Persónuleikasköddun mín samkvæmt Vísindakirkjunni

Einu sinni fyrir margt löngu þá var ég stöðvuð á götu latínuhverfinu í París af geðþekkum manni sem bauð mér að taka ókeypis persónuleikapróf, það væri svo mikilvægt veganesti í lífinu að vita eitthvað um sjálfa sig. Ég beit á agnið því þetta var vinalegri maður en heill hópur af vottum jéhóva eða mormónagengi. Þetta var ágætis persónuleikapróf og virkaði fagmannlegt en svo gat ég þegar til kom ekki fengið niðurstöðurnar strax þó því hefði verið lofað, ég var að koma á skrifstofu þar hjá daginn eftir og fá að vita allt um sjálfa mig. Ég hefði náttúrulega ekki nennt því nema af því þetta var bara í næsta húsi við hótelið sem ég var á svo ég fór og var þá látin mjög meðvitað bíða heillengi með nokkrum öðrum eftir einhverjum sérfræðingi sem skyldi rýna í persónuleika minn með mér.

Það var allt þarna sett upp eins og einhver sviðsmynd, þetta var einhvers konar massanýliðunarmótttaka inn í Vísindakirkjuhreyfinguna,  þetta er það næsta sem ég hef komist að lenda í klónum á einhverju "cult". Nema hvað það var ungur menntamaður vel lesinn greinilega í sálfræði  fór yfir niðurstöður persónuleikaprófsins með mér og  það leit í fyrstu allt mjög bjart út, ég var nokkuð heilsteyptur persónuleiki. Svo svona þegar fór að síga á seinni hluta af yfirferð  þá reyndi viðmælandinn að selja mér einhvern doðrant eftir einhvern æðstaprest þeirra og einhverjar kynningar hjá þeim, það myndi bæta sálarlíf mitt verulega sagði hann, ég lét ekki tilleiðast og þráaðist við og harðneitaði að kaupa doðrantinn. Þá brá svo við að það sem var eftir af spurningum á persónuleikaprófinu sýndi að sögn vísindakirkjupersónuleikagreinandans að ég var mjög brenglaður persónuleiki sem lýsti sér í því að ég vildi ekki ekki taka svona leiðsögn.Greinandinn páraði á blaðið alls konar"vísindalegar" kúrvur máli sínu til sönnunar.

Eftir þessa lífsreynslu og eftir allt ruglið sem ég hef lesið um þessi  trúarbrögð  hef ég haft megnustu skömm á vísindakirkjunni. Vinnuaðferðir þessarrar hreyfingar eru hallærislegar, kannski eru margar hreyfingar jafnhallærislegar en Vísindakirkjan sveipar sig einhverri dulu vísinda sem þó á ekkert skylt við þau vísindi sem iðkuð eru í háskólum þó hún noti sömu orð. Svo  leggur Vísindakirkjan sérstaklega snörur sínar fyrir ríkt og frægt fólk og gerir það að einhverjum vitleysingatalsmönnum sínum. Margir frægir leikarar hafa ánetjast, það segir nú sína sögu um andlegt atgervi þeirra eða nú eða ágang Vísindakirkjumanna nema hvort tveggja sé. 

Andstæðan við vísindakirkjuna er Hjálpræðisherinn. Það er hreyfing sem ég hef alltaf haft miklar mætur á, ekki síst vegna þess að liðsmenn þar liðsinna þeim sem hafa hrasað í samfélaginu.  Ég sakna virkilega föstudagseftirmiðdaga á Lækjargötu eins og þeir voru í bernsku minni þegar liðsmenn Drottins sungu og trölluðu "Kom, kom, kom  í frelsisherinn" og aðrar grípandi melódíur og kring um söngherinn vöppuðu rónarnir og við hin.

Vísindakirkjan reynir hins vegar að ginna sérstaklega til liðs við sig fólk sem er frægt og getur útvarpað þessum vitleysislega boðskap þeirra. 

Meira um þessa asnalegu hreyfingu:

Vísindavefurinn: Hver er meginuppistaðan í kenningum ...

Vafasöm Vísindakirkja

Vantrú: Díanetík og Vísindaspeki (Vísindakirkjan)

Svo get ég náttúrulega ekki annað en óskað hreyfingu norður og niður sem hefur bannfært hann Elías, sjá hérna: 

Þegar Vísindakirkjan bannfærði mig - elias.blog.is

klikkaður persónuleiki... ÉG!!!!... fuss og svei Vísindakirkjunni!!!


mbl.is Vísindakirkjan fyrir dómstóla í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allar kirkjur eru vafasamar.. sumar þó vafasamari en aðrar, það má færa mjög svo góð rök fyrir því að kaþólska kirkja sé mun vafasamari og ógnvænlegri.

DoctorE (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband