Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Um meðferð sláturdýra, lotningu fyrir tölfræði, Nasista og fatlað fólk

Ég les stundum  um uppgang Nasista í Þýskalandi og  reyni að skilja hvað gerðist og hvers vegna það gerðist.  Það er áhugavert í því sambandi að skoða hver setti fram upplýsingar og hvernig var þeim miðlað, hver safnaði saman upplýsingum og hvaða upplýsingum var safnað saman. Hvaða hlutverk höfðu fræðimenn og listamenn, hvaða fræðimönnum og fræðikenningum var hampað?

Við höldum oft  að tölfræðiupplýsingar séu ópólitískar, við höldum að  línurit og súlurit og ýmsar tölulegar upplýsingar sem birtast okkur séu meiri sannleikur en frásagnir sem ekki eru settar í búning talna. Við höldum líka að tilgangur þess að safna saman upplýsingum, að kortleggja stöðuna sé markmið í sjálfu sér.

Samt erum við minnt á það á hverjum jólum í jólaguðspjallinu að þannig er staðan ekki, sá sem safnar upplýsingum og gögnum  um samfélagið er sá sterki og voldugi og tilgangur þeirrar gagnasöfnunar er fyrst og fremst að tryggja áframhaldandi völd hins volduga og undirokun hinna valdalausu.  Í jólaguðspjallinu segir að  boð hafi komið  frá Ágústusi keisara um að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.  Svona keisaraleg skráning hafði aðeins þann tilgang að auka eða viðhalda valdi keisarans og kortleggja skattsvæði hans og var grundvöllur undir mögulegar skatttekjur.

Barnið sem fæddist í skrásetningarferðinni sem tímatal okkar miðast við beygði sig líka undir þetta vald þegar það óx að viti og sagði fullorðinn maður  "gjaldið keisaranum það sem keisarans er"  vitandi að  aðeins ein örlög biðu þess sem gekk í berhögg við keisarann og með svona slægvisku leið lengri tími þar til trúboðið var talið svo hættulegt  andóf að andófsmaðurinn var tekinn af lífi. Maðurinn sem boðaði að keisarinn ætti að fá sinn skerf var síðar tekinn af lífi með krossfestingu, með ægilegri pyntingu öðrum til viðvörunar.

En líflát þeirra sem óæskilegir eru taldir af valdhöfum fyrir samfélagið  hefur  ekki alltaf farið  fram með pyntingum. Stundum hefur það farið fram á laun og án þess að fórnarlömdin vissu örlög sín fyrr á dauðastundinni. Nasistar reyndu að finna upp sársaukalausar fjöldaaflífunaraðferðir með gasi og haga því þannig til að þeir sem voru teknir af lífi vissu ekki af því áður, héldu að þeir væru að fara í sturtu og vissu ekki fyrr en skrúfað var frá gasinu í gasklefunum.  Nasistar æfðu sig lengi, lengi áður en fjöldaútrýming á Gyðingum hófst.

nasistar-erbkranke1936_851718.jpg

Þeir æfðu sig á fötluðu fólki og byggðu upp hugmyndafræði þar sem genatískur hreinleiki var eitt meginþemað og þar sem réttur til lífs var skilgreindur sem eitthvað sem þegnarnir ynnu til og þess vegna hefði mikið fatlað fólk ekki rétt til lífs. Þessi hugmyndafræði var í anda fræðimanna eins og Karls Binding og Alfred Hoche sem gáfu árið 1920 út rit sem réttlætti útrýmingu þess lífs sem ekki þætti þess virði að því væri lifað.

Hér fyrir ofan er áróðursmynd frá áróðurskrifstofu þýska ríkisins árið 1936 sem segir að kostnaður við umönnun  880,000 einstaklinga með erfðatengda sjúkdóma sé 1200 milljón ríkismörk og  tvöfalt meira en það sem notað sé í stjórn ríkis- og sveitarstjórna.

Fyrir mörgum árum  kom bandarísk fræðikona í heimsókn í skólann sem ég vinn. Það koma margir fræðimenn í heimsókn en þessi var sérstök, hún sérhæfði sig í að rannsaka hvernig hægt væri að aflífa dýr á sem stresslausastan og sársaukaminnstan hátt, var að hanna einhvers konar brautir fyrir sláturdýr. Það var nú ekki það sem var sérkennilegast við hana heldur það að hún hafði sem ungt barn verið greind  einhverf en tekist með aðstoð foreldra og góðs umhverfis að ná þannig tökum á lífi sínu að hún hafði skrifað bækur og lokið doktorsnámi. Hún heitir Temple Grandin og ein bóka hennar  "Dyrnar opnast - Frá einangrun til doktorsnafnbótar" hefur verið þýdd á íslensku.

Ég hef spáð mikið í hvers vegna hún valdi að sérhæfa sig í þessu viðfangsefni. Ég las á sínum tíma viðtal við hana en skildi samt ekki alveg röksemdir hennar fyrir að  helga sig sérstaklega að hanna útbúnað fyrir  aflífun dýra. Ég  sé á myndbandinu að  hún telur samkennd milli sín og kúa vegna þess að líf hennar sem einhverfrar hafi snúist um ótta og þess vegna skilji hún kýr.  Ég held hins vegar að það geti verið  önnur ástæða, ástæða sem kemur ekki eins vel út fyrir hana að segja, ástæða sem er einhvers konar vöntun á samhygð með öðru lífi  - vöntun á samkennd með öllu sem dregur lífsanda.

Hugsanlega  er viðhorf Temple Grandin til sláturdýra af sama meiði og viðhorf Nasista voru til fatlaðs fólks.Hún skynjar ótta sláturdýranna og tilfinningar þeirra en hún finnur ekki til með þeim.

Hér eru tvö myndbönd um konuna sem hugsar eins og kú:

Heimild

Whats in the stimulus that scares me most


Er hætt að selja Vodka?

Ég vek athygli á tveimur bloggum sem ég hef skrifað á undanförnum árum þar sem ég hef gagnrýnt ferðamálayfirvöld og þá sem markaðssetja Ísland á erlendri grundu. Ég gagnrýndi þá að forseti Íslands og Ísland væri notað til að markaðssetja hluti sem mér finnst ekki hafa neina tengingu við Ísland og ýttu undir mannlega harmleiki.

mbl.is Tveimur skrifstofum Ferðamálastofu lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dharavi

 dharavi1.jpgDharavi er slömm í borginni Mumbai (Bombay) í Indlandi. Áætlað er að í því slömmi búi um 800 þúsund manns en í borginni allri búa 11 milljónir og er helmingur íbúanna búsettur í hinum ýmsu slömmum. Dharavi er næststærsta slömmið í Asíu. Það er frægt núna gegnum myndina Slumdog Millionaire

Það er gaman að skoða slömm á Google maps, hér má sjá hvernig slömmið umlykur skipulögðu svæðin, eitt einkenni á slömmum er að húsin þar eru reist í óleyfi fyrir utan allt skipulag:  Dharavi - Google Maps

Dharavi var einu sinni eyja þar sem áður var mangrove fenjasvæði, svæði þar sem fiskimenn af Koli stétt bjuggu. Síðan fluttu þangað margir aðrir. Flestir íbúar Dharavi eru Dalítar.

Meira um Dharavi:

Photo Essay: India's Real-World Slumdogs

Dharavi - Photo Gallery - National Geographic Magazine

 Dharavi - National Geographic Magazine

Núna er svínaflensan að stinga sér niður á Indlandi. Það getur verið að svoleiðis sjúkdómar breiðist mjög hratt út á svæðum eins Dharavi, svæðum þar sem fæstir hafa eigin salerni. Flestir hafa þó rennandi vatn og næstum allar fjölskyldur hafa sjónvarp. 

Um aldamótin 1900 herjaði farsótt í Mumbai Þetta mun hafa verið plága af sömu sort og Svarti dauði.

 


mbl.is Óttast að smitaðir séu 100.000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlegð Íslands - hafsvæðin

 Nú stendur yfir mikil barátta um yfirráð yfir hafsvæðum heimsins. Ríki geta gert tilkall til miklu stærra svæðis en 200 mílna frá landi, þau geta gert tilkall til yfirráða yfir sjávarbotninum á svæði sem er allt að 350 mílur frá landi en það verður að landgrunn. Þessu fylgir þá réttindi yfir allri vinnslu málma og olíu og sjávardýra á botninum en ekki fiskistofnum. 

Ísland hefur gert tilkall  tilkall til landgrunnsvæða

Ísland er eitt af þeim ríkjum sem hefur lögsögu yfir hafsvæðum Norðurslóða, því svæði þar sem talið er að gríðarlegar auðlindir sé að finna.

Hér er skýringarmynd (úr Economist) sem sýnir skiptinguna milli ríkja:

 

 

Sjá  nánar þessa grein í Economist:

 Suddenly, a wider world below the waterline

 


Betri stofur með útsýni út á Esjuna

Ég las í Morgunblaðinu í dag  um byggingu Tónlistarhússins, um peningahítina sem núna er eitt helsta  atvinnuskapandi verkefni á höfuðborgarsvæðinu  en verður fyrir mér ekki annað en líkhús þeirrar hugmyndafræði sem hér réði ríkjum fyrir Hrunið og minnisvarði um samfélag þar sem fólk skiptist í valdalausan almúga, gamalt ættarveldi á brauðfótum og nokkra fjárglæframenn og  óhæfa stjórnsýslu og ríkisstjórn sem dinglaði eins og strengjabrúður í spottum fjárglæframanna, fjárglæframanna sem afhentar voru peningargerðarvélar samfélagsins, vélar sem þeir notuðu til að byggja upp fjárhagslegar svikamyllur sem gerðu þeim kleift sölsa undir sig atvinnufyrirtæki á Íslandi og leggjast í víking erlendis út af peningastefnu sem öskraði á vaxtamunaviðskipti.

Þegar spilaborgin hrundi eins og hún hlaut að gera fyrr eða síðar þá hrökkvum við upp almenningur á Íslandi og erum á einhvern hátt sem við skiljum ekki orðin ábyrgðarmenn fyrir alþjóðlegum fjárglæfrum, fjárglæfrum sem við hefðum aldrei samþykkt ef við hefðum haft vitneskju um hvað væri að gerast.

En mér finnst átakanlegt að lesa um þetta fína glanshús, lesa um að núna séu ríki og bær að byggja hús sem alls ekki er hannað fyrir íslenska alþýðu heldur stásshús á einum besta stað í Reykjavík, hús sem er hannað fyrir  einhverja hástétt, hús það sem eru VIP stofur, hús sem byggir á sömu hugmyndafræði og skipting fólks í þá sem eiga og hafa völd og þá sem eiga ekki og hafa ekki völd, skiptingu í þá sem ferðast á fyrsta og öðru farrými í flugvélum, skiptingu í þá sem mega sitja í betri stofum á flugvöllum, skiptingu sem meira segja gekk svo langt að það átti að búa hérna til röð ríka fólksins með einkavæddri löggæslu á flugvöllum

Það er engin trygging fyrir því að hérna spretti ekki upp spilltur forréttindaaðall að hér sé vinstristjórn, það þarf bara að skoða sögu fyrrum kommúnistaríkja til þess.  Fyrir hrun Ráðstjórnarríkjanna var kerfið þar orðið gjörspillt,  það voru sérstakar dollarabúðir þar sem innlend valdastétt mátti versla og gat verslað munaðarvarning sem ekki fékkst annars staðar. Valdastéttin í Sovétinu hafði mörg hlunnindi sem alþýðu bauðst ekki og þar var ástandið líka þannig að hún réði allri fjölmiðlun og allri löggæslu í landinu og kæfði niður allt andóf.

Vel upplýstur almenningur sem lætur sig stjórnmál varða og tekur þátt í þeim og öflug stjórnarandstaða getur hindrað að hér byggist aftur upp kerfi þar sem fáir kúga og arðræna fjöldann. Eitt það mikilvægasta er að almenningur hafi aðgang að upplýsingum og þá ekki bara að upplýsingum sem matreiddar eru ofan í hann af ríkjandi stjórnvöldum og málpípum þeirra, heldur óheft flæði af upplýsingum og þekkingu sem viðað er sem víðast að.

Stjórnvöld byrja að blekkja nánast áður er þau skrifa undir sína eiðstafi, við sjáum það á núverandi ríkisstjórn sem núna passar sig á því að upplýsa okkur ekki um hve staðan er alvarleg í atvinnumálum og skuldamálum þjóðarinnar, sennilega réttlætir þessi ríkisstjórn það með því að segja að það sé mikilvægt að koma fram full af bjartsýni og tala kjark í fólkið.  Svona hafa allar ríkisstjórnir verið og átakanlegast er náttúrulega þegar fyrri forsætisráðherra og utanríkisráðherra fóru erlendis til að sannfæra heimsbyggðina og okkur  um að hér væri allt í góðu með íslensku bankanna, þannig blekktu þau umheiminn og þannig blekktu þau líka Íslendinga.  

Við þurfum ekki stjórnvöld  til að tala í okkur kjark og  við þurfum ekki meiri blekkingar. Við þurfum heiðarleg stjórnvöld sem vinna með fólkinu, ekki bara kjósendum sínum og þeim sem gefa fúlgur í flokkssjóði, við þurfum framsýn stjórnvöld sem skilja gangverk atvinnulífs og hvernig þar er að breytast með tækni og alþjóðavæðingu, stjórnvöld sem geta samhæft átak margra og við þurfum stjórnvöld sem skilja og skynja að þó Ísland sé eyland á landakorti heimsins þá er íslenskt samfélag og íslenskt atvinnulíf ekki eyland, það er samofin og samflækt hagkerfi og mannlífi alls heimsins og áföll sem dynja yfir annars staðar munu einnig keyra okkur niður.

Við þurfum líka stjórnvöld sem skilja og skynja að Ísland er staðsett í útjaðri  svæðis sem verður mikið átakasvæði á næstu árum eða áratugum og Ísland hefur auðlindir sem aðrir girnast. Við þurfum stjórnvöld sem selja ekki þegna sína í ánauð og selja frá þeim allt sem getur orðið þeim til bjargar. Við þurfum stjórnvöld sem átta sig á breytingum á valdajafnvægi í heiminum og haga utanríkisstefnu út frá því. Við þurfum líka stjórnvöld sem blekkja ekki almenning með því að látast ráða einhverju sem þau ráða alls ekki og við þurfum stjórnvöld sem viðurkenna að þau ráði ekki við ástandið nema í samvinnu við almenning og  ýmsar stofnanir og félagasamtök í landinu. Við þurfum stjórnvöld sem vinnur með og fyrir fólkið í landinu en skynjar ekki almenning sem sinn helsta óvin.

Við þurfum stjórnvöld sem átta sig á því að allra mikilvægast á svona krepputímum er að jafna lífskjör og aðstöðu þá deilast byrðarnar jafnar niður og þá er minni hætta á ólgu og uppþotum og þá er líka minni hvati í hatramma kjarabaráttu. Einn liður í því er að hækka skatta á tekjur yfir ákveðnu hámarki, ekki eingöngu til að auka tekjur ríkissjóðs heldur til að draga úr misskiptingu vinnunnar.

Það samfélag sem nú síðustu mánuði hefur myndast á Íslandi er samfélag gífurlegrar misskiptingar, misskiptingar milli þeirra sem hafa vinnu og þeirra sem hafa ekki vinnu.  Það er reynsla allra annarra þjóða að það er stórkostleg samfélagsleg hætta í miklu atvinnuleysi að fólk sem er lengi atvinnulaust fari ekki aftur út á vinnumarkað. Þetta kerfi sem er núna býr til gjár milli þeirra sem hafa vinnu og þeirra sem eru atvinnulausir. 

Það eru margar aðgerðir sem stjórnvöld í samvinnu við aðra geta gripið til sem geta deilt vinnumagni í samfélaginu. Ein er sú að gera með óbeinum hætti mjög dýrt fyrir fólk að vinna mikið og vinna eftirvinnu t.d. með aukinni skattprósentu. Önnur leið væri að minnka vinnuvikuna í samvinnu við stéttafélög. Þriðja leiðin væri að gefa ákveðnum aðilum á vinnumarkaði í opinberri þjónustu orlof þannig skilyrt að stofnunin réði fólk af atvinnuleysisskrá í staðinn. Fjórða leiðin væri að taka upp styrkjakerfi í sambandi við nám og auka námsframboð. Það er miklu hagkvæmara fyrir samfélagið að hafa fólk í uppbyggilegu námi heldur en iðjulaust á atvinnuleysisbótum.

Fimmta leiðin er að setja á stað atvinnubótavinnu og atvinnubótaverkefni sem í dag heita atvinnusköpunarverkefni eða átaksverkefni en ég vara eindregið við að það verði atvinnubótavinna sem felst í að byggja hús, allra síst skrauthús sem verða peningahít um aldur og æfi eins og tónlistarhúsið. Við höfum allt of mikið af húsum, það getur vel farið svo að Reykjavík skreppi saman og íbúum hér á landi fækki.

En við þurfum áfram um langan aldur umferðarmannvirki og hafnarmannvirki, við þurfum öðruvísi infrastrúktúr svo sem  léttlestir og  aðstöðu fyrir rafmagnsbíla, við þurfum orkuver, við þurfum fallegt vel við haldið umhverfi, við þurfum almenningsgarða, útivistarsvæði og torg.  Við þurfum ekki að fylla upp í rústasvæðin með nýjum gagnlausum húsum, við þurfum meiri náttúru, meira umhverfislandlag og fallegri og stílhreinni borg. Umhverfisframkvæmdir og fegrun borgarsamfélagsins getur verið arðbær ef horft er til þess að það mun ráða hvar fyrirtæki setja sig niður og hvar ferðamenn koma hversu góð aðstaða er þar.

Við þurfum líka að byggja upp nýsköpun á sviði þekkingar, við ættum að nota tækifærið í dýpstu hyljum kreppunnar þegar vinnuafl er nóg til að byggja upp þá grunna sem við gætum og munum líklega byggja á blómlegan atvinnurekstur þegar ísköldum vetri  fjármálakreppunnar lýkur. Við þurfum að búa til  öðruvísi infrastrúktúr í atvinnulífi, það er allt öðruvísi samspil birgja, neytenda og framleiðenda núna.

Við þurfum atvinnulíf og samfélag sem byggir á samvinnu, ekki samkeppni.

 

 


mbl.is Tónlistarhús 650 millj dýrara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur mannréttinda og fjölmenningar

Í dag er mikill hátíðisdagur. Fyrst voru mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar veitt og svo núna síðdegis þá er fjölmenningarhátíð. Svo er líka listahátíð og borgin iðar af list og fjölbreytileika. Ég sit í Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar og fór  í Höfða í morgun þar sem Hanna Birna veitti verðlaunin. Það var Rauði kross Íslands sem hlaut verðlaunin í ár.

Ég spjallaði  við Hólmfríði sem var hjá Rauða krossinum við flóttamannaaðstoð. Hún rifjaði upp hvernig hefði verið að fara til fyrrum Júgóslavíu 1996 og taka viðtöl við fólkið sem þá dvaldi í flóttamannabúðum. Fólkið hafði verið rekið í burtu frá heimkynnum sínum, mátti ekkert taka með sér, þurfti allt að fara strax og þeir sem urðu eftir voru drepnir. 

Ég ætla alla vega í dag að hugsa til allra þeirra sem eru í flóttamannabúðum í heiminum.  Vissulega er vandi hælisleitenda hérna á Íslandi mikill og vandi þeirra er okkur sýnilegur en við gleymum oft að það eru gríðarlega margir sem eru lokaðir allslausir inn í gettóum flóttamannabúða víðs vegar um heiminn, stundum eru heilar kynslóðir sem alast þar upp. Stundum er þetta fólk sem hefur verið gert ríkisfangslaust og getur ekki snúið aftur til heimila sinna en enginn veitir því ferðafrelsi.


mbl.is Rauði krossinn fær verðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdalaust þing og þjóðríki sem er að liðast í sundur

Það er sama hve mikinn fagurgala Ólafur Ragnar forseti leggur í þingsetningarræðu sína, hann nær ekki að breiða hulu skrúðorða yfir það að Alþingi er  valdalaust og vanmáttugt apparat sem stimplar lög frá Brussel. Nokkrir þingmenn eru ráðherrar  í ríkisstjórn,  þar liggja völdin. Ríkisstjórnin er líka vanmáttug, hún rekst fyrir vindum og öflum sem eru sterkari en þau rifnu og götóttu segl sem íslenska þjóðarskútan reyndir að sigla undir. Á næstunni verður  engin sigling, ennþá sést ekkert til lands og þetta gengur bara út á að halda sér á floti, að sökkva ekki.

Svo er það með þjóðina sem forsetanum verður tíðrætt um, hver er hún þessi þjóð? Eru það þau sem samþykkja að vera skuldarar fyrir Icesave skuldunum? Eru það þau sem krjúpa höfði og dásama þá sem seldu þá og afkomendur þeirra í skuldaánauð? Eru það þau sem núna undirbúa flutning úr landi? Eru það þau sem núna koma hingað frá löndum sem eru verr stödd en Ísland? Eru það þau 49.3 % kjósenda sem kusu þá ríkisstjórn sem núna situr? 

Það eru mörg  teikn sem eru á lofti um að íslensk þjóð sé að liðast í sundur, ekki að splittast upp í tvær fylkingar með eða móti EBE, satt að segja er uppflosnunin og sundurliðunin meiri en það. Það má líka spyrja, hversu mikilvægt er að halda í þjóðríki sem er feyskið ættbálkasamfélag. Einu sinni geystust Jón Baldvin og Ólafur Ragnar um Ísland og fluttu fyrirlestra sem hétu að mig minnir "Á rauðu ljósi", fyrirlestra sem fjölluðu um fjölskyldurnar fjórtán eða þá sem áttu Ísland. Undanfarin ár hefur Ólafur Ragnar farið yfir á gulu ljósi, hann hefur geyst fram með útrásarvíkingum og þeim sem áttu aldrei Ísland, bara stálu því og skildu eftir skuldirnar og rúið orðspor. Núna í dag er stór dagur fyrir forsetann. Hann blessar núna rauða ríkisstjórn, ríkisstjórn undir forustu flokksins sem hann leiddi á sinni tíð.  Ég óska þessari ríkisstjórn farsældar og ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en þau sem í henni sitja reyni hvað þau geta til að skútan  sökkvi ekki.

mbl.is Þjóðin tók valdið í sínar hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byltingartólið Twitter og morðið á Rodrigo Rosenberg

Rodrigo Rosenberg var myrtur í Guitemala City fyrir fimm dögum. Ástandið er þannig þar í landi að margir eru myrtir, Rosenberg var lögfræðingur og vann að máli fyrir Khalil Musa  og dóttur hans Majorie Musa. Þau voru bæði myrt í mars síðastliðnum. Ég hefði ekki vitað af þessum morðum nema út af því að  í gær þá las ég á twitter straumi að  twitter notandi í Quatemala hefði verið handtekinn fyrir að pósta twít þar sem hann ráðlagði fólki að taka fé út úr tilteknum banka í Guatemala og varaði við spillingu í landinu. Þegar ég skoðaði þetta betur þá kom í ljós að þetta mál var meira en óánægður twitter notandi að rægja banka,  þetta var andóf margra en  frá morðinu á Rosenberg þá hafa twittarar í Guatemala og víðar í Suður-Ameríku skrifað um málið og merkt skrif sín með #escandalogt. Þau voru þannig að halda uppi andófi og vekja athygli á morðinu á Rosenberg.

Rosenberg tók upp ávarp áður en hann var myrtur og í ávarpinu segir hann: "Ef þú ert að hlusta á þessa upptöku þá hef ég verið myrtur", hann ásakar í því myndbandi  forseta Guatemala, forsetafrúna og menn þeim handgengna um að hafa staðið fyrir morðunum.  Hér er upptaka með Rosenberg á Youtube:

FBI mun nú rannsaka morðið á Rosenberg.

Í gær leitaði ég í twitterstraumum (leitaði í http://search.twitter.com) að því sem merkt var #escandalogt og fann strax að einhverjir voru að senda beint út á ustream.tv, það voru beinar útsendingar af uppþotum sem mér virtust með alvarlegri undirtón en hin íslenska búsáhaldabylting. Útsendingin var frá sjónarhóli þess sem stóð að uppþotum og mótmælafundum. Útsendingin var rofin öðru hverju en þetta var mjög magnað og mikil læti og æsingur og mér sýndist útsendingin öðru hverju rofin vegna afskipta lögreglu eða annarra. Ég hugsa að þetta hafi verið útsending í gegnum símakerfi, einhver hafi verið með síma og myndað beint það sem fram fór. Í ustream.tv þá getur maður fylgst með hvað margir eru að fylgjast með útsendingu og tengt ustream við twitter. það voru yfir 1000 manns að fylgjast með útsendingunni. Útsendingin var á þessari slóð RemotosLibertopolis og ég geri ráð fyrir að ef meiri læti verða þá verði líka sent út á þessu þ.e. ef stjórnvöld blokkera ekki sendingar, það er nú líklegt að þau geri það.

Þetta mál er mjög áhugavert út frá því hvernig ýmis netverkfæri eru notuð sem byltingartól og verkfæri andspyrnu við stjórnvöld. þannig var það twitter sem notað var til að samhæfa aðgerðir og twitter var notað sem andófstæki, youtube notað til að senda skilaboð út fyrir gröf og dauða um spillta stjórnarhætti (myndbandið með Rosenberg) og svo var ustream.tv þ.e. bein sjónvarpsrás  (allir geta búið til svoleiðis rás fyrir sig) notuð til að senda beint út frá götuóeirðum.  Síðan voru blogg notuð, ég las t.d. á einu bloggi ungrar konu í Guatemala þar sem hún hafði tekið upp símtöl við móður sína, móðirin var inn í mótmælaaðgerðunum miðjum og svo voru hljóðskrárnar aðgengilegar á blogginu. 

Svo hefur náttúrulega verið stofnuð Facebook grúbba til stuðnings við twitternotandann sem núna er í stofufangelsi og gert að greiða $6500 sekt. 

Ég held að hér eftir verði engin árangursrík  bylting framkvæmd í neinu landi nema með samhæfingu í gegnum svona tæknimiðla. Ég er þá ekki að tala um byltingu með blóðsúthellingum heldur byltingu sem er andóf og meira andóf og boðskipti gegnum ýmis konar tæknimiðla. Það skildi aldrei fara svo á næstu misserum að við vísum til byltinga með því að spyrja "Hvaða hash tag var á þeirri byltingu?"

hmmm... hvaða hash tag eigum við að hafa á andófi á Íslandi? Sennilega er #HFF allt of algengt, það verður að vera nógu sérstakt til að það ruglist ekki við aðra strauma, kannski #kreppuslagur eða slíkt sér betra:-)

Hér eru greinar og blogg um þetta mál:

Guatemala: "El Efecto Streisand," boing.boing

TIME grein um málið

Ethan Zucherman

Á bloggráðstefnu sem ég fór á fyrir mörgum árum þá hitti ég Ethan Zucherman og hef fylgst með skrifum hans síðan þá. Hann fylgist nú töluvert með twitter sem andófstæki og má lesa hér greiningu hans á hvað gerðist í Moldavíu en þar var hash tagið #pman notað á twitter en spurningin er um hve mikil áhrif twitter hafði.

Studying Twitter and the Moldovan protests  (Ethan Zucherman)

Hér er önnur grein um Twitter og Moldavíu:

Moldova's Twitter Revolution | Net Effect

Hér er grein á wikinews um handtöku twitter notandans:

14 May 2009: Guatemala arrests Twitter user for inciting financial panic

Fleiri greinar

President, murderer or both?

Ég hins vegar finn ekkert á stóru fréttaveitum heimsins um þetta mál . Það virðist eingöngu vera mikið mál meðal bloggara og twitternotenda sem átta sig á því hvað það er merkilegt og hvað verkfærin sem sumir líta ennþá á sem leikföng og afþreyingartæki geta verið gagnleg í byltingu og andófi.  

 

 


Enn eitt spor í átt að lögregluríki, franska ríkisstjórnin og bæjarstjórn Árborgar fylgjast að

Hinn nýi stafræni heimur er á fleygiferð í kringum okkur og það eru gríðarlegir fólksflutningar, ef til vill  ennþá frá sveitum til borgarsamfélaga en mestu flutningarnir núna eru inn í netsamfélögin.  Þessi samfélög eru í fyrstu eins og Villta vestrið eða Ísland þegar fyrstu landnemarnir komu hingað, engin lög og engar reglur. En eins og í öllum samfélögum manna þá myndast samskiptareglur og þessar reglur verða að eins konar lögum, lögum sem gilda bara innan landamæra þessara samfélaga.

Yfir sumum netsamfélögum er drottnari eins og kóngur í ríki sínu. Á hans vegum er samfélagið sett upp og það er hann sem ræður hverjum er hampað og hvaða mannvirðingar og völd hver fær innan samfélagsins. Oft er markmið þeirra sem drottna yfir netsamfélögum að selja einhverja vöru eða selja upplýsingar eða raka saman upplýsingum um þegnana, upplýsingum sem eru dýrmætar fyrir aðra og upplýsingar sem geta verið skiptivara í viðskiptum. Þannig hefur Morgunblaðið það væntanlega í huga með sínu netsamfélagi, samfélagi fréttaveitu og moggabloggara að beina athyglinni að fjölmiðlinum og láta umræðuna magna upp áhrif fréttamiðlsins. Facebook samfélagið er í einkaeigu og sennilega er tilgangur að  búa til samfélag þar sem einhver viðskiptamódel virka, þar sem hægt er að kortleggja markhópa og selja beint til ákveðinna notenda. Second Life er líka netsamfélag sem byggir á viðskiptamódeli, notendur kaupa aðgang. 

Mörg þau netsamfélög sem ég ver tíma í og tek þátt í byggja ekki á viðskiptamódeli. Það eru mörg opin samfélög, opin í þannig skilningi að flæði upplýsinga og aðgangur að efni er ekki takmarkaður a af þeim skorðum sem höfundarréttarlög setja. Þessi samfélög eru ekki stjórnlaus þó í fyrstu virðist svo þó þau lúti ekki sams konar pýramídastjórnskipulagi og við þekkjum og þó þar gildi ekki hefðbundinn lögverndaður eignaréttur á hugverkum. Það má segja að rauði þráðurinn í þeim samfélögum sé að allir hafi leyfi til að breyta öllu, allir hafa leyfi til að blanda og endurblanda og nota efni frá öðrum í sín verk og að upplýsingar eigi að vera frjálsar og öllum aðgengilegar og helst alveg ókeypis fyrir alla. Líka að samvinna og samlegðaráhrif fjöldans séu líklegri til að búa til aðstæður þannig að allir græði heldur en kerfi sem byggir á markaðshyggju, einstaklingssjónarmiðum og hámörkun einhvers peningalegs ágóða. 

En það er ekki skilningur út í samfélaginu hjá stjórnvöldum á hve gríðarlega miklar breytingar eru að verða á samfélagsgerð okkar þegar nánast allir þegnarnir eru fluttir, fluttir inn í netsamfélaög og farnir að skilgreina sjálfan sig sem einhvers konar vélveru.

Franska ríkisstjórnin hefur ekki skilning á þessu, ekki skilning á því að það borgar sig ekki að eltast við ólöglegt niðurhal ef í leiðinni er búið til lögregluríki sem vaktar hvert skref þegnanna,  það er miklu betra að eyða púðrinu í að skilgreina höfundarrétt öðruvísi og styðja við þannig umhverfi að fólk þurfi ekki að nota efni sem er varið af hefðbundnum höfundarrétti, einfaldlega vegna þess að miklu betra og meira efni er til með opnum höfundarleyfum. Þannig er ástandið að verða með suman notendahugbúnað og þannig gæti ástandið líka orðið með t.d. tónlist ef nógu mikið magn af efni verður gefið út með CC-by-sa leyfi. Þannig er ástandið líka með suma tegund af þekkingu t.d. alfræðiritið wikipediu en ég reyni að taka virkað þátt í því samfélagi og byggja upp þekkingu í samvinnu við aðra.

En það er ekki bara stjórnvöld í Frakklandi sem ég hef áhyggjur af,  Bæjarstjórn Árborgar heimilar kaup á Internetsíu

og á þessum síðustu og verstu tímum þá vill bæjarstjórnin eyða þremur milljónum í að vakta starfsmenn og skrúfa fyrir notkun á alls konar óæskilegu dóti eins og facebook.  Nú hugsa ég að sveitarfélagið Árborg sé eins og önnur sveitafélög áhyggjufull yfir hvaða atvinnu íbúar hafa, ekki síst hvaða atvinnu ungt fólk í dag mun hafa í Árborg þegar tímar líða fram.

Mér finnst dáldið áhugavert hvernig sveitarfélagið Árborg skilgreinir nýsköpun og hvers konar umhverfi menn þar á bæ halda að kalli á nýsköpun. Halda þeir að í sveitarfélagi þar sem lögð er áhersla á að blokkera öll netsamfélög muni vera frjóakur sem fyrirtæki eins og CCP eða önnur nýmiðlunarfyrirtæki þrífast í? Halda þeir að það auki vellíðan og traust starfsmanna á stjórnendum að vita af því að sveitarfélagið telur rafræna vöktun nauðsynlega og svona sikti á hvað má skoða.

 

 

 


mbl.is Umdeild netlög samþykkt í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfir 13 % karla á höfuðborgarsvæðinu atvinnulausir

atvinnuleysi13mai09.jpgTölurnar yfir atvinnuleysi eru geigvænlegar og atvinnuleysi hjá sumum hópum er langt yfir 10 %. Þannig er sláandi hvað margir atvinnulausir karlar eru á höfuðborgarsvæðinu og hvað atvinnuleysi er ofboðslega mikið hjá bæði körlum og konum á Suðurnesjum.  Af 10.835 körlum á atvinnuleysisskrá þá eru 7.665 á höfuðborgarsvæðinu.  Atvinnuleysi meðal karla á höfuðborgarsvæðinu var 11.6 % af mannafla í apríl en þá voru 6.740 karlar atvinnulausir.  Þetta hlýtur að þýða að mannafli er um 58100 og miðað við að það hafi ekki breyst milli mánaða (sem getur reyndar verið ef margir eru að flytja úr landi) þá er atvinnuleysi meðal karla á Reykjavíkursvæðinu komið yfir 13 %.

Svona mikið atvinnuleysi bæði í Reykjavík og á Suðurnesjum er mikið samfélagsböl. Samfélögin eru mjög misvel í stakk búin til að taka á þessu máli.  Reykjanesbær er ein rjúkandi rúst, ég get ekki séð hvernig það sveitarfélag getur liðsinnt þegnum sínum þegar búið er að spreða öllum eignum sveitafélagsins í einhverju einkavæðingar- outsourcing æði. Sennilega standa Hafnarfjörður og Kópavogur líka afar illa, þar hefur verið mikið byggt og mikið tekið af erlendum lánum. Ástandið núna er þungur baggi fyrir Reykjavík en sem betur fer þá virðist mér einkavæðingaræðið ekki hafa gengið eins langt þar og núna miklu meiri ráðdeild þar í öllu starfi.

Samkvæmt tölum aprílmánaðar voru  2104 erlendir ríkisborgarar atvinnulausir, þar af voru 1562 á höfuðborgarsvæðinu. Í apríl voru 1540 erlendir karlar og 564 erlendar konur atvinnulausar. Atvinnuleysi er sem sagt afar, afar mikið meðal erlendra karla á höfuðborgarsvæðinu.

Það er gríðarlega áríðandi að strax verði tekið á þessu og það er ekkert vit í að koma ekki á stað atvinnubótavinnu í stað þess að hafa stóran hóp fólks iðjulausan. Það er hins vegar heldur ekkert vit í atvinnubótavinnu sem bæði skemmir fyrir möguleikum til afkomu hér á höfuðborgarsvæðinu í framtíðinni og sem kallar auk þess á meiri kostnað. Þar vara ég sérstaklega við að fólk hendi sér út í að byggja og byggja. Það er margt sem bendir til að Reykjavík og nágranni muni ekki vaxa neitt á næstu árum, það er ofgnótt af húsrými bæði fyrir fólk og fyrirtæki og það er ekkert sem bendir til að atvinnufyrirtæki sem hér munu blómstra þurfi mikið húsrými, meira en nú þarf. Þvert á móti er líklegt að húsnæðisþörf ýmis konar reksturs minnki vegna breyttra framleiðsluhátta.

Það að byggja og byggja sérstaklega á verðmætum lóðum sem eru miðsvæðis er sennilega til þess fallið að eyðileggja til lengdar atvinnumöguleika Reykvíkinga. Þannig er að borg þarf að vera hlýleg og byggileg til að fólk vilji búa þar og starfa. Það þurfa að vera mikið af grænum svæðum og einkenni og styrkur Reykjavíkur er tengsl við náttúruna. Það verður best gert með því að nota tækifærið núna í kreppuna að endurskipuleggja sum svæði og hætta við að byggja þar amk um sinn og breyta þeim í græn svæði. Það er mikilvægt að horfa ekki á vandamálið eins og vandamál augnabliksins, ekki eyðileggja möguleika og lífsgæði í borginni í dauðans ofboði við að útvega deyjandi byggingarmarkaði atvinnu. Það getur vel verið að við þurfum að búa okkur undir að það verði ekkert hús byggt nýtt í Reykjavík í nokkur ár. Þá það. Þá er eins gott að byrja endurskólun byggingarmarkaðarins strax. 

Það er mikilvægt fyrir okkur á höfuðborgarsvæðinu að horft verði til umhverfis borgarsamfélagsins. Umhverfi er meira en þjóðgarðar og umhverfi er meira en hálendi Íslands. Framtíð Reykjavíkur mun ráðast af því hve falleg og umhverfisvæn og græn borgin er, það mun draga að fólk sem vill búa í slíkum borgum og rekstur sem vill staðsetja sig í fallegri og vistvænni menningarborg. Þar skipta torg og náttúruleg svæði og almenningsgarðar og útivistarsvæði og heilnæm og mengunarlaus borg meira máli en t.d. glerhallir eins og tónlistarhúsið sem nú virðist aðalatvinnubótavinnan í Reykjavík. Mengun er meira en eiturúði frá verksmiðjustrompum, mengun er líka hávaði og ljótleiki verksmiðjuhverfa og samgönguvirkja sem brjóta sundur borgarhverfi  eins og ófær jökulfljót og mengun er líka hættuleg borg sem dregur að dópdílera og glæpalýð og svindlara og mengun er líka drasl sem fýkur um allt og grotnandi og skítug borg. 

Það er eitthvað ský fyrir augun á fólki á Íslandi í dag, fólki sem sér ekki að það er eitthvað verulega bilað í samfélagi sem borgar 17 þúsund manns atvinnuleysisbætur á meðan höfuðborgin blómstrar með plastdræsum í hverjum runna, á hverju vori.

7135013_7e0b0e364d

2331976940_7d0d00e37c

Stjórnvöld verða að taka á fjöldaatvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu á skynsaman hátt. Ekki með því að setja í gang atvinnubótaverkefni sem fela í sér framkvæmdir sem eyðileggja borgina, heldur með því að umskóla fólk, það er ekkert sem bendir til að sá byggingariðnaður sem hérna var muni eiga vaxtarmöguleika í framtíðinni. En það þarf fólk í ýmis konar framkvæmdir, í endurbætur og breytingar á húsum, í að breyta heildarásýnd gatna og hverfa, í framkvæmdir sem eru umhverfismannvirki og geta borginna umhverfisvænni. Það gætu t.d. verið framkvæmdir varðandi  léttlestir ekki síst á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur.

Það er aðeins spurning um tíma hvenær slíkar lestir verða fýsilegar og það er mikilvægt að hanna leiðarkerfið þ.e. koma með hugmyndir um hvar þær ættu að liggja.  

Það er líka mikilvægt fyrir okkur að vita hvenær atvinnuleysistryggingasjóður tæmist miðað við þetta atvinnuleysi og hvað á þá að gera? 

atvinnuleysi-utlendingar-april09.jpg

 

 

 

 


mbl.is Atvinnuleysi mælist 9,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband