannsakaði og kortlagði hinn örsmáa heim gena í lífverunni maður.
Flestir Íslendingar þekkja eitthvað til deCode þó ekki sé nema í gegnum Íslendingabók ættfræðigagnagrunninn. Það er reyndar til tvær Íslendingabækur, það eru um 900 ár á milli ritunartíma þeirra og hin eldri er Íslendingabók Ara fróða sem virðist við fyrstu sýn ekki eiga mikið sameiginlegt með Íslendingabók ættfræðigrunninum en þegar betur er að gáð þá eru báðar bækurnar heimsmynd sinna tíða, lýsing á Íslendingum og ferðalagi þeirra í gegnum söguna og milli landa og ferðalag erfðaefnisins og flæði genamassans milli kynslóða, ferðalag og flæði í takt við tíðarandann eins og hann var þegar þessar Íslendingabækur voru skráðar. Þær eru líka skrifaðar á þann máta sem hæfir ritunartímanum, hin fyrri er skrifuð á skinn og væntanlega eftir munnlegum heimildum, hin síðari er skrifuð í stafrænt rými og er aðgengileg á Internetinu.
Ég velti fyrir mér hvernig hin þriðja Íslendingabók verði skrifuð, af hverjum, með hvaða heimssýn og í hvaða form og hvenær. Ef til vill líða nokkur hundruð ár þangað til hún verður skrifuð. Mig grunar að í þeirri bók verði aðeins lítill kafli helgaður okkur sem erum afkomendur fólksins sem skráð er í Íslendingabók I og Íslendingabók II. Hugsanlega heitir sá kafli "Frumbyggjarnir".
Versti kostur er að kaflinn um okkur heiti "Hinir útdauðu" og lýsi minjum um horfna menningu sem skildi fátt eftir sig nema tungumál og rúnastafi íslenskt máls sem enginn getur þá ráðið lengur nema fornleifafræðingar.
![]() |
Gengi deCode í ölduróti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.9.2008 | 20:11
Orð vikunnar: Libel tourism og Asylum shopping
Það er til fólk á Íslandi sem telur að mikið ógn stafi af Íslandi af því að fátækt fólk streymi hingað til að lifa í örbirgð í einhverju gistiheimili í Njarðvíkum og fái strætómiða og sundkort og þrjú þúsund kall á viku. Það er sárt að ungmenni eins og 19 ára pilturinn í viðtalinu hjá mbl.is skuli búa við þessar aðstæður. Hann er jafnaldri dóttur minnar en hann býr við miklu verri kost. Hann langar í skóla, hugsanlega hefur hann í heimkynnum sínum séð fyrir sér fegraða mynd af Norðurlöndum, ekki áttað sig á því hversu óvelkominn hann er í þessu landi og hve kröpp kjör bíða hans þangað til og ef hann fær dvalarleyfi hérna.
Sumir kalla þetta asylum shopping. Sjá skilgreiningu á því
Asylum shopping - Wikipedia, the free encyclopedia
Einhvern veginn þá sé ég þetta orð sem er nýtt fyrir mér í samhengi við annað nýtt orð sem ég hef lært og það er "libel tourism".
Libel tourism - Wikipedia, the free encyclopedia
Það eru margir sem notfæra sér veilur í stjórnkerfi landa og hinn flókna heim laga og reglugerða. Ég held nú samt að það séu ekki sömu þjóðfélagshóparnir sem stunda asylum shopping og sem stunda libel tourisma.
Ítarefni
Hér eru rökræður Gests og Stefáns Pálssonar um asylum shopping.
Fyrri blogg mín um
Siðlaus ummæli lögreglustjóra um hælisleitendur í Reykjanesbæ
Ég hugsa að enginn græði á því að hælisleitendur séu í eins konar haldi þarna í Njarðvík. Er eitthvað að því að rýmka reglur þannig að þeir geti unnið fyrir sér hérna?
![]() |
Hælisleitandi kostar 6500 á dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2008 | 19:16
Týndi biskupssonurinn snýr aftur
Þegar týndi sonurinn snýr aftur þá á að slátra alikálfinum þó að týndi sonurinn hafi þóst vera í brjálaðri útrás með obboðslega góða viðskiptahugmynd á meðan hann var bara forfallinn spilafíkill á Netinu. Frændur okkar Norðmenn fagna núna týnda syninum, hann heitir ekki Bör Börsson eins og hetja bernsku minnar heldur Bjarte Baasland. Bjartur hinn norski byggði sín sumarhús á hrjóstrugum afréttum netheima og blekkti foreldra sína til að senda sér fúlgur fjár.
Biskupinn faðir hans Bjarts er núna gjaldþrota og margir hans ættingjar.
Spegillinn á RÚV sagði söguna af Bjarti hinum norska í þættinum áðan.
Þetta er raunasaga af gjaldþrota biskup. Ég skrifaði einu sinni fyrir margt löngu bloggið Afveigaleiddur prestur um prest sem mér fannst á glapstigum fjármála. Presturinn varði rétt sinn til að ráðleggja fólki að setja fé sitt í fjárglæfra, hann skrifaði Hverjir mega tala um fjárfestingar?
Grein á ensku um Bjarte Baasland
Baasland lost a fortune gambling - Aftenposten.no
Bishop wants prodigal son to come home
Meira um Bjart
![]() |
Björgunarhringur dugar skammt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)