Við sem heima sitjum

heima-er-best

Í gær 16. mars 2020 fluttu Íslendingar heim. Vinnustaðir endurröðuðu starfsfólki þannig að hluti starfsfólksins vinnur heima hjá sér, hjá sumum fyrirtækjum þannig að starfsfólk mætir eina viku en er eina viku á vinnustaðnum. Í sumum fyrirtækjum er starfsfólkið til skiptis annan daginn í einu. Sumir eins og háskólakennarar eru kvaddir til að vinna heima en mega vinna á skrifstofum sínum, vinnustaðurinn ekki lokaður fyrir starfsmenn þó kennsla sé felld niður. 

Eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma er kvatt til að halda sig heima og forðast heimsóknir eða aðstæður þar sem það er útsett fyrir smit. Sjónvarp og útvarp hafa bætt við útsendingar sínar, bæði þáttum sem miðla fréttum og upplýsingum en  líka efni til að hafa ofan af fyrir öllum sem núna sitja heima. Það eru ekki allir heima að vinna, ekki allir sem hanga á hinu víðfeðma Interneti, það eru líka börn og aldraðir og fólk í sóttkví sem þurfa einhverja uppbyggjandi afþreyingu. Einu sinni var þáttur í útvarpi sem hét "Við sem heima sitjum" en núna þarf líka  slíka þætti, fyrir aðra kynslóð, fyrir aðra tíma.

Það koma líka boð frá stjórnvöldum um að Íslendingar í útlöndum flýti sér heim. Það er sérstaklega einn hópur sem núna mæðir á, það er fólk á eftirlaunum sem býr stóran hluta ársins á Spáni vegna veðráttu þar. Það hafa verið í boði flugferðir fyrir þennan hóp, neyðarflug sem margir hafa nýtt sér enda ekki fýsilegt að vera á tímum svona óöryggis í landi þar sem maður skilur ekki tungumálið og margar reglur og valdboð eru öðruvísi en hér tíðkast. Sennilega vilja flestir núna vera heima nálægt börnum og ættingjum og inn í menningarumhverfi sem þeir skilja og tilheyra.

En fólk flytur ekki eingöngu heim. Fólk flytur samskiptaumhverfi sitt á netið og í gegnum snjalltækin og tölvurnar. Við höfum haft öll þessi tæki og þessa tæknimöguleika til fjarvinnslu í langan tíma og það er í mörgum tilvikum svo að fjarvinnsla er hagkvæmari  fyrir samfélagið ef allt er tekið með - allt rýmið sem þarf bæði að vera á heimilum og vinnustöðum - allt rýmið og kostnaðurinn  sem fer í samgöngukerfið og samgöngutækin, fer í samgöngukerfi sem verður að hanna  og hafa svo stórt að það mæti mestu álagspunktunum, geti ráðið við þegar fólk fer allt í vinnu á sama tíma á morgnana og heim á sama tíma á kvöldin. Alls staðar í þéttbýli er stór hluti af rýminu tekið undir bílastæði og ýmis konar rými sem tengjast samgöngum. 

Það eru mörg ár síðan ég flutti inn í netheima og ég hef reyndar furðað mig á hvers vegna fólk í stjórnsýslu er að gera suma hluti svo sem að stefna mörgum aðilum til fundar í miðbænum þar sem allir þurfa að leita að bílastæði og eyða jafnmiklum tíma í það og að komast á staðinn eins og fundurinn stendur. Er ekki miklu betra að nota netfundi og tækni við slíka vinnu, er það ekki líka spurning um jafnrétti því að með svona stjórnsýsluskipulagi þá eru þeir sem búa í miðbænum mun betur settir en þeir sem t.d. búa á Borgarfirði eystra eða í Bolungarvík. Ég hugsa að vinnubrögð breytist núna til langframa, það er eins og það þurfi að komast yfir einhverja hindrun við að taka í notkun nýja tækni, það nægir ekki að heyra að ný tækni sé betri og sniðugri, það þarf einhverja þörf til að taka hana í notkun. 

Ég var á ráðstefnu í Santa Clara í USA fyrir áratugum eða árið 1997, það var ráðstefna um WWW eða veraldarvefinn sem þá var alveg nýtt fyrirbrigði og fáir vissu þá af. Þar talaði einn af fyrstu Internetgúrúum heimsins, maður að nafni Robert Metcalfe, maður sem ég hafði aldrei heyrt af en var greinilega mjög frægur spámaður og númer í Internetheiminum og á þessari ráðstefnu var mikið hlegið að honum fyrir að hafa skjátlast í spádómum sínum og hann látinn éta orð sín (í orðsins fyllstu merkingu). Þetta var mikið skemmtiatriði á ráðstefnunni og myndrænt þegar hann át orð sín og er lýst svo í wikipediagreininni:

Metcalfe predicted in 1995 that the Internet would suffer a "catastrophic collapse" the following year; he promised to eat his words if it did not. During his keynote speech at the sixth International World Wide Web Conference in 1997, he took a printed copy of his column that predicted the collapse, put it in a blender with some liquid and then consumed the pulpy mass.[14][15][16] He had tried to eat his words printed on a very large cake, but the audience would not accept this form of "eating his words."

Metcalfe flutti erindi á þessari ráðstefnu þar sem hann spáði í framtíð samfélaga, erindi sem hafði mikil áhrif á mig. Ég man að hann sagði í því erindi að langskynsamlegast væri að fólk flytti vinnustaðina heim, tæknin myndi gera það mögulegt og þar væri hagkvæmast. Ég man ekki hvort hann orðaði þetta sem spádóm, mig minnir það og mig minnir líka að hann og fleiri á þessari ráðstefnu hafi þegar þeir fabúleruðu um framtíð þjóðfélaga á tímum Internetsins gengið út frá því að samfélögin mundu hegða sér eins og væri skynsamlegast fyrir bæði einstaklingana og samfélögin.

En Metcalfe  sem er mikill gárungi spáði rangt um að Internetið myndi falla saman, kannski spáði hann líka rangt um að vinnan myndi flytjast heim? Eða mun Internetið einhvern tíma falla saman?

Metcalfe er núna upptekinm  af "Energy, Education and Healthcare" og er mjög hrifinn af MOOC námskeiðum sem eru stór netnámskeið.
Hér er viðtal við Metcalfe um spádóminn sem ekki varð:

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband