Óþolandi ástand - ráðuneytisstjórar grunaðir um innherjasvik, Imon og Stím -leppar kaupa hlutabréf

Það á ekki að sakfella menn af grun um afbrot eða af rógi sem gengur um samfélagið. Þeir glæpir, efnahagsbrot og svik gagnvart almenningi á Íslandi sem nú eru að koma upp á yfirborðið eru hins vegar þannið að stjórnvöld, embættismenn,  bankastjórnendur, athafnamenn og eftirlitsaðilar eru nú rúin öllu trausti og það traust verður ekki endurheimt nema hart sé gengið fram í að upplýsa mál og greina hvað gerðist og hvað var óeðlilegt og siðlaust og hugsanlega ólöglegt. 

Það er  óþolandi að ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu sé grunaður um að hafa notað upplýsingar sem hann fékk á trúnaðarfundum starfa sinna vegna til þess að auka verðmæti eigin eigna verulega. Til að einhver trúverðugleiki sé í stjórnsýslunni þá get ég ekki annað séð en að  hann  verði að víkja úr embætti á meðan rannsókn fer fram.  

Fyrrum aðstoðarmaður Geirs var tengdur fjárfestingarsjóði, margir ráðherrar Sjálfstæðismanna eru tengdir fjölskylduböndum við stjórnendur í bönkum og fjármálalífi og þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru margir í tengslum við þau fyrirtæki eða fjármálastofnanir sem núna hafa rúllað. Það er ófögur mynd sem núna blasir við almenningi ef allt er satt sem sterkur orðrómur er um í samfélaginu. En ég endurtek - grunur er ekki sama og sekt. Hins vegar verða stjórnvöld að taka harðar á meintri spillingu. Eins og er þá hefur almenningur það á tilfinningunni að risastór yfirhylming sé í gangi. 

Annars er margt svo undarlegt í þessum málum að nægir til að æra óstöðugan. Eitt máltæki segir að enginn sé grimmari en hermaður á undanhaldi, hann hefur engum völdum að tapa og er sama um allt og eyðileggur allt  því hann veit að hann á aldrei eftir að gera það ríki sem hann flýr að skattlandi sínu. Hann reynir að hrifsa til sín allt sem hann getur á flóttanum. Myndin sem nú blasir við okkur af föllnum hetjum útrásarinnar er ófögur og sumir baráttusigrar útrásarvíkinga voru vindhögg og svikamyllur. Hinir  löskuðu víkingar útrásarinnar og gróðærisins gætu líka hafa unnið myrkraverk á seinasta sprettinum á undanhaldinu fyrir hrunið mikla.

Á síðustu dögum gróðærisins fyrir hrunið mikla þá  gerðust hlutir sem þarnast skoðunar og rannsókna. Það er óþolandi að fólk sem tengist skrýtnum gjörningum m.a. stjórnendur í bankakerfinu sem fengu niðurfelldar eigin skuldir sé ennþá í lykilstöðum í bankakerfinu. Það er líka óþolandi að ekki sé rannsakað hvernig eða hvort þeir spilafíklar sem settu Ísland í þrot með brölti sínu höfðu leppa sem þeir notuðu til að lágmarka tap sitt fyrir hrunið.  Það er líka óþolandi að vita ekki hvaða öfl standa bak við þá sem núna eru komnir í þrot s.s. Jón Ásgeir en halda samt áfram að sölsa undir áhrif og eignir m.a. fjölmiðla.  Hver stendur á bak við slíkt og hvers vegna?

Það er líka óþolandi að ekki sé upplýst og rannsakað hvernig sumir gjörningar gerðust t.d. hvernig stóð á því að Jakob Valgeir Flosason sem mér skilst að sé í útgerð í Bolungarvík og braski í verðbréfum hafi verið að kaupa fullt af bréfum í FL Group rétt  áður en verð á þeim bréfum féll niður. Einnig þarf að rannsaka kaup Magnúsar Ármann á bréfum í Landsbankanum rétt fyrir hrunið. Báðir þessir aðilar fengu í gegnum skrýtin hlutafélög lán í bönkum án þess að leggja til ábyrgðir og notuðu þau lán til að kaupa mjög áhættusamt hlutafé en hjálpuðu auðvitað í leiðinni öðrum að losa sig hlutabréf sem alls ekki var hægt að selja ella á því verði.

Hinir svokölluðu útrásarvíkingar virðast því miður stundum hafa byggt auð sinn á svikamyllum og pýramídaviðskiptum og selt fram og til baka sömu eignirnar til að láta líta svo út að þær væru einhvers virði og verðmæti þeirra hefði aukist í meðförum þeirra.

Þegar svikamyllan féll þá þá auðvitað sáu þeir það fyrr fyrir sem voru með puttana í þessu og það sem þeir hafa þyrftu  að gera var að losa sínar eigur áður en allt hryndi saman. Til að gera það þá þurfti einhver að kaupa. En kaupendur fengust náttúrulega ekki á frjálsum markaði. Sannir útrásarvíkingar létu það auðvitað ekki hindra sig í viðskiptum heldur bjuggu til kaupendur á sama hátt og með sömu vinnubrögðum og þeir notuðu í sínum kasta--a-milli-sín viðskiptum.

Þegar teikn voru á lofti um að hrun væri í vændum þá var erfitt að plata fólk til að kaupa og allt það fjármagn sem athafnamenn höfðu sölsað undir sig m.a. úr Samvinnuhreyfingunni var löngu uppurið - Í svoleiðis aðstæðum var heppilegt fyrir athafnamenn að hafa ítök í banka og að hafa einhvern lepp til að kaupa hlutabréf. Svikamyllan gæti hafa  verið þannig að bankinn lánaði  leppnum til að kaupa hlutabréf og leppurinn þurfti ekki að leggja fram nemar ábyrgðir fyrir láninu. Bara að kaupa á háu verði  hlutabréf sem eigendur bankans eða aðilar þóknanlegir eigendum og stjórnendum bankans vildu selja. 

Ég hugsa að stærðargráðan á sölu bréfa ráðuneytisstjórans í fjármálaráðuneytinu sé töluvert minni en þær sölur sem áttu sér stað í gegnum hlutafélögin Imon (Magnús Ármann) og Stím (Jakob Valgeir) rétt fyrir hrunið.  

Tenglar  

Hverjir seldu í Landsbankanum? : Markaðurinn

Silfur Egils » Bréf um Imon, Landsbankann, lífeyrissjóði og alka

Keypti stóran hlut í LÍ rétt fyrir þrot - mbl.is

 

 


mbl.is Ráðuneytisstjóri hugsanlega innherji
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Það þarf að skoða vel krosseignatengsl eins og sjá má á lista yfir helstu eigendur Byrs. Þar er að finna nokkra af "The usual suspects":

NafnStofnféEignarhluturEigandi
Imon ehf1.206.647.7017,717%Magnús Ármann
Sólstafir ehf299.426.2671,915%Þorsteinn í kók
Fjárfestingafélagið Prímus ehf484.718.7353,100%Hannes Smárason
Fons Eignarhaldsfélag ehf211.114.4871,350%Pálmi Haralds
Hagar ehf207.475.4421,327%Baugur 70%

Sigurður Ingi Jónsson, 19.11.2008 kl. 13:33

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ætli þetta lið fái ekki afslátt hjá firmaskrá, mér sýnist það þurfa að stofna svo mikið af alls konar ehf og hf fyrir þessa peningaleiki sína?

Ætli það sé eitthvað kerfi í hvað þessi félög sem látin eru kaupa hvert af öðru heita eða alli það sé eins handahófskennt og viðskiptamódelið á bak við þetta "shopping spree" útrásarinnar?

ehf félagið sem eiginmaður menntamálaráðherra stofnaði fyrir sitt tap á glitnishlutabréfum hét þó alla vega nafni sem hafði eitthvað kerfi, var það ekki eitthvað leikkerfi handboltamanna sem var í því nafni?

það á örugglega einhver eftir að taka doktorspróf í bróderí og krosssauminum og zikk zakkinu í þessum ehf og hf bransa.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.11.2008 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband