Bloggfærslur mánaðarins, mars 2020
18.3.2020 | 10:23
Borgaralaun og kórónuveirukreppan
Það stefnir allt í heimskreppu og þær spár sem ég sá í gær, hafðar eftir bandarískum hagfræðingum spá því að atvinnuleysi í USA fari upp í 20% verði ekki gripið til opinberra aðgerða strax.
Framtíðarhorfur til skamms tíma eru líka dökkar fyrir Ísland og það er best að horfast í augu við það strax að ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi er eins mikið hruninn eins og bankarnir hrundu í Hruninu mikla og það er ekkert í augsýn næstu mánuði að ferðamenn fari að streyma milli landa. Sumt mun taka mörg ár að koma aftur jafnvel þó fólk verði ekki lengur hrætt við sóttir. Það er líklegt að ferðir á skemmtiferðaskipum dragist saman til frambúðar. Það er líka líklegt að ferðavenjur breytist og fólk leiti enn fremur í fámenni og náttúru en áður. Það er ekkert í spákúlum heimsins sem bendir til að fólk fari að ferðast eins og ekkert hafi í skorist strax í vor.
Núna í upphafi kreppunnar reyna ráðamenn að milda höggið og lofa að styðja við fyrirtæki og fólk, fyrirtæki sem stefna lóðbeint í gjaldþrot ef ekkert verður að gert, það á við um öll flugfélög heimsins og fólk sem sér að atvinna þess hefur horfið eða er við að horfa. Hér á Íslandi sjáum við ördeyðu hjá öllum sem höfðu atvinnu sína af því að skemmta fólki eða þjónusta fólk sem kom á viðburði og skemmtanir. Það stefnir líka í atvinnuleysi í flugi og samgöngumálum og hvað verður um byggingariðnaðinn? Það einkennir margar kreppur að allir kippa að sér höndum þegar ástandið er svona ótryggt og byggingariðnaðurinn er barómeter á ástandið, um leið og sverfur að hætta byggingarkranarnir að sveiflast. Sennilega er stór hluti af uppgangi byggingariðnaðar hérna tengdur þessum atvinnugreinum sem núna hafa hrunið, það er verið að byggja hótel og þjónustu við ferðamenn.
Þetta er hrikaleg staða en hugsanlega er Ísland í betri aðstöðu núna en mörg önnur ríki meðal annars vegna þess að hér er blessuð krónan, örgjaldmiðill sem ríkisstjórnin getur ennþá vasast með og notað til sveiflujöfnunar (lesist: til að lækka laun fólks miðað við umheiminn) og hér er líka fremur einsleitt samfélag sem einkennist af jöfnuði fremur en misskiptingu og hér er sátt og vilji um að hér sé velferð fyrir alla með heilsuþjónustu fyrir alla og framfærslutryggingu fyrir alla þegar áföll og veikindi.
Það mun hins vegar skipta miklu máli hvað stjórnvöld gera núna í ríkjum heimsins, það munu öll stjórnvöld sem hafa til þess bolmagn setja upp alls konar aðstoðarpakka fyrir fólk og fyrirtæki en hvernig á þessi aðstoð að vera?
Borgaralaun eru skynsamleg
Í mínum huga er alveg skýrt hvað er skynsamlegast núna. Það er að hugsa fyrst og fremst um fólk og velferð þess og viðurkenna að allir eiga rétt á því að geta framfleytt sér og að á óvissum tímum þá gera stjórnvöld illt verra með að búa til geysiflókin ölmusukerfi með ótal glufum og götum. Það kerfi sem núna er lag að setja á hefur verið nefnt Borgaralaun eða óskilyrt grunnframfærsla eða UBI og er það skammstöfun á "Universal Basic Income". Það er mjög líklegt að stjórnvöld í ríkjum sem sjá fram á efnahagshrun reyni núna eitthvað slíkt kerfi.
Það sem USA boðar núna, að senda ávísun heim til fólks virðist vera einhvers konar borgaralaun og bandarísk stjórnvöld segja að þessi ávísun komi eftir eina til tvær vikur. Það er margt á hvolfi í heiminum í dag og ekki hefði maður trúað fyrir nokkrum mánuðum að það yrði ríkisstjórn Trumps sem riði á vaðið með einhvers konar borgaralaun. Ég held að þetta sé bara hugsað sem ein greiðsla og minnir á greiðsluna sem íbúar Alaska fá, sömu upphæð á hvern íbúa ef vel gengur í olíuiðnaði fylkisns. Það eru líka borgaralaun.
Einn af kandidötum í forsetaframboði USA Andrew Yang hafði borgaralaun á stefnuskrá sinni, hann tapaði en hugmyndir hans lifa áfram. Hann telur kórónuveirukreppan muni verða til þess að vinna hugmynd um borgaralaun fylgi. Hér er úr grein í Politico 17. mars:
"Yang built a cult following with his case that a Freedom Dividend, as he called it, was the only way to protect millions of individuals, as well as the broader economy, from fiscal ruin in the face of spiraling unemployment due to advances in automated technology.
That particular day of reckoning has yet to arrive. But an equally dire set of circumstances playing out in a more compressed time frame is set to vindicate Yangs argument for putting cash straight into the pockets of millions of Americans.
In response to the economic threat posed by the spread of COVID-19, the highly contagious virus that has emptied out hundreds of thousands of schools and businesses virtually overnight, the Trump administration on Tuesday announced its intention to mail checks to Americans as quickly as possible. Consensus has formed at warp speed that this is the most effective way to help suddenly cash-strapped people pay their bills and keep the economy afloat."
Það er mjög líklegt að sú ríkisstjórn sem núna situr og Bjarni Benediktsson er fjármálaráðherra í muni horfa til einhvers konar borgaralauna og það hefði verið betra að fjármálaráðherra okkar væri meiri hugsuður í langtímalausnum samfélaga í kreppu og á óvissutímum og minna skólaður í að vera fulltrúi ættarveldis sem hugsar um eigin hagsmuni.
Bjarni hjólar í borgaralaun 29. septembe 2016
Bjarni: Það alvitlausasta sem ég hef heyrt Viðskiptablaðið 29. september 2016
Fjármálaráðherra sagði fyrir fjórum árum:
Hugmyndin um borgaralaun gengur út á það að allir fullorðnir fái opinbera framfærslu óháð því hvort þeir eru í vinnu, jafnvel vel borgandi vinnu, eða hafi aðra framfærslu. Þetta er eitthvað það alvitlausasta sem ég hef heyrt lengi, skrifaði Bjarni á síðu sinni.
En tímarnir breytast og mennirnir með.
Tenglar
Bjarni boðar borgaralaun -Þar sem ríkið bókstaflega taki starfsmenn á launaskrá sína
Mnuchin warns senators lack of action could result in 20% unemployment rate, source says
Andrew Yang Pleased To See Trump Adopt Universal Basic Income-Like Plan To Help Fight Coronavirus
Trump Want immediate casn handouts to Americans
(mynd er frá Vectormine)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.3.2020 | 13:30
Við sem heima sitjum
Í gær 16. mars 2020 fluttu Íslendingar heim. Vinnustaðir endurröðuðu starfsfólki þannig að hluti starfsfólksins vinnur heima hjá sér, hjá sumum fyrirtækjum þannig að starfsfólk mætir eina viku en er eina viku á vinnustaðnum. Í sumum fyrirtækjum er starfsfólkið til skiptis annan daginn í einu. Sumir eins og háskólakennarar eru kvaddir til að vinna heima en mega vinna á skrifstofum sínum, vinnustaðurinn ekki lokaður fyrir starfsmenn þó kennsla sé felld niður.
Eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma er kvatt til að halda sig heima og forðast heimsóknir eða aðstæður þar sem það er útsett fyrir smit. Sjónvarp og útvarp hafa bætt við útsendingar sínar, bæði þáttum sem miðla fréttum og upplýsingum en líka efni til að hafa ofan af fyrir öllum sem núna sitja heima. Það eru ekki allir heima að vinna, ekki allir sem hanga á hinu víðfeðma Interneti, það eru líka börn og aldraðir og fólk í sóttkví sem þurfa einhverja uppbyggjandi afþreyingu. Einu sinni var þáttur í útvarpi sem hét "Við sem heima sitjum" en núna þarf líka slíka þætti, fyrir aðra kynslóð, fyrir aðra tíma.
Það koma líka boð frá stjórnvöldum um að Íslendingar í útlöndum flýti sér heim. Það er sérstaklega einn hópur sem núna mæðir á, það er fólk á eftirlaunum sem býr stóran hluta ársins á Spáni vegna veðráttu þar. Það hafa verið í boði flugferðir fyrir þennan hóp, neyðarflug sem margir hafa nýtt sér enda ekki fýsilegt að vera á tímum svona óöryggis í landi þar sem maður skilur ekki tungumálið og margar reglur og valdboð eru öðruvísi en hér tíðkast. Sennilega vilja flestir núna vera heima nálægt börnum og ættingjum og inn í menningarumhverfi sem þeir skilja og tilheyra.
En fólk flytur ekki eingöngu heim. Fólk flytur samskiptaumhverfi sitt á netið og í gegnum snjalltækin og tölvurnar. Við höfum haft öll þessi tæki og þessa tæknimöguleika til fjarvinnslu í langan tíma og það er í mörgum tilvikum svo að fjarvinnsla er hagkvæmari fyrir samfélagið ef allt er tekið með - allt rýmið sem þarf bæði að vera á heimilum og vinnustöðum - allt rýmið og kostnaðurinn sem fer í samgöngukerfið og samgöngutækin, fer í samgöngukerfi sem verður að hanna og hafa svo stórt að það mæti mestu álagspunktunum, geti ráðið við þegar fólk fer allt í vinnu á sama tíma á morgnana og heim á sama tíma á kvöldin. Alls staðar í þéttbýli er stór hluti af rýminu tekið undir bílastæði og ýmis konar rými sem tengjast samgöngum.
Það eru mörg ár síðan ég flutti inn í netheima og ég hef reyndar furðað mig á hvers vegna fólk í stjórnsýslu er að gera suma hluti svo sem að stefna mörgum aðilum til fundar í miðbænum þar sem allir þurfa að leita að bílastæði og eyða jafnmiklum tíma í það og að komast á staðinn eins og fundurinn stendur. Er ekki miklu betra að nota netfundi og tækni við slíka vinnu, er það ekki líka spurning um jafnrétti því að með svona stjórnsýsluskipulagi þá eru þeir sem búa í miðbænum mun betur settir en þeir sem t.d. búa á Borgarfirði eystra eða í Bolungarvík. Ég hugsa að vinnubrögð breytist núna til langframa, það er eins og það þurfi að komast yfir einhverja hindrun við að taka í notkun nýja tækni, það nægir ekki að heyra að ný tækni sé betri og sniðugri, það þarf einhverja þörf til að taka hana í notkun.
Ég var á ráðstefnu í Santa Clara í USA fyrir áratugum eða árið 1997, það var ráðstefna um WWW eða veraldarvefinn sem þá var alveg nýtt fyrirbrigði og fáir vissu þá af. Þar talaði einn af fyrstu Internetgúrúum heimsins, maður að nafni Robert Metcalfe, maður sem ég hafði aldrei heyrt af en var greinilega mjög frægur spámaður og númer í Internetheiminum og á þessari ráðstefnu var mikið hlegið að honum fyrir að hafa skjátlast í spádómum sínum og hann látinn éta orð sín (í orðsins fyllstu merkingu). Þetta var mikið skemmtiatriði á ráðstefnunni og myndrænt þegar hann át orð sín og er lýst svo í wikipediagreininni:
Metcalfe predicted in 1995 that the Internet would suffer a "catastrophic collapse" the following year; he promised to eat his words if it did not. During his keynote speech at the sixth International World Wide Web Conference in 1997, he took a printed copy of his column that predicted the collapse, put it in a blender with some liquid and then consumed the pulpy mass.[14][15][16] He had tried to eat his words printed on a very large cake, but the audience would not accept this form of "eating his words."
Metcalfe flutti erindi á þessari ráðstefnu þar sem hann spáði í framtíð samfélaga, erindi sem hafði mikil áhrif á mig. Ég man að hann sagði í því erindi að langskynsamlegast væri að fólk flytti vinnustaðina heim, tæknin myndi gera það mögulegt og þar væri hagkvæmast. Ég man ekki hvort hann orðaði þetta sem spádóm, mig minnir það og mig minnir líka að hann og fleiri á þessari ráðstefnu hafi þegar þeir fabúleruðu um framtíð þjóðfélaga á tímum Internetsins gengið út frá því að samfélögin mundu hegða sér eins og væri skynsamlegast fyrir bæði einstaklingana og samfélögin.
En Metcalfe sem er mikill gárungi spáði rangt um að Internetið myndi falla saman, kannski spáði hann líka rangt um að vinnan myndi flytjast heim? Eða mun Internetið einhvern tíma falla saman?
Metcalfe er núna upptekinm af "Energy, Education and Healthcare" og er mjög hrifinn af MOOC námskeiðum sem eru stór netnámskeið.
Hér er viðtal við Metcalfe um spádóminn sem ekki varð:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2020 | 07:38
Lítill drengur
Lítill drengur reynir að komast til móður sinnar. Hann veit að hún er þarna nálægt, hún talar til hans stundum en hún er bak við luktar dyr. Hann átti afmæli í gær. Fyrsta afmælið. En það var ekkert afmælisboð og móðir hans gat ekki faðmað hann.
Það eru núna 1733 Íslendingar í sóttkví og 180 í einangrun og 3 eru á sjúkrahúsi. Það er komið samkomubann og það eru 180 manns smitaðir. En bak við tölurnar er fólk, lítil börn, foreldrar, aldrað fólk og veikt fólk.
Tenglar
* COVID-19 situation in the WHO European Region (tölulegar upplýsingar fyrir Evrópu)
* Tölulegar upplýsingar fyrir Ísland
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2020 | 15:24
Samkomubann og kórónaveirusöngvar
Á miðnætti brestur á samkomubann. Þá verða trúbatorar okkar og tónlistarfólk og þið öll sem hafið skemmt okkur á samkomum og tónleikum að hverfa inn í netheima eða ljósvakamiðla og ná til okkar um sinn gegnum netið eða fjölmiðla. Ég vona að það verði gróandi í þeirri menningu sem sprettur þar upp og fljótlega birti listamenn verk sem fanga og enduróma tíðarandann á tímum kórónuveirunnar og breyti í listaverk. Það er táknrænt að ein af seinustu samkomum sem haldin var fyrir samkomubannið var frumsýning Níu líf, byggt á æviferli Bubba Mortens.
Ég veit ekki hvaða skemmtiatriði væru á skemmtunum í dag ef þær væru haldnar. Ég hugsa bara um kórónaveiru og áhrif útbreiðslu hennar á heimsbyggðina og hvernig þessi sótt mun breyta heiminum. Ég sendi innilegar kveðjur til afmælisbarna dagsins og allra ykkar sem erum núna í sóttkví eða í sjálfskipaðri einangrun heima og set hérna inn nokkur myndbönd með kórónaveirusöngvum.
My Corona
Hugljúfur kínverskur kórónuveirusöngur
Heimskur hósti kórónuvírussöngur frá Filipseyjum
Söngur frá heilsuyfirvöldum í Víetnam
La Cumbia del Coronavirus mexíkanskur kórónasöngur
Coronavirus (La Canción)
Fight the virus
Sjá fleiri lög hérna:
* https://www.billboard.com/articles/news/9330920/coronavirus-parody-songs
* The "Cumbia del coronavirus" and other songs inspired by the epidemic
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2020 | 06:59
Bóluefni og lyf við Covid-19
Víða um heim fara fram rannsóknir og þróun á bóluefni gegn Covid-19. Eitt af þeim rannsóknarsetrum sem vinnur að gerð bóluefnis er The Institute for Biological Research í Nes Tziona í Ísrael en það var sett á stofn árið 1952 og starfaði áður undir hernaðaryfirvöldum þar. Þróun mun hafa farið þar fram á bóluefni við kórónaveiru sem herjar á hænsni en því bóluefni hefur verið erfðabreytt til að virka gegn Covid-19. Gríðarlega ör þróun er nú í genatækni, svokölluð CRISPR eins konar genaskæri og það er líklegt að margir sem þróa núna bóluefni nýti þá tækni en líka til að greina veiruna sjá t.d. Enabling coronavirus detection using CRISPR-Cas13: Open-access SHERLOCK research protocols and design resources
Prófun á bóluefnum
Venjulegu þá er þróunarferli bóluefna mjög langt ferli þangað til leyfilegt er að nota bóluefni til að bólusetja fólk. Þó mörg bóluefni séu í þróun þá eru fá komið langt í því ferli að vera samþykkt, sem dæmi má nefna að bóluefni þróað af Commonwealth Scientific and Industrial Research Organizations (CSIRO)í Melbourne í Ástralíu er núna rétt komið á það stig að það eru að byrja tilraunir á dýrum.
Það getur verið að með breyttri genatækni, samvinnu á heimsvísu um erfðamengi veiru og bóluefni og með sérstökum prófunaraðferðum og samvinnu við heilbrigðisyfirvöld þá megi mjög stytta tímann sem tekur að framleiða og koma í notkun bóluefni. En sporin hræða þar sem of mikill asi hefur verið á að bólusetja fólk án fullnægjandi prófana sb. polío bólusetningarnar í USA á sínum tíma sjá The Cutter Incident: How America's First Polio Vaccine Led to a Growing Vaccine Crisis sjá líka hérna um baráttu Salk og Sabin og bólusetningarnar sem voru ein og hálf milljón árið 1954. Myndin er af Salk með bóluefni sitt sem dælt var í börn.
Listi yfir Covid-19 bóluefni og lyf sem eru í þróun
Það er í gangi þróun á ýmsum lyfjum við Covid-19, hér er listi yfir sum lyf sem eru í þróun: Coronavirus treatment: Vaccines/drugs in the pipeline for Covid-19
Hér eru nokkur af þeim bóluefnum og lyfjum sem núna eru þróuð og prófuð:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2020 | 18:03
Norðurlönd versus ríki Engilsaxa (USA og Bretland)
Núna loka Norðurlönd og bæði í Noregi og Danmörku eru heiftarleg viðbrögð við Covid-19 sóttinni og á Írland líka. Reyndar er Svíþjóð ekki með svona lokunarstefnu. Stefnan í Noregi og Danmörku er í sterkri andstöðu við það sem forsætisráðherra Bretlands hefur tilkynnt og það er næsta víst að forseti Bandaríkjanna muni kynna á morgun eða næstu daga sams konar viðbrögð og Bretland. Hér má sjá Boris á blaðamannafundi í dag.
Mér sýnist þessi stefna Boris vera að það þjóni engum tilgangi að reyna að stemma útbreiðslu sóttarinnar, það þjóni engum tilgangi að loka skólum eða hafa fólk í sóttkví. Eiginlega að það verði bara að bíða eftir að sóttin gangi yfir og "vernda viðkvæma hópa" og bara reyna að tryggja að það komi ekki meiri kúfur á heilbrigðiskerfið en það ráði við. Reyndar heyrist mér þetta dáldið í sama anda og íslenski sóttvarnalæknirinn boðar.
Það er áhugavert að heyra einn breska sérfræðinginn sem talaði eftir Boris að Bretar búast við að það verði mánuður í að sóttin verði komin á sama stig í Bretlandi og núna í Ítalíu og það verði tíu vikur þar til sóttin nær hámarki. Þetta er sem sagt spurning um þrjá mánuði eða svo. Maður verður að búa sig undir það.
Það er skrýtið að lönd skuli hafa svona mismunandi viðhorf til hvernig viðbrögðin eigi að vera, kannski er það vegna þess að t.d. á Norðurlöndum er tiltölulega mikil almenn velferð, gott heilbrigðiskerfi sem þjónar öllum, ekki bara þeim ríkustu. Kannski er það vegna þess að þegar smitið er orðið mjög útbreitt í samfélaginu þá þjóna svona sóttkvír og lokanir ekki miklum tilgangi. Það má vel vera að smit sé orðið mjög útbreitt í USA og það virðist vera í gangi einhvers konar feluleikur með hvað margir hafa verið skimaðir við Covid-19 og að manni virðist engin áform á vegum USA stjórnvalda að reyna að meta það eða rannsaka. Ég dreg þá ályktun að forseti USA ætli að fara sömu leið og Boris vegna þess að hann tvítaði með velþóknun í dag orðræðu læknis sem var í viðtali í sjónvarpi í USA sem mælti með því og lét fylgja með að víst væru þeir (Bandarísk stjórnvöld með útpælt plan. Plan um að gera ekki neitt.
Það er annars engum orðum eyðandi á það sem Bandaríkjaforseti aðhefst og segir nema að vekja athygli á því að það er þessi venjulega orðræða hans sem er alls ekki óútpæld heldur afrakstur af greiningum á hvernig hundaflautustjórnmál virka á hans væntanlegu kjósendur, þá sem eru líklegir til að kjósa hann. Þannig er orðræðan um "foreign virus" og ferðabannið á Evrópu og skilgreining á óvininum sem Schengen Evrópa og Kína bara venjuleg taktik þessa þjóðarleiðtoga.
En það verður að líta á orðræðu hans sem einhvers konar stríðsyfirlýsingu gagnvart Evrópu og líka bandalagið Boris-Trump, tætlur heimsveldis sem er að hrynja.
Núna þegar menn af Asíuuppruna búsettir í USA kaupa sér byssur ef svo skildi fara að þeir þurfi að verja líf sitt fyrir óðum múg sem lætur sefast af orðræðu um að það sé einhvern veginn þeim að kenna að nú fari sótt um heiminn þá getur maður rétt ímyndað sér hvernig skíðafólkinu norræna líður sem kom frá Tyrol og Ítalíu. Alla vega kenna Danir þessum 135 skíðamönnum um að hafa komið með veikina til Danmerkur.
Noregur lokar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2020 | 09:15
Covid-19 smit á Íslandi (81), NYC (36) og Westchester (108)
Það eru 81 greind smit af Covid-19 á Íslandi, öll nema tvö á höfuðborgarsvæðinu að ég held. Það eru 108 greind smit í sýslunni Westchester County í New York fylki. Þar er borgin New Rochelle. Það býr um ein milljón í Westchester County eða þrisvar sinnum fleiri en á Íslandi eða á höfuðborgarsvæðinu hérna.
Í New Rochester borg þar sem búa 77 þúsund manns er allt að verða brjálað, búið að loka öllum skólum og ræsa út þjóðvarðliðið og að ég held einangra hverfið og skilgreina það sem "containment area" í hálfan mánuð.
Aðeins er búið að greina 36 smit í New York City en talið er að í New Rochester séu helmingi fleiri smit.
Hörð viðbrögð í NY en lítil á Íslandi
Það er erfitt fyrir okkur hér á Íslandi að átta okkur á hvers vegna brugðist er svona kröftuglega við smitinu í New Rochester, það virðist ekki mikið meira en greint smit er á höfuðborgarsvæðinu hérna á Íslandi. Hér á Íslandi er ennþá talað um það að halda íþróttaviðburði seinast í mars og talað um það með mikilli gleði í fréttum að tveir íslenskir íþróttamenn komi nú frá norðurhéruðum Ítalíu (hvernig tókst þeim að smygla sér þar út, er ekki allt lokað þar?) og nái að koma hingað til að fara í sóttkví í 14 daga eins og allir frá Ítalíu þurfa svo þeir geti spilað með liðinu. Það er skrýtin þessi áhersla á íþróttaviðburði og tengsl Almannavarna við það.
Ég get ekki annað ályktað á þessum tölum um smit og fólksfjölda og í samanburði við önnur lönd annað en viðbrögð Almannavarna á Íslandi eru allt, allt of væg, miðað við fjölda smitaðra þá hafa alla vega önnur ríki gripið til miklu harðari aðgerða. Þar sem ég er í hópi þeirra sem eru yfir 60 ára og með undirliggjandi sjúkdóma og að mér virðist í hópi þar sem eru amk 3-4% dánarlíkur þá get ég ekki annað en hugleitt þetta og velt fyrir mér hvaða gögnum íslenskir viðbragðsaðilar fara eftir og hvers vegna aðgerðir eru mun mildari hér en víða erlendis. Ég tek samt fram að mér finnst mjög margt gott í hvernig er staðið að málum hérna, sérstaklega hvað varðar þá sem koma frá skíðasvæðunum. Sem nota bene frekar fátt tilheyrir hópi þeirra sem eru aldraðir og með marga undirliggjandi sjúkdóma.
Dánartíðni Covid-19 fyrir þá sem eru 60 ára og eldri er mjög mikil samkvæmt kínverskum tölum.
Smit gríðarlega mikið á Íslandi
Hér er ný tölfræði yfir greind Covid smit per 100.000 íbúa í Íslandi og öðrum löndum þar sem smit mælist hæst í dag 11. mars 2020.
Heimildir https://daton.is/covid19/ og
https://en.wikipedia.org/wiki/2019%E2%80%9320_coronavirus_outbreak
Ísland 22.24
Ítalía 16.85
Suður-Kórea 14.98
Íran 9.66
Noregur 7.58
Kína 5.84
Tíðni greindra covid-19 smita á Íslandi er óhemjuhá og skýringin getur ekki verið eingöngu að heilbrigðiskerfið sé svo duglegt að greina þó það sé vissulega auðveldara hérna að hafa yfirsýn yfir leiðir Íslendinga (og þar með smitleiðir sem berast með Íslendingum) milli landa gegnum flug. Ég hef heyrt veirufræðinga (Kári) segja að líklega sé smit á Íslandi mjög vangreint og það virðist reyndar lítið að marka tölur frá öðrum löndum t.d. Ítalíu, smitið er miklu meira sb. allt skíðafólkið sem hingað kemur smitað frá svæðum þar sem ekkert smit hafði greinst.
Að sama skapi og viðbrögð hér á Íslandi eru furðulega lítil (ekki einu sinni lokað skóla þó nemandi hafi greinst í gær) þá eru viðbrögðin í New York fylki furðulega hastarleg. Það er sennilega vegna þess að svona upphéruð eins og New Rochelle eru svefnhverfi frá Manhattan og það er skiljanlega gífurleg hræðsla við að veikin breiðist út í New York.
Hvað gerist ef smit breiðist út í NYC?
Ég get hins vegar ekki séð annað en það hljóti að gerast að pestin breiðist út um borgina, líf New York búa er svo samtvinnað og svo margir (allir) nota almenningssamgöngukerfi og það er á vissum tímum yfirfullt. Fólk borðar á veitingastöðum og það eru ótal margar smitleiðir þar sem fólksmergð er svona mikil. Svo eru margir fátækir og líka ólöglegir og óskráðir og hafa ekki heilbrigðistryggingu og munu ekki leita læknis eða aðstoðar.
Í New York borg eru mörg hverfi sem eru tengd ákveðnum hópum og samfélagi sem er skilgreinir sig kannski ekki sem Ameríku Trumps. Þannig er Harleem svæði þeirra sem koma frá Suður-Ameríku og í New York eru mörg Kínahverfi, hverfi þar sem kínverska er töluð og allar verslanir eru kínverskar. Það getur verið og það er mjög líklegt að ef mikill órói, ótti og spenna myndast vegna faraldurs að það beinist gagnvart einhverjum hópum og kannski borgarhverfum.
Þess má geta að New Rochelle einangrunin er þannig að bænahús Gyðinga er í miðju hringsins sem myndar einangrunarsvæðið í borginni, smitið kom upp og breiddist út þegar rabbíi og fjölskylda hans smitaðist.
Update
Það eru komnir 90 með smit á Íslandi. Það hafa yfir 800 verið skimaðir.
Það hafa ekki nema 5000 verið skimaðir í USA. Það er eiginlega út í hött.
81 smit staðfest á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2020 | 10:19
Fangar, kórónaveiran og fangasprittið
Sóttin Covid-19 hefur áhrif á líf fanga víða um heim. Heimsóknir í fangelsi hafa víða verið bannaðar meðal annars hér á landi. Heimsóknabann hefur leitt til margra fangauppreisna á Ítalíu og sex manns látið þar lífið. Hér fyrir neðan mynd af föngum í einni ítölsku fangauppreisninni þar sem fangar hafa komist upp á þak byggingar. Í Íran hafa stjórnvöld ekki önnur ráð en að sleppa föngum úr fangelsi.
Það getur verið að þessi sóttvarnareinangrun fanga frá umheiminum verði skálkaskjól fyrir lögregluríki til að svipta fanga mannréttindum og þeir geti sætt illri meðferð án þess að umheimurinn viti af því.
Hvað gerist í USA þegar sóttin breiðist þar út í fangelsum? Ég veit það ekki en ég veit að þar eru mjög margir í fangelsum, sérstaklega ungir karlmenn af ákveðnum þjóðfélagsuppruna. En ég veit að fangelsi í USA eru einkavædd og þar er líka einhvers konar kapítalískt arðrán á föngum. Fangar eru afar ódýrt vinnuafl sem er úthýst til annarra fyrirtækja og fjölmiðlar eins og CNN segja okkur frá því að fangar í New York sem núna eru settir í að framleiða sótthreinsunarspritt fái minna en einn dollara á tímann (0.60 dollara) fyrir sína vinnu.
Ríkisstjórinn í New York Cuemo að nafni kynnti fangasprittið hróðugur og stoltur á blaðamannafundum, já eins og verið væri að kynna nýja framleiðslulínu fyrirtækis og líka til að leiða athyglina frá því að það er ekki búið að prófa nema örfáa við smiti af völdum Covid-19, einfaldlega vegna þess að það er ennþá ekki aðstaða til að skima fyrir því.
En allir eiga að spritta sig með fangasprittinu.
Hér er líka mynd af ríkisstjóranum með nýja fangasprittið.
myndin er frá þessum vef:
https://www.cnbc.com/2020/03/09/new-york-is-making-hand-sanitizer-with-prison-labor.html
Hér er myndband af ríkisstjóranum að skoða Great Meadows fangelsið árið 2018. Það eru fangar í þessu fangelsi sem framleiða fangasprittið. Fangasprittið mun vera um 70 % alkóhól.
Það mun hafa verið fangauppreisn þarna 2018. Þetta er "high security prison"
Hér er það sem ríkisstjórinn sagði þá á blaðamannafundi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2020 | 09:31
Einangrun og fjöldahjálparstöðvar
Hér á Íslandi er hugað vel að því að setja vel stæða og vel haldna íslenska ferðalanga sem koma úr skíðafríum í útlendu skíðastöðum beint í heimasóttkví og sennilega tekst vel að hefta útbreiðslu farsóttar sem kemur þaðan.
En það eru fleiri möguleikar til að sótt berist til landsins, hingað koma margir ferðamenn hvaðanæfa að. Hingað koma skemmtiferðaskip með þúsundum farþega. Engar hömlur eru ennþá lagðar á ferðamenn nema frá yfirlýstum hættusvæðum, það er sennilega gert vegna hinna miklu hagsmuna sem eru undir, ferðamannaiðnaður er geysistór atvinnugrein á Íslandi. Alveg eins og á Ítalíu. Íslendingarnir sem koma frá skíðasvæðunum og eru smitaðir eru vísbending um að smittölur sem gefnar eru upp af ítölskum yfirvöldum eru fjarri lagi, það er miklu meira smit í gangi þar en ítölsk stjórnvöld greina.
Það kann vel að vera að svo sé einnig um Ísland þó það sé vonandi ekki eins slæmt og á skíðasvæðum ítalíu. En það er sláandi að lesa þessar fréttir hlið við hlið á Rúv, annars vegar um mjög lítið smit í Wuhan þar sem milljónir eru ennþá í einangrun og hins vegar um að hér á Íslandi þar sem tölur yfir smitaða eru hlutfallslega hærri en á Ítalíu þá sé fólk frá 20 löndum samankomið næturlangt í fjöldahjálparstöð:
Hvað ef einhver af þessu fólki er smitaður? Er þá smitið komið áfram til 20 landa innan skamms? Er ekki þörf á að grípa til einhverra aðgerða með velferð ferðamanna sem hingað koma í huga og með velferð alls þess starfsfólks sem hér starfar við að þjónusta ferðamenn?
Hér eru vissulega miklir hagsmunir undir í ferðaþjónustunni en er ekki yfirvöld sem ekki vara alla rækilega við áhættunni og gera ráðstafanir eins farið og tælenskum yfirvöldum sem ekki sendu út flóðbylgjuaðvörun hér um árið þegar gríðarmargt fólk á ströndum Tælands drukknaði. Yfirvöld þar sendu ekki út aðvörun þó þau vissu að eftir gríðarlegum jarðskjálfta í sjó kæmi flóðbylgja og hún gengi á land - vegna þess að þau vildu ekki styggja ferðamennina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2020 | 12:49
Lögreglan með marga hatta á lofti
Síðustu viku hefur nánast á hverjum degi verið útvarpað frá fundi almannavarna þar sem nokkrir aðilar, hver fulltrúi ákveðinna viðbragðsaðila hafa talað og mælt fram skilaboð til almennings. Einn af þessum aðilum er lögreglumaður, fulltrúi löggæslunnar í landinu, þeirra sem eiga væntanlega að fylgjast með að farið sé að lögum og reglum varðandi sóttkví og fleira.
Sömu aðilar mæta á hverjum degi og mér hefur reyndar fundist frekar skrýtið að lögreglumaðurinn í búningi fái svo mikið rúm og tali fyrstur, alveg eins og þetta séu fyrst og fremst lögregluaðgerðir. Ég hefði fljótt á litið haldið að þetta sé undir stjórn landlæknis og það sé eðlilegt að hún sé mest áberandi þarna. En það er nú kannski smáatriði hver uppstillingin og röð ræðumanna er.
En ég varð alveg krossbit í gær þegar ég sá að þessi sami lögreglumaður og talar á þessum fundum er með marga hatta á lofti og virðist vera að leita leiða að fá íslenska íþróttamenn til landsins til að þeir geti spilað hérna á leikjum, menn sem eru búsettir á Ítalíu og þar á svæðum sem ítölsk stjórnvöld hafa sett í sóttkví. Hvernig í ósköpunum er hægt að treysta íslensku lögreglunni þegar alls ekki er ljóst fyrir hvaða hagsmunaaðila hún talar?
Í viðtalinu á Rúv er brugðið upp mynd af lögreglumanninum í lögreglubúningi og síðan viðtal við hann frakkaklæddan þar sem hann segir:
"Þetta var greinilega sett á með mjög litlum fyrirvara í gærkvöldi og mjög mörg af staðbundnum stjórnvöldum [á Ítalíu] ekki undirbúin undir þetta. Þannig að þetta er ekki komið til fullrar framkvæmdar alls staðar virðist vera, mun eflaust taka einhvern tíma."
Hér er viðtalið í heild:
Getum ekkert útilokað fyrr en það er orðið 100%
Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu viðtali en að lögreglumaðurinn leggi frekar lítið upp úr sóttkví í öðrum löndum "ekki komið til fullrar framkvæmda alls staðar... mun eflaust taka einhvern tíma" eins og þetta sé tækifæri til að smygla leikmönnum út úr sóttkví. Það hlýtur að vera öllum ljóst að sóttkví á stóru svæði verður að koma strax til framkvæmda enda var það svo í Ítalíu og þar hafa orðið róstur víða m.a. í mörgum fangelsum og fólk reyndi að flýja með næturlestunum þegar spurnir bárust af ítölsku sóttkvínni en var sett í sóttkví á leiðarenda.
Ég sé líka á vef RÚV að þessi sami fulltrúi löggæslunnar er að fara á fund með íþróttahreyfingunni að ræða málið. Það er allt í lagi að ræða málin við ýmsa aðila en fljótt á litið sé ég enga sérstaka snertifleti með íþróttahreyfingunni og þeirri sótt sem nú herjar aðra en að skynsamlegt er að fella niður fjölmenna viðburði og íþróttastarf og skólastarf lítur sömu lögmálum varðandi að það verður sennilega að fella hvoru tveggja niður ef hættuástand er vegna smits. Hér er sú frétt á Rúv:
Ræða um Covid-19 við íþróttahreyfinguna
Er viðkomandi lögreglumaður að sinna hagsmunum almennings á Íslandi eða er hann að sinna hagsmunum íþróttahreyfingarinnar?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)