Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
21.3.2008 | 10:56
Róbotar og sjálfvirkni og mannréttindabarátta
Í fjósum voru kýr og kálfar
mjólkuðu kýrnar sig kannski sjálfar?
þessi ljóðlína er í söngnum um hina kvenmannslausa sögu Íslendinga (texti eftir Dagný og Kristján) einum af beittum ádeilusöngvum í baráttusöngum kvennabaráttunnar. Þessi kaldhæðni texti um hinar sjálfmjólkandi kýr hljómaði vel á árunum eftir kvennafrídaginn 1975 en textinn er ekki eins grípandi í dag.
Málið er nefnilega að íslenskar kýr eru löngu farnar að mjólka sig sjálfar í róbotafjósum nútímans, þær skammta sér sjálfar fæðu úr sjálfvirkum og tölvustýrnum fóðurskömmturum og valsa um í lausagöngufjósum þar þær víkja öðru hvoru fyrir önnum köfnum róbótum sem eru þar á sveimi allan sólarhringinn að moka flórinn.
Meira segja í skúringum þar sem einu framfarir virtust á tímabili vera að moppan kom í staðinn fyrir skúringakústinn eru núna komnir róbotar, ég get ekki beðið þangað til ég er komin með einn svona til að skúra gólfin hjá mér
Þessi tími sem við lifum á núna þar sem allt er tengt saman og getur verið tölvustýrt á þráðlausan hátt mun örugglega ýta fremar undir svona sjálfvirkni og stýringar. Vonandi verður þetta tækni sem nýtist okkur öllum, tækni þar sem venjulegt fólk getur stýrt umhverfi sínu og létt sér verkin.
Eitt sniðugt verkfæri fyrir krakka til að læra forritun er forritunarmálið Scratch en því má hlaða niður ókeypis á http://scratch.mit.edu Þetta forritunarmál hentar krökkum alveg frá 8 ára aldri og fullorðnir hafa líka gaman að þessu. Þetta er svona myndræn forrit sem höfðar vel til þeirra sem vilja nota tölvur í alls konar skapandi og listrænnar iðju.
Í fyrradag var ég að skoða með nemendum mínum hvernig við getum kynnt fyrir ungum börnum ýmis konar stýringar og skynjara með aðstoð Scratch. Við notuðum Scratchboard (sjá mynd hér til hliðar) en það eru tölvuspjöld sem hægt er að kaupa (kosta 20 dollara stykkið) og þau tengjast gegnum USB tengi við tölvur. Þetta er afar einfalt verkfæri og virkaði mjög vel, það var hægt fyrir unga krakka að forrita þannig fígúrur á skjánum að þær bregðast við hljóði og birtu og ýmis konar rofum. Ég held að það sé nauðsynleg færni fyrir börn í dag að læra að forrita ýmis konar sjálfvirkni. Sennilega á vinnuumhverfi barna í dag í framtíðinni eftir að verða þannig að þau verða að fylgjast með, vakta og forrita ýmis konar sjálfvirkni í umhverfi sínu.
Eins og með alls konar tækni þá er hægt að nota hana til að gera líf okkar betra og jafna lífskjörin. Það á fyrir okkur öllum að liggja að verða eldri og ef við náum háum aldri þá er alveg öruggt að við höfum ekki sömu krafta og orku og í dag. Það eru fáir sem hafa eins mikinn hag af því að tækni í samfélaginu sé nýtt á sanngjarnan og uppbyggjandi hátt eins og þeir sem eru á miðjum aldri og horfa fram á að verða aldraðir og ef til vill farlama í framtíðinni. Hvernig getur tækni og sjálfvirkni í daglega lífinu hjálpað þessum hópi að stýra aðstæðum sínum?
En því miður er heimurinn þannig að tæknin er oft notuð til að eyðileggja og í hernaðartilgangi, sjá þessa grein í Wired Build your own war bot
Ég held að einn liður í mannréttindabaráttu nútímans og í því að búa til veröld sem ég vil sé að reyna að beina notkun á tækni í farvegi sem gera líf fólks einfaldara og bæta lífsgæði. Hvernig við notum tækni og sjálfvirkni og hvernig aðgengi allra jarðarbúa er háttað að þekkingu og færni til slíks er mikið mannréttindamál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2008 | 18:14
Prófa Gcast podcast
Tæknistöff. Eins og ég sé ekki búin að prófa nógu mikið af þessum podcastsvæðum.
Pirrandi að podcastið kemur ekki strax fram.
Íslenskir stafir virka ekki.
Subscribe Free
Add to my Page
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2008 | 10:17
Dónalegur borgarstjóri
Óskar Bergsson borgarfulltrúi okkar Framsóknarmanna hefur haldið uppi málefnalegri gagnrýni á vinnubrögð núverandi borgarstjórnarmeirihluta, sérstaklega hvernig óheyrilega var bruðlað með almannafé við uppkaup á húsum og kastað fyrir róða öllum vinnubrögðum góðrar stjórnsýslu þegar Sjálfstæðismenn notuðu fé borgarbúa eins og spilapeninga þegar Ólafur Magnússon var ginntur til liðs við borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna.
Ólafur borgarstjóri tekur hins vegar málefnalegri gagnrýni og spurningum Óskars ekki vel. Hann sýndi Óskari dónaskap og yfirgang í orðum en hefur nú sem betur fer séð að sér og dregið til baka ummæli sín. Ólafur Magnússon er góður maður og enginn efast um hugsjónir hans að vernda minjar um sögu Reykjavíkur. Það er vissulega mikilvægt fyrir okkur öll að farið sé að gát við umhverfismál og að ekki sé brotið allt og bramlað sem minnir á forna tíð. En Reykjavík er ekki eingöngu minjasafn um forna tíð heldur athafnasetur og höfuðborg ríkis sem á mikið undir samskiptum sínum við aðrar þjóðir og að infrastrúktúr hérna sé svo góður að fólk vilji búa hérna og starfa. Ólafur Magnússon er ekki góður borgarstjóri þegar litið er til stóru málanna sem munu skipta máli um hvort Reykjavík verður kraftmikið athafnasvæði og þekkingarsetur.
Það er bara sorglegt að í forsvari í Reykjavíkurborg sé maður sem hefur svona þrönga sýn og einstrengingslega sýn á hlutverk borgar eins og Ólafur og sem getur ekki tekið þátt í fundum án þess að sýna þeim sem tala af einhverri skynsemi dónaskap.
Sjá hérna:
Vandaðri stjórnsýslu gefið langt nef
frá hrifla.is:
18. mars 2008 Borgarstjórnarflokkur framsóknarmanna
Borgarstjóri dregur til baka ummæli sín um borgarfulltrúa Framsóknarflokksins
Í upphafi borgarstjórnarfundar í dag kvað Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, sér hljóðs og dró til baka fyrri ummæli sín um Óskar Bergsson borgarfulltrúa Framsóknarflokksins frá síðasta fundi borgarstjórnar Reykjavíkur. Ummæli þessi féllu eftir að borgarfulltrúi Framsóknarflokksins beindi fyrirspurnum til borgarstjóra varðandi aðkomu aðstoðarmanns hans að deiliskipulagsvinnu við Laugaveg, og voru ummælin á þann veg að borgarstjórn setti niður með nærveru Óskars.
Í ræðu borgarstjóra í dag segir að fyrirspurnin hafi komið honum á óvart, orðaskiptin í kjölfarið hafi verið nokkuð hvöss og þar hafi fallið orð sem hefðu betur verið látin ósögð. Einnig að í þeim hafi falist yfirlýsingar sem borgarstjóri hefði ekki viljað láta falla um persónu annars borgarfulltrúa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.3.2008 | 19:08
Afganistan fyrir fimm árum
Núna er Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra í heimsókn hjá ISAF í Afganistan. Magnús var í Afganistan hjá ISAF fyrir fimm árum og ég setti bréfin hans á bloggið afganistan.blogspot.com
Það er áhugavert að spá í hvað hefur breyst á fimm árum. Vonandi hefur menntun barna breyst mikið og ungbarnadauði minnkað. Fyrir fimm árum þá var mikil endurbygging í skólakerfinu og þá var í fyrsta skipti í langan tíma sem stúlkum bauðst að fara í skóla og læra.
Hér eru nokkrar myndasíður með myndum sem Magnús tók fyrir fimm árum:
Hér eru krakkar fyrir framan skóla sem var verið að endurbyggja
Öll Kabúl var sundurskotin, hér er sundursprengt hús notað sem birgðageymsla fyrir teppasala.
Hér er mynd af því þegar friðargæsluliðar voru að dreifa umframbirgðum af mat í garði í Kabúl.
Hér er mynd af krökkum á barnaheimili við kvennafangelsi
Hér er mynd af krökkum úr fátæku hverfi í Kabúl. Þar býr fólk af mörgum þjóðflokkum
Landið er er eitt risastórt stríðsminjasafn, alls staðar merki um umsátur Sovétmanna og svo Bandaríkjamanna.
Sums staðar fór skólahald fram úti undir berum himni.
Hér eru stúlkur í skóla.
Önnur mynd úr stúlknaskóla. Ekki hafa allir borð og stóla.
Hér er mynd úr stúlknaskóla úr frímínútum. Skólar voru flestir þrísetnir og oft kennt í tjöldum á skólalóð.
Ingibjörg Sólrún í Afganistan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.3.2008 | 10:25
Fátækari í morgun
Æ,æ, æ. Það virkilega svíður undan þessu. Ég kíki á mbl.is og sé að ég er orðin miklu fátækari og kaupið mitt hefur verið lækkað um nokkur prósent í dag mælt í evrum og dollurum. Nú er dollaragengið 74 krónur. Það var innan við 60 fyrir nokkrum vikum. Það er verst að geta ekkert gert í þessu þó maður hafi náttúrulega séð þetta koma.
Ég hugga mig þó við að við höfum verið varkár og erum ekki með mikil lán. Það er gífurlega alvarleg staða hjá ungu fólki sem hefur nýlega fest sér húsnæði, hugsanlega með 100% láni. Núna er líklegt að húsnæðisverð hrynji og margir skuldi meira en þeir eiga í húsnæðinu. Það getur farið saman að húsnæðisverð lækki og afborganir af lánum hækki mjög mikið vegna þess að þau eru vísitölutryggð eða gengistryggð.
Ég held að það sé ekki hægt að halda úti svona litlum gjaldmiðli eins og krónunni og til langs tíma þá kemur það almenningi á Íslandi best að tengjast stærri efnahagsheildum með því að Ísland gangi í Efnahagsbandalagið svo fremi sem samningar nást um fiskveiðimálin. Það hefur hins vegar það í för með sér að stjórnvöld geta ekki notað gengisskráningu sem hagstjórnartæki eins og þau eru að gera núna.
Gengi krónunnar lækkar um 5% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2008 | 17:04
Stóra slömmið Reykjavík
Þessa mynd tók ég fyrir utan minn vinnustað í gær af vorinu í Reykjavík - af hinu venjulega reykvíska vori þegar plastdræsublómin blómstra á trjám og runnum.
Þegar þú ekur um þéttbýli erlendis hvernig veistu hvernær þú ert kominn inn í slömm og verstu hverfin í borgunum? Það er eitt nokkuð óbrigðult merki, það er þegar allt umhverfið ber með sér að fólki sé sama um umhverfið og þegar draslið og úrgangurinn fýkur um allt. Á hverju ári þegar snjóa leysir í Reykjavík þá lítur stór hluti af Reykjavík og þá sérstaklega atvinnuhverfin og ræmurnar meðfram vegunum út eins og risastór slömm. Húsin eru falleg og nýleg en allt í kringum þau flýtur og feykist til draslið sem enginn virðist taka eftir og sem enginn virðist bera ábyrgð á að hreinsa. Núna í mars eru næstum þrír mánuðir þangað til skólakrakkarnir koma í hreinsunarvinnu hjá borginni. Á allt að vera fljótandi í drasli þangað til? Ég hvet fólk sem keyrir upp Ártúnsbrekkuna að líta í kringum sig á vegakantana og meta hvort þetta er í lagi. Ég hef oft áður vakið athygli á ruslinu í Reykjavík, hér er myndasyrpan mín um það.
Umhverfismál eru mikið í tísku og Reykjavíkurborg styður við ýmislegt varðandi umhverfismál svo sem græn skref í Reykjavík og náttúruskóla í Reykjavík og vistvæna bíla og styrkir nemendur til að ferðast í almenningsfarartækjum.
Það sem mér finnst sorglegast er að ástandið er víða svona í kringum opinberar stofnanir og skóla. Hvernig er hægt að kenna börnum og ungmennum að umgangast umhverfi sitt af virðingu ef þeim er jafnframt kennt að loka augunum fyrir drasli sem alls staðar flýtur.
15.3.2008 | 14:21
Femínistafélagið 5. ára
Femínistafélagið varð fimm ára í gær. Stofnfundur var haldinn 14. mars árið 2003 og framhaldsstofnfundur var haldinn 1. apríl 2003. Ég mætti á báða fundina og á seinni fundinum þá tók ég að mér að vera ráðskona í vefhópi og var það í tvö ár. Það var gífurleg vinna og oft mjög erfitt vegna þess að mikið af virkni félagsins var þá sem nú í póstlistaumræðunni og þar var oft gneistaflug. Sem dæmi má nefna að einn daginn voru send um 70 bréf á póstlistann og það voru beittar umræður.
Hér er ein af myndunum sem ég tók á stofnfundinum fyrir 5 árum, Kristín Helga dóttir mín var þá 13 ára og hún sést fremst á myndinni.
Fleiri myndir frá stofnfundinum 14. mars 2003
Í gærkvöldi byrjuðu afmælishátíðarhöld Femínistafélagsins með sýningu og úrslitum úr mínútumyndastuttmyndasamkeppni sem félagið stóð fyrir. Kristín Helga tók þátt í samkeppninni og sendi inn stuttmynd sem reyndar var um 3 mínútur. Hér er mynd af Kristínu Helgu (lengst til vinstri) og vinkonum hennar Kristinu og Ragnheiði sem léku í myndinni.
Kristín Helga setti myndina sína sem heitir Ef kona væri karl og karl væri kona inn á youtube og hún er hérna:
Ég er mjög stolt af fyrstu stuttmynd dótturinnar og það er ekkert verra að það sé mynd með femínisku yrkisefni.
Hér eru fleiri myndir frá mínútumyndahátíðinni og afmælisfagnaðinum í Norræna húsinu í gærkvöldi.
bloggið mitt fyrir 5 árum þegar ég fór á stofnfundinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2008 | 20:17
Þungt högg
Ég renndi yfir dóminn á vef hæstaréttar Bróðir minn tapar málinu og ég er náttúrulega langt frá því að vera hlutlaus. Þetta þýðir væntanlega mikið fjárhagstjón og álitshnekki, bæði þarf að greiða sekt og hluta af málskostnaði Auðar Sveinsdóttur auk alls eigin málskostnaðar.
Hér eru gildandi höfundarréttarlög
http://www.althingi.is/lagas/nuna/1972073.html
Skaðabætur dæmdir hæstiréttur eftir þessari málsgrein:
56. gr. Þegar saknæmt brot á lögum þessum hefur haft fétjón í för með sér, ber að bæta það eftir almennum reglum fébótaréttar.
Dæma skal höfundi og listflytjanda miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti þeirra með ólögmætri háttsemi.
Það er áhugavert hvernig Hæstiréttur reiknar út hverjar fébæturnar eigi að vera. Það er svona:
Í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti byggði aðaláfrýjandi á því að ef litið væri til allra tilvikanna hefði gagnáfrýjandi nýtt sér 320 síður eða byrjaðar síður úr ritverkum Halldórs. Var því ekki sérstaklega mótmælt. Séu hin fébótaskyldu tilvik metin með svipuðum hætti gætu þau samsvarað rúmlega 210 síðum eða byrjuðum síðum úr verkum skáldsins. Verða fébætur til handa aðaláfrýjanda metnar að álitum með hliðsjón af því og leiðbeinandi gjaldskrá Rithöfundasambands Íslands, sem vikið er að í V. kafla hér að framan. Teljast þær hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur.
Ég held að þetta mál verði í framtíðinni notað sem dæmi um þegar tvenns konar menning kallast á og hugsanlega tekið sem dæmi um dauðateygjur lesmenningar sem víkur fyrir skrif og lesmenningu (read-write culture)
Það er áhugavert að lesa röksemdir stefnanda:
Telur stefnandi að hafa beri í huga að Halldór Laxness hafi verið og sé enn einhver merkasti rithöfundur þjóðarinnar og að verk hans og sá höfundarréttur sem þeim fylgir sé í senn mikilvægur og verðmætur. Stefndi hafi, með ólögmætum og saknæmum hætti, eignað sér ritverk Halldórs í miklum mæli, sér til hagsbóta, sbr. t.d. 5. gr. höfundalaga.
Brot stefnda felist einkum í því að stefndi hafi hagnýtt sér höfundarréttarverndaðan texta úr bókum og öðrum ritverkum Halldórs Laxness, fellt hann inn í bók sína og gert textann þannig að sínum eigin, án þess að aðgreina hann sérstaklega eða geta heimildar með fullnægjandi hætti.
þetta mál úr íslenskum veruleika á margt sameiginlegt með því sem er að gerast á öllum sviðum stafrænnar menningar. Höfundarréttur sem nú er í lýði tekur ekki tillit til þess stafræna veruleika sem við lifum í. Ég hvet alla til að kynna sér verk Larry Lessig og það er ágætt að byrja á því að horfa á myndbandið How creativity is being strangled by the law
Ég held reyndar að Halldór Laxness, sá stóri hugsuður sem hann var hefði verið mikill talsmaður sömu hugmynda og Larry Lessig talar fyrir og hugsanlega gefið út sín verk út með cc-nc-sa höfundarleyfi ef hann hefði verið uppi á okkar tíma. Vonandi líður ekki á löngu þangað til íslenskir rithöfundar fara að birta verk sín með þannig höfundarleyfi. Vonandi líður ekki á löngu þangað til við getum hætt að skoða nota efni nema það sé með einhverjum opnum höfundarrétti. Vonandi munum við í framtíðinni geta unnið með verk höfunda sem leyfa alveg skrumskæld remix af sínum verkum.
Ranglátur dómur (Stefán Pálsson tjáir sig um dóminn)
Höfundarréttur tekinn alvarlega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.3.2008 kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
13.3.2008 | 16:26
Frítt að lemja löggur á Íslandi
Þegar maður les dóminn yfir þeim Algis Rucinskas, Sarunas Urniezius og Vitalij Gagin þá veltir maður fyrir sér hvort það verði ekki nýtt sport hjá útlendingum að flykkjast til Íslands til að buffa löggurnar okkar. Útlendingarnir geta bara yppt öxlum og sagt "I don´t speak Icelandic, I don´t understand". Svo borgar ríkisvaldið fyrir þá málvarnarkostnað og klappar þeim á öxlina og sendir þá út í frelsið. Um langt skeið hefur hefur Ísland verið markaðsett í ferðamennskunni sem svaðafaraparadís, fólk kemur hingað til að veiða hreindýr og ganga óbyggðir og þeytast niður flúðir. Núna bætast sem sagt lögguveiðar yfir nýja og frekar ódýra afþreyingu fyrir túrista.
Það má lesa þennan dóm í heild á Dómasafni Héraðsdóms Reykjavíkur, 12. mars 2008 í máli nr. S-128/2008
Lögreglumennirnir sem voru óeinkennisklæddir munu hafa haft afskipti af fólki í vímu sem ætlaði að keyra af stað. Þá koma árásarmennirnir að og í dómnum bera lögreglumennirnir vitni um eftirfarandi:
"Stúlkan gekk til okkar og spurði okkur brosandi hvort við værum að ráðast á stelpu. EV-0329 kynnti henni með því að sýna henni lögregluskilríki sín að við værum lögreglumenn og bað hana um að koma ekki að okkur þar sem við værum að vinna. Í framhaldi af þessu komu nokkrir aðilar út úr bifreiðunum og hlupu að okkur. EV sýndi þeim lögregluskilríki sín en okkur var strax ljóst að þeir væru erlendir og kölluðum við því til þeirra Police ítrekað. Auk EV náði HBS-0422 að sýna mönnunum lögregluskilríki sín og hrópa að þeim að við værum lögreglumenn. Réðust mennirnir engu að síður á okkur með höggum og spörkum. "
Í dómsorðinu er það hins vegar talið vafamál að árásarmennirnir hafi vitað að þeir væru að ráðast á löggur. Þar segir:
Ákærðu bera allir að þeir hafi fyrst gert sér grein fyrir að um lögreglumenn var að ræða þegar þeir heyrðu það hrópað á ensku og höfðu þeir sig þá á brott eins og rakið var. Þegar virtur er framburður ákærðu og vitna um það hvort og hvenær lögreglumennirnir sýndu skilríki sín er það niðurstaða dómsins að verulegur vafi leiki á hvort ákærða hafi mátt vera ljóst að um lögreglumenn var að ræða þegar hann sló þá Eirík Valberg og Jón Gunnar eins og hann hefur verið sakfelldur fyrir.
Þar segir líka:
Ákærði Algis greiði 17.550 krónur í sakarkostnað en að öðru leyti skal hann greiddur úr ríkissjóði. Hann greiði helming málsvarnarlauna verjanda síns, Jónasar Þórs Guðmundssonar hdl., 850.000 krónur, en helmingur þeirra skal greiddur úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun verjanda ákærða Sarunas, Bjarna Haukssonar hdl., og verjanda ákærða Vitalij, Lárentsínusar Kristjánssonar hrl., 850.000 krónur til hvors, skulu greidd úr ríkissjóði.
Ég er alveg steinhissa hvað það er billegt að ráðast á löggur á Íslandi. Hvernig hefði þetta verið ef þetta hefðu verið óbreyttir borgarar sem ráðist hefði verið á? Hefðu dómstólar á Íslandi borgað þeim Algis Rucinskas, Sarunas Urniezius og Vitalij Gagin fyrir að ráðast á okkur sem aldrei erum í einkenningsbúning?
Kurr í lögreglumönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.3.2008 | 12:44
Friðþæging - þegar vitnið verður sakborningur
Á sunnudaginn fór ég á kvikmyndina Friðþæging eða Atonement út í Kaupmannahöfn. Myndin fjallar stúlkuna Briony, systur hennar og ástmann systurinnar og hefst þegar Briony er 13 ára. Söguhetjan hefur frjótt ímyndarafl og myndin hefst þegar hún er að skrifa sitt fyrsta leikrit og myndin endar þegar hún er gömul kona og heilabiluð að skrifa sína síðustu sögu sem hún segir sanna sögu skrifaða til að bæta fyrir brot sín sem barn. Hver voru þessi brot? Þau voru að þennan dag taldi hún sig sjá ýmis merki um að Robbie væri kynóður og hún taldi sig standa hann að verki við að nauðga unglingsstúlku.
Sagan er eftir Ian McEwan. Ég hef ekkert lesið eftir þann rithöfund en af umsögnum um bækur hans get ég ráðið að hann fjallar mikið um minnið og heilastarfsemi og mismunandi upplifun. Reyndar tók ég eftir að í wikipedia greinunum þá var nokkrum sinnum minnst á heilabilaðar konur sem persónur í verkum hans.
En frá femínisku sjónarmiði er áhugaverður boðskapur í þessari mynd. Sagan er eins og ævintýri sem endurómar þennan boðskap: "það sem þú sást og það sem þú varst vitni að er ekki sannleikur - þín mynd af heiminum er ekki rétt - maðurinn sem þú hélst að væri ófreskja var bara graður og ástanginn strákur". Það er líka dáldið skrýtið hvernig vitni að ákveðnu atviki sem lýsir því sem hún sá eða taldi sig sjá verður glæpamaðurinn og hinn sakborni og hinn sakbitni.
Svo vill til að Íslendingur er einn mesti sérfræðingur í svona minnismálum. Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur er sérfræðingur í réttarhöldum það sem sakborningar treysta ekki á eigin minni heldur á minni annarra og hafa þannig játað á sig glæpi sem þeir halda að þeir hafi framið og minni að þeir hafi framið, þetta kallast Memory distrust Syndrome
Hér eru nokkrar slóðir tengdar myndinni og verkum höfundarins:Atonement (vefsíða myndarinnar)
Friðþæging - Mögnuð kvikmyndaupplifun - markusth.blog.is
Saturday eftir Ian McEwan bokabloggid.wordpress.is
Amsterdam eftir Ian McEwan bokabloggid.wordpress.is
Annað: það var mjög erfitt að horfa á þessa mynd án þess að verða ergilegur vegna hins yfirþyrmandi dulbúna reykingaáróðurs í myndinni. það væri nú sögufölsun að láta eins og reykingar hafi ekki verið til á þessum tíma og það hefði ef til vill þjónað sögunni að láta sögupersónur reykja. En þessar yfirþyrmandi reykingar við öll hugsanlega tækifæri voru greinileg auglýsing kostuð af hagmunaaðilum sem vilja að reykingar nái til fleiri markhópa, ekki síst til kvenna og dæla svona dulbúnum auglýsingum inn í myndir sem eru líklegar til að verða skoðaðar af mörgum.
Kvikmyndir | Breytt 11.3.2008 kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)