Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Svartur mánudagur

Þetta verður minnistæður dagur á verðbréfamörkuðum, þetta verður svartur mánudagur. En hversu svartur hann verður kemur ekki í ljós fyrr en bandaríski hlutabréfamarkaðurinn opnar.  En menn búast við hinu versta, það er strax búið að nefna daginn Meltdown Monday  og sagt er að dagurinn snúist um að þrauka af: "For most investors and bankers anywhere in the world, today will be a day to endure and survive."

Frændur okkar Danir eru eins og aðrir uggandi yfir ástandinu og það er panik í bankakerfinu þar og það er hávær krafa um að ríkisstjórnin verði að taka í taumana.  

Hvað með íslensku ríkisstjórnina? Geir forsætisráðherra kallar kreppuna mótvind og gerir lítið úr efnahagserfiðleikum. Er íslenska ríkisstjórnin eins konar hagrænn veðurviti sem situr  í núna í Stjórnarráðinu og mælir mótvindinn  og spáir nokkrum vindstigum meira í dag en í gær?   Eða er ríkisstjórnin núna á hugarflugsfundi að finna ný skrauthvörf fyrir orð svo ekki þurfi að nefna hlutina sínum réttum nöfnum? 

Það er erfitt núna í hringiðu atburða að átta sig á því hvað er að gerast. Það er þó eins og alltaf reynt að finna blóraböggla og fjármálamarkaðir undanfarinna ára hafa verið eins og matador spilaborð þar sem ekki eru endilega neinar raunverulegar eignir á bak við fjárfestingar. Sjá þessa grein  sem birtist í Jótlandspóstinum í ágúst (á dönsku):  Det Store Ejendomsspil

 Ég held að það umrót sem núna er á fjármálamörkuðum sé eins konar fjörbrot eða hamskipti og afleiðing af því landamæralausa og óhefta flæði fjármagns sem einkennt hefur undanfarin ár. Ef það eru einhver verðmæti á bak við fjármagn þá hefur það góð áhrif á arðsemi fjárfestingar ef hægt er auðveldlega að flytja til og stokka upp og beina fé þangað sem mest arðsvon er. En ef fjármálakerfið er orðið yfirvaxið og er farið að búa sjálft til verðmæti til að versla með innan kerfisins með því að verða einhvers konar risavaxinn pýramídaviðskiptahringur og það eru engin raunveruleg verðmæti á bak við fjármagnið sem fært er til og frá þá kemur að því að kerfið hrynur.


mbl.is Skjálfti á fjármálamörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næðingur á toppnum - Geir í mótvindi

Kreppa
Geir Haarde forsætisráðherra  telur að það sé engin kreppa þó að fjármálamarkaðir hins vestræna heims séu að hrynja og hrunið sé eitt mesta sem sést hefur í 80 ár og þó að að íslenskt athafnalíf sé afar viðkvæmt fyrir ytri sveiflum bæði vegna útflutningsatvinnuvega og vegna þess að hér er örsmátt hagkerfi með ofvaxið bankakerfi og athafnamenn í skuldsettum yfirtökum og útrásarham árum saman. Það eru mörg teikn á lofti sem sýna alvarlegt ástand hjá íslenskum fyrirtækjum og bönkum og það eru ekki neinar líkur á að mjög skuldsettir húsbyggjendur geti staðið í skilum með lán sín og framtíðin í byggingariðnaði er dökk. 

Geir telur að aðalvandamálið sé að ná niður verðbólgunni. Sagan endurtekur sig, ég minnist annars Geirs á annari öld sem líka barðist við verðbólguna sem hann þó hafði átt þátt í að skapa sjálfur. Ég vona að Geir II verði ekki eins mislagðar hendur og Geir I sem blés til orustu árið 1979 undir kjörorðinu Leiftursókn gegn verðbólgu sem gárungarnir hafa æ síðan flimtað með og kalla aldrei annað en leiftursókn gegn lífskjörum. 

Á þessum tíma þá var ég við nám í þjóðhagfræði í háskólanum  og stúderaði þar alls kyns hagstjórnarkenningar  og reiknimódel fyrir samfélagið en úti í samfélaginu geisaði  óðaverðbólga sem gerði alla útreikninga í sviphendingu marklausa og óskiljanlega. Ég gerðist mjög fráhverf þeirri stærðfræðimódelahagfræði sem var borin á borð fyrir okkur þarna, hún passaði engan veginn við veruleikann og útskýringarnar og kenningarnar virkuðu ekkert í miklum umrótatíma, svo miklum umrótatíma að það voru heil hagkerfi að brotna saman.  Miðstýrð hagkerfi austantjaldslandanna brustu fyrir margt löngu og ef til vill er núna runninn upp sama umbrotaskeið fyrir markaðshagkerfi á vestræna vísu. Ef til vill passar það hagkerfi ekki lengur.

Geir II  segir að það sé ekki kreppa núna. Hann vitnar í tölur og skilgreiningar. Ég efa ekki að hann hafi rétt fyrir sér með þessar skilgreiningar en vil benda á að það er mikilvægt  að æðstu ráðamenn  þjóðarinnar eða ráðgjafar þeirra geti séð fram í tímann og hafi innsæi sem sem gerir þeim kleift að tengja saman ólík gögn og vísbendingar. Það er ef til vill ekki besta og einasta merkið um að allt sé á góðri leið hérna hvernig hagvöxtur hefur mælst í fortíðinni þegar einum mestu framkvæmdum Íslandssögunnar var við að ljúka. Það er betra að spá í vísbendingar um hvernig staðan er í núinu og framtíðinni, hvernig staðan er í umheiminum og hvaða afleiðingar hefur það hérna. Gengi hlutabréfa er í eðli sínu spá um framtíðina og mælikvarði á væntingar. Þar er ástandið dökkt hér heima sem og á erlendum mörkuðum.

Geir hefur sína skilgreiningu á kreppu og vill kalla kreppuna núna mótvind. Það næðir nú heldur betur um Geir á toppnum í öllum þessum mótvindi.  Mér finnst hins vegar alveg eins góð skilgreining  á  Vísindavefnum en þar fann ég þessa  fínu skilgreiningu á kreppu:

"Þegar atvinnuleysi eykst, þá teljist það samdráttur nema þú verðir sjálfur atvinnulaus, þá sé það kreppa."


mbl.is Ekki rétt að tala um kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlendingahatur blossar upp

Bílastæðavandamál árið 2008 Tannlæknatúrismi 2008
Ég er hugsi yfir aðgerðum og orðræðu lögreglu varðandi  húsleit hjá hælisleitendum og ekki síður viðbrögðum almennings. Það eru því miður margir sem taka stöðu á móti hælisleitendum í athugasemdum á bloggum og útlendingahatur blossar upp.  En það eru sem betur fer margir bloggarar sem ræða málið af skynsemi og spyrja spurninga um réttmæti aðgerða lögreglu t.d. þetta ágæta blogg hjá Helga:

Má hælisleitandi ekki eiga peninga? - Og ekki vinna fyrir þeim?

Ég er undrandi yfir því hvernig lögreglustjóri og forstjóri Útlendingastofnunar tjá sig, ég hélt að þeir þyrftu að gæta hlutleysis og fara eftir alþjóðasamningum.  Ég vissi ekki að þeir gætu túlkað hegðun meints brotafólks eftir eigin höfði sb þetta sem haft er eftir lögreglustjóra. Þetta er afar undarleg túlkun á því hvenær fólk er sekt um glæpi:

 "Jóhann segir að eftir aðgerðirnar hafi einn hælisleitandi óskað eftir að fá að fara strax úr landi. Slíkt sé varla hægt að túlka öðruvísi en svo að viðkomandi hafi verið hér á fölskum forsendum" (mbl. blað dagsins 13. sept)

Svo er ég líka mjög undrandi á ummælum sem höfð eru eftir Hauki forstjóra Útlendingastofnunar. Getur verið að hælisleitendur hafi ekki sömu mannréttindi og Íslendingar varðandi eigur sínar? Síðan hvenær geta opinberar stofnanir ætt inn á heimili fólks, gert eigur þeirra upptækar og sagst ætla að rukka fyrir uppihald og draga það af eigum fólksins? 

Það er nú ekkert nema sjálfsagt að borga ekki uppihald fyrir hælisleitendur sem geta framfleytt sér sjálfir. En það er svo sannarlega EKKI sjálfsagt að opinberir aðilar geti án þess að farið sé í formlegar lagalegar innheimtuaðgerðir skuldjafnað fé sem tekið er í húsrannsókn. Ég get ekki ímyndað mér að þetta sé löglegt og í samræmi við alþjóðasamninga um flóttafólk. Ég vil alla vega fá að vita við hvaða lagagreinar svoleiðis aðgerð styðst.

Hér er vitnað í forstjóra Fangelsismálastofnunar:

"Haukur Guðmundsson forstjóri Útlendingastofnunar segir að í aðgerðunum hafi safnast gögn sem muni varpa ljósi á aðstæður rúmlega 10 hælisleitenda. Hann býst við að ýmsum haldlögðum munum, þar á meðal peningum, verði skilað aftur til hælisleitenda. Útlendingastofnun mun hins vegar taka fyrir mál þeirra hælisleitenda sem fúlgur fjár fundust hjá, og tjá þeim að frá og með 12. september sé Útlendingastofnun hætt að greiða fyrir þá uppihald. Þeir geti gert það sjálfir. Kostnaður verði dreginn af hinum haldlögðu peningum. „Þegar um er að ræða verulegar fjárhæðir hjá fólki kviknar auðvitað grunur um að það séu í gangi skrítnir hlutir sem þarf að rannsaka. Í þessum haldlagningum felst ekki að það sé verið að svipta fólk sínu fé. Lagt er hald á peninga meðan verið er að rannsaka málið
......................
Mál útlendinganna að þessu sinni verða rannsökuð og ekki ósennilegt að hlutum og peningum verði skilað til eigenda sinna. Þeir sem voru með fúlgur geta þó ekki vænst þess að fullu."

Þessi aðgerð lögreglu hefur magnað  upp spennu og leyst úr læðingi blossandi útlendingahatur. Það má líka benda á að hvaða áhrif þetta hefur á hælisleitendur sjálfa.  Fólk sem verður  fyrir áfalli bregst við á ýmsa vegu sb.  Hnífaárás hjá hælisleitendum í Njarðvík og Farzad mótmælir við lögreglustöðina.

Ég vil taka fram að ég efa ekki að lögreglan hafði réttmætar ástæður til að gera húsleit og sennilegt er að meðal hælisleitenda sé fólk sem villir á sér heimildir og vill vera hér í annarlegum tilgangi. Það breytir því hins vegar ekki að eðlileg málsmeðferð á að gilda fyrir alla. Líka skúrka og misyndisfólk.


mbl.is Hælisleitandi mótmælir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðlaus ummæli lögreglustjóra um hælisleitendur í Reykjanesbæ

Ég sendi í þessu bloggi stuðningsyfirlýsingu til mótmælafundar fyrir framan lögreglustöðina  í Njarðvík kl. 14 í dag

Það getur vel verið að sú aðgerð lögreglu að ráðast á sama tíma inn á sjö staði hælisleitenda hafi verið réttmæt og það eru sennilega einhverjir hælisleitendur sem sigla undir fölsku flaggi. Það eru örugglega einhverjir sem biðja um hæli hérna  ekki vegna þess að þeir eru í bráðri lífshættu í heimalandi sínu heldur vegna þess að þeir eru að leita að betri lífskjörum. Það bendir margt til þess að alþjóðlegar reglur um flóttafólk og meðferð hælisleitenda séu notaðar kerfisbundið  til að  koma fólki milli landa og inn í önnur samfélög, sérstaklega fólki sem er að flýja fátækt eða leita að betri lífskjörum  og það getur verið að það þurfi að setja öðruvísi reglur eða hafa strangt eftirlit vegna þessa. En hælisleitendur eru í viðkvæmri aðstöðu og réttleysi þeirra er mikið og það er mikilvægt að Íslendingar fylgist vel með hvað er að gerast og vaki yfir að ekki sé brotin á mannréttindi á þessum hóp.

Ég efa ekki að lögreglan hafði fulla heimild til þessarra aðgerða, það kemur fram í fréttum að lögreglan hafði húsleitarheimild. Það stingur mig hins vegar afar mikið að lesa eftirfarandi upphaf fréttar um málið í Morgunblaðinu:

Undarlega mikið reiðufé

"Það er undarlegt að fólk sem er á framfæri ríkisins skuli á sama tíma vera með jafnmikið af fjármunum á sér" sagði Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, að lokinni mjög umfangsmikilli húsleit á sjö dvalarstöðum hælisleitenda í Reykjanesbæ í gær.

Þessi ummæli sem höfð eru eftir lögreglustjóra sem tekur þátt aðgerð gagnvart fólki í erfiðri stöðu opinberar  bullandi fordóma og líka  siðleysi hjá lögreglu að ræða opinberlega um og fella sleggjudóma um ákveðna hópa sem lögreglan hefur afskipti af.    


mbl.is Dvalarleyfi á fölskum forsendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rýnt í texta stjórnmálamanna og moggabloggara

Wordle.net er skemmtileg græja sem passar vel fyrir okkur sem viljum fá allt myndrænt og viljum helst bara að fólk tali í stikkorðum. Með Wordle.net er nefnilega hægt að búa til mynd af því sem fólk er að segja og það er nú bara oft skemmtilegra heldur en að hlusta á langar ræður.

Það er nú ekki víst að öll merking komist til skila. 

 Hér eru orðin í ræðu Sivjar um orkumál þegar textinn hefur verið settur inn í wordle.net

03.09.2008 15:41:01 Siv Friðleifsdóttir (ræða)

 wordle-siv-orkuraeda-sep08

Það er líka hægt að setja blogg þarna inn og ég setti tvö blogg bjorn.is og stebbifr.blog.is  þarna inn. Björn er greinilega mikið að tala um minningagreinar og Morgunblaðið en Stefán Friðrík er að fjalla um forsetakosningarnar í USA.

Bjorn.is

 wordle-bjorn-sep08

 

Það á nú ekki að setja allt sitt traust á Netið eins og formaður okkar Framsóknarmanna sagði en það er skemmtilegt að túlka orð manna með svona netgræju eins og wordle.net.


Persónuleikasköddun mín samkvæmt Vísindakirkjunni

Einu sinni fyrir margt löngu þá var ég stöðvuð á götu latínuhverfinu í París af geðþekkum manni sem bauð mér að taka ókeypis persónuleikapróf, það væri svo mikilvægt veganesti í lífinu að vita eitthvað um sjálfa sig. Ég beit á agnið því þetta var vinalegri maður en heill hópur af vottum jéhóva eða mormónagengi. Þetta var ágætis persónuleikapróf og virkaði fagmannlegt en svo gat ég þegar til kom ekki fengið niðurstöðurnar strax þó því hefði verið lofað, ég var að koma á skrifstofu þar hjá daginn eftir og fá að vita allt um sjálfa mig. Ég hefði náttúrulega ekki nennt því nema af því þetta var bara í næsta húsi við hótelið sem ég var á svo ég fór og var þá látin mjög meðvitað bíða heillengi með nokkrum öðrum eftir einhverjum sérfræðingi sem skyldi rýna í persónuleika minn með mér.

Það var allt þarna sett upp eins og einhver sviðsmynd, þetta var einhvers konar massanýliðunarmótttaka inn í Vísindakirkjuhreyfinguna,  þetta er það næsta sem ég hef komist að lenda í klónum á einhverju "cult". Nema hvað það var ungur menntamaður vel lesinn greinilega í sálfræði  fór yfir niðurstöður persónuleikaprófsins með mér og  það leit í fyrstu allt mjög bjart út, ég var nokkuð heilsteyptur persónuleiki. Svo svona þegar fór að síga á seinni hluta af yfirferð  þá reyndi viðmælandinn að selja mér einhvern doðrant eftir einhvern æðstaprest þeirra og einhverjar kynningar hjá þeim, það myndi bæta sálarlíf mitt verulega sagði hann, ég lét ekki tilleiðast og þráaðist við og harðneitaði að kaupa doðrantinn. Þá brá svo við að það sem var eftir af spurningum á persónuleikaprófinu sýndi að sögn vísindakirkjupersónuleikagreinandans að ég var mjög brenglaður persónuleiki sem lýsti sér í því að ég vildi ekki ekki taka svona leiðsögn.Greinandinn páraði á blaðið alls konar"vísindalegar" kúrvur máli sínu til sönnunar.

Eftir þessa lífsreynslu og eftir allt ruglið sem ég hef lesið um þessi  trúarbrögð  hef ég haft megnustu skömm á vísindakirkjunni. Vinnuaðferðir þessarrar hreyfingar eru hallærislegar, kannski eru margar hreyfingar jafnhallærislegar en Vísindakirkjan sveipar sig einhverri dulu vísinda sem þó á ekkert skylt við þau vísindi sem iðkuð eru í háskólum þó hún noti sömu orð. Svo  leggur Vísindakirkjan sérstaklega snörur sínar fyrir ríkt og frægt fólk og gerir það að einhverjum vitleysingatalsmönnum sínum. Margir frægir leikarar hafa ánetjast, það segir nú sína sögu um andlegt atgervi þeirra eða nú eða ágang Vísindakirkjumanna nema hvort tveggja sé. 

Andstæðan við vísindakirkjuna er Hjálpræðisherinn. Það er hreyfing sem ég hef alltaf haft miklar mætur á, ekki síst vegna þess að liðsmenn þar liðsinna þeim sem hafa hrasað í samfélaginu.  Ég sakna virkilega föstudagseftirmiðdaga á Lækjargötu eins og þeir voru í bernsku minni þegar liðsmenn Drottins sungu og trölluðu "Kom, kom, kom  í frelsisherinn" og aðrar grípandi melódíur og kring um söngherinn vöppuðu rónarnir og við hin.

Vísindakirkjan reynir hins vegar að ginna sérstaklega til liðs við sig fólk sem er frægt og getur útvarpað þessum vitleysislega boðskap þeirra. 

Meira um þessa asnalegu hreyfingu:

Vísindavefurinn: Hver er meginuppistaðan í kenningum ...

Vafasöm Vísindakirkja

Vantrú: Díanetík og Vísindaspeki (Vísindakirkjan)

Svo get ég náttúrulega ekki annað en óskað hreyfingu norður og niður sem hefur bannfært hann Elías, sjá hérna: 

Þegar Vísindakirkjan bannfærði mig - elias.blog.is

klikkaður persónuleiki... ÉG!!!!... fuss og svei Vísindakirkjunni!!!


mbl.is Vísindakirkjan fyrir dómstóla í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hljóðmengun og sjónmengun - rafmagnsfarartæki

Daglegt líf á götum í mörgum fallegum borgum einkennist oft af ærandi götuhávaða ásamt því að bílar af öllum stærðum og gerðum æða með ógnarhraða um götur, bílar sem eru ekki í neinum takti við byggingar, fólk og umhverfi. Þessir bílar búa til beljandi hættuleg stórfljót þar sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Fólk hefur vaknað til vitundar um mengun sem hægt er að mæla í úrgangsefnum og eiturefnum, nú er tími kolefnisjöfnunar og kolefniskvótakaupa. Þetta eru auðvitað brýn vandamál nútímans. Það er hins vegar alls ekki nógu mikil vitundarvakning um þau lífsgæði sem felast í því að vera ekki króaður inni í ljótleika og ærandi umferðarnið.

Úrgangsefnavandamálin  eru vandamál sem eru ekki leyst nógu hratt vegna þess að svo mikið fjármagn er bundið í infrastrúktúr sem þjónar núverandi tækni (þ.e. vegir og gatnamannvirki fyrir bensíneinkabíla) og svo mikil er bundið í framleiðslutækjum (bílaiðnaði/bensínsiðnaði) og þjónustu sem býr til og rekur núverandi kerfi. Rafmagsnsfarartæki þurfa mikið forskot á einhverju sviði til að vera hagkvæm til að vega upp á móti þeirri miklu forgjöf sem núverandi kerfi bensín og díselbíla býr við. Einhvern tíma kemur vonandi að því að ekki verður hagkvæmt lengur að framleiða og reka bensínbíla miðað við rafmagnsknúða bíla og það verður hagkvæmara að byggja og reka litlar sjálfvirkar  raflestir.

 Hljóðmengun, sjónmengun, ljósmengun

En það eru ekki eingöngu útblástur eiturefna sem veldur mengun í borgum og á vinnustöðum og heimilum. Það er hljóðmengun og sjónmengun og ljósmengun. Borgarumhverfi sem aldrei sefur og ærslast áfram með ærandi hávaða þar sem bílar þjóta framhjá á ógnarhraða og mynda síbreytilegt og óútreiknanlegt landslag er ekki heppilegasta umhverfið fyrir kyrrláta íhugun og sálarró.

Þessi tegund af mengun mælist  reyndar ágætlega í verði húseigna. Það lækkar verð íbúðarhúsnæðis mikið að vera staðsett við hávaðasama umferðaræð eða á stað þar útsýnið er yfir ljót iðnaðarhverfi - á sama hátt er það húsnæði eftirsóknarvert þar sem aðgengi og/eða útsýni er yfir almenningsgarða og falleg torg og fallegt menningarlandslag eða náttúruútsýni.

Malbikuð bílastæði eða kaffihús og listagallerí 

Það reyndar hækkar líka verð fasteigna að vera einhvers staðar þar sem er líf - kaffihúsamenning og listir blómstra og þar sem er gaman að ganga um.Það er ekki líklegt að fólk sækist eftir að búa á stöðum þar sem eina nærlandslagið er malbikuð bílastæði og eina tilbreyting í umhverfinu er að horfa yfir mörg hundruð bíla. Það er líka fáránlegt að skipuleggja umhverfi með þeim hætti að húsin séu ekki annað en hulstur utan um bílamenningu. Það er vel hægt með nútímatækni og nútímaaðferðum að búa til fallegt, kyrrlátt náttúrulandslag í borgum, einhverja staði þar sem fólk vill ganga um og njóta lífsins.

Oft er skipulag unnið með skammvinna hagsmuni verslunareigenda í huga og öll hönnun þannig að best sér fyrir fólk að koma að versla. það virðist hafa verið leiðarljós varðandi Laugaveginn, enda er hann gömul verslunargata. En það er kannski ekki góð aðkoma að verslunarhúsnæði og auðvelt aðgengi að bílastæðum og lág stöðumælagjöld sem gera borg að menningarvin.

Hér er viðtal við Sigmund sem er fulltrúi okkar Framsóknarmanna í skipulagsráði Reykjavíkur.

Þetta eru áhugaverðar hugmyndir hjá honum

 


mbl.is Ráðstefna um byltingu í rafmagnssamgöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættuástand

Það er ekki nóg að lágmarksþjónusta sé veitt fæðandi konum. Það er hættuástand ef ekki er nægilega fylgst með nýburum og aðbúnaði þeirra. Þetta eru aðstæður sem eru ekki börnum bjóðandi. Svona verkfall er því miður ekki eins og verkfall flugmanna, það taka ekki allir eftir því strax að hætt sé að veita velferðarþjónustu. Þolendur í þessu verkfalli eru fyrst og fremst nýfædd börn og mæður þeirra.


mbl.is Eitt barn fæddist á LSH í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djúp kreppa

Hver einasti  sem hefur verið að selja eða kaupa fasteignir undanfarna mánuði hefur fundið fyrir kreppunni. Það halda allir að sér höndum en hugsanlega er það fyrst núna með haustinu sem byggingariðnaðurinn getur hægt á sér. Það er þannig með byggingariðnað að það tekur langan tíma að bremsa, það er ekki hægt að hætta með hús í byggingu á miðju byggingarstigi jafnvel þó ekki sé fyrirsjáanlegt að húsnæðið seljist.

Það er ekki skynsamlegt að kaupa húsnæði í dag. Það er hagstæðara að leigja og það bindur fólk ekki í einhverja átthagafjötra skulda ef húsnæði lækkar og fólk getur ekki losnað við íbúðir. Það er lítið gagn í því að búa við þannig frelsi að maður geti farið hvert sem er í Evrópu til að vinna ef maður kemst ekki vegna skulda. Þannig aðstæður hafa reyndar margir á landsbyggðinni búið við lengi, fólk hefur þar ekki átt gott með að flytja vegna þess að allar eignir þess eru í fasteignum sem seljast langt undir kostnaðarverði. Við höfum hins vegar ekki búið svoleiðis aðstæður lengi hér á höfuðborgarsvæðinu. Svo hlýtur það að hafa áhrif á eftirspurn eftir leiguhúsnæði að þúsundir leiguíbúða eru á gamla hersvæðinu á Keflavíkurflugvelli, þær eru núna leigðar námsmönnum á afar hagstæðri leigu.  Talandi annars um fasteignirnar á Keflavíkurflugvelli, þær voru seldar á spottprís til fyrirtækis í eigu bróður fjármálaráðherra en þó að íbúðirnar hafi allar verið seldar á spottprís þá skil ég samt ekki hvernig er hægt að láta það dæmi ganga upp með þessari óhemjulágu leigu sem núna á íbúðum þarna til námsmanna, mér heyrist á tölum sem ég hef heyrt að leigan þarna hjæa námsmönnum vestur á Velli sé ekki nema þriðjungur af leiguverði í Reykjavík og svo eru fríar ferðir til háskólanna í Reykjavík. Hvernig tókst þeim aðilum sem keyptu þessar íbúðir að borga þær núna þegar allir bankar hafa kippt að sér höndum?

Allir sem eiga húsnæði hafa verið að tapa undanfarið ár. Sennilega verða stjórnvöld einhvern veginn að koma inn í þetta mál t.d. með ennþá hagstæðari lánum til þeirra sem eru að kaupa húsnæði eða með því að sveitarfélög eða fyrirtæki í eigu sveitarfélaga kaupi upp húsnæði til að leigja og með það í huga að selja það á frjálsum markaði þegar betur árar.  Það hafa stjórnvöld víða um heim gert við þessar aðstæður, þetta er langt í frá séríslenskt vandamál. 

Það er alls staðar húsnæðiskreppa, húsnæði hríðfellur í verði. En kreppan magnast á Íslandi vegna þeirra spilakassamenningar sem hér yfirgnæfir allt. Hetjur íslensks samfélags undanfarin misseri hafa verið menn sem virðast galdra fram peninga úr engu, svona peninganaglasúpa þar sem hrært er í súpunni með því að búa til aragrúa af félögum sem kaupa hvert í öðru og búa til naglasúpuhagnað þannig.  Svo hjálpar ekki til að stjórnvöld eru ráðþrota á Íslandi  en halda uppi gjaldmiðli sem ræður ekkert við aðstæður. Gengið fellur og fellur og vörur og aðföng hækka og hækka. Þetta veldur keðjuverkun og óróa.

En þó húsnæðisverð hafi lækkað þá hefur þó verð á hlutafé í ýmsum stórum íslenskum fyrirtækjum, sérstaklega fjármálafyrirtækjum ekki bara lækkað, það hefur hríðfallið.

Það verður bara að horfast í augu við að það er skelfilegt ástand.

Ég skoðaði nokkur fyrirtæki á hlutabréfamarkaði, hvað þau hafa fallið mikið frá því fyrir 10 mánuðum. (í byrjun nóv 2007)

Svona er ástandið

  • Landsbankinn var  44 er núna 24
  • Spron var 15 er núna  4
  • Exista var 32 er núna 7
  • Kaupþing var 1134 er núna 713
  • Glitnir var 28 er  núna 14
  • Straumur-Burðarás var 20  er núna 9 
  • Atorka Group var 10 er núna 5
  • Fl Group var 25  en var komið niður í  6 þegar tekið úr KAuphöll í lok maí
  • Bakkavör var 66 er núna 26

Fólk sem á eignir sínar í þessum hlutafélögum hefur verið að tapa ævintýralega miklu.

Það er kannski huggun fyrir þá sem eiga allt sitt í steinsteypu að vita af því að það hefur þó verið miklu hagstæðara en að eiga fé sitt bundið í hlutabréfum. það er nú samt þannig að það varðar okkur öll til langs tíma að hlutabréfamarkaðurinn sé svona, það eru mörg þúsund manns sem hafa atvinnu sína af bankaþjónustu og fjármálaþjónustu  á Íslandi og sparifé margra landsmanna er bundið í lífeyrissjóðum sem eiga hlutafé.


mbl.is Dýrasta og ódýrasta húsnæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruglið í honum Ólafi

Mikið er nú gott að Hanna Birna sé tekin við stjórnartaumum í Reykjavík og Ólafur farinn frá. Hans embættisrekstur var vægast sagt undarlegur og spurning hvort Sjálfstæðismenn geti einhvern tíma fengið borgarbúa til að gleyma því að það voru Sjáfstæðismenn sem  studdu Ólaf til að verða borgarstjóri þó öllum væri ljóst að styrkleiki hans liggur nú ekki á því sviði.

 En vonandi verða borgarbúar ekki eins gleymnir eins og Ólafur er orðinn núna. Hann hefur umhverfst og hefur nú gleymt öllum sínum borgarstjóragloríum. Var það kannski ekki Ólafur sjálfur sem  réði Jakob Frímann bara fyrir nokkrum mánuðum  á ofurlaun, Jakob mun hafa átt að fá 861.700 á mánuði sem framkvæmdastjórni miðborgarmála á skrifstofu borgarstjóra og fyrir að sitja í nokkrum nefndum.

Sjá þessa grein frá 7. maí í ár:

Eyjan » Jakob Frímann fær um 861.700 króna laun frá borginni

Það er nú líka afar furðulegt að fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur heimti einhverjar opinberar nafnabirtingar starfsfólks borgarinnar eftir tekjum. Eeinhverjir  eru ábyrgir fyrir hvernig launakjör borgarstarfsmanna eru, sá sem ber þar mesta ábyrgð er einmitt borgarstjórinn. En borgarstjórn ber líka að vernda starfsfólk borgarinnar þannig að það fái vinnufrið. Það er allt í fína að birta opinberlega hve há laun eru fyrir eitthvað ákveðið embætti eða nefndarsetu en það er alveg á móti öllum manneskjulegum sjónarmiðum að birta lista yfir fólk. Það sennilega varðar við persónuverndarlög að vinnuveitandi birti opinberlega einhverja háðungar- og aftökulista um starfsmenn sína. En það er sjálfsögð skylda borgarstjóra að gæta þess að launakjör þeirra hæstsettu séu ekki út úr öllu korti. Það virðist nú Ólafur ekkert hafa gert á sinni embættistíð.


mbl.is Vill láta birta tölur um kostnað vegna borgarfulltrúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband