Ofboðslega einfaldur pinni

einfaldir-pinnar

Það vantar sýna­tökup­inn­a svo þessa daganna veit enginn hvort sóttin er að breiðast út, það er ekki hægt að greina það. Allur heimurinn er á hlaupum eftir  pinnum.

Svona lýsir Kári vandamálinu:

„Þetta er ofboðslega ein­falt. Við erum með al­veg gíf­ur­lega flók­in tæki til að gera þessi próf en pinn­inn er það ein­fald­asta af öllu – þetta er bara pinni.“

 

 

 


mbl.is „Höfum nánast ekkert getað skimað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland er horfið!

island-ruvfrettir-21mars2020
Heimskortið á myndinni hér fyrir ofan var sýnt í kvöldfréttum RÚV 21. mars. Hvað varð um Ísland? Sökk það í sæ undan öllu þessu kórónuveiruoki eða urðu náttúruhamfarir sem sökktu landinu án þess að við tækjum eftir því? 

Ég var steinhissa að hlusta á fréttirnar í sjónvarpinu á laugardagskvöldið, það voru voða fínar fréttir um öll þessi landamæri sem væru að lokast. Ísland var horfið!

Í Hruninu 2008 þá tók ég fyrst eftir að Ísland væri eyja, eyja langt frá öðrum löndum og ráðamenn byrjuðu þá  að tala í tíma og ótíma um "fólkið í landinu". Þeir halda því áfram en Ísland er horfið og mér finnst alveg ástæða til að ræsa út einhverjar leitarsveitir til að finna landið aftur.

Hér er heimskortið eins og það birtist í fréttum ríkisfjölmiðils RÚV. Það getur verið að það vanti pinna til að leita að vírusum, vissulega er það alvarlegt. En það er ekki síður alvarlegt að heil eyja í Atlantshafinu hverfi svona einmitt núna þegar við þurfum eitthvað til að standa á.

Hér er  slóð á fréttatímann þar sem ég áttaði mig fyrst á því að Ísland var horfið.
Heimskortið er birt á mínútu 12:40 eða um það bil
https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/27717/8ku9qh

En burtséð frá því að búa í horfnu landi þá verður athyglisvert að fylgjast með hlutabréfunum falla í dag í USA. Það stefnir allt í svartan mánudag. Hvað sagði ekki Geir forðum um að sogast niður í brimrótið...


Hjúkrunarheimili og spjaldtölvur - messenger og hljóðbækur

Ég sá áðan frétt um Lionsklúbburinn Ásbjörn hefði gefið Hrafnistu 12 spjaldtölvur. En hvað það er gleðileg frétt að félagið skuli hugsa til þeirra sem núna eru lokaðir inn á stofnunum og fjarri ættingjum sínum og gefa spjaldtölvur til heimilisfólks á Hrafnistu. Ég vona að núna vakni fólk til vitundar um hve mikilvægt er að stuðla að aðgengi eldri borgara að tækninni, ekki eingöngu spjaldtölvum heldur líka að þeir læri þá færni sem þarf til að nýta ýmis konar öpp og hugbúnað og vélbúnað sem eykur lífsgæði þeirra og lífsgleði.

Nú er staðan þannig að margir á hjúkrunarheimilum eru nánast í stofufangelsi og mega ekki fá heimsóknir.Þetta er ástand sem gengur ekki til lengdar og mun eflaust verða mjög þungbært fyrir margt aldrað og veikt fólk. 

Það er því miður flest sem bendir til þess að það verði áframhaldandi smithætta í marga mánuði og vonandi munu stjórnendur hjúkrunarheimila finna leiðir til að vistmenn gefi verið í samskiptum við ættingja sína, ekki bara í gegnum síma og internetið. En á meðan þetta ástand varir þá held ég að spjaldtölvur gagnist mjög vel ef það er fyrir hendi starfsfólk sem getur leiðbeint og aðstoðað þá sem vilja nota tækin.

Ég hugsa að margt fullorðið fólk hafi skráð sig á facebook á sínum tíma til að fylgjast með barnabörnum sínum og fjölskyldu. Forritið Messenger er ákaflega gott forrit til að halda utan um samskipti og fjölskyldur geta stofnað hópa þar og deilt myndum  og stuttum myndskeiðum auk texta. Það eru einfaldari forrit til en ég hugsa að þetta sé það forrit sem flestir úr fjölskyldum nota. Messenger er líka auðvelt að nota í símum en það þarf einhver að setja forrit upp í byrjun og vera tilbúin til að aðstoða ef fólk man ekki hvernig það ræsir einstök forrit og stillir hljóð  eða er í vandræðum með eyrnatól og þess háttar.

Það er líka hægt að halda litla fjölskyldufundi í Messenger, stundum höfum við fjölskyldan verið í sitt hvoru landinu og þá hist þannig. Það þarf ekki að vera vídeó á nema bara rétt í byrjun, bara svo maður sjái að það er allt í lagi hjá viðkomandi. Núna í kórónaveirueinangrun þá get ég á auðveldan hátt verið í samskiptum við fólk í minni fjölskyldu sem er veikt, sem er í sóttkví og sem er fast í útlöndum og kemst ekki heim.

En það er hægt að gera meira í spjaldtölvum en vera í samskiptum. Eitt af því er að horfa á stutt myndbönd og hlusta á hljóðbækur og hlaðvörp (e. podcasts). 

Hljóðbækur og útvarp

Það hentar sennilega vel fyrir alla aldraða sem hafa heyrna að hlusta á efni. Þetta er kynslóð sem er alin upp við ríkisútvarpið og ennþá er rás 1 fastur punktur í lífi margra. Það er hægt að hlusta á útvarp gegnum netið og á síma eða spjaldtölvu og það er auðveldara en hafa útvarpstæki. 

Aldrað fólk er vant að hlusta á útvarp, það var aðalfjölmiðill í bernsku þeirra, reyndar eini fjölmiðillinn fyrir utan dagblöð og tímarit. En það er líka ótrúlega auðvelt að nota síma og snjalltölvur til að hlusta á hljóðbækur

Ég vona að það sé núna allt aldrað fólk á hjúkrunarheimilum með aðgang að Hljóðbókasafni Íslands, vefslóðin er https://hbs.is/ og að aðstandendur og starfsfólk hjúkrunarheimila sjái um að sótt sé um aðgang fyrir alla sem þurfa og ég geri ráð fyrir að það séu flestir ef ekki allir sem eru dvelja á hjúkrunarheimilum sem eiga erfitt með að lesa venjulegar bækur með sínu örsmáa letri, já og líka vegna þess að bækur eru þungar og ómeðfærilegar fyrir þá sem ekki hafa mikla krafta. Hljóðbókasafnið er með gott úrval af bókum og gott app sem hlaða má í síma og er þetta gildir um aðganginn:
"Hljóðbókasafn Íslands þjónar skv. lögum eingöngu þeim sem ekki geta nýtt sér prentað letur. Allir umsækjendur þurfa því að skila inn umsóknareyðublaði ásamt undirrituðu vottorði, um að greining liggi fyrir, frá fagaðila þar sem kemur skýrt fram ástæða þess að umsækjandi geti ekki nýtt sér prentað letur."

Þó að app Hljóðbókasafnsins sé gott og mikið úrval af íslenskum bókum þar vegna sérstakra samninga við útgefendur þá er hljóðbókaveitan Storytel ennþá betri, appið þar er alveg einstaklega gott og einfalt og hraðvirkt, eina sem er að er að þar er ekki mikið úrval af íslensku efni. Storytel er þróað af sænsku fyrirtæki og hefur farið sigurför um heiminn og þykir ein aðgengilegasta hljóðbókaveitan. Slóðin á Storytel er https://www.storytel.is/ og allir geta fengið 14 daga ókeypis tilraunaaðgang.

Hlaðvörp fyrir fjölskylduna

Ég held að hlaðvörp séu alveg ágæt fyrir þá sem vilja hlusta á hljóðefni í tölvum og það er núna mikil gróska í hlaðvörpum. Það er reyndar ekki mikið úrval eins og er af efni á íslensku sem eldra fólk hefur áhuga á. En það væri góð hugmynd fyrir fjölskyldur núna að virkja alla í að búa til hlaðvörp fyrir ömmu eða afa eða aðra ættingja sem núna dvelja á hjúkrunarheimilum. Það er auðveldara en margur heldur að taka upp og klippa saman hljóð og auðvelt að nota til þess forritið Garageband ef fólk á tölvur sem það er á eða hlaða niður klipppiforritinu Audacity.  Þegar hljóðskráin er tilbúin er auðvelt að setja hana á netið t.d. á Soundcloud.com Ég hugsa að það sé virkilega gaman fyrir fjölskyldur að vinna saman að podkasti sem ætlað væri öldruðum ættingjum. Allir geta verið saman í slíku verkefni því auðvelt er að senda hljóðskrár á milli. 

Ef einhver hefur áhuga á að prófa að gera podcast þá eru hérna leiðbeiningar frá mér um Audacity sem er eitt hljóðklippiforrit, það er ókeypis hugbúnaður.

http://www.leikey.net/?page_id=873  (Audacity)

http://www.leikey.net/?page_id=873  (Hljóðbækur)

http://www.leikey.net/?page_id=956 (Hlaðvarpsveitur)

Þessar leiðbeiningar eru gerðar fyrir nemendur mína (kennaranema) og eru sennilega of flóknar fyrir marga  en ég vona að ég geti gert á næstunni einfaldari leiðbeiningar.

Fleiri tenglar

How to video call your family

How can we stay in touch with older relatives


mbl.is Gáfu heimilisfólki á Hrafnistu 12 spjaldtölvur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ÍBV vann Stjörnuna og plastdúksleikurinn sem ekki var haldinn

Þann 7. mars síðastliðinn vann íþróttalið úr Vestmannaeyjum handknattleik. Margir stuðningsmenn liðsins komu á leikinn og fögnuðu saman sigri. En margir virðast hafa smitast af Covid-19 við þetta tilefni og sóttin herjar nú mjög á Vestmannaeyjar. Ég er viss um að um þetta leyti þá voru flestir meðvitaðir um að bráðsmitandi sótt væri að breiðast út og gert hvað þeir gátu til að smitast ekki en ég held að seta á áhorfendapöllum undir íþróttaleik sé nóg til að smitast ef margir smitberar eru á staðnum.

Á þessum tíma þarna í kringum 7. mars var mikið í umræðunni að hér yrði haldinn stór íþróttaviðburður á Laugardalsvelli 26. mars 2020 sem myndi byrja  kl. 18.45. Það átti að verða mikil hátíð, svo mikil að engu var til sparað, hér var ræktað gras undir plasti og hitað upp til að grasflötin yrði góð fyrir leikinn. Það var komið upp vefmyndavél til að fylgjast mætti með undirbúningi vallarins.Það hefur komið fram í fréttum að það kostaði 60 milljónir að koma þessu grasi á stað yfir hávetur á þessum eina fótboltavelli. Plastið hefur núna verið rifið af vellinum og grasið sem óx þarna er komið á kaf í snjó.

 

Á þessum tíma óð sóttin yfir Ítalíu og þar var sett á ferðabann en samt voru íslenskir íþróttaáhugamenn þá svo bjartsýnir og blindaðir af tilhlökkun um leikinn að mikil umræða var í fjölmiðlum um hvort að tveir íslenskir leikmenn myndu ná að koma til landsins nógu fljótt til að fara í 14 daga sóttkví fyrir leikinn. Ég man að ég var undrandi á íþróttafréttum um þetta leyti,  það var eins og þetta gengi bara út á að gera allt klárt fyrir leikinn og það lá í þagnargildi umræða um að þessi leikur 26. yrði líklega alls ekki eins og mér fannst alveg augljóst á öllum fréttum sem þá bárust frá umheiminum og þá sérstaklega Ítalíu  og fréttum um hvernig smit hegðaði sér hér.

Ég varð alveg gáttuð þegar ég sá viðtöl við aðila sem birtist okkur í forsvari fyrir Almannavörnum þar sem hann virtist vera fyrst og fremst að pæla í hvernig hægt væri að koma leikmönnum frá Ítalíu til að spila. Ég skrifaði um það hérna Lögreglan með marga hatta á lofti en ég á sérstaklega við viðtal við Víði sem var tekið á svipuðum tíma og ÍBV vann Stjörnuna og Vestmannaeyingarnir smituðust. Hér er brot úr því viðtali:

Í gærkvöld var svo sett á ferðabann á 16 milljónir manna sem búsettir eru á Norður-Ítalíu og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra og öryggisstjóri KSÍ, segir það hafa flækt stöðuna enn frekar hvað varðar þátttöku Birkis og Emils í undanúrslitum EM-umspilsins gegn Rúmeníu á Laugardalsvelli 26. mars.

„Við erum ennþá að reyna aðeins að átta okkur á þessu. Þetta var greinilega sett á með mjög litlum fyrirvara í gærkvöldi og mjög mörg af staðbundnum stjórnvöldum [á Ítalíu] ekki undirbúin undir þetta. Þannig að þetta er ekki komið til fullrar framkvæmdar alls staðar virðist vera, mun eflaust taka einhvern tíma. Þetta er bara klukkutíma frá klukkutíma sem maður er að heyra nýjar fréttir af þessu og það verður svolítið erfitt að átta sig á því hvaða áhrif þetta hefur í heildina.“

En er einhver von á því að Emil og Birkir geti spilað landsleik eftir 18 daga þegar bæði farbann er á Norður-Ítalíu og skipun um tveggja vikna sóttkví hér á landi?

„Ég held við getum ekkert útilokað það fyrr en það er orðið 100%. Það er margt í gangi og eins og ég segi klukkutíma frá klukkutíma sem ástandið á Ítalíu er að breytast. Bara eins og menn sáu með leikina sem voru í dag, allt mjög skrýtið í gangi þannig að við verðum að sjá bara til.“ segir Víðir sem segist jafnframt vera í daglegum samskiptum við KSÍ.

Mér fannst þetta viðtal mjög ótraustvekjandi af fulltrúa Almannavarna og ég held að það hefði miklu fyrr átt að vekja athygli íþróttaaðdáenda á hættunni á smiti við að fara á íþróttaviðburði. Ég átta mig alveg á því að hann var ekki í viðtalinu á vegum Almannavarna heldur sem öryggisstjóri Knattspyrnusambands Íslands.

Síðan  þá hefur allt  verið skynsamlegt sem Almannavarnir gera og segja og núna virðast vera að fara í hönd tímar þar sem við verðum að treysta á Almannavarnir, sérfræðinga og viðbúnað í heilbrigðiskerfinu og mér líður miklu betur að vera í einsleitu litlu samfélagi þar sem ríkir sátt um að fara að ráðum sérfræðinga og fagfólks og þar sem allir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu og þar sem virðist hafa verið unnið vel að undirbúningi.

En ég get ekki að því gert að hugsa eins og kannski margir aðrir. Hvað ef heilbrigðiskerfið ræður ekki við kúfinn, hvað ef enga aðstoð verður þar að hafa ef of margir eru fárveikir á sama tíma, hvað ef ástandið verður verra en svartasta sviðsmyndin?


mbl.is 27 smitaðir og tæplega 400 í sóttkví
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samskiptatækni nýrra tíma

Samskiptatækni er ekki orð sem við notum um þegar líkamar fólks snertast eða einn snertir yfirborð sem annar hefur komið við eða þegar fjöldi fólks er þétt saman í almenningslestum eða vinnustöðum eða félagslífi. En það bendir allt til þess að við þurfum að koma okkur upp tækni og vinnubrögðum til að lifa og starfa í veröld þar sem smitefni getur dreifst á milli fólks og valdið alvarlegum veikindum. Það mun ekki ganga að stöðva þjóðfélög eins og nú er gert, það þýðir  heimskreppu sem aldrei linnir. Ef ekki finnst bóluefni eða læknislyf þá verðum við að leggja af marga siði og taka upp nýja samskiptatækni. Hér er skopmynd af þeim möguleikum sem við höfum til að heilsast í staðinn fyrir handaband og faðmlög.
Gary Warvel Handshake Alternatives

En við þurfum að breyta vinnubrögðum okkar í fleiru en að forðast faðmlög og handabönd. 


Viðspyrna fyrir Ísland

Ég hlustaði á blaðamannafund ríkisstjórnarinnar áðan og fyrstu viðbrögð eru að mér finnst allar aðgerðir sem eru fyrirhugaðar skynsamlegar og uppbyggjandi. Sérstaklega var gott að heyra að stjórnvöld átta sig vel á því að efnahagsleg áhrifa Covid-19 eru gríðarleg og margt gerist í umheiminum sem íslensk stjórnvöld hafa ekki neina stjórn á en mun  hafa gríðarleg áhrif á almenning á Ísland og lífskjör hérna. 

Séreignarsparnaður er hamfarasparnaður

Ég rifja upp tímann í kringum Hrunið 2008 og hvaða áhrif aðgerðir stjórnvalda höfðu á breytni mína og fjármál. Ég tók þá út yfir langt tímabil séreignarsparnað minn  eins og leyft var í aðgerðum þá og við vorum þá með hús í byggingu og urðum mjög skelft eins og allir húsbyggendur. Ég vildi að við lokuðum bara húsinu á byggingarstigi, það var eins og að kasta peningum í sjóinn að halda áfram húsbyggingu sem sífellt lækkaði í verði. Aðgerðir stjórnvalda þá eins og "Allir vinna" og breyting á endurgreiðslu virðisaukaskatts  voru þá eitt af því sem varð til þess  að við héldum áfram með húsbygginguna.

Það hefur reynst skynsamlegt að hvetja allt vinnandi fólk til að leggja hluta af tekjum sínum í séreignarsparnað. Það kemur sér vel þegar ábjátar.

Ef til vill er réttara að kalla séreignarsparnað hamfarasparnað.

Að gefa öllum peninga

Ég er sérlega hrifin af aðgerðum sem eru fyrir alla  og eru ekki tengjutengdar t.d. eins og barnabótaauki (eða var hann tekjutengdur?) og að senda öllum stafrænt peningjagjöf til að ferðast um Ísland. Þetta eru að vísu litlar aðgerðir en ég vona að það verði eitthvað slíkt gert aftur og í stærra mæli. Í algjöru sjokkástandi þegar atvinnulíf hefur lamast eins og var hér í kringum Hrunið þá komu upp hugmyndir meðal hagfræðinga að senda öllum ákveðna peningaupphæð. Sigmundur Davíð formaður Miðflokksins talaði fyrir þeirri hugmynd hérna og útskýrði nokkuð vel og það er einmitt þetta sem ríkisstjórn Donald Trump ætlar að gera í Bandaríkjunum og ég hugsa að fleiri ríkisstjórnir reyni að gera  ef þær hafa bolmagn til.

Fólk gapir oft af undrun og yglir sig í fordæmingu þegar stungið er upp á aðgerðum eins og að senda öllum peninga án þess að fólk setji einhverja vinnu, vöru eða þjónustu á móti eða án þess að sýna fram á að það líði skort. En það að dæla peningum út í samfélag er hagstjórnaraðgerð á krepputímum, ráð til að koma lömuðu kerfi af stað. Og það er bara skynsamlegra að setja það beint til fólks. Það er kallað eftir slíkum aðgerðum víða. Hér er ritstjórnargrein í New York times 18. mars 2020 sem kallar eftir að senda strax $2000 tékka til allra Bandaríkjamanna og hér er vídeó frá CNN um fyrirhugaðar tékkasendingar.

Það eru gríðarlega háar upphæðir lagðar núna í aðgerðir, svo miklar af tekjum ríkisstjóðs að það er alveg ljóst að þetta verður ekki hægt til langframa. En hamfaraástand er ekki langframi. Og ríkisstjórnir sem eru í löndum sem hafa sjálfstæðan gjaldmiðil búa yfir vopnum sem hjálpa núna.

 


Hlédrægni

handshake-pixabay

Ég var feimið og héralegt barn sem forðaðist mannþröng og versta martröðin voru veislur og fjölskylduboð  þar sem maður var píndur til þess bæði við komu og brottför að kveðja alla með handabandi. Ég kveið fyrir handaböndum áður en mætt var á staðinn og alla veisluna hugsaði ég um kveðjustundarmartröðina, hvernig átti ég sem ekki vildi snerta fólk og ekki þekkti hægri frá vinstri að komast í gegnum þetta.

Þegar ég var lítil, kannski svona sex eða sjö ára löngu áður en ég hafði lesið mér til óbóta í alls kyns greiningarfræðum og sjálfgreint sjálfa mig þá spurði ég móður mína hver væri munur á því að vera hlédrægur og vera feiminn. 

Mamma mín sagði að börn væru feimin en fullorðnir væru hlédrægir. En núna er ég orðin fullorðin og ég er líka hlédræg. Og allir á mínum aldri verða sennilega hlédrægir allt árið 2020 og kannski lengur. 

Hlédrægni nær ágætlega hugtakinu "social distancing" og er meira, það er um þá sem leita skjóls, hörfa undan, hverfa úr atinu og margmenni/baráttu.

Hér er grein um hvers vegna við þurfum að drega okkur í hlé allt árið 2020:

Social distancing may be needed for ‘most of year’


Hvenær endar faraldur?Hvernig verður samfélag endurræst?

flickr-steve-jurvetson-koronavirus-leikfang

Ungabarn leikur sér að kórónaveiruleikfangi.Verður kórónaveiran og afleiðingar faraldursins hluti af venjulegu lífi okkar næstu mánuði, næstu ár?

Landlæknir Íslands kynnti í útsendingum í gær að það væri gert ráð fyrir því að um miðjan apríl 2020 væri kórónaveirufaraldurinn hérlendis í hámarki og miða þyrfti viðbúnað í heilbrigðistkerfinu til að ráða við þann kúf, það þyrftu að vera svo og svo margar öndunarvélar og heilbrigðisstarfsfólk til að staðar en það er óvissa í sviðsmyndum, kannski tiltölulega fáir að fara í öndunarvélar á sama tíma en kannski verður sviðsmyndin dökk, svo margir veikjast alvarlega á sama tíma, svo margir að heilbrigðiskerfið ræður ekki við það.

En það er ólíklegt að þessi tímasetning um  miðjan apríl  verði einhvers konar vendipunktur. Þetta er dagsetning þar sem miðað er við að bæla niður smit og mikil veikindi með því að samfélagið er nánast lamað og daglegt líf allra og samfélagsnet er í miklu uppnámi. Það er líklegt að smit komi upp aftur ef slakað er á hömlum en það er líka ómögulegt að hafa þær hömlur sem eru núna um aldur og ævi.

Það er líklegt að faraldurinn hafi áhrif á líf okkar í langan tíma, ef til vill skiptir það árum. Það eru  þessar þrjár lausnir sem  við getum horft á:

1. Það verður þróað bóluefni og fjöldabólusetningar hefjist

2. Það verða svo margir smitaðir að það myndast hjarðónæmi

3. Það verður að endurskipuleggja og strúktúrbreyta samfélag og atvinnulífi til langs tíma

Lausn 1 eða 2 er ekki í sjónmáli fyrr en eftir marga, marga mánuði og það er ekki einu sinni víst að það takist að mynda hjarðónæmi. Þær aðgerðir sem núna eru í gildi lama og stöðva samfélög og ganga augljóslega ekki til frambúðar. En hugsanlega þarf í langan, langan tíma að breyta öllu, breyta borgarskipulagi sem miðar við að allir þjappist saman á sama tíma í samgöngukerfum, á vinnustöðum og í skólum, á stórum viðburðum. 

Hér er góð grein sem var á BBC vefnum um hvenær við förum úr ástandinu eins og það er í dag yfir í daglegt venjulegt líf aftur. 

Coronavirus: When will the outbreak end and life get back to normal?


Skíðabarinn

skidabarinn

Hér er skíðabarinn Kitzloch í Ischgl í Austurríki. Danir og reyndar líka Þjóðverjar eru mjög bitrir yfir hve langur tími leið þar til smit kom upp í skíðahéruðum Tyrol þangað til þeim var lokað og skíðafólkið ferjað upp í rútur og keyrt í burtu. Íslendingar leika nokkuð stórt hlutverk í þessi skíðadrama sem margir fréttapistlar eru núna skrifaðir um.

Það er mikið fjallað um ferð Íslendinganna í barnum Kitzloch þangað sem skíðafólkið stappaði sér saman í eina kös eftir skíðaferðir dagsins og dreypti á vodkaskotum og barþjónar blésu í flautur. 

Það er líklegt að barinn Kitzloch verði æí framtíðinni minjastaður þar sem pílagrímar sem ferðast á pestarslóðirnar 2020 heimsækja í framtíðinni, staðurinn þar sem allt breyttist.

Íslensku skíðamennirnir sem fóru á barinn eru orðnir heimsþekktir (þekktir í Danmörku) og það er eitthvað grípandi við þessa sögu, velmegandi fólk að skemmta sér, að ilja sér á barnum eftir að hafa brunað um daginn í snjónum,  uggandi ekki að sér í allsnægtum skíðasvæðisins en meinvill í myrkrunum lá og hann kom úr flautum barþjónanna og líka úr þöggun þeirra sem höfðu hag af því að leyna að sóttin væri að breiðast út þarna.

Það er eitthvað myndrænt við þessa sögu, eitthvað sem minnir á fólkið á skemmtiferðaskipunum.

Hér er greinin á danska ríkisútvarpinu:

Sådan forvandlede fodslæbende myndigheder alpeby til et virus-hotspot

U
ppfært 24. mars
Frétt um skíðabarinn hefur náð yfir Atlantsála. Núna í dag er CNN með umfjöllun um skíðabarinn.

Þar segir:
"Despite an official warning from the Icelandic government on March 4 that a group of its nationals had contracted coronavirus in Ischgl, Austrian authorities allowed ski tourism -- and the partying that goes with it -- to continue for another nine days before fully quarantining the resort on March 13. Bars in Ischgl were closed on March 10."

Og líka þetta um skíðagestina sem mér finnst benda til að þeir séu ekki mjög vel að sér um smitsjúkdóma:

""We realized that they exchanged saliva because they were playing beer pong," using their mouths, he said, although he did not single out any specific bars where the game took place. The game involved spitting ping pong balls out of their mouths into beer glasses, and those balls were then reused by other people."


Borgaralaun og kórónuveirukreppan

ubi-vectormine

Það stefnir allt í heimskreppu og þær spár sem ég sá í gær, hafðar eftir bandarískum hagfræðingum spá því að atvinnuleysi í USA fari upp í  20% verði ekki gripið til opinberra aðgerða strax. 

Framtíðarhorfur til skamms tíma eru líka dökkar fyrir Ísland og það er best að horfast í augu við það strax  að ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi er eins mikið hruninn eins og bankarnir hrundu í Hruninu mikla  og það er ekkert í augsýn næstu mánuði að ferðamenn fari að streyma milli landa. Sumt mun taka mörg ár að koma aftur jafnvel þó fólk verði ekki lengur hrætt við sóttir. Það er líklegt að ferðir á skemmtiferðaskipum dragist saman til frambúðar. Það er líka líklegt að ferðavenjur breytist og fólk leiti enn fremur í fámenni og náttúru en áður. Það er ekkert í spákúlum heimsins sem bendir til að fólk fari að ferðast eins og ekkert hafi í skorist strax í vor. 

Núna í upphafi kreppunnar reyna ráðamenn að milda höggið og lofa að styðja við fyrirtæki og fólk, fyrirtæki sem stefna lóðbeint í gjaldþrot ef ekkert verður að gert, það á við um öll flugfélög heimsins og fólk sem sér að atvinna þess hefur horfið eða er við að horfa. Hér á Íslandi sjáum við  ördeyðu hjá öllum sem höfðu atvinnu sína af því að skemmta fólki eða þjónusta fólk sem kom á viðburði og skemmtanir. Það stefnir líka í atvinnuleysi í flugi og samgöngumálum og hvað verður um byggingariðnaðinn? Það einkennir margar kreppur að allir kippa að sér höndum þegar ástandið er svona ótryggt og byggingariðnaðurinn er barómeter á ástandið, um leið og sverfur að hætta byggingarkranarnir að sveiflast. Sennilega er stór hluti af uppgangi byggingariðnaðar hérna tengdur þessum atvinnugreinum sem núna hafa hrunið, það er verið að byggja hótel og þjónustu við ferðamenn. 

Þetta er hrikaleg staða en hugsanlega er Ísland í betri aðstöðu núna en mörg önnur ríki meðal annars vegna þess að hér er blessuð krónan, örgjaldmiðill sem ríkisstjórnin getur ennþá vasast með og notað til sveiflujöfnunar (lesist: til að lækka laun fólks miðað við umheiminn) og hér er líka fremur einsleitt samfélag sem einkennist af jöfnuði fremur en misskiptingu og hér er sátt og vilji um að hér sé velferð fyrir alla með heilsuþjónustu fyrir alla og framfærslutryggingu fyrir alla þegar áföll og veikindi.

Það mun hins vegar skipta miklu máli hvað stjórnvöld gera núna í ríkjum heimsins, það munu öll stjórnvöld sem hafa til þess bolmagn setja upp alls konar aðstoðarpakka fyrir fólk og fyrirtæki en hvernig á þessi aðstoð að vera?

Borgaralaun eru skynsamleg

Í mínum huga er alveg skýrt hvað er skynsamlegast núna. Það er að hugsa fyrst og fremst um fólk og velferð þess og viðurkenna að allir eiga rétt á því að geta framfleytt sér og að á óvissum tímum þá gera stjórnvöld illt verra með að búa til geysiflókin ölmusukerfi með ótal glufum og götum. Það kerfi sem núna er lag að setja á hefur verið nefnt  Borgaralaun eða óskilyrt grunnframfærsla eða UBI og er það skammstöfun á "Universal Basic Income". Það er mjög líklegt að stjórnvöld í ríkjum sem sjá fram á efnahagshrun reyni núna eitthvað slíkt kerfi.

Það sem USA boðar núna, að senda ávísun heim til fólks virðist vera einhvers konar borgaralaun og bandarísk stjórnvöld segja að þessi ávísun komi eftir eina til tvær vikur. Það er margt á hvolfi í heiminum í dag og ekki hefði maður trúað fyrir nokkrum mánuðum að það yrði ríkisstjórn Trumps  sem riði á vaðið með einhvers konar borgaralaun. Ég held að þetta sé bara hugsað sem ein greiðsla og minnir á greiðsluna sem íbúar Alaska fá, sömu upphæð á hvern íbúa ef vel gengur í olíuiðnaði fylkisns. Það eru líka borgaralaun.

Einn af kandidötum í forsetaframboði USA  Andrew Yang hafði borgaralaun á stefnuskrá sinni, hann tapaði en hugmyndir hans lifa áfram. Hann telur kórónuveirukreppan muni verða til þess að vinna hugmynd um borgaralaun fylgi. Hér er úr grein í Politico 17. mars:

 "Yang built a cult following with his case that a “Freedom Dividend,” as he called it, was the only way to protect millions of individuals, as well as the broader economy, from fiscal ruin in the face of spiraling unemployment due to advances in automated technology.

That particular day of reckoning has yet to arrive. But an equally dire set of circumstances — playing out in a more compressed time frame — is set to vindicate Yang’s argument for putting cash straight into the pockets of millions of Americans.

In response to the economic threat posed by the spread of COVID-19, the highly contagious virus that has emptied out hundreds of thousands of schools and businesses virtually overnight, the Trump administration on Tuesday announced its intention to mail checks to Americans as quickly as possible. Consensus has formed at warp speed that this is the most effective way to help suddenly cash-strapped people pay their bills and keep the economy afloat."

Það er mjög líklegt að sú ríkisstjórn sem núna situr og Bjarni Benediktsson er fjármálaráðherra í muni horfa til einhvers konar borgaralauna og það hefði verið betra að fjármálaráðherra okkar væri meiri hugsuður í langtímalausnum samfélaga í kreppu og á óvissutímum og minna skólaður í að vera fulltrúi ættarveldis sem hugsar um eigin hagsmuni.

 

Bjarni hjólar í borgaralaun 29. septembe 2016

Bjarni: „Það alvitlausasta sem ég hef heyrt“ Viðskiptablaðið 29. september 2016


Fjármálaráðherra sagði fyrir fjórum árum:

„Hug­mynd­in um borg­ara­laun geng­ur út á það að all­ir full­orðnir fái op­in­bera fram­færslu óháð því hvort þeir eru í vinnu, jafn­vel vel borg­andi vinnu, eða hafi aðra fram­færslu. Þetta er eitt­hvað það al­vit­laus­asta sem ég hef heyrt lengi,“ skrifaði Bjarni á síðu sinni.

En tímarnir breytast og mennirnir með.

 

Tenglar

Bjarni boðar borgaralaun -„Þar sem ríkið bók­staf­lega taki starfs­menn á launa­skrá sína“

Mnuchin warns senators lack of action could result in 20% unemployment rate, source says

Andrew Yang ‘Pleased’ To See Trump Adopt Universal Basic Income-Like Plan To Help Fight Coronavirus

Trump Want immediate casn handouts to Americans

 

 

(mynd er frá Vectormine)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband