Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Stúlka frá Litháen, menn frá Litháen, súludans og kjöltudans

Í fyrrakvöld var umsátur um heimili dómsmálaráðherra vegna brottvísunar flóttamanna. Í gær var lýst eftir konu sem fannst í flugvél og týndist aftur.  Þessi atburðir tengjast  kannski ekki neitt. Það getur vel verið að íslenska lögreglan sé núna eftir Hrunið umhyggjusamari en áður vegna vegalauss fólks sem talið er að tengist mansali. Vona ég innilega að svo sé.

Við erum mörg sem höfum árum og áratugum saman reynt að opna augu fólks fyrir ömurlegu hlutskipti fólks í kynlífsþjónustu. Við höfum reynt að fletta ofan af goðsögninni um hina hamingjusömu hóru og benda á óteljandi frásagnir kvenna og karla sem oft voru djúpt sokknir fíkniefnaneytendur eða örvæntingarfullt fólk sem taldi sig ekki hafa val eða fólk sem hafði flúið  ömurlegar aðstæður heima fyrir og gat ekki framfleytt sér í nýjum heimkynnum öðruvísi. 

Fólk hefur lengi verið  flutt til landsins  með skipulögðum hætti til að vinna hérna í kynlífsþjónustu og meira segja komu aðilar sem höfðu atvinnu sína af svona útgerð fram í fjölmiðlum og vörðu iðjuna undir nafni listar en margar erlendar konur sem fluttar voru inn til þjónustu á súludansstöðum og við hinn svokallaða "kjöltudans" fengu hér tímabundin atvinnuleyfi sem listamenn, listrænir dansarar. Hér er myndræma sem ég gerði fyrir margt löngu um kjöltudansinn  þar sem ég geri grín að einum  talsmanni hans:

 Geiri goldfinger

Það má hér rifja upp  hæstaréttardómi frá 2007 (sjá dóminn hérna) en þá höfðaði aðili sem rekur staðinn Goldfinger mál á hendur blaðamanni og heimildarmanni blaðamanns, hér er smákafli tekinn orðrétt upp úr dómnum:

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 5. og 6. september 2007 á hendur stefndu og Lovísu Sigmundsdóttur og krafðist þess í 1. kröfulið að eftirfarandi ummæli, sem Lovísa hafi viðhaft um áfrýjanda á nánar tilgreindum blaðsíðum í áðurnefndu tölublaði Vikunnar, yrðu dæmd dauð og ómerk: A. „Ég endaði á að vinna fyrir Geira en það var mjög mikið um vændi inni á stöðunum hans og gríðarleg pressa á þeim stelpum sem fyrir hann störfuðu að stunda slíkt. B. „Geiri hefur alltaf gert mikið út á vændi og þá inni á stöðunum. Eftir að einkadansinn var bannaður hefur vændið einfaldlega farið fram bak við tjöld sem sögð eru notuð til að hægt sé að spjalla við kúnnana í einrúmi.“ C. „Það er allur gangur á því hvort kúnnarnir borga Geira sjálfum fyrir þjónustuna eða stelpunum beint ... . D. „Ég er komin yfir hræðsluna við þessa menn þótt mér hafi vissulega verið hótað lífláti og á tímabili fór ég ekki út úr húsi vegna hræðslu. E. „Starfsstúlkur hans sem koma hingað tímabundið í þrjá mánuði í senn eru eins og í fangelsi“. F. „Þess á milli eru þær í raun kyrrsettar í húsinu fyrir utan vissan útivistartíma. G. „Ástæðan fyrir því er sú að stelpur urðu uppvísar að því að ná sér í kúnna utan klúbbsins án þess að Geiri fengi hlut af þóknuninni en hann vill geta stjórnað vændinu sjálfur

Það er athyglisvert að bera það mál saman við það mál sem lögreglan er núna að rannsaka. Mér virðist núna vera sagt frá af umkomulausri stúlku og virðist af lýsingu á hegðun annað hvort benda til þess að hún sé fíkill í bullandi neyslu eða hún eigi við geðræn vandamál að stríða. Grunur leikur á að hún sé fórnarlamb mansals og að hún sé í tengslum við menn frá Litháen sem búa hérlendis og hefur komið fram hjá lögreglu að þeir séu þekktir af ofbeldisverkum. 

Efalaust hefur lögreglan upplýsingar sem hún lætur ekki uppi og telur að þessi stúlka sé í bráðri hættu annars myndi lögreglan tæplega birta mynd af stúlkunni og útmála hana sem vændiskonu og lýsa eftir og handtaka marga menn frá Litháen og halda þeim ennþá í gæsluvarðhaldi. En við skulum ekki missa sjónar á því að glæpur er ekki sama og grunur um að fólk hafi haft í hyggju að fremja glæp en ekki tekist það.

Lögreglan hefur eflaust ekki ætlað sér að ala á útlendingahatri með því að velta upp þessu alvarlega máli en því miður þá verða það skilaboðin sem sitja eftir.  Í þessu tilviki er kastljósinu beint að hópi manna og einni konu frá ákveðnu landi og lögreglan og fjölmiðlar sýna okkur mynd sem er átakanleg - af konu sem á um sárt að binda og grunur leikur á að hafi verið tæld til landsins til að stunda vændi og af mönnum sem lögreglan segir mikla ofbeldismenn og sem grunaðir eru um að ætla að gera út konuna.  

Mansal er viðurstyggilegt og þeir sem taka þátt í því eru óþokkar. Og það er hluti af mannréttindabaráttu að fólk sé ekki haldið í slíkri neyð og lögregla og dómsvald spyrni af alefli á móti slíku. En það er líka mannréttindamál að ekki sé vegið að ákveðnum þjóðfélagshópum og fólk af ákveðnum uppruna sé ekki ofsótt. Oft eru slíkar ofsóknir einmitt réttlættar með meintum fólskuverkum þeirra sem ofsóttir eru. Í þessu tilviki hefur ekki verið réttað í málinu og ekki hefur komið fram að lögreglan hafi önnur vitni en stúlkuna sem ærðist í flugvélinni. Það er líka mannréttindamál að íslensk lögregla taki eins á meintum afbrotum  þeirra sem ættaðir eru frá Vestfjörðum og þeirra sem ættaðir eru frá Litháen.

Frétt eins og þessi kemur af stað mikilli flóðbylgju fordóma sem skellur á útlendingum, ekki eingöngu þeim sem lögreglan leitaði að heldur öllum útlendingum og þá sérstaklega frá Austur-Evrópu og frá Litháen.  Það verða lögregla og fjölmiðlar að átta sig á og það er agalegt ef þeir aðilar leggjast á árina og magna upp útlendingahatur. 

Einmitt núna þegar ég skrifa þetta  stendur yfir mótmælafundur á Lækjartorgi þar sem fólk mótmælir brottvísun flóttamanna í fyrradag.


mbl.is Ekki vitað hvar konan er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Moggabloggið og mbl.is veslast upp

Allir hlutir hafa sinn tíma og ekkert varir að eilífu. Frá því að nýir eigendur komu að Morgunblaðinu og ekki síst frá því að nýir ritstjórar settust þar í stól þá er áberandi að Morgunblaðið á Netinu er ekki eins öflugur vettvangur og áður og fréttamennska þar er nánast engin. Margir bloggarar hafa líka yfirgefið þennan vettvang og sækja í sig veðrið á öðrum stöðum  en það skiptir þó meira máli að stjórnendur Morgunblaðsins núna virðast ekki leggja áherslu á þennan vettvang.  Fréttirnar sem birtast núna í mbl.is eru afar lítið í takt við það sem mér finnst fréttnæmast á Íslandi í dag. Sem dæmi um mest krassandi fréttina í dag er þessi frétt sem ég vel að blogga um, frétt um að lögmenn hafi meira að gera núna við að  krafla sig í gegnum lagaflækjur Hrunsins. Í því sambandi er í niðurlagi fréttar  vitnað í stjúpson Geirs Haarde og fyrrum formann Samband ungra sjálfstæðismanna Borgar Þór Einarsson sem segir „Hjá þeim sem starfa á lögmannsstofum er mikið að gera, þó verr gangi að fá greitt en áður. Hvað umsvifin á stofunum haldast fylgir öðru í þjóðfélaginu,“. Svo fylgja með fréttinni als konar prósentur. Svona er mbl.is vesældarlegt núna, meira segja plögg fyrir Sjálfstæðismenn er svo aumingjalegt að það slokknar á manni bara við að lesa það.

En mbl.is og moggabloggið er kannski eins og íslenskt samfélag og íslenskt atvinnulíf í dag. Það er allt efnislegt til staðar, þetta er fínt dreifingakerfi á upplýsingum og gæti verið öflug fréttaveita en það er nánast ekkert verið að nota þá möguleika, þeir sem stýra og vinna í kerfinu virðast hvorki hafa áhuga eða þekkingu á að nota þennan vettvang.

Reyndar er metnaðarleysið varðandi netmiðlun ekkert bundið við mbl.is. Þetta er furðulegt, það er búið að vera nám í fjölmiðlun í mörg, mörg ár í Háskóla Íslands og fjöldi blaðamanna er atvinnulaus. Hvers vegna eru engir þeirra að skrifa alvöru fréttir fyrir íslenska netmiðla?  Og þó að fréttamennskan hjá mbl.is sé svo flatneskjuleg og leiðinleg að  það eru allir sofnaðir sem reyna að fara inn í miðja fréttina þá jafnast þau leiðindi ekki við  einn af toppum íslenskrar lágkúru í fréttamennsku sem eru fréttir á vísir.is um fræga fólkið. Þar eru fréttir um að einhver stjarna sé með appelsínuhúð og þessa og hina brjóstagerðina. Þau skrif lýsa ekki bara kvenfyrirlitningu heldur almennri mannfyrirlitningu og því að þeir sem skrifa á vefinn kunna ekkert til blaðamennsku. Það hefur verið stofnaður facebook hópur til að mótmæla þeim hroða. Sjá hérna

Maður ætti kannski að stofna facebook grúppu til að berjast fyrir að mbl.is fari að flytja einhverjar meira krassandi fréttir af fyrrverandi og núverandi formönnum Samband ungra Sjálfstæðismanna og  jafnvel skjóti stöku sinni inn fréttum sem varða einhverja aðra en Sjálfstæðismenn.

Og úr því að ég er byrjuð á annað borð þá langar mig til að benda á grynnkuna í Morgunútvarpinu á rás II í ríkisútvarpinu. Vissulega eiga fréttir dagsins að vera þar matreiddar á mannamáli og sum mikilvæg mál dagsins í dag eru flókin þannig að það er vanmeðfarið. Núna hef ég hlustað á brot úr þessu tvö morgna í röð og þetta er ótrúlega billeg fréttamennska. Núna í morgun var verið að útskýra hvernig allt í einu skuldin vegna Icesave hefði nánast gufað upp, útlit fyrir að bankarnir næðu inn 90 %. Þetta var sett upp á einstaklega grunnan hátt og nánast verið að ljúga að fólki (hér hefði ég viljað segja "það var verið að ljúga að fólki" en af því ég er svo varkár í orðum þá læt ég það ekki eftir mér:-)


mbl.is Aukið álag hjá lögfræðingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jakkafataklæddir hrútar á pínlegu einkaflippi

Það er raunalegt að fylgjast með bloggumræðu og þjóðmálaumræðu núna um og framyfir helgina. Hún er óvenjurætin. Íslendingar standa á krossgötum en fyrir atbeina forsætisráðherra og með harðfylgi fjölmiðla og þeirra sem styðja ríkistjórnina í blindni þá er reynt að teyma okkur í blindgötu og botnlanga og látið eins og það sé ekkert val og engar krossgötur til.

Það er ennþá raunalegra að RÚV útvarp allra landsmanna kóar með alveg eins og það gerði í útrásinni og lími ég hérna inn upptöku úr Morgunútvarpi RÚV 13. okt 2009 þar sem hæðst er að för Framsóknarþingmannanna Sigmundar Davíðs og Höskuldar til Noregs.

Það er lögð mikil áhersla á það hjá ríkisfjölmiðlinum að gera þessa ferð hlægilega og sýna þann norska þingmann sem er ákafasti og einlægasti bandamaður Íslendinga sem óábyrgt fífl. RÚV étur líka upp umræðuna án þess að séð verði að fréttaskýrendur þar skilji út á hvað málið gengur eða skilji muninn á láni og lánalínu eða skilji í hvaða stöðu Ísland er núna. Það er reynt að gera för Framsóknarþingmannanna tortryggilega og hlægilega og slæst Rúv þannig í hóp þeirra sem telja að hagsmunum sínum og Íslendinga sem best komið með því að láta leiða sig inn í blindgötu.

Þrátt fyrir að  Framsóknarþingmennirnir Sigmundur Davíð og Höskuldur séu menntaðir í hagfræði og lögfræði  og viti vel um hvað málið snýst og hafi ávalt talað skynsamlega og af rökfestu og þekkingu og stillingu um fjármál Íslands og lögfræðileg málefni ásamt því að hafa frumkvæði að því að leita til fjölmargra innlendra og erlendra sérfræðinga og reynt að hafa samráð við sem flesta innlenda aðila m.a. stjórnmálamenn úr öðrum flokkum þá er gert lítið úr ferð þeirra og henni líkt við pínlegt einkaflipp umboðslausra manna sem séu heimóttarlegir og sauðslegir Bakkabræður. Ég vil nú reyndar taka fram að titillinn á þessu bloggi mínu er ekki fenginn úr umfjöllun Rúv heldur úr þessu bloggi  Agnars : Bakkabræðralegir Framsóknarsauðir og vogunarsjóðsúlfar í sauðagærum en það er ágætt að hlusta á umfjöllun Rúv því hún er alveg í sama anda.

Í för Framsóknarþingmannanna voru fjórir ráðgjafar, allt eftir því sem ég best veit sérfræðingar í alþjóðlegaviðskiptum, alþjóðlegum fjárfestingum  og hegðun vogunarsjóða.  Lára Hanna hefur bent á tengsl tveggja þeirra við íslenskan vogunarsjóð í  þessum tveimur bloggum:

Tortryggni, teygðar meiningar og tengsl

Getur einhver útskýrt þetta?

Það er alveg rétt að við þurfum að vera full tortryggni gagnvart öllum sem höndluðu með mikla fjármuni í íslenska fjármálakerfinu  ekki síst skömmu fyrir Hrunið og það getur vel verið að það hafi verið samspil milli banka og sjóða að skjóta peningum í skjól þegar ljóst var hvert stefndi í fjármálakerfinu. Það eru mörg dæmi um að útrásarvíkingar hafi búið til heilu skógana af fyrirtækjum að því er virðist gagngert til að skúffa verðmætum til eða frá, að mestu leyti til að búa til verðmæti og láta líta út að einhver raunveruleg verðmæti væru til þegar aðeins voru spilapeningar að þyrlast til eða frá en það á örugglega eftir að koma upp á yfirborðið að slíkt hafi verið gert líka til að koma  raunverulegum verðmætum undir yfirráð eða eign útrásarvíkinga. Mér sýnist Lára Hanna ýja að því að það hafi verið gert með verðmætan hlut í Tanganika oil og það mál þarfnast rannsóknar og það er ágætt að Lára Hanna og aðrir sem hafa fundið vísbendingar um að slíkt gæti hafa gerst komi ábendingum til sérstakra saksóknara sem rannsaka íslenska Hrunið. Ég og fleiri Íslendingar viljum gjarnan vita hvernig eignarhaldi Straums og Boreas var háttað á þessum hlutum.

Tveir af þessum sérfræðingum hafa sent fjölmiðlum og netmiðlum greinargerð og svar við umræðunni, sjá hérna og hér tek ég hluta úr henni, ekki af því ég sé sérstakur  málssvari starfsmanna vogunarsjóða heldur af því að hér er mælt af skynsemi, miklu meiri skynsemi en fosætisráðherra mælir af þegar hún í einu orði segist snúðug ekki þurfa lán og sendir tölvupóstsnifsi sem grátbænir forsætisráðherra Noregs að lána Íslendingum alls ekkert án samþykkis AGS og í næsta orði segir að Íslendingar verði að samþykkja Icesave, annars fáum við engin lán og íslensk skuldabréf verði "junk bonds":

"Undirritaðir voru beðnir um að sitja fundi í Noregi með tveimur þingmönnum, þeim Höskuldi Þórhallssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Með okkur í för var Jón Gunnar Jónsson sem starfað hefur í 17ár hjá Merrill Lynch bankanum í New York, London og Hong Kong. Eins og margir vita var það yfirmaður greiningardeildar Merrill Lynch, sem varaði við íslensku bönkunum árið 2006 en á það vildu fáir hlusta. Tilgangur okkar á þessum fundum var að útskýra hvernig AGS hefur hegðað sér gagnvart Íslendingum; hótað okkur með því að draga lappirnar í lánveitingum vegna Icesave, og veikt samningsstöðu okkar gagnvart Bretum og Hollendingum. Hvernig þeim hefur tekist að sliga íslenskt atvinnulíf með því að halda stýrivöxtum í ógnarhæðum undanfarið ár. Þess má geta að stýrivextir í Noregi eru 1,25% um þessar mundir.

Við skýrðum einnig út ástæður þeirra háu stýrivaxta sem AGS mælir með hér á landi. Í því samhengi bentum við á að AGS lánaði Argentínu milljarða dollara til þess eins að auka gjaldeyrisvaraforða þeirra. Í kjölfarið var gjaldeyrishöftum aflétt sem varð til þess að erlendir áhættufjárfestar sem fastir voru inní kerfinu soguðu út forðann á 45 mínútum. Hér á landi eru erlendir jöklabréfaeigendur (með öðrum orðum áhættufjárfestar) fastir í kerfinu með um 600-700 milljarða íslenskra króna í ríkisskuldabréfum og innistæðum í bönkum. Það er því ástæða að spyrja sig af hverju AGS áætlunin gerir ráð fyrir að lána okkur 5 milljarða dollara (625 milljarða). Einnig útskýrðum við hvernig niðurskurðarstefna AGS stefnir norræna velferðarkerfinu í hættu. Að auki var greint frá að með því að viðhalda 12% stýrivöxtum og 9,5% innlánsvöxtum er íslenskur almenningur að greiða 190 milljarða á ári í vaxtakostnað til þeirra sem eiga innlánsfé í bönkum. Innlán munu vera um 2.000 milljarðar (2000 milljarðar x 9,5%). Þessi vaxtakostnaður nemur því yfir 500 milljónum á dag sem er meira en árlegur kostnaður heilbrigðiskerfisins. Eftir þetta voru norsku þingmennirnir flestir farnir að fussa og sveija yfir þeim augljósu þvingunum sem eru að eiga sér stað hér á landi í boði AGS, Hollendinga og Breta.

Við sýndum fram á það að „fyrirtækið“ Ísland gengur í rauninni mjög vel enda höfum við haft jákvæðann vöruskiptajöfnuð í 11 mánuði í röð og allar stóru „deildirnar“ eins og stóriðjan, ferðamannaiðnaðurinn og sjávarútvegurinn eru að keyra á öllum tiltækum „cylendrum“. Verkefnið væri því einfalt, við þurfum að endurfjámagna skuldir, greiða upp dýr lán með nýjum og í raun endurskipuleggja lánauppsetninguna.

Við lögðum fram hugmynd að 50 milljarða NOK (1000 milljarða) lánalínu til Íslands sem gæti orðið til þess að losna við AGS úr landi. Þessi lína bæri lítinn kostnað eða 0,25% á ári og eingöngu myndum við greiða vexti (4% var lagt fram) af þeim fjárhæðum sem við myndum draga á línuna. Þessi lánalína kæmi okkur Íslendingum á lappir, hækkaði lánshæfismat okkar og styrkti krónuna. Seðlabankar Íslands og Noregs gætu í kjölfarið unnið í samvinnu við að stýra okkur út úr þessu og keypt t.d. upp skuldabréf íslenska ríkisins með afföllum, greiða upp óhagstæð lán og taka ný og eða draga á línalínuna. Það er alveg ljóst að skuldatryggingarálag Íslands (CDS) myndi lækka við þessa línu og opna dyrnar fyrir Ísland á alþjóðlega lánamarkaði. Með því að fá þessa línu væri mögulegt að aflétta höftum, lækka stýrivexti og þannig laða að erlenda fjárfesta. Lánalínan yrði útfærð eftir fjármagnsþörf landsins og fjárhæðir með endurgreiðslugetu í huga. Við lögðum til að við notuðum 1/3 í að laga fjárlagahallann, 1/3 í erlendar skuldir á næstu þremur árum og 1/3 í að styrkja gjaldeyrisforðann. Samkvæmt okkar útreikningum þá þurfum við kannski að draga 1/3 til 2/3 af 1000 milljarða lánalínu þar sem hún virkar á mörgun stöðum sem svokölluð stríðskjöldur (e. warchest).

Það var að beiðni norsku þingmannanna að við skrifum minnisblað um ofangreind atriði og er það í vinnslu. Minnisblaðið verður sent frá okkur á næstu dögum."

Myndin sem reynt er að draga upp í fjölmiðlun af Framsóknarmönnum sem bjálfalegum og spilltum aulum sem ana út í vitleysu gæti ekki verið meira fjarri sanni en þeir sem eru rökþrota og úrræðalausir sjálfir grípa oft til þeirra ráða að búa til einhverja mynd sem þeir vilja sjá. 

Sannleikurinn er hins vegar sá að Framsóknarflokkurinn er sá flokkur á Íslandi sem gengið hefur langlengst í endurnýjun eftir Hrunið og sá flokkur sem mest hefur tekið sig á varðandi spillingu og vinnubrögð. Það hefur verið gríðarlega sterk undiralda í Framsóknarflokknum að breyta því götótta og gatslitna kerfi sem við höfum búið við. 

Framsóknarþingmenn okkar hafa einnig verið óþreytandi að leita til bæði útlendra og erlendra sérfræðinga. Það er raunar einkennilegt að á sama tíma og hæðst er að því  og látið líta út eins og það sé dæmi um spillingu að Framsóknarmenn hafi með sérfræðinga til ráðgjafar þegar þeir kynna fjárhagsleg málefni Íslands fyrir norskum þingmönnum þá setji fólk ekkert spurningamerki við skipan þeirrar nefndar sem fjallaði um það mál sem var stærst allra sem Íslenska ríkisstjórnin hefur staðið frammi fyrir, það er undarlega lítið rætt um hvers vegna í ósköpunum Steingrímur skipaði Svavar Gestsson í þá nefnd, ekki nokkur maður getur komið auga á þá sérfræði sem Svavar hefur á þessum málaflokki.

Það er ástæða til að ætla að Sigmundur Davíð  og aðrir Framsóknarþingmenn mynd fara betur að ráði sínu en ríkisstjórn Íslands hefur gert með sínum skrýtnu vinnubrögðum í Icesave. Hér vil ég ekki gera lítið úr ríkistjórn Jóhönnu og Steingríms, ég tel hana raunar hafa unnið kraftaverk á sínum stutta starfstíma í mörgum málum. En Icesave framganga ríkisstjórnarinnar er eitt megaklúður. Það er ekkert hlustað á þá sem þó vita eitthvað um málið og það er slegið á útréttar hjálparhendur grannþjóða og það er ekkert látið reyna á stuðning þeirra sem ættu að hafa stutt okkur þegar hryðjuverkaógn hins volduga Bretaveldis var að buga okkur.

En við Framsóknarmenn höldum ótrauð áfram. Það skiptir ekki máli hve háðsleg orð umræðan er vafin inn í og hve lítið er gert úr því sem forustumenn okkar gera og það gert tortryggilegt að þeir leiti til sérfræðinga. Það er betra að sitja undir því og rökstyðja það heldur en að fylgja ráðþrota ríkisstjórn sem sér engar leiðir og skilur ekki hagfræði og horfir ekki hvaða fjötra hún er að leggja yfir íslenska þjóð.

 

 

 


mbl.is Ekki þörf á norsku láni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsætisráðherra sem þegir, ráðherrar sem tala niður atvinnulíf

Rétt fyrir Hrunið riðaði  íslenska bankakerfið til falls en einmitt þá fóru forsætisráðherra og utanríkisráðherra um lönd og töluðu af sannfæringarkrafti um hve stöðugt íslenska bankakerfið væri - að því er virðist beinlínis til að róa erlenda fjárfesta sem áttu fé á Íslandi. Samt vissu þau manna best hvernig ástandið var en þau leyndu því bæði fyrir almenningi á Íslandi og erlendum fjárfestum og voru beinlínis að blöffa til að ekki yrði gert áhlaup á íslensku bankana. Í mörg misseri var forseti Íslands í slagtogi með útrásarvíkingum og fór með þeim í einkaþotum þeirra að hitta ráðamenn í fjarlægum löndum.

Það er því ekkert nýtt fyrir okkur að trúverðugleiki íslenskra ráðamanna sé enginn. Það var einmitt út af því sem við mættum laugardag eftir laugardag niður á Austurvelli allan síðasta vetur. 

Það tókst að koma þeirri vanhæfu ríkisstjórn sem þá sat frá völdum. Ástandið er þannig að eina vitræna og heiðarlega leiðin í stjórnmálum á Íslandi í dag er þjóðstjórn.  Það sem gerðist er að hér er núna samsteypustjórn Samfylkingar sem var einmitt í hrunstjórninni og Vinstri Grænna sem aldrei hafa verið í stjórn og kunna ekki að fara með völd.

Viðfangsefnin sem Ísland stendur frammi fyrir núna eru svo risavaxin og afleiðingarnar svo afdrifaríkar að það er mikilvægt að allir taki þátt í lausn þessa vanda og sem flest sjónarmið heyrist og sem flestar lausnir séu skoðaðar.  En hvernig er ástandið? Það er afar lítil samstaða í þessari ríkisstjórn og raunar virðast ráðherrar spila sóló um hvað þeir séu að gera.  Einnig virðast áherslur ráðherrana stórfurðulegar. 

Það er verr að sá ráðherra sem mesta framsýni hefur og skilning á hvað er að gerast bæði hér á Íslandi og í alþjóðasamfélaginu Ögmundur Jónasson hvarf úr ríkisstjórninni og virðist manni hún núna hanga á bláþræði og ráðherrarnir fara fram með ákaflega einkennilegum hætti.

Svo ég taki þrjú dæmi, þau Jón Bjarnason, Jóhönnu og Svandísi.

Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra virðist ekki hafa áhuga á neinu öðru en hagsmunapoti fyrir þá sem búa utan þéttbýlis á Íslandi, hann hefur meira segja gengið svo langt að lýsa yfir að hann vilji að landsbyggðin borgi minni orkuskatta en þéttbýlið og núna hefur hann áhyggjur af stofnfjáreigendum í sparisjóðum í sínu kjördæmi. Hann gengur erinda sárafárra Íslendinga en það einkanlega atvinnurekendur útgerðarmenn og bændur og hefur ekki beitt sér í innköllun aflaheimilda sem þó var kosningamál Vinstri grænna.

Jóhanna forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar  lagði fyrir okkur afarsamninga Icesave, í reynd þvíngun stórveldis í skjóli hryðjuverkalaga og hún talaði hvorki máli okkar við Nató né vill leita allra mögulegra annarra leiða. Það er furðulegt að Jóhanna skuli ekki vilja láta reyna með formlegum hætti á samstöðu Norðurlandaþjóða með Íslandi   og hrópa hátt í alþjóðasamfélaginu m.a. hjá Nató um hvernig komið er fram við íslenska þjóð núna. Þó Jóhanna sé alltumvefjandi og enginn efist um að hún vill slá skjaldborg um heimilin í landinu þá er hún ósýnilegur málsvari Íslands í alþjóðasamfélaginu og lætur þar sviðið eftir fyrir þann sem ætti nú að vera í felum - Hrunforsetinn Ólafur Ragnar tjáir sig í ýmsum alheimsmiðlum alveg eins og hann stjórni Íslandi og njóti trausts.

Núna um helgina  urðu skrýtnir stjórnarhættir Jóhönnu ljósir á tvennan hátt. Annars vegar var hvernig hún tók því að Framsóknarmenn tækju frumkvæði og færu til Noregs til að freista þess að fá stuðning Norðmanna  við Ísland. Jóhann sendi tölvupóst til norska forsætisráðherrans og spurði hvort hann vildi lána Íslandi 2000 milljarða án nokkurra trygginga og fékk svar sem vísaði í fyrri skuldbindingar Norðmanna.

Þetta er mjög einkennilegt, það er að koma ný stjórn í Noregi og vitað er að hluti þeirrar stjórnar er mjög vilhallur Íslendingum. Það hefði því verið eðlilegt að opinber beiðni kæmi frá Íslandi. Það er líka einkennilegt að það leki út skýrsla frá forsætisráðuneytinu sem segi að að veruleg hætta sé á að lánshæfi Íslands verði þannig að ríkisskuldabréf verði skilgreint sem junk bonds með þeim afleiðingum að sjóðir mega ekki eiga þau EF ekki verður búið að samþykkja Icesave fyrir 23. október. 

Þetta er alvarleg staða og það er því ákafleg undarlegt að forsætisráðherra skuli ekki beita sér meira á alþjóðavettvangi m.a. hjá Norðurlöndum og Nató og það er líka undarlegt að ekki skuli vera rætt að ef Ísland undirgengst samninga sem það klárlega ræður ekki við þá getur það ekki létt til annars en þjóðargjaldþrots og þess að hvort sem er skuldabréf ríkisins fari í ruslflokk.  Það er í sjálfu sér betra að horfast í augu við aðstæður núna strax frekar en vera í "postponed crisis" og lifa með gjalddaga Icesave samninga eins og öx yfir höfði sér.  Það er satt að segja enginn hvati til uppbyggingar á Íslandi ef við vitum að allt fer í rusl eftir 7 ár.

Síðasti ráðherran sem núna hegðar sér undarlega er   Svandís umhverfisráðherra  en málflutningur hennar þegar hún var að verja ákvörðun á sviði umhverfismála gagnvart orkufyrirtækjum var stórfurðulegur.  Vissulega á umhverfisráðherra að gæta að umhverfismálum og nota til þess þau lög og heimildir sem hann hefur. Það er vel að umhverfismál séu tekin alvarlega. En sá rökstuðningur sem ráðherrann notaði í opinberri umræðu - að blanda saman sinni sýn á fjármál eins orkufyrirtækis og svo ferli varðandi umhverfismat - er stórfurðulegur og ég efa að hann standist stjórnsýslulög.

Ég held að æstir andstæðingar virkjana séu svo uppteknir af málstað sínum að þeir sjá ekki hve stórfurðulegt þetta er. En ef hér hefði verið t.d. verið  fyrirtæki sem rekur fiskeldi sem hefði verið að basla við að koma upp fleiri fiskkörum  eftir Hrunið og fá einhvern til að fjármagna uppbyggingu en þurft að fá  leyfi eða stimplun frá umhverfisráðherra. Ráðherrann hefði  ekki veitt stimpilinn vegna þess að það þurfti að athuga mengunarmálin betur og það tæki tíma en svo komið í fjölmiðla og gjammað um að umrætt  fiskeldisfyrirtæki væri svo skuldsett og komið að fótum fram að það væri glórulaus vitleysa hjá því að fá meiri lán og setja upp ennþá eitt fiskikarið, það myndi rúlla allt á hausinn. Ég hugsa að það myndi alla vega ekki gera fjármögnun til uppbyggingar auðveldari hjá fiskeldisfyrirtækinu sem ég tek sem dæmi. 

Forstjóri OR og stjórnarformaður hafa reyndar skrifað bréf og segja m.a.:

Við þessar aðstæður kýs ráðherra í ríkisstjórn Íslands að ráðast fram á sviðið og lýsa því yfir að Orkuveita Reykjavíkur sé ekki fær um að ráðast í þessar framkvæmdir. Það er ótækt að búa við það að fulltrúi ríkisstjórnarinnar leitist við að draga úr fjárhagslegum trúverðugleika þessa fyrirtækis í almannaeigu. Í ljósi skuldbindinga ríkisvaldsins gagnvart Helguvíkurverkefninu, verður að líta svo á að ráðherrann sé að þjóna sérskoðunum sínum á kostnað Orkuveitu Reykjavíkur, eigenda hennar og alls almennings í landinu.

Fyrir Hrunið höfðum við ráðherra sem töluðu upp gengi krónunnar og veldi bankanna þó engin innistæða væri fyrir því.

En í dag er ástandið þannig að við höfum ráðherra sem þegja í hel eða tala niður allt sem getur orðið okkur til bjargar. Við höfum forsætisráðherra sem þegir á meðan íslensk þjóð er hneppt í skuldaánauð og við  höfum ráðherra sem tala eingöngu fyrir og við lítinn hluta Íslendinga og við höfum  ráðherra sem einsetja sér að  tala sem mest niður íslenskt atvinnulíf.


mbl.is Segja ráðherra skaða OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er stofnfjáreigendabjörgun að hefjast?

Vissulega er vandi stofnfjáreigenda í Húnaþingi mikill. Svo virðist sem venjulegt fjölskyldufólk í Húnaþingi hafi árið 2007 verið gabbað til að kaupa stofnfjárbréf í sparisjóði fyrir peninga sem fólkið átti ekki en tók að láni frá Landsbankanum í erlendri mynt.  Þetta er ekki bundið við Húnaþing,ég hef líka heyrt að það sama hafa gerst annars staðar í Norðvesturkjördæmi. 

Þetta er hroðalegt og ég spyr, hvar voru þingmenn kjördæmisins þá? Hvers vegna stóðu þeir ekki sína vakt og aðvöruðu almenning í Húnaþingi og víðar við svona rugli? Þetta var mjög mikil áhætta árið 2007, það sér hver maður að lán í erlendum gjaldeyri til peningalegra fjárfestinga eru mikil áhætta fyrir fólk sem ekki hefur tekjur sínar í erlendum gjaldeyri og í þessu tilviki var fólkið að fjárfesta í óefnislegum eignum sem hvorki tengdust atvinnu þeirra né húsnæði. 

Það verður að horfa á þessar skuldir sem slíkar. Þetta eru spilaskuldir þeirra sem létu blekkjast til að leggja fé í bankarekstur. Því miður er útlit fyrir að öll fjárfesting fólksins í sparisjóðinum sé verðlaus en það sem er verra er að skuldir fólksins hafa aukist gríðarlega vegna kerfishrunsins og gengisfalls krónunnar. 

Vandi margra fjölskyldna, fyrirtækja og einstaklinga vegna Hrunsins er gríðarlegur. Það er í raun eina skynsamlega tillagan að leiðrétta eða endurstilla kerfið einhvern veginn t.d. með 20 % niðurfellingu skulda alveg burtséð frá því hvaða skuldir þetta eru, hvort það eru húsnæðisskuldir eða skuldir vegna stofnfjárkaupa.  Slík aðgerð myndi bæta stöðu þeirra sem keyptu stofnfjárbréf og verða til þess að þeir fá ekki á sig margfalt högg, það er nóg að fá höggið vegna þess að fjárfestingin er einskis virði  þó ekki bætist ofan á  högg vegna þess að íslenska krónan fellur og gengistryggt lán hækkar.

En það eru margir á Íslandi sem ætti að bjarga fremur en þeir sem keyptu stofnfé í sparisjóðum og töpuðu fé á því.  Sumir hafa farið mjög illa vegna þess að þeir hafa misst vinnu og framtíðarvon um vinnu, eignir þeirra orðið verðlausar, lán þeirra vegna húsnæðis og fyrir fjölskyldur rokið upp og atvinnutæki og fyrirtæki hafa engin verkefni. Það er þar sem björgunarstarfið á að fara fram. Það þarf að hjálpa venjulegu fólki sem var þannig statt í lífinu að það skuldaði mikið  í húsnæði sem er til búsetu fjölskyldu og það þarf að aðstoða lífvænleg fyrirtæki sem tóku lán til reksturs en ekki þá sem tóku lán til að fjárfesta í einhverjum sparisjóði.  Í flestum tilvikum er það ungt fólk með ung börn sem nýbúið var að fjárfesta í húsnæði sem verst er statt.

Það er óþolandi kjördæmispot þingmanna eins og Jóns Bjarnasonar og Einars K. Guðfinnssonar að horfa eingöngu á hag fólks í þeirra kjördæmi og virðast núna hafa þyngri áhyggjur af stofnfjáreigendum sem búsettir eru í þeirra kjördæmi heldur en öllum þeim þúsundum fjölskyldna sem ekki lengur neina fyrirvinnu, eiga ekki lengur neinar eignir og vita ekki hvort eða hvenær þær verða bornar út úr húsnæði sínu?

Einu sinni var byggðastefna á Íslandi fólgin í því að passa að landsbyggðin tæmdist ekki af fólki. Núna er byggðastefna fólgin í því að reyna að halda Íslandi í byggð.

Það er þannig að flest fólkið býr hérna á Stór-Reykjavíkursvæðinu og í kringum Akureyri. Sennilega eru um 90 % af fólki í innan við einnar klukkustundar fjarlægð frá þessum tveimur atvinnusvæðum. Það er á þessum stöðum sem kreppan hefur skollið harkalegast á fólki.  

Einar K. Guðfinnsson segir það óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir algjört hrun í byggðum þar sem mikill skuldabaggi vegna stofnfjáraukningar í sparisjóðum blasir við, á Einar við það að hann vilji fella niður eða hygla skuldsettum stofnfjáreigendum fremur en öðrum?

Vill Jón Bjarnason sem nú er ráðherra allra landsmanna í sitjandi ríkisstjórn einnig fara þá leið að hygla sérstaklega skuldsettum  stofnfjáreigendum frekar en öðrum?

Ef svo er þá spyr ég þá Jón og Einar á því hvernig þeir ætla að réttlæta slíkar aðgerðir fyrir einstæðum atvinnulausum föður í Hafnarfirði sem nýhættur er að geta borgað af íbúð sínni og býr sig undir að flytja með börnin í herbergi til foreldra? Hvernig ætla þeir að réttlæta það fyrir einstæðri atvinnulausri móður í Breiðholti sem hefur misst íbúð sína? Hvernig ætla þeir að réttlæta það fyrir öllum þeim sem unnu í banka eða byggingavinnu og voru að koma sér upp húsnæði? Það fólk varð allt fyrir skelfilegu höggi, eiginlega svo miklu rothöggi að fólk er ennþá að jafna sig og er að safna kröftum til að gera það eina sem það sér í stöðunni sem í flestum tilvikum virðist vera að flytja úr landi til að skapa einhverja framtíð fyrir börnin sín. Hvernig ætla Jón og Einar að réttlæta að hjálpa þeim sem keyptu stofnfé sparisjóða í Húnaþingi fyrir öllum þeim þúsundum Reykvíkinga sem núna hafa enga möguleika en að leita til Félagsmálastofnunar eftir fjárhagsaðstoð vegna þess að þeir hafa ekki einu sinni rétt á atvinnuleysisbótum?

Hvers vegna vilja stjórnmálamenn Norðvesturkjördæmis  sérstakar ráðstafanir til að bjarga fjárhag  þess fólks úr Húnaþingi sem fór afar ógætilega að ráði sínu þegar það tók lán til að kaupa hlut í bankastofnun frekar en þeim sem búa á Reykjavíkursvæðinu og  eru úrræðalausir og alslausir og hafa ekkert og eiga ekki einu sinni neitt sem hægt er að gera lögtak í. 

Ef úr verður að þessum hópi verði hyglað öðrum fremur þá bætist þetta í væntanlega langan lista af óréttlæti og óstjórn EFTIR Hrunið og kringum Hrunið  og  má  líka  skoða hérna kúlulánaniðurfellingar bankamanna og útborgun úr peningamarkaðssjóðum eftir Hrunið. 


mbl.is Hörmuleg staða Húnvetninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GoAnimate

Prófun á forriti til að búa til myndasýningar og teiknimyndir. Hægt er að taka myndir beint úr flickr myndasafni. Einnig hægt að setja inn eigin myndir og hljóð. GoAnimate.com: Föst í eigin sögu eftir salvor

GoAnimate.com: réttardagur eftir salvor


Geta stjórnmálamenn sparað?

Framlög til stórmynda, afþreyingarkvikmynda sem kosta tugi eða hundruð milljóna í framleiðslu og sem sýnd eru í kvikmyndahúsum fyrir aðgangseyri eru eitt það fyrsta sem ætti að skera niður hjá þjóð sem er í svo mikilli fjárhagsnauð að  veruleg hætta er á að landsmenn kikni undan skattanauð og ríkissjóður geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Það eru bara tvær aðferðir í fjármálum til að glíma við þá stöðu sem uppi er núna. Önnur aðferðin er að hækka skatta og álögur á landsmenn og auka þannig tekjur ríkissjóðs,  hin aðferðin er sú að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Besta leiðin verður einhver skynsamleg blanda af þessu.  

Það er nauðsynlegt að hækka skatta en það má ekki hækka þá það mikið að það lami allt athafnalíf.  Allra vitlausasta stjórnsýslan núna er að hækka og hækka skatta en hegða sér eins og ríkisvaldið sé fyrst og fremst að færa til fjármuni, að skattpína almenning til að borga fáránleg lúxusverkefni íslenskrar yfirstéttar.  En ríkisstjórnin sem núna situr kann hvorki að hækka skatta né lækka útgjöld. 

Það var bara í gær sem ég las að Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vildi að væntanlegir orkuskattar legðust ekki á fólk út á landi. Þannig virðist ráðherrann ekki hafa haft fyrir að kynna sé lög um skatta sem segja að ekki megi mismuna við skattheimtu, það má ekki leggja skatt á óvini sína og sleppa vinum sínum.  Núna í dag les ég að menntamálaráðherra sé strax að lúffa fyrir lobbíisma kvikmyndagerðarmanna.

Kvikmyndagerð er merkileg listgrein en hún er geysilega dýr og það er vandséð hvernig hægt er að réttlæta að  setja fé í gerð höfundarréttarvarinna stórmynda, dægurefnis sem sýnt er í kvikmyndahúsum Jóns í Skífunni og hans nóta þegar hægt er að stuðla að listsköpun sem kostar miklu minni peninga.  Stórmyndir til sýninga í kvikmyndahúsum, stórmyndir þar sem menn eins og Hrafn Gunnlaugsson eða Lars Trier safna saman fúlgum fjár til að búa til mynd þar sem þeir einir ráða öllu  eru líka miðill gærdagsins og á eins miklum fallanda fæti og ritstýrðu dagblöðin.  Það er hins vegar ekki þannig að  listsköpun í kvikmyndamiðlinum sé á fallanda fæti, það hefur aldrei verið eins mikil gróska og gerjun en hún er ekki í  formúlugerðum stórmyndum sem eru söluvara í kvikmyndahúsum, gerjunin er í örsmáum kvikmyndum sem mælast í sekúndum eða nokkrum mínútum og kosta lítið í vinnslu og sem er dreift á Netinu og eru stundum efniviður í aðrar myndir. Hið nýja listforn eru þannig myndir sem er blandað og endurblandað og dreift í miðlum eins og youtube og kaltura. Í fyrstu var þessi stafræna miðlun aðeins dreifileið fyrir efni sem var búið til fyrir sýningar í sjónvarpi eða á breiðtjöldum kvikmyndahúsa  og stundum var það efni ólöglega afritað.  Núna er fólk hins vegar að sjá að þessi miðlun er ný listgrein og mikil gróska er í listsköpun í svona endurblandaðri örmiðlun.  

Það er svona listsköpun sem er listsköpun þeirra sem eiga svo til engin verkfæri. Alveg eins og listsköpun Íslendinga fyrr á öldum var list orðsins sem þurfti ekki aðra miðlunar og varðveisluleið en kálfskinn og blek og mannlega rödd þá ætti við þær aðstæður sem við erum í núna að hlú að nýjum listgreinum sem eru þess eðlis að þær kosta ekki mikið og aðgöngumiðinn til að taka þátt er ekki nokkrir tugir milljóna eins og er með kvikmyndir. 

Það reynir núna á hvort ríkisstjórn hins gjaldþrota Íslands er ríkisstjórn yfirstéttar sem hegðar sér eins og yfirstéttin hegðaði sér árið 2007 og styrkir listgreinar þar sem aðeins fáir geta tekið þátt í. Það eru vissulega margir sem horfa á vinsælar kvikmyndir en er það rétt meðferð á skattfé að taka fé frá almenningi með skattgreiðslum og nota það til að niðurgreiða dægurkvikmyndir í íslenskum kvikmyndahúsum? 

Ég vil hérna reyndar segja frá því að ég reyni eins og ég get að benda fólki á listgrein og sögugerð sem mér finnst  sjálfri alveg upplögð  sögugerð kreppunnar. Það er kallað "stop motion animation" og er nú listform þar sem þarf ekkert nema stafræna myndavél og þá hluti sem hendi eru næst.

Ég er að taka saman vef með efni sem ég hef búið til um  stop motion animation og verkfæri til slíkrar sögugerðar. Vefurinn er í smíðum en ef einhver vill kynna sér þetta þá eru nokkur kennslumyndbönd frá mér hérna:

http://vefir.hi.is/salvor/leirkallamyndir/

Það er mikill hofmóður hjá mér að bera saman amatör leirkallamyndir og styrki til kvikmynda fagmanna eins og kvikmyndina Rokland eða Brúðgumann. En það er miklu ferskari listgrein að búa til örstuttar myndir sem blandast myndum annarra heldur en halda áfram að framleiða höfundarréttarvarðar stórmyndir til sýninga í kvikmyndahúsum.

Sá sparnaður sem núna virðist boðaður af stjórnvöldum virðist ekki hafa neina stefnu, það virðist vera svo mikil hræðsla stjórnmálamanna við þrýstihópa að þeir geta ekki gert það sem þeir eru kosnir til, þeir geta ekki breytt kerfinu, þeir geta ekki lagað sig að hinum nýju aðstæðum.

Þær aðstæður sem við erum í núna krefjast verulega breyttrar nálgunar, líka varðandi styrki til menningarmála. Það verður að styrkja við menningarmál sem líkleg eru til að hafa sem mest margfeldisáhrif, virkja sem flesta, eru ódýr og nota nýja og ódýra miðla og eru tilraunastarfsemi.  Þannig eru ekki stórmyndir gærdagsins, ég vil ekki móðga alla hina frábæru listamenn kvikmyndanna  en ég get samt ekki sagt annað en kvikmyndaformið sem gengur út á sögu sem hópur fólks kemur svo að horfa á breiðtjaldi með popp og kók er steinrunnið og gelt. Það átti sinn blómatíma en hann er liðinn.

Það er reyndar miklu meiri ástæða til að styrkja nýsköpun í leikhúsum heldur en kvikmyndagerð. Það er þó engin ástæða til að styrkja sömu gömlu leikverkin, leikverkin sem leikhúsin setja á svið vegna þess að þau selja og trekkja að. En það er ástæða til að styrkja tilraunaleikhús, styrkja handritagerð til slíkra verka og það skynsamlegasta við þessar aðstæður sem við erum í núna er að stofna leiklistarskóla hérlendis sem fleiri geta farið í en þessi skrýtni og forneskjulegi leiklistarskóli sem Þjóðleikhúsið rekur og tekur ekki inn nema örfáa nemendur á ári. Það er fáránlegt að fjöldi Íslendinga sé í leiklistarnámi erlendis af því þeir komast ekki inn í leiklistarskóla hérlendis. 

Það er miklu sniðugra við þær aðstæður sem við erum í núna að nota peninga til að mennta ungt fólk í leiklist hérlendis  og styrkja tilraunaleikhús og ódýrar örmyndir heldur en að dæla peningum í stórmyndir.  Það að styrkja stórmyndir (þ.e. kvikmyndir í kvikmyndahúsalengd) er styrkur til útvalinnar elítu miðlað sérstaklega til leikstjóra. Það að styrkja leiklistarskóla er styrkur til ungs fólks til náms og til þess að vera listamenn í framtíðinni. 

Það er eitthvað að áherslum á Íslandi í menningarmálum ef stjórnmálamenn dæla peningum í skrauthýsi við sjóinn í kreppumusterið Tónlistar- og ráðstefnuhúsið og dæla svo peningum í sjóinn með því að styrkja  venjulegar afþreyingarmyndir. 

 


mbl.is Vill endurskoða fjárveitingar til kvikmyndagerðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skandallinn eftir Hrunið - útgreiðslan úr peningamarkaðssjóðum

Það er langt í land að undið verði ofan af hinu að því virðist gerspillta íslenska fjármálakerfi sem féll með bauki og bramli  fyrir ári síðan.  En spillingin og óráðsían endaði ekki með "Guð blessi Ísland" ræðu Geirs. Ég get ekki betur séð en það hafi verið vítaverð meðferð á almannafé og afar mikil mismunun milli þegna þegar stjórnvöld ákváðu eftir hrunið að hygla sérstaklega þeim sem áttu hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum.

Ég fæ ekki betur séð en þarna hafi stjórnvöld farið ránshendi um þær eignir sem til voru inn í gjaldþrota bönkum og skúffað peningum til að eigin geðþótta, hugsanlega af pólitískum ástæðum til að leyna því hve illa þessum peningamarkaðssjóðum var stjórnað, hugsanlega til að bjarga fé stórra innlendra aðila svo sem fé sveitarfélaga og lífeyrissjóða, aðila sem eru fagfjárfestar og sem átti að vera fullkunnugt um að inneign í peningamarkaðssjóðum sem lofa hárri ávöxtun er ekki sama og inneign inn á bankareikningi.

Þessi ráðstöfun á útgreiðslu á fé úr peningamarkaðssjóðum er  illa verjanleg  fyrir Íslendingum sem velflestir töpuðu fé á einhvern hátt sem þeir fengu ekki bætt, sumir af því að hlutabréf urðu verðlaus, sumir af því að vísitölutryggð lán eða myntkörfulán ruku upp, sumir af því að fasteignir og atvinnutæki urðu verðlaus eða atvinna þeirra hvarf. Þaðan af síður er þessi útgreiðsla úr peningamarkaðssjóðum úr gjaldþrota bönkum, þessi ríkisniðurgreiðsla á tapi til eigenda innstæðna í peningamarkaðssjóðum skiljanleg eða verjanleg fyrir erlenda kröfuhafa en samkvæmt neyðarlögunum voru ekki einu sinni bankainnistæður þeirra bættar, það var miðað við kennitölu.

Það er vel verjanlegt og augljós neyðarráðstöfun að tryggja bankainnistæður, það hefði allt lagst á hliðinni samstundis ef það hefði ekki verið gert og bankakerfið orðið fullkomlega óstarfshæft en það sama gilti ekki um peninga í áhættusjóðum þó þeir séu í umsjá banka. Það er mikill munur  áhættusjóðum sem kaupa hlutabréf fyrirtækja og peningum sem eru í veltu fyrirtækja og einstaklinga inn á bankareikningum.

Það er mér engan veginn ljóst sem borgara á Íslandi hvers vegna það var nauðsynlegt að greiða strax út úr peningamarkaðssjóðum og nota fé sem ennþá var í bönkunum og hefði t.d. komið sér ágætlega til að afskrifa húsnæðislán sem bankar veittu og skuldarar geta ekki staðið undir skuli hafa verið tekið traustataki til að greiða út fé í áhættusjóðum. Þeir sem áttu fé inni í peningamarkaðssjóðum eru í hópi kröfuhafa bankanna og þeim var hyglað umfram öðrum á þennan hátt og hér er ekki um að ræða eðlilega bankastarfsemi, hér er um að ræða áhættusama fjárfestingarsjóði sem fjárfestu í fyrirtækjum í eigu eigenda bankanna.  Einum stærsta af þessum sjóði Sjóði 9 var stýrt af þingmanni Sjálfstæðisflokksins Illuga Gunnarssyni og það er bæði óeðlilegt hvernig bréf voru keypt á að því er virðist fáránlegu yfirverði út úr Sjóði 9 þegar alveg var ljóst í hvað stefndi hjá fyrirtækjum eigenda bankanna og hve mikil áhersla var lögð á útborgun úr þessum sjóðum. 

Núna er hins vegar ekki verið að skoða hvað ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gerði eftir Hrunið, núna er skandallinn þegar stjórnendur og eigendur þessara peningamarkaðssjóða voru í örvæntingu að reyna að breiða yfir hver staðan væri og hugsanlega reyna að bjarga einhverju korter fyrir Hrun. Það er agalegt ef rétt er að hér komi endurskoðunarfyrirtækin  KPMG og PriceWaterhouseCooper (PWC)við sögu og séu verkfæri í svona svikamyllum, fyrirtækin sem eigendur bankanna áttu eru að verða gjaldþrota þá eru keypt af þeim bréf í peningamarkaðssjóðum sem eiga þessi fyrirtæki sem eru að verða gjaldþrota og allir heilvita menn (líka endurskoðendur) sáu í hvað stefndi.

Þetta eru t.d.  fyrirtækin Milestone, Baugi, Exista, Stoðum/FL Group, Samson, Atorku og Landic Property.  

Við vitum að eigendur þessara fyrirtækja gátu keypt upp fjölmiðla og fjölmiðlaumfjöllun. Við vitum að þeir gátu keypt upp banka og okkur grunar að þeir gætu keypt liðsinni sumra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. En við héldum að alþjóðleg endurskoðunarfyrirtæki væru eitthvað meira en bara vörumerki, við héldum að  KPMG og PriceWaterhouseCooper (PWC) væru tengdir einhvers konar vönduðum vinnubrögðum við endurskoðun.

Hér er það sem ég hef skrifað áður um þessa peningamarkaðssjóði

Illugi Gunnarsson og Sjóður 9

Það er frjóðlegt að lesa núna aftur réttlætingu Illuga Gunnarssonar á því að einkabankinn Glitnir keypti út úr peningasjóðnum Sjóður 9 rétt fyrir Hrunið bréf fyrirtækja sem stóðu á brauðfótum  úr sjóðnum. Okkur grunar og sá grunur okkar hefur styrkst að hér sé samsæri margra aðila til að bjarga og skjóta undan verðmætum stórra aðila sem áttu hagsmuna að gæta í Sjóði 9.

En Illhugi segir sjálfur um þetta:

Vegna fyrirsjánlegs vanda Stoða ehf. seldi sjóðurinn út eignir sínar í því félagi til Glitnis sem þá var einkabanki. Við þetta lækkaði gengi sjóðsins um 7,0% og eftir þá gengislækkun var sjóðurinn opinn í þrjá viðskiptadaga og fjöldi sjóðsfélaga innleysti eignir sínar á þeim tíma. Í heildina lækkaði gengi sjóðsins um 20,8% frá 26. september og til útgreiðsludags sem var 30. október.

Peningamarkaðssjóðir þurfa að geta greitt út um leið og sjóðsfélagarir æskja þess. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir var engin leið var að finna kaupendur að skuldabréfum Stoða á markaðinum. Með kaupunum var Glitnir að bregðast við vana sjóðsins og viðskiptavina sinna sem áttu hlutdeildarskírteini og vildu innleysa. Bankinn var líka að nýta sér viðskiptatækifæri sem fólst í því að kaupa eignir á afslætti.

Utanaðkomandi endurskoðendastofa var fengin til að meta verðmæti skuldabréfanna sem sjóðurinn átti. Það mat ásamt mati sjóðsins sjálfs á eignunum leiddi til þess að Glitnir banki bauðst til að kaupa bréfin á 30% afslætti miðað við upphaflegt verðmæti.

Takið eftir síðustu málsgreininni.
Þar er vitnað í tvö möt.
Á þeim mötum eru göt.


mbl.is Of hátt mat á virði bréfa í peningamarkaðssjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar hland í pissuskál í Times - og útskúfað af systurflokki Samfylkingar í Noregi

island-pissuskalar.jpg Það er ekki sérstaklega flott mynd af íslensku þjóðinni sem birtist í breska stórblaðinu Times. Táknmynd af íslensku þjóðinni í dag er pissuskálar á karlaklósetti og þjóð sem hefur verið sturtað niður eins og hlandi. 

Það er ekki  sama tilfinningin og við höfum hér á Íslandi en ef til vill gengur þessi kúk og piss myndfréttamennska betur í breska lesendur en alvarleg frásögn af því sem gerðist og er að gerast á Íslandi og hvernig Shock kapitalismi í sinni óhugnanlegustu mynd er praktíseraður hérna með Alþjóða gjaldeyrissjóðinn í gervi handrukkara voldugra Evrópuþjóða sem nú segja að við skuldum lán sem við viljum ekki taka og viljum ekki borga. Við viljum EKKI taka ábyrgð á löskuðu og brotnu bankaumgerðarkerfi Evrópu og við viljum fá að nýta þann rétt sem við héldum að við hefðum, við héldum að ágreining af þessu tagi mætti leysa fyrir dómstólum. 

En það er líka fjallað um Ísland í norskum netmiðlum í dag og það hriktir í norsku ríkisstjórninni. Hér er ein fyrirsögnin:

 norge-ap-slakter.jpgÞað er einhver Evrópuundirtónn í hvernig systurflokkur Samfylkingarinnar í Noregi bregst við aðstæðum Íslendinga, hvernig efnahagslegur talsmaður þess flokks er hvorki að gæta hagsmuna Norðmanna né Íslendinga heldur Evrópusambandsins. Marianne Aasen er mikill Evrópusinni og hún segir þetta um Íslendinga:

ABC Nyheter): Dermed blir Senterpartiets finanspolitiske talsmann avvist av sine rødgrønne regjeringskolleger. Ap-representant Marianne Aasen sier det er uaktuelt å ta snarveier for å hjelpe på Islands økonomiske krise.


- Det får Lundteigen og Senterpartiet mene, men vi er uenig med det. SV er uenig med det. Han kommer ikke noen vei med dette forslaget, slår Aasen fast.

Som ABC Nyheter skrev torsdag, har Lundteigen lovet sitt søsterparti på Island et lån på opptill 100 milliarder norske kroner for å avhjelpe konsekvensene.

- På vegne av Senterpartiet sa jeg til Thórallsson at vi er villige til å gi et betydelig lån opp til 100 milliarder norske kroner, til 4 prosent rente og fem års avdragsfrihet.

Initiativet ligger dermed hos den islandske regjeringen, som må signalisere om de ønsker et slikt lån, sa Lundteigen.

Men forslaget skaper splid internt, og vekker oppsikt både i det SV-styrte finansdepartementet og i Arbeiderpartiets rekker.

- Skal ikke betale for høyreeksperiment

SV-leder og finansminister Kristin Halvorsen står hardt på at lån til Island skal gis gjennom det internasjonale valutafondet, IMF.

Betingelsene for et slikt lån er imidlertid omstridte på Island, og inneholder blant en garanti om at islendingene erstatter tapene nederlandske og britiske kunder har hatt i den konkursrammede banken Icesave.

Finansdepartementet er for travelt opptatt til å kommentere saken i dag, men viser til tidligere uttalelser om at verken Island eller Norge er tjent med direkte avtale mellom Norge og Island.

Marianne Aasen sier Island nå må gjennom en hestekur, og at det ikke fins noen snarvei ut av finanskrisen.

- Det er uaktuelt å gjøre dette på egenhånd. Norske skattebetalere skal ikke betale for eksperimentet for det som høyresida på Island har stått for. Det har vært et liberalistisk høyrevridd prosjekt. At vi skal betale det, er ikke riktig. Når et land har krise er det da IMF og internasjonale organisasjoner som skal tre i kraft, sier Aasen.

- EU krever det samme

Aasens partifelle Svein Roald Hansen er nettopp kommet tilbake fra et besøk på den kriserammede øya. Han sier islendingene nå trenger to år for å komme seg gjennom krisa.

- Hvis Island skal få den hjelp de trenger samlet sett, så må de oppfylle sine internasjonale forpliktelser. Det er ingen løsning om Norge gir dem et lite pusterom. Det er å skyve problemene foran seg, sier Hansen til ABC Nyheter.

Han viser også til at Island uansett må møte IMF-kravene, dersom de skal ha håp om medlemskap.

- Island har søkt EU om medlemskap. Det vil ikke bli aktuelt dersom de ikke har kommet til en forståelse med Storbritannia og Nederland om hva som ligger i forpliktelsene, sier Hansen, som også er tidligere leder av Europabevegelsen.


mbl.is Heilli þjóð sturtað niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og norski Framsóknarflokkurinn

Jóhanna forsætisráðherra er góð kona og ég efast ekki eitt augnablik um að hún reyni eins og hún getur að  lyfta bjarginu sem hefur verið hent  á Ísland. En þegar hún talar um Icesave samninga og að "við viljum vera í samfélagi þjóðanna"  þá efast ég um hæfi hennar. Málið er að Icesave eins og það birtist okkur er ekki samningar, Icesave er þvingun. Þvingun stórra og voldugra grannþjóða sem settu Ísland undir hryðjuverkalög, Icesave er PR stunt óhæfs og grimms þjóðarleiðtoga Breta sem er alveg tilbúinn að fórna litlu eyríki í Atlantshafi til að geta leynt því lengur fyrir heiminum á hvers konar brauðfótum hans eigin veldi er og hve stutt er í upplausnarástand í hans heimabyggð.

Jóhanna talar ekki fyrir máli Íslands á alþjóðavettvangi - eiginlega þvert á móti þá hefur maður á tilfinningunni að hún sé eins og margir aðrir Samfylkingarmenn með ofurtrú á Evrópusambandinu og Evrunni og haldi að innganga í sambandið og upptaka Evru lækni öll mein. Hún sé blind á að það séu engar líkur á því að við uppfyllum skilyrði um upptöku Evru í bráð og lengd og afar, afar litlar líkur til að við fáum sérstök vildarkjör þar, ekki síst vegna þess að aðilar í Eystrasaltslöndunum munu fylgjast grannt með og bera kjör sem öðrum bjóðast saman við sín.

Það er alls óvíst hvernig þjóðir Efnahagsbandalagsins koma undan fjármálahörmungum heimsins. Þjóðir hafa skjól hver af annarri og af gagnkvæmum samningum en á móti kemur að það eru miklu miklu færri leiðir sem ríkin hafa til að stýra staðbundnu atvinnulífi ef hagkerfið er orðið alþjóðavætt og stjórnun úr höndum innlendra aðila.

Við skulum ekki gleyma því að einmitt krónan og gengisskráning hennar er núna í miðri kreppunni öflugt hagstjórnartæki, hagstjórnartæki sem væri ekki í boði  ef hér væri evra. Það breytir því ekki að krónan er örmynt sem passar ekki við það viðskiptaumhverfi sem við búum við núna og þessi örmynt varð til þess að hérna mynduðust aukabólur vegna gengismunaviðskipta (carry trade) og það verður viðfangsefni hagfræðinga í framtíðinni að finna út úr hversu miklu máli þær bólur skiptu fyrir íslenska hrunið.  

Það getur vel verið að það sé ofmetið hversu mikinn þátt gengismunaviðskipti og örmyntin króna áttu í hruni íslenska fjármálakerfisins, hugsanlega hlaut þetta að gerast fyrr eða síðar vegna eðli markaðarins og mun gerast síðar í stærri hagkerfum. Það er sennilega líka núna vanmetið hve mikið skjól er akkúrat núna af íslensku krónunni og þeim gjaldeyrishömlum sem hægt er að setja með henni.

En á meðan Jóhanna og hennar ríkisstjórn einblínir til Evrópusambandsins sem þó hefur ekki reynst okkur neitt vel né sýnt að það sé fýsilegur kostur. Það kann að  vera fýsilegt að ganga til liðs við Evrópusambandið í fyllingu tímans en það er óðagot að skoða ekki alla möguleika Íslands í þeirri stöðu sem við erum í núna. Það er frelsi að hafa val. Og það er hlutverk þjóðarleiðtoga að koma auga á hvaða kostir okkur bjóðast og flana ekki að neinu. Við höfum allt of lengi haft ríkisstjórn sem anar blint út í foraðið og það er kominn tími til að breyta því. Framsóknarmenn hafa lagt nótt við dag að finna lausnir og koma á samböndum sem gætu hjálpað Íslendingum við þá stöðu sem við erum í núna.

Þannig hafa lausnir Framsóknarmanna varðandi skuldamál heimilanna sífellt meiri og meiri hljómgrunn, lausnir sem eru einfaldar og einfaldleiki þeirra fellst í því að viðurkenna það sem allir vita og það er að fjármálakerfið klikkaði og það þýðir ekkert að láta eins og það hafi ekki gerst.

Það þarf að endurræsa það og það verður ekki gert nema færa hlutina í alla vega þá stöðu sem þeir voru í þegar kerfið sprakk. Þetta getum við kallað leiðréttingu lána eða 20 % skuldaleiðréttingu eða eða leiðréttingu gegn forsendubresti eða það sem okkur sýnist.

Framsóknarmenn hafa þannig komið með langskynsamlegustu leiðina varðandi skuldir einstaklinga og heimila en þeir hafa líka verið önnum kafnir að finna lausnir og aðra valkosti varðandi skuldbindingar íslenska ríkisins og hafna því að ríkið Ísland sé sligað af skuldabyrði sem landið ræður ekki við. Það er engin skynsemi í því. og það eru engir samningar heldur örþrifaráð að gangast undir þá skilmála um Icesave sem ríkisstjórnin hefur sett á borð. 

Höskuldur þingmaður Framsóknarflokksins hefur undanfarið verið í Noregi að tala við ráðamenn þar og þá sérstaklega Framsóknarflokkinn þar sem heitir Senterpartiet. Það verður að segjast eins og er að Framsóknarmenn í Noregi reynast okkur betur en ráðamenn AGS eða stórveldanna Bretlands og Hollands.

Hér er frétt úr norsku pressunni um ferð Höskuldar til norska Framsóknarflokksins:

 

Greinin er þessi:

Senterpartiet tilbyr Island 100 milliarder i lån

Mens SV-leder Kristin Halvorsen sverger til IMF-lån på meget omstridte vilkår til Island, tilbyr Senterpartiet islendingene et lån på opptil 100 milliarder kroner - hvis sosialistene går med på det.


Senterpartiets finanspolitiske talsmann Per Olaf Lundteigen drar Islands politiske og økonomiske drama hjem hit, etter to møter i Oslo med sin islandske partikollega Höskuldur Thórhallsson før helga.

Like etter at ett av den rødgrønne islandske regjeringsmedlemmene trakk seg onsdag, bekrefter Lundteigen overfor ABC Nyheter at Senterpartiet i Norge har lovet sitt søsterparti Fremskrittspartiet på Island et lån på opptil 100 milliarder norske kroner.

Gunstig lån framfor IMF

- På vegne av Senterpartiet sa jeg til Thórallsson at vi er villige til å gi et betydelig lån opp til 100 milliarder norske kroner, til 4 prosent rente og fem års avdragsfrihet. Initiativet ligger dermed hos den islandske regjeringen, som må signalisere om de ønsker et slikt lån, sier Lundteigen.

Han bekrefter at partiet har gjenoppnevnt ham til finanspolitisk talsmann på Stortinget også i perioden vi nå går inn i.

Lundteigen bekrefter dermed en artikkel på nettstedet islandsk.no om dette oppsiktsvekkende utspillet - som kan vekke rødgrønn splid både i Norge og på Island.

Kristin Halvorsen krever Icesave-avtale

I den norske regjeringen har SV-leder og finansminister Kristin Halvorsen stått knallhardt på at lån til Island skal gis gjennom Det internasjonale valutafondet IMF, på betingelser som er svært omstridt på Island:

At islendingene bøyer seg og skattebetalerne påtar seg ansvaret for å erstatte milliardinnskuddene til nederlandske og britiske kunder av den konkursammede, private islandske banken Icesave.

Den islandske regjeringen bestående av sosialdemokratene og SVs søsterparti De venstregrønne har inngått avtale med Nederland og Storbritannia om at de vil det. Men betingelsene vekker stor strid og er ennå ikke blitt vedtatt i Alltinget.

Og nå går altså den venstregrønne helseministeren ut av regjeringen fordi han mener regjeringen er på kollisjonskurs med det islandske folket.

- Alternativ til IMF

I denne situasjonen går altså regjeringspartiet Senterpartiet i Norge inn en intensjonsavtale med sitt søsterparti som er i opposisjon på Island.

- Helseministeren går nå ut av regjeringen fordi han ikke er enig i regjeringens takling av Icesave-saken. Flere i de Venstregrønne er enige med ham. Det kan endre det parlamentariske gunnlaget grunnlaget for regjeringen, sier Lundteigen.

- Går islendingene til rettssak for å prøve om Icesave-kravene er berettiget, blir utbetalingene fra IMF frosset. Dermed vil Island ha behov for en alternativ finansiering, konstaterer Sp-talsmannen.

- Men finansminister Kristin Halvorsen har vært helt avvisende til å gi Island noe lån før de har innfridd Icesave-kravene?

- Jeg uttaler meg som finanspolitisk talsmann for Senterpartiet, sier Lundteigen til det.

Opprørt Thórallsson

Også ABC Nyheter møtte det islandske Fremskrittspartiets finanspolitiske talsmann Höskuldur Thórallsson under hans oslobesøk. Vi fikk da høre en svært bitter politiker:

- Min mening er at hvis britene og nederlenderne sier at islandske skattebetalere skal betale alle disse summene til erstatning for deres tap på Icesave-konkursen: Hvorfor ikke la en rett avgjøre?

ABC Nyheter har tidligere skrevet om islandsk bitterhet over at også den norske regjeringen vil nekte Island retten til å ta opp striden for en domstol.

- Vi ble veldig skuffet da vi oppdaget at det ble laget en forbindelse også mellom Icesave og nordiske lån, sier Thórallsson til ABC Nyheter.

- Og Norge burde ikke være med på at IMF skal være pengeinnkrevere for Nederland og Storbritannia! sier han.

 


mbl.is Ekki sanngirni að við borgum, en...
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband