Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Samvinnuþýðingar

Nú hef ég síðustu tímana verið að bisa við þýðingar í https://launchpad.net/ það er feikisniðugt kerfi til að þýða opinn hugbúnað milli tungumála. Mikið vildi ég að tungutækniverkefnin íslensku hefðu eitthvað komið inn á þetta svið og notað svona verkfæri. Það léttir mikið lífið að hafa þýðingar svona á vefnum.

Ég er aðallega að þýða Elgg hugbúnaðinn, ég byrjaði á því fyrir meira en ári síðan og ég sé að alla vega fimm hafa lagt hönd á plóginn við þýðinguna. Það geta allir komið að svona þýðingu og ef eitthvað orð eða orðasamband  hefur verið þýtt í öðrum opnum hugbúnaði á íslensku þá fæ ég uppástungu um þær þýðingar. 

Hér eru nokkur af þeim  forrit sem ég spreytti mig við að bæta eða byrja á þýðingum í launchpad:

  • https://translations.launchpad.net/elgg
  • https://translations.launchpad.net/cuecard
  • https://translations.launchpad.net/focus-sis
  • https://translations.launchpad.net/g2image
  • https://translations.launchpad.net/pybridge
  • https://translations.launchpad.net/stellarium
  • https://translations.launchpad.net/wpg2
  • https://translations.launchpad.net/wesay
  • https://translations.launchpad.net/inkscape/

Ég reyni eins og ég get að nota tölvuorðasafnið 4. útgáfu því það er mikilvægt að hafa svona þýðingar sem mest staðlaðar. Tölvuorðasafnið er á vefnum: http://tos.sky.is/tos/to/

Það eru samt sum orð mjög óþjál og framandi  í tölvuorðasafninu t.d. að nota fyrir parent orðið  umflekkur og færsluhnappur fyrir Enter. Ég er ekki viss um að fólk átti sig á þessu. Ég fann að orðið "dashboard" er þýtt þar sem lesborð en það vantar alveg þýðingu á "widget". Sumir hafa þýtt það sem viðmótshlut en mér finnst sú þýðing ekki góð. "Widget" er meira eins og tæki eða tól oft frá þriðja aðila sem límt er eða hengt á  lesborðið. Besta orðið sem mér dettur núna í hug er smától. 

Ég veit ekki alveg hvort borgar sig að  þýða forrit eins Inkscape. 


Bloggarar helsta fréttalindin í átökunum í Búrma

Fréttavaktir Vesturlanda reyna að flytja okkur fréttir af því sem er að gerast í Búrma en erfitt er að fá fréttir. Þær koma helst frá bloggurum í landinu og bloggurum staðsettum í Bretlandi sem fá sendar myndir heiman frá gegnum Internetsendingar, oft eru fréttamyndirnar teknar af sjónarvottum á GSM síma. BBC er með grein um þetta  (http://news.bbc.co.uk/2/hi/asia-pacific/7012984.stm ) og ég hlustaði á fréttaskýranda á BBC bera þetta saman við þegar herstjórnin kom til valda á sínum tíma, þá var jafnalvarlegt ástand en heimsbyggðin gat ekki fylgst með, ekkert Internet og ekkert blogg.

Búrma er á botninum varðandi tjáningarfrelsi, er númer 164 af 168 skv. Reporters without borders. það eru bara 0,56 % af fólki sem hefur Internettengningu og öll Internetþjónusta er ríkisrekin og ritskoðuð. Ég hugsa að þessir sem blogga sendi bloggin eitthvað í nágrannaríkin.

 

 


mbl.is Mótmælendur særðust í átökum í Yangon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tískan í Búrma - Andlitsmálun

andlitsmalun-burma-thanÉg var að skoða myndir á flickr merktar Búrna (Myanmar) og þá tók ég eftir að það er skemmtileg tegund af andlitsmálingu í tísku þar.  Það virðist vera vaninn að bera duft á nef og kinnar til varnar gegn sólinni en þetta er oft einhvers konar skreytingar.  Þetta er skemmtileg tíska, spurning hvenær svona meikup kemst í tísku hérna.  Íslenska sortin af svona meikupi væri náttúrulega að klippa mynstur á pappa og bera á sig brúnkukrem þannig að það kæmu svona dökk tákn á kinnarnar.

En hérna eru nokkrar andlitsmálunarmyndir frá Búrma:

Mynd af stúlku með laufblöð á kinnunum og mynd af litlu barni um jólaleytið með jólaskraut um höfuðið og mynd af fiskverkakonu með barðahatt sem líka er með málaðar kinnar til að hlífa sér við sólinni og svo myndir af stúlkum og börnum sem eru svona málaðar í framan.


Munkarnir í Búrma

munkar-burmaÞað búast margir við að til tíðinda dragi í Búrma þar sem rauðklæddir munkar marséra núna upp á hvern dag og biðja um lýðræði. Það er frekar lítið um lýðréttindi hjá þessum 50 milljónum sem í landinum búa. Þarna er reyndar athyglisvert ástandi, einhvers konar trúarlegur kommúnísmi.

BBC er með ágæta umfjöllum um ástandið í  Búrma. Það er sennilega ekki spurning um hvort heldur hvenær núverandi stjórnvöldum verður steypt í Búrma. Spurningin er frekar hvað kemur í staðinn og hvaða áhrif hefur það á þennan heimshluta. Búrma er vegna legu sinnar nokkurs konar stuðpúði milli Indverja og Kínverja og það er líklegt að þau ríki reyni að skipta sér af þróun þar og ef til vill ekki fara með friði.

Lífið í Búrma snýst mikið um trúarbrögð, það eru allir karlmenn skyldugir til að vera í klaustri einhvern tíma. Það er nú samt ekki þannig að strákar séu munkar ævilangt.

Hér er mynd sem ég fann á flickr af nokkrum smávöxnum munkum í Búrma. Mér virðist þeir ekki vera að mótmæla neinu sérstöku. Myndinar fékk ég hjá Sofia & Tobias

 

mbl.is Útgöngubann í stærstu borgum Myanmar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjónvarpsturninn og kirkjugarðurinn

Flat in Berlin 1 Nú er ég komin til Berlín og komin í Netsamband. Ég er í íbúð í Penslauer Berg og út um gluggann þá sé ég sjónvarpsturninn uppljómaðan gefa frá sér einhver blikk öðru hverju. Turninn Fernsehturm er frægt kennileiti hérna í Berlín, hann er eins konar íkon eða trúartákn fyrir tæknihyggju nútímans, hann var tákn  fyrir kommúnistastjórnina í Austur Berlín.

Í fyrsta skipti sem ég kom til Berlín sem var einmitt á þessu ári þá hafði fluginu seinkað þannig að ég kom ekki til Berlínar fyrr en eftir miðnætti, það var úrhellisrigning, svona drakúlahryllingsmyndaveður og ég vissi ekkert hvert ég var að fara þegar ég kom út úr lestinni á Alexsandertorginu. Ég hringsólaði í rigningunni og myrkrinu nokkra hringi í kringum  sjónvarpsturninn eins og í einhverjum ritual til að átta mig á aðstæðum og tók svo strætó samkvæmt leiðbeiningum sem ég fékk. Strætó stoppaði fyrir framan einhverja múrveggi, ég var búin að skoða þetta allt á Google maps og sjá að íbúðin sem ég hafði leigt gistingu í var í námunda við staði sem ekki voru íbúðahverfi, ég hélt að þetta væru verksmiðjur eða iðnaðarhúsnæði.

Nema hvað að ég fann hvergi gistinguna, ég gekk meðfram múrveggjunum háu og sums staðar voru hlið sem ég reyndi að komast inn um en alls staðar voru þau læst og umhverfið var draugalegt og lítið um lýsingu. Ég varð satt að segja soldið skelkuð, ég var ein á ferð og það er ekkert þægilegt að vera villt á gangi í ókunnri erlendri stórborg eftir miðnætti í rigningu og þrumuveðri  og finna hvergi innganginn í húsið sem maður ætlar að gista í og allt umhverfið dimmt og draugalegt.

En sem betur fer rættist úr þessu, mér datt í hug að prófa húsin hinum megin við götuna og þar fann ég rétta húsið.   

Ég kunni svo ágætlega við mig hérna, mér finnst fallegt að horfa út á sjónvarpsturninn og stóru tréð og múrvegginn háa út um gluggann. Ég sé nú ekkert nema turninn núna því það er myrkur. En ég er fegin að þarna um nóttina þegar ég kom hér fyrst og þegar ég reyndi að komast ínn í garðinn hinum megin við veginn að mér hafi ekki tekist það og öll hlið þar hafi verið harðlæst.

Það er nefnilega kirkjugarður. 

Mín fyrstu kynni af Berlín voru sem sagt að hringsóla í kringum sjónvarpsturninn í myrkri og rigningu rétt eftir miðnætti og reyna í örvæntingu að brjótast inn í kirkjugarð hérna til að gista.   


Brokeback Mountain - íslenska útgáfan : Göngur í Garðsárdal

þessi íslenska stuttmynd   Göngur í Garðsárdal  frá kvikmyndafélaginu Kvikyndi minnir á  Brokeback Mountain. Mér finnst þeir  Kvikyndismenn: Sverrir Friðriksson, Pálmi Reyr Þorsteinsson og Freyr Ragnarsson vera ansi skemmtilegir sb. myspace síðu kvikyndis

Ég var að kaupa mér klippikort fyrir íslensku kvikmyndahátíðina. Ég vona að ég komist á einhverjar af Fassbinder myndunum. Ég er mikill aðdáandi Fassbinders. Hvernig skyldi íslenska útgáfan af Querelle verða ef kvikmyndafélagið Kvikyndi réðist í það stórvirki?  

 

Sennilega eru kvikmyndamógúlar framtíðarinnar núna að spreyta sig á stuttmyndum í Youtube stíl þar sem þeir draga dár að hefðbundinni kvikmyndalist og þeim verkum sem hún hefur skapað.


Réttardagur á Suðurlandi - Reyðarvatnsrétt

Ég fór í Reyðarvatnsrétt í dag. Hér er stutt vídeó á þegar hjörðin er rekin inn í réttina.


Svo eru hérna nokkrar myndir af fólki í réttunum. Það var gaman að fylgjast með krökkunum spreyta sig á að draga í dilka. 

 

IMG_2667

IMG_2661

IMG_2654

Fullorðna fólkið var aðeins rólegra en krakkarnir: IMG_2636

Svo eru hérna dætur mínar

IMG_2659


Glærugerð í Google

Nú er Google docs komið með gasalega smartan glærufídus þannig að fólk getur farið að leggja Powerpoint glærugerðarpakkanum. Það er miklu þægilegra að vinna glærurnar beint á vefnum og vista þær líka á vefnum þá losnar maður við allt umstangið að hafa ákveðinn hugbúnað settan upp.

Þetta er nú reyndar frekar einföld glærugerð núna, nokkurs konar leikskólaútgáfa af Powerpoint. En það stefnir allt í það að svona hugbúnaður fari á Netið. Þetta hefur miklu þýðingu fyrir skólanema, það er miklu einfaldara að búa til efni til að setja á vefinn ef maður þarf ekkert að spá í að vista hann neins staðar eða hlaða niður eða hlaða upp einhverjum skrám.

Það er ekki hægt að nota Google docs nema skrá sig inn á google og fá gmail netfang.Ég bjó til skjákennslu (4 mín og 7 mín um google presentations) og gerði líka leiðbeiningar um þetta kerfi. 

Hérna eru leiðbeiningarnar mínar um Google Presentations 

hér er dæmi um hvernig glærusýningu maður getur gert í Google presentations núna.

Hér er leiðbein um hvernig hægt er að setja google glærur inn á vefsíðu (iframe sem t.d. moggabloggið leyfir ekki) 

 


Sjokk kapítalismi

Það er margt sniðugt í skrifum Miltons Friedmans t.d. kenningum hans um verðbólgu og hugmyndir hans um skólanám sem  er svipuð hugmynd og frístundakortin sem núna eru hjá Reykjavíkurborg þ.e. að þeir sem njóti menntunarinnar ráðstafi sjálfir styrk eða niðurgreiðslu. En taumlaus frjálshyggja er  trúarbrögð hinna ríku eða þeirra sem halda að þeir séu í forréttindastöðu eða líklegir til að komast í forréttindastöðu í lífinu, trúarbrögð til að réttlæta að fátækt og umkomulaust fólk sé svipt mannréttindum og aðgangi að gæðum þessa heims.

Það er nýkomin út áhugaverð bók um sjokk kapítalisma. Þetta virðist áhrifamikil bók ef marka má þetta myndskeið um bókina:

 

 Sjá viðtal og upplýsingar um höfundinn Naomi Klein

The Shock Doctrine: Naomi Klein on the Rise of Disaster Capitalism

 

http://www.naomiklein.org/main


Fjölmiðlar og eigendur þeirra - Bestu auðmenn Íslands

Það er gaman að fylgjast með ólgunni í íslenskum fjölmiðlaheimi, stundum held ég að þúsundir manna séu að skrifa og tala lon og don, mörg hundruð þeirra á launum hjá einhverjum skrýtnum útgáfufyrirtækjum með tölur í nöfnunum, með nöfn sem minna mig á tvö hundruð þúsund naglbíta - en flestir eru þó eins og ég ekki á launum hjá neinum og skrifa af einhvers konar tjáningar- og samskiptaþörf. 

Guðbjörg Hildur Kolbeins skrifar ágætt blogg Af sjálfstæðum og óháðum miðlum þar sem  hún bendir á hversu innantóm þau orð eru þegar fjölmiðlar halda fram að þeir séu frjálsir og óháðir. Einn ritfærasti bloggari þessa lands Guðmundur Magnússon hefur núna gengið til liðs við DV og bloggar þar á nýjum vefmiðli dv.is tekur þetta óstinnt upp og kallar skrif Guðbjargar Fljótfærnisleg skrif

Guðmundur vill eins og aðrir fjölmiðlamenn sem eru á launum við að ganga erinda eigenda sinna halda í þá ímynd að þeir séu alveg óbundnir af því að skrifa um það sem eigendurnir hafa velþóknun á - já og geti skrifað alveg óhræddir um það sem eigendurnir vilja ekki að sé skrifað um.

Þetta veit  náttúrulega enginn betur en ritsnillingurinn Guðmundur enda hefur hann skrifað Sögu Thorsaranna en þeir sem höfðu fengið Guðmund í það verk og greiddu honum ritlaun töldu að hann hefði ekki sagt söguna eins og átti að gera og fyrsta upplaginu var hent og sagan prentuð aftur án frásagna sem stuðuðu þá sem greiddu verkið.

Frásögnin sem klippt var úr bókinni   kom í DV og varð til þess að einn afkomandi Thorsara vildi kaupa DV gagngert til að leggja það niður. Guðmundur Magnússon veit því  manna best hverjum klukkan glymur í íslenskri fjölmiðlum enda segir hann "Dv.is er sjálfstæður miðill í þeim skilningi að hann hefur eigin  ritstjórn og er rekinn sem sérstök eining  innan DV útgáfufélags ehf.". 

Við hin getum lika tekið undir með Guðmundi og öðrum fjölmiðlamönnum og talað mikið og oft um tjáningarfrelsi okkar til að dáleiða okkur sjálf til að halda að það sé sannleikur. Nú eða kannski það sem er skemmtilegra,  að stunda sjálfsefjunina með því að raula undir með Megasi í kvæðinu hans "Ég á mig sjálf".

Fyrsta erindið er svona:

Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf 
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
en Mammaboba
starfrækir mig. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband