Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Ekki fallegt hjá Mogganum

Það er virkilega ótuktarlegt hjá Mogganum að skemma stemminguna á landsfundi Samfylkingarinnar sem núna stendur yfir með neyðarlegum fréttafyrirsögnum eins og þessari: "Fylgi Samfylkingarinnar minnkar enn".  Næsta frétt er svo stefnuræða Ingibjargar Sólrúnar formanns Samfylkingarinnar.  Þessi  samsetning frétta er mjög augljóslega til að draga úr kraftinum í orðum hennar. Það  er öðruvísi kastljós  hjá Morgunblaðinu - blaði allra landsmanna - á landsfundi Sjálfstæðisflokksins , þar er vefvarp og fyrirsögnin þar er "Bjartsýni sögð einkenna landsfund Sjálfstæðisflokksins" og í þeirri frétt er mærðarleg rulla sem endurtekur fyrirsögnina  eins og "Segja fundarmenn mikla stemningu vera á fundinum og bjartsýni og baráttuhug ríkjandi".  Merkileg ekki frétt. Veit einhver um stjórnmálaflokk þar sem ekki er stemming og bjartsýni og baráttuhugur  korter fyrir kosningar?

Mikið er gaman að sumt breytist ekkert í íslensku samfélagi, frá því að ég man eftir þá hefur Mogginn alltaf breytt svona í kringum kosningar og fengið þá á sig heiðbláa slikju þó hann geti verið fölbleikur og grár og ómarsumhverfisgrænn þess á milli. Annars get ég ekki betur séð en allt sé á niðurleið hjá Sjálfstæðisflokknum frá síðustu viku þegar ég rýni í þessu fínu og litríku súlurit, mér sýnist bæði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur pompa álíka mikið niður milli vikna (eitthvað tæp 10 %) í skoðanakönnunum þannig að það skýrir ekki þessa skrýtnu fjölmiðlun hjá mbl.is 

Vinstri grænir eru áfram á bullandi siglingu, þau eru nú óumdeilanlega senuþjófarnir í þessari kosningabaráttu með flott málefni eins og kvenfrelsi og náttúruvernd. Framsókn réttir mikið úr kútnum frá  síðustu skoðanakönnun - mælist núna með 9.9 % en mældist áður með 8.1%. Hafa verður í huga að Framsókn sækir jafnan á í sjálfum kosningunum - ólíkt Sjálfstæðisflokknum sem mælist jafnan með meira fylgi í skoðanakönnunum en hann hefur í kosningum. 

Það er  mjög áhugavert að skoða hve miklu munar á milli kynja  hvaða stjórnmálaflokka fólk styður. Sérstaklega er áhugavert að sjá að 33,1 % kvenna styðja Sjálfstæðisflokkinn. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér fyrir hvað? Sennilega eru þetta konur sem eru fæddar inn í  Sjálfstæðisfjölskyldur og hafa ekki mikið velt fyrir sér þeim möguleika að kjósa aðra flokkaSmile

Annars er gaman að spá í það að því meira sem Samfylkingin skreppur saman þeim mun líklegra er að hún komist til valda að loknum kosningum og þeim mun ólíklegra er að Vinstri Grænir komist í stjórn. Sá flokkur sem væntanlega mun leiða stjórnarmyndunarviðræður eftir kosningar er Sjálfstæðisflokkurinn. Það eru nokkrir kostir í stöðunni að fá einhverja til fylgilags við sig. Það getur verið sama stjórn og áður þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, það er þekkt mynstur og það hefur gengið vel. En ef það er of naumur meirihluti þá er til í stöðunni hjá Sjálfstæðismönnum að leita samninga með Vinstri Grænum eða Samfylkingu. 

Ef þeit tveir kostir eru skoðaðir frá sjónarhóli Sjálfstæðismanna þá er ólíkt fýsilegra að mynda stjórn með Samfylkingu, sérstaklega ef það verður orðinn pínulítill flokkur sem hefur ekki ofurdramb þess sem telur að hann sé sigurvegari. Svo eru sjónarmið um hvernig eigi að standa að stjórn landsins og áhersla á atvinnumál miklu svipaðri hjá Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu heldur en hjá Sjálfstæðisflokk og Vinstri Grænum. Það þarf heldur ekkert að hafa áhyggjur af því að umhverfismálin verði ekki mál allra flokka á næstu misserum, sennilega munu Sjálfstæðismenn sem og aðrir flokkar vinna í því á næsta kjörtímabili að stela allri stefnu Vinstri Grænna og gera að sinni, svona eins og þeir gerði við stefnu Kvennalistans. Ég var svo ánægð með stefnu Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum síðasta vor þegar Villi vann með bleikum slagorðum og bleikri stefnuskrá. Þetta var bara alveg eins og að vera í Kvennalistanum í kringum 1980  og að vera í Sjálfstæðisflokknum í borgarmálum 2006. Það er nú líka eðli Sjálfstæðisflokksins að skynja ekki tíðarandann fyrr en svona aldarfjórðungi á eftir öðrum Grin

Ef stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokk versus með Vinstri grænum (og undir forustu Vinstri Grænna) er skoðuð frá sjónarhóli Samfylkingarinnar þá verða bara Samfylkingarmenn að horfast í augu við það fyrr eða síðar að aðalóvinur Samfylkingarinnar er Vinstri Grænir og ef menn eru ekki þeim mun trúaðri á að sameining þessara stjórnmálaafla verði að veruleika þá er fáránlega vitlaust af Samfylkingarfólki að efla óvin sinn til valda.

En það eru eins og allir vita bara málefnin sem ráða hvernig stjórn verður mynduð eftir kosningar, þar er enginn stjórnmálaleiðtogi neitt að spá í framtíð sinnar fylkingar heldur bara að spá í hvað er best fyrir Ísland Wink

 


mbl.is Fylgi Samfylkingar minnkar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græn skref í Reykjavík

Mér líst vel á áætlunina Græn skref í Reykjavík. Vonandi halda stjórnendur borgarinnar áfram á sömu braut. Eina sem mér finnst orka tvímælis er að verðlauna þá sem eru með vistvæna bíla með því að leyfa þeim að parkera ókeypis. Það orkar tvímælis á sama hátt og ef tannlæknir verðlaunaði barn sem hefur enga skemmda tönn með því að gefa því sælgæti. Reykjavík er borg bílanna og sennilega breytist það ekki í bráð. Veðráttan hérna og fámennið og strjál byggðin veldur því að ekki er auðvelt að koma við tíðum ferðum almenningsfarartækja og velmegunin er svo mikil að það geta flestir átt bíla. En það er atriði að við byggjum upp griðastaði í borgarlandinu þar sem bílar eru ekki velkomnir og  styðjum ekki við bílismann og niðurgreiðum ekki  það val fólks að vera á einkabílum og taka upp pláss fyrir bíla á götum og parkeringsstæðum, nema náttúrulega það sé fólk sem er fatlað eða á erfitt með gang.  Það er víðáttuvitlaust að það sé ókeypis að leggja bílum við marga háskóla miðsvæðis í Reykjavík, það er engan veginn partur af menntun að sjá nemendum fyrir ókeypis  geymslusvæði fyrir bíla.

Ég fór að pæla í hvað mér þætti mikilvægast  til að gera Reykjavík að grænni borg. Eitt er  að mér ofbýður ruslið í Reykjavík að vorlagi þegar snjóa leysir. Reykjavík er mjög snyrtileg og fín borg yfir hásumarið þegar krakkarnir úr unglingavinnunni og vinnuflokkunum hafa puntað allt. En veðráttan er  þannig að hér er enginn snjór t.d. núna í apríl en engir eru til að tína ruslið sem alls staðar flýtur meðfram vegum. Ég bendi fólki sérstaklega á að keyra Ártúnsbrekkuna, eina fjölförnustu götu í Reykjavík og skoða vegakantana, þar flýtur allt í rusli. Ef ég væri að keyra erlendis á svona stöðum þá myndi ég verða dauðhrædd, það er alls staðar merki um að maður sé kominn inn í verslu slömmin þegar ruslið feykist svona á móti manni.  Það er núna þannig að það líður allt of langur tími þangað til krakkarnir í unglingavinnunni byrja og það verður einhver veginn að brúa þetta bil og það verður líka að virkja sem flesta borgarbúa í að taka þátt í þessu. Hvernig væri að virkja skólana og/eða félagasamtök í að hreinsa rusl meðfram vegum - væri ekki hægt að styrkja þetta á einhvern hátt t.d. að skólarnir fengju þannig fé í félagsmál/hverfahátíðir?

Annað sem myndi prýða Reykjavík mikið er fleiri trjálundir við iðnaðarsvæði og blokkarhverfi og skólalóðir og verslunarmiðstöðvar

Á þeim stöðum þar sem fólk býr í einbýlishúsum eða raðhúsum eru garðar víðast hvar fallegir og vinjar þar sem fólk getur notið sumarsins og góða veðursins. Hins vegar er það þannig að mjög víða eru garðar og svæði  við blokkir eru mjög óspennandi , engin tré heldur bara skjóllausar grasflatir og malbikuð bílastæði. Þannig eru útivistarsvæðin við skóla líka oft og í iðnaðarhverfum eru oft mjög nöturlegt og hvergi tré að sjá. Það sama á reyndar líka við um verslunarmiðstöðvar eins og Spöngina í Grafarvogi. Svona staðir væru miklu skemmtilegri ef það væru gróðursett tré sem verða með tímanum hávaxin eins og hlynur. Það myndi prýða borgina mikið ef núna strax væri hugað að því að búa til trjálundi eða einstök tré sem geta seinna myndað skjól og búið til fjölbreyttari götumynd á samgönguæðum gangandi fólks.

 Það vantar alveg að huga að því að gróðursetja tré sem verða stór - flest stór tré eru aspir sem eru alls ekki heppileg tré í þéttbýlu borgarlandi, alla vega ekki nálægt lögnum.  

Fegrun umferðarmannvirkja

Stór hluti af ásýnd borgar og rými í borg eins og Reykjavík er umferðarmannvirki - alls konar brýr, aðreinar og hraðbrautir. Það er ekkert náttúrulögmál að svona mannvirki þurfi að vera ljót og að þar megi ekki sjást neitt stingandi strá. Í hverfinu sem ég var í París fyrir tveimur sumrum þá man ég eftir að hafa séð gróður sérstaklega hannaðan fyrir brýr yfir hraðbrautir, þar voru gróðursett tré (t.d. birki) sem eins og uxu á brúnni og stærri tré slúttu yfir á endum brúnna þar sem var meiri jarðvegur.  Það er líka flott að sjá hvernig sums staðar eru listavirk á umferðarmannvirkjum sem gleðja alla sem aka um. 

 Ókeypis farartæki t.d. hjól

Í nokkrum evrópskum borgum t.d. Kaupmannahöfn er boðið upp á ókeypis hjól, það má taka hjól á ákveðnum stöðum og svo á maður að skilja þessi sömu hjól eftir á ákveðnum stöðum þegar maður er búin að nota þau. Þessi hjól eru sérmerkt og í ákveðnum skærum  litum þannig að allir sjá að þetta eru almenningshjól og það er bannað að geyma þau hjá sér. það mætti t.d. prófa svona hjólakerfi við einhverja fallega hljólaleið með ströndinni í Reykjavík, ég hugsa að aðkomufólk í Reykjavík, erlendir ferðamenn og fólk utan af landi sem ekki hefur tök á að koma með hjól með sér muni taka fegins hendi að geta hljólað einhverja leið eða hluta af einhverri leið - þó það gengi stóran part leiðarinnar. Mér fannst gaman sjálfri að nota svona hljól þegar ég var í Kaupmannahöfn. Þetta er líka tilraun í hvernig fólk gengur um sameign - að venja fólk á að ef einhverjir hlutir eiga að vera ókeypis þá verða að vera strangar reglur og fólk verður að hlýða þeim og taka tillit til að aðrir verða líka að fá að njóta gæðanna. Það væri gaman ef gerð væri tilraun með svona hljól í Reykjavík. 

Þetta minnir mig nú á að ég á núna ekki hjól. Ásta var með hjólið mitt í láni og því var stolið í vetur. Þetta var gott hjól með dempurum. Ég stefni að því að kaupa fljótlega annað hjól og hjóla í sumar um öll þessi fínu útivistarsvæði í Reykjavík.  Mér finnst Reykjavík mjög falleg borg. Sérstaklega finnst mér strandlengjan falleg og  Laugarnesið  langfallegast, þar er ég líka alin upp og lék mér í fjörunni sem barn og hef fylgst með breytingum þar í marga áratugi en svo finnst mér líka Öskjuhlíðin og Heiðmörk algjörar náttúruperlur og ströndin fyrir neðan Staðahverfi er engu öðru lík, þar er gífurlega fallegt og þar er fjölskrúðugt fuglalíf allan ársins hring og oftast þegar ég  geng þar sé ég líka hóp af selum. 

 


Fyrsta prentaða bókin á íslensku

Þann 12. apríl  árið 1540  kom úr prentun  Nýja-testamenti sem Oddur Gottskálksson þýddi. Þetta er talin fyrsta bók sem prentuð var á íslensku. Sagan segir að Oddur hafi bardúsað við þýðinguna í laumi út í fjósi. Hann var skrifari hjá Ögmundi Pálssyni biskupi í Skálholti. Oddur var lútherstrúar þó hann væri skrifari hjá kaþólskum biskupi. Hann var reyndar líka biskupssonur, sonur Gottskálks grimma Nikulássonar sem var biskup á Hólum 1496- 1520. Hann var svo vinur Gissurs Einarssonar sem varð Skálholtssbiskup eftir siðskiptin og fékk til ábúðar Reyki í Ölfusi leigulaust og síðar Reykholt og svo Reynistað. Hann var þó ekki prestur.

 


Blogg og stjórnmál í Víðsjá

Ég var í viðtali um blogg og stjórnmál í Víðsjá áðan. Hér má hlusta á upptökuna (aftast í þættinum). Guðni spjallar þá við tvo moggabloggara mig og Eirík Bergmann um hvaða áhrif bloggið hefur á íslensk stjórnmál. Ég hef sjálf bloggað í sex ár og fylgst með þróun bloggs á Íslandi - frá því að vera tómstundagaman fámenns hóps nokkurra tölvunörda sem höfðu aðgang að réttum græjum upp í að vera algengur tjáningarmáti stórs hluta þeirra sem tjá sig um þjóðfélagsmál á Íslandi.

Gleðilega páska!

PáskaeggjamótÉg er komin til landsins og hef verið að dunda við að snúa sólarhringnum aftur til baka, það tekur nokkra daga að jafna sig á því að koma úr tímabelti sem er nokkrum klukkutímum á eftir okkur. Mér finnst nú ansi napurt á Íslandi en ég sé ýmis konar merki um vorið. Úti í garði er grasið farið að grænka og blöðin á páskaliljunum komin upp og svo flaggar öll Reykjavík eins og vanalega að vorlagi með plastdræsum við alla vegi, dræsum sem festast í limi trjána svo þau virka eins og í blóma - eins og blómstrandi plastblómum. 

Páskarnir eru vorhátíð, hátíð þar sem fagnað er því þegar jörðin vaknar af vetrardvala. Tákn páskanna í  bandarískum verslunum eru egg, ungar og kanínur. Allt er þetta frjósemistákn, merki um líf sem vex upp, merki um að bráðum kemur betri tíð með blóm í haga. Hér á Íslandi er eggjasiðurinn tengdur súkkulaðieggjum. Ég gerði   páskavef fyrir næstum áratug  þar sem ég fjallaði m.a. um páskaeggjaframleiðslu bæði í heimahúsi og verksmiðju, páskaföndur og fleira. Á hverju ári fæ ég fyrirspurnir um hvar sé hægt að kaupa svona páskaeggjamót. Ég hugsa að margir hafi áhuga á að gera sín páskaegg sjálfir. Þessi plastmót keypti mágkona mín fyrir áratug í einhverri föndurbúð og á hennar heimili hafa verið steypt mörg páskaegg á hverju ári og krakkarnir hafa sjálfir ákveðið fyllinguna. Þetta hefur verið miklu  ódýrara en tilbúnu páskaeggin en það hefur líka verið gaman og einfalt að búa til páskaeggin sjálfur.

Af fjölskyldunni er það að frétta að dætur mínar fóru vestur um páskana á skíði og  Aldrei fór ég suður hátíðina á Ísafirði og gistu í Heydölum, á Flateyri og heimsóttu systur mína á Hanhóli í Bolungarvík.  Þær komu í suður í dag. Sú yngri er komin með nýjan kærasta. Eldri bróðir minn hringdi áðan, hann er staddur í Ríó og er byrjaður að blogga á moggablogginu. Hann segist þó ekki vera bloggari og kallar bloggskrif sín "að setja inn greinar" en það er víst eitthvað virðulegra en við hin gerumWink Systir mín brá sér á ráðstefnu á Spáni fyrir viku síðan en mun væntanlega halda kyrru fyrir næstu vikurnar því hún á von á barni um miðjan maí.


Á ferð og flugi

Nú er ég á leið heim, þegar ég skrifa þetta þá er ég stödd á Logan flugvelli í Boston og flýg héðan í kvöld og kem á morgni föstudagsins langa til klakans. Þegar ég bókaði ferðina þá passaði ég að stilla ferðina þannig að ég kæmist nú örugglega í vinnu á föstudegi. Fattaði svo seinna að þetta var ekki sv sniðugt, ég hafði gleymt að föstudagurinn er helgidagur og  það er víst lítið hægt að útrétta á föstudaginn langa.

Í fyrradag heimsótti ég háskólann í Austin og skoðaði háskólasvæðið, ég hitti Dorothy frá Taiwan sem er hér í doktorsnámi  og sem ég kynntist á ráðstefnunni í San Antoníó og hún sýndi mér háskólann. Það var tilbreyting að ganga um í stað þess að vera alltaf á bíl. Það er nánast ómögulegt að vera á bíl á háskólasvæðinu, það er allt í lagi að keyra um en hvergi má leggja bíl nema hafa einhver sérstök leyfi og passa. Háskólinn rekur mikið almenningssamgöngukerfi sem er frítt fyrir háskólanema, það heitir UT shuttle og reyna háskólanemarnir að taka þessa strætisvagna í skólann þó þeir eigi bíla. Þetta léttir heilmikið á umferðinni í borginni og hefur Austin sérstöðu í USA að þessu leyti, almenningssamgöngukerfi stætisvagna er hér þróaðra en annars staðar. 

Það er brýn nauðsyn á því að pælt sé í samgöngumálum við þá háskóla sem núna eru í Reykjavík og allar líkur eru á að háskólarnir þjappist ennþá meira saman á minna svæði sem mun setja mikinn svip á Reykjavík - Háskóli Reykjavíkur í Vatnsmýrinni, Háskóli Íslands á melunum og Listaháskólinn niður við sjó.  Þó við getum verið sammála um að háskólamenntun eigi að vera ókeypis eða næstum ókeypis og aðgengi að háskólanámi gott þá ætti ekki endilega að gilda það sama um aðgengi að bílastæðum. Er einhver ástæða til að niðurgreiða bílastæði fyrir háskólanemendur? Er það ekki þvert á móti alveg á móti allri umhverfishyggju að stuðla á þann hátt að auknum umferðarþunga og nota peninga sem eru á fjárlögum eyrnamerktir fyrir menntun í eitthvað allt annað - eitthvað sem er frekar ekki-menntun þ.e. að venja nemendur við að gera ráð fyrir að þeir eigi rétt á ókeypis bílastæðum í miðbæ Reykjavíkur og það sé partur af skólagöngu þeirra að taka þátt í að byggja upp borg bílamenningar - í stað þess að niðurgreiða almenningssamgöngur og hafa sérstaka háskólastrætisvagna. Er ekki miklu skynsamlegra að það sé frítt í strætó fyrir háskólanema en þeir sem kjósa að koma á bíl greiði fyrir parkeringu eðlilegt verð.

Þ


The Secret

Ég fór í verslunarferð í gær, keypti tónlist og mynddisk. Það er viðeigandi að kaupa tónlist hérna í Austin, þetta er tónlistarhöfuðborg heimsins, hér eru árlega heimsþekktar tónlistarhátíðir og hér gekk Janis Joplin um garða. Ég  keypti mynddiskinn The Secret og svo keypti ég tónlist með Lila Downs. Ég vissi ekkert um þessa söngkonu en nafnið minnti mig á Lilju Eysteins svo ég valdi hana úr búnkanum og hlustaði á nokkur lög. Ég vildi kaupa spænska tónlist svo ég gæti æft mig í spænsku. Hér í Austin er þriðjungur íbúa spænskumælandi en í San Antonío snýst það við, þar eru tveir þriðju hlutar spænskumælandi.

Mynddiskurinn The Secret er með því heitasta í sjálfshjálpar- og nýaldarfræðum hérna. Hann tengist The Law af Attraction sem gengur út á að nota hugarorkuna á jákvæðan hátt. Bæði Larry King o og Oprah Winfrey hafa nýlega gert þætti um þessa speki og það er óbrigðult merki um að þetta er tískustraumurinn í Ameríku. Ég ætla að reyna að kynna mér þessar kenningar eða ráðleggingar án þess að ana beint í fordóma og afskrifa þetta sem trúarvingl. Sálfræðingar hafa lýst þessari bók eins og "pseudoscientific, psychospiritual babble." Ég  spái  í hvers vegna svona kenningar eru vinsælar og hvaða tómarúm þær fylla í sál þeirra sem aðhyllast þær. 

 

 


Sex ára bloggafmæli - Hátíðarhöld í Texas og á Íslandi

Ég hélt upp á sex ára bloggafmæli mitt í gær, ég stofnaði mitt einkablogg 1. apríl árið 2001 og fyrsta bloggið var um fjölmiðla og hverjir búa til sannleikann. Árið 2003 hélt ég 1. apríl  upp á tveggja ára bloggafmælið með framhaldsstofnfundi Femínistafélags Íslands en einmitt þann  dag opnuðum við vefinn www.feministinn.is sem ég sá um fyrstu tvö árin. 

salvor-moggi Það var gaman að Morgunblaðið tók þátt í blogghátíðarhöldum mínum í gær með því að birta mynd af mér og viðtal sem Inga Rún tók við mig.  Viðtalið var nú reyndar ekki út af hinum glæsta bloggferli mínum heldur var þetta hluti af  umfjöllun um Wikipedia. Viðtalið við mig (ég hef ekki séð blaðið ennþá, bara á gagnasafni Mbl) var þrælgott og titillinn er  "Notandinn skapar verðmætin" og mér finnst vænst um eftirfarandi kafla:

Þekkingin á Wikipediu byggist upp með notandanum. "Notandinn skapar verðmætið. Þú ert aldrei bara neytandi eða framleiðandi þekkingarinnar. Þú setur inn grein og notar hana aftur einu eða tveimur árum seinna. Nám snýst ekki lengur um að nemendur lesi bara ákveðnar bækur heldur meiri þátttöku og sköpun. Endurblöndun er orð dagsins. Verkfæri til sköpunar og þátttöku þekkingarneytandans, eru orðin miklu fleiri. Hingað til opnaði neytandinn bara bókina og las hana. Eina sem hann gat stjórnað var kannski að gera hlé á lestrinum eða byrja í miðju. En núna getur hann líka bætt við bókina. Það er eitthvað sem er ekki hægt að gera í prentaðri bók," segir Salvör og útskýrir nánar: "Þetta minnir í raun meira á munnlega geymd. Eins og þekking var áður en hún var læst inni í helgum bókum. Eins og þekking hefur alltaf verið, hún flæðir og er síkvik og sívaxandi.

Moggaviðtalið er hérna á gagnasafni Mbl. (það þarf innskráningu)

 Hérna í Austin í Texas hélt ég með stæl upp á bloggafmælið. Ég þekki enga í borginni svo ég skráði mig í meetup og mætti á laugardagskvöldið í  veislu hjá hóp sem kannar saman næturlífið í Austin. Það voru eitthvað um tuttugu manns sem borðuðu saman á veitingastaðnum Vivo á Manor stræti og svo var farið saman á einhverja bari. Ég lagði nú ekki í barferðina því ég rata svo lítið hérna og vildi ekki vera rammvillt um miðja nótt. 

texas-salvor 005   texas-salvor 001

 Myndir úr fagnaði næturlífskönnuða 31. mars

Í gær fór ég svo á annað meetup en núna hjá hóp sem kannar saman kaffihús, Austin Coffee and Wine Meetup Group. Við hittumst á útikaffihúsinu Javahive í Hilton hótelinu kl. 10 á sunnudagsmorgni  og spjölluðum saman í um tvær klukkustundir. Þetta er í annað skipti sem ég fer í meetup hjá kaffihúsahópnum, ég fór fyrir rúmri viku með þeim á annað kaffihús á fimmta stræti í gamla verksmiðjuhverfinu, það var svona hipp og kúl kaffihús sem er innréttað í gömlu vöruhúsi. Öll þessi þrjú meetup sem ég hef farið í hérna í Austin hafa verið skemmtileg og ég hef kynnst og spjallað við fullt af fólki sem býr hérna. 

Ég hef farið í svona meetup líka í Barcelona og París og það hefur líka gengið vel. Þetta er fín leið fyrir þann sem er nýkominn í eitthvað samfélag eða gestkomandi um stund. Þeir sem sækja svona meetup eru fólk sem þegar er opið fyrir að hitta annað fólk með sömu áhugamál (já það er áhugamál að hanga á kaffihúsum og skoða næturlífið). Ég fékk nú reyndar upprunalega áhuga á svona meetup vegna þess að ég las að þetta væri notað með góðum árangri í bandarískum stjórnmálum, fólk sem hefur sameiginlegar skoðanir kemur saman og spjallar um mál sem eru þeim hugleikin. Sumir hóparnir eru nú einhvers konar sjálfshjálparhópar. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband