Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Steingrímur - smiður sem byggir brýr

IMG_4620Hér eru nokkrar myndir sem ég tók á málþingi til heiðurs Steingrími Hermannssyni 80 ára. Málþingið var haldið í Salnum í Kópavogi. Mörg góð erindi voru flutt, sérstaklega fannst mér góð ræðan hjá Guðna og svo erindi Birgis Guðmundssonar um brúarsmíði Steingríms. Birgir líkti þar Steingrím við brúarsmið sem byggir brýr milli fólks og flokka og fór yfir hvernig Steingrími hefði tekist að mynda samstöðu meðal félagshyggjuflokka og samstöðu innan eigin flokks.

Það var í lok málþingsins afhjúpað málverk af Steingrími.

Ég þekki Steingrím ekki persónulega en ég ber virðingu fyrir honum sem miklum stjórnmálamanni og  ég hef lesið ævisögu hans sem Dagur Eggertsson skráði. Móðir mín var mikill aðdáandi Steingríms enda var hún sanntrúuð Framsóknarkona og allir leiðtogar Framsóknar hófust sjálfkrafa í guðatölu hjá henni. Man ég að mér þótti nóg um hvað hún var ógagnrýnin á allar gjörðir sinna flokksmanna.

Það var gaman að heyra persónulýsingar á Steingrími í gegnum erindin sem voru flutt í dag, hann var maður sem sameinaði,  alþýðlegur maður sem lagði sig eftir að hlusta á alla og vann verk sín skipulega. Það var líka gaman að heyra í lokaávarpi Steingríms sjálfs hvernig hann rakti þroska sinn frá því að hann kom ungur maður heim frá námi fullur af áhuga á því að virkja allt  sem hægt væri að virkja á Íslandi til þess að hann verður með árunum meðvitaðri um umhverfismál og umhverfisvernd og skoðun hans og áherslur breytast. Ég held að þessi þroskasaga sem Steingrímur rakti fyrir okkur eigi við um íslensku þjóðina alla.

Hér eru nokkrar myndir sem ég tók á málþinginu 

IMG_4616 
Hjónin Edda og Steingrímur fyrrum forsætisráðherra í lok málþingsins

IMG_4601
Sigurbjörg fyrrum formaður Freyju í Kópavogi, Jónína fyrrum umhverfisráðherra og Vigdís fyrrum forseti Íslands

xIMG_4597
Geir Haarde  forsætisráðherra mætti á málþingið til að heiðra forvera sinn í starfi.

 IMG_4595
Áhrifamenn í orkumálum og umhverfismálum á Íslandi í dag, Friðrik forstjóri Landsvirkunar, Ólafur Ragnar forseti Íslands og Össur iðnaðar og orkumálaráðherra.

 IMG_4614

Sigrún Magnúsdóttir fyrrum borgarfulltrúi segir að Steingrímur Hermannsson hafi búið sig til sem stjórnmálamann. 

xIMG_4610
Unnur Stefánsdóttir  á íslenskum búning, Drífa Sigurðardóttir og ég

IMG_4611

Guðni formaður Framsóknarflokksins í góðum félagsskap

xIMG_4607

Ungir Framsóknarmenn mættu til að hylla Steingrím áttræðan.
Hér eru Fanný, Eggert og Bryndís 

 

IMG_4613

Guðmundur sonur Steingríms stýrði málþinginu af röggsemi og spilaði á  nikkuna sína að því loknu. Guðmundur ljóstraði upp hvernig hann hefði falið sig á milli hæða á bernskuheimili sínu í Mávanesinu og fylgst með öllum viðræðum og plottum. Núna er Guðmundur ekki lengur á milli hæða, hann er meira svona inn og út um gluggann sem varaþingmaður. Guðmundur er ekki eins og góður Framsóknarmaður og faðir hans  og talar stundum um Framsóknarmenn af drambi æskumannsins.

xIMG_4609

Unnur, Drífa og Ólöf formaður Landssambands Framsóknarkvenna

IMG_4615

Það skiptast á skin og skuggar í sögu Framsóknarflokksins, það vita þeir Steingrímur fyrrum formaður og Bjarni Harðarsson þingmaður Framsóknarflokksins á Suðurlandi sem hér eru að sumu leyti uppljómaðir af sólinni og að sumu leyti í skugga. Í dag var haglél á Hellu í kjördæmi Bjarna þó um hásumar væri. 

En öll él styttir upp um síðir. 


mbl.is Steingrímur Hermannsson 80
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

19. júní - Málum heiminn bleikan

 19jun_banner_500px

Málum líka nóttina bleika. Málum líka heiminn bleikan. Til hamingju Ísland með nýja jafnréttissetrið! það er mikið gæfuspor. Sums staðar í heiminum verða allar konur fyrir grófu kynbundnu ofbeldi. Það er kominn tími til að við íslenskir femínistar færum okkur út fyrir landsteinana og reynum að breyta heiminum, það hefur gengið býsna vel að breyta Íslandi...... já, veit... einnþá töluvert eftir þar samt. 

Baráttudagur íslenskra kvenna er í dag. Hér er vefsíða sem ég tók saman 2004  þegar ég stýrði vefsvæði Femínistafélagsins. Hér eru myndir sem ég tók  frá 19. júní 2003

xausturvollur-gyda

xausturvollur-kristin-olof-gras


mbl.is Nær öllum konum nauðgað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn sanni Íslendingur

bokakapa-hinn-sanni-islendingurÉg hélt upp á 17. júní hérna á Laugarvatni, fór í hátíðardagskrána í íþróttamiðstöðinniog svo borðaði ég pönnukökur og kleinur í kaffisölunni í grunnskólanum. Ég hef áður verið hér á 17. júní, það var þegar listsýningin Gullkistan stóð yfir og þá var hátíðardagskrá í smíðahúsinu en nú er það hús núna horfið.

Í tilefni þjóðhátíðardagsins hóf ég lestur bókarinnar  "Hinn sanni Íslendingur" eftir Sigríði Matthíasdóttur.  Bók Sigríðar fjallar þjóðerni,kyngervi og vald á Íslandi árin 1900 til 1930 - um hvernig sjálfsmynd þjóðar verður til og hvernig hún er búin til með hliðsjón af miðstéttarkarlmanni og hvernig það tengist réttindum, eðli og hlutverki kvenna.  Það var gaman að lesa í bókinni í minningareitnum um Hriflu-Jónas í hlíðinni fyrir ofan Héraðsskólann, bókin fjallar um tímabil þar sem Jónas er að komast til valda á Íslandi en hann kom heim úr námi 1909.

Svo horfði ég líka í tilefni dagsins á heimildarmyndina The Architecture of Doom (hér er hægt að horfa á myndina).  Þetta er mynd um fagurfræði nasismans.

Jónas frá Hriflu og Adolf Hitler eru af sömu kynslóð, fæddir 1885 og 1889.  Sennilega hafa þeir mótast að einhverju leyti af sömu hugmyndum um þjóðerni og sömu hugmyndum um list. Reyndar var Þýskaland hugmyndabrunnur heimsins og frá þýskum hugsuðum bárust hugmyndir til Danmerkur og inn í lýðháskóla þá sem íslenskir sveitapiltar sóttu.

Eitt af því sem Jónas gerði var að setja upp háðungarsýningu á úrkynjaðri list 1942. Það er nú ekki talið í dag sem hans mesta afreksverk. Í myndinni Architecture of Doom kemur fram að þetta var gert víða í Þýskalandi árið 1937. Sjá nánar hérna Wikipedia greinina Degenerate art. Ef til vill hefur Jónas fengið hugmyndina þaðan og hugmyndin verið fimm ár að flæða frá Þýskalandi til Íslands.

Gamli héraðsskólinn á Laugarvatni 17. júní á Laugarvatni 17. júní á Laugarvatni

Illkynja mein hjá RÚV - fjölmiðill breytist í fámiðill

ruv-bullur1Það er ævintýralega illa staðið að sjónvarpsrekstri RÚV þessa daganna. Tryggustu og bestu áhorfendur  RÚV eru eldra fólk.  Eldra fólk vill hafa allt í föstum skorðum og ekki neinar miklar breytingar.

Ég hef  hingað til talið  að það sé út af virðingu við aldraða áhorfendur  að RÚV heldur ennþá í forneskjulegt fyrirkomulag varðandi þulur og finnst réttlætanlegt að spreða peningum skattgreiðenda í þulur sem virðast vera fyrst og fremst puntaðar fríðar stúlkur sem ætlað er að brosa framan í áhorfendur og lesa upp dagskrána. 

En það er svo sannarlega EKKI af virðingu við áhorfendur að RÚV sjónvarpið breytist í fótboltarás núna í júní og lætur eins og ekkert sé til nema fólk sem hefur áhuga á fótbolta. Mín vegna má vera til fólk sem hefur áhuga á fótbolta og mín vegna má fólk sem hefur áhuga á fótbolta horfa á leiki í sjónvarpinu, horfa á einhverja kalla útskýra og spjalla um leiki. Ég bara hristi hausinn yfir því og hugsa að það sé fínt að ekki séu allir eins og fjölbreytileiki sé af hinu góða.

Ég hins vegar hef ekki áhuga á að horfa á fótboltaleiki. Rúv þarf svo sem ekkert að taka tillit til mín og ég geri ekki kröfu á að ríkissjónvarpið íslenska sé sett upp að mínum smekk sei,sei nei.  En ég er ekki ein í hópnum sem gremst sjónvarpsefnið í ríkissjónvarpinu þessa dagana. Ég held að við séum mikill meirihluti mögulegra áhorfenda. RÚV er að senda stórt fokkmerki framan í alla þá sem eru tryggir hlustendur og nota RÚV sem sína helstu lind að upplýsingum um fréttir, menningu og þjóðlíf. Það er nú mest eldra fólk og þó einhver örlítill hluti eldra fólks hafi gaman af þessu fótboltatuði lon og don þá er óþarfi að pína alla á kostnað skattborgara.

RÚV er illkynja sjónvarpsstöð.
Með illkynja á ég við að það er kerfisbundið gert  lítið úr og reynt að trampa á einu kyni þ.e. konum. Efnið sem okkur er boðið upp á þar núna er drasl, drasl sem á mjög berlegan hátt viðheldur og hamrar á stöðluðum kynjaímyndum.  Smekkleysið og virðingarleysið fyrir konum er taumlaust, þegar ekki  er verið að sýna strákana í boltanum og þætti með köllum sem eru að tala um strákana í boltanum þá er birtur hver ruslþátturinn á fætur öðrum þar sem bara nafnið segir allt sem segja þarf um áherslurnar  og lífsýnina s.s. "Desperate housewives", "Ugly Betty" og "Herstöðvalíf" (þáttur um eiginkonur hermanna í herstöð).

ruv-bullur2Rúv vefurinn hefur nýlega verið settur í yfirhalningu. Nýja útlitið er fremur ófrumlegt  og steinrunnið og lítur út eins og vefur hjá einhverjum djammklúbbi stráka í framhaldsskóla. Útlitið á ruv.is í dag er í svipuðum stíl og útlitið á pose.is og miðlar sömu lífssýn.  Eina sem vantar er að það eru sem betur fer ekki ennþá áfengisauglýsingar á RÚV vefnum.

Þetta með frumleikaleysið á RÚV vefnum er nú bara aukaatriði en útlitið á vefnum og hvað þar er sett í forsæti bæði vef og í dagskrá er að miðla til mín þeim upplýsingum að forustumenn hjá RÚV telji sig ekki þjóna fólksins, telji ekki að þeir eigi að búa til dagskrá sem er mannbætandi, menningarleg og fræðandi og telji sig ekki þurfa að búa til dagskrá sem höfði til þess áhorfendahóps sem vitað er að ennþá reiðir sig á RÚV sem sína helstu fréttauppsprettu. Dagskrá sem tekur mið af því að á Íslandi búa ungir og aldnir, karlar og konur, fólk af erlendum uppruna, fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðis og fólk sem á ekki heimangengt og fólk sem ekki getur  nýtt sér erlendar fréttaveitur til að tengja framhjá RÚV.

Þessi pirringur minn út í sjónvarpsdagskrána á nú ekki við um útvarpsrásirnar tvær. Ég hlusta nú aðallega á Rás 1 á vefnum, þar eru margir úrvalsþættir. Það er hægt að fara beint inn á það á http://dagskra.ruv.is/ras1 En sjónvarpsútsendingar þessa daganna á RÚV sýna að þetta er ekki fjölmiðill, þetta er útsendingarapparat sem hefur einsett sér að þjóna bara hagmunum og áhuga fárra, vera eins konar fámiðill.

 

 

 


Frosin upphituð hnetuvínarbrauð og innfluttir danskir tertubotnar

baker1Í bernsku minni var að að losna um haftastefnu á innflutningi. Ég man eftir heiftúðugum ritdeilum í blöðum og rifrildum á heimilum yfir dönskum tertubotnum. Ég man ennþá eftir hvað mamma mín var hneyksluð yfir að það væri leyft að flytja inn svoddan óþarfa. Ég sá aldrei þessa innfluttu dönsku tertubotna en þetta greyptist í hugann sem táknmynd fyrir gegndarlaust bruðl - að geta ekki bakað sína tertubotna sjálf heldur að eyða hinum dýrmæta gjaldeyri í að flytja inn frá Danmörk tertur. Ég skildi nú ekki alveg hneyklunina yfir þessu í den og ég skil hana ekki heldur í dag.

Mér finnst barasta allt í lagi að bakkelsi sé flutt inn frá Kína eða Danmörku eða hvaðan sem það nú kemur. En neytandinn má ekki vera blekktur. Hann má ekki vera látinn halda að þetta sé bakað á staðnum af einhverjum íslenskum fagmönnum og að blandan innihaldi íslensk hráefni eða heilsusamleg náttúrulega ræktuð efni þegar hún gerir það ekki. 

Bakarí nútímans á Íslandi virðast ekki þurfa annað en frystigeymslur og ofna. Ég veit ekki hvort þetta er eðlileg þróun en brauð er alla vega svo mikilvæg neysluvara að það er fínt að fylgjast með þessu og gott að fá fram umræðu um þetta

Í grein í Vísir stendur:

„Bakkelsið kom næstum allt inn frosið og svo vorum við látin hita það upp," segir Heiðrún Backmann, fyrrverandi starfsmaður Bakarameistarans. Svo virðist sem bakaríin baki ekki bakkelsi á staðnum heldur láti afgreiðslustúlkur hita upp forbakaðar og frostnar vörur.

Sjá hérna: 

Bakarísstelpa stígur fram: Hnetuvínarbrauð afþídd í bakaríum

Myllan líkir snöggfrystingu við framfarir í sjónvarpsmyndgæðum

Svo er hérna fínn vefur um sögu á bak við brauðhleifinn

The story behind a loaf of bread 


Fólkið sem býr á svæðinu og fólkið sem býr ekki á svæðinu

Eftirköst þessa jarðskjálfta eru miklu meiri en þær sjáanlegu skemmdir sem eru á húsum og búnaði og nýi nafnlausi hverinn sem kom upp í Hveragerði. Eftirköst þessa skjálfta eru skelfingin sem greip um sig meðal fólks, ekki síst fólks sem óttaðist um börn sín og ættingja og vini. Eftirköstin eru þau að þessi jarðskjálfti lækkaði sennilega verðmæti allra fasteigna á skjálftasvæðinu mikið og gerði eignir þar óseljanlegar í augnablikinu. Ég hugsa að fáar lóðir seljist þarna þessa daganna.

Það er alveg sama þó að jarðvísindamenn segi okkur að það sé lítið að óttast, svona atburðir vekja ugg hjá fólki og hræðslu við náttúruhamfarir, hræðslu sem sumir losna aldrei við. Ég var í Reykjavík, stödd á ráðstefnu í Kennaraháskólanum þegar Suðurlandsskjáltinn varð og ég held að allir hafi fundið til einhverrar hræðslu og þá náttúrulega sérstaklega þeir sem komu frá skjálftasvæðunum og höfðu reynslu af skjálftanum 2000. Það er ekki þannig með svona stóra jarðskjálfta að þeir venjist og maður hætti að verða hræddur, ég held að það sé öfugt, maður áttar sig á kynngikrafti náttúrunnar og hve varnarlaus við erum.

Ef þessi Suðurlandsskjálfti er eins og hinir fyrri þá geta eftirkippir verið marga mánuði en það hefur losnað um spennu þannig að það er sennilega einmitt ekki miklar líkur á svona stórum jarðskjálfta þar í bráð. Þetta er svolítið öfugsnúið, einmitt á tímanum sem fólk er hræddast við jarðskjálfta.  En það sem ræður verði fasteigna og því hvort fólk vill búa á svæðinu er hversu mikil hræðsla er við jarðskjálfta meðal fólksins, ekki hversu miklar  líkur jarðfræðingar telja á jarðskjálfta.

En talandi um fólkið sem býr á svæðinu þá má líka tala um fólkið sem ekki býr á svæðinu.  Árna M. Mathiesen mun vera skráður með lögheimili í húsi  í Þykkvabænum sem er afdrep pólsks landbúnaðarverkafólks. DV er ómyrkt í máli varðandi búsetu Árna og segir þrátt fyrir að Árni hafi gefið út yfirlýsingu:

Árni Mathiesen fjármálaráðherra brýtur lög með því að skrá falskt lögheimili á Kirkjuhvoli í Þykkvabæ. Ráðherrann býr ekki á því lögheimili sem hann hefur gefið upp, þar búa pólskir verkamenn. Ráðherrann býr í Hafnarfirði en nýtur hlunninda úr ríkissjóði sem ætluð eru til að greiða kostnað af húsnæði, dvöl og uppihaldi í því kjördæmi sem hann er kosinn á þing fyrir. (sjá hérna Svar ritstjóra DV við yfirlýsingu fjármálaráðherra)

 

Ég geri nú ráð fyrir að Árni hafi viljað láta Þykkvabæinn njóta útsvarstekja þeirra sem af honum eru teknar og Árni er nú þingmaður þeirra Sunnlendinga þannig að það er bara gott að hann ætli sér að setjast að í kjördæminu og hlusta á kjósendur sína. Vonandi gerir hann það sem fyrst, þetta er ansi klúðurslegt hjá fjármálaráðherra að hafa svona feiklögheimili. Ég hins vegar efast ekki um að Árni ætlar sér að búa á svæðinu og ég hugsa að hann hafi boðið sig fram á Suðurlandi ekki bara vegna þess að hann var að leita að þægilegu kjördæmi og fyndist smart að hafa Árna bæði í fyrsta og öðru sæti framboðslistans heldur líka af því hann ann sveitinni og dýrum. Árni er dýralæknir svo sennilega hefur hann nú haft upphaflega í huga að vera nær sveitinni en fjármálaráðuneytinu.

Nú er það þannig að Árni er ekki eini maðurinn á Íslandi sem er með lögheimili einhvers staðar annars staðar en þar sem þeir raunverulega búa. Dagblaðið talar um þetta sem mikla spillingu en er það spilling sem allir gera? Er ekki máltækið við lýði "Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir halda þeim lýðist það".  Ég þekki mann sem var í mörg ár með lögheimili í Akrahrepp þrátt fyrir að búa þar ekki og þegar ég sem eldheitur innfæddur Reykvíkingur skammaðist út í hann fyrir að nota alla aðstöðu hérna þá þóttist hann vera styðja sinn fæðingarhrepp, eins konar einkabyggðaframfærsla. Já, það var nú von að hann vildi þetta, Akrahreppur er þekktur í Íslandssögunni fyrir stuðning sinn við menningu og listirGrin Ég skoðaði skattskrána eitt árið fyrir Akrahrepp þar sem hún lá frammi í Kaupfélaginu og þá sá ég að allir stærstu útsvarsgreiðendur í hreppnum voru fólk sem alls ekki bjó í hreppnum, það var fólk að sunnan sem hafði hér vinnu og vann hálaunastörf t.d. á stóru spítölunum hérna.

Ég hreinlega skil ekkert í Hafnfirðingum (þar sem Árni býr) og Reykvíkingum að líða þetta. Eru þetta svona sterkefnuð sveitafélög að þeim er alveg sama þó að hátekjufólk búi í sveitarfélaginu en greiði ekki gjöld þangað, gjöld sem eiga að vera burðarásinn í tekjum sveitarfélaga.  Hmmm... ég ætti nú allt að vita um þetta, ég skrifaði ritgerð í viðskiptafræði einmitt um tekjustofna sveitarfélaga.

Best að skrifa bréf til borgarstjórnar og Óskars Bergssonar framsóknarmanns og hvetja hann til að fjölga Reykvíkingum með því að taka á þessu feik-lögheimilismáli. Það er ómögulegt að Reykjavík sé að missa af hellingsútsvarstekjum út af þessu. Mér finnst ómögulegt að fólk sem býr í Reykjavík allt árið séu ekki skráðir þar heldur séu  álfar og huldufólk í Þykkvabænum eða einhverjum öðrum plássum utan landamerkja okkar. 

Hins vegar er ein lausn sem hentar Hafnfirðingum og Þykkvabæingum vel. Það er að sameina þessi bæjarfélög. Þá er Árnavandamálið úr sögunni. Það er líka sameiginlegur þráður hjá báðum þessum byggðakjörnum, það er þessi álfatrú. Það er þó blæbrigðamunur á álfunum í á Huldubókasafninu í Hafnarfirði og þessum sem sýsla við kartöflur í Þykkvabænum. Hafnfirsku álfarnir sjá heimspeki út úr sultutaui og pæla og pæla  en álfarnir í Þykkvabænum, þeir eru  kartöfluálfar sem pæla jörðina og s athafnaálfar sem selja kartöfluflögur og snakk.

En það er nú bara flott núna á ári kartöflunnarTounge 


mbl.is Þingmenn vilja fund vegna jarðskjálfta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á Heiðmörk, Esjuhlíðar og Úlfarsfell?

Það er mjög gleðilegt að umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar hafi gert samning við Skógræktarfélag Reykjavíkur um að planta 460 þús. trjám í Heiðmörk, Esjuhlíðar og Úlfarsfell næstu þrjú árin.

Það er eitt sem stuðlar að betri lífsgæðum í borgum í dag og í framtíðinni hversu mikið þar er um græn svæði, helst sem náttúrulegust útivistarsvæði þar sem fólk getur gengið um og skoðað náttúruna og notið landslagsins og umhverfisins. Gæði borga fara ekki eftir hversu margar keiluhallir og spilakassar og bíóhús eru þar. Fólk metur mikils að vera nálægt útivistarsvæðum. En það er mikil sókn í lóðir í nágrenni borga, bæði sem athafnasvæði fyrir fyrirtæki og til búsetu fyrir fólk. Það er hins vegar bráðnauðsynlegt að reyna að auka útivistarsvæði Reykvíkinga. Það er ekki bara fyrir okkur sem erum búsett hérna, allir landsmenn geta notið okkar útivistarsvæða og þetta hefur mikið gildi fyrir ferðamennsku í Reykjavík. Flestir erlendir ferðamenn koma til Íslands út af náttúru landsins og hafa áhuga á útivist. Það eru náttúrulega  margir staðir á Íslandi þar sem fólk getur farið en flestir eiga það sameiginlegt að þeir staldra hér á landi aðeins skamma stund, stundum aðeins dagpart og stundum nokkra daga. Svo skamma viðdvöl hafa  margir að þeir sjá bara Bláa lónið af því það er sérstæður staður rétt hjá alþjóðaflugvellinum þar sem flestir koma til landsins.

Ok. það er ekki margt í Reykjavík sem getur keppt við Bláa lónið en það eru ekki margar höfuðborgir sem geta stært sig af fjalli inn í sjálfri borginni. Esjan er gimsteinn í Reykjavík, hún verður eflaust þegar tímar líða fram eins mikið kennileiti fyrir þessa borg eins og reykurinn af heitu uppsprettunum sem borgin heitir eftir. Esjan okkar er eins og Table Mountain í Höfðaborg í Afríku.

Himnariki

Mikið af landsvæði í grennd við byggðina í Reykjavík er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, landsvæði sem Orkuveitan hefur keypt til að tryggja jarðhitaréttindi og sem Orkuveitan hefur verið látin kaupa vegna þess að það er stórgróðafyrirtæki og eini aðilinn sem hafði fé til að kaupa jarðir.  Það var gott og blessað á meðan Orkuveitan gætti hagsmuna Reykvíkinga en það  bendir allt til þess að það fyrirtæki sé rekið núna eins og einkafyrirtæki í eigu þeirra manna sem því stýra. Þannig hefur Orkuveitan auglýst jarðirnar Hvammsvík og Hvamm í Kjósarhreppi til sölu.

Ég hef skrifað tvö blogg um þetta

Hvammsvík - framtíðarútivistarsvæði Reykvíkinga og nærsveita

Má selja Hvammsvík án jarðhitaréttinda?

Orkuveitan hefur ekki framtíðarhagsmuni Reykvíkinga að leiðarljósi þegar það fyrirtæki auglýsir þetta stóra útivistarsvæði sem ægifögur jörð við bæjarmörkin á Reykjavík er. Þess má geta Orkuveitan á jörðina Elliðavatn sem mun eiga stóran part af Heiðmörk.

Kannski mun Orkuveitan bráðlega auglýsa sinn hlut í Heiðmörk með svona auglýsingu:

"Fallegt skógarsvæði í Reykjavík til sölu, frábært tækifæri fyrir fjársterka aðila sem vilja koma sér upp sínum einkaskógarreit. Þegar svæðið er girt af til einkanota þá verður eigandinn að passa að nota aðeins umhverfisvænar girðingar sem falla vel inn í landslagið"

 

Hvenær ætli Esjan verði auglýst til sölu?

Kannski auglýsingin væri svona:

"Vertu á toppnum! Lítið notað fjall til sölu, fullt af fallegum trjám sem voru þjóðargjöf Norðmanna til Íslendinga. Gott útsýni frá toppnum yfir byggðina"

Ég var einu sinni í Palestínu og keyrði þar um sveitirnar nálægt Jerúsalem. Leiðsögumaðurinn (danskur prestur) vissi mikið um Landið helga og hann sagði okkur frá því hvernig Gyðingar hefðu keypt upp jarðnæði, jarðnæði sem innfæddum Palestínumönnum datt ekki í hug að hægt væri að selja - eitthvað sem var inngróið í menninguna að væri ekki til sölu.  Þetta var svona stuð tveggja menningarheima, heimsins sem telur réttlæti innsiglast í því að einhver telji sig eiga og selji það sem má ekki selja og reki svo fólkið í burtu. Þannig var fólk flæmt burtu með aðstoð lagabókstafa og með því að veifa einhverjum eignaréttarpappírum, hinir nýkomnu þóttust hafa keypt landið. Einkaeignaréttur og kaup og sala jarðnæðis og lífsgæða tryggir ekki réttlæti.

Fólk í Reykjavík er andvaralaust gagnvart því hver er að sölsa undir sig eignarrétt á því sem skiptir máli til að búa hérna. Það eru trúarbrögð hjá hluta stjórnmálamanna að einkaeign tryggi einhverja betri ráðstöfun á  gæðum heimsins. Þessi  ehf trúarbrögð skila vissulega gróða til einhverra, gróða til þeirra sem ráða yfir gæðunum og sölsa þau undir sig. Þeir sem eru handbendi slíkra aðila fá svo auðvitað einhverjar sposlur fyrir að aðstoða þá við að komast yfir eignir. En það er skrýtið að þeir sem trúa svona á ofurmátt einkaframtaksins og einkaeignar skuli ekki hafa lesið betur mannkynssöguna. Alls staðar þar sem velmegun ríkir eru sterk og rík staðbundin samfélög.


mbl.is Planta 460 þúsund trjám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villti tryllti Villi og viðskiptaplottin í Jesúborginni

Það datt nú reyndar aldrei nokkrum heilvita manni í hug að Vilhjálmur yrði borgarstjóra þegar Ólafur gæfi eftir stólinn. Auðvitað er Hanna Birna þá eðlilegt borgarstjóraefni, hún er skelegg kjarnorkukona og hefur ekkert skandalíserað nema náttúrulega vera ekki fyrir lifandis löngu búin að berja í borðið og heimta leiðtogastöðuna. Það er erfitt að skilja þetta slen, sennilega var þetta allt ákveðið bak við tjöldin því að  Það hefur verið hálfömurlegt að sjá hana og aðra ágæta borgarfulltrúa Sjálfstæðismanna dansa eins og leikbrúður í einhverjum kjartans-villa plottum og stilla sér upp á myndum bak við leiðtogann seinheppna Vilhjálm, vansæl á svip enda að eyða milljarð af fé borgarbúa í húskofarugl. Sérstaklega var seinasti fréttamannafundur Vilhjálms í Valhöll meira klúður en dæmi eru til, það var bara ekki annað hægt en að vorkenna Sjálfstæðismönnum í Reykjavík þá. Það klúður næstum toppaði (eða botnaði) hnífasett-í-bakinu-jakkafatamálið hjá okkur Framsóknarmönnum nema var ekki næstum eins fyndið.

Fyrirsögnin í þessu bloggi á nú ekki við um Vilhjálm fyrrverandi borgarstjóra og fyrrverandi verðandi borgarstjóra heldur er það sótt til skemmtistaðsins sem var við Skúlagötu og hét Villti tryllti Villi.

Núna er í Villta tryllta Villa búið að opna stærsta kúnstgallerý landsins, það heitir  Reykjavík Art Gallery, Skúlagötu 30.

Ég brá mér á opnun þar á laugardaginn, þar voru nokkrir listamenn að sýna verk sín. Ein verkið sem sýnt var heitir "Bisness as usual in the City of Jesus" eftir Ómar Stefánsson.  Ómar segir um það verk:

Umrædd mynd á yfirstandandi sýningu er byggð á endurminningum frá New York. „Já, ég lá þarna á einhverjum grasbala með vini mínum sem var í námi. Var að fylgjast með aðalstöðvum Votta Jehóva. Þarna voru brýr milli húsa og vottarnir á fleygiferð, klæddir eins og þeir eru klæddir með skjalatöskur. Þetta var eins og risastór banki. Þetta var sýn fyrir sveitamanninn. Ég notaði þetta og breytti í fantasíu. Kristileg þemu mörg sem hrærast saman og hvert ofan á annað." (Sjá hérna  Ómar ögrar með málverki )

Málverk e. Ómar Stefánsson í bakgrunni

Hér er tvær myndir frá sýningunni, verk Ómars er í bakgrunni.

Málverk e. Ómar Stefánsson

Ég hitti á opnuninni bekkjarsystur mína frá því í barnaskóla, Ólöfu. Maður hennar Pétur Halldórsson var að sýna verk, hér stendur Ólöf við eitt verka hans sem heitir Kambar ef ég man rétt. Ólöf við málverk e. Pétur Halldórsson

Pétur er sonur Halldórs Péturssonar okkar frábæra teiknara. Ég skrifaði þessa grein um Halldór á Wikipedia.

Það er gaman að bera saman verk Péturs og föður hans, báðir frábærir listamenn og verkin endurspegla að einhverju leyti samtíð þeirra og það samfélag sem þeir búa í. Verkin segja okkur heilmikið um lífssýn listamannanna.  Faðir Halldórs og afi Péturs var Pétur Halldórsson sem var borgarstjóri í Reykjavík á árunum 1935 til 1940.  

 Hmmm... Ég sé að Pétur Halldórsson  er eini borgarstjórinn sem ekki er búið að skrifa grein eftir inn á íslensku wikipedia, best að ég byrji á því að skrifa þessa grein.

Það er þegar komin grein um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur inn á Wikipedia. Þegar hún verður borgarstjóri þá þarf bara að bæta í greinina um hana skipuninni [[flokkur:Borgarstjórar Reykjavíkur]]  og bæta tengingu neðst í greinina Borgarstjóri Reykjavíkur.

Hvernig ætli það verði svo eftir 70 ár. Ef til vill verða afkomendur borgarstjóranna fyrrverandi og verðandi borgarstjóra þeirra Vilhjálms, Ólafs og Hönnu Birnu kannski listamenn að lýsa samtíma sínum og listrýmið sem þau sýna í er eitthvað rými sem við tengjum ekki við list í dag.

Núna í dag er listin í gömlu pakkhúsi (Hafnarhúsinu) og gömlu íshúsi (Listasafn Íslands). Kannski verður Kringlan þá orðin listamiðstöð. Alla vega er nú listin að fikra sig áfram inn í Verslunarskólann, Sölvi leiðir þar stofnun á listgreina menntaskóla.


mbl.is Hanna Birna oddviti strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er Vatnajökulsþjóðgarður stór?

Mér finnst óþolandi að vita ekki hvort Vatnajökulsþjóðgarður er 13% af Íslandi eða 15% af Íslandi eða hvort hann nær yfir 13 þús eða 15 þús. ferkílómetra. Ég nefnilega held áfram iðju minni að skrifa greinar inn á Wikipedia og þar verða upplýsingar að vera réttar og nákvæmar, ekki síst þegar maður er að montast með að þetta sé stærsti þjóðgarður í Evrópu. Það er ekki trúverðugt ef maður veit svo ekki hvað þjóðgarðurinn er stór. Hérna er íslenska greinin sem ég skrifaði á wikipedia um Vatnajökulþjóðgarð og hérna er grein sem ég var að enda við að skrifa á ensku wikipedia um Vatnajökull National Park.

Mér finnst þeir aðilar sem hafa það sem hluta af vinnu sinni að fræða bæði Íslendinga og erlenda tilvonandi ferðamenn um Ísland passi ekki nógu vel upp á hvað Wikipedia er mikilvæg heimild og byrjunarreitur fyrir ferðamenn og almenning og hve mikilvægt er að þar séu upplýsingar réttar og nægar um helstu ferðamannastaði og náttúruvætti. Google notar Wikipedia mikið og greinar í Wikipedia poppa oft efst í leit. Þannig fletti ég upp orðinu Vatnajökulsþjóðgarður áðan á Google og sé að wikipedia greinin sem ég skrifaði  og hef verið að breyta kemur efst og svo þar á eftir þá kemur tilkynning um frá umhverfisráðuneytinu um rútuferðir á stofnhátíðina.  

Ég held að þessu rútuferðatilkynning sé gagnleg fyrir marga í dag en það er miklu mikilvægara upp á ferðamennsku og náttúruvernd á Íslandi að þeim sem gúgla,sem eru sennilega allir  sem leita að upplýsingum á Netinu af Íslandi, sem beint á einhverjar bitastæðar upplýsingar.

Svo tók ég eftir að það var ekki komin nein grein á ensku wikipedia um Vatnajökulþjóðgarð og ekki búið að breyta neitt greinunum um Skaftafell og Jökulsárgjúfur þ.e. segja að þær myndu falla undir Vatnajökulsþjóðgarð. 

Á síðum hjá umhverfisráðuneyti er talað um að Vatnajökulsþjóðgarður verði 15 þús en á síðu hjá Icelandic Tourist board stendur að hann sé 13 þús ferkílómetrar. Mig grunar að það sé stefnt að því að þjóðgarðurinn verði 15 þús en sé núna við opnun 13 þús. Ég hins vegar sé það hvergi skrifað og  veit ekki hvora töluna ég á að taka með. Það eru líka afar litlar upplýsingar fyrir almenning um Vatnajökulsþjóðgarð á vefsíðu umhverfisráðuneytis, undarlega litlar miðað við hversu merkilegur þessi nýi þjóðgarður er, ekki bara fyrir Ísland heldur fyrir allan heiminn. Af hverju er ekki komið sérstakt vefsetur um þjóðgarðinn?

Ég sé nú reyndar á síðu hjá Iceland Tourist Board að þar benda menn á ensku Wikipedia greinina um Vatnajökull. Því spyr ég eins og fávís kona: Af hverju skrifa ferðamálayfirvöld bara ekki greinar sjálfir inn á ensku wikipedia eða fá kunnáttumenn til að þess  og/eða vakta hvort upplýsingar séu réttar í wikipedia greinum og hvort þeim sem gúgla sé beint á bitastæðar upplýsingar t.d. af hverju var ekki búið að skrifa grein á ensku um Vatnajökulsþjóðgarð í dag?

Ég verð svolítið  pirruð yfir þessu óvissa  2% af Íslandi (15 % - 13%) og tek ekki gleði mína á ný fyrr en ég veit nákvæmlega upp á fermetra hvað Vatnajökulsþjóðgarður er stór í dag á stofndaginn. Þetta er einhver töluþráhyggja, ég þoli ekki ónákvæmar og misvísandi tölur þar sem þær gætu verið nákvæmari. 

En til hamingju Íslendingar og allur heimurinn  með Vatnajökulþjóðgarð! 


Hvammsvík - framtíðarútivistarsvæði Reykvíkinga og nærsveita

 Nú hefur Orkuveitan auglýst Hvammsvík til sölu en undanskilur jarðhitaréttindi. Eftir því sem ég veit þá er það ekki leyfilegt, ég hélt að jarðhiti væri hlunnindi á jörðinni og að hlunnindi mætti ekki selja eða undanskilja sérstaklega frá jörðum. En hvað veit ég, hið öfluga fyrirtæki Orkuveitan hlýtur að hafa leitað til hers lögfræðinga og ekki veit ég betur en forstjórinn þar sé lögfræðingur. Óskað er eftir tilboðum fyrir lok dags 18. júní.

Himnariki

Ég skrifaði fyrir nokkru bloggið Má selja Hvammsvík án jarðhitaréttinda?

Það má deila um hvort eðlilegt sé að Orkuveitan eigi Hvammsvík, mér hefði þótt eðlilegt að sú jörð heyrði beint undir  bReykjavíkurborg og væri í eigu og undir stjórn sama apparats og á Heiðmörk og önnur útivistarsvæði.  Það er Skógræktarfélag Reykjavíkur sem hefur umsjón með Heiðmörk. Hugsanlega er þessi söluauglýsing á Hvammsvík til málamynda til að fá fram hversu mikils virði jörðin væri ef hún væri selt í dag. 

En ég ætla að vona að það  sé ekki ætlunin að selja Hvammsvík til auðmanna sem geta lokað fyrir allt aðgengi almennings að þessari náttúruparadís. Jörð á ægifögrum stað nánast við borgarlandið er fjársjóður Reykvíkinga og miklu meira virði að slík jörð sé í eigu Reykvíkinga en nokkrir gamlir húskofar við Laugaveginn. Þó ég hafi ekki verið sátt við að borgarstjóri spreðaði milljarði af fé borgarbúa til að kaupa upp húskofa þá virði ég núverandi borgarstjóra fyrir að vera umhverfissinna og vilja varðveita menningarminjar.  En til hvers á að vernda umhverfið og náttúruna? Á Ísland að vera leikvangur og einkaparadís þeirra sem hafa ógrynni fés milli handa? Á að miða náttúruverndarstefnu á Íslandi við að  allt sé sem ósnortnast og flottast fyrir þá sem eiga fé og geta keypt sér aðgang? 

Ég  hringdi áðan á skrifstofu Skógræktarfélags Reykjavíkur og talaði við  framkvæmdastjórann og spurðist fyrir hvað félagið ætlaði að gera varðandi þetta. Ég stóla á að  öflug félagssamtök eins og Skógræktarfélagið gæti hagsmuna Reykjavíkinga í þessu máli,  það virðist enginn annar ætla að gera það. Ég ætla líka að skrifa bréf til stjórnar félagsins. Best ég skrifi líka borgarstjóra og borgarstjórn um hversu alvarlegt það er ef Hvammsvík fer úr eigu borgarbúa í hendur á einhverjum auðmanni sem vill hafa svæðið fyrir sig og ráða aðgengi almennings þar eða í hendur spákaupmanna sem ætla að búta þetta svæði niður í lóðir eða til aðila sem vilja búa þarna til  "country club" að amerískri fyrirmynd. 

Hvammsvík getur orðið önnur Heiðmörk, þetta er jörð við bæjarmörkin í Reykjavík og held ég að Kjósarhreppur hljóti þegar tímar líða fram að sameinast öðrum sveitarfélögum og það gæti farið svo að Hvammsvík yrði hluti af Reykjavík og að samgöngur þar yrðu þægilegar og ódýrar fyrir borgarbúa. Fyrir efnalítið fólk og börn er mikilvægt að hafa útivistarparadísir sem næst borginni, helst þannig að þangað sé hægt hjóla eða taka strætó. Hvammsvík hlýtur líka að geta verið afar verðmæt sem útivistarsvæði fyrir börn og svæði til útikennslu fyrir grunnskólana í Reykjavík. Á jörðinni er margs konar gróðurríki og hún nær  fjöru til fjalls og þar eru tjarnir og klettar og fjölbreytt landslag og gríðarfallegt. 

Það er afar mikil skammsýni að vilja selja þessa jörð úr hendi Reykvíkinga.

Landnúmer Hvamms er 126107 og Hvammsvíkur er 126106 .

Lönd jarðanna Hvamms og Hvammsvíkur liggja á strönd Hvalfjarðar gegnt Ferstiklu og Saurbæ vestan Hvalfjarðar. Landamerki liggja að merkjum við Háls/Neðri Háls til suðurs og vesturs og Hvítaness til austurs. Á Reynivallahálsi liggja merkin á vatnaskilum gegnt Neðri Hálsi og Valdastöðum 1 og II.

Hér eru glefsur um Hvammsvík og Heiðmörk og Esjuhlíðar

Mbl. 25. apríl, 2002 :

Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að jarðirnar Mógilsá og Kollafjörður verði að mestu útivistarsvæði en þær eru um 1000 hektarar að stærð. Þetta svæði er þegar mjög vinsælt enda hefst helsta gönguleiðin upp á Esjuna þar. Skógræktarfélag Reykjavíkur gerði samning við landbúnaðarráðuneytið, sem er eigandi jarðanna, um þessa uppbyggingu og mun hafa umsjón með því verki. "Ljóst er að félagið þarf að leita stuðnings við það verk og er vonast til að hægt verði að fá fyrirtæki og félög til að koma að verkefninu," sagði Vignir. Við Hvammsvík í Kjós er annað svæði sem kallast Hvammsmörk, sem er eign Orkuveitu Reykjavíkur. Þar hefur verið skipulagt skógræktarsvæði, sem félagið hefur umsjón með samkvæmt samningi við orkuveituna. "Í Hvammsmörk höfum við verið að deila út landspildum til félaga og einstaklinga og þar er markmiðið að byggja upp útivistarsvæði, með gönguleiðum, áningarstöðum og annarri aðstöðu."

 

Ársskýrsla Skógræktarfélags Reykjavíkur 2006:

Framlag borgarinnar í dag er um 22 milljónir kr. til reksturs Heiðmerkur, svæðis sem er 31 km2 að stærð, en til samanburðar er allt byggt svæði borgarinnar, auk allra annarra grænna svæða, um 38 km2 (Austurheiðar ekki meðtaldar). Samkvæmt Gallupkönnun haustið 2004 kom í ljós að Reykvíkingar heimsóttu skóglendi 900 þúsund sinnum á hverju ári. Samkvæmt nýrri Gallupkönnun eru heimsóknir Reykvíkinga í Heiðmörk um 335.000. Ef gert er ráð fyrir að sama hlutfall annarra íbúa
höfuðborgarsvæðisins heimsæki Heiðmörkina eru það um 530.000 heimsóknir á ár
i. 

Grein - Byggð skipulögð í Hvammsvík - mbl.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband