Enn eitt spor í átt að lögregluríki, franska ríkisstjórnin og bæjarstjórn Árborgar fylgjast að

Hinn nýi stafræni heimur er á fleygiferð í kringum okkur og það eru gríðarlegir fólksflutningar, ef til vill  ennþá frá sveitum til borgarsamfélaga en mestu flutningarnir núna eru inn í netsamfélögin.  Þessi samfélög eru í fyrstu eins og Villta vestrið eða Ísland þegar fyrstu landnemarnir komu hingað, engin lög og engar reglur. En eins og í öllum samfélögum manna þá myndast samskiptareglur og þessar reglur verða að eins konar lögum, lögum sem gilda bara innan landamæra þessara samfélaga.

Yfir sumum netsamfélögum er drottnari eins og kóngur í ríki sínu. Á hans vegum er samfélagið sett upp og það er hann sem ræður hverjum er hampað og hvaða mannvirðingar og völd hver fær innan samfélagsins. Oft er markmið þeirra sem drottna yfir netsamfélögum að selja einhverja vöru eða selja upplýsingar eða raka saman upplýsingum um þegnana, upplýsingum sem eru dýrmætar fyrir aðra og upplýsingar sem geta verið skiptivara í viðskiptum. Þannig hefur Morgunblaðið það væntanlega í huga með sínu netsamfélagi, samfélagi fréttaveitu og moggabloggara að beina athyglinni að fjölmiðlinum og láta umræðuna magna upp áhrif fréttamiðlsins. Facebook samfélagið er í einkaeigu og sennilega er tilgangur að  búa til samfélag þar sem einhver viðskiptamódel virka, þar sem hægt er að kortleggja markhópa og selja beint til ákveðinna notenda. Second Life er líka netsamfélag sem byggir á viðskiptamódeli, notendur kaupa aðgang. 

Mörg þau netsamfélög sem ég ver tíma í og tek þátt í byggja ekki á viðskiptamódeli. Það eru mörg opin samfélög, opin í þannig skilningi að flæði upplýsinga og aðgangur að efni er ekki takmarkaður a af þeim skorðum sem höfundarréttarlög setja. Þessi samfélög eru ekki stjórnlaus þó í fyrstu virðist svo þó þau lúti ekki sams konar pýramídastjórnskipulagi og við þekkjum og þó þar gildi ekki hefðbundinn lögverndaður eignaréttur á hugverkum. Það má segja að rauði þráðurinn í þeim samfélögum sé að allir hafi leyfi til að breyta öllu, allir hafa leyfi til að blanda og endurblanda og nota efni frá öðrum í sín verk og að upplýsingar eigi að vera frjálsar og öllum aðgengilegar og helst alveg ókeypis fyrir alla. Líka að samvinna og samlegðaráhrif fjöldans séu líklegri til að búa til aðstæður þannig að allir græði heldur en kerfi sem byggir á markaðshyggju, einstaklingssjónarmiðum og hámörkun einhvers peningalegs ágóða. 

En það er ekki skilningur út í samfélaginu hjá stjórnvöldum á hve gríðarlega miklar breytingar eru að verða á samfélagsgerð okkar þegar nánast allir þegnarnir eru fluttir, fluttir inn í netsamfélaög og farnir að skilgreina sjálfan sig sem einhvers konar vélveru.

Franska ríkisstjórnin hefur ekki skilning á þessu, ekki skilning á því að það borgar sig ekki að eltast við ólöglegt niðurhal ef í leiðinni er búið til lögregluríki sem vaktar hvert skref þegnanna,  það er miklu betra að eyða púðrinu í að skilgreina höfundarrétt öðruvísi og styðja við þannig umhverfi að fólk þurfi ekki að nota efni sem er varið af hefðbundnum höfundarrétti, einfaldlega vegna þess að miklu betra og meira efni er til með opnum höfundarleyfum. Þannig er ástandið að verða með suman notendahugbúnað og þannig gæti ástandið líka orðið með t.d. tónlist ef nógu mikið magn af efni verður gefið út með CC-by-sa leyfi. Þannig er ástandið líka með suma tegund af þekkingu t.d. alfræðiritið wikipediu en ég reyni að taka virkað þátt í því samfélagi og byggja upp þekkingu í samvinnu við aðra.

En það er ekki bara stjórnvöld í Frakklandi sem ég hef áhyggjur af,  Bæjarstjórn Árborgar heimilar kaup á Internetsíu

og á þessum síðustu og verstu tímum þá vill bæjarstjórnin eyða þremur milljónum í að vakta starfsmenn og skrúfa fyrir notkun á alls konar óæskilegu dóti eins og facebook.  Nú hugsa ég að sveitarfélagið Árborg sé eins og önnur sveitafélög áhyggjufull yfir hvaða atvinnu íbúar hafa, ekki síst hvaða atvinnu ungt fólk í dag mun hafa í Árborg þegar tímar líða fram.

Mér finnst dáldið áhugavert hvernig sveitarfélagið Árborg skilgreinir nýsköpun og hvers konar umhverfi menn þar á bæ halda að kalli á nýsköpun. Halda þeir að í sveitarfélagi þar sem lögð er áhersla á að blokkera öll netsamfélög muni vera frjóakur sem fyrirtæki eins og CCP eða önnur nýmiðlunarfyrirtæki þrífast í? Halda þeir að það auki vellíðan og traust starfsmanna á stjórnendum að vita af því að sveitarfélagið telur rafræna vöktun nauðsynlega og svona sikti á hvað má skoða.

 

 

 


mbl.is Umdeild netlög samþykkt í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Skv. fréttinni þá er tilgangurinn tvíþættur. Annars vegar að loka fyrir óæskilegar síður fyrir nemendur í grunnskólum og hins vegar að hindra aðgang bæjarstarfsmanna að Facebook.

Sá fyrri göfugur en sá seinni fáránlegur. Ef starfsmenn vilja hanga í vinnunni þá eru margar leiðir til þess og tölva alls ekki nauðynleg.

Að hindra aðgang starfsmanna að einhverjum síðum leysir engan vanda.

Sigurður Haukur Gíslason, 14.5.2009 kl. 22:16

2 identicon

Sigurður: hver er þessi ,,göfugi" tilgangur til að stýra hugsunum fólks?

hver ákveður hvað eru ,,óæskilegar" síður, Goldstein í 1984 eða Félagi Napóleon?

vissir þú að pólitískar síður lenda í svona net,,vörn"?

Halldór Carlsson (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 00:06

3 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Sem starfandi grunnskólakennara þá finnst mér rétt að nemendur komist ekki á klám og ofbeldissíður í skólanum. Mér finnst það því gott mál að girða fyrir það. Ekki vildi ég sem foreldri að barnið mitt kæmist á svona síður í skólanum.

Hvað börnin gera heima er mál foreldra.

Sigurður Haukur Gíslason, 15.5.2009 kl. 00:14

4 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Fullkomlega sammála. Skv. frétt mbl þá er hægt að taka netið af einstaklingi í ár ef hann brýtur þrisvar af sér!

Ég er í alvörunni reiður þegar ég les svona rugl. Ég hélt að Frakkar væru upplýstari en þetta. Að taka netið af einhverjum í ár er í fyrsta lagi ómögulegt og í öðru lagi siðlaust og gróft brot á mannréttindum. Stjórnvöld eru í þessu tilviki leppur stóru útgáfufyrirtækjanna sem sjá sífellt stærri spón úr aski sínum fara til listamannanna sjálfra. Góð tónlist hefur aldrei verið búin til með það að markmiði að græða á henni. Það er grundvallar hugmynd sem við verðum að muna.

Kristján Hrannar Pálsson, 15.5.2009 kl. 11:24

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er reyndar sjálfsagt að börn séu varið á vettvangi  skóla fyrir að hoppa ekki inn á eitthvað óæskilegt efni. Því miður þá gerist það oft t.d. bara með því að leita á google. Það er líka sérstakt vandamál í web 2.0 þegar notendur merkja gögnin.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.5.2009 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband