Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Hverfidyrnar í amerískri kosningabaráttu og alþjóðlegur baráttudagur kvenna 8. mars

Ég er hér í Kóngsins Kaupmannahöfn....úpppss... afsakið Kaupmannahöfn Drottningarinnar Margrétar Þórhildar.. tími kónganna er liðinn og það er 8. mars, alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Ég kíki á mbl.is til að athuga hvort þar sé ekki þema um kvennamálefni en finn ekkert í íslensku pressunni og bloggumræðunni nema upplýsingar um eitthvað Kastljósklúður þar sem vitlaus auglýsing virðist hafa farið í loftið. 

En talandi um konur og kosningabaráttu og auglýsingar þá vil ég benda á bloggið mitt frá janúar 2007 Bush, Björn Ingi, fangelsi og fatnaður kvenna þar sem ég fjalla um frægustu og áhrifaríkustu auglýsingu í amerískri kosningabaráttu, auglýsinguna um hverfidyrnar. Þetta var ógeðslega lúaleg og viðbjóðsleg auglýsing, dæmi um neikvæða umfjöllun en því miður virkaði hún og kom Bush eldri til valda.  Hér er bloggið  mitt frá 2007:

Sjaldan hef ég séð frjálslegra og skáldlegra farið með sannleikann og stjórnmálasöguna en í pistlinum  Ein af strákunum okkar  eftir Jón Karl en svo mikil áhrif hefur pistillinn á Björn Inga oddvita okkar Framsóknarmanna í borgarstjórn að hann endurómar tal strákanna um klæðnað kvennanna  í þessum pistli: Hvað eiga George Bush, Þorgerður Katrín og Siv Friðleifsdóttir sameiginlegt?

Aðalspekin í bloggum Jóns Karls og Björns Inga virðist vera útlitspælingar um kvenfólk í framboði og því haldið fram að það að  sýnast sæll og pattaralegur og iðjulaus  að skemmta sér hafi úrslitaáhrif á kosningar og hafi valdið því að Bush eldri sigraði Dukakis árið 1988  því : "Úrslit kosninga ráðast ekki af málflutningi frambjóðenda heldur líkamstjáningu þeirra, því sem á ensku kallast body-language." 

Þannig vill til að ég var búsett í Bandaríkjunum eimitt þegar Dukakis versus Bush eldri slagurinn var háður og fylgdist vel með baráttunni. Það er af og frá að úrslit þeirra kosninga hafi ráðist vegna  sviðsframkomu  og líkamstjáningar Bush. Úrslitin réðust vegna harðrar auglýsingahríðar og hræðsluáróðurs þar mannúðarstefna Dukakis  var skotin niður og þeirri hugsun haldið á lofti að það þyrfti öflug fangelsi til að passa þegnanna fyrir óbótamönnum. Mannúðarstefna Dukakis sem hann fylgdi sem fylkisstjóri  bendist meðal annars að fangelsismálum en þessi stefna var í auglýsingum frá áróðursmaskínu Bush útmáluð sem kerfi sem sleppti lausum stórhættulegum nauðgurum. Þessar auglýsingar ólu á kynþáttafordómum og hatri miðstéttar á þeim sem verst eru settir í samfélaginu.

Áhrifamesta auglýsingin var Revovling Doors auglýsingin, ég held að út af þeirri auglýsingu hafi Dukakis tapað. Hún glumdi við í mörgum sjónvarpsstöðvum daginn út og daginn inn og allir vissu hver nauðgarinn Willie Horton var.  Þessar auglýsingar voru ömurlegt, lúalegt og viðbjóðslegt dæmi um það sem kallað er "negative advertisment", að ráðast á andstæðinginn og ata hann út með ásökunum. Ég held að auglýsingamaðurinn sem gerði þessar auglýsingar hafi iðrast svo mikið að hann hafi sérstaklega á banabeði beðið Dukakis fyrirgefningar á þessu.

Þegar saga Bandaríkjanna er skoðuð frá þeim tíma sem Bush eldri vann Dukakis og sérstaklega staðan í dag þegar aldrei hafa verið fleiri í fangelsum í Bandaríkjunum og það er hluti af reynslu stórs hluta bandarískra blökkumanna að dvelja í fangelsi og það ömurlegasta  sem Bandaríkjamenn aðhafast á alþjóðavettvangi eru fangaflutningar og rekstur á viðbjóðslegum fangelsum sem lúta  í engu því sem við teljum til mannúðarstefnu og mannréttinda þá getum við ekki annað en hugsað hvað hefði gerst ef Dukakis hefði unnið. Hefði sagan orðið öðruvísi og hver er að vernda hvern fyrir hverjum með þessari ofuráherslu á fangelsi og lögregluríki? 

Karlmönnum á Íslandi þykir  eflaust skemmtilegt að pæla í klæðnaði og framkomu íslenskra kvenna í stjórnmálum og tengja þær við stjórnmálasögu bandaríska til að ljá sögum sínum trúverðugri blæ og búa til einhver body-language stjórmálafræði sem hjálpa til að stilla konum upp eins gripum til að horfa á, ekki til að hlusta á.  En svoleiðis sögur eru ekki sannleikur.

 Á meðan ég skrifa þetta er ég á málstofu á NERA ráðstefnunni, málstofan heitir Foucault and the Governmentality og Lifelong Learning.  Mér finnst viðeigandi að byrja 8. mars hátíðarhöld mín hérna í Kaupmannahöfn með því að hugleiða vald og nám með aðstoð Foucault. Andreas Fejes er að flytja fyrirlestur um bókina  Foucault and Lifelong Learning og Katherine Nicoll

 


Kastljósviðtalið við vídeóbloggarann

Ég fékk mínar fimm mínútur af frægð í Kastljósinu fyrir viku síðan. Það var ég kölluð vídeóbloggari og sýnt voða fyndið og viðvaningsleg vídeóskot af blogginu mínu, annað þar sem ég er að prófa viðtal við fræðimann frá Lithauen sem kom í heimsókn til okkar og hitt þar sem ég er tapa mér í vídeóeffektunum og töfra fram eldglæringar og sjó á skrifstofu minni. Ég náttúrulega held kúlinu og segi að þetta sé partur af vídeóbloggmennskunni að sjást að ég kann lítið á græjurnar og hef litlar og aumingalegar græjur,  svona eins konar vídeoblogg dogma.  Það er nú reyndar ekki alveg sannleikur, mér finnst mjög gaman af því að hafa góð verkfæri og gott hráefni til að vinna úr við svona vídeólistsköpun og býð í ofvæni eftir að smágræjurnar verði betri. Stafrænu myndavélarnar eru orðnar góðar en ennþá er langt í land að hljóð og vídeó sé af viðunandi gæðum í svona youtube/ustream umhverfi.

hér er viðtalið, ég tók það upp á ustream því það hverfur í gleymskunnar dá af vef RÚV eftir 2 vikur.

 Ef þetta spilast ekki þá vistaði ég það líka hérna: Kastljósviðtalið við mig (vistað á Íslandi) 

Ég geymi þetta upp á vídeóbloggsögu Íslands svo að þegar Egill Helgason uppgötvar vídeóblogg þá geti ég sýnt fram á að það hafi verið til áður. En eins og allir vita þá gnæfir Egill yfir íslenskum fjölmiðlaheimi og lýsir íslenskum veruleika í bókmenntum og stjórnmálum að  að hlutirnir eru ekki til fyrr en hann hefur komið  auga á þá eða farið að experimenta sjálfur. Þannig fann Egill upp bloggið á sínum tíma.

En það er spennandi að ef til vill verða allir eða flestir komnir með einhvers konar vídeóútsendingar og sína eigin rás á Internetinu eftir einn áratug.  Þegar ég var lítil stelpa var vinsælt skemmtiatriði á skólaskemmtunum að leika leikþátt þar sem útvarpsþáttum hafði slengst saman og út kom mikill ruglingur. Þetta fannst okkur alltaf jafnfyndið  og það þó ég sé alin upp í þeim veruleika að það var bara alltaf hlustað á eina rás, það hét að hlusta á útvarpið og það var náttúrulega það sem núna heitir Rás 1. 


Fimm netfundadagur

breeze1Þetta er sex fundadagur. Það sem af er þessum degi hef ég farið á fjóra netfundi og einn venjulegan gamaldags fund í fundarherberginu í Bolholti. Þar minntumst við þess að það eru 10 ár síðan fyrsta kennslukerfið var tekið í notkun í KHÍ. Það var kerfi sem hét Web Course in a Box, ég prófaði það á námskeiðum 1998. Núna einkennist fjarnámið hér við skólann af því að hér er notað Web CT kennslukerfið. Ekki hefði mig grunað hvað miklar breytingar hafa orðið á bara einum áratug.  fyrir utan alla þessa netfundi í dag þá hef ég líka tekið þátt í  umræðum og sent tilkynningar til nemenda inn í WebCT í dag.  

Eftir korter fer ég svo á síðasta netfund dagsins.

Fyrst fór ég á fund í kerfinu operator11.com með nemendum sem voru að koma úr vettvangsnámi, þau sögðu frá hvernig þeim gekk á vettvangi og hvað þau sáu þar. Svo fór ég á fund með fólki sem er að undirbúa Nordplus umsókn, sá fundur fór fram í kerfinu Breeze frá Adobe fyrirtækinu. Svo fór ég á útsendingu þar sem nemendur á öðru námskeiði voru með netkennslustund í ustream.tv. Það voru 12 sem fylgdust með útsendingunni. Það gekk mjög vel.

mebeamSvo kíkti ég aðeins inn á spjall þar sem nemendur hittust eftir netútsendinguna á mebeam.com sem er svona vídeóspjall þar sem allir geta verið í mynd á sama tíma.  Svo byrjar núna rétt bráðum seinasti fundur dagsins í operator11.com

Núna eru allir nemendur mínir með vefmyndavél og hljóðnema en svona netfundir eru samt frekar nýir af nálinni og oft klikkar tæknidótið eða virkar svo illa að það er ekki hægt að notast við það.

Á morgun fer ég til Kaupmannahafnar á NERA ráðstefnuna.

 Skjámyndir úr breeze og mebeam.

 

Svona upp á Nostalgíuna þá lími ég hérna inn bréf sem ég sendi fyrir akkúrat 10 árum (5. mars 1998) til samstarfsmanna eftir að Sólveig Jakobsdóttir hafði bent á mjög sniðugt kennslukerfi á vefnum. Það fjallar um kennslukerfi sem er að ég held það fyrsta sem prófað var í íslenskum skólum. Ég man að nemendum fannst mjög sérstakt að það væri hægt að taka próf á vefnum. Ég prófaði þetta kerfi fyrst á námskeiði í mars 1998. Núna eru mörg kennslukerfi í notkun á Íslandi t.d. Web CT og Blackboard, Moodle, Its Learning, Ugla og mörg fleiri. Þetta er einkenni á því tímabili sem er í hámarki núna í netvæðingu skólakerfisins.

En sem sagt fyrir 10 árum var þetta ákaflega nýstárlegt. Hér er bréfið:

From: Salvor Gissurardottir [mailto:salvor@khi.is]
Sent: 5. mars 1998 14:54
To: fjarkenn2@ismennt.is
Cc: Salvor Gissurardottir
Subject: Námsumhverfi á vef - Web Course in a Box

 

Sólveig sendi okkur í dag slóðina http://www.madduck.com/ og bað um

umræður um þetta verkfæri.  Ég bregst hér með við:

 

Ég skoðaði WCB (svo er kerfið skammstafað) bæði sem nemandi og kennari.

Mér leist vel á suma hluti, sérstaklega virtist kerfið vera einfalt og

aðgengilegt.  Þetta er svona námsumhverfi til að halda utan um námskeið,

þ.e. birta á vefsíðum, lexíur (kennslubréf), umræður, krossapróf,

námskeiðsáætlanir og fleira.  Hægt var að tengja þetta öðrum vefsíðum og

svo setja myndir á vefsíður sem gerðar eru í þessu kerfi.  Afar einfalt

er að gera vefsíður.  Það er bara að hafa ritvinnslukerfið sitt opið og

skjal þar sem flytja á vefsíðu og líma það svo inn í WCB.  Svo er hægt að

kalla á mynd.  Ég prófaði að búa til smánámskeið (sjá vefslóð:

http://www.madduck.com/wcb/schools/TST/sdd/instruct/490/index.html það

verður að gefa upp notendanafn og lykilorðið instruct ) og það gekk bara

vel þó ég kynni ekkert á kerfið, ég setti inn námáætlun, tímaplan, helstu

slóðir og tvö kennslubréf og bjó svo til umræðulista fyrir námskeiðs

(vefumræður)  þetta tók skamma stund.

Fyrirsagnirnar koma á ensku, veit ekki hvort hægt er að breyta því.

 

Þetta kerfi byggir á hefðbundum "metaphor" þ.e. líkir eftir námskeiði í

venjulegum bandarískum háskóla.

 

Mér finnst þetta einfalt kerfi og auðlæranlegt, umhverfið var fallegt,

stílhreint og aðlaðandi.  Ég varð við þessa litlu prófun hjá mér ekki vör

við neina stóra ókosti. Veit ekki hvernig það virkar fyrir stóra

nemendahópa t.d. heila árganga í staðbundnu námi í KHÍ

 

Einn afar stór kostur er við þetta kerfi

**** Það er ókeypis *****

Þetta þýðir að það er sáralítið áhætta að prófa það, ef það gengur vel þá

geta aðrir skólar notað það og kostnaður stendur ekki í vegi fyrir notkun.

 

Ég held það væri mikill fengur að nota svona kerfi, ekki síst vegna þess

að það er þörf á einhverri staðlaðri uppsetningu á vefsíðum.

 

ÉG býð mig fram í að prófa þetta kerfi í raunverulegum tímum, þetta

passar afar vel í námsþætt sem ég er með á næstunni sem heitir

Námsumhverfi á veraldarvefnum.

 

Til þess þarf að setja  kerfið upp á "server" hér í KHÍ.

Það get ég ekki gert, það er verksvið kerfisþjónustu.

 

Ég ætla því að biðja um að kerfið verði sett upp.

Gaman væri að vita hvort einhverjir aðrir vildu setja upp námskeið eða

litla námskeiðsþætti í þessu kerfi.

 

kær kveðja,

Salvör

 


Málþingsblogg - Heyrnarhjálp

Ég held áfram að gera tilraunir með útsendingar á ustream.tv og ég tek upp þessar útsendingar og lími hérna inn á bloggið. Það má reyndar frekar kalla þetta netútsendingar eða streymimiðlun á einni rás frekar en vídeóblogg. Hér á bloggið set ég upptökuna en útsendingin hjá mér var fyrr í dag.

 

Þessi útsending fjallar um málþing Heyrnarhjálpar um aðgengismál sem ég fór á í gær. Þetta eru 20 mínútur í spilun. Ég var með litlu stafrænu myndavélina mína og tók smá vídeóbrot af nokkrum af fyrirlesurunum að tala. Það var dáldið myndrænna en vanalega á ráðstefnum því alltaf var túlkað á milli, stundum frá táknmáli yfir á raddmál og stundum í hina áttina og svo var alltaf rittúlkur sem skrifaði það sem fyrirlesarar sögðu og því var varpað upp á stóran skjá. Ég held að allir sem halda ráðstefnur og málþing græði mikið á að nota svona netútsendingar, það hefði verið hægt að senda allt út líka þannig að ýmsir sem eiga ekki heimangengt t.d. fólk sem býr langt frá ráðstefnustað geti líka fylgst með.

Það er magnað hvað það er stór hópur fólks sem býr við einhvers konar heyrnarskerðingu og hvað það eru fáir af þeim hópi sem eru að nota heyrnartæki, í mörgum tilvikum af því þeir gera sér ekki grein fyrir heyrnarskerðingu sinni og þeim möguleikum sem eru á hjálpartækjum.  

Annars er ég orðin svolítið leið á vídeóbloggi og svona netútsendingum. Þetta er hrikalega brothætt umhverfi, maður veit aldrei hvenær tengingin er í lagi. Heima hjá mér á ég að vera með 12 mb Internettengingu  en sama hversu oft ég mæli hana á bandvíddarmælingum erlendum þá fæ ég ekki nema um 3 mb samband og ég get hvorki skoðað ustream útsendingarnar mínar né sent út heima og ég get ekki nema stundum skoðað youtube vídeó því hraðinn er svo hryllilega lítill að hljóðið og myndin kemur eftir dúk og disk allt brenglað og bjagað. Þetta er mjög þreytandi. Ég hugsa að þetta sé að hluta tengt álagi hjá ustream og youtube og slíkum ókeypis vefþjónustum en sá grunur læðist líka að mér að Internetþjónustuaðilar á Íslandi séu að svindla á manni, þykist bjóða miklu betri Internetsamband en þeir gera og flöskuhálsinn sé að þeir hafa bara ekki keypt eða ráða ekki yfir nema lítilli bandvídd á sæstrengnum milli Íslands og umheimisins. Það hefur ákkúrat ekkert fyrir mig að segja að hafa 12 mb bandvídd bara innanlands. Það er bara lítið brot af því sem ég er að gera á Interneti eitthvað sem er gert hérna á skerinu. Meira að segja er allt sem er í íslensku wikipedia vistað erlendis.

En ég er sem sagt frústreraður vídeóbloggari í dag. Ekkert virkar. Takk fyrir samt að hafa rafmagn. Svo ég muni eftir að þetta gæti gengið verr.  


Sannleikurinn um einhverfu

Ég er að fara á málþing hjá Heyrnarhjálp á eftir, ég flyt þar erindi. Ég hef verið að skoða undanfarið efni á vefnum sem tengist þeim sem tjá sig á hátt sem ég skil ekki. Hér er áhugavert myndband af konu sem einhverf og tjáir sig með handahreyfingum vakti athygli mína. Það er góð grein í Wired um þessa konu og einhverfurannsóknir.


Erindi á málþingi í Harnosand í Svíþjóð nóvember 2007

Ég flutti erindi á málþingi í Harnosand í Svíþjóð í nóvember síðastliðnum.  Mér tókst áðan að taka það upp í ustream og tengi í það hérna.  Heiti erindisins er Mentors in Open Learning Environments. Talið kemur eitthvað skrýtið sums staðar. Þetta var sent út á sínum tíma í kerfi sem heitir Marratech en einnig var stór hópur í fyrirlestrasalnum í Harnosand.

 

 

  


Spjallþáttur á útvarpi Sögu

Ég var á föstudaginn í spjallþætti hjá Óskari Bergssyni á Útvarpi Sögu. Ég var þar með Sóley Tómasdóttur. Sóley og Óskar eru náttúrulega á kafi í borgarmálefnunum þannig að umræðan snerist mikið um þau þó að maður hafi reyndar ekki mikið brjóst í sér þessa daganna að hæðast meira að Sjálfstæðismönnunum í borginni, þau eiga svo bágt núna.

Þátturinn var endurfluttur áðan og ég rétt náði að taka upp seinasta korterið en hér er sem sagt bútur úr þessu útvarpsspjalli (.wma skrá 17 mín, 15.6 mb) Þetta var bara skemmtilegt og við höfðum um margt að tala. 

Bloggarar eru mikið í fjölmiðlum þessa daganna, alls staðar vitnað í bloggin og meira segja sumir fjölmiðlar með sérstaka bloggþætti. Það var fyndið í silfri Egils í dag að heyra hæstvirtan heilbrigðisráðherra (sem bloggar ekkert að ég best veit og skilur því ekkert nútímann:-) spyrja með nokkrum þjósti hvort það skipti einhverju máli hvað einhver Friðjón með appelsínurnar hefðu sagt um hann á einhverju bloggi. 

En hér er bloggúttekt vikunnar í Spaugstofunni, þeir spaugarar geta náttúrulega ekki verið minni menn en aðrir fjölmiðlamenn sem taka sig alvarlega og verða að hafa einhvern part helgaðan bloggurum. það er náttúrulega næturbloggið hans Össurar sem er tekið fyrir:

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband