Brot á friðhelgi - RÚV birti trúnaðargögn

Þegar fólk sækir um sérstakar undanþágur til stjórnvalda vegna aðstæðna sinna og rökstyður mál sitt með gögnum um einkalíf sitt þá er viðbúið að sum af þeim gögnum  sem fólk leggur fram séu viðkvæmar persónulegar upplýsingar. Þess vegna eru beinlínis ákvæði í lögum og reglum sem opinberir aðilar  fara eftir um meðferð trúnaðarupplýsinga, persónuvernd og friðhelgi einkalífs. 

Það er því gríðarlega einkennilegt að fólk sem hefur leitað til íslenskra stjórnvalda með umsókn um undanþágu eða einhvers konar afgreiðslu og sent með þeirri umsókn gögn skuli þurfa að búa við það að þessi sömu gögn séu lesin upp og gerð opinber í fjölmiðlum  og fólkið sé í kjölfarið hundelt vikum saman af fjölmiðlum og þurfi að þola meiðandi og ruddalega umræðu og dóma og dylgjur um sig og aðstæður sína í ýmis konar opinberri umræðu - dóma og dylgjur sem byggjast á persónulegum gögnum sem gerð voru opinber án vitundar og samþykkis fólks sem í góðri trú fór að íslenskum lögum og sendi inn beiðni til einnar nefndar Alþingis.

Það er líka afar, afar einkennilegt og þarfnast rannsóknar hvers vegna opinber gögn og þar á meðal trúnaðarupplýsingar einstaklinga leka út frá Alþingi eins og það sé einhvers konar gatasigti. 

Þau afgreiddu málið: Bjarni Ben., Guðjón Ólafur og Guðrún Ögmunds

Ég er alveg sammála þeim sem segja að þessi afgreiðsla Allsherjarnefndar var stórfurðuleg og það er stórfurðulegt að  fólk fái ríkisborgararétt út af veigalitlum ástæðum s.s. veseni við að ferðast milli landa vegna náms síns.  Ríkisútvarpið hefði rækt eftirlitshlutverk með prýði ef það hefði bent á þessa skrýtnu afgreiðslu og látið kastljósið snúast um það sem var skrýtið og þá sem tóku ákvörðunina, þá sem voru í nefndinni. Það hefði hugsanlega verið nauðsynlegt í rannsóknarblaðamennsku að  segja frá því að  einhver sköl hefðu borist til Rúv og birta þau án þess að nafn einstaklinga kæmu fram. Það að uppljóstra um nafn og fjölskyldutengsl einhvers umsækjanda um undanþágu hjá opinberri nefnd án samþykki og vitundar viðkomandi og gera það að þungamiðju umfjöllunarinnar er hins vegar ámælisvert og það er gott að það kemur til dómstóla að taka á því.

Í þessu máli þá sýndi Ríkisútvarpið af öllum fjölmiðlum þá rustalegustu pólitísku aðför sem ég man eftir á seinni árum í fjölmiðlum. Í stað þess að beina athyglinni að því stjórnvaldi sem er ábyrgt fyrir skrýtnum embættisfærslum og undarlegum vinnubrögðum þá varð ekki annað séð en þetta væri aðför að Jónínu Bjartmarz alþingiskonu. Til þess að koma höggi á hana skömmu fyrir kosningar þá var ekkert til sparað af ríkisfjölmiðlinum RÚV og valtað í því augnamiði á sérlega siðlausan hátt yfir tengdadóttur hennar, stúlku sem ekkert hafði gert í þessu máli nema sótt um undanþágu til  einnar nefndar Alþingis og fylgt öllum reglum sem venja er við slíkar beiðnir.

Ef fólk er búið að gleyma þessu máli þá er ágætt að rifja upp viðtal Helga Seljan við Jónínu Bjartmarz  í Kastljósi sjónvarpsins þann 27. apríl 2007.

Hér er hljóðupptaka af því:



Ég rifja hérna líka upp það sem ég skrifaði um þetta mál á sínum tíma:

Skert ferðafrelsi

Sjö mínútur af Kastljósi Helgi Seljan versus Jónína

Rustalegt Kastljós hjá Helga Seljan

Kvenna(k)völd hjá Framsókn

Í blogginu Skert ferðafrelsi þá beini ég athyglinni þar sem hún á heima, það er einkennilegt hvernig Alsherjarnefnd Alþingis tók á þessu máli.  Þetta afgreiddu þrír þingmenn sem þá voru á þingi en enginn þeirra er núna á þingi nema Bjarni Benediktsson en hann ber náttúrulega mesta ábyrgð á afgreiðslunni, hann var formaður nefndarinnar. Hér er partur úr því bloggi:

Kastljósið upplýsti að stúlkan frá Guatemala hefði fengið ríkisborgararétt vegna umsóknar sem sagði frá veseni hennar við að fara í nám erlendis. Þetta vekur afar áleitnar spurningar um hvernig alsherjarnefnd þ.e. þingmennirnir Bjarni Benediktsson, Guðjón Ólafur Jónsson  og Guðrún Ögmundsdóttir störfuðu þegar þau fóru yfir þessar umsóknir. Það hlýtur að vera krafa okkar að vinnureglur Alsherjarnefndar séu gegnsæjar og réttlátar. Ég vildi svo sannarlega búa í landi það sem svo auðvelt er fyrir útlendinga að setjast hér að og verða fullgildir ríkisborgarar en ég er nokkuð viss um að svona auðvelt er ekki að verða Íslendingur fyrir flesta útlendinga.

Ég vona svo sannarlega að enginn úr alsherjarnefnd hafi talið sig vera að gera Jónínu Bjartmarz pólitískan greiða með þessari afgreiðslu og trúi ekki svoleiðis flónsku upp á neinn sem þar situr. Það hefði nú heldur betur verið bjarnargreiði. En mér finnst upplagt að nota þetta tækifæri til að benda á að við Framsóknarmenn viljum heiðarleg og fagleg vinnubrögð í stjórnsýslunni. Ég hef sjálf reynt að starfa af alefli með það að leiðarljósi  í Framsóknarfélaginu í Reykjavík Norður en reyndar ekki orðið eins vel ágengt og ég vildi. Það er önnur saga. 


mbl.is Ríkisútvarpinu stefnt fyrir ærumeiðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæl. Þetta var aðför að Framsóknarflokknum að hætti Bláskjá. Hvað varðar Helga Seljan, þá er það lélegur pappír. Finnst hann ruddi og dónalegur. Ég mæli með að fólk hlusti á upptökuna sem þú ert með. Hlustið eftir ruddaskapnum í Helga Seljan.

En við í Framsókn lærum af þessari uppákomu hjá Rúv. og það er kannski þessvegna sem það er best að selja Rúv. sem allra fyrst. Líklega eru íhaldsmenn tilbúnir að kaupa batteríið.

Sveinn Hjörtur , 28.10.2007 kl. 18:43

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Vel mælt hjá þér Salvör! Heir! Heir!

Júlíus Valsson, 28.10.2007 kl. 19:07

3 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Var að hlusta á þetta viðtal og get ekki séð að Helgi sé neitt ósvífnari en Jónína sem ekki vill svara spurningum heldur fá að halda einræður og skamma Helga fyrir að hafa tekið þetta upp. Það er ekki hægt að komast hjá því að afgreiðsla þessa máls var hin undarlegasta.

Tók nokkur eftir því að Jónína segir fyrst að hún hafi ekki komið nálægt þessu máli en segir síðan að hún hafi aðstoðað hana við umsóknina...

Áhugavert að bera saman þessa afgreiðslu og þá sem hælisleitendur fá á Íslandi: oftast snúið við og sett frímerki á rassinn á þeim án þess að kannaðar séu aðstæður þeirra.

Jón Bragi Sigurðsson, 28.10.2007 kl. 19:45

4 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Sæl Salvör. Ég er að gera smá uppstokkun í Leshringnum. Viltu kannski skoða nýjustu færslu á minni síðu? Það væri gaman að fá þig með í hópinn ef þér líst á.   Kv.Marta 

Marta B Helgadóttir, 28.10.2007 kl. 20:59

5 Smámynd: Bogi Jónsson

Mér finnst ólíklegt að umsóknin hafi verið lögð inn nema vegna þess að vitað væri að þessi einkennilega sérmeðferð fengist.

Bogi Jónsson, 28.10.2007 kl. 21:39

6 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Sammála Jóni Braga. Spurningin er einföld. Finnst henni óeðlilegt að fólk velti þessu fyrir sér? Henni er fyrirmunað að svara því. Magnað að ásaka fólk um dylgjur þegar verið er að spyrja um eitthvað sem er opinber vitneskja. Mér finnst eðlilegt að fólk spyrji sig hvort þetta hafi allt gengið fyrir sig eins og hjá öðrum. Svo var einhver af þessum pappírum undirritaður í sitt hvoru húsinu samadaginn sem þýðir að ekki var notast við eðlilegar póstleiðir.

Annars var þetta klár stelpa og talaði þessa líka fínu íslensku. Hún er velkominn í hópinn :) 

Páll Geir Bjarnason, 29.10.2007 kl. 00:36

7 Smámynd: Fríða Eyland

Venjulega þarf fólk að gifta sig til að eignast tengdaforeldra !

Persónulega þekki ég einn sem átti fjögur börn með sinni íslensku ektakvinnu til níu ára þegar hann loksins fékk vegabréf. Þeir sem ekki eru giftir inní landið þurfa næstum allir að búa hér og bíða í sjö ár sem er reglan og fjögur hjá giftum. Undantekningar eru frægir menn og einn eða tveir vegna sjúkdóma.....Þessi kona má skammast sín og klíkan í nefndinni líka sveiattan  Nú vilja þau fá tveggja ára verkamannlaun í skaðabætur fyrir lúxus meðferð, sumir kunna ekki að skammast sín. Það fór engin yfir strikið í Kastljósi nema Jónína sjálf hún var bæði dónaleg og frek

Fríða Eyland, 31.10.2007 kl. 01:01

8 Smámynd: Sveinbjörg Eyvindsdóttir

Þakka þér fyrir góða úttket á þessu máil. Það sem eftir ætti að standa eru málefnin: afgreiðsla alsherjarnefndar og framkoma fréttamannsins Helga Seljans í málinu. Jónína brást við eins og aðrir sakborningar. Hún varði sig. Ég er þess ekki umkomin að dæma um sekt eða sýknu í því máli.

Sveinbjörg Eyvindsdóttir, 1.11.2007 kl. 00:41

9 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sveinbjörg: þú segir að Jónína hafi brugðist við eins og aðrir sakborningar. Athugaði að  Jónína var aldrei borin neinum sökum í þessum málum, það er alveg ljóst að hún kom ekki að afgreiðslu þessa máls (nema sem þingmaður þegar atkvæðagreiðsla var í þinginu) og það hefur ekkert komið fram sem bendir til að hún hafi á einhvern hátt reynt að hafa áhrif á nefndina. Jónína er lögfræðingur og veit vel hvað er rétt og rangt og  hvað er dylgjur og rógur.

Það veit Helgi Seljan hins vegar ekki og hann sýndi tilþrif í þessu máli sem eru engan veginn samboðin fréttamanni á ríkisfjölmiðli. Hann reyndi vísvitandi að afvegaleiða almenning á Íslandi með villandi og ósiðlegum fréttaflutningi. Ég ætla Helga Seljan ekki svo illt að ég haldi að hann hafi haft það sem markmið sitt að knésetja Jónínu Bjartmars og eyðileggja stjórnmálabaráttu hennar þó honum hafi vissulega tekist það. Ég held að hann hafi bara verið eins og aðrir fjölmiðlamenn að reyna að tryggja sem mest áhorf og skúbba og hann hafi ekki gætt að því að hann var þannig peð í leik þeirra sem gaukuðu að honum eða öðrum á Rúv trúnaðargögnum úr stjórnsýslunni til að birta einmitt þegar kosningabaráttan var í algleymingi. Það er fróðlegt að vita hverjir það eru sem hafa svo mikil ítök í RÚV að þeir geta plantað  inn í ríkisfjölmiðil  fréttaflutningi af þessum toga.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 1.11.2007 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband