Kleppur Hraðferð - Talað fyrir Hinn

Kleppur er 100 ára í dag. Hann er partur af bernsku minni. Strætisvagninn í hverfinu sem ég ólst upp í hét "Kleppur hraðferð". Ég átti heima í Laugarnesinu og við lékum okkur stundum í Vatnagörðum þar sem í sást til Kleppspítalans. Þaraskógurinn í fjörunni var eins og hættulegur frumskógur þar sem við óttuðust ekki ljón eða hlébarða eða sæskrímsli - heldur að sjúklingar sem sloppið hefðu af Kleppi myndu ráðast á okkur.

Svo breyttust tímarnir og viðhorf mín breyttust.  Geðsjúklingar fóru inn á geðdeildir og ég hætti að vera hrædd við geðsjúka og fór líka að efast um allar manngerðar markalínur - hver er veill á geði og hver ekki. Líka að að skilja að margir tapa þræði einhvern tíma á lífsleiðinni en flestir ná aftur að vinda saman spottann, sérstaklega ef umhverfið og samfélagið styður við þá.

Umfjöllunin í Morgunblaðinu í dag var ítarleg, það kom ýmislegt fram um sögu Klepps og geðlækninga á Íslandi. En það var ein sýn sem gegnsýrði þessa umfjöllun. Það var að saga Kleppspítala var sögð í gegnum  sögu stjórnenda þar og þeirra sem ráða í samfélaginu. Þetta er merkileg saga en hún er bara ein hlið á sögu geðlækninga. Þetta er svona svipað eins og að segja sögu iðnaðarsamfélags á Íslandi með því að segja sögu einhvers iðnrekenda og kalla það sögu um aðbúnað verkafólks, fjalla um hvaða kenningar um hagkvæmni í rekstri notðai til að framleiða einhverja vöru en segja ekkert frá kjörum verkafólksins nema í gegnum auga iðnrekandans sem auðsjáanlega hefur tilhneigingu til að fegra sinn hlut og gera mikið úr mikilvægi sínu til að bæta kjör verkafólksins. Það væri miklu sniðugra að segja söguna um kjör verkafólksins með því að fylgja einhverju þeirra eftir og tala við það, ekki við þann sem stjórnar rekstrinum.

Það vantar mikið í svona sögu eins og sögð er um Kleppspítalann í Morgunblaðinu í dag. Það vantar rödd þess sem er hinum megin við borðið, það  vantar sögu þolandans, það vantar rödd þess sem lagður var inn á Kleppspítala. Ég held að það yrði öðruvísi saga, ég held að það verði saga pyndinga og ófrelsis. Ég held að allir ættu að lesa bloggpistil Sigurðar Þórs Guðjónssonar, hann veit alveg hvað hann er að tala um, hann skrifaði bókina Truntusól sem er einmitt saga af geðdeild sögð frá sjónarhóli sjúklings. Hann var sjúklingurinn. Bloggið hennar Hörpu fjallar líka oft um geðsjúkdóma frá sjónarhóli þolandans t.d. þessi  bloggpistill um geðlyf  Á ég þá bara að verða ga-ga?

Ég hef heyrt marga rannsakendur í kvennafræðum nota þetta hugtak  "talking for the Other" og hafna því að maður geti talað fyrir Hinn (þ.e.hóp sem maður tilheyrir ekki). 


Leitin að Adam

Ég var að horfa á ofboðslega lélegan fræðsluþátt í íslenska sjónvarpinu, þáttinn "DNA Mystery: The Search for Adam". Þetta var einhvers konar sambland af þróunarkenningar-erðafræði-vísindahyggju og bókstafstrú á bíblíuna ásamt því að segja þróunarsögu mannkynsins sem hetjusögu karlmanna, já í þessu tilviki meira karllitninga.  Þessi þáttur sameinaði eiginlega flest sem mér finnst athugavert við vísindi, trú og kynjavídd og hvernig heimsmyndin sem dregin er upp og sú rannsóknarnálgun sem er á fyrirbæri í þessum heimi er háð því hvað því fólki sem hefur völd í þessum heimi finnst að eigi að koma út út vísindum. 

Heimspekingurinn Aristoteles er engin undantekning frá því. Honum var mikið í mun að lýsa fólki sem var eins líkt honum sjálfum sem hinum miklu gerendum í hetjusögu mannkyns. En hann var ekkert inn í genahugsun. Ég hugsa að ef Aristóteles væri uppi núna þá væri hann allur í svona Y-litninga hetjusögum.

Ég skrifaði á blogg 4.nóv. 2001 um kenningar hans:

Svo fór ég á aðra málstofu þar sem femínistar fjölluðu um heimspeki. Hlustaði á heimspekinginn Vigdísi frá Noregi rekja sýn Aristótelesar á hlutverki kynjanna. Óttalegur rugludallur þessi Aristóteles en honum er kannski vorkunn, hafði enga innsýn í genahugmyndafræði nútímans en þurfti bara að útskýra náttúrannar eðli þannig að það væri valdhöfum þóknanlegt og réttlætti þeirra stöðu. Hann tjáði sig líka um þrælahald og er það álíka bull og þessi kynjapæling hans. Aristóteles hélt því fram að sæði mannsins væri það sem gæfi lífverum form, konan legði bara til efnið. Hún væri nokkurs konar blómapottur fyrir sæði mannsins sem væri eins og akarn sem sprytti í moldinni.


Plott hjá strákunum

Valgerður Sverrisdóttir er mjög frambærileg stjórnmálakona og mikið vildi ég óska að hún hefði boðið sig fram sem formann Framsóknarflokksins þegar Halldór Ásgrímsson lýsti því yfir eftir úrslit borgarstjórnarkosninganna í fyrra að hann ætlaði að segja af sér vegna þess að Framsóknarflokkurinn fékk svo lítið fylgni. Og verið jafnsnögg að því og hún er núna að lýsa því yfir að hún sækist eftir að verða varaformaður Framsóknarflokksins. Þá hefði ekki þessi vægast sagt skrýtna og að margra mati afkáralega atburðarás hafist.  

Niðurstöður alþingiskosninganna núna og lítið brautargengi Jóns Sigurðssonar hjá kjósendum í Reykjavík og það að hann komst ekki á þing á ekki að koma á óvart. Þetta var mjög sambærilegt fylgi og Framsóknarflokkurinn fékk í borgarstjórnarkosningunum undir forustu Björns Inga. Það var engin ástæða til að ætla að Jón fiskaði eitthvað betur en Björn Ingi, þeir stóðu sig báðir ákaflega vel og auglýsingaherferðin var í bæði borgarstjórnar og alþingiskosningum rekin eins og þessi framboð væri einleikur Jóns og Björns Inga og þeir væru persónugervingar á stefnu Framsóknarflokksins, andlit og rödd og viðhorf flokksins. Það er komin nokkuð góð mæling á það hvað svona strákaframboð trekkja  ef auglýst er nógu brjálæðislega mikið, það er svona kringum 6 prósent hérna í Reykjavík.

Undanfarin misseri hafa verið tími hinna mislukkuðu formannaplotta hjá Framsóknarflokknum. Það hefur hver erfðaprinsinn á fætur öðrum birst á sviðinu og strákarnir talað upp stemmingu... meira segja talað af svo mikilli sannfæringu að Mogginn hefur margoft látið blekkjast og birt flopp skúbb um innkomu þessara og hinna.  Það hefur vægast sagt verið lítil ending og þolgæði hjá þeim sem hafa verið talaðir upp  í formanninn á þessum tíma. Árni Magnússon, Finnur Ingólfsson og Jón Sigurðsson eru ekki með í sögunni sem nú spinnst fram.  Björn Ingi er núna í umræðunni og tíminn á eftir að leiða í ljós hvort hans bíða sömu  örlög og hinna sem kallaðir voru en stöldruðu einungis við á sviðinu skamma stund. 

Svo ég segi bara hreinskilnislega þá held ég að framboð Valgerðar núna í varaformanninn sé ennþá eitt plottið hjá strákunum - þeim sömu og stóðu að Freyjumálinu í Kópavogi og sem hafa staðið að hverju mislukkaðra plottinu á fætur öðru í flokknum. Þessi plott hafa bara verið svo yfirmáta vitlaus og grunn að það fer alltaf allt í vitleysu. Mörg af þessum plottum virðast miða að því að leggja stein í götu Sivjar Friðleifsdóttur. 

Valgerður segir að hún vilji vinna að innra starfi og uppbyggingu í flokknum. Halldór Ásgrímsson sagði  þegar úrslitin í borgarstjórnarkosningunum voru kunn að nú hæfist uppbygging Framsóknarflokksins.  Jón Sigurðsson sagðist líka ætla að vinna að innra starfinu og uppbyggingu. Á þeim skamma tíma sem Jón var formaður flokksins varð ég ekki vör við að hann reyndi að breyta innra starfi flokksins og á þeim tíma sem ég hef verið virk  í Framsóknarflokknum hef ég ekki tekið eftir neinum afskiptum  Valgerðar Sverrisdóttur að innra starfi flokksins hérna á höfuðborgarsvæðinu nema að ég tók eftir að hún var eina manneskjan sem bar blak af innrásarmönnum á fundi sem ég fór á hjá Landsamtökum Framsóknarkvenna rétt eftir þessa skrýtnu og siðlausu innrás í kvenfélagið Freyju í Kópavogu og bæði aðstoðarmaður hennar í iðnaðarráðuneytinu (Páll Magnússon) og aðstoðarmaður hennar í utanríkisráðuneytinu (Aðalheiður Sigursveinsdóttir) eru bendluð við þessa þessa innrás í kvenfélag í Kópavogi.

Það vakti líka athygli og hneykslun mína á sínum tíma að Valgerður Sverrisdóttir var heiðursgestur á einhverjum stofnfundi um nýtt Framsóknarkvennafélag sem þær konur sem reyndu að taka yfir Freyju (að því er allir halda til að tryggja völd sona sinna, eiginmanna og karlkyns ættingja) þegar þær stofnuðu eitthvað sérstakt félag sem ég man nú reyndar ekki hvað heitir og sem ekkert hefur starfað að ég veit. Það vakti athygli mína að stofnfundur þess félags var ekkert auglýstur. Þetta lofar vægast sagt ekki góðu um hvernig Valgerður ætlar að byggja upp innra starf í Framsóknarflokknum hér á höfuðborgarsvæðinu. 

Ég hef ekkert séð sem bendir til neinnar uppbyggingar eða breytinga á vinnubrögðum undanfarin misseri í Framsóknarflokknum þrátt fyrir tal um það. Ég veit ekki hvaða merkingu fólk setur í innra starf en ég get sagt það að ég hef ekki orðið vör við neitt sem getur flokkast undir að byggja upp innra starf Framsóknarflokksins í mínu kjördæmi í Reykjavík norður. Ég hef margoft bæði á innanhússpóstlista Framsóknarflokksins og í ræðupúltum á fundum bent á ömurlega og siðlausa starfshætti í framsóknarfélaginu í Reykjavík norður (sama kjördæmi og Halldór Ásgrímsson og Árni Magnússon voru í) og ég hef sent bréf til  Framsóknarflokksins þar sem ég hef lýst furðulegum og óheiðarlegum vinnubrögðum í félaginu. Ég hef séð dæmi um lygilega óheiðarleg vinnubrögð í Framsóknarflokknum og það sem mér finnst ennþá verra er að ég hef séð forustumenn Framsóknarflokksins líta framhjá þessum vinnubrögðum og sækja styrk sinn og ráðleggingar til hópa sem stunda svona vinnubrögð.

 


mbl.is Valgerður: Tilbúin að takast á við varaformannsembættið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðslokadagur - SS og sveitirnar

Það er ágætis fólk í ráðherraliði hinnar nýju ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og það ber að fagna því að bak við þessa stjórn er stór hluti kjósenda - frá sjónarhóli fulltrúalýðræðis þá er þetta eiginlega besta lausnin á stjórnarmynstri - að tveir stærstu flokkarnir taki höndum saman. Svo finnst mér þessi samsteypa innsigla eins konar stríðslok og vendipunkt í íslenskum stjórnmálum. Ísöld kalda stríðsins lauk fyrir löngu á Íslandi, ameríski herinn flaug í burtu í vetrarbyrjun eftir að hafa ekki gert neitt hérlendis nema þvælast í mörg ár. Átökin í stjórnmálum eru ekki lengur hægri-vinstri ás þar sem yst á ásunum  eru kapítalismi og kommúnismi.  Átökin eru meira um frelsi og hreyfanleika fólks og fjármagns, hver má tala og hverra sannleikur fær að hljóma, hver má umbylta og nytja náttúru landsins og hvernig. Það er áframhaldandi upplausn þjóðríkisins sem ekki getur endað nema á einn veg og það er sterk undiralda um jafnrétti allra burtséð frá kynferði og þjóðernisuppruna. Átökin eru líka að sumu leyti borgarsamfélagið og sveitirnar og í þessari lotu haf sveitirnar tapað. Stefna SS flokkanna og málefnasamningur þeirra vinnur fyrir borgarsamfélag á Íslandi og alþjóðahyggju. 

Ég fletti upp í Wikipedíu hvað hefði gerst í mannkynssögunni á þessum degi 24. maí þegar nýja stjórnin tók formlega við völdum.  Þennan dag árið 2002 skrifuðu forsetar USA og Rússlands undir afvopnunarsamning um kjarnorkuvopn (SORT treaty), þennan dag árið 1949 endaði umsátur Sovétmanna um Berlín (Berlin Blockade). Árið 1941 var háð á sjóorusta á hafsvæði milli Íslands og Grænlands þar sem þýska skipið   Bismarck sökkti breska skipinu HMS Hood . Þennan dag árið 1956 var Evrópska söngvakeppnin haldin í fyrsta skipti. 

Svo fæddust Bob Dylan og Viktóría Bretadrottning þann 24. maí. og sænski kóngurinn Magnús hlöðulás var krýndur þennan dag árið 1276. Ýmsar tilgátur eru um hvernig viðurnefni Magnúsar er tilkomið en ein tilgátan er sú að hann hafi sagt "Bændur, læsið hlöðum ykkar" og hafi þar átt við að bændur þyrftu ekki að þola að valdsmenn kæmu og rændu vistum frá bændum og tæku eigur þeirra. Magnús hlöðulás er þekktastur fyrir Alsnö stadga en þar tilskipun frá konungi um frelsi og ferðalanga, það er tiltekið hvað höfðingjar verði að greiða fyrir gistingu og beina hjá alþýðu á yfirreið sinni um héruð og hvernig þeir megi hegða sér.

 Hér á Íslandi gerðist það markvert þennan dag að árið 2004 samþykkti Alþingi frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum sem síðar var neitað um undirskrift forsetans. 

Það er gaman að bera saman ríki Magnúsar hlöðuláss og hina nýju stjórn á Íslandi og bera saman stjórnarsáttmálann núna við skjöl eins og Alsnö stadga

Hvað hefur breyst og hvað er eins og það var á 13. öld? Þurfa ekki stjórnvöld  ennþá að tryggja frelsi og hreyfanleika en samt að passa að hinir voldugu noti ekki völd sín til að ræna og rupla og aféta hina fátæku? Hvaða orðalag myndi maður nota í dag til að vara við ágengni höfðingja? Varla er hægt að segja "bændur, læsið hlöðunum ykkar!" núna þegar fáir eru ennþá bændur og þeir fáu eru ekki endilega með hey og vistir og verðmæti í hlöðum sínum.  Þeir eiga ekki einu sinni hlöður og laust hey í hlöðum sínum, það er allt komið í rúllubagga. Annars er tákn fyrir nútímann og Ísland í dag einmitt  hvítu rúllubaggarnir, um sláttinn eru öll þakin af þessum risastóru haglkornum.

Eru kannski helstu breytingarnar núna að völdin eru að fara frá kjörnum fulltrúum og þjóðríkjum yfir í fjölþjóðleg fyrirtæki sem geta auðveldar leynt upplýsingum og falið slóð sína og ítök og flutt verðmæti þangað sem mest hagnaðarvon er. 


mbl.is Ný ríkisstjórn tekin við völdum - lagt á djúpið í herrans nafni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litla frænka að braggast

Litla frænka er ennþá á vökudeildinni og hún fær lyf þar og þarf að vera þar í nokkra daga. En hún er öll að braggast og í dag var hún í fyrsta skipti vakandi í langan tíma. Hún var bara einn dag í hitakassa og í dag fékk hún að vera stóran hluta dagsins hjá mömmu sinni á fæðingardeildinni. Ég tók margar, margar myndir af henni núna síðdegis í dag til að pabbi hennar og litlu systur hennar tvær sem eru fyrir vestan geti séð hvað hún er falleg. Hún er sex daga gömul í dag og það er ótrúlegt hvað hún hefur breyst mikið í útliti og hvað hún er farin að virða fyrir sér heiminn.

 Litla frænka 6 daga gömu

Litla frænka 6 daga gömu

Litla frænka 6 daga gömul

litlafraenka5dagagomul
Þessa mynd tók ég af henni á vökudeildinni í gær. Hún er á vigt því það þarf að vigta hana fyrir og eftir hverja brjóstagöf til að fylgjast með að hún fái nóga næringu.

 

Hér eru myndirnar af henni.

Elsku frænka

litlafrænka 1

 

 

 

 

 

 

 


Hér er litla frænka fyrsta daginn í lífi sínu. Í gær var hún veik. Hún er núna á vökudeild.

Ég get ekkert gert nema beðið.

 


Rakú brennsla í Borgarfirði

Á sunnudaginn fór ég í sumarbústað í Borgarfirði í Rakú brennslu til Ásrúnar Tryggvadóttur  sem hefur kennt okkur leirmótun í vetur. Hér er  45 sek. vídeóklipp af brennslunni og mununum okkar:


 

Við vorum að prófa rakú brennslu sem er gömul japönsk aðferð við glerungsbrennslu. Hún er þannig að fyrst eru leirmunir mótaðir og   leirmunirnir hrábrenndir í rafmagnsofni. Síðan eru rakúglerungar settir á  og þeir gljábrenndir í sérstökum ofni sem er hitaður upp með gasi.  Glóandi heitir leirmunirnir eru svo lagðir í málmílát ásamt eldsneyti t.d. viðarsagi. Eftir ca. 20 mín “reduction” er brennslan stöðvuð  með því að setja munina í vatn. Sótið er svo þegið af mununum.

Það kemur stundum skemmtileg áferð á glerunginn eins og hann sé allur sprunginn. 

Sjá hérna Raku ware - Wikipedia, the free encyclopedia

 

 

 

 


Veggjakrot - myndmál stórborgarinnar

Veggjakrot er margs konar. Það getur verið tákn sem aðeins innvígðir skilja t.d. tákn einhverra menningarhópa eða dulartákn um að hér sér einhver aðstaða eða þjónusta. Það tíðkaðist t.d. að merkja hvar væri hægt að komast í frítt Internetsamband með að stela bandvídd frá einhverjum. Stundum er graffiti liður í baráttu einhverra hópa, sennilega mun það færast í vöxt.

Oft hafa hús verið merkt og stundum hafa merkin verið þáttur í einhverjum ofsóknum. Ég tók þessa mynd í Austur-Berlín  fyrr í mánuðinum af stórri byggingu sem engin starfsemi var í. Ég skildi ekki  áletrunina fyrr en ég las skilti um sögu hússins. Þetta var hús sem var einu sinni banki í eigu gyðings Golluber að nafni. Hann flýði nasistanna og húsið varð miðstöð Hitlersæskunnar. Svo lenti það inn í kommúnistaríkinu Austur-Þýskalandi og var sennilega einhvers konar ungdómsmiðstöð. En núna hefur húsinu sennilega verið skilað til Golluber fjölskyldunnar og sá sem skrifar þetta graffiti lýsir andstöðu sinni með þróun hverfisins og fyrirhugaða notkun hússins. Þetta er líka ostalgia eða eftirsjá eftir kommúnistaríkinu og andstaða við peningaríki sem mismunar fólki, skrifarinn vill ekki sjá neina einkaklúbba og sundlaugar og lúxushótel og kallar eftir að húsið verði félagsmiðstöð ungs fólks.

Graffiti

Berlín var allt staðar útkrössuð alveg eins og Barcelona. En krassið er mismunandi flott og listrænt gildi þess segir heilmikið um hverfið og fegurðarmat fólksins sem þar býr. Hér er graffiti sem mér fannst svo flott að ég tók mynd af því, mér finnst flott þessi gróska, svona sambland af tæknihyggju og þrá eftir lífi og gróðri.

 

Mural

Mér finnst sumt graffiti í Reykjavík mjög flott, ég sá um daginn þessa þyrpingu fólks á húsvegg einhvers staðar nálægt Vatnsstíg. Svona listaverk gleðja alla og gera borgina fallegri:

Graffiti in downtown Reykjavik 020

Hér er svo vídeóklipp sem ég tók af graffitilistamanni í Barcelona fyrir tveimur árum, núna er listaverkið hans horfið.

 Til fróðleiks:

Graffiti is the newspaper of street gangs

Axel Thiel: Vocabulary of Graffiti Research

Graffiti - Wikipedia, the free encyclopedia

 

 

 


mbl.is Kona „graffar" í skjóli nætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kambsránið og Flateyri

Fyrir 180 árum réðst hópur grímuklæddra manna inn á bóndabæ á Suðurlandi, bundu húsráðendur, brutu upp kistla og rændu um 1000 ríkisdölum. Þetta var Kambsránið, eitt frægasta sakamálið á Íslandi á sinni tíð. Í kjölfarið komst upp um glæpaklíku sem hafði rænt víða. Þuríður formaður á Stokkseyri var í hlutverki rannsóknarlögreglumanns og átti þátt í að upp komst um ránsmennina en tveir þeirra voru nú einmitt bátsverjar á hennar bát. 

Núna árið 2007 þá hættir fyrirtækið Kambur á Flateyri vinnslu og segir upp öllu starfsfólki og selur væntanlega kvótann burt úr plássinu. Það verða 120 manns eða flestir vinnandi menn á Flateyri sem  missa vinnuna og í einni sviphendingu er fótunum kippt undan byggðinni þarna og eignir fólks gerðar verðlausar. Tjónið er örugglega meira en þeir  1000 ríkisdalir sem voru ránsfengurinn í Kambsráninu forðum daga. Þingmenn Norðvestur kjördæmisins eru ráðþrota. Það er enginn Þuríður formaður í dag á Vestfjörðum sem getur upplýst Kambsránið og  bent á sökudólginn.  

Íbúar á Flateyri eru fórnarlömb sjávarútvegsstefnu þar sem kvótinn og þar með rétturinn til  að veiða fisk var gefinn til útgerðarmanna og gengur kaupum og sölum. Það er alveg öruggt mál að þetta fiskveiðistjórnunarkerfi hefur stuðlað að meiri hagkvæmni og hagræðingu í sjávarútvegi á Íslandi og meiri ágóða af útgerð, útgerðarmenn hafa frítt spil að flytja kvótann til staða þar sem hagkvæmast er að gera út, selja kvóta sín á milli og leysa upp fyrirtæki ef upplausnarvirðið er meira en verðmæti fyrirtækisins í rekstri. Ég velti fyrir mér hvort að það hefði ekki verið líka betra fyrir efnahagslíf á Íslandi ef ránsfengurinn  úr Kambsráninu 1000 ríkisdalir hefði komist í umferð á Íslandi á sínum tíma í staðinn fyrir að vera grafinn á kistubotni hjá bóndanum í Kambi. Þó svo væri þá réttlætir það ekki þær gripdeildir og ofbeldi sem ránsmennirnir gerðu sig seka um.

Kvótakerfið í íslenskum sjávarútvegi er  ósanngjarnt og það svínar á fólkinu í sjávarplássunum á íslandi. Við búum í heimi sem trúir á hreyfanleika og frelsi, ver einkaframtakið og einkaeignaréttinn. En fólkið á Flateyri býr í heimi þar sem frelsi og hreyfanleiki fjármagnsins er miklu meiri en frelsi og hreyfanleiki og möguleikar fólksins. Peningarnir geta henst með hraða ljóssins á milli staða á jarðkringlunni og búið um sig þar sem þeir gefa mesta ávöxtun hverju sinni. Það eru aðstæður sem henta ákaflega vel fjármagnseigendum. 

Það er hægt að leysa þetta misvægi á frelsi fjármagns og fólks á tvo vegu. Annars vegar draga úr möguleikum fjármagns til að flæða svona óhindrað og fyrirstöðulaust burt frá plássunum og hins vegar að reyna að auka hreyfanleika og frelsi  fólksins til að skapa sér vinnu. Seinni kosturinn er sennilega skynsamlegri og réttlátari núna þegar kvótakerfið er orðið svo fast í sessi að það er ekki gott um vik að umturna því. Því miður hafa margar aðgerðir í byggðamálum einmitt snúið að hinu gagnstæða því að reyra fólk niður í meiri átthagafjötra og áframhaldandi einhæfa atvinnumöguleika í sínu byggðalagi.

Það er mikilvægt að mögulegt atvinnusvæði sé sem stærst og fjölbreyttast. Það eru komin göng á Vestfjörðum og Flateyingar gætu sótt vinnu á Ísafjörð en þeir þurfa að aka Hvilftarströndina þar sem er oft snjóflóðahætta. Þar aka þeir framhjá ummerkjum um hvalveiðistöðvarnar, ummerkjum um eina stærstu rányrkju og arðrán á Íslandsmiðum þegar norskir ævintýramenn ryksuguðu upp hvalastofnana við Vestfirði. Það eru engin verðmæti eftir í byggðalaginu um þá rányrkju, ekkert nema rústir og strompar frá hvalveiðifabríkkunum. Það er heldur ekkert eftir á Íslandi eftir þá rányrkju því norsku hvalfangarnir greiddu engan skatt af afnotum sínum af auðlindum Íslands.  Það er nú reyndar eitt stásshús á íslandi sem er minnisvarði um þessa tíð en það fékk ekki einu sinni að standa á Vestfjörðum. Það er ráðherrabústaðurinn í Reykjavík sem einu sinni var íbúðarhús hvalfangara og stóð á Sólbakka.

En sagan um arðrán hvalfangaranna er ekki sögð sem saga arðráns og rányrkju, hún er sögð sem framfarir í íslenskri atvinnusögu og niðurrifs hússins á Sólbakka er meira segja sett upp sem dæmi um góðmennsku hvalfangarans, hvernig hann seldi Íslendingum húsið fyrir slikk:

Norski umsvifamaðurinn Hans Ellefsen reisti þar hvalveiðistöð árið 1889 og var hún eitt stærsta fyrirtæki landsins. Stöðin brann rúmum áratug síðar og hóf Ellefsen þá smíði annarrar litlu innar við fjörðinn. Verkinu var hætt þegar búið var að hlaða reykháfinn og stendur hann enn rétt við þjóðveginn. Áður en Ellefsen fluttist brott gaf hann Hannesi Hafstein íbúðarhúsið sitt á Sólbakka ofan við Flateyri. Sumir segja að hann hafi selt honum húsið á eina krónu, aðrir segja fimm krónur. Hannes lét taka húsið sundur og flytja til Reykjavíkur.

Til gamans má geta þess að Einar Oddur þingmaður  býr að Sólbakka og Björn Ingi oddviti okkar Framsóknarmanna í borgarstjórn ólst upp á þessum slóðum. Björn Ingi segir á vefsíðu sinni:

Lengst af áttum við heima í stóru einbýlishúsi að Sólvöllum, beint fyrir ofan gömlu hvalstöð Norðmannsins Hans Ellefsen sem foreldrar mínir keyptu og breyttu í trefjaplastbátasmiðju. Sólbakki, hús Einars Odds Kristjánssonar alþingismanns, er við hliðina á Sólvöllum og hinum megin við er Hvilft, hús Gunnlaugs Finnssonar, fyrrverandi alþingismanns.
 
mbl.is 65 manns og sjómönnum á 5 bátum sagt upp hjá Kambi á Flateyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rödd óbreytta Framsóknarmannsins

Ég fylgist svona í fjarlægð og gegnum fjölmiðla með stjórnarmyndunarviðræðum og nú þegar Framsóknarmaddaman dansar ekki við Geir þá spái ég í hverjir verða ráðskonur í nýrri ríkisstjórn. Ég er líka dottin í að skoða alls konar skrýtin mynstur í hverjir verða í stjórn og hverjir í stjórnarandstöðu. Hefur fólk tekið eftir að allir leiðtogar stjórnarandstöðunnar eru fúlskeggjaðir? Grin Það verður gaman að sjá hvernig skopmyndateiknarar lýsa stjórnarandstöðunni og teikna þá Jón, Steingrím og Guðjón. 

Hér er myndin  sem Halldór skopmyndateiknari teiknaði árið 2006 af Ingibjörgu Sólrúnu í stefnumótaþjónustunni, sjá bloggið hans Styggir vonbiðlar.

 

 

Annars skrifaði ég eftirfarandi bréf áðan inn á innanhússpóstlista Framsóknarmanna:

Ágætu framsóknarmenn,

Ég kalla aftur eftir einhverjum fréttaflutningi og umræðu forustunnar og þingmanna í Framsóknarflokknum við okkur óbreytta Framsóknarmenn. Ég hef verið að skoða vefsetur Framsóknar í Reykjavík www.hrifla.is og vefsetur framsóknarflokksins www.framsokn.is og ég hef ekkert séð sem túlka má sem fréttaflutning til grasrótarinnar í flokknum nema fréttina tvöfeldni í viðræðum.

Allir fjölmiðlar eru núna uppfullir af fréttum og analýsum um Framsókn og ég hlustaði í gær bæði á Siv í Ísland í dag og Björn Inga í Kastljósi þar sem þau lýstu fullum stuðning á formann okkar. En mér finnst afleitt að fréttaflutningur og boðskipti til okkar óbreyttra Framsóknarmanna fari eingöngu fram í fjölmiðlum - af hverju er þá verið að hafa allan þennan félagastrúktúr og stjórn í kringum stjórnmálaflokk ef  það eru engin tengsl við almenna félagsmenn?

Ég segi þetta líka vegna þess að það eru núna að birtast í fjölmiðlum og netmiðlum alls konar fréttir um hinar ýmsu ákvarðanir og plott innanbúðar í Framsóknarflokknum og gert lítið úr Jóni Sigurðssyni og ráðist m.a. á Björn Inga og hann sagður hafa hannað einhverja atburðarás. Þetta er mjög ómaklegt tal og mér myndi verða rórra sem óbreyttum Framsóknarmanni að vita af því að forusta og þingflokkur ætli að vinna í sameiningu úr þeirri stöðu sem núna er komin upp og sjá þau tækifæri sem liggja í stöðunni - tækifæri til að endurskoða og byggja upp öflugan flokk samvinnu og félagshyggju - ekki síst að byggja upp flokksstarfið sem hugsanlega er með blóma í hinum ýmsu Framsóknarfélögum en í Reykjavík Norður þar sem ég hef fylgst með því þá stendur yfir ömurlegt niðurlægingarskeið og hefur stjórn og starfsemi þess félags verið með eindæmum undanfarin ár, ég hef aldrei, aldrei kynnst því að félag sem kennir sig við lýðræðishreyfingu starfi svona og reyni  vísvitandi að drepa niður allt starf.

Það er mikið verk óunnið varðandi það að byggja upp og sætta sjónarmið innan Framsóknarflokksins. Á þeim tíma sem Jón Sigurðsson  hefur verið formaður hefur hann verið í vandasömu starfi iðnaðarráðherra og leitt kosningabaráttu okkar og staðið sig afbragðsvel og aukið mjög á tiltrú á Framsóknarflokknum. Ég hef hins vegar ekki orðið vör við að neitt hafi breyst í innra starfi Framsóknarflokksins enda átti ég ekki von á því að Jón Sigurðsson gæti einbeitt sér að þeim málum fyrr en eftir kosningar og ég bind miklar vonir við Jón Sigurðsson þar.

Ég tek undir með Birni Inga og segi að Jón Sigurðsson hefur 100% stuðning okkar Framsóknarmanna, hann hefur staðið sig eindæma vel á erfiðum tíma hjá Framsóknarflokknum en hann hefur ekki haft þann tíma sem þarf til að byggja upp traust kjósenda og til að sætta fólk og endurskipuleggja innra starfið.

Það var afar dapurlegt hvernig þessar kosningar fóru á höfuðborgarsvæðinu en það er svo sannarlega ekki Jóni Sigurðssyni að kenna. Þetta er sama niðurstaðan og í borgarstjórnarkosningunum fyrir ári síðan. Framsókn er ekki með nema 6% fylgi í Reykjavík, það er eins gott að horfast í augu við það og kryfja hvers vegna og hvað er hægt að gera til að auka fylgið og tiltrú á Framsóknarflokkinn í framtíðinni.

Ég vil reyndar færa öllu því fólki sem stóð í kosningabaráttunni þakkir, mér fannst allt starf til fyrirmyndar þar og málefnaleg og góð kosningabarátta og það mæddi mikið á öllu okkar fólki sem og bæði Siv, Jónína og Guðjón Ólafur urðu fyrir svæsnum og ómaklegum árásum fjölmiðla síðustu daga fyrir kosningar, sérstaklega hjá DV og árásin á Jónínu var ennþá heiftarlegri því hún var líka í RÚV. Ég get ekki séð þessar árásir öðruvísi en sem vísvitandi plott til að knésetja Framsókn hér á höfuðborgarsvæðinu sem mest og vil jafna þeim við hina ósmekklegu árás og heilsíðuauglýsingu Jóhannesar í Bónus á Björn Bjarnason. Það var þó miklu heiðarlegri árás því þar var ákveðin persóna skrifuð fyrir þeirri árás og það kom skýrt fram að þetta var borguð auglýsing og var kom skýrt fram hvers vegna hún var birt.

Allt skipulag kosningabaráttunnar og kosningastjórn sem ég fylgdist með hér í Reykjavík og Kópavogi  var einstaklega gott, ég kom á nokkra viðburði og fylgdist með starfinu og þar var mikið um að vera og vefir, útsendingar og dreifirit og auglýsingar áberandi og vel unnið, kosningabarátta Framsóknarflokksins fór ekki fram hjá neinum,  slagorðið um græna kallinn var gott og grípandi og slagorðið Árangur áfram - ekkert stopp kunna allir. 

Svo hefur Framsókn verið í ríkisstjórn á miklum góðæristíma á Íslandi. Hinn ríkisstjórnarflokkurinn vinnur á. Hvers vegna í ósköpunum tapar Framsókn fylgi og hrapar sérstaklega niður hérna á höfuðborgarsvæðinu?  Ég held að Framsóknarmenn verði að ræða það af hreinskilni, það er ekki hægt að skipta úr tapi í sigur einhvern tíma í framtíðinni nema skilgreina hvers vegna tapið var og horfast í augu við að það var ekki alltaf skynsamlega staðið að málum og spilað úr stöðunni af hálfu Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili.

Það er sennilega gæfuríkara spor til að breyta ósigri í sigur seinna að skoða hvað gerðist fremur en eyða orkunni í að uppnefna andstæðinganna með einhverju Baugstjórnartali. Ég vona líka að Framsóknarmenn haldi áfram að vera siðprúðir og varir í orðum og tala málefnalega og af virðingu við og um andstæðinga sína.  Það er alveg hægt að gera það en draga samt athygli að því sem þeir gera miður vel.


Bestu kveðjur
Salvör Gissurardóttir
----------------------------------------------------------------------
Meðfylgjandi er frétt sem er núna á mannlif.is, sjá hérna:
http://www.mannlif.is/ordromur/nr/623

Jón Sigurðsson afskrifaður

19 maí 2007

Mogginn afskrifar Jón Sigurðsson sem formann Framsóknarflokksins í fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur í dag. Agnes er þekkt fyrir fremur ódýra fréttamennsku en hittir líklega naglann á höfuðið þegar hún spáir logandi innaflokksátökum í Framsóknarflokknum þar sem Guðni Ágústsson muni berjast til formennsku við Siv Friðleifsdóttur. Örlög Jóns Sigurðssonar eru þau að vera utanþings og áhrifalaus eftir að kjósendur höfnuðu honum. Össur Skarphéðinsson líkir klaufaskap´Jóns í eftirleik kosninganna við mistök Jóns Baldvins Hannibalssonar þegar Alþýðuflokkurinn hrökklaðist út úr Viðeyjarstjórninni:  ,,Jón Sigurðsson gerði sömu mistökin og Jón Baldvin Hannibalsson 1995. Hann átti kost á því strax í lok kosninganna að draga Framsókn út úr ríkisstjórn. Þá hefði umboð til stjórnarmyndunar að öllum líkindum farið til Samfylkingarinnar ...".

En annað er athyglisvert í fréttaskýringu Moggans. Aðalhönnuður atburðarrásarinnar innan Framsóknarflokksins og sá sem plottaði ´flokkinn í stjórnarandstöðu er Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi blaðamaður Moggans,  er ekki nefndur. Á því kunnu að vera þær skýringar að hann sé sá sem leggur til púðrið í grein Agnesar vinkonu sinnar. Enginn vafi er á því að Björn Ingi er verðugur framtíðarformaður flokksins en til þess að það gangi smurt fyrir sig þarf hann að tryggja rétta atburðarás. Þar hentar ágætlega að láta Guðna og Siv berjast en koma síðan sem frelsari og höggva á hnútiinn. Þar er Mogginn góður farvegur og gott tæki ...
 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband