Já-menn Jóhannesar

Ég er afar ósátt við aðfarir Jóhannesar í Bónus þar sem hann auglýsir grimmt fyrir kosningar í því augnamiði að hafa áhrif á mannaráðningar í dómskerfinu og koma höggi á og ófrægja þá embættismenn sem hafa unnið að dómsmálum sem hann er ósáttur við hvernig fari. Ég hef áður lýst skoðun minni á þessari auglýsingu í blogginu Brjáluð kona hringir í RÚV um hánótt

Auglýsingar Jóhannesar eru grímulaus aðför að íslensku réttarríki. Leikreglur í íslensku samfélagi eru ekki settar til að það henti Jóhannesi í Bónus sem best, það væri illa komið fyrir okkur ef auðmenn gætu plantað sínum já-mönnnum í allar stöður og tryggt þannig að allar ákvarðanir, lög og dómar verði þeim í hag, gætu stýrt hverjir verða ráðherrar, hverjir  verða saksóknarar og heimtað alla þá embættismenn út af borðinu sem fella dóma eða rannsaka mál á þann hátt að það sé viðkomandi auðmönnum í óhag. Ég tel að gott dómskerfi og réttarkerfi eigi að gæta hagsmuna almennings og ekki síst vernda almenning fyrir ofríki auðhringja eða valdablokka.  

Mér finnst fólk ekki átta sig á alvöru þessa máls. Ef til vill er svo stutt liðið frá auglýsingunum að umræðan er ekki hafin. En ég vona svo sannarlega að fólk vakni við þetta og spái í hverjir ráða íslensku samfélagi og hvaða verkfæri þeir hafa til þess. Ég vil taka fram að ég tel að það megi gagnrýna ýmislegt í dómskerfinu og mannaráðningum þar og ég hef sjálf oft gert það, sjá t.d. þetta nýlega blogg hjá mér:  Laumulegar starfsauglýsingar og eins og aðrir femínistar þá er ég mjög ósátt við dóma fyrir kynferðisofbeldi og hve fáar konur starfa í löggæslu og dómskerfi. Það má vel gagnrýna dómskerfið en þessi aðför Jóhannesar er heiftúðug og virðist eingöngu gagnrýni til að þjóna einkahagsmunum hans og hans fyrirtækis. 

Mér finnst þessi kafli í yfirlýsingu Björns sérstaklega góður: 

Það þjónar almannahagsmunum, að óháðir, opinberir aðilar fylgist með hvernig stjórnendur og ráðandi hluthafar almenningshlutafélaga fara með þau verðmæti, sem þeim er fyrir treyst. Með árásum á mig og ákæruvaldið er Jóhannes að gera veika stöðu almennra fjárfesta á Íslandi enn verri gagnvart stóreigendum. Hér ráða einkahagsmunir ferð en ekki virðing fyrir rétti annarra. Takist með opinberum, persónulegum árásum að hræða lögreglu og aðra eftirlitsaðila frá því að sinna skyldum sínum er vegið að hagsmunum fleiri en þeirra, sem árásunum sæta.

Í framhaldi af auglýsingunni kemur á óvart, að almennt hafa stjórnmálamenn og álitsgjafar látið eins og hún sé næsta eðlilegt ef ekki sjálfsagt nýmæli.

Um svipað leyti og Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, kveinkaði sér undan því, að ungir framsóknarmenn hefðu birt af sér skopmyndir, lýsti hann skilningi á framtaki Jóhannesar. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hlakkar yfir því, að ég lækka á þingmannalista. Egill Helgason álitsgjafi segir: „Í alvörunni. Þetta er ein aðferð kjósenda til að segja skoðun sína - það næsta sem við komumst persónukjöri í þingkosningum. Það á að taka mark á slíkum skilaboðum. Annars eru stjórnmálamenn að gefa kjósendum langt nef.“

Ég lýsi áhyggjum yfir þróun stjórnmálastarfs og raunar réttarríkisins sjálfs, sé talið sjálfsagt og eðlilegt að beita ofríki í krafti auðs í því skyni, að tryggja sér viðhlæjendur á þingi, í réttarsalnum og hjá ákæruvaldinu. Er ekki tímabært að stalda við og líta á alvöru málsins?


mbl.is Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við getum einnig velt fyrir okkur hvaða áhrif  þessi auglýsing hans Jóhannesar gæti haft á kosningar framtíðarinnar. Ég sé fyrir mér hina og þessa (ekkert endilega auðmenn)auglýsa t.d. "Strikið út menntamálaráðherra af því hann hefur...." "Strikið út forsætisráðherrann af því hann hefur... " o.s.frv. Svona auglýsingar gætu verið meiri áberandi en auglýsingar stjórnmálaflokkanna. Flokkarnir gætu svo sum stutt við bakið á einstaklingum sem auglýstu á þennan hátt. Baugsveldið er mikið og þeirra vald orðið gríðarlega mikið og vissulega þarf að hafa áhyggjur af því ef þeir vilja t.d. skipta sér af því hver er t.d. skipaður í embætti ríkissaksóknara. Þeim líður illa ef þeir ráða ekki öllu.Þeir verða alltaf dýrvitlausir ef einhver andmælir þeim. Ef þeir (Bónus) koma t.d. illa út í verðkönnunum, þá er það alltaf einhverjum "mistökum" um að kenna.Þeir skömmuðu ASÍ fyrir verðkönnun í vetur og tóku þá á teppið. Nú reikna ég ekki með ASÍ komi nokkurn tíman til með að birta verðkönnun nema bera hana undir Bónusmenn fyrst.Ég held einnig að nú eftir Baugsréttarhöldin, muni enginn nokkrum sinnum detta í hug að fara í mál við þá aftur, hvað sem þeir kunna að gera. Þeir eru orðnir ríki í ríkinu og fara bara eftir eigin lögum.

Brattur (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 09:48

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

algerlega ósammála greinarhöfundi.. BB og Árni Johnsen eiga ekki skilið að vera á þingi fyrir alþjóð.. annar er baktjaldamakkari af guðs náð og hinn er glæpamaður..

Varðandi þessa auglýsingu frá jóhannesi þá held ég ekki að hún hafi haft nein áhrif.. ég hefði strikað þessa kauða út hvort sem er ef ég mundi kjósa þennan flokk glæpamanna og baktjaldamakka.

Óskar Þorkelsson, 17.5.2007 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband