Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
31.1.2009 | 22:40
Úr tröllahöndum
Ég var á Austurvelli í dag. Það var sautjándi mótmælafundur Radda fólksins. Eiginlega ekki mótmælafundur því það er ekki hægt að hrópa neina ríkisstjórn burt sem þegar hefur hrökklast burt og það er ekki hægt að hrópa að stjórn fjármálaeftirlitsins burt þegar hún hefur öll verið sett af og það er máttlítið að hrópa stjórn Seðlabankans burt því tilvonandi forsætisráðherra hefur lýst því yfir að hún verði sett af. Svo gat þetta ekki verið sigurhátíð því ekki er komin ný ríkisstjórn að völdum. En þetta var áfangasigur og tími til að hugleiða næstu skref.
Hér er 10 mínútur sem ég tók upp undir ræðum dagsins.
Þetta var líka þjóðernisstemming, sungin ættjarðarlög og farið með ljóð. Ég tók eftir að tveir af ræðumönnum, kannski þeir allir, notuðu myndlíkingu um að Ísland hefði sloppið úr tröllahöndum, sloppið frá slæmum bergþursi.
Framsókn ver nýja stjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2009 | 17:24
Fjör færist í Framsóknarflokkinn í Reykjavík
Nú þegar kosningar eru í nánd þá færist fjör í stjórnmálalífið. Það hefur nú reyndar verið unnið jafnt og þétt og verið mikið líf í Framsóknarmönnum í Reykjavík undanfarin misseri og það sem þar er að gerast endurspeglar þær breytingar sem eru að verða í Framsóknarflokknum. Við höfum mörg unnið eins vel og við getum undir stjórn Óskars Bergssonar að því að tryggja hér stöðugleika og gott stjórnarfar og svo höfum við sameinað framsóknarfélög og reynt að taka upp ný og lýðræðislegri vinnubrögð. Ég held að almenningur hafi hins vegar ekki áttað sig á því hve mikið Framsóknarflokkurinn hefur breyst og er að breytast.
Hallur Magnússon hefur ákveðið að gefa kost á sér og hann er einn af þeim sem hafa verið í fylkingarbrjósti í borgarmálum fyrir Framsóknarflokkinn. Hallur hefur verið vakinn og sofinn yfir velferð Reykvíkinga í velferðarráði og svo er hann einn af okkar sérfræðingum í húsnæðismálum og hefur alltaf staðið vörn um húsnæðislánasjóð. Hallur er góður fulltrúi okkar Framsóknarmanna.
Hallur Magnússon býður sig fram fyrir Framsóknarflokkinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.1.2009 | 20:32
Kúlulán og laxveiðiboð
Dagblaðið er í dag með umfjöllun um kúlulán sem það segir að hafi verið veitt Birni Inga Hrafnssyni til hlutabréfakaupa. Björn Ingi var þá aðstoðarmaður forsætisráðherra. Hann var síðar efsti maður á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir síðustu kosningar. Hér er fréttin á vef DV í dag: Aðstoðarmaðurinn fékk tugmilljóna lán en fréttin byrjar svona:
"Björn Ingi Hrafnsson fékk kúlulán frá KB-banka fyrir rúmar 60 milljónir króna árið 2005 til að kaupa hlutabréf í bankanum. Hann var þá aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Björn Ingi seldi hlutabréfin í bankanum og græddi meira en 20 milljónir."
Árið 2005 var í tísku að kaupa og selja hlutabréf og margir einstaklingar gerðu það. En lánaviðskipti frá KB af þessari stærðargráðu til aðstoðarmanns forsætisráðherra eru langt frá því að vera eðlileg. Það er ekki viðeigandi að aðstoðarmaður forsætisráðherra tengist braski með hlutafé eða þiggi lán á kjörum sem bjóðast ekki almennum notendum.
Það hefur komið í ljós að viðskiptahættir KB banka voru undarlegir og sumt beinlínis gert til að slá ryki í augun á almenningi og hluthöfum og villa um fyrir eðlilegri sýn á hvað væri að gerast á markaði. Stórfyrirtæki í einkaeigu víla ekki fyrir sér að hafa áhrif á stjórnvöld á þann hátt sem þau geta. Þetta er kallað "lobbying". Traust stjórnvöld og heiðarlegir embættismenn taka ekki við neins konar greiðasemi frá aðilum sem er í mun að hafa áhrif á stjórnvöld. Það er mjög, mjög mikilvægt. Stjórnmálaöfl sem vilja vinna traust almennings mega ekki láta slíka hegðun viðgangast og verða að taka á henni. Það er mikilvægt fyrir endurreisnarstarf í Framsóknarflokknum og sem liður í því að vinna traust kjósenda og tengja ekki flokkinn við spillingu heldur ábyrga og heiðarlega stjórnarhætti að velta við hverjum steini í svona málum.
Það hefur einnig komið fram í fjölmiðlum að Guðlaugur Þór sem þá var stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, Vilhjálmur þáverandi borgarstjóri og Björn Ingi fóru í laxveiði í boði Baugs skömmu áður en viðræður um samruna REI og Geysis Green Energy hófust. Sjá þessa grein á visir.is
Það er ekki spilling þó einhver jakkaföt hafi verið keypt á frambjóðendur í prófkjörsbaráttu en það er miklu alvarlegra ef aðstoðarmenn ráðherra og kjörnir fulltrúar fólksins þiggja sérstaka fyrirgreiðslu og gjafir frá aðilum sem augsýnilega hafa hag af því að vingast við stjórnvöld. Það er einnig óeðlilegt að aðstoðamaður forsætisráðherra stundi áhættusamt brask sem eingöngu er stundað með lánsfé á sama tíma og hann gegnir starfinu.
Það er veruleg þörf á siðbót í íslenskum stjórnmálum.
30.1.2009 | 17:28
Norska gjaldmiðilstengingu já takk!
Þetta er ekki hægt. Ég er svo sammála honum Steingrími að það er ekki eðlilegt. Ég myndi líka allra helst vilja norska gjaldmiðilstengingu, mér finnst það góð hugmynd.
Norðmenn eru sú frændþjóð okkar sem við eigum mestan samhljóm með í atvinnumálum og hagsmunagæslu og náttúruvernd á Norðurslóðum ásamt því að eiga sameiginlega menningararfleifð. Það er líka "shock capitalism" að ætla að æða inn í Evrópubandalagið núna út af ónýtum gjaldmiðli. Sérstaklega þegar það er haft í huga að það tekur mörg, mörg ár að komast inn í myntbandalagið og við munum ef að líkum lætur og ef við verðum látin kikna undan einhverjum Icesave skuldum aldrei í fyrirsjáanlegri framtíð ná þeim stöðugleika og hallalausum rekstri ríkisfjármála sem þarf. Það er auk þess fyrirsjáanlegt að það er langbest að Noregur og Ísland fylgist að í samningaviðræðum við Efnahagsbandalagið en örvæntingarfullt hopp Íslands að reyna að þrengja sér inn með leifturhraða.
Það bendir margt til þess að Evrópusambandið sé góður kostur bæði fyrir Noreg og Ísland en það á að skoða það af yfirvegun og með alvöru þess sem þarf að gæta vel að viðkvæmri heimskautanáttúru á sjó og landi. Uppurin og ónýt fiskimið innan Evrópusambandsins eru ekki góður minnisvarði um hvernig ríki þar hafa staðið að náttúruvernd á svæðum sem ekki eru í einkaeigu. Tíminn vinnur hins vegar með náttúruvernd og skilningi á sjálfbærri nýtingu þannig að út frá umhverfissjónarmiði er betra að fresta því sem lengst að þessar þjóðir gangi í bandalagið. Líklegt er einnig að orka og fiskur verði ennþá meiri auðæfi þegar tíma líða fram. Satt að segja eru orkumál í alvarlegu ástandi innan Evrópusambandsins eins og sást á því hve illa sum ríkin stóðu þegar gasleiðslur frá Rússlandi tepptust. Út frá öryggissjónarmiðum, sérstaklega ef til stríðs kemur þá eru ríki Evrópusambandsins þar ekki vel sett.
Ef málið er skoðað frá sjónarhóli Evrópusambandsins þá er mikill fengur þar að fá inn bæði Noreg og Ísland. En fyrir okkur er sennilega betra að vera í samfloti með Norðmönnum og fara inn þegar þeir fara inn. Samningsstaða Norðmanna varðandi fiskistofna er mun betri ef Ísland er ekki innan Ebe. Norðmenn ættu því að tryggja okkur einhvern stöðugleika í myntmálum, þeir hafa digra olíusjóði og geta það alveg. Það eru þeirra hagsmunir. Við höfum ekkert val. Norðmenn hafa það val að þeir geta boðið okkur upp á val.
Hugnast norska krónan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.1.2009 | 21:40
Hvar skilar kynjabaráttan mestum árangri?
Svar: Alls staðar.
Það er formlegur stofnfundur þriðja kvennaframboðs íslenskrar sögu núna. Það er hefð fyrir kvennaframboðum á Íslandi og þau hafa skilað góðum árangri og velt við mörgum steinum og málað marga steina bleika. Óhjákvæmilegt er að ný framboð komi fram á tímum eins og núna, tímum þar sem allt er í upplausn og kerfið sem stjórnmálamenn og athafnamenn hafa byggt í kringum okkur virkar ekki. Eina sem það kerfi gerir núna er að virka eins og girðing og skuldafangelsi sem heldur okkur rígbundnum og heftir möguleika okkar til sjálfsbjargar.
Á þessum tímum skulum við segja "Verum ekki vinnukonur kerfisins, tökum til okkar ráða og verum gerendur í okkar eigin lífi". Að vera gerandi í eigin lífi felur í sér að taka þátt í stjórnmálum, að skipta sér að því hvernig leikreglurnar eru samdar og skilja út á hvað þær ganga og hvaða afleiðingar breyttar reglur hafa.
Það þarf femínista í alla stjórnmálaflokka, það þarf fólk með skilning á að kynjajafnrétti er spurning um mannréttindi í alla stjórnmálaflokka. Það hjálpar líka í baráttu að mynda samstillta hópa og þar gerir slíkt framboð og það gerðu fyrri kvennaframboðin. Þau komu bæði fram á tímum þar sem hrópandi mismunun var milli karla og kvenna og sú mismunun var ekki mest í lagalegu tilliti heldur í hvernig konum var kerfisbundið haldið frá þeim stöðum þar sem völdin voru og þar sem ákvarðanir voru teknar.
Þegar ég segi kerfisbundin mismunun þá á ég ekki við einhverja vonda kalla með ljót og meðvituð plott um að halda konum utangarðs og valdalausum heldur sjálfan strúktúr samfélagsins sem gerir konur að vinnukonum sem vinna kauplaust eða kauplitlar vanmetin ummönnunarstörf í samfélaginu en karla að þeim sem einir ná að því borði þar sem uppskeru vinnunnar er skipt. Í samfélagi misskiptingar og kynjamismununar er uppskeru vinnunnar er skipt í tvo hluta og þeir eru bróðurparturinn sem er nánast allt og svo örlítil flís sem er fyrir systur allra landa. Talið er að í heiminum í dag sé aðeins 1 % eigna í eigu kvenna, samt eru konur 50 % af fólkinu í heiminum.
Við sjáum þessa kerfisbundnu útilokun í öðrum löndum og fordæmum hana þar. Við fordæmum að konur í sumum löndum skuli ekki fá að keyra bíl, skuli ekki fá að læra að lesa, skuli ekki vera til á opinberum pappírum og megi ekki sjást og ekki hafa ferðafrelsi. Við skiljum að þessi útilokun skiptir máli og skiljum að möguleika þeirra til að fá völd og sækja fram eru heftir. En við erum blind á eigin umhverfi, við sjáum ekki hvernig viðlíka kerfi er í gangi í okkar samfélagi, kerfi sem útilokar konur frá völdum.
Hvar eru konurnar sem fóru með fjöregg íslensku þjóðarinnar? Voru það konur sem spiluðu lottó með æru og skuldbindingar Íslendinga og köstuðu á milli sín verðmætum sem þjóðin átti? Eru það konur sem fengu úthlutað veiðikvóta Íslendinga? Eru það konur sem ráðstafa þeim kvóta? Eru það konur sem hafa stýrt fjármálum íslensku þjóðarinnar? Hvaða kona hefur verið fjármálaráðherra á Íslandi? Hvaða kona hefur verið forsætisráðherra á Íslandi? Og á meðan ég man... hvaða konur voru í einkavæðingarnefnd, Hvaða konur komu nálægt því að skipta og útdeila samsöfnuðum verðmætum til nokkrurra spilafífla og útrásarathafnamanna?
Hvers vegna er sökin á hruninu og þau andlit sem því tengjast ekki andlit kvenna þó þær séu sumar núna í hreinsunarstörfum eftir hrunið mikla? Þessu er reyndar auðsvarað. Konur höfðu engin völd á Íslandi og fáar ef engar konur voru í sömu aðstöðu og þeir útrásarmenn sem fóru á shopping spree í útlöndum.
Það vita allir að þau störf sem eru mikilvægust í þessu samfélagi eru ekki þau störf sem borguð eru með launum um hver mánaðarmót. Samfélag okkar helst saman á ósýnilegri vinnu, vinnu sem er að stórum hluta innt af hendi af konum. Ummönnunarstörf á heimilum og í fjölskyldum og í félagasamfélögum og á stofnunum eru stundum launum en langmestur hluti ummönnunar hefur aldrei verið inn í þeirri peningahagfræði sem hagfræðingar mæla.
Sá hagvöxtur sem hefur verið að mælast víða um lönd er líka að hluta gervihagvöxtur sem skapast af því að það sem einu sinni var unnið á heimili í ólaunuðu starfi er núna orðið launað starf einhvers. Sá hagvöxtur sem hagmælingar mæla er líka blindur á gæði vinnunnar. Þannig mælist það sem hagvöxtur ef miklar róstur eru í samfélaginu og það þarf að ráða marga lögreglumenn og fangaverði til að passa innilokað fólk.
Í samfélagi sem þarf að endurskoða og endurrita frá grunni þá er mikilvægt að raddir þeirra sem hafa eitthvað að segja en hafa verið þaggaðar og eru með nálgun sem bersýnilega á meira erindi núna en áður heyrist hátt og skýrt og bergmáli um samfélagið.
Núna á þessum tímum þá þurfa konur sem alltaf hafa vitað að lífið snýst ekki um peninga og peningahagkerfið er gloppótt og mælir ekki það sem skiptir máli að koma fram og taka þátt í stjórnmálum og finna sér þann vettvang sem höfðar til þeirra.
Sá vettvangur getur verið Neyðarstjórn kvenna en sá vettvangur getur líka verið Framsóknarflokkurinn, Vinstri Grænir eða Samfylkingin. Ég hef nú sleppt bæði Sjálfstæðisflokknum og Frjálslyndum í þessari upptalningu enda sé ég ekki betur en þeir flokkar séu beinlínis fjandsamlegir konum og kvenlegu gildismati, því gildismati sem metur umhyggju og samvinnu ofar auðhyggju, því gildismati að við stöndum öll betur ef við hjálpumst að en berjumst ekki hvort við annað.
Það er ekki slæm staða núna í augnablikinu varðandi konur sem ráða á Íslandi. En það má benda á að margar þeirra komust til valda vegna þess að karlar klúðruðu. Þannig er borgarstjórinn í Reykjavík núna kona en það var eftir að þrír karlar höfðu áður glimt við þetta embætti og varð brátt um þá alla á valdastóli.
En það eru mikilvæg skilaboð til allra kvenna í öllum stjórnmálaflokkum:
Verum ekki vinnukonur kerfisins!
Breytum og umbyltum kerfi sem virkaði ekki.
Fréttaskýring: Er tíminn réttur fyrir nýtt kvennaframboð? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.1.2009 kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.1.2009 | 11:22
Hvað er að í Kraganum?
Þetta fer að verða spennandi, alls konar vangaveltur um hver býður sig fram í hvaða kjördæmi. Það er náttúrulega mikið tómarúm á Suðurlandi eftir að tveir þingmenn Framsóknarflokksins þar helltust úr lestinni, þeir Guðni Ágústsson formaður og svo Bjarni Harðarsson sem var mikil vonarstjarna í Framsóknarflokknum en vonarstjörnur kunna ekki endilega allt og Bjarni kunni ekki vel á tölvupóst. Sem er náttúrulega sjarmerandi út af fyrir sig, það þurfa ekki allir að kunna á alla fídusa í þessum tæknigræjum. En það er háðuglegt að hrökklast af þingi út af því að framsenda nafnlaust níðbréf um samherja og kunna svo illa á tölvupóst að senda það undir eigin nafni á alla fjölmiðla Íslands. Ef menn vilja vera skúrkar þá eiga þeir að minnsta kosti að vera betur að sér í skúrkavinnubrögðum en Bjarni var. En Bjarni er nú kannski ekki svo mikill og reyndur skúrkur þó hann sé orðhákur hinn mesti og þó að hann hafi í hita leiksins villst af leið. Það er eftirsjá af Bjarna í Framsóknarflokknum en það er hins vegar engin eftirsjá af vinnubrögðum sem einkennast af óheilindum og bakstungum.
Annars er eins og enginn vilji bjóða sig fram í Suðvesturkjördæmi eða Kraganum í kringum Reykjavík eins og kjördæmið er gjarnan kallað.
Fyrrum frambjóðendur þar vilja nú fram í suðri og norðri en ekki í suðvestrinu. Það er nú ekki nema von, atkvæðin vikta svo lítið þar og hvergi nokkurs staðar hefur kreppan komið eins illa við fólk eins og hjá ungu fjölskyldunum sem búa í sveitarfélögum í kringum Reykjavík. Svo bætist við að staða sumra sveitarfélaga þar er arfaslæm og það sem verra er, íbúar á þessum svæðum fylgjast ekki nógu vel með hvernig sveitarfélögum er stjórnað og hve mikið þau eru skuldsett. Það horfir ekki vel á þessum slóðum, það mun enginn stjórnmálamaður horfa fram á uppsveiflu á þessum svæðum næstu árin. En þarna býr fólkið sem í dag hefur minnst vægi í kosningum til Alþingis.
Samúel Örn horfir til heimasveitar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2009 | 08:08
Hvað með málverk Listasafns Íslands og málverk í eigu Reykjavíkurborgar
Það er frábært framtak hjá breskum stjórnmöldum að gera almenningi kleift að berja augum málverk í opinberri eigu og setja myndir af listaverkum á ókeypis vefsvæði. Ég velti fyrir mér hvenær íslensk stjórnvöld bæði ríki og Reykjavíkurborg fari sömu leið.
Árið 2004 var safneign Listasafn Íslands 10.000 verk samkvæmt þessari síðu um safneignina. Aðeins lítill hluti þessara verka er sýndur hverju sinni. Hvar eru öll hin, hver eru öll hin? Er ekki mikilvægt að þeir Íslendingar sem ekki komast á sýningar listasafnsins fái að fylgjast með þessari eign sinni?
Margir listamenn arfleiða listasöfn að verkum, sennilega vegna þess að listamennirnir vilja að þjóðin geti séð verk þeirra og telja listasöfn í eigu ríkis og sveitarfélaga best til þess fallin.
En í nútímasamfélagi þarf líka að geta fengið upplýsingar um verkin á Netinu. Það er auðvitað ekki það sama eins og að sjá listaverk á listsýningu en það tryggir að við vitum að viðkomandi listaverk er til og vitum hvar það er og hvernig eða hvort við getum séð það á sýningu.
Það eru til í listasöfnum og menningarsöfnum á Íslandi nákvæmar skrár yfir listaverkin. Þessar skrár eru fyrir fræðimenn og þá sem vinna við söfnin. Það er vissulega mikilvægt að hafa slík gagnasöfn en það þarf líka að huga að upplýsinga- og menningarhlutverki safna og gera safneign aðgengilega fyrir almenning.
Mörg söfn hafa varið miklu fé í að setja upp einhvers konar margmiðlunarsýningar fyrir þá sem heimsækja söfnin. En af hverju eru þessar sýningar ekki aðgengilegar á vefnum heldur aðeins fyrir þá sem koma í söfnin? Koma í söfn, að mæta á staðinn er best þannig að það sé öllu púðri varið í að skoða sjálf listaverkin eða menningarverkin. Ef starfænar sýningar eru aðgengilegar á vefnum þá gætu safngestir skoðað margmiðlunarsýningar í eigin fartölvum annað hvort áður en þeir koma í safnið eða á meðan.
Mér finnst illa varið því plássi sem er í söfnum í dag t.d. í Þjóðminjasafninu að taka það undir stafrænar sýningar sem allt eins gæti verið aðgengilegar á vefnum.
Það er hagur allra borgara að listaverkaeign og menningarverðmætaeign þjóðarinnar og borgarbúa sé aðgengileg öllum til skoðunar á vefsvæðum. Það geta hins vegar verið höfundarréttarmál sem koma í veg fyrir að hægt sé að birta myndir af listaverkum.
En talandi um listasafn Íslands og vefsíðu þess... þetta er eitthvað svo 2008 að hafa allar síður skreyttar með því að Samson properties sé aðalnúmerið í listalífi Íslands. Er ekki kominn tími til að taka þá borða niður og sýna meira af sjálfum listaverkunum?
200.000 málverk verða aðgengileg á vef BBC | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.1.2009 | 21:07
Jóhanna tilvonandi tilvonandi forsætisráðherra á wikipedia
Ég er ein af þeim sem skrifa greinar á wikipedia. Það passar vel fyrir okkur sem trúum á samvinnuhugsjón og að fólk þurfi ekki að fá borgað fyrir allt sem það gerir að vinna í svona samfélagi, samfélagi þar sem frekar fáir vinna í sameiningu að því að leggja til efni en mjög margir hagnýta sér þetta efni á þann hátt sem þeim sýnist. Wikipedia samfélög eru einmitt dæmi um samfélög nýrra tíma, ekki samfélög neytenda eða framleiðenda heldur frekar svona starfefndasamfélög (communities of practice) þar sem sumir eru meiri sérfræðingar en aðrir og fólk verður smán saman meiri sérfræðingar með þátttöku sinni í samfélaginu.
Í fyrstu virkar eins og wikipediasamfélög séu óskipulögð og óvarin fyrir skemmdarverkum. Þannig er það reyndar ekki, þeir sem hafa stjórnunarréttindi geta læst síðum fyrir breytingum, eytt síðum og lokað á notendur sem eru til vandræða. Það er hins vegar þannig að langflestir koma að þessum samfélögum með það í huga að bæta við þekkingu,ekki að skemma og hrekkja. Það er auk þess ekkert alvarlegt þó að einhver rugludallur hafi bætt við rugli, það er auðvelt með einni skipun að færa wikisíðu í upprunalegt horf.
Það er gaman að fylgjast með hvernig síður verða til og efni bætist á þær á Wikipedia. Ég var fyrir tveimur árum að sýna nemendum mínum hvernig þeir settu inn grein um fólk á íslensku wikipedia og þá hittist þannig á að þann dag átti Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður afmæli og ég ákvað að nota hana sem sýnidæmi og skrifa grein um hana á wikipedia. Hér er sýnikennslan Jóhanna Sigurðardóttir - að skrifa persónugrein á wikipedia, þetta er 12 mínútur í spilun.
Svo er sjálf greinin hérna Jóhanna Sigurðardóttir
Það hefur verið bætt heilmiklu við þessa grein síðan ég byrjaði á henni þann 3. október árið 2006. Hérna má sjá breytingasöguna. Svo eru komnar greinar um Jóhönnu á mörg tungumál, sennilega fjölgar þessum tungumálum á næstunni, það verður gaman að fylgjast með því.
Núna eru greinar um Jóhönnu á íslensku og þessum tungumálum:
‪Norsk (bokmål)‬
Daginn sem Jóhanna verður forsætisráðherra verður sennilega öllum þessum greinum breytt þannig að hún verði flokkuð með forsætirráðherrum.
Svo ég gleymi ekki því sem ég ætlaði upprunalega að fjalla um þ.e. hvort það hefði áhrif að setja flöggun á greinar þá held ég að það hafi frekar takmörkuð áhrif. Þeir sem vilja skemma greinar munu bara búa til gervinotendur löngu áður en þeir áætla að fremja skemmdarverkin. Þannig gerist það í spjallborðum. Maður verður bara að vera viðbúin skemmdarverkum og gyrða fyrir sem flest en passa að girðingarnar útiloki ekki líka þá sem vilja hjálpa til.
Wikipedia snýst gegn netbullum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2009 | 13:06
Norðvesturkjördæmi og Suðvesturkjördæmi
Gaman að heyra af kosningabaráttu Framsóknarmanna sem núna er að hefjast. Margir vilja auðvitað vera í efstu sætum Framsóknar enda meðbyrinn mikill og málefnastaðan góð. Ég vil benda öllum sem vilja kynna sér Norðvesturkjördæmi á að íslenska wikipedia er með góðar upplýsingar um kjördæmið. Eftirfarandi sveitarfélög eru í Norðvesturkjördæmi: Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð, Bæjarhreppur, Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Höfðahreppur, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur.
Það búa 30.120 í Norðvesturkjördæmi og er helmingur þeirra á Vesturlandi, fjórðungur á Vestfjörðum og fjórðungur á Norðurlandi vestra. Það eru 9 þingmenn (8 kjördæmakjörnir og 1 jöfnunarmaður).
Fjöldi á bakvið hvert þingsæti í Norðvesturkjördæmi árið 2007 var 2.347
Þess má geta að árið 2007 var Guðmundur Steingrímsson í framboði í Suðvesturkjördæmi fyrir Samfylkinguna en náði ekki kjöri. Hann var reyndar mjög nálægt því, var úti og inni alla nóttina eins og Samúel.
Fjöldi á bakvið hvert þingsæti í Suðvesturkjördæmi árið 2007 var 4.549
Ég vil benda öllum íbúum Suðvesturkjördæmis á þetta misvægi atkvæða. Hvert atkvæði í Norðvesturkjördæmi vegur helmingi meira en hvert atkvæði í Suðvesturkjördæmi. Hvað segja Framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi við því? Er þetta eðlilegt?
Þarf ekki að breyta svona hlutum?
Guðmundur: Stefnir á fyrsta sætið í NV-kjördæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
27.1.2009 | 23:55
Framsóknarflokkurinn tryggir frið í Reykjavík og á Íslandi
Ég er ansi ánægð með Framsóknarflokkinn núna.
Í Reykjavíkurborg þá kom Framsóknarflokkurinn með Óskar Bergsson í broddi fylkingar og frelsaði borgina frá algjörum glundroða, það var átakanlegt fyrir okkur borgarbúa að horfa upp á hve lítinn samhljóm fyrrum borgarstjóri (þ.e. þessi númer 3. á kjörtímabilinu) Ólafur Magnússon átti með borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem þó höfðu stutt hann í embættið.
Í byrjun kjörtímabilsins þá var Óskar ekki borgarfulltrúi og eins og flestir sem fylgjast með okkar innra starfi þá kubbaðist ansi mikið úr liðinu, ekki síst vegna þess að heilu hnífasettin gengu á milli manna og stórskemmdu rándýr jakkaföt En Óskar hefur spilað ansi vel út úr þessari stöðu - ekki bara fyrir Framsóknarflokkinn heldur líka fyrir allt fólk í borginni. Mér finnst svo ekkert verra að samstarf Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafi tryggt okkur ágæta konu sem borgarstjóra, Hanna Birna stendur sig vel í því embætti.
Núna kemur Framsóknarflokkurinn undir forustu Sigmundar Davíðs eins og frelsandi engill inn í landsmálin og bjargar stjórnarmálaflokkum úr landinu út úr algjöru neyðarástandi, ástandi sem var mörgum sinnum elfimara það var nokkru sinni í borgarmálunum, ástandi þar sem ríkisstjórn Geir Haarde var rúin trausti og það voru að brjótast út óeirðir og byltingarástand. Ég held reyndar að það muni áfram vera róstusamt á Ísland, menn skulu ekki ímynda sér að það nægi að skipta um ríkisstjórn til þess. En rósturnar hefðu orðið miklu hatrammari ef Geir hefði setið áfram.
Ég er líka ansi ánægð með að stuðningur Framsóknarflokksins verði til þess að hér verður um hríð ríkisstjórn undir forustu ágætrar konu sem nýtur mikillar virðingar og stuðnings. Tími Jóhönnu er kominn og það var Framsóknarflokkurinn sem snéri því stundarglasi.
Ingibjörg Sólrún er frábær, það veit ég frá því að við vorum samherjar í stjórnmálum í Kvennalistanum forðum daga. Hún er líka óhemju dugmikil kona og núna er hún mjög veik að mynda nýja ríkisstjórn. Ég held að mér sé farið eins og mörgum öðrum Íslendingum, krafturinn og kjarkurinn í Ingibjörgu Sólrúnu sýnir sig hvað best núna og við dáumst öll að henni en við höfum líka öll áhyggjur, hún er veik og hún þarf að nota krafta sína til að byggja sjálfa sig upp og ná fyrri heilsu.
Framsóknarflokkurinn fékk ekki mikil kjörfylgi í síðustu kosningum og það er mikilvægt að fara vel með það umboð sem kjósendur veita. Það hefur Framsóknarflokkurinn gert núna bæði í borginni og í ríkisstjórn og þannig tryggt eins góðan vinnufrið og hægt er miðað við aðstæður. Já og stuðlað að því að núna er kona borgarstjóri í Reykjavík og kona verður forsætisráðherra. Þingflokkur Framsóknarflokksins er núna þannig samsettur að þar eru fleiri konur en karlar.
Sem sagt, Framsóknarflokkurinn bjargar bæði borg og ríki frá glundroða, styður konur til valda bæði sem borgarstjóra og forsætisráðherra og er eini flokkurinn á þingi núna þar sem konur eru fleiri en karlar.
Skýrt umboð aðalatriðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.1.2009 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)