Færsluflokkur: Tölvur og tækni
21.2.2007 | 13:16
Lyklar á glámbekk
Ég átti nú aldrei von á því að lykilorðið mitt inn á Moggabloggið yrði neitt öruggt. Það er það ekki í íslensku samfélagi, netsiðferðið hérlendis er ekkert til að hrópa húrra út af, það er ekki langt Fréttablaðið birti einkatölvupósta sem framhaldsefni hjá sér og það var víst fáum sem fannst neitt athugavert við það. En ég átti nú ekki von á því að það yrðu svona lúmskar aðferðir notaðar til að nappa lykilorðunum af þjóðinni... að birta lykilorðin neðst á bloggsíðum. Nú hef ég fengið í tölvupósti þessa orðsendingu:
Fyrir mistök í uppfærslu hugbúnaðar nú í morgun birtust neðst á bloggsíðum upplýsingar um eiganda viðkomandi síðu, þar á meðal lykilorð þeirra. Þessar upplýsingar voru faldar í forritskóða mjög neðarlega á síðunni og ólíklegt að gestir á síðuna hafi kynnt sér þær. Til að koma í veg fyrir misnotkun var lykilorðum allra notenda blog.is breytt í kjölfarið og þau send þeim í tölvupósti.
Ég vona svo sannarlega að þetta sé sannleikur sem stendur í þessari orðsendingu en það er engin ástæða til annars en vera á varðbergi við að þetta geti verið vísvitandi gjörð einhverra sem vilja komast yfir lykilorð. Ekki lykilorð inn á moggabloggið heldur lykilorð inn á önnur netrými því fólk hefur tilhneigingu til að nota sama lykilorðið á mörgum stöðum.
Það er ástæða til að aðvara fólk um að hafa einhverja reglu í lykilorðum og notendanöfnum þegar það skráir sig inn í ókeypis netþjónustur. Að nota einhver sérstök lykilorð inn á staði þar sem mjög miklu ríður á að aðrir komist ekki í gögnin og nota alls ekki þau sömu lykilorð inn á staði eins og moggabloggið eða aðrar ókeypis netþjónustur.
Ég vann einu sinni í stórri byggingu þar sem mörg fyrirtæki voru. Ég fékk lykil að húsinu en fékk að vita að ef ég týndi lyklinum þá yrði ég að borga tugi þúsunda því það þýddi að það þyrfti að skipta um lykla hjá öllu starfsfólkinu í húsinu. Því miður held ég að það sé sams konar aðstæður núna, þegar Moggabloggið týndi lyklunum hjá bloggurum. Þeir sem hafa notað sama lykilorð á einhver önnur netrými og á moggabloggið ættu strax skipta um lykilorð alls staðar.
19.2.2007 | 15:16
Símasexið fyrir 22 árum
Það eru 22 ár síðan hljómsveitin Village People söng lagið "Sex over the Phone" um keypt skyndikynni með aðstoð samskiptatækninnar. Gaman að spila þetta svona mörgum árum seinna.
Village People er skemmtileg camp hljómsveit og flestir textarnir tengdir hommamenningu. Þetta lag um símasexið er nú bara meira camp í dag en fyrir 22 árum.
Hér er ágætur listi yfir lög nokkurra flytjenda á Youtube.
Meira um camp HERMENAUT: Camp: An Introduction
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.2.2007 | 12:32
Stóri bróðir fylgist með þér
Mogginn greinir okkur frá því að nú geti Hvít-Rússar ekki spilað tölvuleiki og komist í ofbeldi og klám á netkaffihúsum. Allir verða líka að sýna skilríki þegar þeir heimsækja netkaffihús. Þarlend stjórnvöld vaka svo vel yfir velferð þegnanna að þau hafa skikkað netkaffihúsaeigendur til að halda skrá yfir þær vefsíður sem eru heimsóttar og skila til öryggisþjónustu ríkisins.
Er það svona netheimur sem við viljum?
Það getur verið að okkur finnist tölvuleikir hið mesta rusl og það eigi að hindra aðgang að ofbeldi- og klámefni. En í Hvíta-Rússlandi er líka bannað aðgangur að öllu ólöglegu efni og þar í landi telst það ólöglegt að gagnrýna stjórnvöld. Þetta er því leið stjórnvalda til að kúga þegnanna og bæla niður allar andófsraddir, það er ekki bara ólöglegt að gagnrýna stjórnvöld, það er líka orðið ólöglegt að lesa gagnrýni um stjórnvöld.
Á Vesturlöndum er umburðarlyndi fyrir klámi og ofbeldi og margir fjölmiðlar dæla skömmtum af klám- og ofbeldisblöndu í okkur á hverjum degi. Það vekur því hneykslan okkar að stjórnvöld annars staðar skuli ekki leyfa svoleiðis. Við erum líka vön hér á Íslandi að hafa skotleyfi á ráðamenn og geta dregið dár að og gagnrýnt gjörðir þeirra. Við erum vön því að fjölmiðlar hjá okkur stilli sér í dómarasæti yfir dómurum og ráðuneytum og það vekur því hneykslan okkar að það sé hvorki leyft að gagnrýna stjórnvöld né að lesa gagnrýni um stjórnvöld.
En er allt í lagi í okkar heimshluta? Er frelsi fólks í netheimum virt eins vel og frelsi fólks í daglega lífinu? Eða er ástandið eins og í símhleranatíma kalda stríðsins nema bara núna hafa stjórnvöld og fjölþjóðlegir auðhringir miklu betri græjur til að vakta fólk á Netinu og leita að mynstrum í athöfnum þess?
Við erum síðustu ár alin upp í ótta - ótta um hryðjuverkaárás, sérstaklega átök innan frá. Eina sýnilega leiðin sem stjórnvöld virðast fara til að stemma stigu við því er að herða eftirlit og þá sérstaklega eftirlit með umræðu og ferðum einstaklinga á Internetinu. Sennilega nota spellvirkjar Netið bæði til að skipuleggja samfélög sín og til að afla sér upplýsinga. Það geta líka allir aðrir. Sennilega nota spellvirkjar tungumálið og röddina til að tala saman og bækur og blöð til að lesa sér til. Það gera líka allir aðrir. Viljum við að allar samræður okkar séu teknar upp og vaktaðar og einhvers staðar séu skráðar allar bækur og rit sem við lesum og ef við erum áhugafólk um efnafræði og ég tala nú ekki um menn af erlendum uppruna þá séum við tafarlaust orðin grunsamleg og með okkur sé sérstaklega fylgst.
Við ættum ekki að samþykkja að fylgst sé með samræðum og ferðum einstaklinga á Netinu undir því yfirskini að það sé unnið að því að uppræta hryðjuverkasellur eða koma upp um barnaklámhringi ef við viljum ekki samfélag þar sem stjórnvöld geta njósnað um hvert fótmál (ætti kannski frekar að segja netmál) þegnanna.
Á Vesturlöndum er ekki líklegt að tilburðir til að hindra netfrelsi okkar verði krossfarir undir merkjum þeirra sem vilja sporna við ofbeldi og klámi. Á Vesturlöndum er líklegra að það sé undir því yfirskini að það sé verið að passa okkur fyrir væntanlegum hryðjuverkamönnum og barnaklámhundum og að það sé verið að verja hin helgu vé einkaeignaréttarins og verja hagsmuni markaðshagkerfisins. Það mun líka verða smám saman kreppt að frelsi okkar og það er mikilvægt að við spornum við af alefli og beinum netnotkun okkar í farvegi sem líklegra er að standi betur af sér áhlaup. Þannig er besta leiðin núna að forðast sem mest höfundaréttarhugbúnað og lokuð kerfi og taka sem virkastan þátt í þeirri nýju samvinnuhreyfingu sem upp vex á Netinu og er kennd við opnar lausnir, opinn aðgang og almenningssvæði sem allir hafa aðgang að og allir geta tekið þátt í að byggja upp.
Það má rifja það hérna upp að það eru ekki mörg ár síðan hér á Íslandi var víða plantað inn njósnaforriti í netkerfi skóla til að fylgjast með hvaða hugbúnaður var notaður og það voru alþjóðleg samtök höfundarrétthafa sem útveguðu það forrit og það var hluti af opinberum samningum við Microsoft að gera úttekt og eftirlit á meintri ólöglegri notkun forrita með þessum hætti. Það er til opinber skýrsla sem Ríkisendurskoðun vann um þetta mál.
Það er víða en í Hvíta-Rússlandi sem við þurfum að vera á varðbergi fyrir tilburðum stjórnvalda og annarra stórra aðila sem vilja ráða netumhverfi okkar. Ef netþjónustur, samskiptafyrirtæki og Internetþjónustuaðilar eru allir í eigu sama aðila og hagsmunir þess aðila fara ekki saman við það efni og þá umræðu sem flæðir fram og til baka í netrásum - býður það ekki hættunni heim?
Eftirlit með netnotkun í Hvíta-Rússlandi hert | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2007 | 15:29
Fleiri fundnir hellar
Ég fór í gær á bókakvöld Hagþenkis á Súfistanum þar sem nokkrir fræðiritahöfundar töluðu um bækur sínar. Það var skemmtilegt, þarna voru merkar bækur sem í liggja mörg ársverk. Einn höfundurinn sagði frá bók sinni um hella á Íslandi en hann hefur unnið marga áratugi að bókinni og það liggur mikið rannsóknarstarf á bak við að kortleggja hella. Ég hafði gaman af því að hlusta á umræðuna um hvernig hellarninr fundust þegar farið var að leita kerfisbundið og hvernig líklegt að fleiri finnist á næstunni.
Þannig er nú lífið, maður finnur frekar það sem maður leitar að þó það sé grafið djúpt niðri í jörðu heldur en hluti sem maður er ekkert að leita að. Ég hef núna fyrst og fremst áhuga á fræðibókagerð vegna þess að mig langar til að skoða wikiverkfæri sem tæki fyrir öðruvísi bókagerð, bókagerð þar sem viðtakendur hafa möguleika til að hafa áhrif á bókina og þar sem höfundarverkið skapast smám saman af mörgum.
En akkúrat núna þá eru ekki margir sem skilja hvað ég á við þegar ég ræði um wikibækur og möguleika þeirra sem námseininga.
Mér finnst þessi skrýtla um wiki fyndin.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.2.2007 | 18:54
Myndletur MSN kynslóðarinnar
Ég horfi stundum á skrif dóttur minnar á MSN (það heitir POS sem er skammstöfun á Parent Over Shoulder ) og skil bara ekkert , allt útbúað í alls konar styttingum, slangri og litlum köllum . Ég sé líka að blogg yngstu kynslóðarinnar er að breytast í myndmál.
Ég sé líka að merkingar í daglega lífinu eru sífellt meira orðin eins og lítil íkon og þetta nýja myndmál er alþjóðlegt og ekki bundið tungumálum. Núna er netfyrirtækið Zlango búið að setja upp SMS þjónustu sem alfarið byggir á myndmáli.
Hér er lítið dæmi um hvernig maður skrifar í þessu SMS máli
Fréttatilkynningin var skrifuð svona.
Ég skrifaði á sínum tíma greinina Ritmál á íslensku wikipedíu og las þá ritverk Þorbjörns Broddason. Ritlist, prentlist, nýmiðlar og margar greinar á Wikipedíu um þróun leturs. Við lifum núna í samfélagi sem er í óða önn að taka upp flókið myndletur. Það er gaman að bera þetta nýja tæknimiðlamyndletur saman við myndletur Asteka og Kínverja.
Ég velti fyrir mér hvernig eða hvort þessi þróun hjálpar þeim sem einhverra hluta vegna geta ekki tjáð sig með orðum. Það eru mörg fötluð börn sem nota svokallað tákn með tali og táknmál heyrnarlausra en nú líka þannig að í þeirri menningu talað maður með líkamanum.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.2.2007 | 19:07
Fröken Kjær
Þann 19. nóvember 2006 var viðtal í Morgunblaðinu við Sólveigu dóttur Jóns Árnasonar handritafræðings og skálds. Hún sagði frá uppvaxtarárum sínum í Kaupmannahöfn og hún sagði frá því hvernig er vera í fjölskyldu af erlendum uppruna, hvernig er að finna talað niður til sín og hvernig það fer í hreppstjóradætur úr Mosfellssveitinni þar sem vinnukonurnar passa hin dýru brauð að fá sömu þjónustu eins og hinir verst settu í samfélaginu, stúlkurnar sem fæddu lausaleiksbörnin á Ríkisspítalanum.
Hér er brot úr greininni:
Hún var gift föður mínum sem var námsmaður en var send með einhverjum stúlkum sem voru að eignast lausaleiksbörn og farið eins illa með hana og þær. Hún fyrirgaf aldrei Dönum hvernig farið var með hana þá. Mikil stéttaskipting var á dönskum sjúkrahúsum í þá daga. Þetta átti illa við mömmu, hún var hreppstjóradóttir úr Mosfellssveitinni, dóttir Björns bónda í Grafarholti og vildi ekki láta tala niður til sín.
........Oft litu Danir niður á okkur og aðra Íslendinga. Við ólumst upp við nokkurn dónaskap frá hendi Dana. Ég man t.d. að maðurinn sem bjó á móti okkur fann einu sinni tösku með skítugum þvotti, hann hljóp með hana og setti hana á mottuna hjá okkur, hringdi svo og sagði að hann hefði fundið þessa tösku og sett hana hjá okkur því honum hefði fundist hún svo "íslenskuleg".
Sami maður hékk eitt sinn upp við hliðið sitt og sagði við mig: "Din far er ein snylter på den danske Stat." Pabbi þinn er sníkjudýr á danska þjóðfélaginu.
Þeir sem komu til okkar voru allir Íslendingar nema eina danska kunningjakonu áttu foreldrar mínir sem hét fröken Kjær. Hún bjó rétt hjá okkur og kom mikið til okkar þegar útgöngubann var á stríðsárunum, þá gat hún skotist milli húsa. Hún hafði unnið á holdsveikraspítalanum í Laugarnesi í 21 ár en ég varð aldrei vör við að hún skildi eitt einasta orð í íslensku. Fröken Kjær sat aldrei lengi, við vorum hinsvegar vön að fólk væri lengi, eyddi sunnudeginum með okkur úti í garði, það kom líka flest hjólandi langt að.
Þetta stutta minningarbrot segir ekkert um fröken Kjær og þau áhrif sem hún hafði á Íslandi. Ég held að fröken Kjær hafi reynst vistmönnum á holdsveikraspítalanum í Laugarnesi ákaflega vel og borið með sér nýja strauma og hafi verið merkileg kona. Mér finnst sárt að hugsa til þess einmitt á sama tíma og fjölmiðlar reisa sig í dómarasæti yfir starfsfólki á vistheimilum og stofnunum og hrópa þungar ákærur á nafngreinda menn þá er framlag allra þeirra sem hafa komið skjólstæðingum sínum til þroska og auðgað líf þeirra ekki fréttaefni. Reyndar gleymt af öllum.
Óskar Aðalsteinn ritar eftirfarandi um fröken Kjær í greininni Um vetrarsólhvörf en það eru minningarbrot um hinn holdsveika Sigurð Kristófer, strákinn sem fór sextán ára á Holdsveikraspítalann í Laugarnesi og dvaldi þar til æviloka:
Ný yfirhjúkrunarkona réðst að spítalanum; fröken Harriet Kjær. Þau Kristófer voru aldrei ókunnug hvort fyrir öðru. Við fyrstu sýn fóru hughrif á milli þeirra, sem knýttu með þeim ævilöng vináttubönd. Hiklaust, átakalaus, opnaði Kristófer hug sinn fyrir fröken Kjær. Hún varð hluttakandi í dýpstu gleði hans og sárustu kvöl. Hin þrotlausa andlega barátta hans varð lifandi þáttur í sál þessarar konu. Frá því fröken Kjær kom í hælið, leið ekki sú stund í vökulífi Kristófers, að hún væri honum ekki nálæg í gleði hans og baráttu. Að vísu stóð hann við lokaðar dyr. Hann skildi ekki örlög sín, hafði ekki fundið nein skynsamleg rök fyrir þeim dómi, sem skapanornirnar höfðu kveðið upp yfir honum. En kannski hafði hann einmitt nú náð að skynja lífið í þeirri fegurð, sem mannlegur hugur megnar. Sú fegurð birtist honum í hugarferli Harriet Kjær. Og hann sá þessa fegurð í brosi hennar og þegar hún horfði í augu hans.
Fröken Kjær varð áhrifavaldur í lífi Kristófers, hún kynnti hann fyrir kenningum guðspekinga og ræddi við hann um andleg málefni. Sigurður Kristófer varð örkumlamaður vegna sjúkdóms síns, hann dvaldist á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi frá 16 ára aldri og þar til hann dó 19. ágúst 1925, þá 43 ára gamall. En hann var afreksmaður. Um hann segir í Morgunblaðsgrein 1996:
Spítalavistin var Sigurði Kristófer erfið í fyrstu en fljótlega breyttist viðhorf hans enda hafði hann nú tíma og næði til að sinna bóklestri og öðrum andlegum störfum sem hann hefði annars ekki getað, spítalinn varð honum eins konar klaustur eða menntasetur, eins og Gunnar Stefánsson bendir á í áðurnefndri grein sinni. Á spítalanum komst hann í fyrsta skipti í kynni við fræði guðspekinga sem áttu eftir að verða hans helsta hugðarefni fyrir utan málvísindin. Einnig lagði hann fyrir sig tungumála-, söngog hljómlistarnám en allt þetta lærði hann af sjálfum sér enda ekki neinir kennarar á spítalanum. Varð hann svo vel að sér um dönsku, ensku og þýsku að hann gat lesið sig til um ýmislegt á þeim tungum. Esperanto lærði hann svo vel að hann orti á því máli. Sjálfur gat hann ekki leikið á hljóðfæri vegna sjúkdóms síns en hann kenndi öðrum sjúklingum að leika fjórraddað á orgel.
Þetta eru töfrar, hvernig getur spítali fyrir þá sem þjást af sjúkdómi sem útskúfar þá úr samfélaginu orðið klaustur og menntasetur? Hvers vegna varð þessi fallegi staður Breiðavík að grimmu fangelsi sem ól upp glæpamenn? Hvað hefði gerst ef til Breiðuvíkur hefði ráðist starfsfólk eins og fröken Kjær? Væri Sævar Ciesielski þá núna alþýðlegur fræðimaður sem skrifaði langa doðranta um einhver undarleg nýaldarfræði og rannsakaði bragarhætti í vestfirskum ferskeytlum?
Í minningu þeirra Sigurðar Kristófers og fröken Kjær hef ég skrifað nokkra pistla um holdsveiki og holdsveikraspítala á íslensku wikipedíu. Ég hef nú reyndar sjálf unnið í holdsveikraspítala, ég vann einn vetur þegar ég var í menntaskóla í eldhúsinu á Kópavogshælinu en eldhúsið var staðsett í kjallara húss þar sem var þá síðasti holdsveikraspítalinn á Íslandi. Það var þá eftir ein kona þar og hún lifði í algjörri einangrun og einmanalegu lífi að ég held.
Nokkra reglu er að finna í fögru máli Sigurður Kristófer Pétursson (Gagnasafn Mbl. 7. desember 1996)
Við förum heim þegar handritin fara heim (Gagnasafn Mbl. - innskráning þarf)
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.2.2007 | 16:03
Vi danskere og vores historie
Brimarhólmur, koparstunga frá 1517.
Vi danskere må igen have vores historie ind på rygmarven. Vide hvad flinteøkserne, vikingetogterne, Københavns forsvar i 1660, slaget ved Lund i 1676, Københavns bombardement i 1807, Dybbøl skanser, modstandsbevægelsen under Anden Verdenskrig har betydet for det liv, vi lever i dag. (Jyllandsposten)
Her er min brugerside pa den danske Wikipedia. Jeg har ændret litt pa nogle artikler pa danske wikipedia som den artikel om Finn Magnussen.
Københavns historie er min historie. København var jo vores hovedstad i 500 år. Jeg har fundet mit danske identitet, jeg blev dansker for et ar siden.Saga Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands rituð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2007 | 02:14
Godhavnsdrengene
Umræða um barnaheimili eins og Breiðavíkurheimilið virðist vera algengt á hinum Norðurlöndunum. Þetta tengist breyttri sýn á uppfóstur og hlutverki barnaverndaraðila og endurmati á hversu heppilegar uppeldisaðstæður slík barnaheimili voru. Godhavnsdrengene eru samtök manna sem hafa verið á svona barnaheimilum.
Hér eru nokkur dæmi úr grannlöndum
Drengehjemmet Godhavn í Danmörku
Stulen barndom Barnhemmet Skärsbo i Alingsås
Overgreb i Sverige
Stulen barndom - Dokument inifrån - Svensk TV
Tyrkisk Børnehjem Misþyrmingar á tyrknesku barnaheimili
Svo er hérna vefurinn http://radiogodhavn.dk/forum/index.php
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2007 | 08:51
Allt á sömu bókina lært
Fyndið myndband um hinn norræna Ansgar sem þarf að taka nýja tækni í notkun og fara yfir í bók úr upprúlluðum ströngum.
Um norræna postulann Ansgar:
Þegar Karla-Magnús færði endimörk ríkis síns til norðurs, komust Danir í nána snertingu við löndin í suðri. Þeim tókst að stöðva framrás Frankanna og árið 811 var gert samkomulag um það, að áin Eider (Egedorae fluminis) skyldi marka landamæri Danaveldis til suðurs og hélzt sú skipan til 1864. Loðvík I. keisari hinn frómi, sonur Karla-Magnúsar, reyndi að kristna Dani og sendi í því skyni Ansgar munk til Heiðarbæjar árið 826. Ekki hafði hann erindi sem erfiði, en árið 831 stofnaði Loðvík erkibiskupsstól í Hamborg og skipaði Ansgar í embætti. Skyldi hann ráða fyrir kristnum á Norðurlöndum. (heimild: Læknablaðið)
Heilagur Ansgar (801-865) stjórnaði trúboðsferðum til Norðurlanda sem erkibiskup í Brimum og Hamborg. Hann var franskur, hafði menntast og starfað í Corbie nærri Amiens, einum aðalpílagrímastaðnum Marteinsdýrkenda og hafði heilagan Martein sem fyrirmynd í lifnaðarháttum og embættisfærslu. (heimild: Ólafur Torfason)
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.2.2007 | 08:43
Tal um ólöglegt niðurhal
Ég fór á ráðstefnuna Er veraldarvefurinn völundarhús? í gær og varð ekki mjög ánægð. Þetta var ráðstefna um siðferði á Netinu sem SAFT, vakningarverkefni Heimilis og skóla um jákvæða og örugga netnotkun barna og unglinga á Netinu og tengdum miðlum boðaði til.
Ráðstefnan virtist fyrst og fremst vera til að kynna sjónarmið höfundarrétthafa og sumir fyrirlesararnir töluðu á skjön við þann veruleika sem ég sé í netheimum núna. Heimili og skóli er á miklum villigötum ef það félag gerist sérstakur krossfari fyrir höfundarrétthafasamtök. Mestu ógnanirnar og stærstu siðferðismálin sem mæta börnum og unglingum í dag á Netinu eru ekki að passa sig á því að virða ekki höfundarrétt.
Erindi Eiríks Tómassonar lagaprófessors fjallaði um "Ólögmæt not höfundarréttar á Netinu - Hvað er til ráða? en Eiríkur er lögmaður Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF. Eiríkur sagði að nútíma hagkerfi byggðust á því að eignarétturinn væri virtur Hann sagði að ef eignaréttur af hugverkum væri skertur myndi umsvifalaust draga úr hagvexti. Þarna er ég ósammála Eiríki. Ég held að ýmsir manngerðir þröskuldar þ.a.m. höfundarréttarlög sem eru ekki í takt við Internetþróun séu mikill dragbítur á framþróun. Sérstaklega virka slíkir þröskuldar í að halda þeim fátæku og umkomulausustu utangátta og án möguleika á að bæta stöðu sína og auka þekkingu sína og færni. Þetta er svona eins og fyrir tíma almenningsbókasafna þar sem bækur voru aðeins í eigu auðmanna og engir aðrir höfðu aðgang að bókakosti. Það ætti öllum fræðimönnum að vera ljóst hvað sem frjálsast flæði þekkingar um heiminn hefur á þekkingu sem háskólasamfélög miðla. Það markaðskerfi sem við búum við núna er ekki að virka við þau vinnubrögð sem eru að ryðja sér til rúms. Það hefur líka sýnt sig að það eru að vaxa upp á Netinu ýmis konar samfélög og þekkingar- og efnisbrunnar sem byggja á annars konar höfundarrétti en hinum hefðbundna og þó hefðbundin hagfræði kenni "The Tragedy of the Commons" þá er engin tragedía í gangi varðandi almenninga á Netinu eins og "open source" og wikipeda samfélög. Það virðist virka bara nokkuð vel að hafa svona samvinnuhreyfingu á Netinu.
Brynjólfur Bjarnason forstjóri Símans fjallaði um ábyrgð samskiptafyrirtæki og hann tók Youtube og Myspace sem dæmi um jákvæðar hliðar netsins. Hann sagði að sennilega væri rétt undir 90% heimila á Íslandi tengd við Internetið sem væri það hæsta í heiminum.
John Kennedy flutti erindið "Fighting music Piracy" sem ég vissi nú fyrir að mér myndi ekki getast að. Þetta erindi var virkilega stuðandi og næstum ógnandi, fyrirlesarinn notaði orðalag eins og "if necessary we will take actions" og "... when they see we are serious they are likely to think twice" eða sem sagt boðskapurinn var að ef þið gegnið ekki með góðu þá förum við í hart. Svona orðræða passar ábyggilega einhvers staðar í hagsmunagæslu höfundarrétthafa en hún passar ekki á ráðstefnu Heimilis og skóla um siðferði á Netinu.
Anna Kirah líkti fjölskyldum í dag við innflytjendafjölskyldur, það er góð samlíking. Börnin eru "digital natives" en foreldrarnir eru oft ekki með á nótunum með hvað er að gerast.
Saft verkefnið og auglýsingaiðnaður á Íslandi standa núna að auglýsingaherferð um siðferði á Netinu. Það eru góðar auglýsingar og vekjandi því margir foreldrar eru andvaralaus um hvað er að gerast á Internetinu og hvers konar efni börn þeirra eru að nota.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)