Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bankahrunið mikla - lögmál skortsins - hagfræði þess sem er ókeypis

Góð grein hjá mbl.is. Það þarf samt óhemju yfirlegu til að botna í öllum  þessum hugtökum í nútíma fjárfestingarstarfsemi.

Þessi hugtök eru mér ekki töm:

  • afleiður derivative
  • skortsala short sale
  • framtíðarsamningar futures
  • valréttur options
  • skiptasamningar swaps

Ég held líka að  það sé of mikil einföldun að skella skuldinni á afleiðusamninga. Margt af því sem fjárfestar  gera er að reyna með einhverjum hætti að spá fram í tímann og dreifa áhættu og hámarka hagnað, gera einhverja spá um framtíðina og skrá væntingar um hvað gerist í næstu framtíð með því að skrá það sem tölur í fjármálareikningum. Það sem getur hafa gerst er að spádómar um framtíðina eru einfaldlega ekki góðir t.d. að íbúðarhúsnæði á vesturlöndum er of hátt metið en kerfið er orðið svo samantvinnað og flókið að um leið og mat á einhverju breytist verulega þá hefur það keðjuverkun á öðrum sviðum og sendir bylgjur í allar áttir og magnar upp.

Þetta sést vel í verði hlutabréfa. Þar er eins og einhver sjokkalda gangi stundum yfir, verð hlutabréfa lækkar vegna minni væntinga en lækkunin verður keðjuverkandi og nær yfir öll hlutabréf. 

Ég held að það verði að kryfja dýpra til að átta sig á hvað hefur gerst. Hugsanlega er að molna undan núverandi kerfi á mörgum stöðum vegna breytinga á framleiðsluháttum, tækni og viðskiptaumhverfi. Hugsanlega er það sama að gerast í bankastarfsemi og í prentun bóka á sinni tíð - ný tækni kom prentiðnaðinum mjög vel og gerði auðveldara og ódýrara að prenta bækur. En af sama meiði var hin nýja tækni sem gerði prentun að mörgu leyti úrelta.  Fyrir meira en tuttugu árum þá var ég í alls kyns leshópum um "arbejdens fremtid" og um hvað nútímatækni myndi breyta vinnunni mikið og mörg störf myndu hverfa. Ég reyndi að tala um fyrir foreldrum mínum og segja þeim frá þessari framtíðarsýn. Faðir minn var þá vanur að benda á bankana og segja: "Sjáið bankana, engir nota upplýsingatækni og nútíma samskiptatækni meira en þeir. Samt fjölgar fólki þar og fjölgar. Tölvuvæðinging virðist ekki valda atvinnuleysi."

Víst er það þannig að í marga áratugi hefur bankakerfi þanist út og hugsanlega er þessi útþensla eitthvað í tengslum við að þetta er það svið þar sem upplýsingar eru hagnýttar til hins ítrasta og upplýsingum er breytt í peninga - upplýsingar breytast í peninga þegar áhætta er mæld mismunandi mikil. Hugsanlega er þetta hrun bankakerfisins að einhverfu leyti bundin verðfalli á upplýsingum alveg eins og verðfalli á fasteignum.

Í fyrsta tímanum sem ég sat í hagfræði í háskólanum þá lærði ég að hagfræði er lögmál skortsins. Öll hagfræði sem ég lærði var hagfræði skortsins, hagfræði framboðs og eftirspurnar. Hugsanlega þarf ný líkön, nýja sýn í breyttu landslagi, hagfræði þar sem verð er ekki mælikvarðinn, hagfræði hinna ókeypis gæða (the economics of free). 

 


mbl.is Fréttaskýring: Afleiðurnar undirrót bankahrunsins?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frænkuboð - Sextán frænkur

xIMG_1427

Við hittumst  16 frænkur heima hjá mér í síðustu viku. Ég er næstelst af þessum frænknaskara. Við erum allar afkomendur Hannesar Pálssonar frá Undirfelli. Frænkurnar búa á ýmsum stöðum í Reykjavík, Kópavogi, Grindavík, Garðabæ, Bolungarvík og á Selfossi.  Þessar frænkur mættu: Ég (Salvör), Kristín Helga, Jónína Guðbjörg, Una Borg, Hólmfríður, Ásta Björg, Áslaug, Ásta Lilja, Þóranna, Valdís, Salvör Sól, Guðrún Stella, Sigrún, Amína Ástrós, Steinunn, Hólmfríður Ásta.

Það var dáldið fjör hjá þeim minnstu sem eru bara eins og tveggja ára gamlar. Hér er Una Borg með ömmu sinni og Amína Ástrós sem mömmu sinni og Salvör Sól. IMG_1432

 Hér er mynd af Amínu Ástrós, Steinunni og Salvöru Sól.

IMG_1436

Hér eru yngstu frænkurnar  Amína Ástrós og Salvör Sól. Þær eru jafngamlar, bara mánuður á milli þeirra, þær fæddust  í fyrra, Salvör í maí og Amína í júní.  Föðurætt Salvarar er frá Vestfjörðum og hún heitir eftir móðursystur sinni (mér... já ég er dáldið ánægð með það...verð að viðurkenna það Smile). Föðurætt Amínu er frá Marokkó og hún heitir eftir föðurömmu sinni.

IMG_1430

Dauft er í sveitum, hnípin þjóð í vanda

Ég er ekki  viss um að Íslendingar átti sig á hvað er að gerast núna út í hinum stóra heimi og hvaða afleiðingar það kann að hafa hér heima á skerinu. Alla vega þá er fréttamat mbl.is ekki þesslegt. Þar er á forsíðunni fréttir eins og að ungur maður nýkominn til landsins hafi hnuplað í Smáralind. Þetta er svona ekta rauðhálsafrétt og merkingin sem lesa má milli línanna er  þessi: "Þetta útlenska pakk er ekki fyrr komið til landsins en það byrjar að stela dótinu okkar". 

Ég er heldur ekki viss um að ráðamenn okkar átti sig á alvarleika þeirrar efnahagskreppu sem nú skellur yfir heiminn , alla vega er andvaraleysi þeirra mikið þegar þeir tjá sig  í fjölmiðlum. Geir forsætisráðherra talar um að það sé ekki kreppa, bara mótvindur og aðalmálið sé að ná niður verðbólgunni. Þorgerður Katrín menntamálaráðherra var í Ísland í dag (15. sept) spurð að því hvort ríkisstjórnin hefði eitthvað rætt um hvort rætt hefði verið í ríkisstjórninni aðgerðir t.d. að ríkið taki yfir banka. Þannig leið hefði verið farið í öðrum löndum. Hún hvað það hefði ekki verið rætt. Það er mjög furðulegt að heyra ráðherrann segja þetta, ástandið er svo alvarlegt að það er mikið andvaraleysi ef stjórnvöld hafa ekki velt upp öllum möguleikum. Ástandið hér á Íslandi er sérstaklega alvarlegt vegna þess að hér er risastórt kerfi fjárfestingafyrirtækja og bankastofnana sem hafa sprota í öðrum löndum og stefnan þeirra hefur verið áhættusækin. 

Það er grafalvarlegt ástand í íslensku fjármálalífi og sennilega eru ekki öll kurl komin til sjávar varðandi tengsl fyrirtækja.

Baldur Mcqueen skrifar um íslenska efnahagsundrið This is Money - um "efnahagsundrið" út frá þessari umfjöllun sem birtist í tímaritinu This is Money í gær.

Ívar Pálsson skrifar ágætispistla um efnahagsástandið 

Þúsundir milljarða í nettóskuldir?

 Skuldir Íslendinga snarhækka


mbl.is Krónan veikist um 1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóðregn á fjármálamörkuðum

Bankaregnhlíf

"Banki er stofnun sem lánar þér regnhlíf í sólskini en tekur hana til baka strax og byrjar að rigna". Þetta er ein skemmtilegasta útskýring á fjármálalánamarkaði sem ég kann. Það er líka sannleikskorn í þessu, fjármálastarfsemi á alþjóðlegum markaði sem byggir á að vera snöggur að færa til fjármagn og á því að það sé best að lána þar sem arðsemin er mest gengur út á það að ausa fé þangað sem vel virðist ganga ... og þá jafnframt að hrifsa burtu fé og skrúfa á lán þegar velgengninni er lokið.  

Það var auðvelt að fá lán í bullandi góðærinu og uppganginum á Íslandi. Það voru heilsíðuauglýsingar í blöðum og það greip um sig kaupæði sem byggt var á lánum bílalán, húsnæðislán og neyslulán á vísareikningum. En það er komið að skuldadögum og það er erfitt fyrir alla að fá lán í dag. Það er ekki bara erfitt að fá ný lán eða lánsfresti, það er líka erfitt að losna við skuldsettar eignir. Í svona stöðu eru fjármálaskuldbindingar fólks eins og átthagafjötrar og skuldafangelsi, fólk getur sig ekkert hreyft út af skuldum. Fjármagnið getur hreyst til og frá um heiminn með leifturhraða en maður sem er reyrður niður af skuldum hefur ekkert val, ekkert frelsi.

Fjármálaspekúlantar keppast við að ráða í stöðuna, hér er ein ágæt grein sem ber heitið There will be blood en höfundur telur upp hvaða lexíur fyrirtæki geta lært af þessum sviptingum sem kannski verða einhvern tíma nefnd upphaf kreppunnar miklu 2008.

Lexía 1: Væntingar eru allt

Lexía 2: Óöryggi er dauði

Lexía3: Snúðu blaðinu við á réttum tíma

Lexía 4: Stundum færðu ekki lánað nema þú þurfir ekki á því að halda

Lexía 5: Vertu varkár við lántökur

Lexía 6: Gjaldþrot er ekki heimsendir

Lexía 7: Himinninn er ekki að hrynja

Lexía 8: Skortsala drepur

..... framhald..

 

 

 


mbl.is Fréttaskýring: Endurtekning frá 1931 í aðsigi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur mánudagur

Þetta verður minnistæður dagur á verðbréfamörkuðum, þetta verður svartur mánudagur. En hversu svartur hann verður kemur ekki í ljós fyrr en bandaríski hlutabréfamarkaðurinn opnar.  En menn búast við hinu versta, það er strax búið að nefna daginn Meltdown Monday  og sagt er að dagurinn snúist um að þrauka af: "For most investors and bankers anywhere in the world, today will be a day to endure and survive."

Frændur okkar Danir eru eins og aðrir uggandi yfir ástandinu og það er panik í bankakerfinu þar og það er hávær krafa um að ríkisstjórnin verði að taka í taumana.  

Hvað með íslensku ríkisstjórnina? Geir forsætisráðherra kallar kreppuna mótvind og gerir lítið úr efnahagserfiðleikum. Er íslenska ríkisstjórnin eins konar hagrænn veðurviti sem situr  í núna í Stjórnarráðinu og mælir mótvindinn  og spáir nokkrum vindstigum meira í dag en í gær?   Eða er ríkisstjórnin núna á hugarflugsfundi að finna ný skrauthvörf fyrir orð svo ekki þurfi að nefna hlutina sínum réttum nöfnum? 

Það er erfitt núna í hringiðu atburða að átta sig á því hvað er að gerast. Það er þó eins og alltaf reynt að finna blóraböggla og fjármálamarkaðir undanfarinna ára hafa verið eins og matador spilaborð þar sem ekki eru endilega neinar raunverulegar eignir á bak við fjárfestingar. Sjá þessa grein  sem birtist í Jótlandspóstinum í ágúst (á dönsku):  Det Store Ejendomsspil

 Ég held að það umrót sem núna er á fjármálamörkuðum sé eins konar fjörbrot eða hamskipti og afleiðing af því landamæralausa og óhefta flæði fjármagns sem einkennt hefur undanfarin ár. Ef það eru einhver verðmæti á bak við fjármagn þá hefur það góð áhrif á arðsemi fjárfestingar ef hægt er auðveldlega að flytja til og stokka upp og beina fé þangað sem mest arðsvon er. En ef fjármálakerfið er orðið yfirvaxið og er farið að búa sjálft til verðmæti til að versla með innan kerfisins með því að verða einhvers konar risavaxinn pýramídaviðskiptahringur og það eru engin raunveruleg verðmæti á bak við fjármagnið sem fært er til og frá þá kemur að því að kerfið hrynur.


mbl.is Skjálfti á fjármálamörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næðingur á toppnum - Geir í mótvindi

Kreppa
Geir Haarde forsætisráðherra  telur að það sé engin kreppa þó að fjármálamarkaðir hins vestræna heims séu að hrynja og hrunið sé eitt mesta sem sést hefur í 80 ár og þó að að íslenskt athafnalíf sé afar viðkvæmt fyrir ytri sveiflum bæði vegna útflutningsatvinnuvega og vegna þess að hér er örsmátt hagkerfi með ofvaxið bankakerfi og athafnamenn í skuldsettum yfirtökum og útrásarham árum saman. Það eru mörg teikn á lofti sem sýna alvarlegt ástand hjá íslenskum fyrirtækjum og bönkum og það eru ekki neinar líkur á að mjög skuldsettir húsbyggjendur geti staðið í skilum með lán sín og framtíðin í byggingariðnaði er dökk. 

Geir telur að aðalvandamálið sé að ná niður verðbólgunni. Sagan endurtekur sig, ég minnist annars Geirs á annari öld sem líka barðist við verðbólguna sem hann þó hafði átt þátt í að skapa sjálfur. Ég vona að Geir II verði ekki eins mislagðar hendur og Geir I sem blés til orustu árið 1979 undir kjörorðinu Leiftursókn gegn verðbólgu sem gárungarnir hafa æ síðan flimtað með og kalla aldrei annað en leiftursókn gegn lífskjörum. 

Á þessum tíma þá var ég við nám í þjóðhagfræði í háskólanum  og stúderaði þar alls kyns hagstjórnarkenningar  og reiknimódel fyrir samfélagið en úti í samfélaginu geisaði  óðaverðbólga sem gerði alla útreikninga í sviphendingu marklausa og óskiljanlega. Ég gerðist mjög fráhverf þeirri stærðfræðimódelahagfræði sem var borin á borð fyrir okkur þarna, hún passaði engan veginn við veruleikann og útskýringarnar og kenningarnar virkuðu ekkert í miklum umrótatíma, svo miklum umrótatíma að það voru heil hagkerfi að brotna saman.  Miðstýrð hagkerfi austantjaldslandanna brustu fyrir margt löngu og ef til vill er núna runninn upp sama umbrotaskeið fyrir markaðshagkerfi á vestræna vísu. Ef til vill passar það hagkerfi ekki lengur.

Geir II  segir að það sé ekki kreppa núna. Hann vitnar í tölur og skilgreiningar. Ég efa ekki að hann hafi rétt fyrir sér með þessar skilgreiningar en vil benda á að það er mikilvægt  að æðstu ráðamenn  þjóðarinnar eða ráðgjafar þeirra geti séð fram í tímann og hafi innsæi sem sem gerir þeim kleift að tengja saman ólík gögn og vísbendingar. Það er ef til vill ekki besta og einasta merkið um að allt sé á góðri leið hérna hvernig hagvöxtur hefur mælst í fortíðinni þegar einum mestu framkvæmdum Íslandssögunnar var við að ljúka. Það er betra að spá í vísbendingar um hvernig staðan er í núinu og framtíðinni, hvernig staðan er í umheiminum og hvaða afleiðingar hefur það hérna. Gengi hlutabréfa er í eðli sínu spá um framtíðina og mælikvarði á væntingar. Þar er ástandið dökkt hér heima sem og á erlendum mörkuðum.

Geir hefur sína skilgreiningu á kreppu og vill kalla kreppuna núna mótvind. Það næðir nú heldur betur um Geir á toppnum í öllum þessum mótvindi.  Mér finnst hins vegar alveg eins góð skilgreining  á  Vísindavefnum en þar fann ég þessa  fínu skilgreiningu á kreppu:

"Þegar atvinnuleysi eykst, þá teljist það samdráttur nema þú verðir sjálfur atvinnulaus, þá sé það kreppa."


mbl.is Ekki rétt að tala um kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlendingahatur blossar upp

Bílastæðavandamál árið 2008 Tannlæknatúrismi 2008
Ég er hugsi yfir aðgerðum og orðræðu lögreglu varðandi  húsleit hjá hælisleitendum og ekki síður viðbrögðum almennings. Það eru því miður margir sem taka stöðu á móti hælisleitendum í athugasemdum á bloggum og útlendingahatur blossar upp.  En það eru sem betur fer margir bloggarar sem ræða málið af skynsemi og spyrja spurninga um réttmæti aðgerða lögreglu t.d. þetta ágæta blogg hjá Helga:

Má hælisleitandi ekki eiga peninga? - Og ekki vinna fyrir þeim?

Ég er undrandi yfir því hvernig lögreglustjóri og forstjóri Útlendingastofnunar tjá sig, ég hélt að þeir þyrftu að gæta hlutleysis og fara eftir alþjóðasamningum.  Ég vissi ekki að þeir gætu túlkað hegðun meints brotafólks eftir eigin höfði sb þetta sem haft er eftir lögreglustjóra. Þetta er afar undarleg túlkun á því hvenær fólk er sekt um glæpi:

 "Jóhann segir að eftir aðgerðirnar hafi einn hælisleitandi óskað eftir að fá að fara strax úr landi. Slíkt sé varla hægt að túlka öðruvísi en svo að viðkomandi hafi verið hér á fölskum forsendum" (mbl. blað dagsins 13. sept)

Svo er ég líka mjög undrandi á ummælum sem höfð eru eftir Hauki forstjóra Útlendingastofnunar. Getur verið að hælisleitendur hafi ekki sömu mannréttindi og Íslendingar varðandi eigur sínar? Síðan hvenær geta opinberar stofnanir ætt inn á heimili fólks, gert eigur þeirra upptækar og sagst ætla að rukka fyrir uppihald og draga það af eigum fólksins? 

Það er nú ekkert nema sjálfsagt að borga ekki uppihald fyrir hælisleitendur sem geta framfleytt sér sjálfir. En það er svo sannarlega EKKI sjálfsagt að opinberir aðilar geti án þess að farið sé í formlegar lagalegar innheimtuaðgerðir skuldjafnað fé sem tekið er í húsrannsókn. Ég get ekki ímyndað mér að þetta sé löglegt og í samræmi við alþjóðasamninga um flóttafólk. Ég vil alla vega fá að vita við hvaða lagagreinar svoleiðis aðgerð styðst.

Hér er vitnað í forstjóra Fangelsismálastofnunar:

"Haukur Guðmundsson forstjóri Útlendingastofnunar segir að í aðgerðunum hafi safnast gögn sem muni varpa ljósi á aðstæður rúmlega 10 hælisleitenda. Hann býst við að ýmsum haldlögðum munum, þar á meðal peningum, verði skilað aftur til hælisleitenda. Útlendingastofnun mun hins vegar taka fyrir mál þeirra hælisleitenda sem fúlgur fjár fundust hjá, og tjá þeim að frá og með 12. september sé Útlendingastofnun hætt að greiða fyrir þá uppihald. Þeir geti gert það sjálfir. Kostnaður verði dreginn af hinum haldlögðu peningum. „Þegar um er að ræða verulegar fjárhæðir hjá fólki kviknar auðvitað grunur um að það séu í gangi skrítnir hlutir sem þarf að rannsaka. Í þessum haldlagningum felst ekki að það sé verið að svipta fólk sínu fé. Lagt er hald á peninga meðan verið er að rannsaka málið
......................
Mál útlendinganna að þessu sinni verða rannsökuð og ekki ósennilegt að hlutum og peningum verði skilað til eigenda sinna. Þeir sem voru með fúlgur geta þó ekki vænst þess að fullu."

Þessi aðgerð lögreglu hefur magnað  upp spennu og leyst úr læðingi blossandi útlendingahatur. Það má líka benda á að hvaða áhrif þetta hefur á hælisleitendur sjálfa.  Fólk sem verður  fyrir áfalli bregst við á ýmsa vegu sb.  Hnífaárás hjá hælisleitendum í Njarðvík og Farzad mótmælir við lögreglustöðina.

Ég vil taka fram að ég efa ekki að lögreglan hafði réttmætar ástæður til að gera húsleit og sennilegt er að meðal hælisleitenda sé fólk sem villir á sér heimildir og vill vera hér í annarlegum tilgangi. Það breytir því hins vegar ekki að eðlileg málsmeðferð á að gilda fyrir alla. Líka skúrka og misyndisfólk.


mbl.is Hælisleitandi mótmælir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðlaus ummæli lögreglustjóra um hælisleitendur í Reykjanesbæ

Ég sendi í þessu bloggi stuðningsyfirlýsingu til mótmælafundar fyrir framan lögreglustöðina  í Njarðvík kl. 14 í dag

Það getur vel verið að sú aðgerð lögreglu að ráðast á sama tíma inn á sjö staði hælisleitenda hafi verið réttmæt og það eru sennilega einhverjir hælisleitendur sem sigla undir fölsku flaggi. Það eru örugglega einhverjir sem biðja um hæli hérna  ekki vegna þess að þeir eru í bráðri lífshættu í heimalandi sínu heldur vegna þess að þeir eru að leita að betri lífskjörum. Það bendir margt til þess að alþjóðlegar reglur um flóttafólk og meðferð hælisleitenda séu notaðar kerfisbundið  til að  koma fólki milli landa og inn í önnur samfélög, sérstaklega fólki sem er að flýja fátækt eða leita að betri lífskjörum  og það getur verið að það þurfi að setja öðruvísi reglur eða hafa strangt eftirlit vegna þessa. En hælisleitendur eru í viðkvæmri aðstöðu og réttleysi þeirra er mikið og það er mikilvægt að Íslendingar fylgist vel með hvað er að gerast og vaki yfir að ekki sé brotin á mannréttindi á þessum hóp.

Ég efa ekki að lögreglan hafði fulla heimild til þessarra aðgerða, það kemur fram í fréttum að lögreglan hafði húsleitarheimild. Það stingur mig hins vegar afar mikið að lesa eftirfarandi upphaf fréttar um málið í Morgunblaðinu:

Undarlega mikið reiðufé

"Það er undarlegt að fólk sem er á framfæri ríkisins skuli á sama tíma vera með jafnmikið af fjármunum á sér" sagði Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, að lokinni mjög umfangsmikilli húsleit á sjö dvalarstöðum hælisleitenda í Reykjanesbæ í gær.

Þessi ummæli sem höfð eru eftir lögreglustjóra sem tekur þátt aðgerð gagnvart fólki í erfiðri stöðu opinberar  bullandi fordóma og líka  siðleysi hjá lögreglu að ræða opinberlega um og fella sleggjudóma um ákveðna hópa sem lögreglan hefur afskipti af.    


mbl.is Dvalarleyfi á fölskum forsendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rýnt í texta stjórnmálamanna og moggabloggara

Wordle.net er skemmtileg græja sem passar vel fyrir okkur sem viljum fá allt myndrænt og viljum helst bara að fólk tali í stikkorðum. Með Wordle.net er nefnilega hægt að búa til mynd af því sem fólk er að segja og það er nú bara oft skemmtilegra heldur en að hlusta á langar ræður.

Það er nú ekki víst að öll merking komist til skila. 

 Hér eru orðin í ræðu Sivjar um orkumál þegar textinn hefur verið settur inn í wordle.net

03.09.2008 15:41:01 Siv Friðleifsdóttir (ræða)

 wordle-siv-orkuraeda-sep08

Það er líka hægt að setja blogg þarna inn og ég setti tvö blogg bjorn.is og stebbifr.blog.is  þarna inn. Björn er greinilega mikið að tala um minningagreinar og Morgunblaðið en Stefán Friðrík er að fjalla um forsetakosningarnar í USA.

Bjorn.is

 wordle-bjorn-sep08

 

Það á nú ekki að setja allt sitt traust á Netið eins og formaður okkar Framsóknarmanna sagði en það er skemmtilegt að túlka orð manna með svona netgræju eins og wordle.net.


Persónuleikasköddun mín samkvæmt Vísindakirkjunni

Einu sinni fyrir margt löngu þá var ég stöðvuð á götu latínuhverfinu í París af geðþekkum manni sem bauð mér að taka ókeypis persónuleikapróf, það væri svo mikilvægt veganesti í lífinu að vita eitthvað um sjálfa sig. Ég beit á agnið því þetta var vinalegri maður en heill hópur af vottum jéhóva eða mormónagengi. Þetta var ágætis persónuleikapróf og virkaði fagmannlegt en svo gat ég þegar til kom ekki fengið niðurstöðurnar strax þó því hefði verið lofað, ég var að koma á skrifstofu þar hjá daginn eftir og fá að vita allt um sjálfa mig. Ég hefði náttúrulega ekki nennt því nema af því þetta var bara í næsta húsi við hótelið sem ég var á svo ég fór og var þá látin mjög meðvitað bíða heillengi með nokkrum öðrum eftir einhverjum sérfræðingi sem skyldi rýna í persónuleika minn með mér.

Það var allt þarna sett upp eins og einhver sviðsmynd, þetta var einhvers konar massanýliðunarmótttaka inn í Vísindakirkjuhreyfinguna,  þetta er það næsta sem ég hef komist að lenda í klónum á einhverju "cult". Nema hvað það var ungur menntamaður vel lesinn greinilega í sálfræði  fór yfir niðurstöður persónuleikaprófsins með mér og  það leit í fyrstu allt mjög bjart út, ég var nokkuð heilsteyptur persónuleiki. Svo svona þegar fór að síga á seinni hluta af yfirferð  þá reyndi viðmælandinn að selja mér einhvern doðrant eftir einhvern æðstaprest þeirra og einhverjar kynningar hjá þeim, það myndi bæta sálarlíf mitt verulega sagði hann, ég lét ekki tilleiðast og þráaðist við og harðneitaði að kaupa doðrantinn. Þá brá svo við að það sem var eftir af spurningum á persónuleikaprófinu sýndi að sögn vísindakirkjupersónuleikagreinandans að ég var mjög brenglaður persónuleiki sem lýsti sér í því að ég vildi ekki ekki taka svona leiðsögn.Greinandinn páraði á blaðið alls konar"vísindalegar" kúrvur máli sínu til sönnunar.

Eftir þessa lífsreynslu og eftir allt ruglið sem ég hef lesið um þessi  trúarbrögð  hef ég haft megnustu skömm á vísindakirkjunni. Vinnuaðferðir þessarrar hreyfingar eru hallærislegar, kannski eru margar hreyfingar jafnhallærislegar en Vísindakirkjan sveipar sig einhverri dulu vísinda sem þó á ekkert skylt við þau vísindi sem iðkuð eru í háskólum þó hún noti sömu orð. Svo  leggur Vísindakirkjan sérstaklega snörur sínar fyrir ríkt og frægt fólk og gerir það að einhverjum vitleysingatalsmönnum sínum. Margir frægir leikarar hafa ánetjast, það segir nú sína sögu um andlegt atgervi þeirra eða nú eða ágang Vísindakirkjumanna nema hvort tveggja sé. 

Andstæðan við vísindakirkjuna er Hjálpræðisherinn. Það er hreyfing sem ég hef alltaf haft miklar mætur á, ekki síst vegna þess að liðsmenn þar liðsinna þeim sem hafa hrasað í samfélaginu.  Ég sakna virkilega föstudagseftirmiðdaga á Lækjargötu eins og þeir voru í bernsku minni þegar liðsmenn Drottins sungu og trölluðu "Kom, kom, kom  í frelsisherinn" og aðrar grípandi melódíur og kring um söngherinn vöppuðu rónarnir og við hin.

Vísindakirkjan reynir hins vegar að ginna sérstaklega til liðs við sig fólk sem er frægt og getur útvarpað þessum vitleysislega boðskap þeirra. 

Meira um þessa asnalegu hreyfingu:

Vísindavefurinn: Hver er meginuppistaðan í kenningum ...

Vafasöm Vísindakirkja

Vantrú: Díanetík og Vísindaspeki (Vísindakirkjan)

Svo get ég náttúrulega ekki annað en óskað hreyfingu norður og niður sem hefur bannfært hann Elías, sjá hérna: 

Þegar Vísindakirkjan bannfærði mig - elias.blog.is

klikkaður persónuleiki... ÉG!!!!... fuss og svei Vísindakirkjunni!!!


mbl.is Vísindakirkjan fyrir dómstóla í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband