Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Hvað fellur á ríkissjóð? Af hverju verð ég svefnlaus í nótt út af skuldaáhyggjum?

Er til of mikils mæls af almenningi að  íslensk stjórnvöld tali skýrt um það hve mikið íslenska ríkið ábyrgist vegna Icesave? Það eru mjög misvísandi fréttir um hverjar ábyrgðir Íslendinga eru. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt íslenskan ráðamann halda því fram að ríkið gæti ábyrgst meira en hinar 20.000 evrur per reikning sem er lágmarksábyrgð á hverjum reikningi samkvæmt EES samningnum.

Lágmarksábyrgð er ekki sama og  allar skuldir Landsbankans.

Hvernig vogar Morgunblaðið sé að koma með svona fréttir án þess að útskýra málið og koma með einhverja fréttaskýringu? Hafa íslensk stjórnvöld lofað og skuldbundið sig til að borga meira en þeim ber samkvæmt EES samningi? Hafa voldug grannríki þröngvað lánum upp á Ísland til að vera í einhverjum afarsamningum? 

Hvers vegna á ég að missa svefn í nótt út af einhverjum Icesave reikningum sem ég vissi ekki að væru til fyrr en fyrir nokkrum vikum, hvaðan af síður að þeir væru eitthvað á vegum Íslendinga?

Hvers vegna á ég sem hef alltaf reynt að spara og forðast að taka lán núna að vera ábyrg fyrir einhverju ofurháum upphæðum í breskum netbönkum?

Stjórnvöld skulda okkur útskýringar á hver staðan er - 

Auðvitað duga eignir Landsbankans ekki fyrir skuldum. Þannig er það hjá öllum fyrirtækjum í greiðsluþroti. 

En ég er ekki að skilja hvers vegna á að borga meira en lágmarkstryggingu.

Hér er frétt á RÚV

Óvíst hvort eignir LÍ dugi til

Þessu kreppuvakt hjá RÚV sem er fjölmiðill í eigu ríkisins er alveg ferlega aumur og þar er engar upplýsingar að fá sem skipta máli til að botna í þessu.

Slóðir

http://www.ruv.is/heim/frettir/innlendar/efnahagskreppa/

http://www.felagsmalaraduneyti.is/upplysingar

Af hverju eru ekki neins staðar upplýsingar fyrir upplýstan almenning um hver staðan er - um hvað hefur verið samið og hvað mikið á að borga? Og hvað þýðir það fyrir Íslendinga

Í Mogganum stendur:

Talið er að eignir Landsbankans í útlöndum nemi á bilinu 800-1200 milljörðum króna.

Ef gert er ráð fyrir því að eignirnar séu um 1000 milljarðar má gera ráð fyrir að 140-160 milljarðar falli á íslenska ríkið vegna skuldbindinga Iscesave-reikninga Landsbankans.


mbl.is Eignir Landsbanka duga ekki fyrir Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín Odds og Björn Bjarna trylla lýðinn

Magnaðar ræður geta æst svo upp áheyrendur að þeim haldi engin bönd. Þannig var með ræðuna sem Katrín Oddsdóttir flutti á útifundinum á Austurvelli. það var nú reyndar ekki við lýðurinn sem mættum á Austurvöll sem misstum okkur, við tökum vel undir ræðu Katrínar en héldum þó stillingu okkar enda um friðsamleg mótmæli að ræða. Mótmæli þar sem  sterkustu vopnin eru orð.

Þeir sem trylltust yfir ræðu Katrínar voru ekki áheyrendurnir á Austurvelli heldur samnemendur í HÍ sem heimta að ræða laganema sé fjarlægð. Þetta er dáldið fyndið því oftast eru stúdentar í fylkingarbrjósti fyrir betra þjóðfélagi en það er reyndar þannig í HR að þar eru djúp og mikil tengsl við athafnamenn í viðskiptum og sumir þeirra voru velgjörðarmenn skólans í gróðærinu og  einkavæðingaróðir og markaðssinnaðir Sjálfstæðismenn hafa hlúð mjög að einkareknum háskólum eins og HR. Það kann að vera að svona hagsmunir HR-inga skipti máli en það kann líka að vera að hér brjótist út reiði þeirra sem hafa skipað sig sem hliðverði þeirra afla sem þagga niður alþýðu þessa lands til að líta á stjórnmálamenn fyrst og fremst til að fjárglæframenn hafi sæmilega gott rými til að athafna sig - með afleiðingum sem við öll þekkjum. Þetta sé tilraun til sams konar þöggunar og þegar veist var að femínistum fyrir mörgum árum vegna ræðu þar sem einn femínisti hótaði því að nokkrir myndu taka sig saman og horfa ásakandi á þá sem fremdu gróf ofbeldisbrot (Sjá  Mávahlátur, klifur Uglu og draumur Gyðu). 

Ég skrifaði fyrir löngu blogg  um þegar  nemendahópur í HR auglýsti fylleríisferð, það lýsir vel hvernig ég held að stemmingin hafi verið  hliðholl þeim sem vilja fylla og deifa æskulýð Íslands, sjá bloggið TUBORG útilegan

Ísland síðustu ára hefur verið í höndum bjórframleiðenda og þeirra sem hafa keypt upp alla þá sem geta tjáð sig og gagnrýnt ástandið. Því miður hafa nemendur í HR sem og í öðrum skólum flotið með þessu ástandi en nú er kominn tími til að við öll vöknum og horfum öðruvísi á þetta ástand og horfum ekki á fjárglæframenn sem hafa sett okkur í ömurlega stöðu sem velgjörðarmenn okkar og kostunaraðila.  Þessir menn blóðmjólkuðu íslenskt samfélag og héldu uppi og halda ennþá uppi trylltum blekkingarleik. Hugsanlega eru þeir líka tengdir og handbendi og leppar annarra aðila sem ekki hafa íslenskt ríkisfang. 

En það voru fleiri sem trylltu fólk með ræðum sínum en Katrín. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra var fjarverandi á borgarafundinum í Háskólabíó. Ég hélt að það væri vegna þess að hann óttaðist skrílslæti, óttaðist og æstur múgur myndi ráðast að honum. En Björn þurfti ekkert að óttast það. Allt fór friðsamlega fram í Háskólabíó og lýðræðislega og  allt var gert til að þeir sem töluðu fengu þá virðingu sem viðmælandi og sá sem ver málstað á skilið. 

En það var á öðrum stað sem trylltur skríll réðist að Birni Bjarnasyni. Það var inn á Alþingi. Það var ekki trylltur skríll sem Katrín Oddsdóttir hafði æst svo mikið upp að það þusti inn á þingpalla til að reka sitjandi Alþingismenn burtu. Nei, það var formaður þeirrar stjórnmálahreyfingar sem  kannanir segja nú stærsta á Íslandi. Þessi alþingismaður og formaður Vinstri Grænna réðst að Birni Bjarnasyni, kallaði ókvæðisorð (éttann sjálfur) til Björns og stóð ógnandi  fyrir framan hann. Svo kórónaði Steingrímur þeitta með því að berja Geir Haarde nokkrum sinnum.

En hver voru viðbrögðin? Á meðan konur mega ekki nota myndrænar líkingar í sínum ræðum án þess að vera orðnar ofbeldismenn þá er bara hlegið að formanni stærsta stjórnmálaflokks á Íslandi og þolandi árásar (Geir Haarde) kóar með árásarmanninum. 

Almenningur ætti að gera upp við sig hvort hann vill að það sé maður eins og Steingrímur Sigfússon sem taki við af Geir Haarde sem forsætisráðherra.  

 


mbl.is Óánægð með ræðu á heimasíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stigamenn og saumakonur taka yfir Ísland!

 maggap-stigamadurMagga P er ein af hetjum vikunnar. Á föstudaginn settist saumakonan Magga P einbeitt við saumamaskínuna og saumaði bleikt klæði.

 Í miðjum mótmælafundinn  á laugardaginn þá mátti sjá stigamanninn Möggu P einbeitta á svip klifra upp í stiga og sveipa sjálfan  sóma Íslands, sverð og skjöld bleikum kjól.

maggap-silfuregilsÁ sunnudaginn  mætti  Magga P í karlavígið  Silfri Egils og lagði það að velli.

Núna á mánudagskvöldi þrumaði ræðumaðurinn Magga P yfir ráðamönnum og almenningi á borgarafundi í Háskólabíó og sýndi fólki fram á hver ættu að vera einu réttu viðbrögð íslenskra stjórnvalda. Að standa upp úr sæti sínu.

Hér er mynd af Möggu P á saumavélinni á föstudaginn með Steinunni og Kolbrúnu og litlu þriggja mánaða dóttur Möggu P. Ég  hugsa að litla stúlkan eigi eftir að verða stolt af mömmu sinni þegar hún vex úr grasi og syngja undir í baráttulaginu "Seinna börnin segja, sjá mömmu hún hreinsaði til".  Magga P er svo sannarlega kona sem bæði þorir, getur og vill.  

Hér er líka skjámynd af Möggu P sem viðmælanda hjá Agli Helgasyni í sjónvarpsþætti hans á sunnudaginn. 

jon-sigurdsson-i-draggiÁfram Magga P og allir hinir femínistarnir úr  Neyðarstjórn kvenna sem hafa látið til sín taka í vikunni! Silja Bára var frábær á borgarafundinum og Katrín Oddsdóttir átti sviðið í sinni þrumandi barátturæðu á Austurvelli á laugardeginum. 

Megi saumakonur og stigamenn Neyðarstjórnar kvenna taka yfir Ísland og vinna okkur upp úr því neyðarástandi sem við erum í núna.


mbl.is Bankaleyndina burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannréttindi fanga á Íslandi

Andri Snær sagði í ræðu á einum útifundinum á Austurstræti þessa snjöllu setningu: "Þú þekkir ekki fólk nema þú hafir  skipt með því arfi".  En hvernig þekkir maður samfélag? Hvernig þekkir maður þjóð? Þú þekkir ekki þjóð þína nema þú hafir skilið hvernig auði og völdum og aðstöðu er dreift um samfélagið og hverjir mega tala, hverjir búa við  athafnafrelsi og ferðafrelsi, hverjir mega eiga börn, hverjir eru fjötraðir niður og af hverjum. Og úr hvaða efni eru fjötrarnir gerðir.

Í því Íslandi sem við siglum inn í eru fjötrarnir búnir til úr skuldum. Þeir eru líka búnir til strax og þú fæðist og stundum áður en þú fæðist, þeir eru lagðir á þig eftir því hvort kynfæri þín snúa inn eða út, eftir því hver hörundslitur þinn er og eftir því hver þjóðaruppruni og þjóðfélagsstaða foreldra þinna er. Stundum eru fjötrarnir ósýnilegir, stundum eins og glerþak sem ómögulegt er að komast upp fyrir og stundum eru þeir eru þeir snúnir saman í sterkan vír úr tabúum samfélags sem leyfir aðeins útvöldum að nota orðræðu og athafna sig í þeim rýmum sem geta fært þeim aukin völd og aukin áhrif. 

Víða um heim er það vöggugjöf samfélagsins til meybarna að þau þurfi  frá blautu barnsbeini  að lifa og hrærast í rými sem mun halda þeim fjötruðum til æviloka. Þó þessir fjötrar séu stundum gerðir úr ósýnilegu efni þá eru þeir undrasterkir og  það eru í gangi alls konar öfl sem vinna að því að hinir fjötruðu komi ekki auga á fjötra sína og líti á þá  sem halda  þeim föngnum og hirða  afrakstur iðju þeirra  sem velgjörðarmenn sína. 

Það er auðvelt fyrir okkur að koma auga á fjötra í annarri siðmenningu, við hristum hausinn yfir að konur í því ríka landi Saudi-Arabía megi ekki keyra bíl og við erum hneyksluð á skipunum Talibana að gera  konur að ósýnilegum  og blæjuhuldum verum sem ekki megi vinna launuð störf.

Aldrei eru fjötrar samfélagsins þó ljósari og sýnilegri en hjá þeim sem er útskúfað og annað hvort reknir frá þátttöku í samfélaginu eða beinlínis læstir inni. Það er mjög mikil hætta að mannréttindi séu brotin á þessum hópum.  Þannig er fólk í innflytjendabúðum/flóttamannabúðum og fólk í fangelsum sérstaklega illa sett. 

Alveg eins og við þekkjum ekki manneskju fyrr en við höfum skipt með henni arfi þá getum við sagt að við þekkjum ekki samfélag eða þjóð fyrr en við höfum skynjað og skilið hvernig samfélagið fer með þá sem eru utan garðs, þá sem eru útskúfaðir og fyrirlitnir og þá sem eru lokaðir inn í fangelsum. 

Núna eru íslensku fangelsin yfirfull af veiku fólki. Sumir fangar eru geðveikir. Stór hluti fanga í íslenskum fangelsum er þar vegna fíkniefnabrota og stór hluti þeirra er í bullandi neyslu. Neyslu sem hættir ekki þó fangelsisdvöl hefjist. 

En þó er íslenskt samfélag miklu betur sett en t.d. hið bandaríska. Þar er seta í fangelsi hluti af lífsreynslu miklu fleiri og þar eru fangelsin full af ungum blökkumönnum.  Það er aðalsmerki á íslensku samfélagi að tekið er af föngum af mildi og þeir eiga sér viðreisnar von. Á  Alþingi situr nú fyrrum fangi sem afplánaði sinn dóm á Litla-Hrauni.  Það eru hins vegar nokkur dæmi af hegðun lögreglu við fanga sem enginn Íslendingur getur verið stoltur af. 

Ein af jólabókunum í ár er bók Erlu Bolladóttur  Erla, góða Erla, bókin um fangann sem varð trúboði. Saga Erlu er harmsaga af réttarkerfi semvar stórlega áfátt og ég trúi því að margir lögreglumenn sem unnu að því máli sjái það núna í öðru ljósi.

Núna lifum við á tíma hryðjuverkahræðslu en það færist sífellt lengra og lengra hver er talinn hryðjuverkamaður og hver er talin hryðjuverkaþjóð. En í krafti þessarar hræðslu við árás innan frá þá hafa lögreglur komið sér upp skrýtnum vinnubrögðum. Það er alvarlegt mál ef lögreglan ætlar í framtíðinni að hafa tangarhald á fólki með því að nota sektargreiðslur til að handtaka fólk og taka það úr umferð þegar það hentar lögreglu og sérstaklega beina því að  fólki  sem er líklegt til að vera með uppákomur á mótmælafundum. Ef til vill erum við að fara inn í samfélag þar sem við öll verðum skuldaþrælar, samfélag þar sem við verðum öll ofurseld kröfum frá þeim sem eiga þær skuldakröfur sem allt í einu hafa fallið á okkur.

Hve ömurleg er ekki sú framtíðarsýn að okkur verði stungið inn í skuldafangelsi og tekin úr umferð eða gjaldfelldar samstundis skuldir okkar ef við dirfumst að hafa okkur í frammi í sambandi við samfélagið sem við lifum í.

Það er hættuleg þróun að hræðsla við róstur og uppþot verði til þess að lögreglan stundi vinnubrögð eins og hún gerir núna og festi slík vinnubrögð í sessi. Ekkert er eins hættulegt og ríki þar sem valdhafarnir og þeir sem eru undir þá settir eins og lögreglan fari að líta á þegnana í eigin ríki sem óvini sína.

 

 


mbl.is Var ekki látinn vita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhæf lögregla og óhæfur ríkisfjölmiðill

Lögreglan gerði  reginmistök í sambandi við þessa handtöku á bónusfánastráknum. Þessi handtaka er mjög líklega ólögleg og í engu samræmi við reglur réttarríkis. Svo gerði lögreglan áframhaldandi mikil mistök hvernig hún brást við þessum mótmælum þegar úðað var piparúða á fólkið.  það virðist hafa verið þannig ástand við lögreglustöðina að börn voru meidd. Hér er saga móður sem fór með dóttur sína 16 ára á slysavarðstofu Ég get ekki séð, augun og andlitið brenna

Hér er umfjöllun frá móður bónusstráksins Valdníðsla í verki.

Íslenska lögreglan hefur með þessu bætt sjálfri sér á lista yfir þá aðila á Íslandi sem við vantreystum. Hélt ég þó að ekki væri á þann lista bætandi, hann er þegar orðinn yfirfullur af stjórnmálamönnum, embættismönnum, fjárglæframönnum, útrásarvíkingum, bankamönnum og fjölmiðlamönnum.

Svo er annar aðili sem er gersamlega, gersamlega óhæfur.
það er ríkissjónvarpið.

Botninn í RÚV er að núna er svo mikið afturhvarf að þar á bæ eru menn hættir að senda út hljóð með sjónvarpsútsendingu á vefnum. Nú er vefútsendingin bara mynd, ég er þessa stundina að horfa á mynd af silfri Egils í  þögulli útsendingu.

RÚV er með algjörlega fáránlega stefnu.Ekki bara með að hætta að bjóða upp á hljóð með sjónvarpsútsendingu heldur almennt með fréttaflutningi og hvaða þættir eru þar á dagskrá.

Á meðan Ísland brennur þá býður þessi skrípafjölmiðill upp á sömu lummulegu dagskránna, einhverja fimmta flokks sakamálaþætti og þess konar óð til ofbeldisins en lætur eins og fjármálahrunið og það að innviðir íslensks samfélags hafi hrunið komi þeim ekkert við. Það er NEYÐARÁSTAND á Íslandi og það ætti að sjást í dagskránni og í vefmiðlun á RÚV.  Þegar Vestmannaeyjagosið varð þá voru sérstakar útsendingar í útvarpi á hverjum degi, bræðurnir Gísli og Arnór sáu um þann þátt og það hlustuðu allir landsmenn á þann þátt. 

Ég tek ekki eftir neinu slíku hjá RÚV og vefhönnunin og hvað er sett á vefinn www.ruv.is er stórundarlegt svo ekki sé meira sagt. Það hefur verið sett upp eitthvað sem heitir Kreppan og stórir borðar  sem tengja á það.

Fréttavalið þar undir er alltaf mjög undarlegt

http://www.ruv.is/heim/frettir/innlendar/efnahagskreppa/

En þetta er ansi fúlt að sitja við nettengda  tölvu og hafa ekki aðgang að sjónvarpi og þá getur sjálfur Ríkisfjölmiðillinn RÚV ekki sent út útsendingu með tali.

 Ég er búin að kvarta tvisvar við Rúv, ég  hringdi núna fyrir hádegi á Rúv og skrifaði þetta bréf í gærkvöldi. Samt er ekkert hljóð með útsendingu á sjónvarpsefni núna og það sem verra er ENGIN TILKYNNING UM  AÐ EITTHVAÐ SÉ AÐ. Samt veit Rúv mjög vel af þessu vandamáli:

sent á webmaster@ruv.is

það er ekkert hljóð með því sem er á vefnum fyrir sjónvarp á   ruv.is í dag 22. nóv. virkar fyrir aðra daga.

kv.

Salvör Gissurardóttir

Hvernig í ósköpunum getur svona fjölmiðill haft eitthvað hlutverk sem öryggistæki á Íslandi?

Hvað er sjónvarpsstjórinn Páll Magnússon að hugsa? Heldur hann að það sem gengur á núna sé einhvers konar mótvindur og markaðsmisvægi sem muni leiðrétta sig með hinni hvítu og krepptu og ósýnilegu hönd markaðarins og það eigi að reka ríkisfjölmiðil í dag alveg eins og ekkert hafi gerst á Íslandi? Á hvaða launum er Páll Magnússon útvarpsstjóri? Hver borgar honum laun? Hefur hann engar skyldur við okkur almenning í landinu sem borgar launin hans?  það er raunar smáatriði en er ekki óviðeigandi að Páll sé sjálfur að lesa fréttir núna ef hann fær einhverjar aukagreiðslur fyrir það. Núna er væntanlega mikið atvinnuleysi fjölmiðlamanna og það fyrsta sem ætti að gera væri að taka fyrir allar aukasposlur til fólks sem starfar á fjölmiðlum og reyna að koma sem flestum þar að.

Af hverju eru ekki endalaust umræðuþættir og fréttaútskýringarþættir um hvað er að gerast, af hverju virðist púður Ríkisútvarpsins fara í  einhverja spurningaþætti eins og Útsvar?  Dagskrá og allt mat á hvað er fréttaefni er steingelt á Íslandi. Núna er mikið af fjölmiðlafólki atvinnulaust, ef hverju er ekki hægt að búa til betri fjölmiðil en þetta?

Best að fletta upp hverjir stýra þessu steinrunna apparati.
Stjórn RÚV er þessi skv. vef Rúv.

Stjórn:
Ómar Benediktsson, formaður
Margrét Frímannsdóttir, varaformaður
Svanhildur Kaaber
Kristín Edwald
Ari Skúlason

Varastjórn:
Signý Ormarsdóttir
Eva Bjarnadóttir
Dagný Jónsdóttir
Sigurður Aðils Guðmundsson
Lovísa Óladóttir


mbl.is Sagt frá mótmælunum erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bónusbjáninn og skrílfréttamennska

Ég var á fundinum á Austurstræti í dag. Katrín var frábær en hinir ræðumennirnir höfðuðu ekki til mín, ég missti þráðinn þegar þau töluðu. Enda var ég að fylgjast með þegar Neyðarstjórn kvenna klæddi Jón Sigurðsson í bleikan kjól og svo ýmis konar skrílslátum. Sérstaklega var ég að fylgjast með hvernig þeir ljósmyndarar og myndatökumenn sem þarna voru skrásettu atburðinn. Hvað vakti athygli þeirra. 

Pressuna þyrstir í fréttir á válegum atburðum, róstum og stríðsátökum. Það var gaman að fylgjast með hvernig myndagammar sveimuðu í kringum tvo litla stráka til að reyna að taka mynd af þeim að kasta eggjum eða klósettpappír í Alþingishúsið. Það var samt enginn sem sagði  “Ég get nú kannski fengið einhvern til að kasta eggi rétt á meðan við erum live á eftir” eins og íslenskur fréttamaður heyrðist segja einu sinni þegar hann áttaði sig ekki á að útsendingin væri hafin. En ef horft er á þetta myndskeið þá sést að þetta þrá allir þeir sem eru að skrásetja viðburðinn.

Það voru nokkrir að kasta eggjum og athygli fjölmiðla beindist að þeim

 


Þær fengu viðtal og á þessu myndbroti má heyra ljósmyndara reyna að fá einn litla strákinn sem var með eggjakösturum reyna að stilla sér upp.

Svo fylgdist pressan með einhverjum sem klifraðu upp á svalir Alþingishússins og komu þar fyrir skilti. Mér fannst þetta skilti reyndar frekar beitt. Alla vega fyndnara og beittara en bónusfáni á hún Alþingishússins.


Þá um bónusbjánann sem setti fánann á Alþingishúsið.

Ég áttaði mig ekki á þeirri aðgerð, mér fannst hún mikil vanvirðing við Aþingi og alla Íslendinga, ég vil svo sannarlega ekki að fáni einhverra viðskiptasamsteypna blakti við hún á Alþingishúsinu. Það er líka mikill áfellisdómur um öryggi í Alþingishúsinu að fólk skuli geta komist þar inn til að  draga þar einhverja fána að hún. Hvaða fáni verður dreginn þar að hún næst?

En það var afar, afar misráðið af lögreglu að handtaka þennan bónusstrák kvöldið fyrir mótmæli og sérstaklega er ámælisvert ef einhverjir hnökrar eru á þessu þ.e. handtakan er ólögmæt.

Ég var mjög undrandi í lok mótmæla fundar á Austurvelli þegar Hörður Torfason sem hefur hingað til stýrt þessum mótmælum vel og passað að þau væru ekkert sem tengdist skrílslátum hvatti fundarmenn til að gera aðsúg að lögreglustöðinni.  Þessi uppákoma við lögreglustöðina var ekki friðsamleg mótmæli og baráttufundur.

Ég held að strákurinn sem brölti með Bónusfánann sé sams konar týpa og Skjöldur Eyfjörð og þrífist á svona uppákomum.  Þó ég vilji núverandi ríkisstjórn burt þá vil ég ALLS EKKI svona fólk eins og Hauk Hilmarsson í fylkingarbrjósti sem hetjur sem boða byltingu. Haukur þessi skrifar m.a. greinina

Góðir dagar - íslenska byltingin

og aðrar slíkar. Hér er líka fróðlegt viðtal við Hauk Hilmarsson  þar sem hann er gerður að hetju í mannréttindamálum í Palestínu.  Gísli Freyr hefur sitt hvað við það að athuga og segir:

Ég var laminn...

 

Ég held að lögreglan hafi gert mistök með handtökunni og ég held að Hörður Torfason hafi gert mistök með því að hvetja til uppþots.   Ég  vil ekki  sjá stjórnleysi og óeirðir á Íslandi. Allra síst vil ég að stráklingar sem þrífast á fætingi og finnst bara gaman að svona uppþotum verði settir á stall sem einhvers konar hetjur.

 

Ég vona að hugsandi fólk á Íslandi skilji að núna er kominn tími fyrir Neyðarstjórn kvenna.

 


mbl.is Fanganum sleppt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helga Sigrún stendur vaktina - pössum okkur á áhættufjárfestum sem taka enga áhættu

Helga Sigrún þingmaður Suðurnesja fyrir Framsóknarflokkinn  stendur vaktina í sínu kjördæmi þegar Róbert  Wessmann  er farinn að líta í kringum sig varðandi skurðstofur.

Það er nú þannig með Ísland í dag að stærsta skurðaðgerðin sem hér þarf að framkvæma er að skera á því meini gróðahyggju og óheftrar markaðsvæðingar og kasínókapítalisma sem hefur notað Ísland og eigur almennings á Islandi sem spilapeninga undanfarin ár. Það þar svo sannarlega að stinga á því meini og hleypa út vessum.

Því miður virðist allt benda til þess að núverandi stjórnvöld, bankar og eftirlitsstofnanir séu alveg óhæf til þess. Núna er á Íslandi akkúrat ástand sem Naomi Klein tekur fyrir í bók sinniThe Shock Doctrine og þeir sem fyrrum réðu Íslandi tala eins og þetta sé bara spurning um hvenær allt fari í sama far, hvenær peningamaskínuvélar samfélagsins og skuldaþrælarnir  Íslendingar verða færðar í hendur nýrra aðila, hugsanlega núna  beint undir erlenda aðila  í stað þess að  láta innlenda aðila  leppa erlenda eign eins og undanfarin ár hefur tíðkast.

Annars  er margt skrýtið sem  Róbert Wessmann gerir. Af hverju var hann að kaupa í Glitni kortér fyrir hrunið? Það þarf að hafa verið í meira lagi blindur til að sjá ekki hve óskynsamlegt var að fjárfesta í banka á þeim tíma. Var hann hugsanlega að kaupa í Glitni til að halda uppi verðinu á hlutabréfum, var hann hugsanlega að kaupa til að aðrir gætu selt?  Var hann eins og Magnús Ármann með Imon og Jakob Valgeir með Stím að leppa einhver kaup sem þýddu ekki nema 100 þús. króna áhættu fyrir hann sjálfan? Kannski var eitt fyrirtæki í hans eigu að kaupa af öðru fyrirtæki í hans eigu.

Hér er brot úr grein í DV um þessi vinnubrögð: 

"Áhættufjárfesting án áhættu
Vilhjálmur segir ljóst að í þessu máli hafi Birna verið að kaupa á sérkjörum vegna stöðu sinnar innan bankans. Hann segir þetta vera hluta af mun stærra máli. Hann spyr hvort hér ekki sé ekki um að ræða áhættufjárfestingar í hlutafélögum. „Hvaða áhættu eru menn að taka ef þeir geta stokkið úr slíkum vagni? Af hverju er Róbert Wessmann svona rólegur yfir 5 milljarða viðskiptum? Kynni það að vera vegna þess að hann fékk lán fyrir öllu saman í formi hlutafélags og ef hlutafélagið fer á hausinn tapar hann ekki nema 100 þúsund krónum? Hann varðar ekkert um hitt og lánveitandinn tapar,“ segir Vilhjálmur."

Róbert Wessman kaupir í Glitni banka - mbl.is

Vísir - Róbert kannar hvort hann geti rift Glitniskaupum


mbl.is Róbert Wessmann í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldi réttlætt með peningum

Einn angi þess peningadrifna samfélagskerfis sem við lifum í  er að peningar eru notaðir til að réttlæta ofbeldi. Í afkimum flestra borgarsamfélaga þrífst vændi og það fer stundum fram fyrir opnum tjöldum með vitund og vilja og stundum meira segja velvild stjórnvalda.  Stundum er látið eins og það sé gott að gera vændi löglegt bæði fyrir þá sem selja og þá sem kaupa, því þá sé verið að hjálpa aumingja fólkinu sem selur sig  og tryggja vörugæði  viðskiptavina fólks í vændi því þá geti  opinberir aðilar haft eftirlit með þessari iðju og blessað hana á einhvern hátt. Já og hafi tekjur af henni í staðinn fyrir að þeir miklu tekjustraumar séu hluti af neðanjarðarhagkerfi eins og nú er víðast.

Því miður er það svo að þrátt fyrir að svona blygðunarlaust ofbeldi á umkomulausu fólki sé stundað beint fyrir framan augun á okkur þá kýs samfélagið samt að horfast ekki í augu við ofbeldið og notar peningahagkerfistrúna til að réttlæta mansal og vændi. 

Það er átakanlegt að heyra upplýst fólk enduróma fordóma og  búa til réttlætingu á ofbeldi og mannréttindabrotum með því að tala um vændi sem "elstu atvinnugrein í heimi".  Er það atvinnugrein þegar sá sem hefur völd og fé notar annað fólk til að rúnka sér á því? 

Það er ein hættulegasta  og fyrirlitnasta iðja í heiminum að stunda vændi.  Það er neyð sem knýr flesta til þeirrar iðju og í mörgum samfélögum eru vændiskonur flestar erlendar, fluttar inn frá fátækum löndum sérstaklega til að vinna fyrir pimpa.  

Það hafa komið upp mörg dæmi um að vændiskonur eru myrtar og pyntaðar.

Sem betur fer þá smákemur þetta, löggjöf flestra Vesturlanda er að breytast frá því að vera hliðholl viðskiptavinum vændiskvenna.  Það ber að fagna því.

Sjá hérna:

Prostitute users face clampdown


mbl.is Óttast um líf vændiskvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþolandi ástand - ráðuneytisstjórar grunaðir um innherjasvik, Imon og Stím -leppar kaupa hlutabréf

Það á ekki að sakfella menn af grun um afbrot eða af rógi sem gengur um samfélagið. Þeir glæpir, efnahagsbrot og svik gagnvart almenningi á Íslandi sem nú eru að koma upp á yfirborðið eru hins vegar þannið að stjórnvöld, embættismenn,  bankastjórnendur, athafnamenn og eftirlitsaðilar eru nú rúin öllu trausti og það traust verður ekki endurheimt nema hart sé gengið fram í að upplýsa mál og greina hvað gerðist og hvað var óeðlilegt og siðlaust og hugsanlega ólöglegt. 

Það er  óþolandi að ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu sé grunaður um að hafa notað upplýsingar sem hann fékk á trúnaðarfundum starfa sinna vegna til þess að auka verðmæti eigin eigna verulega. Til að einhver trúverðugleiki sé í stjórnsýslunni þá get ég ekki annað séð en að  hann  verði að víkja úr embætti á meðan rannsókn fer fram.  

Fyrrum aðstoðarmaður Geirs var tengdur fjárfestingarsjóði, margir ráðherrar Sjálfstæðismanna eru tengdir fjölskylduböndum við stjórnendur í bönkum og fjármálalífi og þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru margir í tengslum við þau fyrirtæki eða fjármálastofnanir sem núna hafa rúllað. Það er ófögur mynd sem núna blasir við almenningi ef allt er satt sem sterkur orðrómur er um í samfélaginu. En ég endurtek - grunur er ekki sama og sekt. Hins vegar verða stjórnvöld að taka harðar á meintri spillingu. Eins og er þá hefur almenningur það á tilfinningunni að risastór yfirhylming sé í gangi. 

Annars er margt svo undarlegt í þessum málum að nægir til að æra óstöðugan. Eitt máltæki segir að enginn sé grimmari en hermaður á undanhaldi, hann hefur engum völdum að tapa og er sama um allt og eyðileggur allt  því hann veit að hann á aldrei eftir að gera það ríki sem hann flýr að skattlandi sínu. Hann reynir að hrifsa til sín allt sem hann getur á flóttanum. Myndin sem nú blasir við okkur af föllnum hetjum útrásarinnar er ófögur og sumir baráttusigrar útrásarvíkinga voru vindhögg og svikamyllur. Hinir  löskuðu víkingar útrásarinnar og gróðærisins gætu líka hafa unnið myrkraverk á seinasta sprettinum á undanhaldinu fyrir hrunið mikla.

Á síðustu dögum gróðærisins fyrir hrunið mikla þá  gerðust hlutir sem þarnast skoðunar og rannsókna. Það er óþolandi að fólk sem tengist skrýtnum gjörningum m.a. stjórnendur í bankakerfinu sem fengu niðurfelldar eigin skuldir sé ennþá í lykilstöðum í bankakerfinu. Það er líka óþolandi að ekki sé rannsakað hvernig eða hvort þeir spilafíklar sem settu Ísland í þrot með brölti sínu höfðu leppa sem þeir notuðu til að lágmarka tap sitt fyrir hrunið.  Það er líka óþolandi að vita ekki hvaða öfl standa bak við þá sem núna eru komnir í þrot s.s. Jón Ásgeir en halda samt áfram að sölsa undir áhrif og eignir m.a. fjölmiðla.  Hver stendur á bak við slíkt og hvers vegna?

Það er líka óþolandi að ekki sé upplýst og rannsakað hvernig sumir gjörningar gerðust t.d. hvernig stóð á því að Jakob Valgeir Flosason sem mér skilst að sé í útgerð í Bolungarvík og braski í verðbréfum hafi verið að kaupa fullt af bréfum í FL Group rétt  áður en verð á þeim bréfum féll niður. Einnig þarf að rannsaka kaup Magnúsar Ármann á bréfum í Landsbankanum rétt fyrir hrunið. Báðir þessir aðilar fengu í gegnum skrýtin hlutafélög lán í bönkum án þess að leggja til ábyrgðir og notuðu þau lán til að kaupa mjög áhættusamt hlutafé en hjálpuðu auðvitað í leiðinni öðrum að losa sig hlutabréf sem alls ekki var hægt að selja ella á því verði.

Hinir svokölluðu útrásarvíkingar virðast því miður stundum hafa byggt auð sinn á svikamyllum og pýramídaviðskiptum og selt fram og til baka sömu eignirnar til að láta líta svo út að þær væru einhvers virði og verðmæti þeirra hefði aukist í meðförum þeirra.

Þegar svikamyllan féll þá þá auðvitað sáu þeir það fyrr fyrir sem voru með puttana í þessu og það sem þeir hafa þyrftu  að gera var að losa sínar eigur áður en allt hryndi saman. Til að gera það þá þurfti einhver að kaupa. En kaupendur fengust náttúrulega ekki á frjálsum markaði. Sannir útrásarvíkingar létu það auðvitað ekki hindra sig í viðskiptum heldur bjuggu til kaupendur á sama hátt og með sömu vinnubrögðum og þeir notuðu í sínum kasta--a-milli-sín viðskiptum.

Þegar teikn voru á lofti um að hrun væri í vændum þá var erfitt að plata fólk til að kaupa og allt það fjármagn sem athafnamenn höfðu sölsað undir sig m.a. úr Samvinnuhreyfingunni var löngu uppurið - Í svoleiðis aðstæðum var heppilegt fyrir athafnamenn að hafa ítök í banka og að hafa einhvern lepp til að kaupa hlutabréf. Svikamyllan gæti hafa  verið þannig að bankinn lánaði  leppnum til að kaupa hlutabréf og leppurinn þurfti ekki að leggja fram nemar ábyrgðir fyrir láninu. Bara að kaupa á háu verði  hlutabréf sem eigendur bankans eða aðilar þóknanlegir eigendum og stjórnendum bankans vildu selja. 

Ég hugsa að stærðargráðan á sölu bréfa ráðuneytisstjórans í fjármálaráðuneytinu sé töluvert minni en þær sölur sem áttu sér stað í gegnum hlutafélögin Imon (Magnús Ármann) og Stím (Jakob Valgeir) rétt fyrir hrunið.  

Tenglar  

Hverjir seldu í Landsbankanum? : Markaðurinn

Silfur Egils » Bréf um Imon, Landsbankann, lífeyrissjóði og alka

Keypti stóran hlut í LÍ rétt fyrir þrot - mbl.is

 

 


mbl.is Ráðuneytisstjóri hugsanlega innherji
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafmagnaður borgarafundur á Nasa

IMG_2096

Ég var á borgarafundinum á Nasa. Það var rafmögnuð stemming á fundinum, einhver gífurlega mikil spenna sem stundum olli eldsglæringum. Ég held að þessi fundur endurspegli íslensku þjóðarsálina núna, þjóðarsál sem hrópar á blóð og vill sjá einhverja hanga í gapastokk. Það var líka í þessari spennu sem einhver kraftur leysist úr læðingi -  kraftur þeirra sem hugsa og taka sjálfir ábyrgð á samfélagi sínu og uppbyggingu þess, kraftur þeirra sem vita að það gerir enginn betur en þeir sjálfir í samvinnu við aðra. 

Hér eru nokkrar myndir frá fundinum:

IMG_2088

IMG_2087

IMG_2095


mbl.is Troðfullt á fundi á Nasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband