Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
22.5.2007 | 10:26
Elsku frænka
Hér er litla frænka fyrsta daginn í lífi sínu. Í gær var hún veik. Hún er núna á vökudeild.
Ég get ekkert gert nema beðið.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
21.5.2007 | 17:52
Rakú brennsla í Borgarfirði
Á sunnudaginn fór ég í sumarbústað í Borgarfirði í Rakú brennslu til Ásrúnar Tryggvadóttur sem hefur kennt okkur leirmótun í vetur. Hér er 45 sek. vídeóklipp af brennslunni og mununum okkar:
Við vorum að prófa rakú brennslu sem er gömul japönsk aðferð við glerungsbrennslu. Hún er þannig að fyrst eru leirmunir mótaðir og leirmunirnir hrábrenndir í rafmagnsofni. Síðan eru rakúglerungar settir á og þeir gljábrenndir í sérstökum ofni sem er hitaður upp með gasi. Glóandi heitir leirmunirnir eru svo lagðir í málmílát ásamt eldsneyti t.d. viðarsagi. Eftir ca. 20 mín reduction er brennslan stöðvuð með því að setja munina í vatn. Sótið er svo þegið af mununum.
Það kemur stundum skemmtileg áferð á glerunginn eins og hann sé allur sprunginn.
Sjá hérna Raku ware - Wikipedia, the free encyclopedia
Menning og listir | Breytt 27.10.2007 kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.5.2007 | 16:01
Veggjakrot - myndmál stórborgarinnar
Veggjakrot er margs konar. Það getur verið tákn sem aðeins innvígðir skilja t.d. tákn einhverra menningarhópa eða dulartákn um að hér sér einhver aðstaða eða þjónusta. Það tíðkaðist t.d. að merkja hvar væri hægt að komast í frítt Internetsamband með að stela bandvídd frá einhverjum. Stundum er graffiti liður í baráttu einhverra hópa, sennilega mun það færast í vöxt.
Oft hafa hús verið merkt og stundum hafa merkin verið þáttur í einhverjum ofsóknum. Ég tók þessa mynd í Austur-Berlín fyrr í mánuðinum af stórri byggingu sem engin starfsemi var í. Ég skildi ekki áletrunina fyrr en ég las skilti um sögu hússins. Þetta var hús sem var einu sinni banki í eigu gyðings Golluber að nafni. Hann flýði nasistanna og húsið varð miðstöð Hitlersæskunnar. Svo lenti það inn í kommúnistaríkinu Austur-Þýskalandi og var sennilega einhvers konar ungdómsmiðstöð. En núna hefur húsinu sennilega verið skilað til Golluber fjölskyldunnar og sá sem skrifar þetta graffiti lýsir andstöðu sinni með þróun hverfisins og fyrirhugaða notkun hússins. Þetta er líka ostalgia eða eftirsjá eftir kommúnistaríkinu og andstaða við peningaríki sem mismunar fólki, skrifarinn vill ekki sjá neina einkaklúbba og sundlaugar og lúxushótel og kallar eftir að húsið verði félagsmiðstöð ungs fólks.
Berlín var allt staðar útkrössuð alveg eins og Barcelona. En krassið er mismunandi flott og listrænt gildi þess segir heilmikið um hverfið og fegurðarmat fólksins sem þar býr. Hér er graffiti sem mér fannst svo flott að ég tók mynd af því, mér finnst flott þessi gróska, svona sambland af tæknihyggju og þrá eftir lífi og gróðri.
Mér finnst sumt graffiti í Reykjavík mjög flott, ég sá um daginn þessa þyrpingu fólks á húsvegg einhvers staðar nálægt Vatnsstíg. Svona listaverk gleðja alla og gera borgina fallegri:
Hér er svo vídeóklipp sem ég tók af graffitilistamanni í Barcelona fyrir tveimur árum, núna er listaverkið hans horfið.
Til fróðleiks:
Graffiti is the newspaper of street gangs
Axel Thiel: Vocabulary of Graffiti Research
Graffiti - Wikipedia, the free encyclopedia
Kona graffar" í skjóli nætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.5.2007 | 09:39
Kambsránið og Flateyri
Fyrir 180 árum réðst hópur grímuklæddra manna inn á bóndabæ á Suðurlandi, bundu húsráðendur, brutu upp kistla og rændu um 1000 ríkisdölum. Þetta var Kambsránið, eitt frægasta sakamálið á Íslandi á sinni tíð. Í kjölfarið komst upp um glæpaklíku sem hafði rænt víða. Þuríður formaður á Stokkseyri var í hlutverki rannsóknarlögreglumanns og átti þátt í að upp komst um ránsmennina en tveir þeirra voru nú einmitt bátsverjar á hennar bát.
Núna árið 2007 þá hættir fyrirtækið Kambur á Flateyri vinnslu og segir upp öllu starfsfólki og selur væntanlega kvótann burt úr plássinu. Það verða 120 manns eða flestir vinnandi menn á Flateyri sem missa vinnuna og í einni sviphendingu er fótunum kippt undan byggðinni þarna og eignir fólks gerðar verðlausar. Tjónið er örugglega meira en þeir 1000 ríkisdalir sem voru ránsfengurinn í Kambsráninu forðum daga. Þingmenn Norðvestur kjördæmisins eru ráðþrota. Það er enginn Þuríður formaður í dag á Vestfjörðum sem getur upplýst Kambsránið og bent á sökudólginn.
Íbúar á Flateyri eru fórnarlömb sjávarútvegsstefnu þar sem kvótinn og þar með rétturinn til að veiða fisk var gefinn til útgerðarmanna og gengur kaupum og sölum. Það er alveg öruggt mál að þetta fiskveiðistjórnunarkerfi hefur stuðlað að meiri hagkvæmni og hagræðingu í sjávarútvegi á Íslandi og meiri ágóða af útgerð, útgerðarmenn hafa frítt spil að flytja kvótann til staða þar sem hagkvæmast er að gera út, selja kvóta sín á milli og leysa upp fyrirtæki ef upplausnarvirðið er meira en verðmæti fyrirtækisins í rekstri. Ég velti fyrir mér hvort að það hefði ekki verið líka betra fyrir efnahagslíf á Íslandi ef ránsfengurinn úr Kambsráninu 1000 ríkisdalir hefði komist í umferð á Íslandi á sínum tíma í staðinn fyrir að vera grafinn á kistubotni hjá bóndanum í Kambi. Þó svo væri þá réttlætir það ekki þær gripdeildir og ofbeldi sem ránsmennirnir gerðu sig seka um.
Kvótakerfið í íslenskum sjávarútvegi er ósanngjarnt og það svínar á fólkinu í sjávarplássunum á íslandi. Við búum í heimi sem trúir á hreyfanleika og frelsi, ver einkaframtakið og einkaeignaréttinn. En fólkið á Flateyri býr í heimi þar sem frelsi og hreyfanleiki fjármagnsins er miklu meiri en frelsi og hreyfanleiki og möguleikar fólksins. Peningarnir geta henst með hraða ljóssins á milli staða á jarðkringlunni og búið um sig þar sem þeir gefa mesta ávöxtun hverju sinni. Það eru aðstæður sem henta ákaflega vel fjármagnseigendum.
Það er hægt að leysa þetta misvægi á frelsi fjármagns og fólks á tvo vegu. Annars vegar draga úr möguleikum fjármagns til að flæða svona óhindrað og fyrirstöðulaust burt frá plássunum og hins vegar að reyna að auka hreyfanleika og frelsi fólksins til að skapa sér vinnu. Seinni kosturinn er sennilega skynsamlegri og réttlátari núna þegar kvótakerfið er orðið svo fast í sessi að það er ekki gott um vik að umturna því. Því miður hafa margar aðgerðir í byggðamálum einmitt snúið að hinu gagnstæða því að reyra fólk niður í meiri átthagafjötra og áframhaldandi einhæfa atvinnumöguleika í sínu byggðalagi.
Það er mikilvægt að mögulegt atvinnusvæði sé sem stærst og fjölbreyttast. Það eru komin göng á Vestfjörðum og Flateyingar gætu sótt vinnu á Ísafjörð en þeir þurfa að aka Hvilftarströndina þar sem er oft snjóflóðahætta. Þar aka þeir framhjá ummerkjum um hvalveiðistöðvarnar, ummerkjum um eina stærstu rányrkju og arðrán á Íslandsmiðum þegar norskir ævintýramenn ryksuguðu upp hvalastofnana við Vestfirði. Það eru engin verðmæti eftir í byggðalaginu um þá rányrkju, ekkert nema rústir og strompar frá hvalveiðifabríkkunum. Það er heldur ekkert eftir á Íslandi eftir þá rányrkju því norsku hvalfangarnir greiddu engan skatt af afnotum sínum af auðlindum Íslands. Það er nú reyndar eitt stásshús á íslandi sem er minnisvarði um þessa tíð en það fékk ekki einu sinni að standa á Vestfjörðum. Það er ráðherrabústaðurinn í Reykjavík sem einu sinni var íbúðarhús hvalfangara og stóð á Sólbakka.
En sagan um arðrán hvalfangaranna er ekki sögð sem saga arðráns og rányrkju, hún er sögð sem framfarir í íslenskri atvinnusögu og niðurrifs hússins á Sólbakka er meira segja sett upp sem dæmi um góðmennsku hvalfangarans, hvernig hann seldi Íslendingum húsið fyrir slikk:
Norski umsvifamaðurinn Hans Ellefsen reisti þar hvalveiðistöð árið 1889 og var hún eitt stærsta fyrirtæki landsins. Stöðin brann rúmum áratug síðar og hóf Ellefsen þá smíði annarrar litlu innar við fjörðinn. Verkinu var hætt þegar búið var að hlaða reykháfinn og stendur hann enn rétt við þjóðveginn. Áður en Ellefsen fluttist brott gaf hann Hannesi Hafstein íbúðarhúsið sitt á Sólbakka ofan við Flateyri. Sumir segja að hann hafi selt honum húsið á eina krónu, aðrir segja fimm krónur. Hannes lét taka húsið sundur og flytja til Reykjavíkur.
Til gamans má geta þess að Einar Oddur þingmaður býr að Sólbakka og Björn Ingi oddviti okkar Framsóknarmanna í borgarstjórn ólst upp á þessum slóðum. Björn Ingi segir á vefsíðu sinni:
Lengst af áttum við heima í stóru einbýlishúsi að Sólvöllum, beint fyrir ofan gömlu hvalstöð Norðmannsins Hans Ellefsen sem foreldrar mínir keyptu og breyttu í trefjaplastbátasmiðju. Sólbakki, hús Einars Odds Kristjánssonar alþingismanns, er við hliðina á Sólvöllum og hinum megin við er Hvilft, hús Gunnlaugs Finnssonar, fyrrverandi alþingismanns.
65 manns og sjómönnum á 5 bátum sagt upp hjá Kambi á Flateyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2007 | 16:01
Rödd óbreytta Framsóknarmannsins
Ég fylgist svona í fjarlægð og gegnum fjölmiðla með stjórnarmyndunarviðræðum og nú þegar Framsóknarmaddaman dansar ekki við Geir þá spái ég í hverjir verða ráðskonur í nýrri ríkisstjórn. Ég er líka dottin í að skoða alls konar skrýtin mynstur í hverjir verða í stjórn og hverjir í stjórnarandstöðu. Hefur fólk tekið eftir að allir leiðtogar stjórnarandstöðunnar eru fúlskeggjaðir? Það verður gaman að sjá hvernig skopmyndateiknarar lýsa stjórnarandstöðunni og teikna þá Jón, Steingrím og Guðjón.
Hér er myndin sem Halldór skopmyndateiknari teiknaði árið 2006 af Ingibjörgu Sólrúnu í stefnumótaþjónustunni, sjá bloggið hans Styggir vonbiðlar.
Annars skrifaði ég eftirfarandi bréf áðan inn á innanhússpóstlista Framsóknarmanna:
Ágætu framsóknarmenn,
Ég kalla aftur eftir einhverjum fréttaflutningi og umræðu forustunnar og þingmanna í Framsóknarflokknum við okkur óbreytta Framsóknarmenn. Ég hef verið að skoða vefsetur Framsóknar í Reykjavík www.hrifla.is og vefsetur framsóknarflokksins www.framsokn.is og ég hef ekkert séð sem túlka má sem fréttaflutning til grasrótarinnar í flokknum nema fréttina tvöfeldni í viðræðum.
Allir fjölmiðlar eru núna uppfullir af fréttum og analýsum um Framsókn og ég hlustaði í gær bæði á Siv í Ísland í dag og Björn Inga í Kastljósi þar sem þau lýstu fullum stuðning á formann okkar. En mér finnst afleitt að fréttaflutningur og boðskipti til okkar óbreyttra Framsóknarmanna fari eingöngu fram í fjölmiðlum - af hverju er þá verið að hafa allan þennan félagastrúktúr og stjórn í kringum stjórnmálaflokk ef það eru engin tengsl við almenna félagsmenn?
Ég segi þetta líka vegna þess að það eru núna að birtast í fjölmiðlum og netmiðlum alls konar fréttir um hinar ýmsu ákvarðanir og plott innanbúðar í Framsóknarflokknum og gert lítið úr Jóni Sigurðssyni og ráðist m.a. á Björn Inga og hann sagður hafa hannað einhverja atburðarás. Þetta er mjög ómaklegt tal og mér myndi verða rórra sem óbreyttum Framsóknarmanni að vita af því að forusta og þingflokkur ætli að vinna í sameiningu úr þeirri stöðu sem núna er komin upp og sjá þau tækifæri sem liggja í stöðunni - tækifæri til að endurskoða og byggja upp öflugan flokk samvinnu og félagshyggju - ekki síst að byggja upp flokksstarfið sem hugsanlega er með blóma í hinum ýmsu Framsóknarfélögum en í Reykjavík Norður þar sem ég hef fylgst með því þá stendur yfir ömurlegt niðurlægingarskeið og hefur stjórn og starfsemi þess félags verið með eindæmum undanfarin ár, ég hef aldrei, aldrei kynnst því að félag sem kennir sig við lýðræðishreyfingu starfi svona og reyni vísvitandi að drepa niður allt starf.
Það er mikið verk óunnið varðandi það að byggja upp og sætta sjónarmið innan Framsóknarflokksins. Á þeim tíma sem Jón Sigurðsson hefur verið formaður hefur hann verið í vandasömu starfi iðnaðarráðherra og leitt kosningabaráttu okkar og staðið sig afbragðsvel og aukið mjög á tiltrú á Framsóknarflokknum. Ég hef hins vegar ekki orðið vör við að neitt hafi breyst í innra starfi Framsóknarflokksins enda átti ég ekki von á því að Jón Sigurðsson gæti einbeitt sér að þeim málum fyrr en eftir kosningar og ég bind miklar vonir við Jón Sigurðsson þar.
Ég tek undir með Birni Inga og segi að Jón Sigurðsson hefur 100% stuðning okkar Framsóknarmanna, hann hefur staðið sig eindæma vel á erfiðum tíma hjá Framsóknarflokknum en hann hefur ekki haft þann tíma sem þarf til að byggja upp traust kjósenda og til að sætta fólk og endurskipuleggja innra starfið.
Það var afar dapurlegt hvernig þessar kosningar fóru á höfuðborgarsvæðinu en það er svo sannarlega ekki Jóni Sigurðssyni að kenna. Þetta er sama niðurstaðan og í borgarstjórnarkosningunum fyrir ári síðan. Framsókn er ekki með nema 6% fylgi í Reykjavík, það er eins gott að horfast í augu við það og kryfja hvers vegna og hvað er hægt að gera til að auka fylgið og tiltrú á Framsóknarflokkinn í framtíðinni.
Ég vil reyndar færa öllu því fólki sem stóð í kosningabaráttunni þakkir, mér fannst allt starf til fyrirmyndar þar og málefnaleg og góð kosningabarátta og það mæddi mikið á öllu okkar fólki sem og bæði Siv, Jónína og Guðjón Ólafur urðu fyrir svæsnum og ómaklegum árásum fjölmiðla síðustu daga fyrir kosningar, sérstaklega hjá DV og árásin á Jónínu var ennþá heiftarlegri því hún var líka í RÚV. Ég get ekki séð þessar árásir öðruvísi en sem vísvitandi plott til að knésetja Framsókn hér á höfuðborgarsvæðinu sem mest og vil jafna þeim við hina ósmekklegu árás og heilsíðuauglýsingu Jóhannesar í Bónus á Björn Bjarnason. Það var þó miklu heiðarlegri árás því þar var ákveðin persóna skrifuð fyrir þeirri árás og það kom skýrt fram að þetta var borguð auglýsing og var kom skýrt fram hvers vegna hún var birt.
Allt skipulag kosningabaráttunnar og kosningastjórn sem ég fylgdist með hér í Reykjavík og Kópavogi var einstaklega gott, ég kom á nokkra viðburði og fylgdist með starfinu og þar var mikið um að vera og vefir, útsendingar og dreifirit og auglýsingar áberandi og vel unnið, kosningabarátta Framsóknarflokksins fór ekki fram hjá neinum, slagorðið um græna kallinn var gott og grípandi og slagorðið Árangur áfram - ekkert stopp kunna allir.
Svo hefur Framsókn verið í ríkisstjórn á miklum góðæristíma á Íslandi. Hinn ríkisstjórnarflokkurinn vinnur á. Hvers vegna í ósköpunum tapar Framsókn fylgi og hrapar sérstaklega niður hérna á höfuðborgarsvæðinu? Ég held að Framsóknarmenn verði að ræða það af hreinskilni, það er ekki hægt að skipta úr tapi í sigur einhvern tíma í framtíðinni nema skilgreina hvers vegna tapið var og horfast í augu við að það var ekki alltaf skynsamlega staðið að málum og spilað úr stöðunni af hálfu Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili.
Það er sennilega gæfuríkara spor til að breyta ósigri í sigur seinna að skoða hvað gerðist fremur en eyða orkunni í að uppnefna andstæðinganna með einhverju Baugstjórnartali. Ég vona líka að Framsóknarmenn haldi áfram að vera siðprúðir og varir í orðum og tala málefnalega og af virðingu við og um andstæðinga sína. Það er alveg hægt að gera það en draga samt athygli að því sem þeir gera miður vel.
Bestu kveðjur
Salvör Gissurardóttir
----------------------------------------------------------------------
Meðfylgjandi er frétt sem er núna á mannlif.is, sjá hérna:
http://www.mannlif.is/ordromur/nr/623
Jón Sigurðsson afskrifaður
19 maí 2007
Mogginn afskrifar Jón Sigurðsson sem formann Framsóknarflokksins í fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur í dag. Agnes er þekkt fyrir fremur ódýra fréttamennsku en hittir líklega naglann á höfuðið þegar hún spáir logandi innaflokksátökum í Framsóknarflokknum þar sem Guðni Ágústsson muni berjast til formennsku við Siv Friðleifsdóttur. Örlög Jóns Sigurðssonar eru þau að vera utanþings og áhrifalaus eftir að kjósendur höfnuðu honum. Össur Skarphéðinsson líkir klaufaskap´Jóns í eftirleik kosninganna við mistök Jóns Baldvins Hannibalssonar þegar Alþýðuflokkurinn hrökklaðist út úr Viðeyjarstjórninni: ,,Jón Sigurðsson gerði sömu mistökin og Jón Baldvin Hannibalsson 1995. Hann átti kost á því strax í lok kosninganna að draga Framsókn út úr ríkisstjórn. Þá hefði umboð til stjórnarmyndunar að öllum líkindum farið til Samfylkingarinnar ...".
En annað er athyglisvert í fréttaskýringu Moggans. Aðalhönnuður atburðarrásarinnar innan Framsóknarflokksins og sá sem plottaði ´flokkinn í stjórnarandstöðu er Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi blaðamaður Moggans, er ekki nefndur. Á því kunnu að vera þær skýringar að hann sé sá sem leggur til púðrið í grein Agnesar vinkonu sinnar. Enginn vafi er á því að Björn Ingi er verðugur framtíðarformaður flokksins en til þess að það gangi smurt fyrir sig þarf hann að tryggja rétta atburðarás. Þar hentar ágætlega að láta Guðna og Siv berjast en koma síðan sem frelsari og höggva á hnútiinn. Þar er Mogginn góður farvegur og gott tæki ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.5.2007 | 10:53
Litla frænka, lýðræðið, tjáningarfrelsi og ritskoðun
Litla frænka mín fæddist á fæðingardeildinni í Reykjavík eitthvað að ganga tvö í nótt. Hún var tekin með keisaraskurði og hún er 17 merkur og 53 sentimetrar, hárprúð og gullfalleg. Hér er mynd sem ég tók af henni í fangi föður síns um klukkustundar gamalli. Móðurinni heilsast vel.
Ef allt gengur vel þá mun litla frænka mín fara vestur á Bolungarvík eftir nokkra daga því þar á hún heima á bóndabæ stutt fyrir utan Bolungarvík.
Það er gaman að rifja upp hvað gerist í heiminum og á Íslandi þegar börn fæðast. Litla frænka fæðist á tíma þar sem allra augu eru á lýðræðinu og stjórnarskipti verða á Íslandi. Helstu málin í fjölmiðlum eru stjórnarmyndunarviðræður og svo ganga yfirlýsingar á víxl milli dómsmálaráðherra og eigenda og stjórnenda stórfyrirtækja um íhlutun þeirra í kosningar með auglýsingum - þetta endurspeglar hvernig völdin eru að færast til í samfélaginu, færast til stórfyrirtækja í útrás sem reyna að hlutast til um hvernig stjórn er á Íslandi.
Ég skoðaði líka til gamans fréttavef BBC til að sjá hvað væri helst í fréttum daginn sem litla frænka mín fæddist. Hún fæðist á tímum þar sem er stríð í miðausturlöndum og það er frétt um árás á bandaríska herstöð í Írak. En það var ein lítil tæknifrétt á BBC vefnum í dag sem vakti sérstaklega athygli mína vegna þess að hún tengist íslenskri stúlku og tjáningarfrelsi og ritskoðun. Það var fréttin Yahoo censored Flickr comments
Ég hef áður skrifað um þetta mál en ég átti ekki von á að það vekti svo mikla athygli að það yrði frétt á BBC. Hér eru mín fyrri skrif: Ritskoðun hjá Rebekku gerir allt vitlaust á digg og flickr
Mér finnst þetta góðs viti, fólk er að átta sig á hvað tjáningarfrelsi okkar á mikið undir því að stórfyrirtæki sem eiga fjölmiðlana eða vefrýmið sem tjáningin fer fram í noti ekki vald sitt til að þagga niður í einum og leyfa bara sumum röddum að hljóma. Ég er stolt af því að Íslendingur nær svona athygli heimsbyggðarinnar á hvað illa er farið með tjáningarfrelsið og ég hvet alla til að lesa bloggið hennar Rebekku Freedom of expression.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
17.5.2007 | 20:35
Hreinn og brellurnar
Það gerir illt verra hjá Hreini að senda frá sér yfirlýsingu þar sem hann ver auglýsingu Jóhannesar í Bónus. Hreinn er vitur og vel menntaður lögfræðingur með mikla reynslu. Það kemur því mjög á óvart að hann ráðist á dómsmálaráðherra með svona orðalagi : "Björn er þekktur fyrir brellur sínar.... hér beitir Björn þeirri brellu að kenna öðrum um í stað þess að líta í eigin barn... Björn beitir líka annarri brellu"
Þap er fjarri lagi að Björn sé þekktur fyrir brellur. Ég kynntist starfsháttum Björns nokkuð vel þegar hann var menntamálaráðherra og ef það er eitthvað sem einkennir starfsaðferðir hans þá er það heiðarleg, markviss og opin stjórnsýsla. Það hefur einnig í mörg ár mátt fylgjast vel með störfum Björns og viðhorfum hans til allra mála á vefsíðu hans. Björn hefur lagt sig fram um að tala við þá sem eru á öndverðum meiði við hann og útskýra sín sjónarmið. Hann hefur unnið þarft verk að gera stjórnsýslu á Íslandi nútímalegri og skilvirkari.
Ég er sammála pælingu Hreins um að orðanotkunin skattsvikamál í yfirlýsingu Björns felur í sér það mat að verið sé að rannsaka skattsvik. Hvort það er óeðlileg orðanotkun hjá dómsmálaráðherra hef ég bara ekki lögfræðiþekkingu til að dæma um. Það hefði verið hlutlausara hefði Björn notað "rannsókn á skattamálum Baugs".
En það er skrýtið hjá Hreini að taka undir auglýsingu Jóhannesar og láta líta svo út að hún sé eðlileg breytni og orðræða sem dómsmálaráðherra ætti að svara.
Hreinn segir m.a.:
Jóhannes hefur m.a. haldið því fram að jafnræðisregla hafi verið brotin á sér og að hann hafi að ósekju mátt sitja á sakamannabekk árum saman. Í auglýsingunni segir hann að það keyri um þverbak ef ráðherann hyggst verðlauna einn þessara manna með því að fá honum æðstu metorð, þ.e.a.s. embætti ríkissaksóknara. Hvað svo sem segja má um þá afstöðu hans er hitt fullkomlega ljóst að Jóhannes hefur heimild til að opinbera skoðun sína en þegar hún kom fram svaraði Björn henni í engu.
Málið er einfalt frá mínu sjónarhorni.
Voldugur auðmaður sem stýrir ásamt börnum sínum einni öflugustu viðskiptablokk landsins kaupir heilsíðuauglýsingar í dagblöðum rétt fyrir alþingiskosningar í óhróður og dylgjur um nafngreinda embættismenn og æðsta yfirmann dómsmála á Íslandi, dómsmálaráðherra - að því er virðist eingöngu til að skaða hann sem mest í alþingiskosningum og koma í veg fyrir að hann verði ráðherra að þeim loknum. Auk þess reynir Jóhannes að hafa áhrif á mannaráðningar (hvern á ekki að ráða sem saksóknara) í dómsmálum á Íslandi og tiltekur hverja hann vilji ekki í ákveðið starf. Þetta gerir hann allt út af því að hann er ósáttur við mál sem hann var borinn sökum í.
Sem sagt voldugur auðmaður sem finnst kerfið ekki passa fyrir sig og sína viðskiptahagsmuni leggur kapp á að breyta því með því að kaupa sér pláss fyrir auglýsingar einmitt rétt fyrir kosningar og hrekja burt dómsmálaráðherra og embættismenn í dómskerfi og saksóknara sem hætta er á að skipi ekki málum á þá lund sem hann vill og dæmi honum í óhag. Ég vona að Ísland verði aldrei þannig að auðmenn geti stillt upp sínum dómsmálaráðherrum, sínum dómurum og sínum saksóknurum til að dæma í sínum málum.
Hreinn: Dómur kjósenda um verk Björns liggur fyrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.5.2007 | 15:17
Framsóknarmaddaman er ekki sætasta stelpan á ballinu
Nú er það ljóst að Framsóknarmaddaman stígur ekki dansinn með Geir Haarde næstu árin. Það er kannski allt í lagi að hún vermi bekkina um hríð og hvíli lúin bein. Það verður dömufrí eftir fjögur ár og þá verður eins gott að vera þrælspræk og til í tuskið.
Hér er Geir Haarde í trylltum dansi og nýtur sín vel einn á gólfinu. Hann ætlar að bjóða Ingibjörgu Sólrúnu næst upp og ef það gengur ekki þá er það Steingrímur. Annars er Samfylkingin búin að vera óvenjukyrrlát og lítið að púa á Sjálfstæðismenn undanfarið og einhver Framsóknarsvipur að færast yfir hana þannig að það mætti gruna að svona færi.
Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.5.2007 | 10:56
Kona myrt í Keflavík - morðinginn gengur ennþá laus
Hermaðurinn Ashley Turner var myrt í herstöðinni í Keflavík þann 14. ágúst 2005. Hún fannst liggjandi á gólfi í líkamsræktaraðstöðu í íbúðarhúsnæði á varnarliðssvæðinu og hafði verið barin og stungin. Það féll strax grunur á annan hermann Calvin Eugene Hill en hann hafði stolið fé af Ashley og átti að rétta í því máli nokkru eftir að Ashley var myrt. Það er ýmislegt sem bendir á sekt hans. Það hvarf hnífur frá þáverandi ástkonu hans og hún bar að Hill hefði þóst vera að fara á fund með yfirmanni sínum og horfið á braut einmitt þegar morðið var framið og svo komið til baka og farið beint í að þvo fötin sín. Það fannst blóð á skónum hans og það passaði við DNA úr Ashley og annar fangi bar að hann hefði játað morðið í samræðum þeirra.
Sjá hérna:
A knife used to prepare dinner for Hills then-girlfriend, Vannee Youbanphout, is missing. And testimony from Youbanphout, a citizen of Iceland, suggested Hill faked a meeting with a supervisor, slipped out for an hour while they were watching Top Gun and washed his clothes when he returned.
Investigators later found a spot of blood on one of Hills shoes.
Furthermore, they told jurors, Hill confessed all this to a bunkmate during his pretrial incarceration at an Army prison in Mannheim, Germany.
Það er ömurlegt að lesa framburð samfanga Hill sem segir að hann hafi hælt sér af morðinu og hvernig hann hefði falið slóð sína og fengið íslensku stúlkuna Vannee to að staðfesta frásögn hans. Í yfirheyrslunni kemur þetta fram:
On May 2, the trials sixth day, prosecutors introduced their most damning witness yet: a discharged soldier who claims Hill told him he beat a girl with a weight and stabbed her in the neck.
Cyrus Hughes, 20, was jailed last year in Mannheim, Germany, for drunkenly crashing a rented Jaguar and going AWOL. Hill slept in the same 15-man cell. Hughes told jurors Hill admitted to the murder twice. Hill even bragged about covering his tracks by pushing his girlfriend, an Icelander of Thai descent named Vannee Youbanphout, to vouch for his whereabouts, Hughes said.
Hill var sýknaður vegna þess að talið var að ekki hefði verið rannsakað nógu vel hverjir aðrir hefðu getað framið morðið. Sérstaklega vegna þess að eitthvað kort var notað til að komast inn í híbýli Ashley eftir þann tíma sem talið var að hún hefði verið myrt á. Aðrir sem grunaðir eru um morðið er kærasti hennar sem var eiturlyfjaneytandi og eiturlyfjasali og átti líka að mæta fyrir rétti út af því og það bera vitni að þau höfðu rifist í nálægri krá kvöldið áður og svo maður sem fann hana, það er maður sem nýkominn var í herstöðina og hann er talinn hafa hegðað sér undarlega þegar hann sá hreyfingarlausa manneskju á gólfinu.
Morðingi Ashley gengur ennþá laus. Það getur verið að lagt hafi verið kapp á að sýna að vafi leiki á sekt Hills vegna þess að Ashley er hvít en Hill er blökkumaður. það er viðkvæmt í Bandaríkjunum að blökkumaður sé sakfelldur fyrir að myrða hvíta konu, það er horft vel á alla slíka dóma og stór hluti bandaríska hersins eru blökkumenn . Það getur einnig verið að heryfirvöld hérna hafi verið of fljót að skoða Hill sem hinn eina mögulega morðingja vegna þess. Eitt er víst að það er ekki í þágu bandarískra hermálayfirvalda að svartur hermaður þar sé dæmdur fyrir morð, bæði vekur það upp ólgu meðal blökkumanna í hernum ef hinn minnsti vafi er talinn leika á sekt hans og svo vill herinn örugglega ekki vera í kastljósi fjölmiðla út af morðum og aftöku morðingja en ef Hill hefði verið fundinn sekur þá hefði hann verið tekinn af lífi. það er undarlegt að foreldrar og systkini Ashley fengu engar upplýsingar um dauðdaga hennar og vissu fyrst að hún hefði verið myrt í gegnum íslenskt dagblað sem þau fundu á Internetinu.
Morðinginn gengur ennþá laus. Samt eru ekki margir sem koma til greina og morðið var framið í samfélagi sem ætti að hafa góð tök á að rannsaka glæpi.
Stars and Stripes: What happened to Ashley Turner?
Murder Trial Possibly moved to Iceland
Attorneys for Hill point to alternate suspect
Airman cleared in Iceland murder case
Fyrrum varnarliðsmaður sýknaður af morðákákæru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2007 | 07:22
Já-menn Jóhannesar
Ég er afar ósátt við aðfarir Jóhannesar í Bónus þar sem hann auglýsir grimmt fyrir kosningar í því augnamiði að hafa áhrif á mannaráðningar í dómskerfinu og koma höggi á og ófrægja þá embættismenn sem hafa unnið að dómsmálum sem hann er ósáttur við hvernig fari. Ég hef áður lýst skoðun minni á þessari auglýsingu í blogginu Brjáluð kona hringir í RÚV um hánótt
Auglýsingar Jóhannesar eru grímulaus aðför að íslensku réttarríki. Leikreglur í íslensku samfélagi eru ekki settar til að það henti Jóhannesi í Bónus sem best, það væri illa komið fyrir okkur ef auðmenn gætu plantað sínum já-mönnnum í allar stöður og tryggt þannig að allar ákvarðanir, lög og dómar verði þeim í hag, gætu stýrt hverjir verða ráðherrar, hverjir verða saksóknarar og heimtað alla þá embættismenn út af borðinu sem fella dóma eða rannsaka mál á þann hátt að það sé viðkomandi auðmönnum í óhag. Ég tel að gott dómskerfi og réttarkerfi eigi að gæta hagsmuna almennings og ekki síst vernda almenning fyrir ofríki auðhringja eða valdablokka.
Mér finnst fólk ekki átta sig á alvöru þessa máls. Ef til vill er svo stutt liðið frá auglýsingunum að umræðan er ekki hafin. En ég vona svo sannarlega að fólk vakni við þetta og spái í hverjir ráða íslensku samfélagi og hvaða verkfæri þeir hafa til þess. Ég vil taka fram að ég tel að það megi gagnrýna ýmislegt í dómskerfinu og mannaráðningum þar og ég hef sjálf oft gert það, sjá t.d. þetta nýlega blogg hjá mér: Laumulegar starfsauglýsingar og eins og aðrir femínistar þá er ég mjög ósátt við dóma fyrir kynferðisofbeldi og hve fáar konur starfa í löggæslu og dómskerfi. Það má vel gagnrýna dómskerfið en þessi aðför Jóhannesar er heiftúðug og virðist eingöngu gagnrýni til að þjóna einkahagsmunum hans og hans fyrirtækis.
Mér finnst þessi kafli í yfirlýsingu Björns sérstaklega góður:
Það þjónar almannahagsmunum, að óháðir, opinberir aðilar fylgist með hvernig stjórnendur og ráðandi hluthafar almenningshlutafélaga fara með þau verðmæti, sem þeim er fyrir treyst. Með árásum á mig og ákæruvaldið er Jóhannes að gera veika stöðu almennra fjárfesta á Íslandi enn verri gagnvart stóreigendum. Hér ráða einkahagsmunir ferð en ekki virðing fyrir rétti annarra. Takist með opinberum, persónulegum árásum að hræða lögreglu og aðra eftirlitsaðila frá því að sinna skyldum sínum er vegið að hagsmunum fleiri en þeirra, sem árásunum sæta.
Í framhaldi af auglýsingunni kemur á óvart, að almennt hafa stjórnmálamenn og álitsgjafar látið eins og hún sé næsta eðlilegt ef ekki sjálfsagt nýmæli.
Um svipað leyti og Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, kveinkaði sér undan því, að ungir framsóknarmenn hefðu birt af sér skopmyndir, lýsti hann skilningi á framtaki Jóhannesar. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hlakkar yfir því, að ég lækka á þingmannalista. Egill Helgason álitsgjafi segir: Í alvörunni. Þetta er ein aðferð kjósenda til að segja skoðun sína - það næsta sem við komumst persónukjöri í þingkosningum. Það á að taka mark á slíkum skilaboðum. Annars eru stjórnmálamenn að gefa kjósendum langt nef.
Ég lýsi áhyggjum yfir þróun stjórnmálastarfs og raunar réttarríkisins sjálfs, sé talið sjálfsagt og eðlilegt að beita ofríki í krafti auðs í því skyni, að tryggja sér viðhlæjendur á þingi, í réttarsalnum og hjá ákæruvaldinu. Er ekki tímabært að stalda við og líta á alvöru málsins?
Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 07:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)