Þegar ÍBV vann Stjörnuna og plastdúksleikurinn sem ekki var haldinn

Þann 7. mars síðastliðinn vann íþróttalið úr Vestmannaeyjum handknattleik. Margir stuðningsmenn liðsins komu á leikinn og fögnuðu saman sigri. En margir virðast hafa smitast af Covid-19 við þetta tilefni og sóttin herjar nú mjög á Vestmannaeyjar. Ég er viss um að um þetta leyti þá voru flestir meðvitaðir um að bráðsmitandi sótt væri að breiðast út og gert hvað þeir gátu til að smitast ekki en ég held að seta á áhorfendapöllum undir íþróttaleik sé nóg til að smitast ef margir smitberar eru á staðnum.

Á þessum tíma þarna í kringum 7. mars var mikið í umræðunni að hér yrði haldinn stór íþróttaviðburður á Laugardalsvelli 26. mars 2020 sem myndi byrja  kl. 18.45. Það átti að verða mikil hátíð, svo mikil að engu var til sparað, hér var ræktað gras undir plasti og hitað upp til að grasflötin yrði góð fyrir leikinn. Það var komið upp vefmyndavél til að fylgjast mætti með undirbúningi vallarins.Það hefur komið fram í fréttum að það kostaði 60 milljónir að koma þessu grasi á stað yfir hávetur á þessum eina fótboltavelli. Plastið hefur núna verið rifið af vellinum og grasið sem óx þarna er komið á kaf í snjó.

 

Á þessum tíma óð sóttin yfir Ítalíu og þar var sett á ferðabann en samt voru íslenskir íþróttaáhugamenn þá svo bjartsýnir og blindaðir af tilhlökkun um leikinn að mikil umræða var í fjölmiðlum um hvort að tveir íslenskir leikmenn myndu ná að koma til landsins nógu fljótt til að fara í 14 daga sóttkví fyrir leikinn. Ég man að ég var undrandi á íþróttafréttum um þetta leyti,  það var eins og þetta gengi bara út á að gera allt klárt fyrir leikinn og það lá í þagnargildi umræða um að þessi leikur 26. yrði líklega alls ekki eins og mér fannst alveg augljóst á öllum fréttum sem þá bárust frá umheiminum og þá sérstaklega Ítalíu  og fréttum um hvernig smit hegðaði sér hér.

Ég varð alveg gáttuð þegar ég sá viðtöl við aðila sem birtist okkur í forsvari fyrir Almannavörnum þar sem hann virtist vera fyrst og fremst að pæla í hvernig hægt væri að koma leikmönnum frá Ítalíu til að spila. Ég skrifaði um það hérna Lögreglan með marga hatta á lofti en ég á sérstaklega við viðtal við Víði sem var tekið á svipuðum tíma og ÍBV vann Stjörnuna og Vestmannaeyingarnir smituðust. Hér er brot úr því viðtali:

Í gærkvöld var svo sett á ferðabann á 16 milljónir manna sem búsettir eru á Norður-Ítalíu og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra og öryggisstjóri KSÍ, segir það hafa flækt stöðuna enn frekar hvað varðar þátttöku Birkis og Emils í undanúrslitum EM-umspilsins gegn Rúmeníu á Laugardalsvelli 26. mars.

„Við erum ennþá að reyna aðeins að átta okkur á þessu. Þetta var greinilega sett á með mjög litlum fyrirvara í gærkvöldi og mjög mörg af staðbundnum stjórnvöldum [á Ítalíu] ekki undirbúin undir þetta. Þannig að þetta er ekki komið til fullrar framkvæmdar alls staðar virðist vera, mun eflaust taka einhvern tíma. Þetta er bara klukkutíma frá klukkutíma sem maður er að heyra nýjar fréttir af þessu og það verður svolítið erfitt að átta sig á því hvaða áhrif þetta hefur í heildina.“

En er einhver von á því að Emil og Birkir geti spilað landsleik eftir 18 daga þegar bæði farbann er á Norður-Ítalíu og skipun um tveggja vikna sóttkví hér á landi?

„Ég held við getum ekkert útilokað það fyrr en það er orðið 100%. Það er margt í gangi og eins og ég segi klukkutíma frá klukkutíma sem ástandið á Ítalíu er að breytast. Bara eins og menn sáu með leikina sem voru í dag, allt mjög skrýtið í gangi þannig að við verðum að sjá bara til.“ segir Víðir sem segist jafnframt vera í daglegum samskiptum við KSÍ.

Mér fannst þetta viðtal mjög ótraustvekjandi af fulltrúa Almannavarna og ég held að það hefði miklu fyrr átt að vekja athygli íþróttaaðdáenda á hættunni á smiti við að fara á íþróttaviðburði. Ég átta mig alveg á því að hann var ekki í viðtalinu á vegum Almannavarna heldur sem öryggisstjóri Knattspyrnusambands Íslands.

Síðan  þá hefur allt  verið skynsamlegt sem Almannavarnir gera og segja og núna virðast vera að fara í hönd tímar þar sem við verðum að treysta á Almannavarnir, sérfræðinga og viðbúnað í heilbrigðiskerfinu og mér líður miklu betur að vera í einsleitu litlu samfélagi þar sem ríkir sátt um að fara að ráðum sérfræðinga og fagfólks og þar sem allir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu og þar sem virðist hafa verið unnið vel að undirbúningi.

En ég get ekki að því gert að hugsa eins og kannski margir aðrir. Hvað ef heilbrigðiskerfið ræður ekki við kúfinn, hvað ef enga aðstoð verður þar að hafa ef of margir eru fárveikir á sama tíma, hvað ef ástandið verður verra en svartasta sviðsmyndin?


mbl.is 27 smitaðir og tæplega 400 í sóttkví
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband